153. löggjafarþing — 82. fundur
 20. mars 2023.
hafrannsóknir og nýting sjávarauðlindarinnar.

[15:47]
Sigurjón Þórðarson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég er hingað kominn til að spyrja hæstv. matvælaráðherra nokkurra spurninga sem snúa að sjávarútvegsmálum. Sú staða virðist vera uppi núna að hún virðist hafa gleymt nánast öllu sem viðkemur þeim málaflokki sem stendur í stefnuskrá Vinstri grænna og sömuleiðis yfirlýsingum sínum áður en hún tók við embætti matvælaráðherra. Nú er hún fyrst og fremst hér auðmjúkur þjónn SFS, sem áður kallaði sig LÍÚ, og virðist stimpla hvert og eitt einasta frumvarp fyrst niðri í SFS áður en hún leggur það hér fram. Síðan er hún ekki í nokkurri stöðu til að ræða við Landssamband smábátaeigenda um nokkur mál. Verk hennar eru óskiljanleg. Það er eins og það hafi bara runnið á hana eitthvert kvótaæði þegar hún tók við embætti.

Sandkolinn var settur í kvóta og meira að segja sæbjúgun og grásleppan, sem eru ekki nokkur líffræðileg rök fyrir, hún ætlar að setja það líka í kvóta. Það er gert á mjög veikum líffræðilegum forsendum. Með þessu er hún að kvótasetja og um leið að einkavæða og er kannski komin í, eins og maður segir, eitt af þessum atriðum í Verbúðinni þar sem hún er að færa auðlindina upp á eitthvert viðskiptafat. Hún hefur lagt hér fram vinnu í nafni sátta og þeir sem hafa leitt þá vinnu eru þeir sem hönnuðu kerfið. Þeir lögðu til árið 2007 að það ætti nánast að hætta þorskveiðum í tvö ár. Það var farið að þeirra óskum og þorskveiðin var mjög mikið skorin niður með því fororði að það myndi skila afla það sem eftir væri, bara út öldina, yfir 300.000 tonnum. (Forseti hringir.) En sú leiðsögn gekk ekki eftir. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Er eitthvert vit í því að láta svokallaða sérfræðinga, (Forseti hringir.) sem hafa sannarlega haft rangt fyrir sér, leiða starf og láta þá síðan að vera hluta af dílnum, áframhaldinu?



[15:50]
matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ég ætla að reyna að halda mig við kjarna málsins sem snýst um utanumhald utan um þá vinnu sem er í gangi núna, sem er endurskoðunarvinna, sem hv. þingmaður nefnir, undir yfirskriftinni Auðlindin okkar þar sem við erum að freista þess að ná breiðu samtali allra þeirra aðila sem hafa þekkingu og aðkomu að einhverju leyti að sjávarútvegi í þessu landi.

Ég ætla ekki að svara því sem ekki er svaravert, sem snýst um að ég gangi erinda einhverra tiltekinna aðila, því að það er ekki boðlegur málflutningur hv. þingmanns hér. En ég ætla að segja það, af því að þingmaðurinn spyr sérstaklega um samtöl við LS, að LS hefur fengið alla þá fundi sem þau hafa óskað eftir. En þessi ráðherra sem stendur hér er ekki þannig ráðherra að honum sé stýrt af hagsmunaaðilum. Það er algjörlega á hreinu og ég frábið mér slíkar yfirlýsingar.

Varðandi síðan endurskoðunarvinnuna; það sem við viljum sjá að hún leiði af sér er að við séum að byggja uppbyggingu þessarar nýtingar á sjávarauðlindinni á vísindum, á vönduðum vinnubrögðum, á þekkingu og á ábyrgð, á samfélagslegri ábyrgð. Við viljum sjá að þær bráðabirgðatillögur sem núna eru til úrvinnslu, þær 60 sem hv. þingmaður hefur væntanlega séð og kynnt sér, verði grundvöllur næsta skrefs. (Forseti hringir.) Ég hef væntingar til þess að hv. þingmaður, rétt eins og fulltrúar (Forseti hringir.) Flokks fólksins í vinnunni, gangi með opin augun að þeirri vinnu og viljugur (Forseti hringir.) til þess að freista þess að ná meiri sátt í þessum viðkvæma málaflokki en nú er.



[15:52]
Sigurjón Þórðarson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Hér er vitnað í vísindin og ég vil upplýsa hæstv. ráðherra um það að vísindin snúast um gagnrýna hugsun. Það er ekki vísindalegt að setja menn í að leiða starf sem sannarlega hafa haft rangt fyrir sér. Þeir spáðu liðlega 300.000 tonna ársafla á hverju ári en niðurstaðan er allt önnur. Þeir sem leiða þetta starf hafa sett til hliðar líffræðilega gagnrýni á störf þeirra. Það bara liggur fyrir að það var samin skýrsla sem benti á að það sem búið er að reyna hér síðustu áratugina gæti ekki gengið upp og raunin er sú. Að halda það, eins og fram kemur í máli hæstv. ráðherra, að það búi einhver vísindi í einhverjum stofnunum — það er ekki þannig. Það á að vera samtal og ég fagna því en það á ekki að vera þannig að þeir sem hafa sannarlega haft rangt fyrir sér geti ýtt öðrum skoðunum (Forseti hringir.) algerlega út af borðinu. Ég vonast til þess að hæstv. ráðherra opni aðeins augun (Forseti hringir.) og sjái að það eru mikil tækifæri í að taka þessa vinnu og byrja upp á nýtt, taka þau gögn (Forseti hringir.) sem liggja fyrir hendi alveg frá grunni.



[15:54]
matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég skil hv. þingmann svo að hann sé að gagnrýna þær hafrannsóknir sem við leggjum til grundvallar ráðgjöf til stjórnvalda um ráðstöfun og nýtingu á sjávarauðlindinni. Ég er algjörlega viss um það að við eigum að gera miklu betur í hafrannsóknum að því er varðar að skjóta styrkari stoðum undir Hafrannsóknastofnun, og ekki síst að því er varðar aukna áherslu á vistkerfisnálgun og heildarsýn yfir lífríki hafsins. Ég er viss um að Hafrannsóknastofnun er lykilstofnun í grunnrannsóknum og vöktun á sjávarauðlindinni og vistkerfum hafsins á Íslandi og ég held að við myndum gera vel í því að standa með og styðja við Hafrannsóknastofnun og hennar mikilvæga og merka vísindastarf, (Forseti hringir.) vegna þess að það er alveg örugglega samfélaginu og auðlindinni til góðs að styðja betur við þær rannsóknir í stað þess að tala þær niður.