153. löggjafarþing — 60. fundur
 3. feb. 2023.
dagskrártillaga.

[10:57]
Forseti (Jódís Skúladóttir):

Eins og tilkynnt var á síðasta þingfundi hefur forseta borist dagskrártillaga, svohljóðandi:

„Undirritaður gerir það að tillögu sinni, í samræmi við 1. mgr. 77. gr. þingskapalaga, að dagskrá næsta þingfundar verði svohljóðandi:

1. Störf þingsins.

2. Greiðslureikningar, 166. mál, lagafrumvarp fjármála- og efnahagsráðherra. — 2. umr.

3. Peningamarkaðssjóðir, 328. mál, lagafrumvarp fjármála- og efnahagsráðherra. — 2. umr.

4. Sértryggð skuldabréf og fjármálafyrirtæki (sértryggð skuldabréf), 433. mál, lagafrumvarp fjármála- og efnahagsráðherra. — 2. umr.

Með þessu er lagt til að dagskrá 60. þingfundar verði samhljóða dagskrá 59. þingfundar, að því undanskildu að ekki er sett á dagskrá 382. mál, frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (alþjóðleg vernd).

Þess er óskað að tillagan verði borin upp til afgreiðslu í samræmi við áðurnefnda grein þingskapa.“

Undir þetta bréf ritar Andrés Ingi Jónsson.



[10:58]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vil klára að lesa dagskrártillöguna sem forseti var að lesa:

„Þannig gefst tækifæri til að liðka fyrir umræðum um þau þrjú lagafrumvörp sem beðið hafa 2. umr. eftir útlendingafrumvarpi alla vikuna sem bendir til þess að stjórnarmeirihlutanum þyki brýnt að ljúka umræðu um þau. Auk þess gefur það allsherjar- og menntamálanefnd tækifæri til að kalla útlendingafrumvarpið til frekari umfjöllunar áður en 2. umr. lýkur í málinu svo hægt sé að vinna það betur og freista þess að svara þeim spurningum sem enn er ósvarað og eiga betra samtal við umsagnaraðila.“

Við berum aftur fram þessa dagskrártillögu til þess að liðka fyrir störfum þingsins og til þess að hægt sé að vinna nauðsynlegar breytingar á útlendingafrumvarpinu sem, eins og ítrekað hefur komið fram, eru verulegar efasemdir uppi um hvort standist stjórnarskrá og því rétt að vinna málið betur áður en það er borið hér upp til atkvæða fyrir þingmenn. Við hvetjum því alla hv. þingmenn og hæstv. ráðherra til þess að greiða þessari tillögu atkvæði sitt.



[11:00]
Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Ástæðan fyrir því að við erum ítrekað að benda þinginu á að það þurfi að senda málið aftur inn í nefnd er að ef 2. umr. klárast þá þurfa þingmenn að greiða atkvæði um þó nokkuð margar greinar í frumvarpinu sem stangast á við stjórnarskrá og mannréttindaákvæði, t.d. mannréttindasáttmála Evrópu. Þetta er mjög skýrt í umsögnum nær allra umsagnaraðila. Það þýðir að það er ekki tækt ef það á síðan að taka málið einhvern veginn inn til umræðu milli 2. og 3. eftir að, hvað? Væntanlega eftir að búið er að hafna þessum greinum frumvarpsins, hvað þá að samþykkja þær. Það gengur ekki. Þess vegna verðum við að fá frumvarpið inn til umræðu í nefndinni núna meðan á 2. umr. stendur, þannig að það sé hægt að greiða atkvæði um greinarnar, um efni frumvarpsins án þess að það stangist á við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála.



[11:01]
Gísli Rafn Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Við höfum ítrekað bent á að það eru greinar í þessu frumvarpi sem stangast bæði á við stjórnarskrá lýðveldisins, sem ég minni alla hv. þingmenn á að við höfum undirritað drengskaparheit um að verja, og við hina ýmsu sáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasáttmála Evrópu. Það eru fordæmi fyrir því að mál hafi verið tekin aftur til nefndar meðan þau voru enn til 2. umr. þegar nákvæmlega svona ástæður lágu fyrir, það voru hlutir í frumvörpum sem brutu í bága við stjórnarskrá. Það var lagað af nefndinni. Við höfum líka óskað eftir því að fá hingað hæstv. ráðherra til að taka þátt í umræðum með okkur, hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra og hæstv. mennta- og barnamálaráðherra. Við teljum líka að það að gefi okkur betri tíma til að eiga það samtal við þá ráðherra sem virðast vera mjög uppteknir og hafa ekki getað komið hingað og rætt við okkur.



[11:02]
Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Smá dæmi um það hvernig gengur í þessu máli: Þegar við erum að tala um atkvæðagreiðsluna í þessu máli er kallað úr sal, hv. þm. Jóhann Friðrik Friðriksson kallar bara: Þetta stenst stjórnarskrá, en mætir ekki hérna í ræðustól Alþingis til að fara í gegnum hverja og eina einustu umsögn þar sem er fjallað um agnúa hverrar og einnar einustu greinar við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála. Nei, hann gerir það með frammíköllum úr þingsal. Það er staðan sem við erum að glíma við hérna og erum að reyna að benda á. Og við höldum því bara áfram, það er ekkert flókið því að málið er það alvarlegt. Það ættu allir að taka það alvarlega þegar svona margir umsagnaraðilar benda á möguleg mannréttindabrot í frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Ég veit að það tók Miðflokkinn einungis eitt álit vegna orkupakkans til að tala um málið hér í, ég veit ekki hvað marga daga. Þetta eru 20 álit um miklu fleiri greinar, þannig að: Bíðið bara.



ATKVÆÐAGREIÐSLA

[11:05]

Dagskrártillaga  felld með 29:3 atkv. og sögðu

  já:  BLG,  GRÓ,  ÞSÆ.
nei:  ÁBG,  ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  BjarnJ,  BHar,  DME,  GÞÞ,  GuðmG,  GHaf,  HHH,  HarB,  HildS,  IÓI,  JSkúl,  JFF,  JónG,  LA,  LRS,  NTF,  OPJ,  ÓBK,  SIJ,  SVS,  SÞÁ,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórP,  ÞórdG.
6 þm. (DagH,  HVH,  LE,  RBB,  ÞorbG,  ÞSv) greiddu ekki atkv.
25 þm. (AIJ,  ArnG,  ÁLÞ,  BGuðm,  BergÓ,  BÁ,  BirgÞ,  BjG,  BjarnB,  EÁ,  GE,  GIK,  HSK,  HKF,  IngS,  JFM,  KJak,  LenK,  LínS,  OH,  SGuðm,  SDG,  SSv,  TAT,  ÞKG) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[11:04]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég tek eftir því að þeir hæstv. ráðherrar sem hafa ekki fengist til þess að mæta hingað í þingsal til að ræða þetta mál við okkur eru eftir sem áður að greiða atkvæði með því að það verði á dagskrá. Ég auglýsi hér með enn og aftur eftir því að hæstv. mennta- og barnamálaráðherra komi hingað og ræði við okkur um réttindi barna á flótta sem til stendur að brjóta með þessu frumvarpi og hvað hann ætlar að gera til þess að standa vörð um þau. Ég lýsi sömuleiðis eftir því að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra, sem er hér í sal til að greiða atkvæði með því að þetta mál verði á dagskrá, hunskist þá til að ræða við okkur eins og við höfum óskað eftir frá 1. umr. í þessu máli. Það er auðvitað með ólíkindum að þessir ráðherrar hunsi skýran og einbeittan vilja þingsins um að ræða þessi mál við það en sitji hér og greiði atkvæði með því að málið verði áfram á dagskrá án þess að láta svo lítið sem tala við þingið um það.