153. löggjafarþing — 61. fundur
 6. feb. 2023.
greiðsluþátttaka sjúklinga.

[15:30]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hvað ætli hæstv. heilbrigðisráðherra kalli heilbrigðiskerfi þar sem sérfræðingar í einkarekstri fá greitt úr ríkissjóði fyrir þjónustuna en fá auk þess greitt beint frá sjúklingum talsverðar upphæðir fyrir hverja komu? Fólk getur ekki treyst á að greiðsluþátttökukerfið okkar virki sem þó er ákveðið með lögum og er ætlað að verja fólk fyrir frekari greiðslum. Þau sem þurfa á heilbrigðisþjónustunni að halda fá rukkanir með þeim skýringum einum að samningar sérgreinalækna við ríkið hafi verið lausir í fjögur ár. Ég get nefnt fjölmörg dæmi um þetta til skýringar. Eitt er um rannsókn þar sem einstaklingur hefði átt að greiða mánaðarlegt hámark samkvæmt greiðsluþátttökukerfinu, 31.159 kr., en er rukkaður um 50.150 kr. annað um einstakling sem átti samkvæmt greiðsluþátttökukerfinu að greiða 5.192 kr. fyrir komuna, eftir að hafa áður greitt mánaðarlegt hámark, en var rukkaður um 11.442 kr. Tilvikum fjölgar þar sem fólk frestar því að fara til læknis vegna þess að það hefur ekki efni á því. Slíkt ófremdarástand er að mínu mati og okkar í Samfylkingunni algerlega óþolandi. Við tökum hvorki afstöðu með ríkinu né sérgreinalæknum í deilunni en við tökum hins vegar skýra afstöðu með fólkinu sem ber kostnaðinn af samningsleysinu. Aukakostnaður er mismikill eftir læknum en sjúklingarnir hafa ekkert val. Lögin um sjúkratryggingar og greiðsluþátttöku hafa það að markmiði að heilbrigðisþjónustan hér á landi sé aðgengileg öllum, óháð efnahag. Ekkert í lögunum kemur í veg fyrir að farið sé á svig við það markmið líkt og nú er gert. Hvað getur hæstv. heilbrigðisráðherra sagt okkur um þessa afleitu stöðu? Er ráðherrann úrræðalaus?



[15:32]
heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir að taka þetta mál hér upp. Þetta er brýnt mál. Ég vil í fyrsta lagi segja það hér að ég hef gert þetta að algjöru forgangsmáli, að ná samningum við sérfræðilækna, svo það sé sagt hátt og skýrt hér úr þessum ræðustól. Það er orðið brýnt og það verður brýnna með hverjum deginum að ná samningum við sjálfstætt starfandi sérfræðilækna af þeim ástæðum sem hv. þingmaður fór hér yfir, þegar gliðnar svo mikið í milli, og við leggjum jafn mikla áherslu á aðgengi og jafnt aðgengi eins og raun ber vitni og jöfnuð eins og þessi ríkisstjórn hefur gert. Það er rétt að þegar samningar eru ekki í gildi þá er farið eftir gjaldskrá og við skulum ekki gleyma því að það er endurgreiðslureglugerð í gildi en það gliðnar í milli og sérstaklega við þær kringumstæður sem við búum við í dag. Þannig er þjónustuveitendum heimilt að leggja aukagjöld á heilbrigðisþjónustu, eins og hv. þingmaður lýsti hér réttilega, þegar ekki eru í gildi samningar um annað. Við vorum, ég og hv. þingmaður, ekki fyrir löngu síðan á fundi með Öryrkjabandalaginu og fulltrúum. Þar var fulltrúi frá Sjúkratryggingum og þar var fulltrúi sjálfstætt starfandi lækna og þar fórum við bara mjög opinskátt yfir stöðuna og viljann til að ná saman þannig að þar voru allir á þeim fundi og lýstu yfir þeim vilja. Ég bind enn vonir við að þess sé ekki langt að bíða að Sjúkratryggingar og sérfræðilæknar nái saman góðum samningi, sérstaklega fyrir fólkið í landinu, sjúklingana sem þurfa á þjónustunni að halda.



[15:34]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Forseti. Þetta ástand sem nú er uppi mun kalla fram aukinn kostnað í heilbrigðiskerfinu til lengri tíma vegna þess að svo margir fresta því að fara til læknis vegna þess að þeir hafa ekki efni á því. Ég er fyrsti flutningsmaður að frumvarpi sem fjallar um hvernig verja má fólk fyrir slíkum gjöldum utan greiðsluþátttökukerfisins. Þar er tekið fram að ef endurgreiðsla fæst úr ríkissjóði fyrir einkarekna heilbrigðisþjónustu, líkt og nú er, þá sé veitendum þjónustu óheimilt að krefja fólk um frekara gjald og einnig að renni samningur um veitingu þjónustunnar út og árangurslausar viðræður um endurnýjun samnings hafa staðið lengur en í níu mánuði skuli ágreiningur lagður í gerð á grundvelli laga um samningsbundna gerðardóma. Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann sé ekki sammála því að það sé nauðsynlegt að gera þessar breytingar á lögum um sjúkratryggingar til þess að markmiðið um heilbrigðisþjónustu óháð efnahag nái fram að ganga. Þurfum við ekki, löggjafinn, að verja fólk fyrir slíku ástandi sem uppi er núna og við sjáum engan enda á samkvæmt svörum hæstv. heilbrigðisráðherra?



[15:36]
heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég ítreka þakkir til hv. þingmanns. Það er samhljómur með okkur í því hversu brýnt þetta málefni er. Það hefur lengi verið samningslaust en það er rétt að andi laganna var ekki sá, eða leiðbeining laganna, að þessu væri fyrir komið með þessum hætti í jafn langan tíma í reglugerð. Þannig að jú, bæði í þeim tilgangi að stefnan um jafnt aðgengi óháð efnahag gangi eftir og að lögin séu algerlega skýr um það að jafn langur tími geti ekki liðið þá er vissulega tilefni til þess að endurskoða lögin með það að markmiði að það nái fram að ganga sem hv. þingmaður fer hér yfir.