153. löggjafarþing — 76. fundur
 9. mars 2023.
um fundarstjórn.

greinargerð um sölu Lindarhvols.

[11:54]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Ég verð að fá að koma hér upp því að forseti hefur legið á lögfræðiáliti um hvort opinbera skuli greinargerð setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol og borið við trúnaði. Nú ber svo við að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur afhent þriðja aðila lögfræðiálitið. Hvernig má það vera að forseti gæti ekki betur að rétti okkar þingmanna? Nú er vitað að niðurstaða álitsins er hin sama og lögfræðiálits sem var unnið fyrir Miðflokkinn árið 2020, þ.e. að birta beri greinargerðina, en flokkurinn hefur barist fyrir því í tæp fimm ár. Er ekki komið nóg af hundakúnstum forseta, ekki er hægt að kalla þetta annað, og vanvirðingu hans í garð alþingismanna? Er ekki rétt að birta loks greinargerðina og þó fyrr hefði verið?



[11:55]
Forseti (Birgir Ármannsson):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti vill geta þess að forseta hafa borist upplýsingar um þessa niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál og verður að sjálfsögðu farið yfir það hér.



[11:55]
Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Um þetta sama mál einmitt. Ég velti því fyrir mér hvort lögfræðiálitin sem þingið hefur fengið ættu ekki að birtast sem gögn málsins sem styðja þá ákvörðun forseta að birta ekki greinargerðina, sem rök hans í því máli. Það væri í rauninni mjög áhugavert ef það birtist á vef þingsins lögfræðiálit sem segir: Það á að birta þetta, þegar ákvörðun forseta er að birta þetta ekki. Forseti þarf væntanlega að rökstyðja það á einhvern hátt af hverju hann er ekki að taka tillit til lögfræðiálitsins því að við vitum það jú öll að lögfræðiálit eru eins og þau eru stundum, það er hægt að panta hingað og þangað, þannig að við verðum að taka tillit til innihalds lögfræðiálitanna. Það er ekki bara hægt að taka því eins og einhverju guðspjalli að þau séu hárnákvæm og rétt. Við kunnum öll þá lögfræðifimleika. Er ekki eðlilegt að forseti myndi birta öll þau lögfræðiálit sem hafa fram komið í þessu máli, ákvörðun sinni til stuðnings?



[11:56]
Forseti (Birgir Ármannsson):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti vill geta þess að sú ákvörðun sem liggur fyrir síðast um þetta mál, varðandi birtingu á greinargerð hv. fyrrverandi setts ríkisendurskoðanda, miðaðist við það, þegar síðast var rætt um það í forsætisnefnd, að hún yrði ekki birt að sinni. Forseti mun að sjálfsögðu, eins og áður var getið, fara yfir niðurstöðu úrskurðarnefndar upplýsingamála og skoða þau sjónarmið sem þar liggja til grundvallar, m.a. um birtingu gagna sem eru í fórum þingsins að þessu leyti.

Forseti vill jafnframt geta þess, af því að minnst er á úrskurðarnefnd um upplýsingamál, að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur áður, alla vega í nokkrum úrskurðum á árinu 2021, tekið lögfræðilega afstöðu til þeirrar spurningar hvort greinargerð setts ríkisendurskoðanda heyri undir 15. gr. laga um Ríkisendurskoðun og talið að svo væri. Það er því auðvitað um það að ræða, ef við erum að tala um þann hluta málsins, að sjónarmið úrskurðarnefndar um upplýsingamál hafa töluvert gildi varðandi lögskýringu að þessu leyti þó að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi ekki lögsögu yfir þinginu.



[11:58]
Guðbrandur Einarsson (V) (um fundarstjórn):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Mér þótti athyglisvert að lesa um það í fjölmiðlum í morgun að úrskurðarnefnd um upplýsingamál sé nú að úrskurða um að ákveðinn hluta gagna í þessu svokallaða Lindarhvolsmáli beri að gera opinbera. Ég ætla nú ekki að fara í neinar lögskýringar, enda ekki löglærður maður, en ég vil bara nefna það hér að á síðasta fundi í forsætisnefnd þá samþykkti forsætisnefndin það samhljóða, fyrir utan sjálfan forsetann, að gera öll þessi gögn bara opinber, það væri þinginu til sóma að gera það. Þetta varðar almenning. Hvernig farið er með ríkiseignir skiptir okkur máli. En að það þurfi að toga þetta út úr þinginu með töngum er alveg út í hött.