153. löggjafarþing — 60. fundur
 3. feb. 2023.
um fundarstjórn.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[10:31]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp í stól strax að loknum fundi í fjárlaganefnd með þessa spurningu: Myndi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins selja slökkviliðið vegna þess að ekki hafi kviknað nægilega oft í húsinu, heimilinu? Myndi ráðherra Sjálfstæðisflokksins selja slökkviliðið? Þetta er einhvern veginn sú spurning sem við stöndum frammi fyrir. Það er vísað í 98 klukkustunda aðgerðir af hálfu Landhelgisgæslunnar sem röksemd fyrir því að selja þá vél sem við höfum verið að ræða hér í þingsal. Það fór ekkert samtal fram í fjárlaganefnd. Það hefur ekkert samtal átt sér stað í utanríkismálanefnd. Ég ætla bara að leyfa mér að lýsa því yfir að það ríki fullkominn trúnaðarbrestur hér varðandi þá upplýsingagjöf sem hæstv. dómsmálaráðherra stundaði í fjárlagavinnunni varðandi þennan málaflokk. Fjárlaganefnd studdi hann heils hugar í auknum framlögum til löggæslu og fangelsismála og sú mynd sem teiknuð var upp fyrir fjárlaganefnd um stöðu Landhelgisgæslunnar var einfaldlega röng af hálfu dómsmálaráðherra.



[10:33]
Björn Leví Gunnarsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Í lok nóvember var frétt á mbl.is með viðtali við dómsmálaráðherra þar sem hann talar um aukin framlög til Landhelgisgæslunnar sem þýði að við getum staðið undir kröfum um viðbúnað og viðbragðs- og björgunargetu Gæslunnar. Þetta er það sem Landhelgisgæslan sér, þetta er það sem þingið sér en er síðan ekki satt.

Þegar við skoðum fjármálaáætlun fyrir árið 2023 er gert ráð fyrir 400 til 450 klukkustundum af flugi árið 2023. Það hefur verið tæplega 100 klukkustundir. Þetta er það sem við bjuggumst við að verið væri að fjármagna, að sjálfsögðu. Ekki satt? Þetta er fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sjálfrar. En nei, það vantar upp á, það vantar svo mikið upp á að það á að selja flugvélina sem átti að sinna þessum 400 klukkutímum. Hvernig á þá að sinna þessum 400 klukkutímum?

Við erum á algerlega nýjum slóðum með upplýsingaóreiðuna (Forseti hringir.) sem er í fjárlögum þessa árs. Þetta er langversta (Forseti hringir.) fjárlagafrumvarp sem við höfum fengið hingað inn á gólfið, ég sagði það um leið og það kom hér (Forseti hringir.) í upphafi hausts. Þetta er afurðin sem við erum að sjá. Við fáum engar upplýsingar um (Forseti hringir.) það hver staðan er í raun og veru, hversu mikinn pening þarf. Þetta er óásættanlegt.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða ræðutíma sem er takmarkaður um fundarstjórn forseta.)



[10:34]
Forseti (Jódís Skúladóttir):

[10:35]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég verð að leita ásjár hæstv. forseta þingsins, Birgis Ármannssonar, hvað varðar þann skollaleik sem ríkisstjórnin er stöðugt í gagnvart þinginu. Nú er það allt í einu í þinginu að kenna að ekki sé nægjanlegt fjármagn fyrir Landhelgisgæsluna. Þetta er ekki boðlegur málflutningur, virðulegi forseti. Það liggur fyrir að bæði Landhelgisgæslan og þingið stóðu í þeirri góðu trú að Landhelgisgæslan væri vel fjármögnuð og raunar stærði ráðherrann sig af því að hafa tryggt það. Við hljótum að þurfa að grípa til varna fyrir þingið sem er sífellt að lenda í því að vera kennt um afglöp ráðherra þessarar ríkisstjórnar. Við eigum betra skilið en þetta, virðulegi forseti.



[10:36]
Dagbjört Hákonardóttir (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég spyr: Til hvers eru fjárlaganefndir? Til hvers er fjárlaganefnd Alþingis ef ekki til þess að fá í hendur upplýsingar sem gefa rétta og raunhæfa mynd af fjárhagsstöðu ríkisstofnana og áætlunum þeirra og hvað þurfi til til þess að þær geti starfað? Þessar upplýsingar lágu ekki fyrir og og nefndin fór á mis við þessar upplýsingar. Það verður ekki hægt að halda öðru fram. Ég hélt bara í barnslegri trú minni að það væri hægt að ganga út frá þessum upplýsingum sem vísum. Hvaða menningu er ríkisstjórnin að skapa gagnvart ríkisstofnunum? Á að biðja fallega og má ekki hafa hátt? Ég spyr.



[10:37]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Hluti af þingflokki Samfylkingar, sem ekki var staddur á nefndarfundum, fór í heimsókn til Landhelgisgæslunnar í morgun og fræddist um það sem þeirra bíður. Ákvörðun dómsmálaráðherra að selja björgunar-, varnar- og eftirlitstæki með þeim rökum að það hafi ekki verið notað nógu mikið stenst enga skoðun. Það er vegna sveltistefnu ríkisstjórnarinnar að Landhelgisgæslan hefur neyðst til þess að leigja út þetta öryggistæki okkar. Það er sveltistefnu ríkisstjórnarinnar um að kenna að almannaöryggi er núna stefnt í hættu, að þjóðaröryggi er stefnt í hættu, að fiskveiðieftirlit verður í skötulíki o.s.frv. Við heyrðum neyðarkall þeirra jarðvísindamanna sem hafa notið dyggrar aðstoðar Landhelgisgæslunnar. Þetta varðar almannaöryggi, (Forseti hringir.) þjóðaröryggi og það verður að grípa í handbremsuna núna áður en hæstv. dómsmálaráðherra verður okkur að meira tjóni.



[10:38]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Fyrst: Við beitum fundarstjórn vegna þess að ríkisstjórnin hefur valið sér þá leið að eiga ekki samtal við Alþingi Íslendinga. Við beitum fundarstjórn því að það er okkar eina leið til að fá fram svör. Hæstv. dómsmálaráðherra lýsti því yfir í fjölmiðlum í gær að þegar hann hefði lagt fram minnisblað um sölu vélarinnar í ríkisstjórn. Þar hefðu engar athugasemdir verið gerðar. Ég hef ekki heyrt aðra ráðherra ríkisstjórnarinnar tjá sig um hvernig þetta kom t.d. við hæstv. utanríkisráðherra á þeim tímum sem við lifum nú. Lagði sá ráðherra orð í belg? Var einhugur um þetta? Var hæstv. ráðherra spurður svara um það hvert planið væri eftir sölu, hvað tæki við? Verður hér biðstaða í einhverjar vikur, mánuði, ár áður en ríkisstjórnin ætlar að fara að huga að almannaöryggi fólksins í landinu vegna veðra, náttúruhamfara eða stríðsreksturs? Eða er það seinni tíma vandamál?



[10:39]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Í gær fór hæstv. dómsmálaráðherra í ræðustól Alþingis og gerði lítið úr þeim áhyggjum þingsins sem viðraðar hafa verið vegna fyrirhugaðrar sölu á flugvél Landhelgisgæslunnar. Hann talaði um það í ræðustóli Alþingis að mun hagkvæmari leið væri að leita til Isavia og vélar sem Isavia býr yfir.

Virðulegi forseti. Þessi leið einfaldlega er ekki rétt, hún er ekki hagkvæmari, hún snýr að þjóðaröryggi lands og ríkis og þjóðar. Hér er um grafalvarlegt mál að ræða þegar hæstv. ráðherra stígur hér í ræðustól Alþingis og talar um að það sé hagkvæmari leið að fá vél Isavia sem er ekki með þeim búnaði sem vél Landhelgisgæslunnar býr yfir varðandi leit og vöktun og það nauðsynlega hlutverk sem vélin og mannskapurinn hefur yfir að ráða. Það er einfaldlega óboðlegt að koma hér fyrir þingið (Forseti hringir.) og lýsa því yfir að það sé hagkvæmari leið að leita til Isavia. Það er einfaldlega rangt og hún vegur að þjóðaröryggi okkar, þessi nálgun, og ég efast um að stjórnarþingmenn allir séu sammála þessari leið hæstv. ráðherra.



[10:41]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Hér ríkir þagnarbindindi ráðherranna og stjórnarliða í salnum sem þó hafa sumir hverjir lýst hneykslan sinni og undrun en virðast ekki hafa margt um þetta að segja núna. Ég hvet þá til að þrýsta á ráðherrann að hætta við þessar fyrirætlanir og koma í veg fyrir að við þurfum að horfa upp á lægra öryggisstig Íslendinga en verið hefur, að við þurfum að horfa upp á verri afkastagetu okkar til að fylgjast með náttúruvá en við höfum haft og sömuleiðis að við séum sífellt og alltaf að horfa upp á þetta sama rugl, virðulegi forseti, að ráðherra hlaupi á sig og hlaupi svo til baka og kenni þinginu um sín eigin afglöp. Það er ekki ásættanlegt, virðulegi forseti. Ráðherrann verður að svara fyrir sín eigin mistök og hætta að rugla svona í þinginu.



[10:42]
dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Að gefnu tilefni vil ég fyrst leiðrétta það sem kom fram hjá hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur. Hún var að koma af fundi með mér fyrir einhverjum mínútum síðan þar sem ég fór ítrekað, í tvígang, yfir það með henni hvað ég á við með samstarfi um rekstur á flugvél með Isavia. Ég greindi henni frá því að það hefur aldrei verið ætlunin og aldrei komið fram í mínum málflutningi að sú vél myndi leysa vél Landhelgisgæslunnar af hólmi og geta sinnt því hlutverki. En hér er komið í ræðustól Alþingis og vísvitandi, þrátt fyrir þessar upplýsingar, er röngu haldið fram, enn og aftur. Það á auðvitað við um margt í þessu. Ég ítreka að þessi ákvörðun, sem er sársaukafull, er tekin í fullu samráði við Gæsluna. Gæslan lagði fram víðtækar tillögur um það hvernig bregðast mætti við í rekstri. Niðurstaðan er sú, í samvinnu við yfirmann Landhelgisgæslunnar, að þessi aðgerð væri sársaukaminnst, ekki sársaukalaus, alls ekki, út frá þjóðaröryggi. (Forseti hringir.) Og að halda því síðan fram að það standi til að rýra þjóðaröryggismál (Forseti hringir.) í þessu samhengi er auðvitað alrangt. Það hefur komið fram í öllum mínum málflutningi að (Forseti hringir.) til stendur að tryggja einmitt það öryggi sem þessi vél hefur verið að veita í því millibilsástandi (Forseti hringir.) sem mun skapast. Og það er þegar hafin vinna við að vinna úr þeim málum í samvinnu við Landhelgisgæsluna.



[10:44]
Forseti (Jódís Skúladóttir):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti minnir hv. þingmenn og hæstv. ráðherra á að virða ræðutíma.



[10:44]
Björn Leví Gunnarsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Það sem við erum að horfa upp á hérna er að það er verið að kasta vélinni — hún fer fyrst til Ítalíu til 23. febrúar eða eitthvað svoleiðis — og ekkert í staðinn, það á bara að finna einhverjar lausnir. Lausnin sem er verið að ýja að er kannski eitthvert samstarf við Svía sem eru alveg dekkaðir, það er ekkert í boði. Það er einhver vél Isavia sem er eins og, það kom fram á fundi nefndarinnar þó að það hafi ekki verið farið beint í það, að nota kettling í staðinn fyrir leitarhund til að leita að fólki í snjóflóði. Það er ekki sambærilegt. Við erum með bil sem við vitum ekkert hvernig á að brúa. Það er rosalega ábyrgðarlaust af ráðherra að byrja á því að henda tækinu í ruslið áður en hann finnur nýtt. Þegar þessi vél var keypt og var tekin í notkun 2009 hafði verið heimild í fjárlögum frá 2006 til að kaupa nýja vél, sem var skrifað undir 2007. Það tók rúmt ár að útbúa vélina, líka í samvinnu við Svía, en nú er byrjað á algerlega öfugum enda. (Forseti hringir.) Það er byrjað á því að henda vélinni í ruslið. Og hvað svo? Það veit enginn og það er það sem stjórnmál eiga að snúast um, að vita svörin fyrir fram.



[10:45]
Jakob Frímann Magnússon (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Fundarstjórn forseta er almennt góð, ég ætla ekki að tala mikið um hana. Ég ætla líka að biðja okkur um að verja ekkert allt of löngum tíma í tal um flugvélar þó að þetta sé hitamál akkúrat í dag og í gær. Við vitum að almennt eru skattpeningar skilgreindir þannig að fyrsta króna skattgreiðandans fari í að verja landið hans innrásum en önnur krónan fari í að verja hann sjálfan árásum samborgaranna eða annarra. Miðað við hvað aðrar þjóðir verja stórum hluta af sínu árlega búdsjetti til varnarmála, hernaðarmála og slíks, þá held ég að við gætum alveg réttlætt meiri útgjöld á þeim vettvangi. En ég er með hugmynd um að við gætum leyst þetta með einföldum hætti. Það er ekki alveg jafn skýrt til hvers Isavia þarf að reka flugvél eins og Landhelgisgæslan. Henni ber skylda til að verja þá sem eru á sjó úti, lenda í slysum og öðru. Þetta eru líka skilaboð um varnarmátt okkar sjálfra, við eigum ekki að veikja hann. (Forseti hringir.) Ég legg til að við látum flugvél Isavia róa og látum framlög þeirra af hverjum túrista sem lendir á landinu renna til að (Forseti hringir.) reka þá vél sem við viljum ekki missa hér. Við getum léttilega undið ofan af þessu.



[10:47]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég kalla líka eftir afstöðu hæstv. utanríkisráðherra í þessu máli. Það hlýtur að skipta máli hvað hefur verið rætt í ríkisstjórn og hvort hæstv. utanríkisráðherra viðraði áhyggjur sínar yfir því að selja ætti þetta mikilvæga öryggistæki. Ég vil koma með tillögu til að koma til móts við rekstrarvanda Landhelgisgæslunnar og það er að hæstv. dómsmálaráðherra ræði við hæstv. fjármálaráðherra um það hvort hann sem fer með eignarhlutinn í Isavia sé tilbúinn til að falla frá opnunargjaldi sem Landhelgisgæslunni er gert að borga í hvert skipti sem þyrlan þarf að taka á loft frá Reykjavíkurflugvelli utan opnunartíma. Isavia er opinbert hlutafélag í eigu ríkisins, í okkar eigu. Svo mætti jafnvel ræða það að fella niður álögur á olíu sem Landhelgisgæslan þarf að borga ríkinu. Þetta eru hlutir sem hægt er að fara í núna til að tryggja þjóðaröryggi, til að tryggja almannaöryggi. (Forseti hringir.) Hvernig væri að hugsa í lausnum, virðulegi forseti? Við þurfum að koma til móts við Landhelgisgæsluna og standa vörð um SIF og fá hana heim.



[10:49]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Sem þingmönnum ber okkur að vísa ekki til orðaskipta á nefndarfundum, hvað þá á nefndarfundum utanríkismálanefndar sem fjallar um þætti eins og þjóðaröryggi. En þar sem hæstv. dómsmálaráðherra ákvað að fara í það sem okkur greindi á um á fundi hv. utanríkismálanefndar fyrir skemmstu þá vil ég bara ítreka það, frú forseti, að ég var að vísa í tvær ræður hæstv. dómsmálaráðherra hér í gær. Þar staðhæfði hann að viðræður væru hafnar við Isavia um samstarf varðandi notkun á flugvél Isavia, að það væri hagkvæmari lausn. Þetta ítrekaði hann í tveimur ræðum sínum í andsvörum í gær. Þetta er það sem ég var að vísa til. En þetta er í raun og veru lausn sem er alls ekki hagkvæmari vegna þess að til þess að Isavia bjóði fram þá lausn sem ætti að koma í staðinn fyrir vél Landhelgisgæslunnar þyrfti að fara í gríðarlega mikinn kostnað í tækjakaupum, þjálfun o.s.frv. á þeirri vél. (Forseti hringir.) Þetta er því ekki rétt og ég bið hæstv. dómsmálaráðherra að standast nú starfsreglur (Forseti hringir.) þingmanna og vera ekki að bera hér á borð í þingsal orðaskipti sem farið hafa fram á lokuðum nefndarfundum sem okkur ber að greina ekki frá hér í þingsal.



[10:50]
Dagbjört Hákonardóttir (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Verandi nýkomin af fundi fjárlaganefndar verður manni dálítið brugðið við orðfæri dómsmálaráðherra í tengslum við fullt samráð við Landhelgisgæsluna í þessu máli, að teikna þetta upp eins og það hafi næstum því verið þeirra hugmynd að skera niður og selja þessa flugvél. Það er ekki þeirra hugmynd þó að það hafi verið lagt til sem illskásti kosturinn. Fyrirgefið, ég velti því fyrir mér hvaða putta sé best að láta taka af sér þegar maður stendur frammi fyrir því að þurfa að skera niður. Þetta er þjóðaröryggismál. Á viðsjárverðum tímum getum við ekki hætt að halda úti flugvél sem hefur verið á forræði ríkisins í að verða 70 ár. Við viljum SIF heim.



[10:51]
dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Það verður að halda því til haga, sem kom fram í umræðunni áðan, að vélin er á leiðinni til Ítalíu í verkefni; hún hefur verið þar í verkefnum í meira en sex mánuði á hverju ári á undanförnum árum. Hún hefur verið til ráðstöfunar í örfáar vikur eða mánuði á hverju ári á Íslandi. Hún er að fara í slíkt verkefni núna. Það koma fram hugmyndir um að fella niður gjöld og fleira af rekstri Gæslunnar og ég fagna öllum slíkum hugmyndum. Það hefur svo sem alltaf legið fyrir að vélin þurfi að vera úti vegna erfiðleika í rekstri hennar og það gæti hjálpað að fella niður gjöld. Það yrði enginn ánægðari en ég ef greitt yrði fyrir auknu rekstrarfjármagni með einum eða öðrum hætti til þess að til þessarar ráðstöfunar þyrfti ekki að koma núna þótt ég telji að hægt sé að leita hagkvæmari reksturs Gæslunnar eins og annarra stofnana til lengri tíma litið. Aftur vil ég bara nefna (Forseti hringir.) að það er mikilvægt að halda sannleikanum til haga hér í ræðustól. Ég hef aldrei, hvorki í ræðu né riti né á fundum, (Forseti hringir.) hvort sem er í þinginu eða á nefndafundum, talað um að vél Isavia geti leyst þessa vél af hólmi. (Forseti hringir.) Við höfum hafið samtal við Isavia um að það komi önnur vél sem geti sinnt verkefnum fyrir báða aðila. (Gripið fram í.)— Nei, (Forseti hringir.) það hefur bara ekkert með þessa vél að gera sem Isavia rekur í dag, bara akkúrat ekki neitt.



[10:53]
Forseti (Jódís Skúladóttir):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti minnir hv. þingmenn á að vera ekki í samtali við þann sem stendur í ræðustól, orðið er hjá þeim aðila. Forseti biður hv. þingmenn um að halda samtölum utan við þingsal.



[10:53]
Logi Einarsson (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Þetta er orðið alveg ótrúlegt mál og ég trúi ekki öðru en að þingið taki fram fyrir hendur ráðherra. Það er náttúrlega fáránlegt að vísa í notkun á hverju ári eða á hvern klukkutíma á ári, alveg óháð því hvers eðlis starfsemin er. Sum starfsemi er þess eðlis að þar er unnið frá morgni til kvölds, jafnvel allan sólarhringinn, og þarf að vera. Önnur starfsemi lýtur bara allt öðrum lögmálum. Í fyrsta lagi væri hægt að tryggja Landhelgisgæslunni miklu meiri notkun á þessari vél til mikilvægra verkefna ef við veittum fjármagn. Þar fyrir utan er þetta bara starfsemi þess eðlis að hún þarf að vera til staðar óháð notkun. Fjölskylda fer ekki að selja frá sér reykskynjarana vegna þess að það hefur aldrei kviknað í. Ef við berum þetta saman við ýmislegt annað, erum við þá ekki að fara að undirbúa byggingu á stórum íþróttaleikvangi? Það er ekki verið að nota völlinn marga klukkutíma á ári en samt getur reynst nauðsynlegt að byggja hann. Það þarf að hindra þessar vitlausu hugmyndir hæstv. dómsmálaráðherra.



[10:55]
Gísli Rafn Ólafsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Það er alveg ótrúlegt að hlusta á ráðherra reyna að segja að hægt sé að leysa þau hlutverk sem flugvél Landhelgisgæslunnar gegnir með því að nota einhverjar aðrar flugvélar. Ég veit ekki hvaða töfralausnir ráðherra ætlar að töfra út úr erminni. Það hefur komið fram, bæði hjá Gæslunni og hjá vísindamönnum, hjá þeim sem bera ábyrgð á leit og björgun hér á landi, að þessi vél er nauðsynleg, ekki bara vegna öryggissjónarmiða heldur vegna þjóðaröryggis. Slíkar ákvarðanir teknar út í veður og vind án þess einu sinni að koma til fjárlaganefndar og biðja um meiri pening — ég bara skil ekki svona embættisfærslur og vona að þeim fari fækkandi.