153. löggjafarþing — 59. fundur
 2. feb. 2023.
samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

[11:13]
Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Í vikunni komu fram upplýsingar, raunar undir áramót en í vikunni spannst umræða um það að kostnaður við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins væri að hækka mjög mikið frá upphaflegum áætlunum, 50 milljarðar raunar. En það er eitt tiltekið atriði þar sem sker sig sérstaklega úr sem er breyting á Sæbraut þar sem er horfið frá áætlunum um mislæg gatnamót og farið í stokkagerð sem hækkar kostnaðinn við Sæbrautarverkefnið um 650% eða 15 milljarða. Á sama tíma er áætlað að byggja stokka á þremur svæðum á höfuðborgarsvæðinu fyrir samtals 54.000 milljónir og sú tala á alveg örugglega eftir að hækka. Nú heldur hæstv. fjármálaráðherra á meginþorra hlutabréfa í fasteigna- og þróunarfélaginu Betri samgöngum ohf. Lítur ráðherra svo á að félagið hafi stöðu til að taka ákvarðanir um breytingu verkþátta sem gjörbreyta kostnaði og kalla þar af leiðandi á auknar tekjur fyrirtækisins, væntanlega í formi hærri tafagjalda eða borgarlínuskatts eins og rétt væri að nefna það? Þetta er fyrri spurningin.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um áform sem virðast nú liggja fyrir um að byggja þrjá stokka á höfuðborgarsvæðinu sem eiga að kosta 54 milljarða. Innviðaráðherra upplýsti það hér í þinginu síðastliðinn þriðjudag að ekkert samtal hefði átt sér stað um hver njóti tekna af sölu lands sem verður til í tengslum við byggingu stokkanna. Sjálfum þykir mér augljóst að þær tekjur skuli ganga til Betri samgangna ohf., en hver er afstaða hæstv. ráðherra?

Í þriðja lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi enn sem komið er, haldandi á meginþorra hlutabréfa í þessu félagi, séð rekstraráætlun fyrir verkefnið?



[11:15]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi Sæbrautarstokkinn þá er alveg ljóst að í upphaflegum áætlunum var ekki gert ráð fyrir jafn kostnaðarsamri uppbyggingu á stokk eins og nú er verið að horfa til og það er alveg sjálfstæð ákvörðun að ákveða hvort slík framkvæmd á að fjármagnast inn í Betri samgöngum eða með öðrum hætti. Það er alveg augljóst að þó að menn uppfæri kostnaðaráætlanir þá verða engir nýir peningar til við það, þvert á móti verður brekkan brattari og verkefnið getur tekið lengri tíma. Reyndar er höfuðborgarsáttmálinn á eftir áætlun eins og sakir standa. Það hefur legið fyrir lengi að við eigum eftir að taka margar grundvallarákvarðanir. Þó hafa verið tekin ákveðin skref, eins og t.d. með framsali Keldnalandsins sem við höfum vonir til þess að geti orðið enn verðmeira en við lögðum upp með í upphafi. En við eigum eftir að taka mjög stórar ákvarðanir eins og þær hvort ríkissjóður eigi að leggja félaginu beint til fjármagn eins og gert er ráð fyrir í höfuðborgarsáttmálanum að hægt sé að gera. Eða á eingöngu að treysta á gjaldtöku á höfuðborgarsvæðinu til að fjármagna þær framkvæmdir sem sáttmálinn geymir? Hvernig eigum við að fást við þessa tímalínu? Það verður ekki til neitt aukafjármagn, eins og ég sagði, við það að uppfæra kostnaðaráætlanir. Við þurfum að taka afstöðu til þess hvort tímalínuna þurfi að endurskilgreina.

Þegar á heildina er litið tel ég einfaldlega orðið algerlega nauðsynlegt að uppfæra höfuðborgarsáttmálann sem við getum sagt að hafi farið úr gömlum 2019 krónum, í kringum 120 milljarða, og liggur núna á verðlagi ársins í ár, að teknu tilliti til hærri kostnaðar, í kringum 180 milljarða. Framlag sveitarfélaganna inn í þessa 180 milljarða er um 18 milljarðar. Restin eru fjármögnunarleiðir sem ríkið mun þurfa að sjá um. Þessi umræða öll tengist auðvitað líka endurskoðun á tekjustofnum ríkisins vegna eldsneytis og umferðar í landinu og við þurfum að tryggja að við komum út með sem einfaldast og skilvirkast kerfi.



[11:17]
Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna því að hæstv. ráðherra sjái fyrir sér nauðsyn þess að endurskoða samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins enda virðist hann að stórum hluta vera kominn í eitthvert stjórnleysi. Ég hef aftur á móti áhyggjur af því að það sé losarabragur á því hvernig þessar ákvarðanir verða á endanum teknar og hvernig þættir verði fjármagnaðir.

En til að nýta ferðina þá langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra um það sem nú hefur verið rætt töluvert undanfarið, en það var aðalmeðferð í máli Frigusar gegn Lindarhvoli í síðustu viku í héraðsdómi og reglulega kemur upp umræða um það að hæstv. forseti Alþingis skirrist við að birta skýrslu setts ríkisendurskoðanda um málið, sem hefur núna legið hjá þinginu árum saman. Mig langar í ljósi þess að nú eru þessar upplýsingar svona að leka jafnt og þétt út í kjölfar málflutnings í héraðsdómi að spyrja: Hver er afstaða hæstv. ráðherra til þess að skýrsla setts ríkisendurskoðanda þess tíma, Sigurðar Þórðarsonar, sé enn ekki birt?



[11:19]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég hef svo sem ekki lagt í neina sérstaka rannsókn á því máli sem hefur verið á borði forsætisnefndar. Ég horfi hins vegar þannig á að þegar Ríkisendurskoðun er falið að skoða tiltekin málefni þá geti bara verið ein skýrsla frá ríkisendurskoðanda. Sú skýrsla er komin út, hún var gefin út og það getur bara verið ein skýrsla í hverju máli. Það sem vísað er til er ekki endanleg skýrsla setts ríkisendurskoðanda heldur einhvers konar skjal, sem ég kann ekki nánari deili á og hef ekki séð, (Gripið fram í.) og getur ekki hafa verið endanleg niðurstaða í málinu.

Fyrir Alþingi, sem hefur ríkisendurskoðanda sem sinn trúnaðarmann, hlýtur aðalatriðið að vera það að embættið hefur skilað skýrslu um málið til þingsins.