153. löggjafarþing — 73. fundur
 6. mars 2023.
aðgengi fatlaðra stúdenta að háskólanámi.
fsp. ÞKG, 245. mál. — Þskj. 246.

[19:41]
Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Að gefnu tilefni þá spyr ég hæstv. ráðherra hver hans stefna sé þegar kemur að aðgengi fatlaðra stúdenta að háskólanámi. Við þekkjum þennan veruleika sem fatlaðir einstaklingar, fötluð ungmenni, standa frammi fyrir, að Ísland er ekki land jafnra tækifæra. Það er ekki hægt að segja það eins og staðan er núna. Engu að síður hafa smá skref verið stigin í gegnum tíðina. Við þekkjum það og ég þekki það vel þegar ég sem þáverandi ráðherra menntamála fór af stað í samvinnu við Háskóla Íslands með diplómanám fyrir fötluð ungmenni, en það er mjög langt síðan það var. Það var 2007, minnir mig, frekar en 2006. Síðan þá hefur kannski ekki þokast mikið áfram þegar kemur að því að jafna aðgengi að háskólanámi og þá meina ég raunverulega að jafna þetta aðgengi.

Það rúmast innan laga um háskóla að bjóða upp á starfstengt nám og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort verið sé að leita leiða til að bjóða upp á alvöruval þannig að fötluð ungmenni geti raunverulega valið um nám á sínu áhugasviði. Mig langar líka til að spyrja og fylgja því eftir þegar opnaðist í haust ákveðin gátt þegar tvö ungmenni fengu að sækja kúrsa innan síns áhugasviðs, hvort sú gátt verði opin áfram og hún verði tryggð. Verður eftirfylgni með þessu? Allt eru þetta jákvæð skref en það er ekkert fast í hendi. Ég vil ekki síst þakka Þroskahjálp fyrir það að hafa ótrauð bent á þessa galla í kerfinu fyrir fötluð ungmenni, hvort sem þau eru með þroskahömlun eða ekki. Það hefur verið veitt gríðarlega mikilvægt og dýrmætt aðhald af hálfu þeirra hagsmunasamtaka sem Þroskahjálp er.

Mig langar líka að ræða við hæstv. ráðherra hvort fram hafi farið einhver rýni til úrbóta innan Listaháskóla Íslands af því að allt tengist þetta spurningunni um stefnu ráðherra þegar kemur að aðgengi fatlaðra að háskólanámi. Ég ætla ekki að áfellast ráðherra ef hann veit ekki svarið, bara fyrir forvitnissakir af því að þetta hefur líka verið í umræðunni, hvort farin sé af stað einhver rýni til úrbóta í samvinnu við Listaháskólann gagnvart fötluðu fólki sem svo sannarlega getur notið sinna hæfileika innan þess háskóla eins og annars staðar í samfélaginu.

Ég hlakka til að heyra hver stefna ráðherra er þegar kemur að aðgengi fatlaðra stúdenta að háskólanámi og ég veit að hæstv. ráðherra er metnaðarfull í þeim efnum.



[19:44]
háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að koma með þessa umræðu hingað inn af því að hún er okkur afar mikilvæg. Spurt er hver sé stefna mín og mín stefna er að fleira fólk á Íslandi hafi aukið aðgengi að háskólanámi, hvort sem það er með tilliti til kyns, kynþáttar, fötlunar eða annars bakgrunns og þar þurfum við að gera betur af því að það er alveg ljóst að í dag hafa fatlaðir ekki sömu lyklana að háskólanámi og aðrir. Ég hef bæði viljað auka aðgengi að náminu en líka að þau fái fjölbreyttari leiðir en nú er. Og það er gaman að segja frá því að á föstudaginn síðasta þá undirritaði ég samning við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Listaháskóla Íslands um ákveðna samvinnu um aukið diplómanám á háskólastigi fyrir fólk með þroskahömlun. Með þessum samningi á bæði að undirbúa að fleiri skólar bjóði háskólanám, eins og Háskólinn á Akureyri hefur verið með í undirbúningi, að við reynum að ýta því úr vör, en líka að Listaháskólinn ráðist í ákveðna greiningu á því hvernig þau geta gert slíkt með betri hætti og að Háskóli Íslands hjálpi hinum skólunum við það en skoði líka tækifæri hjá sér á fleiri möguleikum. Markmiðið með þessu er svolítið að ýta úr vör meiri skýrleika gagnvart þessum tækifærum, auka samvinnu og samstarf háskólanna um þetta nám og ekki síst að auka fjölbreytni námsframboðs fyrir ungt fólk með þroskahömlun. Það verður ráðinn verkefnisstjóri til að leiða þetta verkefni og hefur þá starfsskyldu í öllum háskólunum. Þetta er gríðarlega spennandi verkefni.

Það var auðvitað bent á það af verkefnahópi sem skilaði af sér 2020, í skýrslu um tækifæri ungs fólks með þroskahömlun, að koma yrði á fót námi við Háskólann á Akureyri til að auka aðgengi fatlaðs fólks á landsbyggðinni að slíku námi. Með þessum samningi erum við að reyna að styðja Háskólann á Akureyri til að klára þá vinnu til að geta byrjað það nám og ég bind vonir við að það gerist á næstunni. Síðan er líka þátttaka í starfshópi félags- og vinnumarkaðsráðherra um aukin starfsnáms- og starfstækifæri fyrir fatlað fólk og þær tillögur munu nýtast vel í þeirri vinnu sem háskólarnir eru komnir í. Það að háskólarnir séu komnir núna af stað saman styrkir líka vinnu þess hóps og hvert eigi að leita með þau úrlausnarefni. Síðan er einnig fram undan í háskólamálunum endurskoðun á reiknilíkani um fjármögnun háskóla og í þeirri vinnu þarf líka að taka tillit til stöðu fatlaðra til bætts aðgengis að háskólum og hvernig fjármögnunin kemur inn í það.

Það er auðvitað þannig í lögum um háskóla í dag að háskólum er falið að veita fötluðum nemendum sérfræðilega aðstoð og viðeigandi aðbúnað en eins og hv. þingmaður nefndi þá hefur, vegna baráttu nokkurra einstaklinga, kraftmikilla einstaklinga í samfélagi okkar eins og Láru Þorsteinsdóttur, háskólinn veitt aðgang að ákveðnum greinum þar sem áhuginn liggur og það er ótrúlega mikilvægt að slíkar opnanir, ef svo má segja, eða slík tækifæri, fylgi þessari vinnu sem háskólarnir fara í saman. Mér þykir þetta vera skref í rétta átt. Nú er kominn skýr rammi, skýr verkefni sem ráðist verður í af háskólunum þremur og það mun vonandi leiða af sér bæði fjölbreyttara nám fyrir fatlaða, aukið aðgengi fatlaðra á landsbyggðinni að háskólanámi og nýjar leiðir með aðkomu Listaháskólans að þessari vinnu.



[19:49]
Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Það er ekki hægt annað en að koma hingað upp eftir þetta og hrósa hæstv. ráðherra og þakka henni fyrir þetta frumkvæði og framtak, að hafa farið og tekið þetta verkefni og sett það í ákveðinn farveg og tekið á því af festu og alvöru af því að þetta hefur allt of lengi verið til hliðar. Það virðist fínt að taka þetta með þegar er búið að fara af stað með önnur verkefni, þá er komið eftir á og þá á að redda málum, oft bara skítaredda þessum hópi og það er ekki gott. Þess vegna vil ég hrósa hæstv. ráðherra fyrir nákvæmlega að tikka í þau box sem ég var að spyrja um, m.a. Listaháskólann, að það sé farin af stað þessi rýni um hvað hægt er að gera til að ýta ekki bara undir lífsgæði þessa viðkvæma hóps heldur líka að nýta krafta allra því að við höfum öll einhverja eiginleika, einhverja kosti sem við erum ekki að leyfa að njóta sín í botn af því að kerfið heimilar það ekki. Með þessu, að mínu mati, er hæstv. ráðherra að opna kerfið sem er fagnaðarefni. Mér finnst þetta bara dásamlegt hvað þetta varðar. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra líka að fylgja eftir tímaplani, það skiptir gríðarlega miklu máli. Um leið og það er búið að ýta svona af stað þá þarf að vera eftirfylgni, vera tímaplan, ég hef upplifað það allt of oft að það vanti. Það þarf líka að vera skýr fjármögnun og ég vil fagna því sérstaklega að reiknilíkanið, sem er allt of oft skilið eftir, er tekið með í þessa vinnu samhliða síðan hópnum sem hæstv. félagsmálaráðherra er með varðandi starfs- og námstækifæri. Það er svo hárrétt sem hæstv. ráðherra sagði og ég vil taka undir, við getum gert betur. Það þarf viljann og hann er til staðar. Það þarf að taka ákvarðanirnar og það er búið að taka ákvarðanir og það er ekki hægt annað þegar svo er en að klappa fyrir viðkomandi ráðherra. Þó að við höfum ekki sömu lykla að samfélaginu þá verðum við samt að gæta þess að allir fái þá lykla sem þarf til þess að opna og það er verið að opna hér með svörum ráðherra í dag.



[19:51]
háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir og tek undir það að oft höfum við ákveðna skýra sýn varðandi þennan hóp eða ákveðinn vilja sem sýnir sig í skýrslum og ýmsu sem hefur verið unnið en við höfum ekki séð það koma til framkvæmda. Þess vegna ákvað ég að forma þetta með þessum hætti en ekki síst það líka, sem var sett inn í samninginn við skólana þrjá, að það væri samráð á milli háskólanna og ungs fólks með þroskahömlun um væntingar til þessa náms, bæði hvernig það hefur verið en líka hvað við getum gert betur og hvernig við getum gert sem mest til þess að það sé inngildandi, það sé í boði eins og þau hafa væntingar til. Ég hlakka til að sjá hvað kemur út úr þessari vinnu og tek hvatningu hv. þingmanns um að fylgja þessu vel eftir, enda er eiginlega ekki annað hægt af því að við erum að vinna líka að þessu breytta reiknilíkani, sem er einmitt kannski aldrei horft til varðandi hvata eða stuðning við háskólana. Það hefur verið lofað að breyta því gríðarlega lengi. Það er frá 1999. Það er hægt að horfa til annarra landa, sjá hvernig þau styðja við ákveðna hópa, hvernig þau styðja við hvata innan háskólakerfisins og annað með fjármögnun. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt að fjármögnunin komi með. Hvatar og samstarf á milli skólanna er af hinu góða af því að ef þeir vinna saman að þessu þá gætum við séð mun fjölbreyttari og meiri tækifæri fyrir fatlaða nemendur á Íslandi. Ég mun halda þessari vinnu áfram en líka í samvinnu við félags- og vinnumarkaðsráðherra varðandi stærri heildarmynd og fleiri menntastig.