153. löggjafarþing — 58. fundur
 1. feb. 2023.
störf þingsins.

[15:35]
Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku kynnti hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í samráðsgátt áform um frumvarp til laga um neyðarbirgðir eldsneytis. Samkvæmt frumvarpinu er áformað að leggja skyldu á söluaðila eldsneytis, að þeir viðhaldi jarðefnaeldsneytisbirgðum sem jafngildi notkun til 90 daga. Líkt og við höfum orðið óþægilega vör við síðustu misseri skipast veður skjótt í lofti. Eldgos, heimsfaraldur og stríð geta valdið aðstæðum þar sem lífsnauðsynlegar vörur verða af skornum skammti en nægt framboð er forsenda öryggis á fjöldamörgum sviðum og gæti fljótt stefnt í óefni í samfélaginu ef skortur yrði á jarðefnaeldsneyti.

Markmið okkar til framtíðar er auðvitað að verða óháð jarðefnaeldsneyti hér á landi en enn er nokkuð í það að þeim markmiðum verði náð. Þar til orkuskiptum hefur verið náð þurfum við að hafa tiltækar olíubirgðir hér á landi. En einmitt í þessu samhengi langar mig að minnast hér á mikilvægi þess að landið sé allt tengt, að við þessa vinnu sem og annað, þegar hugað er að neyðarbirgðum, verði skoðað hvort ekki sé þörf á að koma upp birgðastöð á fleiri stöðum á landinu. Við vitum aldrei hvaða aðstæður geta skapast, hvort sem er hér á landi eða í heiminum öllum, og því mikilvægt að við séum ekki með öll eggin í sömu körfu. Hér er ég ekki síst að horfa til flugvélaeldsneytis. Við þurfum að vera við því búin að þannig aðstæður skapist hér á suðvesturhorninu að flugvellir lokist. Eldgos á Reykjanesi og óveður undanfarnar vikur eru ágætisáminning fyrir okkur um það.



[15:37]
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Í frétt á vefmiðlinum mbl.is í gær sagði, með leyfi forseta:

„Á Íslandi er einangrunarvist í gæsluvarðhaldi beitt óhóflega og ítrekað brotið gegn alþjóðlegu banni gegn pyndingum og annarri ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Einangrunarvist í gæsluvarðhaldi er til að mynda beitt gegn börnum og einstaklingum með fötlun og geðraskanir hér á landi en það ætti ekki að líðast.

Með óhóflegri beitingu einangrunarvistar brjóta Íslendingar m.a. gegn samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu með alvarlegum afleiðingum fyrir sakborninga og rétt þeirra til sanngjarnra réttarhalda.

Þetta eru niðurstöður nýrrar skýrslu Amnesty International, „Waking up to nothing: Harmful and unjustified use of pre-trial solitary confinement in Iceland“. Í henni er skorað á íslensk stjórnvöld, sem nú gegna formennsku í Evrópuráðinu, að skuldbinda sig til að koma á mikilvægum og tafarlausum umbótum þannig að einangrunarvist verði aldrei beitt í þágu rannsóknarhagsmuna.“

Í fréttinni segir áfram að aðdragandinn að þessari skýrslu sé sá að árið 2008 viðraði nefnd Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum áhyggjur sínar við íslensk stjórnvöld af óhóflegri beitingu einangrunarvistar hér á landi og gerði athugasemdir við fyrirkomulagið. Árið 2022 voru þessar áhyggjur ítrekaðar, þ.e. 14 árum síðar.

Forseti. Íslensk stjórnvöld hafa um árabil verið meðvituð um óhóflega beitingu einangrunarvistar hér á landi og skaðsemi hennar. Þrátt fyrir það hafa að meðaltali rúmlega 80 einstaklingar verið læstir einir inni í klefum sínum, 22 klukkustundir á sólarhring, á ári hverju á árunum 2012–2021, þar á meðal börn og einstaklingar með þroskahömlun. Einu svörin sem stjórnvöld gefa eru þau að lögin séu í endurskoðun. Ljóst má vera að hér er um framkvæmd að ræða. Hvet ég stjórnvöld til að fara ofan í saumana á því hvers vegna framkvæmdin er með þessum hætti hér á landi í algeru trássi við það sem gengur og gerist í öðrum ríkjum og hætta hið snarasta þeim mannréttindabrotum sem bent hefur verið á.



[15:40]
Guðrún Hafsteinsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Í desember bárust fréttir af því að kjarasamningar hefðu náðst við meiri hluta launafólks á almennum vinnumarkaði. Við höfðum ríka ástæðu til að ætla að nú tækist með samstilltu átaki að ná skynsamlegri lendingu á vinnumarkaðnum í heild og þannig vinna okkur hægt en örugglega í átt að því að ná niður verðbólgu og vöxtum. Heildarhagsmunir voru í forgangi, hagsmunir sem skipta máli við að reka hér samfélag á skynsamlegan og heilbrigðan hátt. Það urðu því mikil vonbrigði að ekki tókust samningar á milli Samtaka atvinnulífsins og Eflingar. Þar með sátu liðlega 20.000 félagsmenn Eflingar eftir og þeir hafa ekki notið kjarabóta til jafns við aðra á almennum vinnumarkaði, kjarabóta sem félagsmenn þurfa á að halda.

Maður leiðir hugann óhjákvæmilega að því hvort það hafi verið raunverulegur vilji forystu Eflingar að ná samningum fyrir sitt fólk. Ég get ekki betur séð en að hugmyndafræðin snúist um átök átakanna vegna. Einföld og úrelt mynd er dregin upp varðandi samband og samskipti launafólks og atvinnurekenda. Ég leyfi mér að fullyrða að sú orðræða sem Efling hefur uppi varðandi það samband sé í hrópandi andstöðu við raunveruleikann nema í algerum undantekningartilfellum, enda hafa kannanir sýnt að flest fólk ber mikið traust til sinna vinnuveitenda og nýir kjarasamningar í vetur voru alls staðar samþykktir með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða.

Sú kjaradeila sem við stöndum frammi fyrir snýst um heildarsamhengi hlutanna. Sú hugmyndafræði sem Efling beitir hér er úrelt og snýst um átök átakanna vegna. Þegar farið er af stað með það að leiðarljósi er ekki von á góðri niðurstöðu.



[15:42]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Undanfarið hef ég verið að benda á hvernig einstaklingar og sveitarfélög koma í veg fyrir uppbyggingu mikilvægra innviða. Það er að verða sérstakt vandamál á Íslandi hvernig komið er í veg fyrir uppbyggingu á samgöngum og flutning á raforku. Á toppi umræðunnar er Alþingi sem kemur sér ekki saman um nokkurn skapaðan hlut og virðist alveg úrræðalaust þegar kemur að því að taka mikilvægar ákvarðanir. Ég er sannfærður um að við erum að reima á okkur krummafót í orkuskiptum með algjöru aðgerðaleysi. Þingmenn hafa lítinn áhuga á atvinnulífinu og ef einhver umræða er um atvinnulíf þá er það helst gert með því að bregða fæti fyrir verðmætasköpun í þessu landi.

Virðulegur forseti. Af hverju segi ég þetta? Förum bara hringinn í kringum landið. Hvar er næg endurnýtanleg orka í boði? Hvar eru flutningsleiðir í meginflutningskerfi raforku að uppfylla þarfir atvinnulífs og heimila? Ættu þingmenn ekki að vera að ræða þessi mál í þingsal þessa dagana í stað þess að þingið sé tekið í gíslingu Pírata á sama tíma og almannavarnanefnd Vestmannaeyja fundar með Landsneti um nauðsynlega innviði. Í Vestmannaeyjum er allt varaafl nýtt, allar dísilrafstöðvar og fleiri eru á leiðinni til Eyja til að bjarga loðnuvertíðinni eftir að sæstrengurinn VM3, sem er tíu ára gamall, bilaði í fyrradag. Varastrengurinn, VM1, er 61 árs gamall og nær ekki að fæða heimili eða atvinnulíf. VM2 er ónýtur. Fyrir tíu dögum var óskað eftir flýtimeðferð á VM4, sem er á áætlun 2025. Fram undan er umfangsmikil viðgerð. Þessu til viðbótar er engin varavatnsleiðsla til Eyja og það tæki ár, jafnvel mörg ár, að fá nýja leiðslu ef þessi eina bilaði af einhverjum ástæðum. Þá gæti þurft að flytja alla Eyjamenn brott öðru sinni frá árinu 1973. Herjólf er ekki hægt að hafa í Eyjum þegar takmarkað varaafl er í boði. Öryggisleysi mikilvægra innviða sem halda mann- og atvinnulífi í Eyjum gangandi er algerlega óþolandi, eins og víða um land. (Forseti hringir.)

Virðulegur forseti. Er ekki kominn tími til að meiri tími þingsins fari í að ræða verðmætasköpun og mikilvæga innviði til að standa undir velferð landsins (Forseti hringir.) frekar en gíslataka Pírata á þinginu til að ræða opinber óheft landamæri landsins?



[15:44]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Mig langar að benda hv. þingmanni á að það er hans flokkur sem er með dagskrárvaldið og forgangsraðar eins og hann gerir hér og setur orkumálin greinilega á eftir útlendingamálunum á dagskrá. Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem vill fyrst útlendingamálin, svo orkumálin. Mjög greinilegt, sést hérna á dagskrá þingsins, mjög flókið.

En mig langar aðeins að tala um heilbrigðiskerfið. Signý Hjartardóttir og sonur hennar, sem er heróín- og morfínfíkill í leit að lækningu, eru í baráttu við heilbrigðiskerfið. Það segir hérna í frétt Vísis og Stöðvar tvö, með leyfi forseta:

„Við erum búin að fara allan hringinn, alla vikuna, á alla þessa staði. Bráðamóttakan vísar á bráðageðdeildina. Bráðageðdeildin vísar á heilsugæsluna, þar færðu ekki tíma, þá ferðu á vaktina og situr þar í tvo tíma, en þar má ekki skrifa upp á róandi.“

Þetta er saga heilbrigðiskerfisins eins og hún birtist þeim sem eru að reyna að nota það. Signý sendi síðan nokkrum þingmönnum póst og fékk svar frá einum þeirra, sessunaut mínum, hv. þm. Jakob Frímanni Magnússyni, sem hjálpaði Signýju og kom syni hennar fram fyrir fimm mánaða biðlista á Vog sem er frábært fyrir Signýju og son hennar, að sjálfsögðu ekki alveg eins frábært fyrir þau sem þurfa að bíða aðeins lengur, en svona er heilbrigðiskerfið. Við erum með langan biðlista í þetta mikilvæga málefni. Hérna er heilbrigðisráðherra ekki lengur, hann er farinn, þannig að vonandi er hann að laga þetta, en ég veit ekki hvernig, því að við höfum ekki heyrt nein áform um neitt slíkt. Það er enn þá bara bráðamóttaka, bráðageðdeild, heilsugæslan, vaktin, sitja og bíða, útskrifaður, fær ekki neitt. Við fórum á Læknavaktina um daginn og ætluðum fá vottorð. Þar var sagt: Nei, við erum ekki með aðgang að kerfinu þannig að við getum ekki skrifað út vottorð. Þetta er allt svona, alltaf. Þetta er rosalegt. Við verðum að gera betur hér.



[15:47]
Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Nú í vetur náðu ríki heims sameiginlegri niðurstöðu, dálítið góðri og mikilvægri niðurstöðu, varðandi líffræðilega fjölbreytni. Það náðist að semja um markmið fyrir heiminn, að friðlýsa 30% af landsvæði og 30% af hafsvæði til að standa vörð um fjölbreytni líffræðinnar á þeim svæðum. Þessu markmiði á að ná árið 2030. Ef við horfum á Ísland þá erum við komin nálægt þessu á landi, þökk sé því að eiga mjög stóra þjóðgarða. Ég held við séum á milli 25 og 30% þar. En við eigum afskaplega langt í land á hafi. Þar er aðeins búið að friðlýsa 0,07%. Taktu eftir, forseti, markmiðið er 30% fyrir árið 2030. Það hafa bara 14 svæði verið vernduð í hafi sem eru ekki friðuð vegna fisk- eða nytjastofna. Þetta eru þá hverasvæði og kóralsvæði og svo eru það Eldey og Surtsey. Annað hefur ekki verið gert, sem skýtur dálítið skökku við hjá landi sem er í jafn miklum tengslum við hafið og Ísland.

Þetta var gagnrýnt í aðsendri grein í Fréttablaðinu í gær. Hörður Sigurbjarnarson, sem stofnaði hvalaskoðunarfyrirtækið Norðursiglingu á Húsavík, benti á að hér væru Íslendingar miklir eftirbátar. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, svarar þessu í Fréttablaðinu í dag og segir að Ísland komi vel út í þessum málum samanborið við mörg lönd — 0,07% hjá Íslandi, 30% markmið eftir sjö ár.

Herra forseti. Það er allt í lagi að vera stoltur af sínu (Forseti hringir.) og fagna því sem vel er gert en hæstv. ráðherra þarf líka (Forseti hringir.) að vera í einhverjum tengslum við raunveruleikann því að hér er Ísland ekki að standa sig nógu vel. Hér þarf að gera miklu betur. Það fyrsta sem ráðherrann þarf að gera er að horfast í augu við vandann (Forseti hringir.) sem hann á greinilega erfitt með.



[15:49]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Byggðastofnun hefur gefið út skýrslu um samanburð á orkukostnaði heimila fyrir síðasta ár. Hún hefur áður gefið út slíkar skýrslur og hefur fengið Orkustofnun til að reikna út kostnað á ársgrundvelli við raforkunotkun og húshitun á sambærilegum fasteignum víða um land. Það er fátt í þessari skýrslu sem kemur á óvart eða hefur verið dulið varðandi það hvað kostnaðurinn er mismunandi eftir landsvæðum og það er margt sem skýrir þann mismun.

Þegar rýnt er í húshitunarkostnað er munurinn á milli svæða sem fyrr mun meiri en á raforkuverði. Hann er mikill, miklu meiri en ásættanlegt er. Munurinn á lægsta og hæsta mögulega húshitunarkostnaði er þrefaldur. Þó hefur þessi munur dregist saman, m.a. vegna hækkunar niðurgreiðslna á dreifikostnaði, aukinnar samkeppni á raforkusölumarkaði og húshitunarkostnaður hefur lækkað umtalsvert þar sem kynt er með rafmagni með tilkomu varmadæla. Það kemur heldur ekki á óvart að Vestfirðir tróni á toppnum hvað húshitunarkostnað varðar ásamt Grímsey. Gamansagan af Vestfirðingnum, sem var nýfluttur suður og greiddi glaður hitaveitureikninginn fyrir allan stigaganginn, á mögulega enn við.

Virðulegi forseti. Við tölum oft um að þeir sem nýti auðlindir sjávar eigi að greiða fyrir það með arði. Aðgangur að heitu vatni er auðlindanýting og ekki hafa allir aðgang að þeirri auðlind. Á Vestfjörðum eru kyntar hitaveitur, raforkuöryggi er ótryggt og vegna þess eru þessar hitaveitur oft kyntar með olíu.

Í tillögum starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum kom fram að mikilvægt væri að kanna sérstaklega möguleika á aukinni jarðhitanýtingu til húshitunar í fjórðungnum. Því þarf að hraða. Auk þess þarf að ráðast í að auka raforkuöryggi á Vestfjörðum með sterkari hætti. Raforka er forsenda þess að uppbygging atvinnusamfélaga og orkuskipta verði á svæðinu. Auk þess eykur það jafnræði íbúa á svæðinu gagnvart öðrum íbúum landsins.



[15:51]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Í gær var 50 ára afmæli Samhjálpar og mörgum okkur þingmönnum var boðið að sækja þau heim, þau héldu lítið kaffisamsæti í tilefni af hálfrar aldar afmæli sínu í gær í Oddfellow-húsinu. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið þetta boð og ég er þakklát fyrir að hafa mætt og tek undir með hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni sem ræddi hér áðan um fíknivanda og erfiðleikana í samfélaginu; það er í rauninni þyngra en tárum taki hversu alvarlegt ástandið er í samfélaginu í dag. Samhjálp er að hjálpa hundruð einstaklinga til betra lífs eins og margir aðrir sem eru að taka utan um þennan veika þjóðfélagshóp. Ég trúi því varla að við séum að tala um hátt í þúsund manns, fárveikt fólki á biðlista eftir þjónustu, hátt í þúsund einstaklingar. Þessir einstaklingar, margir hverjir, fá ekki lengri eftirmeðferð en einhverjar vikur. Þeir eru varla búnir að átta sig á því hversu veikir þeir eru þegar þeir eru komnir út í samfélagið á ný sem tekur ekki á móti þeim opnum örmum heldur þvert á móti með fordómum. Þvílíkir fordómar. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson var að nefna heilbrigðiskerfið og þrautagöngu móðurinnar sem sótti son sinn til Portúgal, fárveikan, og maður getur ekki annað en bara orðið orðlaus. Ég verð það ekki oft. En staðreyndin er nákvæmlega þessi. Fordómarnir eru slíkir að jafnvel á bráðamóttökunni, jafnvel þar sem heilbrigðisstarfsfólk er að vinna með þessa veiku einstaklinga, er kíkt á kennitöluna og sagt: Já, einmitt, þú ert einn af þeim. Þú ert einn af þessum. Þú átt ekki heima hér. Farðu og gerðu eitthvað annað. (Forseti hringir.)

Í lokin segi ég þetta, virðulegi forseti: Mér fyndist bragur á því að færa Samhjálp afmælisgjöf. Við eigum að gera það eftir hálfrar aldar dygga þjónustu þeirra, þau gefa 100.000 máltíðir á hverju einasta ári í Borgartúni þar sem þau eru með kaffistofuna sína, (Forseti hringir.) taka utan um fólkið sem við hér í þessum sal og borgarstjórinn í Reykjavík (Forseti hringir.) og það fína lið skilur eftir hjá garði, hálfsveltandi og í vondum málum.



[15:54]
Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Undanfarið höfum við lesið um raunir örvilnaðrar móður í baráttu sinni við kerfið. Móðirin fæddi son með tvíklofna vör og góm sem sérfræðingar telja sérstaklega erfitt tilfelli. Kerfið segir hún að sé bæði óskilvirkt og þunglamalegt. Núna fyrir helgina fékk sonur hennar, sem er á fjórtánda ári, bréf frá Sjúkratryggingum Íslands þess efnis að stofnunin taki ekki þátt í frekari niðurgreiðslu vegna tannréttinga nema hann fari í enn eitt endurmatið hjá tannlæknadeild Háskóla Íslands. Mál þeirra er því í biðstöðu á meðan. Það er ekkert smáræði sem lagt er á þennan dreng og móður hans. Hann er búinn að vera reglulegur gestur hjá læknum frá því að hann var fimm ára gamall og þetta hamlar honum í daglegu lífi. Hann getur ekki stundað fótbolta eins og hann langar til þar sem hann má ekki fá högg í andlitið. Móðir hans lýsir samskiptum, fyrst við Fæðingarorlofssjóð, síðan Tryggingastofnun og nú síðast Sjúkratryggingar Íslands. Með reglugerðarbreytingu frá árinu 2019 var drengnum gert að gangast undir mat hjá tannlæknadeild Háskólans en þar er hann einhverra hluta vegna boðaður ítrekað í viðtal, að öðrum kosti falli niðurgreiðsla niður. Þetta setur alla á bið sem að málinu koma, tannréttingasérfræðinginn, kjálkaskurðlækninn og lýtalækninn, vegna óvissunnar sem verið er að skapa.

Virðulegur forseti. Hversu galið er það að setja barn í þessa óvissu í miðri meðferð? Er það virkilega skoðun hæstv. heilbrigðisráðherra að fæðingargalli sem þessi lagist bara af sjálfu sér og því þurfi að setja hann endurtekið í endurmat (Forseti hringir.) á meðan meðferð stendur yfir? Það væri nógu sorglegt (Forseti hringir.) ef þetta væri einsdæmi en svo er ekki. Þessu þarf að breyta.



[15:56]
Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Forseti. Neytendamál skipta okkur öll máli og sjálfur hef ég aðeins tjáð mig um þau. Ég byrjaði á að fjalla um húsnæðismarkaðinn hér snemma á síðasta ári og hef rætt tryggingamál. Það svar sem ég fékk við fyrirspurn minni til fjármála- og efnahagsráðherra sýndi að iðgjöld bílatrygginga hafa hækkað umfram verðlagshækkanir. Það kemur auðvitað ofan á allt annað. Hækkandi lán á húsnæðinu okkar, leigan, matarkarfan — þetta er auðvitað eitthvað sem við finnum öll fyrir sem búum hér.

Nýlega fór ég í viðtal á RÚV, ásamt hv. þm. Guðbrandi Einarssyni frá Viðreisn, varðandi þá stöðu sem innlend netverslun er í í samkeppni við þá erlendu sem byggir á tölum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Það er alveg ljóst að þetta er áskorun fyrir innlenda verslun í heild sinni, hún er að keppa við verslun á miklu stærri markaði. En við sjáum það líka að það hafa mörg jákvæð skref verið stigin til handa neytendum. Við getum nefnt tollasamninginn, fríverslunarsamninginn, niðurfellingu tolla og vörugjalda og svo mætti lengi telja. Ég held að við þurfum áfram að vinna í þá átt að tala fyrir tvíhliða tollasamningum.

Við sjáum það líka þegar við rýnum í þessar tölur og það er sérstaklega áhugavert — ég hvet þingmenn til þess að rýna skýrslu frá McKinsey frá árinu 2012 sem fjallar um stöðu innlendrar verslunar og þær áskoranir sem fram undan eru. Þar er rými til að hagræða, ná niður fermetrafjölda í verslun og ná upp raunverulegri stærðarhagkvæmni svo að innlend verslun verði samkeppnishæf við þá erlendu.



[15:59]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Árið gekk í garð með verðbólgu og vetrarhörkum. Matarinnkaupin eru dýrari, bensínið dýrara og fasteignalánin eru að hækka. Veðrið er á sama tíma þannig að Veðurstofan dælir út gulum, appelsínugulum og rauðum viðvörunum. Fólk veit að það er vissara að hlusta á ráðgjöf veðurfræðinganna, þeir hafa jú þekkinguna. En í kvöldfréttum í gær birtist hv. formaður efnahagsnefndar, Guðrún Hafsteinsdóttir, í viðtali um verðbólguna. Skilaboð hennar til þjóðarinnar voru skýr, með leyfi forseta: „Eins sárt og það er að segja það þá er fólk að eyða of miklu.“

Þetta er söguskýringin þrátt fyrir að allir og amma þeirra hafi bent á að það væri ekki heimsins besta hugmynd að senda Bjarna út með bensínbrúsa til að vökva verðbólgubálið. Gjaldahækkanir í boði ríkisstjórnarinnar eru núna stór þáttur í því að verðbólgan er að hækka aftur. Það er ekki hægt að breyta veðrinu í vetur en ríkisstjórnin getur haft áhrif á það hvernig verðbólgan þróast. Ríkisstjórnin rekur landið með 119 milljarða halla en talar um að það sé almenningur sem eyði of miklu, fari illa með sína fjármuni. Neytendasamtökin lýstu þessu ágætlega og bentu á að janúarútsölurnar í ár nái ekki að draga úr verðbólgu. Neytendasamtökin voru reyndar búin að vara við þessari niðurstöðu í haust og á þau ráð var ekki hlustað. Það var reyndar heldur ekki hlustað á BHM, Samtök atvinnulífsins eða ASÍ, eða okkur inni í þingsal. Það voru rauðar viðvaranir um áhrif þessara gjaldahækkana á verðbólguna og heimilin í landinu. Verðbólguhækkunin í janúar er ekki óvænt óveður. Hún lá í kortunum, sást í kortunum og er í boði ríkisstjórnarinnar. Verkefni ríkisstjórnarinnar er að berjast gegn verðbólgu en formaður efnahags- og viðskiptanefndar minnti mig á einhvern í fréttunum í gær. Þarna held ég að hafi birst sama týpa og Indriði í Fóstbræðrum sem bandar yfirleitt frá sér verkefnum með spurningunni: Og hver á að gera það? Á ég að gera það?



[16:01]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Bráðadeild Landspítalans í desember: Ekki mæta á bráðadeild Landspítalans heldur farðu á heilsugæsluna. Heilsugæslan í desember: Ekki mæta á heilsugæsluna heldur vertu bara heima hjá þér. Í desember vantaði einn þriðja af læknum á bráðadeild Landspítalans og það voru um tvöfalt fleiri inni á deildinni en gert er ráð fyrir. Deildin var of undirmönnuð til að sinna eðlilegum fjölda og hvað þá meira en tvöfalt fleiri sjúklingum. Er einhver hissa á því að fólk hafi verið beðið um að koma ekki á bráðamóttökuna þegar það var dauðans alvara að mæta þangað? Á fimmta tug sjúklinga voru fastir á bráðamóttökunni vegna þess að ekki var hægt að flytja þá á aðrar deildir spítalans því að það var allt fullt. Það vantaði að manna vaktir og þau sem voru á vakt áttu ekki bara að vinna og hlaupa helmingi hraðar heldur allt að þrisvar sinnum hraðar. Þessi vinnubrögð verða til þess að veikt og slasað fólk verður fyrir óbætanlegum skaða, jafnvel ótímabærum dauða. Ekki koma á bráðamóttökuna, var sagt, heldur fara á heilsugæsluna. Já, á heilsugæsluna sem ráðlagði veiku fólki að koma ekki þangað heldur bara halda sig heima og sjúkdómsgreina sig sjálft. Auðvitað, það er allt að átta vikna bið eftir tíma á sumum heilsugæslum og sjúklingurinn orðinn góður af sínum meinum eftir þann tíma — en hvað ef hann er það ekki? Hvað gerir ríkisstjórnin til lausnar á þessu skelfilega ástandi? Ekkert. Hennar lausn er að auka á vandann og það er gert með því að semja ekki við sjúkraþjálfara og auðvitað ekki heldur við sérgreinalækna. Fátækt, veikt fólk hefur ekki lengur efni á því að fara til sjúkraþjálfara og borga aukalega 2.000 kr. fyrir hvert skipti, hvað þá til sérgreinalækna og borga aukalega tugþúsundir króna þar. Heilbrigðisþjónusta á Íslandi í dag er bara fyrir þá efnameiri og þeir sem hafa ekki efni á henni eiga bara að halda sig heima og hvað — lækna sig sjálfir? Biðlistar hafa meira en tvöfaldast á örfáum árum og nú er ekki langt í að 10.000 manns séu á biðlista í heilbrigðiskerfinu eftir lausn sinna veikinda og því miður er engin lausn í sjónmáli á þeim vanda á næstu árum hjá ríkisstjórninni, því er nú verr og miður. Það þarf að byrgja brunninn í heilbrigðiskerfinu strax í dag og sjá til þess að veikt og slasað fólk verði ekki fyrir andlegu og líkamlegu tjóni og hvað þá ótímabærum dauða vegna galla þess en það er ekki í sjónmáli. Það sýna vinnubrögð ríkisstjórnarinnar undanfarin fimm ár.



[16:04]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Undanfarna daga höfum við séð banvæna árásir Ísraela í Jenin á Vesturbakkanum, palestínskum eldflaugum skotið á Ísrael frá Gasa, sprengjuárásir Ísraels í hefndarskyni og hryðjuverkaárás nálægt samkunduhúsi í ísraelska landnemahverfinu í austurhluta Jerúsalem sem þeir lögðu undir sig árið 1962. Á tveimur sólarhringum létust níu Palestínumenn og sjö Ísraelar. Átök milli Ísraels og Palestínu eru því miður komin á sitt versta stig. Stigmögnun ofbeldis og árásir eiga ekki að koma neinum á óvart. Í margar vikur hefur vaxandi og harðara ofbeldi á svæðinu verið áhyggjuefni. Síðustu 12 mánuðir hafa verið þeir banvænustu fyrir Palestínumenn á hernumdum Vesturbakkanum síðan frá lokum seinni „intifada“ árið 2005 og allt þetta áður en hægri sinnaðasta bandalagið í sögu landsins komst til valda í Ísrael sem gaf t.d. öfgahægrisinnuðum embættismanni sem er félagi í bönnuðum stjórnmálaflokki vegna hatursorðræðu og öfgahyggju gagnvart Palestínuaröbum, yfirráð yfir öryggismálum Ísraels. Alþjóðasamfélagið kallar nú sem áður eftir ró á svæðinu en dapurlega staðreyndin er sú að möguleikinn á lífvænlegri Palestínu er því miður að hverfa hratt vegna vanhæfni til að skapa traust milli deiluaðila og vanhæfni til að stöðva ofbeldisfulla nýlenduhyggju Ísraelsmanna á Vesturbakkanum. Ný ríkisstjórn öfgahægrimanna í Ísrael lýsir því nú yfir að Ísrael eigi að framfylgja einkarétti og ófrávíkjanlegum rétti til allra hluta Ísraelslands sem feli í sér hernám Vesturbakkans og hvatningu til ólöglegs landnáms þar.

Hvernig kemur þetta okkur við hér? Jú, fyrrverandi utanríkisráðherra sýndi engan áhuga á Palestínu í þau fimm ár sem hann gegndi þeirri stöðu þrátt fyrir að ég vakti oft athygli á því hér í þingsal að efla ætti fríverslunarsamning Íslands og Palestínu eða spurði um lækkað fjármagn til mannúðarverkefna í Palestínu. Enginn þingmaður á Alþingi eða ráðherra hefur vakið athygli á skýrslu Amnesty International um aðskilnaðarstefnu Ísraelsríkis eða gríðarlega mikilvæga skýrslu mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna sem kom út fyrir tíu mánuðum síðan þar sem staðhæft er með sönnunum að yfirvöld Ísraels haldi úti harðari aðskilnaðarstefnu gegn Palestínumönnum (Forseti hringir.) en yfirvöld í Suður-Afríku gerðu á sínum tíma gagnvart þeldökkum íbúum landsins. Enginn þingmaður hér bað um viðbrögð ráðherra (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar við þeim hörmulegu staðreyndum sem þar koma fram. Herra forseti. Ísland og Palestína eiga í sérstöku sambandi. Ísland var fyrsta vestræna ríkið sem viðurkenndi sjálfstæði Palestínu árið 2010. (Forseti hringir.) Alþingi Íslendinga greiddi samhljóða atkvæði með þeirri þingsályktun (Forseti hringir.) og það er við hæfi að við sýnum samhljóða stuðning Alþingis við Palestínu í verki.

(Forseti (AIJ): Forseti minnir hv. þingmenn á afar takmarkaðan ræðutíma.)



[16:07]
Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í rúm tvö ár hafa íbúar á Seyðisfirði árangurslaust leitað eftir samstarfi við sveitarfélagið vegna andstöðu meiri hluta íbúa við áform um sjókvíaeldi í firðinum. VÁ - félag um vernd fjarðar hefur reynt að halda hagsmunum íbúa og lýðræðislegu samtali við stjórnvöld á lofti. Í umræðunni í kringum sjókvíaeldi í Seyðisfirði hefur ítrekað verið bent á staðreyndir sem snúa að plássleysi í firðinum. Nú hafa svæðisráð og Skipulagsstofnun skilað af sér tillögu að framtíðarstrandsvæðaskipulagi Austfjarða til hæstv. innviðaráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar. Í fyrirliggjandi tillögu eru þrjú nýtingarsvæði innan helgunarsvæðis sæstrengja í Seyðisfirði, m.a. FARICE-1-strengsins, og benda gögn til þess að útreikningar Skipulagsstofnunar um nálægð við helgunarsvæði byggi hreinlega á rangri mælieiningu, landmílu en ekki sjómílu. Einnig hefur verið bent á að eldiskvíar séu settar á snjóflóðahættusvæði sem hefur verið skilgreint af Veðurstofunni. Þetta stenst auðvitað enga skoðun. Íbúar hafa beitt sér af þunga fyrir því að fallið sé frá þessum áformum en sú umræða hefur mátt sín lítils. Veigamikil rök í allri umræðu um sjálfstæði sveitarfélaga lúta að staðbundinni þekkingu. En hvers virði er þekking heimamanna þegar erlendir fjárfestar banka upp á? Það verður ekki sagt annað en að sveitarfélög í landinu hafi nýtt einmitt þetta sjálfræði til að ganga erinda fyrirtækjanna gegn vilja íbúa. Seyðfirðingar hafa um áratugaskeið unnið í ákveðna átt að uppbyggingu menntunar, menningar og ferðaþjónustu en sú uppbygging virðist vera í trássi við hið almenna uppbyggingarviðhorf sem einkennir svo mjög ákvarðanatöku á sveitarstjórnarstiginu. Ég hvet hæstv. innviðaráðherra til að hlusta á vilja íbúa og standa með þeim í þessu máli.



[16:09]
Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Verðbólgan er auðvitað stærsti óvinur almennings, sagði hæstv. forsætisráðherra á Alþingi í gær. Það er mikið til í því þótt bæta megi við að fylgitungl verðbólgunnar á Íslandi, sem er miklu hærra vaxtastig en í nágrannalöndunum, er einnig skæður óvinur. Maður myndi ætla að það væri lágmarkskrafa ríkisstjórnar að berjast gegn þessum mikla óvini með öllum tiltækum ráðum en það er því miður ekki svo. Það er óumdeilt að ríkisstjórnin ber beina ábyrgð á hluta þeirra hækkana sem við sjáum nú. Ekki einu sinni ríflegar janúarútsölur ná að vega upp gjaldahækkanir ríkisstjórnarflokkanna, að ótöldum þeim áhrifum sem þetta ömurlega fordæmi hefur á aðra sem geta hækkað verð og álögur á almenning. Hitt er verra að eitt helsta einkenni stjórnarsamstarfsins, hinn sífelldi og alltumlykjandi ábyrgðarflótti, ræður líka för í baráttunni gegn óvininum mikla. Hæstv. forsætisráðherra sagði orðrétt í gær, með leyfi forseta:

„Hv. þingmaður talaði hér um ábyrgð á verðbólgunni og ég hlýt að minna á að Seðlabankinn ber auðvitað höfuðábyrgð, það er hans aðalhlutverk í lögum að verðbólgumarkmiði sé haldið.“

Ábyrgðin er sem sagt Seðlabankans. Hann ber höfuðábyrgð, sagði forsætisráðherra þegar bent er á að ríkisstjórnin þurfi að róa í sömu átt. Reyndar hefur seðlabankastjóri sagst hafa þungar áhyggjur af sívaxandi útgjöldum ríkissjóðs og bent á að ríkisstjórnin sé að gera verk bankans erfiðara. En er nema von að verðbólga hækki á Íslandi á sama tíma og hún er á niðurleið á evrusvæðinu þegar sjálfur forsætisráðherrann er ekki betur áttaður á hlutverki ríkisvaldsins í þessari baráttu? En Seðlabankinn sat svo sem ekki lengi einn með alla ábyrgðina í fanginu. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær sagði formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Guðrún Hafsteinsdóttir, um verðbólguna að þótt sárt væri vissulega að segja það þá væri það nú samt svo að almenningur væri að eyða of miklu. Taumlaus og stjórnlaus útgjaldaaukning og gjaldahækkanir ríkisstjórnarinnar hafa sem sagt ekkert vægi. Þetta er á ábyrgð Seðlabankans og almennings í landinu. Verðbólgan er vissulega versti óvinur almennings en það er öllu verra að óvinurinn á sér bandamenn í Stjórnarráði Íslands.