153. löggjafarþing — 59. fundur
 2. feb. 2023.
um fundarstjórn.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[10:35]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég kem hérna upp í kjölfar fréttaflutnings af því að hæstv. dómsmálaráðherra hafi skrifað bréf, bréf þar sem hann fyrirskipar sölu á einni af flugvélum Landhelgisgæslunnar. Um þetta mál hefur ekki farið fram nein umræða hér í þessum sal. Um þetta mál hefur ekki farið fram nein umræða í utanríkismálanefnd. Hér er um þjóðaröryggismál að ræða á þeim sögulegu tímum sem við núna lifum. Vélin þjónar hlutverki, er fyrsta viðbragð í náttúruvá, hér er um leitar- og björgunarvél að ræða og það er með nokkrum ólíkindum að við séum á þeim stað að mál af þessum toga verðskuldi ekki einu sinni umræðu hér í þessum sal bara vegna þess að hæstv. dómsmálaráðherra skrifar bréf. Það hefur komið fram og það er notað sem röksemd fyrir sölunni að vélin hafi verið svo mikið leigð út og sé ekki í notkun hér á landi. Ástæða leigunnar er sú að Landhelgisgæslan er í þeirri stöðu að þurfa að afla sér tekna, (Forseti hringir.)svo fjársvelt að hún þarf að afla sér tekna með leigunni, fjársveltið er síðan notað sem röksemd fyrir sölunni.



[10:37]
Forseti (Birgir Ármannsson):

Forseti vill geta þess að næst á dagskrá er óundirbúinn fyrirspurnatími þar sem hæstv. dómsmálaráðherra verður m.a. til svara. Bendir forseti hv. þingmönnum á að undir liðnum fundarstjórn forseta er ekki ætlast til að fram fari efnisleg umræða um þessi mál.



[10:37]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Herra forseti. Þetta er vandamálið varðandi það hvernig farið er með mál fyrir þingið. Við erum nýbúin að samþykkja fjárlög fyrir þetta ár, ekkert um slíkar fyrirætlanir í þeim fjárlögum. Við fáum einhverjar almennar aðhaldskröfur hingað og þangað í fjárlögum, gríðarlega illa undirbúið skjal sem við vitum í raun ekkert hvað þýðir þegar við ýtum á takkann: já, nei eða sitja hjá. Nú kemur upp úr dúrnum, bara strax í fyrsta mánuði, að það þýði m.a. sölu á flugvél Landhelgisgæslunnar. Vissi það einhver þingmaður hér inni, þegar verið var að greiða atkvæði um þessi fjárlög, að það myndi hafa þær afleiðingar? Þetta er það sem við erum að reyna að lýsa, forseti, þegar við segjum að mál sem við fáum hingað á gólfið séu gríðarlega illa undirbúin. Við vitum ekkert hvað við erum að samþykkja þegar við ýtum á takkann af því að það er ekki sagt. Neikvæðar umsagnir, ekkert hlustað á þær. (Forseti hringir.) Umsagnir um fjárlögin sem segja hvað er í gangi, ekki svarað. Það er vandinn sem (Forseti hringir.) við erum að glíma við í þessu þingi og þess vegna erum við að reyna að benda á það. En nei, ekkert gerist.



[10:39]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Það er ríkt tilefni til að ræða þetta mál undir liðnum um fundarstjórn forseta, einfaldlega vegna þess að málið hefur hvorki verið rætt í hv. utanríkismálanefnd né í hv. allsherjar- og menntamálanefnd eða fjárlaganefnd. Það er óboðlegt að ríkisfjármálastefna ríkisstjórnarinnar leiði til þess að nauðsynleg öryggistæki, grunninnviðir, séu seld til að hægt sé að halda úti öðrum rekstri. Við erum að tala um einu flugvélina sem Landhelgisgæslan á, flugvél sem var keypt eftir fjögurra ára skoðun, vandlega yfirvegun. Hlutverk vélarinnar er að hafa eftirlit með lögsögu, fiskveiðieftirlit, og vera liður í almannavörnum og við erum með stríð í Evrópu á sama tíma. Öll ríki eru að byggja upp sínar varnir en ríkisstjórnin heldur svo ótrúlega illa á fjármálum ríkisins að í stað þess að sækja fjármagn þar sem hægt væri að sækja það þá fer hún í að selja grunninnviði, öryggistæki. Til hamingju, Ísland.



[10:40]
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur. Nú sitjum við báðar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og það hefur aldrei verið á þetta minnst, ekki einu orði. Þetta kemur mjög á óvart. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur haldið því fram hér í umræðum að ástandið í útlendingamálum sé stjórnlaust. Ég held að þetta sé bara enn eitt dæmið um stjórnleysi. Hæstv. dómsmálaráðherra tekur hverja ákvörðunina á fætur annarri sem hefur afdrifarík áhrif inn í samfélagið án þess að minnast á það við nokkurn mann. Ef það er eitthvað sem er stjórnlaust í þessu samfélagi þá er það hæstv. dómsmálaráðherra.



[10:41]
Logi Einarsson (Sf):

Forseti. Ég vil benda hæstv. forseta á að óundirbúnar fyrirspurnir eru mun takmarkaðri auðlind en fundarstjórn forseta og við hljótum að geta rætt hér þau mál sem þurfa að vera á dagskrá. Það er ömurlegt til þess að vita að á áttunda mánuði styrjaldar í Evrópu hafi verið mælt fyrir fjárlögum sem eru með þeim hætti að við neyðumst nú til að selja mjög mikilvægan búnað sem er auðvitað til að tryggja almennt öryggi í landinu en varðar líka þjóðaröryggismál. Það er alltaf að koma betur í ljós að þessi ríkisstjórn getur ekki horft fram í tímann. Lengi vel hefur maður gagnrýnt hana fyrir að sýna einungis viðbrögð. Núna getur hún ekki einu sinni sýnt nein viðbrögð og það á alveg jafnt við um efnahagsmál og mál af þessum toga, sem varðar þjóðaröryggi og öryggi landsins.



[10:42]
Forseti (Birgir Ármannsson):

Forseti vill ítreka að liðurinn fundarstjórn forseta getur nýst til þess að vekja athygli á því t.d. að taka þurfi mál fyrir, annaðhvort í þingsal eða í nefndum þingsins. En forseti verður hins vegar að beina þingmönnum í þá átt að nota þennan dagskrárlið ekki fyrir efnislegar umræður um það mál sem þeir vilja vekja athygli á.



[10:42]
Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Auðvitað á umræða um sveltistefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart Landhelgisgæslunni erindi undir liðnum fundarstjórn forseta. Ekki eru nema sex vikur liðnar síðan við afgreiddum fjárlög þar sem veiðigjöld hrökkva ekki einu sinni fyrir kostnaði ríkisins af þjónustu við sjávarútveginn. Afleiðingin af því er að það þarf að skera niður í einhverju öðru hjá Landhelgisgæslunni. Það þarf að skera niður í nauðsynlegri þjónustu Landhelgisgæslu Íslands vegna þess að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur árum saman dekrað við sjávarútveginn með því að leggja of lág veiðigjöld á hann. Það er ein af ástæðunum. Það er ekki bara dómsmálaráðherra sem ber ábyrgð á því heldur allur bekkurinn hér fyrir aftan og hver einasti stjórnarliði í salnum.

Það að Landhelgisgæslan sé að fara að selja þessa vél frá sér án umræðu á þingi er þar að auki ótrúleg — valdníðsla er kannski ekki orðið en einhvers konar ráðherrafúsk er það, að halda að hægt sé að koma aftur sex vikum eftir afgreiðslu fjárlaga og bara gjörbreyta grundvelli í rekstri ríkisstofnunar á þennan hátt.



[10:44]
Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Það virðist vera algengt þema hjá hæstv. dómsmálaráðherra að tilkynna þinginu stórar og mikilvægar ákvarðanir sem varða öryggi borgara í fréttum. Ég þarf ekkert að minnast á tilkynningu um ákvörðun hæstv. dómsmálaráðherra um að rafvopnavæða lögregluna, það birtist bara í fréttum, ekkert samtal átti sér stað hér á þinginu. Það sama á við varðandi þetta.

Eins og komið hefur fram í máli hv. þingmanna sem hér hafa talað á undan mér varðar þetta mál öryggi borgaranna og þetta er þjóðaröryggismál. Mér finnst rosalega furðulegt að hæstv. dómsmálaráðherra fái að taka svona stórar og afdrifaríkar og mikilvægar ákvarðanir án aðkomu þingsins.



[10:45]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Hér er um grundvallarmál að ræða og grundvallarákvörðun. Vélin sem um ræðir er sérhæfð, hún þjónar hlutverki í tilvikum leitar, björgunar og eftirlits. Svo að ég endurtaki það á hvaða tímum við lifum núna þá er ótrúlegt til þess að hugsa að hæstv. dómsmálaráðherra hafi tekið þessa ákvörðun í fullkomnu tómarúmi, sent bréf með skipun. Ég sakna þess að heyra ekki sjónarmið og álit stjórnarliða sjálfra þar um.

Mig langar líka að setja þetta í samhengi við fjármögnun þess málaflokks sem hæstv. dómsmálaráðherra fer fyrir. Ég lagði fram skriflega fyrirspurn hér fyrir jól þar sem fram kom að það voru biðlistar inn í fangelsi landsins; úrræði sem enginn vill þiggja, samt biðlistar. Menn voru ekki boðaðir til afplánunar. Við þekkjum umræðuna um hver staðan er í löggæslu landsins og nú er ráðist á Landhelgisgæsluna. Eru engin takmörk?



[10:46]
Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegi forseti. Þetta mál er eiginlega með ólíkindum og ekki verður hjá því komist að ræða það undir þessum lið, fundarstjórn forseta. Þetta snýst bæði um aðkomu þings að mikilvægum grundvallarákvörðunum og einnig um efnislega umræðu um málið. Það er í raun og veru verið að svipta þingið réttinum til að gera hvort tveggja. Það dugir auðvitað ekki að benda bara á óundirbúinn fyrirspurnatíma því að þetta er ekki bara mál hæstv. dómsmálaráðherra. Það væri heldur betur áhugavert að heyra hvað aðrir ráðherrar, og eftir atvikum aðrir stjórnarþingmenn, hafa um þetta að segja.

Rökstuðningur hæstv. dómsmálaráðherra fyrir því að gera þetta er sá að vélin sé hvort eð er alltaf suður í höfum. Af hverju er vélin svona oft suður í höfum? Það er vegna þess að stofnunin er fjársvelt. Hvað gera menn þá? Nú, þá selja menn bara vélina. Og hver eru svörin við spurningum um það hvað eigi að taka við? Jú, það eru einhvers konar viðræður í gangi við Isavia um að mögulega geti eitthvað — það eru engin efnisleg svör sem hönd er á festandi, það er engin efnisleg umræða um þetta mál. Það er búið að tiltaka það hér í ræðum hversu mikilvægt þetta er, upp á öryggi landsmanna, upp á öryggishlutverkið allt, upp á leit, (Forseti hringir.) upp á björgun. Það er með ólíkindum að ríkisstjórnarflokkarnir ætli ekki að eiga við okkur einhver orð um þetta.



[10:47]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Þetta eru vondar fréttir. Ég vil geta þess að ég hef óskað eftir því að Landhelgisgæslan og dómsmálaráðuneytið komi fyrir utanríkismálanefnd á mánudaginn því að við erum með til umfjöllunar þjóðaröryggisstefnu. Á þetta hefur aldrei verið minnst. Það hefur aldrei verið farið í einhverja áhættugreiningu á því hvaða áhrif þessi ákvörðun ráðherra ríkisstjórnarinnar hefur á öryggi og varnir í landinu, líka almannavarnir. Það hefur hvergi verið farið yfir þetta. Þetta er bara ákvörðun sem er tekin. Þetta er líka lýsandi um það hvernig forgangsröðun fjármuna er. Við erum að upplifa mestu útgjaldaþenslu í ríkissjóði í manna minnum. Við erum að fara úr áætluðum fjárlögum úr 90 milljörðum í 120 milljarða. Það er ekki hægt að verja velferðarkerfið. Það er ekki hægt að verja innviðina og það er ekki hægt að verja frumskyldu hverrar ríkisstjórnar að verja öryggi landsmanna. Það er hvergi einu sinni umræða, ekki einu sinni smá samtal. Það hafa reyndar ekki verið fundir í utanríkismálanefnd í allan janúar, en það er önnur saga. Við hljótum að þurfa að fara yfir þetta og enn á ný að forgangsraða fjármálum ríkisins með öðrum hætti en þessi ríkisstjórn hefur gert.



[10:49]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Það eru eiginlega tvær ástæður sem geta legið að baki þessari umræddu ákvörðun sem hefur valdið svo hörðum viðbrögðum, ekki bara meðal minni hlutans hér heldur úti í samfélaginu hjá fagfólkinu sem við reiðum okkur alla jafnan á þegar á bjátar; fagfólki sem við erum stolt af, fagfólki sem við höldum á lofti, fagfólki sem hefur leitt okkur býsna vel í gegnum margar þær áskoranir sem við búum við í vályndri tíð. Önnur ástæðan gæti verið fjársveltið eins og hér hefur komið fram, að við höfum einfaldlega ekki efni á þessu lengur, að við stöndum ekki undir þeim kröfum og væntingum sem til okkar eru gerðar sem stjórnvalds eða þá að það býr einhver snilld þarna á bak við, þ.e. að í óundirbúnum fyrirspurnatíma á eftir, þar sem ég hygg að hæstv. dómsmálaráðherra fái fyrirspurn um málið, komi hann með lykillausnina, að það eigi að gera þetta einhvern veginn betur, á betri hátt. Ég hlakka til að heyra þær skýringar.

Ég ætla (Forseti hringir.) að klykkja út með því að segja: Það má ýmislegt segja um verk dómsmálaráðherra (Forseti hringir.) en ég hef ekki reynt hann að því að hafa ekki áhuga á öryggis- og varnarmálum. Ég ætla líka að nýta mér tímann hér og taka undir (Forseti hringir.) með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur: Það er með ólíkindum að utanríkismálanefnd þingsins skuli aldrei hafa fundað sjaldnar en hún gerir nú á þeim tímum sem við lifum. Ég óska eftir breytingu þar á, hæstv. forseti, að utanríkismálanefnd átti sig á hlutverki sínu hér.



[10:50]
Forseti (Birgir Ármannsson):

Hv. þingmaður hugðist nýta tímann en talaði 40 sekúndum lengur heldur en þingsköp kveða á um.



[10:51]
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég tel alveg ljóst hvers vegna hæstv. dómsmálaráðherra telur þörf á að grípa til þessa neyðarúrræðis í ljósi fjárskorts. Það er vegna þess að hæstv. dómsmálaráðherra er loksins búinn að gera sér grein fyrir því að það frumvarp sem hann hefur lagt fyrir þingið, um breytingar á lögum um útlendinga, mun ekki leiða til skilvirkni og minni kostnaðar fyrir ríkissjóð heldur þvert á móti. Þvert á móti mun það leiða til meiri kostnaðar og minni skilvirkni. Þetta mun verða rándýrt fyrir hæstv. dómsmálaráðherra og íslenskan ríkissjóð og einhvers staðar þarf að sækja peningana. Og hvert verða þeir sóttir? Í öryggi landsmanna. Þetta er í alvörunni það sem ég tel að sé að gerast hér.



[10:51]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Þetta mál er grafalvarlegt og það er hægt að ræða það út frá ýmsum hliðum, út frá framkvæmdarvaldi, út frá því hlutverki sem við höfum hér í þessum sal og einnig út frá þjóðaröryggismálum. Það er meginhlutverk Landhelgisgæslunnar að sinna öryggisgæslu, björgun og löggæslu á hafinu og til slíkra starfa var þessi flugvél keypt. Ríkisendurskoðun gerði í úttekt sinni athugasemdir við að hún væri ekki tiltæk til þessara starfa vegna útleigu og gagnrýndi það. Þessi aðgerð sem dómsmálaráðherra virðist ætla að ráðast í varðar þjóðaröryggi og hlýtur að verða til umræðu í þjóðaröryggisráði á næsta fundi.



[10:53]
Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Án þess að fara í efnislega umræðu um þetta vil ég bara hvetja hæstv. forseta til að skapa okkur þingmönnum á þessum vettvangi svigrúm til að ræða varnir landsins og tengd mál. Það fellur auðvitað undir eina af frumskyldum ríkisins að sinna vörnum og eftirliti í landhelginni og þar fram eftir götunum. Ég held því að það væri vel við hæfi, hæstv. forseti, að umræðu um þessi mál verði komið fyrir á dagskrá þingsins við fyrsta hentugleika.

Ég veitti því ekki athygli eða áttaði mig ekki á því í umræðum um nýsamþykkt fjárlög að þessar afleiðingar yrðu komnar fram í byrjun febrúar, nokkrum vikum seinna. En mér segir svo hugur að tekjurnar af sölu þessarar flugvélar og sparnaði í rekstri hrökkvi ekki til nema brotabrots af fjáraustrinum í borgarlínu, svo við setjum þetta í samhengi. Það má því víða ná fram sparnaði þótt sú vél sem best gagnast til að vakta landhelgi landsins sé ekki seld.



[10:54]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Við höfum rætt örlítið um stöðuna í heiminum og stríð í Evrópu, en flugvélin er auðvitað líka öryggistæki hér innan lands. Svo ég vitni nú í einn af okkar færustu sérfræðingum, Magnús Tuma Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, þá líkir hann þessu við það að lögreglan seldi alla bíla sína og færi fótgangandi í útköll. Það er fullkomlega eðlilegt að dómsmálaráðherra, ef hann selur eina tæki Landhelgisgæslunnar sem hægt er að nota í slíkar aðgerðir, tilkynni þinginu um það, að hann kynni það fyrir allsherjar- og menntamálanefnd og utanríkismálanefnd. Ég hef óskað eftir því að allsherjar- og menntamálanefnd verði með utanríkismálanefnd á fundi í komandi viku ef formanni utanríkismálanefndar hugnast að halda fund, en a.m.k. verður hv. allsherjar- og menntamálanefnd boðuð til fundar um þetta mál. (Forseti hringir.) Þetta er grafalvarlegt mál. Við höfum horft á eldgos og jarðskjálfta og jarðhræringar undanfarin ár. Við höfum leitað að fólki á hafi úti. Þetta er ótrúleg ráðstöfun.



[10:56]
Guðbrandur Einarsson (V):

Herra forseti. Ég held að flestum landsmönnum, þar á meðal mér, hafi brugðið við að heyra fréttir gærkvöldsins um að það ætti að selja þessa vél. Maður hafði hvergi heyrt það í umræðunni nokkru sinni að þetta stæði til. Mér fannst það skrýtið að hlusta á forstjóra Landhelgisgæslunnar lýsa þessu yfir af því að það kom greinilega í ljós að hann var mjög ósáttur. Og þegar hann lýsir stöðunni um þær stoðir sem Landhelgisgæslan byggir á þá er flugvélin ein af þeim þremur grunnstoðum sem Landhelgisgæslan byggir á. Aðrar eru þá þyrlurnar og skipin. Ef hægt er að gera þetta með þessum hætti, getur þá viðkomandi ráðherra bara gripið til þess að selja aðrar stoðir þegar honum sýnist svo? Verða varðskipin seld næst, eða hvað gerist?



[10:57]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir með mörgum sem hér hafa talað, að þau komi á óvart þessi áform sem hér eru fyrirhuguð og ekki síst í ljósi þess að við erum nýbúin að fjalla um og samþykkja fjárlög. Ég hefði gjarnan eins og margir aðrir hér viljað vita af þessari stöðu, að þetta væri á döfinni og hvort við hefðum getað tekið ákvörðun um það á Alþingi að bregðast með einhverjum hætti við því. Ég mun því boða til fundar í fjárlaganefnd á morgun og mun óska viðveru dómsmálaráðherra og Landhelgisgæslunnar til þess að við getum farið yfir þetta mál og rætt það ofan í kjölinn. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt. Þetta er allt of stórt til þess að það fari í gegn og ég man svo sem ekki eftir söluheimild vegna þessarar flugvélar í fjárlögunum þannig að ég tel að það sé mjög mikilvægt að við ræðum þetta í nefndinni og það strax á morgun.



[10:58]
Andrés Ingi Jónsson (P):

Virðulegur forseti. Eitthvað eru nú samskiptin í stjórnarflokkunum lítil ef formaður fjárlaganefndar kemur af fjöllum varðandi það að dómsmálaráðherra ætli að selja einn af grunninnviðum Landhelgisgæslunnar. Ef við skoðum líka fjármálaáætlun sem var samþykkt hérna á síðasta vetri þá er þar vikið að stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar þar sem er talað um að það þurfi að auka eftirlit með aukinni viðveru TF-Sifjar og ráðuneytið segir bara að það verði áskorun komandi ára að vinna úr þessu og tryggja fjármagn til að bregðast við þeim kostnaði sem í því felist. Það er ekki bara að það hafi ekkert komið fram hér á þingi um að það eigi að selja þessa vél heldur hefur beinlínis verið sagt að það þurfti að treysta grundvöll rekstursins. Það að ráðherra ákveði þetta upp á sitt einsdæmi á sama tíma, og það er nú á tengdu rekstrarsviði, og það eru þrjú ár liðin síðan var ákveðið að fara í tilraunaverkefni með sjúkraþyrlur til að létta þeim rekstri af Landhelgisgæslunni, (Forseti hringir.) það stóra hagsmunamál fyrir íbúa dreifðari byggða landsins hefur setið á hakanum (Forseti hringir.) hjá ríkisstjórn Katrínar Jakobssdóttur og nú á að bíta höfuðið af skömminni og henda flugvélinni úr landi líka.



[11:00]
Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá að lesa aðeins upp úr því sem kemur fram í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar:

„Að mati Ríkisendurskoðunar hafði útleiga á TF-SIF til erlendra verkefna dregið úr landamæraeftirliti, eftirliti á djúpslóð og komið niður á viðbúnaði vegna leitar og björgunar. Til að bæta úr stöðunni þyrfti vélin að sinna verkefnum hérlendis allt árið og áhöfnum hennar að fjölga úr tveimur í þrjár.“

Síðan er vitnað í mat Landhelgisgæslunnar sem er að það væri mikilvægast í því skyni að auka eftirlit TF-Sifjar með því að tryggja viðveru hennar hér á landi og mönnun allan sólarhringinn. Ríkisendurskoðun kemst að þeirri niðurstöðu að mikilvægt sé að viðvera TF-Sifjar hér á landi verði aukin svo stofnunin verði betur í stakk búin til að uppfylla meginhlutverk sitt sem er að sinna öryggisgæslu, björgun og löggæslu á hafinu umhverfis Ísland. Hæstv. dómsmálaráðherra bregst við þessu og selur vélina. Það er sem sagt niðurstaða hæstv. dómsmálaráðherra, bein niðurstaða og ákvörðun, að veikja þessa þætti. (Forseti hringir.) Þetta virðist gert án þess að það eigi sér eitthvert samtal hér stað, greinilega, augljóslega, á milli stjórnarflokkanna. (Forseti hringir.) Hvernig í ósköpunum geta menn sætt sig við að þetta sé með þessum hætti?



[11:01]
Forseti (Birgir Ármannsson):

Forseti verður enn og aftur að minna á að liðurinn um fundarstjórn forseta beinist að því að ræða dagskrá þingsins eða fundarstjórn forseta. Aðrir möguleikar eru fyrir hendi fyrir þingmenn til að taka mál til efnislegrar umfjöllunar.



[11:01]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þetta snýst um dagskrá þingsins, um dagskrá nefnda, um upplýsingar sem við fáum hingað til að geta átt í þeirri lýðræðislegu umræðu sem þarf að eiga sér stað þegar á að taka ákvarðanir eins og þessar. Fyrir jól kom dómsmálaráðherra ásamt Fangelsismálastofnun t.d. til fjárlaganefndar og sagði að það þyrfti 200 milljónir til að skerða ekki þjónustu, sem var algjörlega á horriminni þá. Þá spurðum við í fjárlaganefnd: En hvað þyrfti mikið til að fullfjármagna þjónustuna, sem enginn vill eins og bent hefur verið á? Við spurðum Fangelsismálastofnun um það og fengum minnisblað um það. Hvað haldið þið að það þurfi mikið til þess að fullfjármagna þjónustuna að mati Fangelsismálastofnunar? Svarið var 300 milljónir til að fara að lögum um hvernig á að sinna fangelsismálaþjónustu hérna á Íslandi. Það vantar bara 300 milljónir. Þetta er ótrúlegt, forseti. Ekki fengum við að vita þetta fyrir samþykkt fjárlaga. Ekki fengum við að vita að það ætti að selja flugvél Landhelgisgæslunnar. Þetta er það sem við fáum ekki að ræða hér á þingi og þess vegna erum við hérna í fundarstjórn forseta.



[11:03]
Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegi forseti. Mig langar nú að byrja á því hrósa formanni fjárlaganefndar fyrir að ætla að taka þetta mál til umfjöllunar í nefndinni. Þar á málið auðvitað að vera. En ég hjó eftir því að hún nefndi orðið söluheimild. Ég vænti þess að ráðherrar þurfi í raun og veru söluheimild til að fá að selja ríkiseignir. Það gerist ekki bara þegar þeim dettur í hug og eftir því í hvaða skapi þeir eru. Þá spyr maður: Er ráðherra að fara út fyrir sitt valdsvið eða sínar heimildir þegar hann ákveður upp á sitt einsdæmi að einni af grunnstoðum Landhelgisgæslunnar verði bara hent út og hún seld? Mér finnst þetta vera spurning sem þarf að svara. (Forseti hringir.) Er ráðherra að fara eftir lögum þegar hann vinnur svona og vinnubrögðin eru þessi?