153. löggjafarþing — 71. fundur
 1. mars 2023.
hækkandi vextir á húsnæðislánum.

[15:37]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Sumir ráðherrar eru bara vinsælli en aðrir suma daga. Við sem ólumst upp í óðaverðbólgu vitum hvað það þýðir fyrir fjölskyldur, heimili og fyrirtæki í landinu og við höfum engan áhuga á samfélagi sem einkennist af slíkri hagstjórn. Nú er, eins og margoft hefur komið fram í þessum fyrirspurnatíma, komin tveggja stafa verðbólgutala á Íslandi sem virðist koma ýmsum, jafnvel ráðherrum í ríkisstjórn, á óvart. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur farið mikinn í þessum fyrirspurnatíma. Hann er góður í að benda á blórabögglana. Í gær var það, held ég, framúrkeyrsla ríkisstofnana. Oftast nær er það stjórnarandstaðan en samt felldi þessi sami ráðherra allar afkomubætandi tillögur stjórnarandstöðunnar við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins fyrir yfirstandandi ár, en látum það nú liggja milli hluta núna.

Einstaklingar og fjölskyldur á leigumarkaði kalla eftir aðgerðum. Afborganir íbúðalána, sérstaklega hjá þeim sem hafa keypt nýverið, á síðustu árum, og eru jafnvel með frysta vexti sem síðan munu hækka á þessu eða næsta ári, eru að rjúka upp eins og dæmin sanna. Heimili þessa fólks eru í mjög erfiðri stöðu, þeirra sem eru á leigumarkaði og þeirra sem eru með ný lán. Ég ætla að leyfa mér að einbeita mér að þessum tveimur hópum núna. Það er þannig að ríkisstjórnin getur ekki firrt sig ábyrgð. Alls staðar í nágrannalöndum okkar er verið að grípa til mótvægisaðgerða til að koma til móts við fólk sem er í þessari stöðu. Það verður að vera þannig og ef við ætlum að standa undir nafni sem velferðarríki og beita einhverri sanngirni þá verður hæstv. fjármálaráðherra að mæta kröfum þessara hópa.



[15:39]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins um afkomubætandi aðgerðir og tillögur stjórnarandstöðunnar undir lok síðasta árs í tengslum við fjárlög þessa árs þá voru þær nú allar hugsaðar til að fjármagna ný útgjöld, stærra ríki. Það var nú það sem þessar afkomubætandi ráðstafanir gengu út á, (Gripið fram í: Rangt.) að fjármagna útgjaldatillögur.

Já, ég deili áhyggjum af þeim hópum sem hv. þingmaður nefnir hérna sérstaklega, fólki með breytilega vexti á óverðtryggðum lánum. Það eru þeir hópar sem hafa þurft að þola langmestu hækkunina á mánaðarlegri greiðslubyrði. Ég ætla að nefna hérna nokkra hluti sem ég held að geti skipt máli í þessu sambandi.

Í fyrsta lagi verðum við að muna að það er ekkert sem skiptir þessa hópa jafn miklu máli og að ná tökum á verðbólgunni. Þar verða menn einfaldlega að standa saman og leggjast á árarnar til að ná árangri. Ég hef sagt mjög skýrt: Já, ég held að við þurfum að gæta að því að aðhaldið verði aukið í ríkisfjármálunum. Það þýðir ekki niðurskurð, það þýðir bara minni vöxt á útgjaldahliðinni, vegna þess að tekjurnar eru að rjúka upp.

Í öðru lagi vek ég athygli á því að það er viðskiptasamband þessara heimila við fjármálastofnanir og þessar fjármálastofnanir bera líka ábyrgð. Sumar þessara fjármálastofnana eru með fyrirkomulag í þessum lánum sem við getum kallað vaxtaþak þannig að þegar afborganir vegna vaxtanna ná ákveðnu hámarki er hægt að kasta því sem umfram er aftast á lánið. Þetta væri mjög góð lausn og mér finnst að fjármálafyrirtækin almennt eigi að horfa til þess hvernig þau geta létt undir með þeim viðskiptavinum sem vilja halda áfram í óverðtryggðu vaxtaumhverfi. Það skiptir líka máli að þessir kúnnar geti skipt yfir í verðtryggð lán þegar það þykir henta.

Enn sem komið er erum við ekki að sjá veruleg vanskil í fjármálakerfinu en þetta eru dæmi um (Forseti hringir.) aðgerðir sem geta skipt máli. Við hækkuðum líka vaxtabætur í fjárlögum þessa árs, (Forseti hringir.) sem er að sjálfsögðu aðgerð sem skiptir máli, en við verðum að muna að beina sjónum okkar að rót vandans, ekki afleiðingunum.



[15:42]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Nú er það svo að mótvægisaðgerðir þurfa að beinast að afleiðingunum vegna þess að það er lífskjarakrísa í gangi. Hún er ekki eins hjá öllum hópum í samfélaginu og sannarlega ekki sú sama eftir því hvar fólk er statt í tekjustiganum. Ég bíð enn eftir því að hæstv. fjármálaráðherra segi okkur eitthvað um það hvað ríkisstjórnin ætli að gera. Hefur ríkisstjórnin t.d. áhuga á því að beita tæki sem er kallað leigubremsa? Einhverjir ráðherrar í ríkisstjórn hafa viðrað þá hugmynd að það gæti komið til greina. Hefur hæstv. ráðherra áhuga á því að beita slíku tæki? Hann talar um vaxtabætur. Þær hafa mjög oft komið að góðum notum þegar ástandið er með þessum hætti. Svo vil ég bara segja í lokin, af því að hér er mikið talað um þensluhvetjandi aðgerðir og eyðslusemi stjórnarandstöðunnar, að það skiptir mjög miklu máli í hvað þessum ríkisframlögum er varið. Ef við erum að verja fé úr ríkissjóði til að styðja við fjölskyldur (Forseti hringir.) með barnabótum, húsnæðisstuðningi og öðru þá erum við að styðja með sanngjörnum og réttlátum hætti (Forseti hringir.) betri og sanngjarnari tekjuskiptingu í landinu og betra líf.



[15:43]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að nefna eitt samhengi hlutanna hérna, sem er auðvitað grundvallaratriði vegna þess að við höfum verið að ræða það aðeins í fyrirspurnatímanum að það skipti máli að ríkisfjármálin leggist á sveif með aðgerðum Seðlabankans. Í því sambandi hefur Seðlabankinn verið að gera hvað? Hann hefur verið að hækka vexti til að draga úr þenslu. Þá er ákveðin mótsögn í því þegar fólk kallar eftir að við leggjumst á sveif með Seðlabankanum og eyðum áhrifum af vaxtahækkunum með mótvægisaðgerðum til að eyða hinum neikvæðu afleiðingum vaxtahækkana. Því eru auðvitað mjög mikil takmörk sett hversu langt ríkisvaldið getur gengið í því að núlla út áhrif Seðlabankans með vaxtahækkunum, sérstaklega á það við ef við erum með aðgerðir sem ganga breitt yfir markaðinn. (Forseti hringir.) En ég er á engan hátt að andmæla því að þarna er bent á hópa sem við þurfum að huga að og þarf að standa með, og ég tel að ríkisstjórnin hafi á undanförnum árum verið að gera það.