153. löggjafarþing — 72. fundur
 6. mars 2023.
rafræn ökuskírteini.

[15:34]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þolinmæði mín er á þrotum. Ég sendi inn fyrirspurn til hæstv. innviðaráðherra 24. nóvember sl. Þetta varðar ökuskírteini og ein af spurningunum er: Er hægt að framvísa rafrænu ökuskírteini sem gildu skilríki erlendis og í hvaða löndum þá?

Frá árinu 2020 hafa verið gefin út rafræn ökuskírteini á Íslandi. Margir hafa tekið þessu fagnandi þar sem í dag er hægt að borga fyrir þjónustu og vöru með símanum og hafa margir látið veskið ofan í skúffu. Ég heyrt margar sögur af ferðalöngum sem lenda í miklum vandræðum þegar út er haldið. Ferðalangar framvísa rafrænu ökuskírteini þegar þeir vilja taka bíl á leigu en fá þau svör að rafræn skilríki dugi ekki til heldur þurfi að hafa gamla góða bleika kortið meðferðis eða alþjóðlegt ökuskírteini. Kostnaður íslenskra ferðamanna vegna þessa hleypur á tugþúsundum sem fæst ekki endurgreiddur. Bankar á Íslandi telja síðan rafræn ökuskírteini ekki gild skilríki. Þannig að það virðist enginn telja þetta gilt og það virðist vera hálfgerður brandari hjá ríkisstjórninni að hafa þessi ökuskírteini svona.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra sem fer með þessi mál hvort stjórnvöld séu meðvituð um hve algengur misskilningur það er hjá landsmönnum að halda að þeir geti framvísað rafrænu ökuskírteini erlendis? Ég spyr einnig: Hvers vegna voru gefin út rafræn skilríki ef þau eru virt að vettugi hjá öðrum þjóðríkjum? Mun ráðherra svara skriflegri fyrirspurn minni um þessi atriði? Eða enn þá betra, getur hann svarað þessum spurningum hér í salnum strax í dag? Hefur ráðherra gert einhverja tilraun til að fá þessi rafrænu ökuskírteini viðurkennd í öðrum löndum t.d.?



[15:35]
innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta hérna upp. Ég heyrði hv. þingmann kvarta undan þessu á þingdögum í síðustu viku og varð eiginlega hvumsa við vegna þess að ég mundi eftir þessari fyrirspurn og hélt satt best að segja að henni væri löngu svarað, ég var búinn að biðja mitt fólk í ráðuneytinu að fara ofan í það. Ég treysti mér ekki til að svara fyrirspurninni til hlítar hér. En þegar rafræn skírteini voru kynnt til sögunnar voru þau fyrst og fremst kynnt til sögunnar til notkunar á Íslandi. Það kom síðar fram að menn þyrftu að hafa tiltekinn lesara til þess að þau væru nægilega örugg og þess vegna hafa aðilar á Íslandi í einhverjum tilvikum, hv. þingmaður nefndi bankanna, ekki tekið þau gild. En mér er samt kunnugt um að þau eru tekin gild á ýmsum öðrum stöðum, eins og í apótekum t.d., ég hef alla vega upplifað það og reyndar víðar.

En það er hins vegar algjörlega rétt að þau voru ekki kynnt til sögunnar sem alþjóðleg skírteini. Við vorum einfaldlega ein af fyrstu þjóðunum sem tóku þetta upp. Ég, sem þáverandi samstarfsráðherra Norðurlanda og auðvitað bara í samgönguráðherrahópnum á Norðurlöndunum, var að reyna að fá öll Norðurlöndin til að byrja að viðurkenna þetta. Norðmenn eru líka komnir með rafræn skírteini og ég held að fleiri þjóðir séu komnar með þetta núna í dag. Stundum er rætt hérna um Evrópusambandið og sum lönd á Norðurlöndunum geta aldrei gert neitt nema Evrópusambandið sé búið að samhæfa þetta þannig að við höfum svolítið beðið eftir því. Alla vega hefur sú vinna ekki gengið upp að Norðurlöndin væru komin með þetta, sem mér myndi þykja gott fyrsta skref. En við höfum aldrei gefið það til kynna að þessi rafrænu skírteini gildi hér og þar um heiminn, ef ég þekki það rétt. En ég ætla að bíða eftir því að fá allar upplýsingar í fyrirspurninni og ég vona að hv. þingmaður fái svarið sem allra allra fyrst.



[15:38]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og ég er sammála. Ég vona heitt og innilega að það komi svör sem fyrst. Ég spyr mig líka að því hvort það hefði ekki verið nær að auglýsa þetta, það þarf eiginlega að auglýsa og láta fólk vita. Það virðist eins og að Íslendingar hafi þá tröllatrú að þegar eitthvað er komið rafrænt í símann hjá þeim þá gildi það bara alls staðar í heiminum. En fólk er að verða fyrir tjóni vegna þess að það fer erlendis, tekur bílaleigubíl, borgar bílinn, kemur svo á staðinn og er bara með rafrænt ökuskírteini og þá fær það ekki bílinn og situr uppi með kostnaðinn. Þetta getur eyðilagt heilu fríin fyrir fólki þannig að ég vona heitt og innilega að verði tekið á þessu.

Svo langar mig bara í stuttu máli að spyrja hvort hæstv. ráðherra sé ekki sammála mér með óborganlegu línuna sem á að fara að gera, sem virðist stefna ekki tugi milljarða fram úr kostnaði heldur hundruð milljarða: Væri ekki ódýrara að halda gamla góða strætókerfinu og hafa bara ókeypis í strætó? Það myndi ekki kosta nema brot, 1% eða 5% af þessum kostnaði.



[15:39]
innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Aðeins um rafrænu skírteinin. Auðvitað er það þannig að við ferðumst hingað og þangað og stundum er það ekki einu sinni þannig að þetta bleika gildi og maður þarf að hafa alþjóðlegt skírteini með. En auðvitað er það óheppilegt ef eitthvað slíkt kemur upp á. Við erum mjög vön því að nota kort hér á Íslandi, ekki seðla, og sums staðar virkar það nú bara alls ekki heldur þannig að við þurfum svolítið að vita þegar við erum að fara út í heim að heimurinn er ekki á sama stað og Ísland. Við erum oft komin dálítið framar.

Varðandi borgarlínuna, sem mér heyrðist hv. þingmaður kalla óborgarlínuna, ég veit ekki hvort það var misheyrn hjá mér, þá heyrist mér hv. þingmaður enn vera að glíma við að líta á þetta sem eitthvert svona útgjaldaapparat en hafi ekki sett sig inn í nákvæmlega hugmyndafræðina. Við erum að reyna að byggja sérreinar þannig að vagnar sem keyra oftar komi fólki, meiri fjölda, hraðar á milli stærri staðanna. Það er hugmyndafræðin. Ég hef enn mikla trú á að þetta geti gengið eftir. En vissulega hefur kostnaður við þetta vaxið, (Forseti hringir.) eins og reyndar svo margt annað á síðustu tveimur, þremur árum.