153. löggjafarþing — 72. fundur
 6. mars 2023.
staða Sjúkrahússins á Akureyri.

[15:11]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Enn einu sinni neyðumst við til að ræða rekstrarvanda heilbrigðisþjónustunnar. Til að samtalið fari ekki út um víðan völl eins og getur gerst þegar um svo stóran málaflokk er að ræða þá ætla ég að takmarka fyrri spurninguna við Sjúkrahúsið á Akureyri, þótt stöðuna þar megi auðvitað heimfæra upp á Landspítala – háskólasjúkrahús. Við samþykkt fjárlaga liggur fyrir að það vantar 250 milljónir upp á að sjúkrahúsið lendi ekki í alvarlegum rekstrarvanda árið 2023 miðað við óbreytta þjónustu. Ofan á þetta bætist skortur á hjúkrunarfræðingum sem fara til annarra starfa og fá betri boð um laun, minna álag og betri frí, t.d. hjá Heilsuvernd, heilsugæslunni fyrir norðan og heilbrigðisstofnunum á höfuðborgarsvæðinu. Þá eru ýmsir aðrir þættir sem munu auka álagið á sjúkrahúsið. Öldrunarþjónustan á Kristnesi mun loka aftur í sumar, mygla á öldrunarheimilinu Hlíð, sem fækkar tímabundið rýmum, og loks er gert ráð fyrir fleiri erlendum ferðamönnum en undanfarin ár. Minni geta Sjúkrahússins á Akureyri til að sinna þjónustu mun einungis auka álagið á Landspítala.

Hér ræðum við herra forseta um opinberan málaflokk sem hefur meiri áhrif á líf okkar en flestir aðrir. Hver einasta fjölskylda hefur a.m.k. eina snertingu við heilbrigðiskerfið á ári, flestar miklu fleiri. Staða þjónustunnar hefur því bein áhrif á kjör fólks og þar með inn í kjaraviðræður, auk þess sem gæði hennar leika miklu stærra hlutverk þegar kemur að vali fólks á búsetu en við gerum okkur almennt grein fyrir.

Herra forseti. Ég vil biðja ráðherrann í svari sínu að halda sig við að svara varðandi þetta tiltekna sjúkrahúss þannig að orðaskiptin geti verið hnitmiðuð. Hvernig líst hæstv. ráðherra á þá stöðu sem blasir við? Hyggst hann bregðast við og með hvaða hætti?



[15:13]
heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir að taka upp hér málefni heilbrigðisþjónustunnar og sérstaklega málefni Sjúkrahússins á Akureyri og ég skal reyna að halda mig við málefni Sjúkrahússins á Akureyri. En auðvitað er þetta, eins og hv. þingmaður kom inn á, í samhengi við heilbrigðisþjónustu því hann kom inn á fjölmarga þætti eins og mönnun. Það er skortur á sérhæfðu starfsfólki og við erum innan kerfisins að keppa um þennan takmarkaða mannauð. Því hefur Sjúkrahúsið á Akureyri fundið fyrir og það er hárrétt sem hv. þingmaður kemur inn á. Staðan hefur þó skánað, þó að það hafi verið erfitt undanfarið að ráða inn nýja hjúkrunarfræðinga, sérstaklega með tilkomu háskólans og hjúkrunarfræðinámsins þar.

En að fjármögnuninni. Þar er uppsafnaður vandi til ansi margra ára sem hefur verið mætt af svigrúmi með sjúkrahúsinu. Við höfum veitt aukafjármagn til sjúkrahússins, m.a. til að klára uppbyggingu á tengigangi. Við höfum klárað þar sjúkrahússapótekið með aukafjármagni. Við fórum í mjög góða vinnu og samráð með sjúkrahúsinu við að horfa á fjármálin og höfum mætt þeim vel þar. Við settum aukafjármagn, 250 milljónir, í fjárlög þessa árs milli umræðna og það mætir að stórum hluta þessum halla sem hefur verið þannig að það á ekki að þurfa að loka á Kristnesi. Við höldum áfram að vinna þetta náið með sjúkrahúsinu þannig að það hefur ýmislegt jákvætt verið gert, m.a. á fjármálahliðinni. (Forseti hringir.) En ég er meðvitaður um þann vanda sem hefur birst í því að ráða, þrátt fyrir auglýsingar eftir hjúkrunarfræðingum.



[15:15]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra getur ekki endalaust vísað bara í það sem hefur verið gert og þó að það sé góðra gjalda vert að hér sé vísað í uppbyggingu á tengigangi þá er það fjárfesting en hér erum við að glíma við rekstur. Þó að staðan hafi skánað þá getur það ekki verið gott start, að byrja með of lítið fé upp á 250 millj. kr. ofan á allt annað.

Í fyrradag var Svanur Sigurbjörnsson lyflæknir í viðtali á RÚV og í morgun aftur, held ég, og sagði að þegar nýr meðferðarkjarni Landspítala verði tekinn í notkun muni áfram vanta rými fyrir sjúklinga. Fjöldi sjúkrarýma er töluvert minni en í nágrannaríkjunum og að hans sögn mun nýi spítalinn ekki duga til.

Nú eru þrjár vikur í framlagningu nýrrar fjármálaáætlunar og ég gef mér að hæstv. heilbrigðisráðherra hafi átt alvarleg, raunar mjög alvarleg samtöl við fjármálaráðherra um stöðuna sem hann ber ábyrgð á. Hvers megum við vænta í nýrri fjármálaáætlun? (Forseti hringir.) Getum við gert ráð fyrir því að þessir hlutir muni batna með henni?



[15:17]
heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég kom því kannski ekki nægilega skýrt að en SAk fékk 250 milljóna viðbót inn á þetta ár og við mættum því. (Gripið fram í.) Svo komu inn 900 milljónir með fjáraukalagaframlagi og allt eru þetta fjármunir þó að við séum að tala um fjárfestingu.

Varðandi legurýmin — mér hefur ekki gefist kostur á að hlusta á viðtalið við lækninn sem hv. þingmaður kom inn á — þá er grein í Læknablaðinu þar sem er verið að skrifa um þetta risastóra mál. Hinn vestræni heimur fór í mjög gagngerða fækkun á legurýmum fyrir u.þ.b. 20–30 árum. Við erum með 2,85 legurými á hverja 1.000 íbúa sem er sambærilegt við Norðurlöndin en mun hærra annars staðar í Evrópu. Við þurfum að taka mjög skynsamlegar ákvarðanir þegar við reisum nýjan Landspítala um hvað við gerum við aðrar byggingar. (Forseti hringir.) Það er í skoðun í NLSH-stýrihópnum og hjá NLSH ohf. En það er rétt að þarna þurfum við að vanda okkur vel.