153. löggjafarþing — 75. fundur
 8. mars 2023.
störf þingsins.

[15:02]
Guðbrandur Einarsson (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Mig langar til að varpa ljósi á líkindi íslenskrar samfélagsgerðar og reynslu minnar af vímuefnaneyslu. Sem ungur maður gekk ég í gegnum talsverðrar þrautir tengdar vímuefnaneyslu. Í tæpan áratug seldi ég mér þá ranghugmynd að ég ætti ekki við nein vandamál að stríða, sem blöstu þó við öllum öðrum. Ég hafði alltaf einhverjar aðrar skýringar á þeirri vondu stöðu sem ég var kominn í og kom mér ítrekað í. Ég taldi mér t.d. trú um að ég hefði ekki drukkið of mikið heldur gleymdi ég bara að borða og lenti þess vegna í blakkáti. Ég blandaði saman allt of mörgum tegundum og þegar ég reykti síðan hassið mitt ofan í drykkjuna var komin fullkomin skýring á vanlíðan minni næstu daga á eftir. Ég fannst endalausar skýringar og neitaði að horfast í augu við raunveruleikann, sem var að ég misnotaði vímuefni mér og mínum nánustu til tjóns. Ég lærði það svo síðar að hluti af sjúkdómnum mínum væri þráhyggja.

Og núna, virðulegur forseti, upplifi ég sams konar þráhyggju í samfélagsgerðinni okkar. Í hvert sinn sem rætt er um að styrkja þurfi undirstöður þessa samfélags, t.d. með því að ganga til aukins samstarfs við aðrar þjóðir Evrópu og taka upp gjaldmiðil sem þjónar hagsmunum 300 milljóna manna, þá koma fram úrtöluraddir sem nota nákvæmlega sömu rök og ég gerði sjálfur; að það sé einhverjum öðrum að kenna. Þegar verðbólgan rís stjórnlaust enn og aftur þá er það ekki stjórnvöldum að kenna eða krónunni. En við erum búin að vera að gera þessa tilraun í 100 ár og enn upplifum við sömu hlutina; endalausar öfgar, upp- og niðursveiflur og niðurstaðan er alltaf sú sama: Íslenskur almenningur tapar.

Virðulegi forseti. Íslensk þráhyggja þarf að taka enda. Þetta er fullreynt. (ÞKG: Heyr, heyr.)



[15:04]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Í dag er alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og mannréttindum og mér finnst mikilvægt að taka það til umræðu hér í dag. Við sem samfélag þurfum að taka til hendinni til að hér náist fram kynjajafnrétti. Það hallar á konur á ýmsum sviðum samfélagsins. Við þurfum að útrýma kynbundnu ofbeldi. Við þurfum að útrýma kynbundnum launamun og við verðum að taka á því að einstæðar mæður eru meðal þeirra sem búa við hvað erfiðustu efnahagslegu kjörin og þar með börn þeirra. En þetta er líka alþjóðleg barátta og við verðum að taka þátt í henni líkt og hæstv. forsætisráðherra hefur gert á kvennaþingi Sameinuðu þjóðanna og fleiri þingmenn úr ýmsum flokkum og það er vel. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, hefur bent á að ef ekkert verður að gert tekur 300 ár að ná fram kynjajafnrétti. Það gengur auðvitað ekki. Því miður erum við að færast fjær kynjajafnrétti á mörgum sviðum. Það hefur verið vegið að sjálfsákvörðunarrétti kvenna í ýmsum löndum þegar kemur að því að ráða yfir eigin líkama. Gegn því þurfum við sem kvenréttindaþjóð, sem höfum verið stolt af okkar skrefum, að berjast. Við þurfum að standa með konum í öðrum heimshlutum sem berjast fyrir sjálfsagðri heilbrigðisþjónustu, fyrir því að fá að ganga í skóla og fyrir því að lifa sem fullgildir einstaklingar í samfélaginu. Til hamingju með baráttudag kvenna, öll.



[15:07]
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Miklum árangri hefur verið náð í baráttunni fyrir réttindum kvenna síðan alþjóðlegur baráttudagur kvenna var fyrst haldinn árið 1909, fyrir meira en 100 árum síðan. Þrátt fyrir allan þann tíma sem liðinn er er björninn langt því frá unninn. Enn lita staðalímyndir og aðrar birtingarmyndir kvenfyrirlitningar ýmsa þætti, jafnvel íslenskrar stjórnsýslu og réttarkerfis, og þótt margt hafi unnist eigum við enn langt í land, sér í lagi í tengslum við vernd gegn kynbundnu ofbeldi.

Um árabil hefur verið bent á það að fordómar gegn konum og falskenningar byggðar á þeim hafi litað réttarframkvæmd hér á landi þegar kemur að forsjá barna og umgengnisrétti barna við foreldra sína. Raunar er vandinn ekki bundinn við Ísland. Þó vekur það að mörgu leyti furðu að hann skuli vera jafn rótgróinn hér á landi og raun ber vitni í ljósi framvarðarstöðu Íslands í jafnréttismálum á alþjóðavettvangi. Á það hefur verið bent að endurtekið mynstur í réttarákvörðunum margra ríkja um forsjá og umgengni sé áhyggjuefni, þar sem ofbeldi gegn konum í nánum samböndum sé ekki gefið nauðsynlegt vægi. Hópur sérfræðinga á vegum Sameinuðu þjóðanna ályktaði um stöðuna árið 2019 þar sem fram kom að framkvæmd margra ríkja í forsjár- og umgengnismálum afhjúpi undirliggjandi mismunun gegn konum og það hvernig skaðlegar staðalímyndir hafa áhrif í málum barna þeirra. Í skýrslu GREVIO-nefndarinnar svokölluðu, sem kom út í nóvember síðastliðnum og hefur það hlutverk að meta árangur stjórnvalda í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi, var niðurstaðan nokkuð alvarleg fyrir Ísland. Skýrslan sýnir svart á hvítu að kerfið okkar er ekki að taka nógu vel utan um þolendur ofbeldis þegar kemur að forsjármálum, þar á meðal börn sem verða fyrir ofbeldi eða verða vitni að því.

Þessi mál hafa vissulega verið í umræðunni en það liggur ljóst fyrir að brýn nauðsyn er á breytingum í framkvæmd forsjár- og umgengnismála þegar um ofbeldi í nánu sambandi er að ræða.



[15:09]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Nú á alþjóðlegum baráttudegi kvenna hafa stórar kvennastéttir í Eflingu samið við harðdræga viðsemjendur sína um hóflegar launahækkanir um leið og þeim tókst að árétta, svo ekki fór á milli mála, að félagið hefur raunverulegan verkfallsrétt og er raunverulegur viðsemjandi. En nú vaknar spurningin: Hver er raunverulegur viðsemjandi forstjóranna? Hver er það sem samþykkir ævintýralegar launakröfur þeirra? Það verður seint sagt að sá viðsemjandi sé harður í horn að taka eða vökull gæslumaður þjóðarhags, því að það eru forstjórarnir sem standa sjálfir fyrir launaskriðinu hér sem veldur búsifjum í þjóðarbúskapnum. Forstjórarnir eru í frjálsu svifi þegar kemur að launatölum. Fljúgum hærra, fljúgum hærra, er þeirra mottó. Þessum óraunhæfu launakjörum efsta lagsins í samfélaginu fylgir verðbólga, hækkandi vextir sem eru að sliga almenna lántakendur í krónuhagkerfinu, því að þó að forstjórarnir virðist stundum halda annað þá búa þeir í samfélagi við okkur hin. Eitthvert mesta böl okkar tíma er vaxandi launamunur. Hann slítur samfélagið í sundur. Hann rýfur samfélagssáttmálann sem verður að vera haldinn í heiðri svo við getum búið hér saman.

8. mars. Þessi dagur minnir okkur á þá sigra sem unnist hafa í baráttu kvenna fyrir jafnrétti, þó að vissulega og auðvitað sé enn löng leið fyrir höndum og bakslag á ýmsum sviðum. En á aðeins einni öld hefur samt tekist að afsanna að það sé náttúrulögmál að karlar skuli ráða öllu eða yfirleitt vænlegt til árangurs. Launamunur kynjanna er ekki heldur samkvæmt náttúrulögmáli. Óréttlæti er aldrei eðlilegt. — Til hamingju með daginn, konur.



[15:11]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að draga fram hér á þingi hvað við getum verið stolt af því að eiga fyrirtæki eins og Landsvirkjun, fyrirtæki í eigu þjóðarinnar allrar, sem býr yfir sterkum mannauði, skýrri framtíðarsýn og skilar mikilvægum arði til eigenda sinna, okkar allra. Það var áhugavert að sitja ársfund fyrirtækisins í Hörpu í gær og hlýða á erindi um hvernig áætlanir sem voru mótaðar fyrir áratugum síðan eru enn að skila árangri í dag, okkur öllum til heilla. Á sama tíma var það líka góð brýning að heyra forsvarsfólk fyrirtækisins minna á mikilvægi þess að stinga ekki hausnum í sandinn þegar kemur að mikilvægum pólitískum ákvörðunum. Eigi Ísland að verða forystuþjóð þegar kemur að grænum orkuskiptum, sem við höfum alla burði til að vera, þarf að fara að taka ákvarðanir um framtíðina strax í dag. Ég óttast að samsetning ríkisstjórnarinnar sé enn og aftur að verða þess valdandi að við ýtum stórum spurningum og ákvörðunum á undan okkur og missum af tækifærinu til að skara fram úr. Fordæmi Landsvirkjunar ætti líka að vera ríkisstjórninni sérstök hvatning um langtímahugsun og að leyfa sér langtímahugsun og berjast fyrir langtímahugsunin. Niðurgreiðsla skulda, réttmæt og sanngjörn endurgreiðsla til þjóðarinnar fyrir nýtingu á auðlindum er góður jarðvegur til að ráðast í mikilvæg framþróunarverkefni og bæta þannig lífskjör og samkeppnisstöðu landsins. Ég vona að þeir ráðherrar og stjórnarliðar sem sátu fundinn í gær taki þessa aðferðafræði til sín, hugsi langt, framkvæmi rétt og passi upp á jafnvægi milli náttúru og nýtingar og nauðsyn þess að þjóðin fái notið afrakstursins.



[15:13]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna er mikilvægt að ígrunda stöðu jafnréttismála hér á landi og í heiminum öllum. Það er sláandi að það heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem við eigum hvað lengst í að ná sé markmiðið um jafnrétti kynjanna. Hér á landi höfum við náð eftirtektarverðum árangri á mörgum sviðum jafnréttis en víða eigum við langt í land. Vinna að jafnrétti er og verður stöðugt og viðvarandi viðfangsefni, annars tapast áunnin réttindi og framþróun stöðvast. Okkur ber skylda til að halda vinnunni áfram á öllum sviðum samfélagsins.

Áskoranir hér á landi eru margar. Ég nefni nokkrar: launamun og kynjaskiptingu starfa á vinnumarkaði og kynbundið námsval sem að mínu áliti tengist kynbundnu námsframboði. Fylgja verður eftir hvers konar úrbótum í vinnu gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi en sú vinna er í góðum farvegi eftir að við höfðum allt of lengi verið sofandi gagnvart áhrifum ofbeldis á einstaklinga og samfélag. Þá eigum við allt of margt ólært varðandi leiðir til að tryggja konum af erlendum uppruna jafnrétti í íslensku samfélagi. Við sjáum líka bakslag á heimsvísu vegna náttúruhamfara, stríðs og pólitískra átaka.

Í tilefni dagsins hvetur aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna til tafarlausra og samræmdra aðgerða til að flýta því að jafnrétti náist á milli kynjanna í heiminum en um leið er kastljósinu beint að nýsköpun, tæknibreytingum og menntun kvenna á stafrænni öld.

Fyrir ári ræddi ég stöðu kvenna í Úkraínu og hún er því miður enn verri núna. Stóra óskin á þessum degi er, eins og þá, að úkraínskar konur fái tækifæri til að vinna að friði. Friður er grundvöllur jafnréttis.



[15:16]
Ingibjörg Isaksen (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Í gær fór fram ársfundur Landsvirkjunar þar sem kom ansi margt mikilvægt og áhugavert fram. Fundurinn bar heitið Grunnur grænna samfélags, en Ísland býr við þau forréttindi að geta orðið fyrsta land í heiminum án jarðefnaeldsneytis. Til að ná settum markmiðum er afar mikilvægt að hafa skýra framtíðarsýn. Svo ég byrji á jákvæðum fréttum þá kom fram að Landsvirkjun hefði skilað methagnaði annað árið í röð og meðalverð til stórnotenda hefði hækkað og skuldastaða lækkað. Er því tillaga frá stjórn fyrirtækisins að skila 20 milljörðum í arðgreiðslur til ríkisins auk þess sem 30 milljarðar fara í skattgreiðslur.

Ég vil nýta tækifærið hér og hrósa stjórnendum og starfsmönnum fyrir góðan árangur. Þessar fjárhæðir skipta verulegu máli fyrir þjóðarbúið, sérstaklega nú á tímum. Reksturinn gengur vissulega vel og því ber að fagna en það eru hins vegar vísbendingar um að ef ekkert verður að gert geti fljótt syrt í álinn. Staðreyndin er nefnilega sú að raforkukerfi Landsvirkjunar er fullnýtt. Engin afgangsorka er til og ef við ætlum að fullnægja eftirspurn og tryggja orkuöryggi þá þurfum við einfaldlega að virkja meira. Ýmsar leiðir eru vissulega til til að bregðast við ástandinu, m.a. að nýta orkuna okkar betur, en veruleikinn er hins vegar sá að veruleg umframeftirspurn er eftir orku í kerfinu og hefur Landsvirkjun þurft að hafna mörgum umhverfisvænum og áhugaverðum verkefnum sökum þessa. Við þurfum því að draga úr orkunotkun okkar en það eitt mun ekki duga til heldur þurfum við að halda áfram að byggja upp samfélag okkar eins og við erum vön úr þeim lífsgæðum sem við erum vön (Forseti hringir.) þar sem íbúar búa við hóflegt orkuverð, öfugt við flestar aðrar þjóðir heimsins. En verkefni okkar hér á Alþingi er að ná samstöðu um þetta mál, (Forseti hringir.) hvert við ætlum að stefna og einmitt að hafa skýra framtíðarsýn.



[15:18]
Andrés Ingi Jónsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Um daginn hlustaði ég á þættina Samstaðan sem Þórhildur Ólafsdóttir vann fyrir Ríkisútvarpið þar sem hún talaði við þær sem voru í forystu fyrir Kvennaframboðið og Kvennalistann. Mikið rosalega segja þessir þættir mikilvæga sögu. Mikið ofboðslega eigum við öll sem sitjum hér inni og allt samfélagið þessum konum mikið að þakka fyrir það pólitíska frumkvöðlastarf sem þær unnu. Það er ekki úr vegi að minnast þessa á alþjóðlegum baráttudegi kvenna sem er í dag og kannski ekki síst vegna þess að núna eftir helgi, á mánudaginn kemur, þá fagnar Kvennalistinn fertugsafmæli. Á þessum 40 árum er búið að stökkbreyta íslensku samfélagi. Kvennalistakonur komu hingað inn í mikla hrútasamkundu, sem Alþingi var 1983, og mættu ekki góðu viðmóti hjá öllum samstarfsfélögunum en börðust og börðust árum saman fyrir fæðingarorlofi, leikskólum sem grunnþjónustu og öllu því sem þarf til að konur geti tekið þátt í samfélaginu til jafns við karla. Þær settu ofbeldi á dagskrá stjórnmálanna, eitthvað sem hafði fengið að liggja í kyrrþey í samfélaginu fram að þessu.

Án þeirra værum við ekki það samfélag sem við erum í dag. En þær komu líka með nýja nálgun á svo mörgum öðrum sviðum, sem gleymist stundum. Kvennalistinn var fyrsta stjórnmálaaflið sem setti umhverfismál og loftslagsmál almennilega á dagskrá og í þessum þáttum minnti Kristín Ásgeirsdóttir okkur líka á hvernig þær börðust árið 1995 fyrir því að mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar yrðu uppfærð af metnaði. Þær stóðu vörð um jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar, þannig að það næði lengra en hrútarnir sem fyrir voru hefðu kannski leyft því að ná, og bættu síðan við að það þyrfti að ganga enn lengra; (Forseti hringir.) það þyrfti að skylda ríki til að grípa til sérstakra aðgerða til að ná fram þessu jafnrétti. Á þeim árum sem liðin eru frá 1995 (Forseti hringir.) þá hefur það nú aldeilis sýnt sig að ríkið þarf á sparki í rassinn að halda í þessum málum. Þess vegna held ég að við mættum rifja upp það sem Kristín Ásgeirsdóttir sagði hér vorið 1995, (Forseti hringir.) um það að við þurfum að halda áfram að vinna það verk að breyta stjórnarskránni þannig að hún standist þær kröfur sem við eðlilega gerum til hennar.



[15:21]
Berglind Harpa Svavarsdóttir (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég er landsbyggðarþingmaður og brenn fyrir byggðasjónarmiðum. Síðustu ár hafa verið erfið, heimsfaraldur skall á og við tók stríð Rússa gegn Úkraínu. Hvort tveggja hafði gríðarleg áhrif á alla heimsbyggðina, rekstur ríkisins og allra sveitarfélaga hér á landi með tilheyrandi verðbólgu. En í heimsfaraldrinum þurfti hraðar hendur til að finna leiðir til að hafa samskipti og á örfáum dögum voru allir landsmenn farnir að funda á Teams og Zoom. Þetta stökk okkar allra inn í tölvuheiminn gerði það að verkum að staðsetning skiptir ekki orðið máli. Allir komust á fundi, höfðu rödd og áhrif. Þessi þróun hefur gjörbreytt aðgangi landsbyggðarinnar að námi, þjónustu og atvinnu.

Ljósleiðaravæðing er orðin hluti af mikilvægum innviðum í dag til að geta notið þjónustu, stundað atvinnu eða framhaldsnám hvaðan sem er af landinu. Gríðarleg tækifæri og um leið hagkvæmnissjónarmið fylgja þessum framförum. Ekki þarf að fljúga suður á alla fundi en samt er hægt að hafa öfluga rödd og stefnumótandi áhrif. Fólk flytur með störf sín út á land og gríðarleg tækifæri eru í aðgangi að alhliða þjónustu á mun hagkvæmari hátt, bæði fyrir notendur og rekstraraðila.

Hér áður þurftu ungmenni ávallt að flytjast búferlum að háskólastofnunum en geta nú stundað fjölbreytt nám heiman frá sér hvar sem er á landinu. Ég vil nota tækifærið og hæla hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fyrir að hugsa út fyrir rammann og búa til ákveðinn hvatasjóð í háskólaumhverfinu. Með því verklagi voru allar háskólastofnanir hvattar til að starfa saman og bjóða saman upp á öflugt alhliða fjarnám. Þessi þróun skiptir okkur öll máli hvar sem við búum. Mikilvægt er að slaka ekkert á þessari vegferð. Þetta er framtíðin.



[15:23]
Björn Leví Gunnarsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Ríkisstjórnin hefur tekið alls konar ákvarðanir um húsnæðismál á undanförnum árum sem flestar hafa verið eftirspurnaraukandi. Ákvörðunin um að geta notað séreignarsparnað til þess að kaupa íbúð eða til að greiða niður höfuðstól láns t.d. er í sjálfu sér ákveðin ákvörðun en ókosturinn við þá ákvörðun er að þetta er ákvörðun fyrir fólk með tiltölulega há laun. Staðan í dag er því sú, þrátt fyrir allar hugmyndir stjórnvalda, að eftir nær áratug af húsnæðisskorti hefur engin ákvörðun stjórnvalda dugað til að leysa húsnæðisvandann með tilheyrandi markaðsáhrifum. Skortur á húsnæði leiðir til hækkunar á húsnæðisverði af því að fólk þarf þak yfir höfuðið. Það hefur enga valmöguleika um annað. Ég er farinn að halda að stjórnvöld vilji hafa húsnæðisskort því að hærra húsnæðisverð bætir skuldastöðu þeirra sem eiga húsnæði svo mikið, að það sé einhvers konar efnahagsleg aðgerð að fórna húsnæðisöryggi fyrir betri skuldastöðu, því að ráðamenn monta sig ítrekað af bættri skuldastöðu heimilanna þrátt fyrir að ástæður þess séu ekki lægri skuldir heldur verðmætari eignir. Sú verðmætaaukning er hins vegar bara á blaði því að fólk þarf þak yfir höfuðið. Krónum í vasa fjölgar ekkert þegar húsnæðið verður verðmætara, en lánagjöld hækka hins vegar.

Nú segir iðnviðaráðherra að húsnæðismarkaðurinn gegni lykilhlutverki og stjórnvöld verði að tryggja lóðaframboð með samkomulagi við einstök sveitarfélög. Á höfuðborgarsvæðinu voru 14.000 íbúðir í byggingu fyrir ári síðan af þeim rúmlega 58.000 sem var búið að samþykkja. Það er sem sagt alveg nóg til af lóðum, a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu þar sem íbúafjöldi hefur aukist úr 61% landsmanna upp í 64% á undanförnum tveimur áratugum. Ég veit ekki hvaða lóðaframboð þarf að tryggja með samningum en stjórnvöld eru augljóslega ekki að leysa nein vandamál á húsnæðismarkaði. Stjórnvöld vilja tryggja lóðaframboð þegar það er nóg af lóðum. Er það í alvörunni tillaga stjórnvalda?



[15:25]
Jakob Frímann Magnússon (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Mikið vildi ég bara geta flutt fagnaðarerindi mitt beint úr sætinu í léttan hljóðnema eins og hér er, en þess mun ég enn bíða. Í gær rakti ég hér stórkostlegar og vaxandi ETS-kolefnisálögur á flugfarþega sem nú blasa við og leggjast þyngst á þá flugfarþega sem lengst þurfa að fljúga til að komast til og frá heimalandinu. Öll viðleitni íslenskra sendifulltrúa, ráðherra og ráðamanna, um að tekið verði tillit til sérstöðu okkar hér við endimörk hins byggilega heims, hefur verið fyrir gýg. Svarið er stutt og laggott: Nei. Sirka 15.000 kall mun að óbreyttu leggjast á hvern farmiða fram og til baka, takk fyrir.

Íslenskri ferðaþjónustu er stefnt í uppnám, þar með ábatasamri alþjóðlegri millilendingarþjónustu, útflutningi á ferskum fiski, inn- og útflutningi ávaxta og grænmetis sem ekki vex hér og áður óþekktir átthagafjötrar verða kynntir til leiks hinum efnaminnstu í samfélaginu, álögum sem nema næstum jafn háum upphæðum og ódýrustu flugfarseðlarnir hafa verið boðnir á.

Er ekki tímabært, herra forseti, að staldra eilítið við og meta stöðu okkar í því hjónabandi við ungfrú Evrópu sem efnt var til fyrir þremur áratugum og er auðvitað fyrst og fremst viðskiptasamband? Nákvæmlega núna er rétti tíminn til að kalla eftir upplýsingum um útgerðarkostnaðinn við þetta EES-hjónaband okkar með öllum þeim kröfum og afarkostum sem þessu sambandi fylgja og bera að sjálfsögðu saman við þá búhnykki sem færa mætti rök fyrir að af ráðahagnum hafi hlotist?

Byrjum á þessum risavöxnu ETS-útblásturssektarákvæðum gagnvart flugfarþegum. Tökum því næst saman allan kostnaðinn við þýðingar hundruða nýrra fyrirmæla og tilskipana á ári hverju, rosalegan ferða- og uppihaldskostnað, þúsundir vinnustunda sendiráðs, ráðuneytis, nefnda og þingmanna við rýningu, umræður, afgreiðslu og innleiðingarkostnað allra þessara 650 árlegu tilskipana, auk annarra meðlimagjalda í þessum dýra og fína klúbbi og berum síðan saman við hreinan efnahagslegan ávinning okkar af öllu bixinu. Skyldu niðurfellingar 10% tolla á sjávarfangi sægreifanna okkar örugglega standa undir öllum útgerðarkostnaðinum? (Forseti hringir.) Ég ætla að óska formlega eftir þessum útreikningum hér úr ræðustóli á komandi dögum.



[15:28]
Friðrik Már Sigurðsson (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Moldin er ein mikilvægasta auðlind jarðar. Hún er annar stærsti geymir kolefnis á eftir hafinu og geymir meira kolefni en andrúmsloftið og allur gróður samanlagt. Moldin skapar vaxtarskilyrði fyrir gróður og miðlar vatni og næringarefnum, hvort sem það er til villts gróðurs eða nytjaplantna. Hún er því undirstaða fæðuframleiðslu á landi. Í tillögu til þingsályktunar um landbúnaðarstefnu til ársins 2040 kemur fram að mikilvægt sé að tryggja að landbúnaður gegni stóru hlutverki innan hringrásarhagkerfisins, ekki síst varðandi nýtingu á lífrænum efnum. Mikil tækifæri felast í markvissri vinnslu og úrvinnslu á lífrænum úrgangi með það að markmiði að nýta hann áfram sem áburð. Molta er einn besti jarðvegsbætir sem völ er á og gerir jarðveginn frjósamari og heilbrigðari. Nauðsynlegt er að koma upp aðstöðu til úrvinnslu lífræns úrgangs sem fyrst og um land allt. Þannig er hægt að koma í veg fyrir umfangsmikla flutninga á efnum milli héraða eða landshluta. Mikilvægt er að í fram kominni landbúnaðarstefnu fylgi aðgerðaáætlun um eflingu innviða vegna endurnýtingar alls lífræns úrgangs sem fellur til á landinu og hvata til þess að hann verði nýttur til framleiðslu innlends áburðar. Slík endurnýting myndi leiða til aukinnar sjálfbærni landsins.

Virðulegur forseti. Ísland hefur allt til að bera til að vera leiðandi í þessum málum.



[15:30]
Viðar Eggertsson (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Í dag er alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti. Þó svo að kvenréttindabaráttan hafi skilað stórkostlegum árangri á þeim ríflega 100 árum síðan konur héldu fyrst upp á þennan alþjóðlega baráttudag eru víða blikur á lofti. Skemmst er frá því að segja að rétt um tvö ár eru liðin frá því að pólsk stjórnvöld svo að segja afnámu með öllu rétt kvenna til þungunarrofs. Hið sama er uppi á teningnum í æ fleiri ríkjum Bandaríkjanna. Óvíða eru réttindi kvenna jafn fótum troðin og í Afganistan þar sem konur búa við kúgun, ofbeldi og einangrun. Frá því talibanar hrifsuðu til sín völd í landinu hafa afganskar konur mátt þola óbærilegar skerðingar á réttindum sínum til frelsis, atvinnu, menntunar og tjáningar.

Alvarlegt kynbundið ofbeldi er líka staðreynd á Íslandi. Af þeim tæplega 33.000 konum sem tekið hafa þátt í rannsókninni Áfallasaga kvenna á vegum Háskóla Íslands hafa 40% orðið fyrir líkamlegu og/eða kynferðislegu ofbeldi á lífsleiðinni. Tilkynningum um heimilisofbeldi fjölgaði umtalsvert í heimsfaraldrinum en lögreglan fær að meðaltali sjö tilkynningar um heimilisofbeldi á degi hverjum. Eftirlitsnefndir Sameinuðu þjóðanna hafa lýst áhyggjum af hárri tíðni heimilisofbeldis á Íslandi og því hvernig tekið er á kynbundnu ofbeldi innan réttarkerfisins hér á landi. Ofbeldi gegn konum er ekki náttúrulögmál. Gera þarf gangskör til að uppræta þennan banvæna faraldur. Það er hægt. (Forseti hringir.) En verkefnið er ærið og það verður ekki leyst nema með markvissum aðgerðum og samfélagslegu átaki. Til hamingju með daginn, konur og við öll.



[15:32]
Jódís Skúladóttir (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að óska konum til hamingju með alþjóðlegan baráttudag kvenna. Mig langar að nýta tíma minn hér í dag og víkja sérstaklega að stöðu ljósmæðra. Ljósmæður eru lykilstétt þegar kemur að kvennaheilsu, hvort sem um mæðravernd, fæðingarþjónustu eða aðra sérhæfða heilbrigðisþjónustu við konur er að ræða. Stéttin er að eldast og stórir árgangar hafa verið að fara á eftirlaun undanfarin ár, þó að örlítil aukning sé í þeim fjölda sem tekinn er inn í ljósmæðranámið en hann var 14 síðasta haust. Í vor munu væntanlega 11 ljósmæður útskrifast og það er ljóst að það er ljósmæðraskortur og hann mun aukast næstu árin nema gripið sé inn í. Þar er mikilvægt að lögð sé áhersla á að nemar alls staðar af landinu séu teknir inn í námið, en það er forsenda þess að hægt verði að halda uppi fæðingarþjónustu á landsbyggðinni til framtíðar. Þær breytingar sem orðið hafa á íslenskum vinnumarkaði, t.d. með styttingu vinnuvikunnar, koma fram á ólíkan hátt hjá ákveðnum stéttum. Skrefið var mikilvægt og til bóta fyrir stórar kvennastéttir. Það verður hins vegar að líta til þeirra sérstöku aðstæðna sem ljósmæður starfa við, en þær eru margar að sinna fæðingarþjónustu á Landspítala, mæðra- og ungbarnavernd á heilsugæslum og heimaþjónustu. Aukið vaktaálag með tilkomu vaktahvata hefur sett mjög íþyngjandi kröfur á stéttina um vinnutíma til að halda uppi launum og það, ásamt miklu álagi, verður til þess að ljósmæður hverfa til annarra starfa. Tölur frá Danmörku hafa sýnt að meðalstarfstími útskrifaðra ljósmæðra er 5–7 ár í faginu og ekki ástæða til að ætla að þróunin sé með öðrum hætti hér á landi.

Mig langar að hvetja heilbrigðisráðherra, háskólana og vinnumarkaðinn til að huga sérstaklega að þessari mikilvægu stétt og bregðast við þeim vanda sem við erum komin í nú þegar og mun bara aukast ef ekkert verður að gert.



[15:35]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að óska okkur öllum til hamingju með daginn. Mig langar að gera hér að umtalsefni pistil eftir hæstv. ferðamálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu í gær. Það er vel hægt að hrósa ráðherra fyrir að ætla að festa flugþróunarsjóð í sessi, sjóð sem var settur á laggirnar 2013 og styður við aukið millilandaflug utan suðvesturhornsins. Til að mynda eru þrjú flugfélög sem fljúga til fimm áfangastaða frá Akureyri og það eru sannarlega lífsins gæði þegar fólk er laust undan því að þurfa að ferðast til Keflavíkur. Það sama má segja um Egilsstaðaflugvöll. Ég hef hug á því meðan ég sit hér inni að leggja enn og aftur fram tillögu um að jafna flutningskostnað eldsneytis til millilandaflugs, enda er það einn af lykilþáttum sem þarf að leiðrétta svo allir sitji við sama borð. Reykjavíkurflugvöllur er varaflugvöllur líkt og Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöllur og þess vegna er augljóst að bæði Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöllur greiði sama verð fyrir eldsneyti og Reykjavíkurflugvöllur. Allir þessir flugvellir gegna sama hlutverki, eins og ég sagði. Ég vil því hvetja hæstv. ráðherra til að stíga skrefið til fulls og jafna þennan flutningskostnað því að ekki tókst það þegar núverandi hæstv. innviðaráðherra sat áður í stóli samgönguráðherra, en nú er lag. Og enn og aftur: Til hamingju með daginn, allar konur.