153. löggjafarþing — 61. fundur
 6. feb. 2023.
skýrsla ríkisendurskoðanda um fiskeldi á Íslandi.

[15:09]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Hún var svört, skýrslan frá Ríkisendurskoðun, sem var birt í morgun, um stöðu fiskeldis í landinu. Hún er áfellisdómur um framkvæmdarvaldið og allt utanumhaldið utan um þessa annars mikilvægu atvinnugrein. Í skýrslunni segir m.a.:

„Samþjöppun eignarhalds, stefnulaus uppbygging og rekstur sjókvía á svæðum sem vinna gegn því að auðlindin skili hámarksávinningi fyrir ríkissjóð hefur fest sig í sessi án mikillar umræðu eða atbeina stjórnvalda. Verðmætum í formi eldissvæða og lífmassa hefur verið úthlutað til lengri tíma án endurgjalds …“.

Það má auðvitað spyrja sig, virðulegi forseti, hvort ríkisstjórnin hafi eftir sex ára setu raunverulega ekki meiri metnað fyrir hönd þeirrar ört vaxandi og stækkandi og mikilvægu atvinnugreinar sem fiskeldið er. En það má líka spyrja hvort það gildi einu hvaðan útflutningstekjurnar koma, þótt það sé á kostnað umhverfis, þótt það sé á kostnað náttúrunnar, góðrar stjórnsýslu og heilbrigðrar atvinnuuppbyggingar og hvað þá í sátt við samfélagið.

Ríkisstjórnin hefur, eins og ég segi, haft sex ár til að koma þessari mikilvægu atvinnugrein inn í ramma sem við gætum öll verið stolt af og líka lært svolítið af því sem gerðist í kringum sjávarútveginn. Ef ríkisstjórnin tekur þessa skýrslu ekki alvarlega — það kæmi mér reyndar á óvart að hún gerði það miðað við forsöguna. Ríkisstjórnin verður að taka þessa skýrslu alvarlega, annars verður næsta þáttaröð, Verbúðin 2, einfaldlega um fiskeldið.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún sé stolt af því að einn helsti vaxtarsproti íslensks efnahagslífs skuli búa við óboðlegt og slælegt eftirlit, eins og kemur fram í skýrslu ríkisendurskoðanda, og að stjórnsýslan sé í molum. Er það boðlegt að náttúran sé sett til hliðar? Er það boðlegt að eðlilegt gjald fyrir tímabundið leyfi hefur ekki verið greitt fyrir auðlindina? Ég vænti þess að forsætisráðherra svari mjög skýrt og gefi út skýr skilaboð til atvinnugreinarinnar en líka til samfélagsins alls.



[15:11]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessari skýrslu. Það sem kom ekki fram í máli hennar er sú staðreynd að það var hæstv. matvælaráðherra sem óskaði eftir úttekt Ríkisendurskoðunar á þessum málaflokki, óskaði eftir því að slík stjórnsýsluúttekt næði yfir alla stjórnsýslu málaflokksins, allt frá undirbúningi löggjafar og setningu afleiddra reglna til eftirlits með starfsemi fyrirtækja í greininni og fram kom hjá hæstv. matvælaráðherra að henni fannst mikilvægt að fá einmitt Ríkisendurskoðun, stofnun sem nýtur trausts, til að framkvæma þessa úttekt til að tryggja að Alþingi fengi í raun og veru tækifæri samhliða framkvæmdarvaldinu til að fara yfir stöðuna. Á meðan beðið var eftir þessari stjórnsýsluúttekt var dregið úr útgáfu nýrra leyfa.

Hv. þingmaður spyr um mín skilaboð í þessum málum. Ég vil segja það að ég er gríðarlega ánægð með það að hæstv. matvælaráðherra hafi farið af stað í þessa vegferð því það skiptir svo sannarlega máli með tiltölulega nýja atvinnugrein að við fáum þetta heildaryfirlit. Þó að skýrslan sé svört þá getur hún einmitt þess vegna verið gagnleg fyrir okkur til þess að gera hlutina öðruvísi. Ég sé ekki betur, þó að ég hafi ekki setið fundinn í morgun, að þetta verði gríðarlega mikilvægt og gagnlegt plagg inn í stefnumótunarvinnuna sem stendur yfir á sviði fiskeldis og sýnir okkur auðvitað þann lærdóm að þegar atvinnugreinar byggjast upp með miklum hraða, eins og fiskeldið hefur gert, þá situr oft regluverkið og stjórnsýslan eftir, þróast ekki með sama hraða og atvinnugreinarnar sjálfar. Það er lærdómur sem við höfum auðvitað getað dregið af ýmsum greinum.

En svo að skilaboðin séu skýr: Þessi skýrsla er ekki einhver endalok máls. Hún er undirstaðan fyrir frekari vinnu og nú reynir á að það verði einmitt brugðist við með skynsamlegum hætti til allrar framtíðar.



[15:13]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Það sem skiptir máli er að við búum þessari ört vaxandi atvinnugrein skýran ramma sem tekur tillit til byggðanna, til atvinnugreinarinnar en líka til náttúru, til umhverfis og að stjórnsýslan sé sterk og gegnsæ. Ég óttaðist það auðvitað áður en ég heyrði svar forsætisráðherra að — ég þakka fyrir að þessi ríkisstjórn var t.d. ekki þegar við vorum að móta löggjöf um raforkuna. Gjöldin af raforkunni renna til samfélagsins. Þar eru tímabundnir samningar. Það má segja að ef viðhorf þessarar ríkisstjórnar hefðu mótað regluverkið í kringum raforkuna, sem skýr rammi er sem betur fer um, þá værum við örugglega að tala um það að íslensk raforka væri kannski undir Norsk hydro í dag. Það þarf að vera strax skýrt hvernig ramma við ætlum að móta í kringum atvinnugrein sem býður upp á mikil tækifæri en þarf líka að gera mjög skýrar kröfur til. Þar komum við einmitt að prinsippum í pólitík, um auðlindagjöld sem þessi ríkisstjórn hefur ekki viljað taka. (Forseti hringir.) Og hver voru skilaboð þessarar ríkisstjórnar á þessu ári? (Forseti hringir.) Þau voru að lækka gjöldin á fiskeldi í landinu. Það eru einu skilaboðin sem hafa komið frá ríkisstjórninni. (Forseti hringir.) Um leið vil ég hvetja hæstv. ríkisstjórn til að taka þá þessi orð hæstv. ráðherra alvarlega og taka skýrsluna til sín og vinna úr henni. (Forseti hringir.) Það eru miklir hagsmunir fólgnir, bæði fyrir fiskeldisfyrirtækin, landsbyggðina en ekki síst almenning og samfélagið allt.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að í óundirbúnum fyrirspurnum hafa ræðumenn tvær mínútur í fyrri ræðu og eina mínútu í síðari ræðu.)



[15:15]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hæstv. matvælaráðherra hefur talað algerlega skýrt. Hún vill einmitt að þessi atvinnugrein byggist upp á sjálfbærum grunni. Hún hefur talað algerlega skýrt um það að ástæðan fyrir því að hún biður um þessar úttektir er að hún vill gagnsæja og opna umræðu þannig að þessi atvinnugrein sé ekki bara út frá forsendum efnahags heldur líka samfélags og umhverfisins. En það eru auðvitað ýmsar athugasemdir gerðar í þessari skýrslu og það geta fleiri tekið þær til sín en hæstv. ríkisstjórn. Hv. þingmaður sat nú sem sá ráðherra sem skipaði einmitt starfshóp með hagsmunaaðilum sem Ríkisendurskoðun gerir athugasemd við. Eigum við ekki að nálgast þetta verkefni af auðmýkt og taka höndum saman? Ég held að við getum öll verið sammála um að það er svigrúm til úrbóta, svo sannarlega. Ég er alveg handviss um að hæstv. matvælaráðherra tekur þetta alvarlega og mun vinna úr þessu og ég vonast til þess að um það geti verið þverpólitísk sátt hérna í þinginu því að ég held að það skipti máli að við séum meðvituð um að þessi löggjöf, sem var endurnýjuð á síðasta kjörtímabili, hafði áður verið í gildi frá árinu 2008, þannig að við erum ansi mörg hér sem höfum setið á þingi á þeim tíma. (Forseti hringir.) Tökum þessu með auðmýkt og sameinumst um það að gera betur í þessum málum.