153. löggjafarþing — 59. fundur
 2. feb. 2023.
hækkun verðbólgu.

[11:05]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Forseti. Þvert á spár byrjaði árið með því að verðbólga hækkaði upp í tæp 10%. Í fyrsta sinn í 14 ár eykst verðbólga í janúar og við vitum að allir helstu umsagnaraðilar, eins og Neytendasamtökin, verkalýðshreyfingin o.fl., vöruðu eindregið við þessu, að þetta myndi leiða til hækkana sem síðan gerðist, hækkana á matvöru, hækkana á bensíni, áfengi, og þetta er allt saman í boði ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin gaf nefnilega merkið og hún getur ekki litið fram hjá þeirri ábyrgð sinni. Ég heyrði síðan fjármálaráðherra og stjórnarliða segja nú síðustu daga að fólk sé bara að misskilja þetta, misskilja eigið líf, misskilja launaumslagið, misskilja verðhækkanir á matarkörfunni, misskilja greiðsluna á húsnæðislánunum og svo eigi fólk bara að vera þolinmótt og almenningur megi alls ekki fara í að magna upp verðbólgudrauginn með því að eyða of miklu. Það er náttúrlega hjákátlegt að hlusta á þessa afneitun stjórnarliða síðustu daga.

Við fjárlagaumræðuna fyrir jól vöruðu Samtök atvinnulífsins og fleiri umsagnaraðilar, ásamt okkur, mjög harðlega við mjög miklum lausatökum á ríkissjóði, þið munið það; 90 milljarða fjárlagafrumvarp í 120 milljarða. Við vöruðum við ósjálfbærri útþenslu ríkisútgjalda og fjárlagahalla til a.m.k. 2027. Vandamálið er í fyrsta lagi ákvarðanir ríkisstjórnar um allar þessar hækkanir, þær leiða til verðbólgu og ef Seðlabankinn hækkar vexti sína, stýrivexti, í næstu viku er það m.a. annars í boði ríkisstjórnarinnar. En vandamálið er ekki bara þessar ákvarðanir, vandamálið er þensla, og ekki síst þensla ríkissjóðs. Þar liggur meginvandamálið. Ríkið er rekið með massífum halla og ballið var byrjað löngu fyrir Covid. Og núna sjáum við að slakinn í ríkisfjármálum er jafnvel meiri en fyrir Covid. Ríkisstjórnin þenur út ríkissjóð stefnulaust, eiginlega stjórnlaust eins og við heyrum, og lætur í raun Seðlabankann einan um það, og heimilin í landinu, að takast á við verðbólguna.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvað (Forseti hringir.) ætlar ráðherra og ríkisstjórn að gera til að vinna gegn verðbólgunni, til að slá á útgjaldaþenslu ríkissjóðs, til þess að vera í liði með seðlabankastjóra en ekki vinna gegn markmiðum hans um að hafa verðbólguna lága?



[11:08]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég verð nú í fyrsta lagi að segja að mér finnst ekki heil brú í þessum málflutningi hér (Gripið fram í.) og það er byrjað á því að leggja fólki orð í munn sem hafa bara einfaldlega ekki fallið, t.d. af mínum vörum, bara langt því frá. Hér er annars vegar sagt að það bara gangi ekki að ríkið láti gjaldskrárhækkanir fylgja verðlagi. Reyndar hækkuðu gjaldskrár ríkisins um 7% í því sem við sjáum núna að er 10% verðbólga. Gjaldskrárnar eru þess vegna að rýrna að verðgildi um þessar mundir. Og svo hins vegar er sagt: Hvað ætla menn að gera? Staðreynd málsins er sú að ef ríkið lætur t.d. gjaldskrá sína rýrna verulega að verðgildi í þessari verðbólgu þá er ríkisstjórnin ekki að hjálpa neitt til við verðbólguna.

Áhrif gjaldskrárhækkana núna um áramótin voru fyrirséð. Þau eru mælanleg og lágu fyrir þinginu. Þau eru á bilinu 0,4–0,5% af þessari verðbólgu sem er upp á 9,9%. Það sem við vitum um stöðuna í dag er að skattar lækkuðu um 6 milljarða um áramótin vegna hækkunar á persónuafslætti og hækkunar á þrepamörkum í tekjuskatti. Því er spáð að hinn almenni vinnumaður muni hafa u.þ.b. 50.000 kr. meira á milli handanna á mánuði á þessu ári vegna launahækkana og skattalækkana um áramótin — 50.000 kr. meira á mánuði, að kaupmáttur haldi áfram að vaxa. En verðbólgan er áhyggjuefni og ég tek undir með hv. þingmanni um það. Það er hins vegar mikill misskilningur að meginsökudólgurinn í því efni sé ríkissjóður, mikill misskilningur. Ég ætla að nefna eina staðreynd. Laun hafa á síðustu 12 mánuðum hækkað um 12,4% á Íslandi. Það er launavísitalan desember 2021 til desember 2022. Það eru ósjálfbærar launahækkanir. Það er algerlega ljóst að m.a. ríkissjóður og sveitarfélögin sem þurfa að rísa undir slíkri launaþróun verða á útgjaldahlið sinni að hafa einhverjar forsendur á tekjuhliðinni. Það birtist m.a. í því að menn verða að hafa tekjur, til að mynda í gegnum gjöld. Það er algerlega fráleitt miðað við þann afkomubata sem hefur verið á ríkissjóði ár frá ári að við séum ekki að stíga í takt við Seðlabankann.



[11:10]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Það er bara þannig að fyrir jól þá varaði seðlabankastjóri eindregið við þessu og sagði: Ég hef þungar áhyggjur af þessum miklu og stjórnlausu útgjöldum. Hann hafði það. Og ríkisstjórnarflokkarnir fóru einmitt í það að vinna gegn verðbólgumarkmiðum Seðlabankans. En þetta er bara allt saman einn stór misskilningur: Þetta er vinnumarkaðnum að kenna. Þetta er almenningi að kenna, bara einn stór allsherjarmisskilningur. Ég man ekki eftir jafn mikilli afneitun fjármálaráðherra og ég er alveg viss um að fjármálaráðherra harðkjarna vinstri stjórnar hefði ekki getað gert betur. Seðlabankinn er að misskilja þetta. Og ef það verður vaxtahækkun í næstu viku þá er hún algerlega í boði þessarar ríkisstjórnar. Viðskiptablaðið segir m.a. í gær, sem ég hélt nú að Sjálfstæðisflokkurinn læsi nokkuð reglulega: Verðbólga og vextir eru algerlega í boði þessarar ríkisstjórnar út af þessum stanslausu útgjöldum sem hún stendur fyrir og eru í hennar boði. Hún er að vinna gegn verðbólgumarkmiðunum. Milton Friedman, sem ég hélt einmitt líka að Sjálfstæðisflokkurinn hafi einu sinni þekkt, sagði einmitt: Verðbólga er ekki vinnumarkaðnum að kenna. Verðbólga er ekki launþegahreyfingunni að kenna. Verðbólga er ekki almenningi að kenna. Hún er ríkisstjórninni að kenna sem hefur ekki hemil á ríkisútgjöldum. Hennar er ábyrgðin. Í guðanna bænum farið að horfast í augu við eigin ábyrgð á eigin gjörðum einhvern tímann. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[11:11]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Það sem við leggjum aðaláherslu á í störfum ríkisstjórnarinnar er að styðja við og bæta lífskjör þjóðarinnar. Það hefur gengið afskaplega vel, það hefur gengið betur heldur en annars staðar. Við sjáum það á öllum hagtölum að staða heimilanna er sterk. Eiginfjárstaða hefur batnað mikið. Kaupmáttur heldur áfram að vaxa, meira að segja í þessari verðbólgu. Ef Seðlabankinn hefur ekki áhyggjur af launahækkunum á Íslandi upp á 12,4% á síðasta ári þá er mér illa brugðið. Ef menn halda að 4% launahækkun í desembermánuði einum árið 2022 sé minna áhyggjuefni heldur en það að við fullfjármögnuðum heilbrigðiskerfið í ljósi stöðunnar, við 2. umr. fjárlaga, upp á um 17 milljarða, þá held ég að menn séu á miklum villigötum. Við mættum að fullu þörf heilbrigðiskerfisins við 2. umr. fjárlaga sem var skynsamleg ráðstöfun en hérna eru menn í raun og veru að segja að við hefðum átt að sleppa því, (Forseti hringir.) þessi viðbótarútgjöld við 2. umr. hafi verið slíkt áhyggjuefni að við hefðum átt að sleppa því. (Forseti hringir.) Það var sagt hér í þessum ræðustól. Á móti því skipti engu máli þótt launin hækki og hækki í hverjum mánuði, það muni ekki enda í verðbólgu eins og hagfræðibækurnar sýna, reynsla okkar sýnir og annarra þjóða.