153. löggjafarþing — 59. fundur
 2. feb. 2023.
sérstök umræða.

skýrsla GREVIO um Ísland.

[13:29]
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Í nóvember síðastliðnum kom út ný skýrsla GREVIO-nefndarinnar svokölluðu sem hefur það hlutverk að meta árangur stjórnvalda í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Skýrslan er til komin vegna aðildar Íslands að Istanbúl-samningnum svokallaða um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi og fjallar um það hvernig Ísland uppfyllir skyldur sínar samkvæmt samningnum. Í stuttu máli er niðurstaðan nokkuð alvarleg fyrir Ísland þótt inn á milli séu ýmsir ljósir punktar. Kerfið hér á landi er m.a. ekki nægilega í stakk búið til að takast á við margþætta samfélagslega mismunun sem t.d. konur af erlendum uppruna, konur með fötlun eða konur með vímuefnavanda glíma við. Telur nefndin m.a. að íslenska ríkið gefi ekki nægan gaum að brotum á borð við umsáturseinelti, heiðursglæpi, þvingaðar ófrjósemisaðgerðir, þvinguð, hjónabönd og kynfæralimlestingar, en það er ofbeldi sem líklegt er að konur af erlendum uppruna verði fyrir.

Í skýrslunni kemur fram að miðað við þann fjölda tilkynninga sem berast árlega um heimilisofbeldi bendi önnur gögn til þess að úrræði til þess að fjarlæga gerenda séu ekki nýtt nægjanlega, þ.e. lögregluúrræði sem geta gagnast bæði konum sem eru þolendur ofbeldis og börnum. Þar að auki nýti yfirvöld ekki nægilega oft úrræði á borð við nálgunarbann gegn gerendum ofbeldis til að tryggja öryggi þolenda.

Í skýrslunni er sérstaklega vikið að forsjármálum þar sem heimilisofbeldi hefur komið við sögu. Leggur nefndin áherslu á það að barn verði vitni að ofbeldi sé ofbeldi gegn barninu. Taldi nefndin jafnframt ótækt að foreldri sem er þolandi ofbeldis sé skyldugt til að leita sátta við gerandann undir rekstri mála er varðar forsjá. Áréttar nefndin að ofbeldi í nánu sambandi bendi til valdaójafnvægis og að kona sem er þolandi í slíku sambandi þurfi sérstakan stuðning í samningaviðræðum um forsjá og umgengni. Því er ótækt að þolendur séu jafnvel skyldaðir til að taka þátt í stjórnsýslulegu ferli um umsjá barna sinna með geranda sínum.

Þessi skýrsla sýnir okkur svart á hvítu að kerfið okkar tekur ekki nógu vel utan um þolendur ofbeldis þegar kemur m.a. að forsjármálum, þar á meðal börn sem verða fyrir ofbeldi eða vitni að því. Þessi mál hafa vissulega verið í umræðunni en það liggur ljóst fyrir að brýn nauðsyn er á breytingum í framkvæmd forsjár- og umgengnismála þegar um ofbeldi í nánu sambandi er að ræða. 31. gr. Istanbúl-samningsins er skýr um það að heimilisofbeldi skuli tekið inn í myndina við töku ákvarðana í forsjár- og umgengnismálum.

Nefndin fjallaði einnig um fjölda tilkynntra kynferðisbrota en fyrirliggjandi gögn benda til þess að rannsókn kynferðisbrota sé felld niður í of mörgum tilvikum. Það er umræða sem baráttufólk fyrir réttindum þolenda hefur haldið uppi undanfarið, en enn sem komið er hafa stjórnvöld litlum árangri náð í að fjölga brotum sem ná frá kæru yfir í ákæru og að endingu sakfellingu.

Þá taldi nefndin brýna þörf á að koma á fót neyðarsíma skipaðan fagfólki sem konur geta hringt í allan sólarhringinn og að bæta þurfi verulega aðgengi að aðstoð fyrir þolendur á landsbyggðinni.

Að mati nefndarinnar er fjármögnun frjálsra félagasamtaka sem veita ráðgjöf og sálfræðiaðstoð ekki nægilega tryggð til lengri tíma og úr því þurfi stjórnvöld að bæta. Nefndin taldi jafnframt skort á samræmdri gagnaöflun og samhæfingu þjónustuaðila, sér í lagi lögreglu, ákæruvalds, dómsvalds og heilbrigðisþjónustu, líkt og Istanbúl-samningurinn kveður á um. Er nauðsynlegt að komið verði á fót stofnun sem hefur yfirsýn yfir þennan málaflokk til að tryggja að Ísland uppfylli skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum.

Í ljósi alls þessa eru þær spurningar sem ég legg fyrir hæstv. forsætisráðherra, sem er ráðherra jafnréttismála og mannréttindamála, eftirfarandi:

Hvaða vinna er í gangi hjá ríkisstjórninni við að bæta úr þeim vanefndum Íslands á Istanbúl-samningnum sem fram koma í skýrslum GREVIO? Hefur ríkisstjórnin í hyggju að gera breytingar á framkvæmd, leggja til breytingar á lögum eða með öðrum hætti bregðast við þeirri gagnrýni sem fram kemur í skýrslunni á meðferð forsjár- og umgengnismála hér á landi og þá hvernig? Til hvaða aðgerða hefur ríkisstjórnin gripið eða hyggst grípa til að tryggja kerfisbundna, skyldubundna þjálfun í upphafi starfs fyrir allt fagfólk sem kemur að málum þolenda ofbeldis?



[13:34]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur fyrir tækifærið til að ræða skýrslu GREVIO-nefndarinnar sem hefur eftirlit með Istanbúl-samningnum um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Þessi skýrsla var birt í nóvember síðastliðnum og þar koma fram helstu niðurstöður nefndarinnar um framkvæmd samningsins hér á landi, auk tilmæla til Íslands um hvað megi fara betur.

Ég vil fyrst draga það fram, af því að við höfum ekki verið fullur aðili að Istanbúl-samningnum fyrr en frá árinu 2018, að það var eitt af fyrstu verkefnum minnar ríkisstjórnar að ljúka því og er þetta því fyrsta skýrsla nefndarinnar til Íslands. Ég vil líka segja að það er ánægjulegt að sjá GREVIO-nefndina fagna þeim víðtæku ráðstöfunum sem gripið hefur verið til á undanförnum misserum til að vinna gegn kynbundnu ofbeldi. Ég þarf ekkert að rifja upp fyrir hv. þingmönnum allar þær breytingar sem við höfum samþykkt á löggjöf, síðast um bætta réttarstöðu brotaþola en þar á undan ný lagaákvæði um umsáturseinelti og kynferðislega friðhelgi sem eiga rætur að rekja til vinnu sem ég setti af stað á fyrsta ári mínu í forsætisráðuneytinu um heildstæða endurskoðun á málaflokknum. Það er dómsmálaráðuneytið sem hefur haft með þessar lagabreytingar að gera. En síðan eru margar mikilvægar ábendingar í skýrslunni þar sem einmitt er líka verið að fara yfir eftirfylgni og hvað út af stendur. Ég vil fullvissa hv. þingmann um það að við tökum þær ábendingar alvarlega og munum halda áfram að grípa til ráðstafana sem miða að því að innleiða samninginn og vinna gegn kynbundnu ofbeldi og auka jafnrétti á Íslandi, enda er kynbundið ofbeldi ein mesta samfélagslega meinsemd sem við er að eiga.

Ég vil byrja á að segja frá því að á grundvelli framkvæmdaáætlunar í jafnréttismálum hefur verið skipaður starfshópur þvert á ráðuneyti sem hefur það hlutverk að móta tímasetta landsáætlun um innleiðingu Istanbúl-samningsins og meta framfylgni ákvæða hans hér á landi. Sá hópur mun taka þessa skýrslu GREVIO til skoðunar. Síðan verða athugasemdir GREVIO-nefndarinnar hafðar til hliðsjónar við ýmsa vinnu sem nú þegar er í gangi innan ráðuneyta. Þar vil ég nefna sérstaklega starfshóp sem vinnur að nýrri aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota, sem hefur tekið mið af athugasemdum GREVIO í sínum störfum. Þessar athugasemdir verða líka hafðar að leiðarljósi við framkvæmd aðgerðaáætlunar um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni fyrir árin 2021–2026. Það var ég sem mælti fyrir þeirri áætlun hér á þingi og hún var samþykkt í mjög góðri sátt. Við erum að vinna að innleiðingu þeirrar áætlunar og ég vil greina frá því hér að u.þ.b. 98% grunnskóla á Íslandi eru komnir með forvarnateymi í takti við þá aðgerðaáætlun og við hyggjumst birta mjög reglulega upplýsingar um það hvernig okkur miðar en líka að taka þessar athugasemdir inn.

GREVIO-nefndin bendir á mikilvægi þess að tryggja fjármögnun félagasamtaka sem veita stuðning til þolenda ofbeldis. Ég vil nefna sérstaklega í því samhengi nýlegan samstarfssamning forsætisráðuneytisins við Stígamót um framhald verkefnisins Sjúkt spjall, sem er netspjall þar sem ungmenni geta rætt við ráðgjafa Stígamóta um kynferðisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum. Ég vil líka nefna að í lok síðasta árs veitti ég sex stofnunum og samtökum sem styðja við þolendur ofbeldis sérstakan aukastyrk sem voru Bjarkarhlíð, Bjarmahlíð, Kvennaathvarfið, Rótin, Konukot, Sigurhæðir og Stígamót. Hins vegar er það auðvitað svo að það er mikilvægt að fjármögnun þessara samtaka og stofnana sé í föstum farvegi, bara eins og við höfum verið að vinna að með ýmsum frjálsum félagasamtökum, ég get nefnt Samtökin '78 sem dæmi, þannig að þessar fjárhæðir séu fyrirsjáanlegar fyrir þessi samtök og stofnanir.

Hv. þingmaður nefndi meðferð forsjár- og umgengnismála. Þá vil ég nefna að starfshópurinn sem hefur verið skipaður til að móta landsáætlun um innleiðingu samningsins mun taka allar ábendingar nefndarinnar til skoðunar, þar á meðal varðandi vernd barna gegn ofbeldi við meðferð umgengnis- og forsjármála. Það er unnið að skýrslu innan dómsmálaráðuneytisins um áhrif heimilisofbeldis á umgengnismál á grundvelli skýrslubeiðni frá nokkrum þingmönnum hér á Alþingi sem á að skila bráðlega.

Ég vil síðan aðeins nefna fræðsluna og þjálfunina sem ýmsar ábendingar eru um í skýrslunni. Ýmsar aðgerðir eru þegar í gangi. Ég vil nefna aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota þar sem eru ýmsar aðgerðir sem lúta að fræðslu og þjálfun lögreglumanna og ákærenda hefur verið efld. En það er líka lögð áhersla á fræðslu og þjálfun í öðrum áætlunum. Ég nefndi hér áðan þingsályktun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi. Ég vil líka nefna vinnu sem hefur verið í gangi og byggir á skýrslu heilbrigðisráðherra frá árinu 2021 en nýlega komu fregnir af því úr heilbrigðisráðuneytinu að verið er að innleiða samræmt verklag og bæta þar með þjónustu heilbrigðiskerfisins við þolendur heimilisofbeldis. Það byggist sem sagt á skýrslu frá því á árinu 2021 þannig að þar erum við líka að fara að sjá breytingar í rétta átt. Félags- og vinnumarkaðsráðherra skipaði starfshóp í nóvember sem á að taka til skoðunar hvernig megi tryggja þá þjónustu sem þar heyrir undir sem standa þarf bæði þolendum og gerendum ofbeldis til boða með tilliti til Istanbúl-samningsins.

Það er svo sannarlega svigrúm til að gera betur þannig að ég vil bara fagna umræðunni og þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu. Þessi samningur sem heyrir undir Evrópuráðið er einn sá mikilvægasti sem við höfum fullgilt og þó að margt gott hafi verið gert er enn, eins og ég segi, svigrúm til að gera betur.



[13:40]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka kærlega fyrir þessa umræðu. Hún er mjög mikilvæg og þessi skýrsla er mjög mikilvæg ábending og áminning fyrir okkur um hvað við megum gera betur. Ég held að við ættum kannski, bæði við hér í þingsal en ekki síst stjórnvöld, að reyna að beina sjónum okkar að þeim ábendingum sem þarna er þó að finna og hafa minni áhuga á því sem búið er að gera. Ég held að það væri gott fyrir okkur að reyna að horfa fram á veginn: Hvar getum við gert betur?

Mig langar að nota minn stutta tíma hér til að tala um ákvarðanir í umgengnis- og forsjármálum. Bent er á það í skýrslunni að GREVIO-nefndinni þykir ekki nægjanlega horft til ofbeldis sem átt hefur sér stað gagnvart börnum eða sem börn hafa orðið vitni að, sem hefur þá beinst gegn foreldrum barnanna þegar teknar eru ákvarðanir í umgengnis- og forsjármálum. Þetta get ég staðfest, hafandi verið lögmaður í þessum málaflokki, að er allt of lítið horft til, bæði af hálfu sýslumanna en líka af hálfu dómstóla, sérstaklega þegar um er að ræða börn sem hafa orðið vitni að ofbeldi gagnvart hinu foreldrinu. Það virðist vera sem að viðhorfið sé, já, af því að barnið sjálft varð ekki fyrir höggunum þá beri ekki að líta til þess. En rannsóknir sýna að ofbeldi sem beinist gegn nánum aðstandanda að barninu ásjáandi hefur jafnvel meiri áhrif og langvarandi á líðan og heilsu til frambúðar en höggin sem á barninu dynja. Við verðum að stuðla að því að þeir sem hafa með þessi mál að gera taki meira tillit til þessa.

Ég vildi óska þess að við hefðum meiri tíma til að tala um þetta en ég vildi koma inn á þetta og hvetja stjórnvöld til þess að búa til regluverk sem tryggir það að börn sem verða vitni að ofbeldi í nánum samböndum inni á heimili fái einhvers staðar skjól.



[13:42]
Bryndís Haraldsdóttir (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni og hæstv. forsætisráðherra fyrir þessa umræðu hér. Ég held að hún sé brýn og góð en tek undir það að tvær mínútur duga eiginlega engan veginn til að koma sjónarmiðum á framfæri. Við í hv. allsherjar- og menntamálanefnd munum líka fjalla um þessa skýrslu í næstu viku og ég geri ráð fyrir því, og ég vona að það sé mikil samstaða um það hér á þingi, að við höldum áfram að tala um þessi mikilvægu mál. En ég held samt sem áður að það sé líka ástæða til að horfa aðeins til fortíðar og horfa til þess sem gert hefur verið. Það er alveg ljóst að við höfum stigið mjög veigamikil og góð skref í þessum málaflokki og nægir að minna á Barnahús, Bjarmahlíð og Bjarkarhlíð og þann mikla áhuga sem erlendir aðilar hafa sýnt þessum fordæmum okkar. Ég held að það sé ekki síst mikilvægt að halda því til haga á hvaða forsendum þessi úrræði og þessi hugmyndafræði fór af stað svo að við getum örugglega staðið vörð um það áfram.

Því miður er heimilisofbeldi allt of algengt og líka hér á landi. Það er auðvitað algengt víða í heiminum og því miður er það líka þannig að hliðarverkanir Covid eru m.a. þær að það eru mun fleiri tilkynningar en áður um þessi mál. Mér finnst ástæða til að minnast á öll þau frumvörp sem við höfum verið að afgreiða að undanförnu. Á síðasta þingi afgreiddum við frumvarp um stöðu brotaþola og refsiþyngingu vegna barnaníðs og kynþáttafordóma. Áður höfðum við fjallað um frumvarp um kynferðislega friðhelgi, frumvarp um umsáturseinelti og endurskoðun á mansalsákvæðum hegningarlaganna. En það er alveg ljóst að skilaboðin í þessari skýrslu og í annarri umræðu um þessi mál eru alveg skýr. Við verðum sem þjóð að taka höndum saman og uppræta hvers kyns ofbeldi í samfélaginu okkar og þá ekki síst ofbeldi á heimilum. Og mig langar að taka undir með hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur, sem talaði hér á undan mér, það er mikilvægt að við skoðum þær leiðir sem sýslumaður er að nýta sér í skilnaðarmálum, (Forseti hringir.) þ.e. þessar sáttaumleitanir og málamiðlanir. Það verður að tryggja að hagsmunir barnanna séu alltaf númer eitt, tvö og þrjú (Forseti hringir.) og það er auðvitað óásættanlegt að með einhverjum hætti sé horft fram hjá ofbeldi sem börnin hafa þurft að þola eða horfa upp á.



[13:45]
Tómas A. Tómasson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Hv. þingmenn og kæra þjóð sem fylgist með. Það er mér sönn ánægja að ræða þessi mál. Það er margt áhugavert sem kemur fram í skýrslu GREVIO, en augljóslega þurfum við að gera betur í ýmsum atriðum og ég hvet ráðherra málaflokksins til að hefja sem fyrst vinnu við úrbætur til samræmis við ábendingar skýrsluhöfunda. Skýrslan bendir á ýmis atriði sem þarfnast úrbóta og nefnir m.a. að efla þurfi starfsemi Barnahúss enda sé stofnunin undirmönnuð og gjarnan löng bið eftir viðtalstíma. Ég vona svo innilega að við getum öll sameinast um þetta því að þetta þarf að laga sem fyrst.

Í skýrslunni er fjallað er um ýmsa annmarka á íslenskri löggjöf sem þurfi að leiðrétta til samræmis við Istanbúl-samninginn. Er þar bent á að breyta þurfi ákvæðum laga sem fjalla um kynferðislega áreitni, andlegt ofbeldi í samböndum, limlestingu kynfæra kvenna og fleiri dæmi mætti nefna, t.d. limlestingu kynfæra drengja. Okkar löggjöf hefur tekið breytingum til hins betra á undanförnum árum en verkefnið er viðvarandi og okkur ber að líta til ábendinga sem þessara og gera breytingar í þágu mannréttinda hið fyrsta.



[13:46]
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ofbeldi sem skaðar andlega friðhelgi einstaklings getur haft alvarlegar og langvarandi afleiðingar á hann, líðan hans og sálarlíf. Slíkt ofbeldi er því miður veruleiki sem margar konur glíma við og getur reynst erfiðara fyrir stjórnvöld að taka á þó svo að stór skref hafi verið stigin í þeim efnum á síðustu árum. Umsáturseinelti, þar sem einstaklingur, svokallaður eltihrellir, situr um annan einstakling, hótar honum, eltir hann og fylgist með, getur haft alvarleg áhrif á fórnarlömb þess, flokkast sem alvarlegt andlegt ofbeldi sem engin kona á að þurfa að líða. Istanbúl-samningurinn fjallar m.a. um umsáturseinelti en meðlimir samningsins skuldbinda sig til að vernda konur gagnvart slíku ofbeldi og vinna að samhæfðri aðferð til að uppræta það.

Í GREVIO-skýrslunni, sem við höfum hér til umfjöllunar, kemur fram að bæta þurfi að öflun gagna um umsáturseinelti. Án gagna er ómögulegt að fá heildarmynd af vandanum hér á landi og með því að grípa inn í með viðeigandi aðgerðum. Í skýrslunni eru stjórnvöld hvött til að fylla í eyðurnar hvað þessi gögn varðar. Ljóst er að auka má umfjöllun og fræðslu um slíkt ofbeldi hér á landi með því að opna samtal og koma þessu ofbeldi upp á yfirborðið í íslensku samfélagi. Í kjölfarið er hægt að þjálfa viðeigandi aðila í hvernig taka skuli á slíku ofbeldi og koma í veg fyrir framtíðartilvik.

Virðulegur forseti. Í okkar samfélagi eru of mörg tilvik um umsáturseinelti, líklega mun fleiri en við gerum okkur grein fyrir. Það er mín von að stjórnvöld fylgi ábendingum GREVIO-skýrslunnar, bæti gagnaöflun, auki fræðslu og þjálfun og vinni markvisst að því að uppræta umsáturseinelti hér á landi.



[13:49]
Hanna Katrín Friðriksson (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þarfa umræðu og það var fín samantekt sem hæstv. forsætisráðherra fór yfir um það sem við höfum gert í þessum málaflokki vegna þess að á sama tíma og við ræðum það sem þarf að laga er mikilvægt að hafa líka sjónir á því sem vel er gert. Viðreisn hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á jafnréttismál, þar með talið vinnu gegn kynbundnu ofbeldi. Árið 2018 samþykkti Alþingi frumvarp okkar um breytta skilgreiningu nauðgunar, þ.e. að nauðgun yrði skilgreind út frá skorti á samþykki. Í kjölfarið, fyrir nokkrum mánuðum síðan, fjórum tel ég, óskaði hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson eftir skýrslu frá dómsmálaráðherra með upplýsingum um hvort verklagi hafi verið breytt hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum í kjölfar þess að lögin voru samþykkt og hvort starfsfólk lögreglu, ákæruvalds og dómstóla hafi fengið sérstaka fræðslu um umræddar breytingar. Við bíðum reyndar enn eftir skýrslunni en þessar upplýsingar munu hafa þýðingu vegna þess að fræðslan er gríðarlega mikilvægt atriði hér. Það er gott og blessað að fara í einstaka átaksverkefni en það er viðvarandi verkefni að stemma stigu við þeim ósóma sem kynbundið ofbeldi er. Það þarf fræðslu til þeirra sem starfa innan kerfisins og líka til almennings. Við höfum lagt fram tillögu um þessi mál sem ekki hefur hlotið brautargengi og það er mjög miður. Þess í stað hafa verið skipaðir hópar um ákveðin mál, m.a. um kynfræðslu. Þessir hópar hafa skilað góðri vinnu en sú vinna hefur verið í formi ábendinga sem því miður hafa dagað uppi í skúffu einstaka ráðherra. Það er því alveg ljóst að það þarf að taka þessi mál fastari tökum. Það er svo hættulegt við stöðuna eins og hún er, af því að það er ýmislegt gott við hana, að við verðum værukær og við þurfum einfaldlega að taka alvarlega skyldu okkar að takast á við og útrýma kynbundnu ofbeldi. Þetta er ekki átaksverkefni. Þetta er viðvarandi verkefni. (Forseti hringir.) Ég tel að það sé fyrst og fremst lærdómurinn af þessari skýrslu sem við, rétt eins og allir aðrir, getum tekið til okkar.



[13:51]
Gísli Rafn Ólafsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur fyrir að vekja athygli á þessari skýrslu, sem því miður er mikill áfellisdómur um margt sem tengist ofbeldi gegn konum. Ég hafði vonast til þess að hæstv. forsætisráðherra myndi ekki bara tala um það sem hefur gerst heldur setti fókus á það sem þarf að gera, því að við getum ekki endalaust skreytt okkur með skrautfjöðrum þess sem við höfum gert heldur verðum að horfa á það hvernig við ætlum að stöðva ofbeldi gegn konum.

Í þessari skýrslu koma fram bæði, já, jákvæð atriði, en það er búið að telja þau svo oft upp hér að ég ætla ekki að endurtaka þau, en það eru líka atriði hér inni sem benda á hvað megi betur gera. Þrátt fyrir að í lok ársins hafi hæstv. forsætisráðherra veitt styrki til félagasamtaka þá má það alls ekki vera þannig að þau þurfi að treysta á góðvilja hæstv. ráðherra í lok árs heldur þarf, eins og bent er á í skýrslunni, að tryggja að fjármögnun þessara frábæru samtaka, sem vinna að þessum málum, sé tryggð reglulega. Þar að auki er bent á að margt þurfi að gera til að bæta málsmeðferð ofbeldismála. Þá langar mig bara að nefna svar við nýlegri fyrirspurn sem ég fékk frá dómsmálaráðuneytinu sem sýndi fram á að því miður er málsmeðferðartími ofbeldismála aftur að lengjast. Ég treysti því og trúi að hæstv. forsætisráðherra komi með okkur í lið í því að berjast gegn því að þetta haldi áfram.



[13:53]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég fagna því að við séum hér í dag að ræða þessa GREVIO-skýrslu sem snýst um varnir og baráttu gegn heimilisofbeldi sem beinist að konum. Þessi umræða í dag er í takt við kjarnann í minni hreyfingu og það sem við höfum barist fyrir alla tíð. Eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur var að fullgilda Istanbúl-samninginn. Þar er kveðið á um réttindi brotaþola og skyldur opinberra aðila til að vernda og aðstoða konur sem verða fyrir ofbeldi, sinna forvörnum gegn ofbeldi sem og að bjóða ofbeldismönnum úrræði og meðferð. Strax í byrjun setu sinnar sem forsætisráðherra setti Katrín Jakobsdóttir á legg stýrihóp um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi og afrakstur þeirrar vinnu, eins og hér hefur verið farið yfir, var þingsályktunartillaga og aðgerðaáætlanir sem byggðu á niðurstöðum hópsins.

Það eru gleðitíðindi að í skýrslunni er heildarniðurstaðan góð. Til að mynda er stjórnvöldum hrósað fyrir að vera með skýran vilja til að skuldbinda sig til að koma á kynjajafnrétti með sérstakri áherslu á baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum og bæta stöðu þolenda í lagalegum skilningi. Minnst er á þau úrræði sem komið hefur verið á fót eins og hér hefur verið rakið, t.d. Barnahús, Bjarkarhlíð og Bjarmahlíð. Einnig var bent á það á síðasta ári, í annarri stórri skýrslu UN Women og Þróunarsamvinnustofnunar Sameinuðu þjóðanna, að aðgerðir íslenskra stjórnvalda í Covid-19 faraldrinum, þar sem sérstaklega var staðið að úrræðum fyrir þennan viðkvæma hóp, hefðu tekist með miklum ágætum.

En eins og svo oft áður má gera betur en gert hefur verið. Hæstv. forsætisráðherra fór hér ágætlega yfir þau verkefni sem fram undan eru til þess að bregðast við þeim atriðum sem fram komu í skýrslunni. En ég vil nefna það hér, af því að verið var að ræða það áðan, að til að auka málshraða í réttarvörslukerfinu hefur fjárlaganefnd Alþingis bætt við fjármunum, sérstaklega hvað varðar þann hluta. Við vinstri græn leggjum áherslu á að Ísland eigi að vera í forystu á alþjóðavettvangi þegar kemur að því að tryggja konum og börnum öryggi um allan heim. Við eigum líka að miðla þeirri reynslu og þekkingu sem hér hefur skapast.



[13:56]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra sagði um skýrsluna, með leyfi forseta:

„Þetta er jákvæð skýrsla í nær alla staði fyrir Ísland og undirstrikar fyrst og fremst þann einhug sem hefur ríkt innan míns ráðuneytis, og reyndar allrar ríkisstjórnarinnar, um þann forgang sem þessi mál eiga að njóta.“

Þessi ummæli ráðherrans eru í mikilli mótsögn við niðurstöður skýrslu GREVIO um Ísland. Þær eru áfellisdómur yfir íslensku samfélagi og sýnir getuleysi við að verja börn gegn ofbeldi. Þó er skylda okkar um það rík og margskráð og samþykkt í lögum og reglum. Ein af grundvallarreglum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er að það sem er barni fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar ákvarðanir um málefni barna. Ákvæðum barnasáttmálans er ætlað að tryggja börnum víðtæka vernd gegn ofbeldi og leggur þá skyldu á aðildarríki að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að börn verði ekki fyrir illri meðferð. Það gera reyndar barnaverndarlög en framkvæmdinni er ábótavant.

Í skýrslunni er bent á að í ákvörðunum í umgengnis- og forsjármálum barna sé ekki nægjanlega horft til ofbeldis sem átt hafi sér stað, hvort heldur sem er gagnvart barni eða öðru foreldri þess. Gerðar eru athugasemdir við fjölda niðurfellinga í kynferðisbrotamálum gegn konum, bent á skort á úrræðum fyrir konur af erlendum uppruna, fyrir konur sem búa utan þéttbýlis og fyrir konur með fötlun. Vegna skorts á skráningu er erfitt að fá heildarmynd af fjölda mála, ákæra og sakfellinga sem kemur í veg fyrir að hægt sé að gera viðeigandi rannsóknir og meta skilvirkni réttarkerfisins.

Frú forseti. Miðað við viðbrögð hæstv. dómsmálaráðherra er ástæða til að ætla að ráðherrann sem fer með mikilvæga hluta þessara mála átti sig ekki raunverulega á stöðunni og það er áhyggjuefni.



[13:59]
Diljá Mist Einarsdóttir (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Aðgerðir og barátta gegn heimilisofbeldi og ofbeldi gegn konum er ærið verkefni. Það er því ánægjulegt að niðurstöður fyrstu eftirlitsskýrslu nefndar vegna Istanbúl-samningsins um Ísland séu jákvæðar. Þannig fagnar eftirlitsnefnd Evrópuráðsins víðtækum ráðstöfunum sem íslensk yfirvöld hafa gripið til til þess að standa vörð um réttindi kvenna og jafnrétti á Íslandi. Forgangsröðun hæstv. dómsmálaráðherra og ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki skilar augljóslega árangri en þótt niðurstaðan sé heilt yfir jákvæð er þar sömuleiðis að finna ýmis tilmæli til Íslands um hvað megi betur fara. Í skýrslunni er m.a. bent á nauðsyn þess að skoða þætti sem hafa ekki verið í forgrunni hér, m.a. heiðursmorð og umskurð eða kynfæralimlestingar kvenna. Á Íslandi er staða mannréttinda góð í alþjóðlegum samanburði og það á við um flest ríki í hinum vestræna heimi þótt við höfum þurft að vera á varðbergi að undanförnu. Víða annars staðar er staðan allt önnur. Í fjölmörgum ríkjum er misskipting og fátækt útbreidd og ofbeldi og mismunun gegn konum viðgengst þar sem jafnrétti kynjanna er verulega ábótavant og skaðlegar menningarhefðir eru útbreiddar, hefðir eins og umskurður kvenna. Áætlað er að yfir 200 milljónir kvenna hafi sætt kynfæralimlestingum, þar með talið um 600.000 konur á EES-svæðinu. Við þekkjum jafnvel dæmi um slíkt hrottafengið ofbeldi á Norðurlöndunum, ofbeldi sem er iðulega kerfisbundið og með samþykki og fyrir tilstuðlan forráðamanna. Stúlkur sem verða fyrir kynfæralimlestingum eru beittar ólýsanlegu ofbeldi og bera ævilangt ör, bæði líkamlegt og sálrænt. Þótt við höfum þegar lögfest bannákvæði við þessu í almennum hegningarlögum, með vísan til reynslu m.a. Norðurlandanna, hljótum við að taka ábendingu eftirlitsnefndarinnar alvarlega.

Ég vil þakka málshefjanda fyrir frumkvæðið og öðrum hv. þingmönnum sem ég hef hlýtt á í þessari þörfu umræðu.



[14:01]
Tómas A. Tómasson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Hv. þingmenn, kæra þjóð. Það er ákveðin kaldhæðni fólgin í því að Tyrkland hafi sagt sig úr samningi sem kenndur er við Istanbúl. Tyrkland gerðist aðili að samningnum árið 2014 en sagði honum upp árið 2021. Það er viðvarandi barátta að tryggja mannréttindi og þótt árangurinn undanfarna áratugi sé góður þá getur komið bakslag sem þetta. Því miður er það staðreynd að í fjölda ríkja um allan heim eru mannréttindi kvenna, barna og minnihlutahópa þverbrotin á hverjum degi, og þegar ég segi minnihlutahópa þá á ég ekki síður við það fólk sem skilgreinir sig ekki sem karl eða konu. Þetta fólk verður fyrir miklu aðkasti og er mjög þýðingarmikið að tekið sé tillit til þeirra og þau fái þá vernd og þá hlýju og umönnun sem þarf því að það er mjög erfitt að bera þetta í brjósti sér, að upplifa sig hvorki sem karl eða konu, en við tökum tillit til þess.

Við megum þakka fyrir þá mannréttindavernd sem íslensk löggjöf veitir okkur en við verðum jafnframt að vera meðvituð um að hvenær sem er getur komið bakslag, jafnvel á Íslandi. Þá getum við aldrei réttlætt athafnaleysi í þessum efnum með því að vísa til annarra landa og segja: Mmm, við gerðum a.m.k. betur en þau.

Ég vil að lokum þakka hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur fyrir að efna til þessarar umræðu og jafnframt hæstv. ráðherra og öðrum þingmönnum fyrir góða umræðu um þetta mikilvæga mál . Ég hvet ráðherra til dáða og vona að hann fylgi eftir þeim ábendingum sem fram komu í skýrslu GREVIO og segi eins og við gerum alltaf í Flokki fólksins: Áfram veginn.



[14:03]
Hanna Katrín Friðriksson (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Í ábendingum GREVIO er komið inn á það að hjálpa þurfi konum að komast úr ofbeldissambandi og aðstoða þær við að ná fjárhagslegu sjálfstæði. Viðreisn lagði fram tillögu, og hlaut stuðning þingheims, um lagabreytingu sem gerir fólki auðveldara að skilja við maka sinn, sérstaklega þegar um ofbeldissambönd er að ræða. Þessi lagabreyting kemur til áhrifa í júlí á þessu ári. Það var þannig að ef sótt var um skilnað og annar aðilinn neitaði þá stoppaði málið svo gott sem. Þó svo að kona næði hugrekki til að fara fram á skilnað við ofbeldismanninn þá gat hann haldið henni fastri í sambandinu. Jafnvel þó að eiginmaður sé með dóm fyrir ofbeldi gegn makanum voru lögin, og eru enn einfaldlega þannig, að ef hann neitaði var ekki hægt að veita konunni skilnað. Þetta er að taka breytingum sem betur fer og sýnir kannski hve góðum verkum við getum komið fram hér á þingi um ákveðin mál, þó svo að um stjórnarandstöðuflokk sé að ræða.

Það kemur líka fram í skýrslunni að veita þurfi þolendum kynferðisofbeldis skjótara aðgengi að sálfræðiþjónustu. Af því tilefni langar mig til að nefna annað mál sem Viðreisn lagði fram og fékk góðar undirtektir í þingsal — það var fjöldi meðflutningsmanna og málið fór með góðum og miklum stuðningi hér í gegn — en það var að koma sálfræðiþjónustu undir greiðsluþátttökukerfi sjúklinga. Þar skortir töluvert upp á framkvæmdir af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Ég held að ábendingin í þessari skýrslu sé langt frá því að vera eina ábendingin um að það er gríðarlega mikilvægt að klára þetta mál með sóma. En það er mjög mikilvægt að sjá þetta tiltekið sem eitt af atriðunum hér inni. Eftirfylgni og aðstoð við fólk sem hefur orðið fyrir ofbeldi, á sama tíma og við ætlum að leita allra leiða til að stoppa það, er gríðarlega mikilvæg. Það er réttlætismál fyrir viðkomandi einstaklinga og þeirra nánustu og það er gríðarlega mikilvægt mál samfélagslega. Ég vonast til að sjá þetta mál ná fram að ganga, þ.e. framkvæmdina á því, í anda samþykktar Alþingis. Ég þakka fyrir umræðuna.



[14:06]
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka öllum hv. þingmönnum sem tóku þátt í þessari mikilvægu umræðu og þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin sem mörg kveiktu von og voru gleðileg. Ég vil árétta það sem mér þykir mikilvægast í þessari skýrslu og það er árétting nefndarinnar á því að ofbeldi gegn verndara barns er ofbeldi gegn barninu. Það er áhugavert og mikið gleðiefni að nefndin skuli hafa komið auga á þetta og gert þessar athugasemdir þar sem við sem höfum reynslu af þessum málum, ýmist sem lögmenn eða persónulega, höfum bent á þetta um áraraðir en því miður talað fyrir daufum eyrum. Frekari beiting úrræða á borð við nálgunarbann og annað það sem unnt er að gera til að tryggja öryggi þolenda á heimili sínu svo þeir þurfi ekki að leita út fyrir það eftir öryggi gegn áframhaldandi ofbeldi, þykir mér einnig mjög mikilvægt.

Ég tek undir með hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni varðandi það að tryggja þarf langtímafjármögnun frjálsra félagasamtaka sem veita þolendum aðstoð og heyrðist mér hæstv. forsætisráðherra vera með áætlanir þar að lútandi. En ég vil jafnvel ítreka það sem kemur fram í skýrslunni varðandi mikilvægi þess að tryggt sé að þolendur hafi aðgang að slíkri aðstoð hvar sem er á landinu.

Ég tek einnig undir með hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur varðandi það ofbeldi og þá ógn sem skýrslan bendir á að geti farið undir radarinn hjá okkur vegna skorts á því að sjónum sé beint að þeim hópum sem sæta svokallaðri margþættri mismunun, svo sem konum af erlendum uppruna, fötluðum konum og konum sem glíma við vímuefnavanda. Konur í þessum hópum eru sérstaklega berskjaldaðar fyrir kynbundnu ofbeldi vegna jaðarsetningu sinnar.

Að lokum vil ég taka undir með hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson. Það er hætt við því að við verðum værukær þegar við fáum það hrós sem þó er að finna í skýrslunni. Ég tekur undir með undrun hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur á ummælum hæstv. dómsmálaráðherra um skýrsluna og velti í kjölfarið fyrir mér hvert traust hæstv. forsætisráðherra sé til sitjandi dómsmálaráðherra í ljósi þeirra ummæla hans sem ekki bentu til þess að hann hefði sérstakar áhyggjur af þeim alvarlegu athugasemdum sem gerðar eru í skýrslunni.

Ég lýk þessu með því að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið og vil hvetja ríkisstjórnina til góðra verka í þessum efnum.



[14:09]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. málshefjanda og þakka þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Það hefur mjög margt gerst frá árinu 2018 þegar Istanbúl-samningurinn var fullgiltur og í raun og veru mjög merkilegt hvað margt hefur gerst, en um leið er gríðarlegt svigrúm til umbóta. Ég vil nefna hér í lokin örfá atriði. Ég vil taka undir með þeim sem hér hafa rætt atriði sem eru kannski ekki til umræðu á Alþingi á hverjum degi eins og þvingaðar ófrjósemisaðgerðir, heiðursmorð, kynfæralimlestingar og þvinguð hjónabönd, eitthvað sem við erum ekki vön að ræða í okkar samfélagi en þurfum að sjálfsögðu að vera tilbúin að takast á við. Ég lít svo á að það sé komið í ákveðið ferli eftir að þessi tilmæli eru komin fram. Mér finnst það mjög mikilvægt, sem margir hv. þingmenn hafa nefnt hér, að ekki verði bara horft til þess ofbeldis sem beinist beinlínis að börnum heldur einnig þegar börn verða vitni að ofbeldi. Ég held að þetta sé ein mikilvægasta ábendingin því að þarna held ég að töluverðra úrbóta sé þörf. Ég vil minna á það sem fram kom í máli mínu, að sjálfsögðu bendi ég á það sem vel hefur verið gert, mér finnst mjög margt gott hafa gerst á undanförnum árum, að þetta varðar öll ráðuneyti. Ég fór bara yfir nokkur verkefni sem eru að fara af stað hjá félagsmálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti en þetta varðar öll ráðuneyti og þess vegna settum við þennan hóp niður sem er að taka á tilmælunum þvert á ráðuneyti. Áfram er mjög stór hluti þessara mála hjá dómsmálaráðuneytinu en ég vil líka minna á eigin ábyrgð, ábyrgð forsætisráðuneytisins sem vinnur núna úr niðurstöðum grænbókar um mannréttindi og þessi mál eru nátengd. Ég á von á því að leggja hér fram frumvarp um nýja mannréttindastofnun og ég lít á landsáætlun um mannréttindi sem annað lykilviðfangsefnið af því að við — og þetta er minn síðasti punktur, frú forseti — eigum það til að verða afslöppuð þegar við teljum að staðan sé nokkuð góð. En ef sagan hefur kennt okkur eitthvað þá er það það að í mannréttindamálum má aldrei slaka á. Það getur alltaf orðið bakslag og við þurfum alltaf að vera á vaktinni. Ég þakka annars fyrir góða umræðu.