153. löggjafarþing — 84. fundur
 21. mars 2023.
norrænt samstarf 2022, ein umræða.
skýrsla ÍNR, 832. mál. — Þskj. 1285.

[19:02]
Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég ætla hér að stikla á stóru í skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sem liggur fyrir og minna á að árið 2022 voru 70 ár liðin frá stofnun Norðurlandaráðs og 60 ár frá því að Helsingfors-samningurinn, sem er grundvallarsáttmáli norræns samstarfs, var undirritaður. Á þessu ári hófst einmitt umræða um það hvort fýsilegt væri að taka Helsingfors-samninginn til endurskoðunar og endurnýjunar, sem ég fer kannski yfir aðeins síðar í ræðu minni.

Í Norðurlandaráði eins og í öllu alþjóðasamstarfi — við höfum heyrt það ágætlega í þessum skýrslum í dag og í umræðu okkar um utanríkismál — litaði innrás Rússa í Úkraínu mjög okkar starf, eðlilega. Ég er mjög stolt af því, virðulegur forseti, sem við í Íslandsdeildinni stóðum fyrir, því Norðurlandaráð hefur átt í formlegu sambandi og samskiptum við Rússland í töluverðan tíma og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir hefur einmitt gegnt því hlutverki fyrir Norðurlandaráð að halda utan um það samstarf, sem að sjálfsögðu hefur ekkert verið síðan innrásin hófst. Þó nýttum við þá fjármuni sem hafði verið varið í það samstarf. Komið var að Íslandi að taka á móti rússneskum þingmönnum á síðasta ári. Það hefur verið ákveðin hringekja meðal Norðurlandanna og þetta hefur verið gert til að byggja upp tengsl við Rússland og reyna að miðla því sem við höfum fram að færa í Norðurlandaráði. Norræna ráðherranefndin hefur líka verið með stofnanir og vinnu í Rússlandi sem hefur verið lokað og bæði Norðurlandaráð og norræna ráðherranefndin hafa fordæmt innrásina harðlega. Við í Íslandsdeild Norðurlandaráðs ákváðum að nýta haustfundinn sem haldinn var hér síðastliðið haust á Íslandi til að varpa frekara ljósi á þessa innrás og velta því upp hvað við sem þjóðkjörnir þingmenn á þessum svæðum gætum gert til að aðstoða Úkraínu og hver staðan væri í Rússlandi og Hvíta-Rússlandi. Við fengum að bjóða til þingsins úkraínskri þingkonu til sérstaks fundar í tengslum við það, Lesju Vasílenkó, og jafnframt Elínu-Alem Kent, sem er blaðamaður fréttaveitunnar Kyiv Independent, úkraínsk fréttakona. Við buðum fulltrúa úr rússnesku stjórnarandstöðunni, Jevgeníu Kara-Múrza, sem er í útlegð og starfar fyrir Free Russia Foundation en eiginmaður hennar er stjórnarandstæðingurinn Vladímír Kara-Múrza sem nú situr í fangelsi í heimalandi sínu fyrir pólitískar skoðanir sínar. Við vorum líka með fulltrúa frá Belarús, m.a. Franak Vjatsjorka, aðalráðgjafa Svjatlönu Tsíhanóskaju. Við áttum mjög góðan fund hér í Hörpu og ég verð að viðurkenna það, hafandi á síðasta ári verið í tveimur alþjóðastörfum í ÖSE-þinginu og hér, að maður hefur haft tækifæri til að hlusta á úkraínska þingmenn og mörg tækifæri til að fræðast um stöðuna og ekki síst sjónarmið þeirra sem búa þarna nær. Þá vísa ég kannski sérstaklega í Eystrasaltsríkin. Ég held að ég geti talað fyrir hönd okkar í landsdeildinni, að það var alveg ofboðslega mikil ánægja hjá þingmönnum Norðurlandaráðs með þennan fund. Það höfðu ekki allir þingmenn haft tækifæri til að heyra milliliðalaust hver staðan raunverulega væri.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, hæstv. utanríkisráðherra, flutti þarna erindi og átti samtal við okkur í forsætisnefnd Norðurlandaráðs, ásamt þessum góðu gestum og vinum okkar í Eystrasaltsþinginu, sem nauðsynlegt er að minnast á að voru auðvitað ákveðin forsenda fyrir því að þetta gæti allt saman farið fram þar sem þau aðstoðuðu okkur við tengsl til að ná til þessara gesta sem komu til okkar. Það var mjög vel tekið á móti gestum. Hæstv. forsætisráðherra kom og átti samtal við gesti fundarins í matarhléi, þeim var boðið upp á ferð til Bessastaða og ég held að við höfum sýnt allar okkar bestu hliðar og að fulltrúar Norðurlandaráðs hafi verið mjög sáttir við þetta.

Það er mjög hollt og gott að heyra það beint frá úkraínsku þingkonunni Lesju Vasílenkó að til þess að vinna stríðið þyrftu Úkraínumenn aðstoð; vopn og skotfæri, skotheld vesti og einkennisbúninga, brynvarin ökutæki, sjúkrabíla og heilbrigðisaðstoð af ýmsu tagi. Við fórum einmitt sérstaklega yfir það að nú væri Ísland ekki vopnaframleiðandi og væri herlaus þjóð, en það sem t.d. skipti máli væri fatnaður. Fljótlega í tengslum við þetta kom þetta fallega verkefni þar sem Íslendingar prjónuðu úr íslenskri ull og sendu út til Úkraínu. Því er svo margt sem skiptir máli og það var gott að heyra þetta beint frá þeim sem eru þarna á vígstöðvum.

Við sem búum í lýðræðisríkinu Íslandi getum oft kvartað yfir mörgu, sérstaklega í þessum sal, en það var mikilvægt þegar Elína-Alma Kent talaði um upplýsingastríð. Við horfum á hörmungarnar, skriðdreka- og loftárásir, hermenn með byssur og allt þetta, en þetta snýst líka um fjölþáttaógnir, hvernig verið er að beita áróðursstríði til að drepa niður menningu, hvernig verið er að telja fólki og börnum trú um að þau væru í raun ekki Úkraínumenn heldur Rússar — menning þeirra brotin niður með ýmsum hætti. Það skiptir miklu máli að standa vörð um þetta, um frjálsa fjölmiðla og mikilvægi þeirra. En á sama tíma eru erfiðleikar við að berjast gegn áróðursstríðinu því að Pútín og Rússland hafa misnotað fjölmiðla til að koma sínum áróðri í gegn.

Þetta var þessi ágæti fundur okkar sem við héldum í haust, þar sem við fengum góða gesti og ég var mjög stolt af því að geta leitt Íslandsdeildina á þessum fundi því að hann tókst mjög vel og eftir þessu var tekið. Ég kom inn á það í störfum þingsins að við héldum svo vorfund hjá okkur í síðustu viku þar sem við vorum einmitt að ræða um orkukreppuna sem nú ríkir í Evrópu sem er auðvitað afleiðing þessa stríðs. Ein þeirra skilaboða sem komu svo skýrt frá þessum góðu gestum okkar var hversu mikilvægt væri að Norðurlöndin eða Evrópa væri ekki háð gasi frá Rússlandi.

Þrátt fyrir að Úkraínustríðið hafi litað mjög alla umræðu innan Norðurlandaráðs þá er ýmislegt annað sem hefur verið á dagskránni. Árið 2019 setti norræna ráðherranefndin sér framtíðarsýn til ársins 2030 um að Norðurlöndin ættu að vera sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Þessi orðanotkun, sem við notum mjög mikið, er stefnan sem allir hafa sameinast um. Þar eru þrjár stefnumarkandi áherslur um græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Í tengslum við þessa stefnumörkun var kannski verið að setja umhverfis- og sjálfbærnimálin meira á dagskrá og þá fór aukið fjármagn í þau verkefni. Það hefur orðið til þess að töluvert hefur verið dregið úr fjármögnun menningar- og menntamála, sem hefur löngum verið mikilvægasti þátturinn í fjárhagsáætlun norræns samstarfs. Það er auðvitað alveg ljóst að framlög til Norðurlandaráðs á hvern íbúa hafa dregist saman og það verulega. Það er áhyggjuefni og ég held að við í Íslandsdeild Norðurlandaráðs séum sammála um að norrænt samstarf sé mikilvægt og á sama tíma er mikilvægt að fjármagn sé sett í það.

Þar undir er menningarstarfsemi alveg ofboðslega mikilvæg og ég ætla að leyfa mér að koma inn á það að ég held að það sé svo mikilvægt fyrir okkur á Íslandi að við tölum þetta tungumál sem hinir í Skandinavíu skilja ekki. Þegar við förum inn í norrænt samstarf erum við að baksa við að tala okkar menntaskóladönsku og eru sumir mun færari í því en aðrir, eins og gengur og gerist, en sjálf gríp ég oft til enskunnar. Íslenska er auðvitað viðurkennt tungumál innan Norðurlandaráðs þannig að við fáum túlkun á fundum og annað, en þess á milli eru samt þessi samskipti við fólk og þau skipta máli. Nú verð ég að viðurkenna að ég fer í svolitla hringi með það hversu mikilvægt það er fyrir okkur að kunna dönsku eða eitthvert annað Norðurlandamál. Ég held að við í Íslandsdeildinni og við sem tölum fyrir norrænu samstarfi þurfum svolítið að velta þessu upp og þetta er ekkert nýtt. Það hefur verið talað um þetta í töluverðan tíma, en ég held að einhverju leyti að þetta kunni að vera heftandi fyrir okkur, ekki síst fyrir unga fólkið, því ég held að dönskukunnáttu hafi frekar hrakað en hitt. Svo að ég nefni nú dæmi úr mínu persónulega lífi þá er ég með eitt stykki Dana þessa vikuna, ungan dreng sem er skiptinemi og er að koma að heimsækja son minn sem fór til Danmerkur í fyrra. Þessi nemendaskipti unglinga milli Danmerkur og Íslands eru einmitt styrkt af norrænum sjóðum, en þeir tala ensku sín á milli. Kannski er það bara allt í lagi og kannski þurfum við bara að horfa til þess að þá eru báðir aðilar að mætast á jafnréttisgrunni með því að tala sitt annað tungumál, ekki annar að tala móðurmálið og hinn að baksa við að reyna það.

Ég ítreka það hversu mikilvægt norrænt samstarf er fyrir okkur Íslendinga. Norðurlandaráð og norrænt samstarf hefur verið með ákveðna dínamík sem hefur að mörgu leyti verið mjög góð. Hluti af Norðurlöndunum er í Evrópusambandinu og hluti ekki. Hluti hefur verið í NATO og hluti ekki, en ég fagna mjög væntanlegri inngöngu Finna í NATO og það hefur ákveðin áhrif á dínamíkina í samstarfinu. Ég kom aðeins inn á það í ræðu áðan varðandi utanríkisstefnuna okkar, að ég óttast mjög mikið að sú dínamík muni hafa veruleg áhrif til framtíðar á framtíð Norðurskautsráðsins. Vegna þess að við erum auðvitað norðurslóðaland, og ég vil gjarnan í minni pólitík leggja mikla áherslu á það, þá held ég að Norðurlandaráð sé góður vettvangur til að taka upp samtal um norðurslóðir og mikilvægt fyrir Norðurlöndin að sameinast í ákveðinni stefnu um hvernig eigi að nálgast það hápólitíska mál sem norðurslóðir eru. Það er bæði risastórt umhverfis- og loftslagsmál en líka ofboðslega stórt varnar- og öryggismál. Við höfum auðvitað rætt töluvert um varnar- og öryggismál hér og einhverjir hafa meira að segja nefnt það í umræðunni á síðustu vikum að Ísland þurfi að stofna her. Ég ætla ekki að taka undir þau sjónarmið, en kasta þó inn í umræðuna að ef á því væri þörf þá mætti miklu frekar velta fyrir sér sameiginlegum her Norðurlandanna. Nú eru Norðurlöndin öll með her. Ég velti því alveg fyrir mér hvernig umræðan um öryggis- og varnarmál muni þróast innan Norðurlandanna, því að þetta eru svo líkar einingar. Á sama tíma og ég tek undir mikilvægi þess að við séum með varnarsamning við Bandaríkin og séum í NATO, þá eiga Norðurlöndin miklu meira sameiginlegt í lagagrunni sínum, samfélagslegum grunni og velferðargrunni.

Ég held því að mikilvægt sé að öryggis- og varnarmál séu tekin upp á vettvangi Norðurlandaráðs. Það er mín prívatafstaða, nú er ég ekki að tala fyrir hönd landsdeildarinnar og ég efast ekki um að skoðanir geti verið skiptar um það. Þar af leiðandi finnst mér til að mynda full ástæða til þess, sem ég nefndi hér áðan, að þegar 70 ár eru liðin frá stofnun Norðurlandaráðs og 60 ár frá því að Helsingfors-samningurinn var undirritaður, að samningurinn verði tekinn upp þannig að víddin um öryggis- og varnarmál sé tekin inn. Þingmenn Norðurlandaráðs hafa haldið áfram að hvetja til aukins samstarfs Norðurlandanna um samfélagsöryggi sem er einn liður í þessu, sérstaklega ef við horfum á norðurslóðir og þá öryggishættu sem þar kann að skapast. Nú er ég ekki bara að tala um öryggismál tengd hernaði eða slíku heldur líka samfélagslegt öryggi, öryggi sjófarenda á þessu svæði. Það er alveg ljóst að ef til slyss kemur á norðurslóðum þá erum við með ofboðslega stórt og mikið svæði undir sem við berum ábyrgð á og getum kannski illa sinnt án þess að eiga gott og öruggt samstarf við vini okkar á Norðurlöndunum, og í þeim efnum horfi ég kannski sérstaklega til Noregs og Danmerkur með sína aðstöðu á Grænlandi.

Fram undan er spennandi ár hjá Norðurlandaráði og við munum án efa halda áfram að tala um þau mikilvægu mál sem þar eru undir. Ég hef auðvitað með engum hætti náð að fara yfir skýrsluna í heild sinni og ég fagna því að hér eru félagar mínir í Íslandsdeildinni staddir og veit að þeir munu taka til máls og kannski benda á þá þætti sem þeim finnst standa upp úr.

Ég ætla að minna á að Norðurlandaráð er í töluverðu alþjóðlegu samstarfi og stefna okkar í því var einmitt samþykkt núna á þinginu. Hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson sat í nefndinni sem fór yfir þá vinnu og ágætlega er farið yfir það í þessari skýrslu hversu víðtæk þátttaka okkar í Norðurlandaráði er í samstarfi við aðrar alþjóðastofnanir og önnur alþjóðaþingmannaráð. Ég held að það skipti máli, sem sést glöggt á því hversu mikill áhugi er á Norðurlandaráði. Það er mikill áhugi á að vinna með Norðurlöndunum og Norðurlandaráði víða og því ber að fagna. Það held ég að sýni svo sannarlega að þetta er klúbbur landa sem margir vilja bera sig saman við.



[19:19]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Samstarf Norðurlandanna hefur aldrei verið mikilvægara. Þetta er svona frasi sem stendur upp úr öllum og einkum á hátíðisdögum. Þegar við komum saman, norrænir þingmenn, þá tölum við þannig að norræna samstarfið þurfi að styrkja og að það hafi aldrei verið mikilvægara en einmitt núna. Og ég er innilega sammála því. En um leið og við segjum þetta þá þurfum við einhvern veginn að láta það raungerast og sjá það fyrir að Norðurlöndin geti verið samþættasta og sjálfbærasta svæði í heimi.

Þá vil ég tala um fjármálin sem við reyndar tölum mikið um í forsætisnefnd. Það er þannig, frú forseti, að síðan 1995 hafa fjárframlög til Norðurlandasamstarfsins, í þeirri mynd sem við þekkjum það, dregist saman ár frá ári, á hverju ári alveg síðan 1995, miðað við verga landsframleiðslu landanna. Á þessum sama tíma hafa verið gerðar nokkuð margar kannanir meðal íbúa norrænu ríkjanna þar sem næstum því allir segja að þeir vilji aukið samstarf. Íbúarnir, kjósendurnir segja: Við viljum aukið samstarf. Ríkisstjórnirnar segja: Við ætlum ekki að láta aukna fjármuni í þetta samstarf. Við ætlum að láta norræna samstarfið taka minni skerf af vergri landsframleiðslu landanna.

Mér finnst þetta bara ekki ganga upp. Síðustu vendingar sem við höfum verið að slást við, og vorum kannski svolítið sein að átta okkur á í forsætisnefnd hvað þýddu, er að ný verkefni voru sett inn á borð samstarfsins, sem eru græn verkefni sem eru sannarlega mikilvæg, en fjármagnið til að fara í þessi grænu verkefni var tekið af menningarmálunum og skólamálunum. Menningarmál og skólamál eru málin sem grasrótin teygar í sig og eru stoðirnar undir norræna samstarfinu. Það er hættulegt, frú forseti, tel ég, fyrir samstarfið að draga úr styrkjum til bæði verkefna og eins til norrænna stofnana sem nú eru að draga saman seglin. Það eru alls konar verkefni sem detta upp fyrir og stofnanir okkar veikjast vegna þess að skera á niður fjárframlög til menningar- og skólamála um 25% af því að við þurfum að fara í grænu verkefnin.

Ég held að þetta hafi verið röng ákvörðun á sínum tíma og við þurfum að snúa þessu við. Grænu verkefnin eru stærstu sameiginlegu verkefni mannkynsins alls en norræna menningin og norrænu skólamálin og norræna samstarfið á milli stofnana, milli félagasamtaka, milli fyrirtækja og allt þetta sem við þekkjum er okkar og við eigum að hlúa að því. Við þurfum að snúa þessari þróun við með einhverjum hætti og standa saman um það. Mér heyrist nú vera samhljómur innan Norðurlandaráðs um nákvæmlega þetta, að ekki sé hægt að ganga svona hart í niðurskurði á þessum grunnstoðum fyrir samstarfið okkar, það sem einkennir okkur, og að nýir peningar þurfi að koma fyrir ný verkefni.

Frú forseti. Það eru risaverkefni sem lemja okkur í andlitið. Það eru réttlát græn umskipti, það er sjálfvirknivæðingin og svo erum við að glíma við ástand vegna þess að það er stríð í Evrópu. Við vorum farin að tala um öryggismál fyrir fimm árum í Norðurlandaráði. Á þeim tíma fengum við sérfræðinga inn til forsætisnefndar sem sögðu okkur frá því að eitthvað væri að gerast í Rússlandi, það væri eitthvað skrýtið að gerast, og að Svíþjóð og Finnland þyrftu að efla sínar varnir. Það var strax farið að tala um að þarna væri einhver ógn á ferðinni. Við settum saman hóp í forsætisnefnd um samfélagsöryggi þar sem var einn frá hverjum flokkahópi, flokkahóparnir eru fimm, og ég fékk að vera þar fyrir flokkahóp jafnaðarmanna. Í stefnuplaggi þeirra er talað um netárásir, það er talað um falsfréttir, um orkuskort, ofsaveður, skógarelda, matvælaöryggi, jarðskjálfta, eldgos og hvernig við ætluðum að standa saman í almannavörnum og hjálpa hvert öðru þegar að þessu kæmi, ef eitthvað af þessu myndi dynja á okkur. Þetta eru allt saman ógnir þótt það séu ekki stríðsógnir. Í þessari stefnu var ekki talað um her en það var talað um heimsfaraldur og þetta var árið 2018. Við samþykktum stefnuna, við kölluðum eftir viðbrögðum frá ríkisstjórnum okkar um hvað það væri sem við vildum að þær gerðu í þessum efnum og við fengum svör. Okkur þóttu þau ekki nægilega skýr og við sendum aftur bréf og þrýstum á ríkisstjórnirnar að tala saman um samfélagsöryggi, um almannavarnir og að við myndum hjálpast að þegar ógn steðjaði að. Svo skall á heimsfaraldur, sem við sáum ekki fyrir, og þá komu í ljós brotalamir í samstarfinu á milli norrænu ríkjanna. Kannski var það einkum áberandi á landamærasvæðunum þar sem fólk fór í skóla og starfaði yfir landamæri en löndin töluðu ekki saman um sóttvarnir. Um þetta höfum við mikið rætt líka, veit ég, á vettvangi framkvæmdarvaldsins og þjóðirnar eru staðráðnar í því að láta þetta ekki koma fyrir aftur.

Frú forseti. Norðurlöndin eru þannig staðsett að þau eru mitt á milli, þau getað teygt sig í vestur og þau geta teygt sig í austur og svo geta þau farið norður og suður í Eystrasaltslöndin. Þau eru vel staðsett til að safna saman fólki og stuðla að friði og friðsamlegum lausnum. Það er von mín að það verði einmitt okkar hlutverk þegar til lengri tíma er litið.

Mig langar í lokin, forseti, að segja frá því sem við jafnaðarmenn erum að hugsa í öryggismálum. Ég veit ekki hvort ég hef tíma til að fara yfir það allt en við skrifuðum grein á dögunum um stöðuna í öryggismálum, að hún hafi versnað gífurlega, að samskiptin við Rússa séu auðvitað gjörbreytt. Þess vegna sé ærin ástæða til þess að dýpka og efla samstarf í varnar- og öryggismálum og aðild Svía og Finna að NATO muni efla norrænt samstarf í varnarmálum. Við leggjum til að þjóðþingin komi með í þetta og búin verði til ein nefnd með þingmönnum frá öllum löndunum þar sem settar verði niður pólitískar áherslur í öryggis- og varnarmálum og sett niður meginstefna til framtíðar í þessum málum fyrir norrænu ríkin. Nú getur það verið að þegar öll norrænu ríkin eru komin í NATO muni norræna samstarfið í varnar- og öryggismálum styrkjast en það getur líka verið að okkur finnist það bara óþarft. Þetta eru því svolítil tímamót. Sama má segja um ESB. Þrjú landanna eru í Evrópusambandinu. Ef við værum þar öll myndum við þá bara horfa þangað? Sumir segja reyndar að ástæðan fyrir því að fjármunir til norræns samstarfs hafi skroppið saman frá 1995 sé sú að þrjú stór lönd eru í Evrópusambandinu og eru að setja krafta, bæði peninga og starfskrafta, í það samstarf og þess vegna verði minna úr norrænu samstarfi.

Við stöndum á tímamótum. Ég hef sleppt því að tala um stefnu í alþjóðamálum af því að ég veit að hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson vill tala um það enda sat hún í þeim hópi, tíminn líður allt of hratt. Um leið og við segjum að norrænt samstarf sé mikilvægt og hafi aldrei verið mikilvægara þá þurfum við að sýna það í þjóðþingunum og í ríkisstjórnunum.



[19:30]
Hanna Katrín Friðriksson (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Það er gott að koma hingað upp og fara að ræða um norrænt samstarf. Þeir tveir hv. þingmenn sem hafa talað hér áður, Bryndís Haraldsdóttir, sem er formaður Íslandsdeildarinnar okkar, og Oddný G. Harðardóttir, sem er varaformaður Íslandsdeildarinnar okkar, hafa nýtt tímann vel í að fara yfir helstu atriði þannig að ég er kannski með svolítið frítt spil hérna þegar ég kem upp sem þriðji ræðumaður. Þetta eru þá einhverjir punktar sem önnur hvor þeirra, ef ekki báðar, hv. þingmenn, hafa drepið á.

Það skiptir svo miklu máli þetta með tilgang samstarfsins, hvað við ætlum að fá út úr þessu. Ég er ekki ein þeirra sem finnst lausnin alltaf felast í meiri fjármunum en ég tek af heilum hug undir gagnrýni á að eðlileg og mikilvæg áherslubreyting í norrænu samstarfi í átt að loftslagsmálum og umhverfismálum sé á kostnað fjárfestingar okkar í menningu og norrænum gildum af því að það er raunverulega það sem við erum að tala um. Þarna liggja náttúrlega rætur þessa mikilvæga norræna samstarfs. Síðan er alveg hægt að hugsa þetta víðar og sjá fyrir okkur hvernig við erum akkúrat þar fyrirmynd margra þjóða sem eru að ströggla í þessa átt, að ná að spila eftir lýðræðisreglum, ekki bara setja þær einu sinni með blóði, svita og tárum jafnvel heldur að spila eftir því, ná að viðhalda velferðarkerfum, ná að vera friðsamar þjóðir, ná að búa íbúum sínum að mestu leyti gott og öruggt líf o.s.frv. Við höldum á þessu fjöreggi lýðræðisríkja, norræna módelinu, og við ættum auðvitað að vera að styrkja það en ekki að taka það sem ég myndi kalla óþarfa sénsa með því að vera að færa fókusinn í þessu norræna samstarfi. Ég held að hv. þm. Oddný G. Harðardóttir hafi hitt naglann á höfuðið þegar hún sagði að loftslagsmálin og þessi mál væru alheimsmál á meðan við ein pössum upp á okkar gildi.

Ég kem inn í Norðurlandaráð sem þingmaður, fulltrúi Íslandsdeildarinnar, fyrir ári síðan. Þá vorum við að stíga upp úr Covid sem reyndist, rétt eins og hv. þingmenn hafa komið inn á, býsna mikill prófsteinn á margt af þessu og síðan er þá innrás Rússa í Úkraínu að eiga sér stað bókstaflega, þannig að auðvitað hefur þetta litað gríðarlega norrænt samstarf. Við höfum alla tíð haft náið samstarf við vini okkar í Eystrasaltsríkjunum, annars vegar þingmannanefndir þessara ríkjahópa, Norðurlandanna annars vegar og Eystrasaltsríkjanna þriggja hins vegar, og líka í gegnum þingmannanefnd Eystrasaltsins sem í eru þá að viðbættum þessum þremur þjóðum Þýskaland, Rússland, þar til Rússar urðu ekki húsum hæfir, og Pólland og svo einstaka fylki innan þessara landa. Þannig að við höfum verið í mjög þéttu sambandi og vaxandi sambandi, eins og hér er búið að fara yfir, við þessar þjóðir sem, fyrir utan auðvitað þá þjóð sem ráðist er á, eru nálægt auga stormsins og það er óhætt að segja að það ríkir einfaldlega mikill ótti um næstu skref. En þetta er nú svona.

Mig langaði að nefna tvennt til viðbótar, annars vegar þessa alþjóðastefnu sem drepið hefur verið á og við höfum farið yfir. Þetta er í annað skipti sem við setjum stefnu, fyrri stefnan var frá 2018–2022 og síðan er verið að setja núna til næstu fjögurra ára og ég held að óhætt sé að segja að ástandið í heiminum hafi haft svolítil áhrif. Það hefur verið mjög mikill fókus á öryggis- og varnarmál og samstarf Norðurlanda þar og stöðu okkar í heiminum, áskoranir og mögulega einhver tækifæri sem fela í sér þéttara norrænt samstarf. Ég held að það sé óhætt að segja að það er mjög mikil samstaða meðal Norðurlanda um þessi mál. Umsókn og líkleg, ætla ég að leyfa mér að segja, innganga Finna og Svía í NATO hefur auðvitað áhrif á þetta en jafnframt eru fulltrúar Norðurlandanna í Norðurlandaráði mjög meðvitaðir um að við verðum að halda okkar norræna samstarfi þéttu, koma fram sem ein heild þar sem hægt er og þar sem við njótum góðs af og getum látið aðra njóta góðs af. Það erum við sem meðal annarra og ekki síst stöndum vörð um lýðræðisleg gildi, frið og mannréttindi og það er okkar að halda þéttum tengslum við þá bandamenn okkar sem halda þessum gildum á lofti líka, annars vegar þá sem þegar hafa þessi gildi í hávegum og hins vegar þjóðirnar sem eru að sækjast eftir því að búa til þannig þjóðfélag. Þarna skiptum við máli. Vissulega er það svo að við erum ekki ein og sér stór og ekki heldur hinar Norðurlandaþjóðirnar en saman erum við býsna sterk. Við erum tæplega 30 milljónir sem gerir okkur öll að 12. fjölmennasta ríki Evrópu og enn þá öflugri þegar tekið er tillit til annarra mælikvarða, fjárhagslegra mælikvarða og slíkt. Við erum því í mjög góðri stöðu til að hafa áhrif.

Í þessari vinnu um alþjóðastefnuna var öryggi á Norðurlöndum og í nærumhverfinu auðvitað mjög mikið ofan á og við settum það markmið að vera lifandi vettvangur fyrir þingumræður um varnar- og öryggismál og að tryggja þessi nærsvæði okkar. Það var líka farið í aðra þætti, heimsskipan sem byggðist á reglum og norræna líkanið. Þetta eru aðrir hlutir sem við viljum annars vegar vernda og hins vegar leyfa öðrum að njóta góðs af bókstaflega. En mig langar til að nefna sérstaklega tvennt sem mögulega í hinu stóra samhengi gætu virst ekki svo mikil grundvallaratriði en sem við héldum á lofti sem fulltrúar Íslands, þurftum ekki að slást um það við hin Norðurlöndin en það var engu að síður þannig að þetta þurfti að minna á, og það er að veita réttindum barna og kvenna og kyn- og frjósemisheilbrigði, réttindum þeirra, málefnum hinsegin fólks, fólks með fötlun og frumbyggjum sérstaklega athygli og síðan það að stuðla að réttindum kvenna og stúlkna til að taka sjálfar ákvörðun um þungunarrof. Þegar ég segi að í stóra samhenginu, bókstaflega lífi og dauða, friði eða stríði, megi vel vera að þetta séu ekki stóru málin, og einhverjir kunna að hrópa það, þá er ég að benda á að hvert sem við lítum í heiminum, hvort sem það eru Bandaríkin eða Rússland, innrás Rússa í Úkraínu, Afganistan eða Íran, þá snýst þetta alltaf um þessi atriði. Þetta eru réttindin sem eru undir. Þannig að vissulega er þetta grunnurinn sem reglur og hið norræna líkan hvílir á og síðan er það sjálfbær þróun á Norðurlöndum og á heimsvísu. Þessi stefna var mjög vel ígrunduð og það var ánægjulegt að sjá hana samþykkta á Íslandi á þemaþinginu okkar í þarsíðustu viku.

Herra forseti. — Nú missti ég fókusinn. Svona er að mæta svo góð með sig að vera ekki með neitt skrifað. Mig langar í lokin að segja frá því að fyrir utan það að vera Íslandsdeild Norðurlandaráðs, af því að hver þjóð mætir með sína þingmannadeild, eru fimm flokkahópar, starfandi pólitískir flokkahópar innan Norðurlanda. Íslenskir þingmenn sitja í einhverjum af þessum flokkahópum og ég naut þess heiðurs, myndi ég vilja segja, í haust. Þar sem þeir þingmenn sem höfðu gegnt stöðu formanns og varaformanns í miðjuflokkahópnum, þar sem Viðreisn ásamt Framsóknarflokki og Flokki fólksins eiga sæti, hurfu af þingi tók ég við tímabundið sem varaformaður. Ég ætla að leyfa mér að skauta aðeins inn í árið 2023 þó svo að við séum að ræða skýrslu síðastliðins árs og segja frá því að ég var á nýliðnu þingi Norðurlandaráðs á Íslandi kjörin formaður þessa flokkahóps. Það er mjög skemmtilegt að fá tækifæri til þess annars vegar að vinna að framgangi Norðurlandasamstarfsins á svona vettvangi en líka að fá tækifæri til að vera rödd Íslendinga inni í þessu samstarfi. Þetta er enn þá meiri vídd. Það er bara sérstaklega gott að finna hve rödd okkar Íslendinga í öllum þeim málefnum sem skipta íbúa Norðurlanda máli er sterk og hvað þingmenn héðan eru margir öflugir. Það er hvergi komið að tómum kofanum hjá þeim. Þeir geta tekið þátt í allri samræðu. Ég trúi því að þetta skipti ekki bara samstarf erlendra landa máli heldur líka það hvernig við þroskum og þróum áfram bæði pólitíska umræðu hér á landi og bara samfélagið okkar. Við getum sannarlega lært ýmislegt af okkar ágætu nágrönnum á Norðurlöndum á sama tíma og það er sitthvað sem við getum kennt þeim.



[19:40]
Orri Páll Jóhannsson (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Mig langar nú bara að taka aðeins upp þráðinn þar sem frá var horfið hjá hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson og í anda þess sem hefur komið fram í fyrri ræðum um mikilvægi norrænnar samvinnu og hvert gildið er fyrir okkur sem tökum þátt í þessu. Sitjandi í Íslandsdeild Norðurlandaráðs þá lít ég á það sem forréttindi að geta tekið þátt í þessu samstarfi. Ég er þeirrar skoðunar og deili þeirri sýn með hv. þingmönnum sem hér hafa talað að norrænt samstarf er okkur Íslendingum afar mikilvægt. En það er líka svo að við getum sannarlega lagt heilmikið til málanna og höfum verið að gera það. Það eru bara sóknarfæri á þeim vettvangi. Við erum jú líka heppin með að við erum hlutfallslega stærsta landsdeildin, svona þegar horft er á það, þannig að við eigum að nýta okkur það að geta haft sterka rödd í þessu samhengi.

Því tengt langar mig bara stuttlega að koma inn á það, af því að hér erum við að ræða skýrslu síðasta árs, að á Norðurlandaráðsþingi síðastliðið haust kynnti okkar hæstv. forsætisráðherra formennskuáætlun norrænu ráðherranefndarinnar sem ber einmitt heitið Norðurlönd - afl til friðar. Ég nefni þetta í beinu framhaldi af þessu með að við getum haft áhrif og kem þá gjarnan inn á það sem formaður landsdeildarinnar kom inn á hér um samstarf eða samvinnu um norrænan her. Eins og gefur að skilja deilum við hv. formaður nefndarinnar engan veginn þeirri sýn eða skoðun að ástæða sé til að efla samvinnu norrænu þjóðanna með því að koma á fót sérstökum norrænum her. En — og ég horfi þá til heitisins Norðurlönd - afl til friðar, sem er formennskuáætlunin í norrænu ráðherranefndinni — við erum svo lánsöm á Norðurlöndunum að í yfir 200 ár höfum við búið við frið. Ég er ekki í nokkrum vafa um það og ég efast ekki um að sagnfræðingar, og ég er það ekki, að stór hluti af ástæðu þess að okkur, þessum þjóðum sem standa saman í dag að því sem heitir Norðurlandaráð, hefur í ríflega 70 ár tekist að standa saman að friði þrátt fyrir að hafa farið í gegnum mismunandi stjórnarfar er m.a. vegna þessara tengsla og þessara róta sem komið var inn á í fyrri ræðu. Við eigum sameiginlegar rætur á þessum vettvangi og við höfum borið gæfu til að rækta þetta og höldum áfram að rækta þetta. Mikilvægi norræns samstarfs verður, held ég, aldrei of oft áréttað.

Ég tek hins vegar líka undir með hv. þm. Oddnýju Harðardóttur þegar hún bendir á að stundum sé það nú kannski meira í orði en á borði þegar við erum að tala um fjárveitingar. Ég veit að við deilum ekki öll sýn í því. Þegar við verðum þess áskynja, verandi þeirrar skoðunar að okkur finnst norræna samstarfið mikilvægt og við sjáum að við fáum heilmikið út úr því og getum lagt mikið til þess, þá verða að mínu mati líka að fara saman hljóð og mynd í því. Ef raunvirði, eins og sagt er, framlaga til þessa mikilvæga samstarfs hefur minnkað, hvort sem þátttöku eða aðild einstaka Norðurlanda í Evrópusambandinu er um að kenna að ekki, þá fara ekki alveg saman hljóð og mynd.

Þessu tengt: Eins og formaðurinn kom inn á og er getið í þessari ágætu skýrslu var síðastliðið ár ekki bara plagað af innrásinni í Úkraínu, sem eðli málsins samkvæmt tók töluvert yfir umræðu og umfjöllun á vettvangi Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar líka, heldur var töluverð umræða um akkúrat þessar áherslur, sem voru jú reyndar lagðar 2019 í síðustu formennskutíð Íslands, að færa hluta af því fjármagni, þeim stokki sem til væri inni í kerfunum, færa áhersluna og þá frekar úr menningu og menntun, sem sannarlega hefur kannski verið mesta vigtin í á undanförnum árum og raunar frá upphafi, yfir í þær áskoranir sem við stöndum sameiginlega frammi fyrir sem heimur þegar kemur að því að ná fram raunverulegri sjálfbærni og stemma stigu við þeirri loftslagsvá sem við stöndum frammi fyrir.

Það var mikil umræða á síðasta ári á fundum, ýmist í flokkahópunum eða í einstaka nefndum, og ég veit að það var líka í forsætisnefnd þó að ég eigi ekki sæti þar, um að þetta kunni að hafa verið of langt gengið. Við höfum rætt það á landsdeildarfundum hér, veit ég, inni í flokkahópunum, að eitt er að taka ákvörðunina, annað er að fylgja henni eftir og meta svo stöðuna á ákveðnum tímapunkti. Það er, held ég, eitthvað sem við getum sameinast um að gagnrýna, að ekki hafi verið gert, metið með nægjanlegum hætti hvaða áhrif þessi tilfærsla á fjármunum hefur þá á framgang mála þegar kemur að menningu og menntun. Einhvers staðar virðist ekki hafa verið farið nægilega yfir það hversu miklu hlutverki menning og menntun gegna í því að ná raunverulega fram árangri þegar kemur að því að berjast við loftslagsvána. Þetta er eitthvað sem ég treysti að sé í skoðun og ég treysti að við stöndum saman í að minna á og reyna að ná fram breytingu á og það eru auðvitað teikn um það, eins og við höfum séð.

Það hefur verið komið inn á það í fyrri ræðum hvernig Norðurlöndin, og þá í samstarfi við Eystrasaltslöndin, með systurstofnun okkar þar, þ.e. Eystrasaltsráðinu, stóðu saman að því að ræða okkur, með gestum, í gegnum þessar hörmungar sem á íbúum Úkraínu dundu fyrir rúmu ári síðan. Þetta er akkúrat dæmi um það hvernig samvinnan, hin norræna samvinna og svo aftur samvinna nágranna okkar aðeins lengra til austurs, getur skipt máli í að ná árangri í friðarmálum. Aftur kem ég að því að ég held að sameiginlegur her Norðurlanda sé ekki lausn í því. Við verðum að standa saman að því að boða frið, standa saman að því að leita friðsamlegra lausna. Öllu stríðir linnir jú á einhverjum tímapunkti og alltaf með samningum, ekki endilega með herafli sem hefur þessar hræðilegu afleiðingar á líf og limi fólks sem standa í því.

Eitt sem ég vil gjarnan koma inn á, vegna þess að hér kom hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, formaður landsdeildarinnar, inn á þetta með tungumálið, og það er að ein af þessum áskorunum, og ég held skemmtilegu áskorunum, sem Norðurlöndin standa frammi fyrir er einmitt tungumálið. Kannski eru það sérstaklega við Íslendingar sem erum með örmál, og það á við um sjálfstjórnarsvæðin líka, sem sjáum þessa þróun, þ.e. að samskiptatungumálið er ekki endilega norrænt mál. Í því samhengi langar mig að koma inn á, af því að ég veit að við erum öll sammála um það í landsdeildinni að mikilvægi túlkaþjónustunnar í þessu samstarfi verður aldrei ítrekað nægilega oft, að það að geta tjáð sig á sínu eigin tungumáli í samskiptum og samvinnu og samstarfi við kollega af Norðurlöndunum er mjög mikilvægt. Við, eðli málsins samkvæmt, erum ekki alltaf með túlk með okkur og getum sannarlega bjargað okkur og tekið þátt í samtölum á einhvers konar norrænu máli en að geta verið einhvers staðar með túlk sér til aðstoðar og talað frjálst og raðað orðunum saman eftir því sem hentar, miðað við það hvernig maður vill leggja áherslu á hlutina, er mjög mikilvægt. Ég er afar þakklátur fyrir þessa þjónustu sem við getum nýtt okkur og eigum það sameiginlegt með Finnum. Ég vildi reyndar gjarnan sjá að sjálfstjórnarhéruðin nytu þessarar þjónustu líka en það er önnur og dýpri pólitík.

Að lokum vil ég segja það, herra forseti, að ég tek heils hugar undir það sem fram hefur komið hér um að norrænt samstarf er okkur afar mikilvægt. Við getum ekki bara lagt heilmikið af mörkum í því heldur líka dregið upp myndir þar sem er augljóst að við þurfum að vinna saman. Ég hef nefnt þetta með friðaráhersluna. Minn flokkahópur, norræn vinstri græn, hefur lagt fram tillögur um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd, allt í anda þess friðarboðskapar að við eigum að geta sameinast um það á Norðurlöndunum að, eins og stundum hefur verið sagt, friðlýsa svæðið gegn kjarnorkuvopnum. Önnur tillaga sem við drógum upp, sem ég veit að snertir okkur og er norðurskautsmál í leiðinni, og hefur verið til umræðu á vettvangi nefndanna er að við sameinumst um að reyna að koma einhverjum böndum á í dag óhefta umferð skemmtiferðaskipa um hafsvæði okkar hér í norðri. Við urðum þess áskynja þegar við hittumst í mínum flokkahópi á Grænlandi síðastliðið sumar að þetta er gegndarlaus ásókn og innviðirnir mjög takmarkaðir. Við þekkjum þetta úr íslensku samhengi þar sem við þó búum við innviði sem geta að einhverju leyti tekið á móti þessu en ásóknin er virkilega mikil. Í þessu felst ákveðin öryggisógn, að hafa ekki eitthvert „styr på det“, ég bið herra forseta, áður en hann ávítar mig, afsökunar á því að hafa ekki notað íslensku sem þingmál, og við getum unnið sameiginlega að því að koma einhvers konar böndum á það. Við eigum að nota norrænan vettvang til þess að ræða okkur niður á einhverja niðurstöðu um það sem við getum svo mögulega á vettvangi landsdeildanna eða einstakra flokka borið áfram innan okkar þjóðþinga.



[19:50]
Forseti (Andrés Ingi Jónsson):
Bráðabirgðaútgáfa.

Það má mæla á erlenda tungu hér í pontu ef þingmaður snarar því yfir á íslensku með það sama.



[19:51]
Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Mig langar að þakka hv. þingmönnum, fulltrúum í Íslandsdeild, fyrir að taka þátt í þessari umræðu um skýrsluna sem ég held að sé mjög mikilvægt og sýni glöggt mikilvægi norræns samstarfs. Ég held að það fari vel á því að við verjum svolitlum tíma hér í að ræða mikilvægi þess.

Mér láðist í ræðu minni áðan að nefna hverjir skipa Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Það eru, ásamt þeirri sem hér stendur, Oddný G. Harðardóttir varaformaður, Ásmundur Friðriksson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson og Orri Páll Jóhannsson, þetta er einstaklega vel skipuð landsdeild. Ég er mjög stolt af okkar fólki sem hefur staðið sig vel í þessum störfum. Eins og ágætlega var farið yfir hér í ræðum þá erum við auðvitað í flokkahópum. Þó að Norðurlöndin séu lík svæði og við séum oft sammála í stóru málunum er líka mikilvægt að pólitískt samtal eigi sér stað innan Norðurlandaráðs og þar geta áherslurnar verið mismunandi, eins og ég nefndi í ræðu minni í störfunum. Það kunna því líka að vera mismunandi áherslur á milli mín og hv. þm. Orra Páls Jóhannssonar þegar kemur að umræðum um her eða varnarmál.

Ég vil líka nota tækifærið og þakka hæstv. samstarfsráðherra okkar, sem er Guðmundur Ingi Guðbrandsson. Við förum með formennsku í ráðherranefndinni og hv. þm. Orri Páll Jóhannsson kom aðeins inn á það áðan. Umræðan sem hefur átt sér stað um fjármagnið, annars vegar hversu mikið við erum að borga og hins vegar hvernig því er varið, og sá niðurskurður sem hefur verið til menningarmála — þetta er málefni sem hefur verið til umræðu í töluvert langan tíma hjá Norðurlandaráði. Það er hægt að segja að það hafi verið ákveðin óánægja og ólga hjá Norðurlandaráði yfir því að ráðherranefndin væri svolítið einhuga í þessu og drífandi og væri ekki að hlusta nógu mikið á Norðurlandaráð. Hæstv. ráðherra Guðmundi Inga Guðbrandssyni til hróss þá hefur hann staðið sig mjög vel. Ég veit að hann hefur lagt mikinn tíma og metnað í það að eiga einmitt samtal við Norðurlandaráð. Hæstv. ráðherra var gestur okkar hér á fundinum þar sem hann fór einmitt yfir formennskuáætlunina og mikil ánægja var með það hvernig unnið hefði verið á síðustu vikum og mánuðum, nákvæmlega í því máli. Ég vona að það sé það sem koma skal, að Norðurlandaráð sjálft hafi meira fram að færa í umræðunni um fjármálin.

Eins og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir kom inn á áðan þá er þetta löng og mikil umræða. Þó að við skipum ólíka flokkahópa og kunnum að hafa aðeins skiptar skoðanir varðandi fjármagn og annað þá er það alveg ljóst út frá hagsmunum Íslands, og ég held að Íslandsdeildin sé sammála í því, að Ísland fær það mikið út úr norrænu samstarfi að það stendur ekki á okkur að greiða hærra fjármagn inn í Norðurlandaráð. Vandamálið liggur miklu frekar hjá stærri þjóðum.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Ég vil bara minna okkur öll á að næstkomandi fimmtudagur er dagur Norðurlanda. Þá er 61 ár síðan skrifað var undir Helsingfors-samninginn sem við ræddum aðeins um áðan. Þess dags er venjulega minnst með því að draga fána Norðurlanda að húni hér fyrir utan þinghúsið og með sérstökum degi í Norræna húsinu. Ég vil bara hvetja okkur öll til þess að nýta daginn vel til að tala um norrænt samstarf og mikilvægi þess.