153. löggjafarþing — 85. fundur
 22. mars 2023.
almannatryggingar og félagsleg aðstoð, 2. umræða.
stjfrv., 533. mál (réttindaávinnsla og breytt framsetning). — Þskj. 675, nál. m. brtt. 1111 og 1200, frhnál. 1197, breytingartillaga 1242.

[16:25]
Frsm. meiri hluta velfn. (Jódís Skúladóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta velferðarnefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og félagslega aðstoð. Frumvarpið felur í fyrsta lagi í sér breytta röðun á köflum og ákvæðum laga um almannatryggingar. Endurröðun á ákvæðum laganna felur í sér að sumum ákvæðunum er skipt upp í nokkur smærri ákvæði, kaflar eru færðir til, nýjum köflum er bætt við og öðrum er skipt upp. Þannig verði t.d. ákvæði um ellilífeyri í einum kafla og ákvæði um örorkulífeyri og tengdar greiðslur í öðrum kafla. Þá er leitast við því að samræma hugtakanotkun innan laganna og uppfæra hana til samræmis við almenna málnotkun. Um er að ræða nokkuð umfangsmiklar breytingar á framsetningu laganna með það að markmiði að gera lögin aðgengilegri, einfaldari og skýrari, bæði fyrir þá einstaklinga sem byggja rétt sinn á lögunum og fyrir þau stjórnvöld sem túlka og framkvæma lögin.

Í öðru lagi eru lagðar til nokkrar efnislegar breytingar á bæði lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Þær breytingar varða einna helst réttindaávinnslu og ákvörðun réttinda umsækjenda um örorku- og endurhæfingarlífeyri á grundvelli tryggingatímabila og ætlaðra tímabila til framtíðar. Þá eru lagðar til breytingar hvað varðar skilyrði fyrir rétti til örorkulífeyris og lagðar til ívilnandi sérreglur fyrir þá sem eru metnir til 75% örorku frá 18 ára aldri, en einnig fyrir þá einstaklinga sem hafa áunnið sér réttindi samkvæmt lögunum en hafa búið erlendis tímabundið.

Nefndin fjallaði um málið, fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir. Greint er frá því í nefndaráliti. Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill meiri hluti nefndarinnar árétta sérstaklega eftirfarandi atriði.

Fyrir nefndinni var rætt um að gildandi lög um almannatryggingar eru flókin og ógagnsæ og er hætta á rangri túlkun laganna og framkvæmd þeirra ef þau eru óskýr. Hafa umboðsmaður Alþingis og Ríkisendurskoðun bent á óskýr ákvæði laganna líkt og fjallað er um í greinargerð frumvarpsins. Nefndin telur þær breytingar sem frumvarpið felur í sér varðandi endurröðun á ákvæðum og köflum laganna mikilvægar og leggur áherslu á að lög séu ávallt skýr og aðgengileg þeim sem byggja rétt sinn á lögunum. Við meðferð málsins í nefndinni var einnig fjallað um áhrif milliríkjasamninga á lög um almannatryggingar og meðferð mála fyrir stjórnvöldum. Bent var á að réttindi einstaklinga samkvæmt lögum um almannatryggingar væru óljós, m.a. vegna áhrifa milliríkjasamninga, en fram komu sjónarmið þess efnis að alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins ættu ekki að skerða réttindi einstaklinga samkvæmt lögunum. Meiri hlutinn bendir á að markmið milliríkjasamninga á sviði almannatrygginga er einkum að tryggja að áunnin réttindi tapist ekki við flutning milli samningsríkjanna. Í frumvarpinu er skerpt á tilvísunum til ákvæða um milliríkjasamninga í lögum um almannatryggingar þegar við á og þannig undirstrikað að ákvæði slíkra samninga geta haft áhrif á réttindi einstaklinga. Eru þær breytingar sem lagðar til í frumvarpinu liður í því að samræma framkvæmd laganna betur að þeim skuldbindingum sem felast í gagnkvæmum milliríkjasamningum sem Ísland hefur gert.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu sem fjallað er um í nefndaráliti. Það er þó ástæða til þess að fara stuttlega yfir þær hér til skýringarauka.

Í fyrsta lagi leggur meiri hlutinn til breytingu á gildistökuákvæði og lagt er til að lögin taki þegar gildi. Í frumvarpinu er lagt til að lögin taki gildi 1. janúar 2023. Þar sem það tímamark er liðið er þessi breytingartillaga bæði nauðsynleg og rökrétt. Þá er lögð til breyting á orðalagi a-liðar 5. gr. frumvarpsins sem er ætlað að skýra betur heimildir úrskurðarnefndar velferðarmála til að taka mál til úrskurðar.

Meiri hlutinn leggur jafnframt til breytingu á fjárhæðum í frumvarpi til samræmis við þær hækkanir sem gerðar voru með reglugerð um fjárhæðir bóta almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2023, nr. 1438/2022.

Auk þess leggur meiri hlutinn til breytingu á 2. mgr. d-liðar 12. gr. frumvarpsins, en ákvæðið kveður á um að ráðherra geti með reglugerð ákveðið að frá bótum, sem einstaklingur á rétt á hér á landi, dragist bætur sem hann fær samkvæmt erlendri löggjöf fyrir sama tímabil. Í því skyni að auka skýrleika ákvæðisins leggur nefndin til að reglan gildi um bætur sömu tegundar enda má teljast óeðlilegt að örorkulífeyrir skerðist t.d. vegna barnalífeyrisgreiðslna erlendis frá.

Þá er lagt til að ákvæði 12. gr. laga um félagslega aðstoð falli brott. Ákvæði þetta fjallar um kostnað vegna þjónustu dagvistar samkvæmt lögum um málefni aldraðra nr. 125/1999, en þar sem kveðið er á um greiðsluþátttöku þeirra sem njóta dagdvalar í 19. gr. laga um málefni aldraðra er ekki lengur talin þörf á ákvæðinu.

Loks leggur meiri hlutinn til nokkrar breytingar á frumvarpinu sem eru tæknilegs eðlis og þarfnast ekki skýringa. Að framansögðu virtu leggur meiri hluti velferðarnefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og lagðar eru til í nefndaráliti.

Undir nefndarálit meiri hlutans rita auk þess sem hér stendur hv. þingmenn: Jódís Skúladóttir, Guðrún Hafsteinsdóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir og Óli Björn Kárason.

Herra forseti. Með þeim lagabreytingum sem lagðar eru til í þessu frumvarpi er að hluta til komið til móts við athugasemdir í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í ágúst 2020 þar sem bent var á að tíðar breytingar almannatryggingalöggjafarinnar, viðbætur og innri tilvísanir í henni hafi leitt til ógagnsæis þeirra og haft neikvæð áhrif á framkvæmd laganna. Í skýrslunni er bent á að skýr löggjöf auki til muna gagnsæi, leiði til réttari útreikninga og afgreiðslu réttinda og greiðslna úr kerfinu. Þær breytingar sem lagðar eru til á núverandi lagaumhverfi eru því liður í þeirri einföldun og varðar réttindaávinnslu og ákvörðun réttinda umsækjanda um örorku- og endurhæfingarlífeyri á grundvelli tryggingatímabila, eins og fram hefur komið. Breytingarnar nú eru liður í stærri endurskoðun félags- og vinnumarkaðsráðherra vegna örorku- og ellilífeyriskerfisins og eru, ásamt breytingum um sérstakt frítekjumark örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar og heimilisuppbótar og hins vegar framlengingar á greiðslutíminn tímabili endurhæfingarlífeyris, mikilvægir hlekkir í þeirri endurskoðun, en frekari breytingar verða innleiddar í áföngum á komandi mánuðum og árum.

Kveðið er á um endurskoðun málaflokksins í ríkisstjórnarsáttmála. Hér er því um að ræða mikilvægt skref í samræmi við þær áherslur sem þar birtast. Endurskoðun örorku- og ellilífeyriskerfisins er löngu tímabær og tel ég þetta mál í dag vera mikilvægan þátt í bættum lífskjörum og auknum lífsgæðum þeirra sem byggja réttindi sín á þessum lögum, fólks með mismikla starfsgetu og sem nýtur örorkulífeyrisgreiðslna. Endurskoðun kerfisins er fyrir löngu tímabær og fagnar framsögumaður því að sú vinna sé komin af stað. Með frumvarpi þessu eru gerðar mikilvægar breytingar til batnaðar á kerfinu.

Að endingu vil ég þakka umsagnaraðilum og gestum fyrir góðar ábendingar og nefndarmönnum öllum fyrir gott samstarf.



[16:35]
Frsm. 1. minni hluta velfn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er sérstaklega ánægð með það að meiri hlutinn skuli taka undir eina af breytingartillögum minni hlutans sem er um að mæðra- og feðralaun verði ekki til þess að lífeyrir skerðist. Það er ekki oft, herra forseti, sem meiri hlutinn samþykkir breytingartillögu frá minni hlutanum þannig að mér finnst þetta mjög ánægjulegt og ég vona að þetta sé fyrirboði um betri tíma í þessum efnum.

Þetta var þó ekki eina breytingartillagan sem við í minni hlutanum lögðum fram. Ein af tillögunum okkar var að það kæmi skýrt fram að ef ákvæði um gagnkvæma milliríkjasamninga væri beitt þá ætti það aldrei að leiða til lakari réttar en annars nyti við samkvæmt lögum. Það er sem sagt heimilt að víkja frá þessum lögum og taka tillit til milliríkjasamninganna. Jafnvel þótt það hafi komið fram í umræðum í nefndinni, og að einhverju leyti í nefndarálitinu, að þessi ákvæði eigi að vera ívilnandi þá er þetta samt sem áður skilið eftir til túlkunar fyrir Tryggingastofnun um þetta mál. Okkur fannst betra, fyrst að það væri í rauninni vilji meiri hlutans að niðurstaðan yrði sú að staðan yrði aldrei lakari en ef einungis væri farið eftir lögunum, að það kæmi fram í greininni. Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvers vegna var meiri hlutinn ekki tilbúinn til að samþykkja þessa litlu breytingu?



[16:37]
Frsm. meiri hluta velfn. (Jódís Skúladóttir) (Vg) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir andsvarið. Mig langar að árétta að það var nú ekki svo að meiri hlutinn hafi ekki viljað verða við fleiri atriðum. Í mikla vinnu var lagst, bæði í ráðuneytinu og af okkur nefndarmönnum, við að finna útfærslu á þessu. Niðurstaðan varð hins vegar sú að þetta væri í raun ógerlegt. Byggir það fyrst og fremst á þeim ólíku lögum sem gilda víða og þeim miklu breytingum sem verða á lagaverkinu milli landa með þessum breytingum.

Eins og fram hefur komið eftir ábendingar frá umboðsmanni Alþingis og fleirum þá hefur framkvæmdinni verið breytt og ég held að við getum treyst á að það sé þannig að alltaf sé litið til þess að staða þeirra sem þiggja eða eiga þarna rétt á greiðslum sé ekki lakari en áður, að það sé alltaf horft til þess að niðurstaða í máli hvers einstaklings sé með þeim hætti að hans hagsmuna sé alltaf gætt.

Það var annað varðandi þetta, þ.e. að málin eru að sjálfsögðu fjölmörg og þau eru eins ólík og þau eru mörg. Það gæti orðið mjög flókið tæknilega hvað varðar framkvæmd laganna að ákvarða í einu máli í einhverjum mánuði, forsendur og aðstæður eru breyttar en samt þarf að beita lögum við framkvæmdina. Það getur orðið misræmi í framkvæmd laganna sem býður þá upp á ójafnræði milli einstaklinga.



[16:40]
Frsm. 1. minni hluta velfn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið, sem ég verð nú að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á. Ég held að það sé alltaf gott viðmið að vilji löggjafans komi skýrt fram í lagaákvæðum. Og ef við viljum að þessum milliríkjasamningum sé ekki beitt ef það leiðir til lakari niðurstöðu fyrir viðkomandi er mikilvægt, að okkar mati í minni hlutanum, að skrifa það inn í ákvæðið. Þess vegna leggjum við það til atkvæða hér í þingsal.

Það eru aðrar tillögur sem ég mun fara yfir í nefndaráliti minni hlutans hér á eftir. En mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála mér um að það sé eitthvað bjagað við það að fjármagnstekjur barna komi til frádráttar samkvæmt almannatryggingalögunum til foreldris sem tekur lífeyri, er þarf að treysta á lífeyri. Í lögunum er þessu í rauninni bara stillt þannig upp að það sé á ábyrgð barns að sjá fyrir foreldrum sínum. Það eru einhvern veginn skilaboðin. Eigi barn einhverja peninga inni á bók sem skila einhverjum fjármagnstekjum þá lækka greiðslurnar til foreldris sem því nemur. Við leggjum til að þessu verði breytt.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála því að það sé réttlætismál að breyta þessu.



[16:42]
Frsm. meiri hluta velfn. (Jódís Skúladóttir) (Vg) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég ætla nú bara að byrja á því að taka heils hugar undir með hv. þingmanni og þakka henni fyrir síðara andsvar. Nú er það svo að bara hvern sem við myndum spyrja, þá þætti okkur óeðlilegt að fermingarpeningar barns kæmu til skerðingar á réttindum foreldris. Það er auðvitað mjög óeðlilegt og um það erum við öll sammála.

Það er tvennt sem ég vil segja: Annars vegar varðandi mikilvægi þessarar heildarendurskoðunar, þó að við séum hér, bæði fyrir jól og aftur núna og svo áfram, að gera breytingar á lagaverkinu, og er það mjög vel að það sé komið þetta langt, þá eru auðvitað margir hnútar eftir í kerfinu sem við verðum að vinna á. Ég vona svo sannarlega að velferðarnefnd beri gæfu til að vinna áfram þessi mikilvægu mál hratt og vel.

En varðandi þessar fjármagnstekjur og bara tekjur barna almennt, og það á reyndar líka við um tekjur maka, að það verður auðvitað að horfa á heildarmyndina og þarna yrðu að koma til breytingar á löggjöf um skattkerfið. Til þess held ég að sé bara full ástæða. Ég held það sé full ástæða til að skoða það en það verður ekki gert með breytingu á þessum lögum eingöngu. En ég vísa aftur til heildarendurskoðunar og er sannfærð um að ég og hv. þingmaður eigum eftir að vera samstiga í því að koma þessum góðu breytingum áfram því að ég er sammála því að það er fullkomlega galið að tekjur eða fjármagnstekjur barns komi til skerðingar á greiðslum til foreldra.



[16:44]
Frsm. 1. minni hluta velfn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu frá 1. minni hluta velferðarnefndar.

Fyrsti minni hluti velferðarnefndar er sammála markmiði frumvarpsins um skýrleika og kaflaskiptingar en telur nauðsynlegt að kveða með skýrari hætti á um nokkrar greinar frumvarpsins þannig að enginn vafi leiki á um túlkun þeirra við framkvæmd laganna.

Fyrsti minni hluti leggur áherslu á að lög séu ávallt skýr og skiljanleg þeim sem byggja rétt sinn á þeim og tekur undir umsögn Öryrkjabandalagsins við frumvarpið og leggur fram breytingartillögur í samræmi við þá umsögn.

Ég ætla, forseti, að renna yfir skýringar á þessum breytingartillögum sem fylgja nefndarálitinu. Í fyrsta lagi er það ávinnsla réttinda í b-lið 1. mgr. i-liðar 7. gr. frumvarpsins er að finna nýmæli um að þeir sem voru tryggðir hér á landi við 18 ára aldur og metnir til a.m.k. 75% örorku frá 18 ára aldri eigi rétt til greiðslna örorkulífeyris að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum. Samkvæmt athugasemdum í greinargerð er ákvæðinu ætlað að vera til hagsbóta fyrir unga öryrkja. Á það hefur þó verið bent að reglan gagnist ekki öllum ungum öryrkjum, heldur einungis þeim fámenna hópi sem er búsettur hér á landi og er metinn til örorku við 18 ára aldur. Utan falla ungir öryrkjar sem eru búsettir erlendis við 18 ára aldur, vegna ástæðna sem þeir voru ekki sjálfráðir um, t.d. vegna ákvörðunar foreldra sinna. Jafnframt kunna að vera í þeim hópi einstaklingar sem eru að ljúka námi á framhaldsskólastigi erlendis.

Mikilvægt er að jafnræðis sé gætt þannig að ákvæðið taki til breiðari hóps ungra öryrkja. Því er lögð til sú breyting að miðað sé við að viðkomandi sé tryggður hér á landi við 25 ára aldur. Er hér gætt samræmis við skilgreiningu ungmenna í 1. gr. æskulýðslaga, nr. 70/2007. Með þessu er leitast við að veita ungum öryrkjum aukið svigrúm til þess að taka ákvörðun um eigin búsetu. Jafnframt er lagt til að fella úr ákvæðinu vísan til þess að viðkomandi þurfi að hafa verið metinn til a.m.k. 75% örorku við 18 ára aldur enda þykir eðlilegt að ákvæðið nái jafnt til þeirra ungu öryrkja þar sem hefur ekki verið metin eða komin fram við 18 ára aldur.

Þarna er breytingin falin í því að við miðum við 25 ára aldur sem er skilgreining á hvað er ungmenni í öðrum lögum. Með því að gera þetta myndi þessi góða breyting ná til hópsins alls sem um ræðir.

Þá er það um tekjur maka, sem við ræddum hér áðan, ég og hv. framsögumaður nefndarálits meiri hlutans. Í 6. mgr. o-liðar 7. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að sú regla haldist óbreytt að fjármagnstekjur maka hafi áhrif á greiðslur. Lengi hefur verið bent á að þessi undantekning frá þeirri meginreglu laganna að tekjur maka hafi ekki áhrif á greiðslur sé óeðlileg. Enginn munur er á fjármagnstekjum og öðrum tekjum með tilliti til áhrifa þeirra á möguleika lífeyrisþega til framfærslu. Þá hefur verið dregið í efa að þessi tilhögun fái samrýmst niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 125/2000. Í dómi réttarins í máli nr. 795/2017 var þessi regla talin standast einvörðungu vegna heimildarinnar í 11. mgr. 16. gr. laganna til að dreifa fjármagnstekjum, sem leystar hafa verið út í einu lagi, yfir 10 ár, en sú heimild var í dóminum talin eiga við um fjármagnstekjur maka sem hefðu áhrif á greiðslurnar. Einn dómari skilaði sératkvæði og taldi ákvæðið ekki standast stjórnarskrá.

Aðeins um þetta, forseti. Það eru mjög margir sem taka út tekjur sínar í fjármagnstekjum. Eigi það við um maka þeirra sem þurfa að reiða sig á lífeyri þá koma tekjur makans til skerðingar. Að okkar mati í minni hlutanum á ekki að skipta tekjum makans upp í launatekjur og fjármagnstekjur heldur eiga bara engar tekjur makans að koma til skerðingar. Þetta er líka spurning um fjárhagslegt sjálfstæði. Þó að þeir sem þurfa að treysta á greiðslur Tryggingastofnunar séu nú ekki vel haldnir þá er ómögulegt að í lögum sé gert ráð fyrir að þeir séu upp á maka sinn komnir fjárhagslega að öllu leyti hvað þetta varðar.

Og síðan með tekjur barna, eins og við ræddum líka hér áðan. Börn undir 16 ára aldri eru ekki sjálfstæðir skattaðilar séu þau á framfæri foreldra sinna og tekjur þeirra, aðrar en atvinnutekjur, skattlagðar sem tekjur foreldris. Slíkar tekjur, þar með taldar fjármagnstekjur barns, geta því haft í för með sér skerðingu á greiðslum samkvæmt almannatryggingalögum þó að þær tilheyri ekki lífeyristaka. Slík skerðing er með öllu óeðlileg í ljósi þess að engin framfærsluskylda hvílir á barni gagnvart foreldri og ekki eðlilegt að foreldri sé sett í þá stöðu að þurfa að ganga á eignir barns með þessum hætti til að geta framfært sig og barnið.

Ég held, forseti, að við ættum að geta náð samstöðu um þetta réttlætismál. Það er líka fráleitt að þessi skilaboð skuli vera innifalin í þeim lögum sem samþykkt eru hér á Alþingi, að það sé einhver skylda á barninu að sjá fyrir foreldri sínu ef foreldri þarf að treysta á lífeyri. Þetta er réttlætismál og ég vona að tillögu okkar í minni hlutanum um að breyta þessu til betri vegar verði vel tekið hér í þingsal þegar málið gengur til atkvæðagreiðslu.

Síðan er breytingartillaga um útreikning og endurreikninga. Í 5. mgr. r-liðar 7. gr. frumvarpsins um útreikning og endurreikning kemur fram að þrátt fyrir meginreglu 1. mgr. ákvæðisins sé við útreikning á greiðslum samkvæmt III. og IV. kafla laganna, sbr. einnig 13. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, heimilt að telja atvinnutekjur til tekna greiðsluþega einungis í þeim mánuði þegar þeirra er aflað. Skal Tryggingastofnun við endurreikning greiðslna, sbr. 3. mgr., gera samanburð á útreikningi heildargreiðslna hvers mánaðar, annars vegar miðað við 1/12 af atvinnutekjum ársins og hins vegar miðað við atvinnutekjur í þeim mánuðum sem þeirra er aflað. Beita skal þeirri reglu sem leiðir til hærri greiðslna.

Í ákvæðinu er hins vegar ekki vísað til lífeyrissjóðstekna. Okkur í minni hlutanum finnst óeðlilegt að gera greinamun á milli framfærslutekna eftir því hvort um sé að ræða lífeyrissjóðstekjur eða atvinnutekjur í þessu samhengi. Þess vegna leggjum við til að bætt verði við ákvæðið vísan til lífeyrissjóðstekna.

Þá er komið að samspili við milliríkjasamninga. Samkvæmt 1. mgr. e-liðar 12. gr. frumvarpsins er ríkisstjórn heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögunum og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga. Hafi gagnkvæmur milliríkjasamningur verið gerður við ríki þar sem einstaklingur á bótarétt fer um samspil bóta frá tveimur ríkjum eða fleiri eftir nánari ákvæðum samningsins, sbr. 4. mgr. b-liðar 12. gr. Þessi framkvæmd er nánar tryggð í 4. mgr. i-liðar 7. gr. frumvarpsins en af ákvæðinu leiðir að við reikning framtíðartímabila við ákvörðun réttindahlutfalls megi einnig víkja frá reglum laganna.

Samkvæmt frumvarpinu er það hlutverk ríkisstjórnar og ráðherra að gera milliríkjasamninga og víkja frá ákvæðum laganna sýnist þeim svo. Það kemur svo í hlut Tryggingastofnunar að framkvæma slíka milliríkjasamninga en við útreikning bóta fer um samspil bótaréttar eftir umræddum samningum, en auk þess geta þeir haft áhrif á útreikning framtíðartímabila. Framkvæmdarvaldinu er þannig falið að gera og framkvæma milliríkjasamninga um almannatryggingar og ákvarða hvaða áhrif þeir hafa á rétt einstaklinga.

Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar skal öllum þeim sem þess þurfa tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Í ákvæðinu felst skylda löggjafans til þess að kveða á um tiltekin lágmarksréttindi þeirra sem þurfa á félagslegri aðstoð að halda, í lögum. Þeim áskilnaði hefur löggjafinn m.a. fullnægt með lögum um almannatryggingar. Af framangreindri lagaáskilnaðarreglu leiðir einnig að óheimilt er að skerða þau félagslegu réttindi sem löggjafinn hefur kveðið á um, nema með lögum.

Því er mikilvægt að framkvæmdarvaldinu sé ekki falið óheft ákvörðunarvald um að víkja frá lögunum. Fæli það í sér brot gegn framangreindum lagaáskilnaði 76. gr. stjórnarskrárinnar og lögmætisreglu stjórnsýslu- og stjórnskipunarréttarins, ef kveðið er á um lakari rétt í milliríkjasamningi eða honum beitt með þeim hætti að það leiddi til lakari réttar en löggjafinn hefur tryggt með lögum hverju sinni.

Það er því nauðsynlegt, forseti, að kveða á um valdmörk framkvæmdarvaldsins í þessum efnum í lögum, til þess að tryggja að öll njóti þess réttar til aðstoðar sem löggjafinn hefur tryggt þeim í lögum hverju sinni. Þessi nauðsyn endurspeglast sérstaklega í því að mörg dæmi er að finna um að Tryggingastofnun hafi beitt reglum milliríkjasamninga með íþyngjandi hætti þannig að einstaklingar njóti lakari réttar en lög um almannatryggingar kveða á um. Slík mál hafa m.a. komið til kasta umboðsmanns Alþingis og dómstóla, en af úrlausnum þeirra leiðir m.a. að röng túlkun Tryggingastofnunar á Evrópureglum hefur leitt til mikilla skerðinga fyrir stóra hópa fólks. Hafa slíkar ólögmætar skerðingar haft gríðarlega neikvæð áhrif á lífsafkomu og lífsgæði fólks sem eiga þar undir. Er því afar mikilvægt að tryggja í lögum að slíkt geti ekki átt sér stað.

Af þessum sökum leggjum við í minni hlutanum til að við b-lið 12. gr. frumvarpsins verði bætt áskilnaði sem feli í sér að ekki sé unnt að beita milliríkjasamningum með íþyngjandi hætti, þannig að það leiði til lakari réttar en rétthöfum er tryggður samkvæmt lögum. Með þessu væri tryggt að framkvæma yrði samanburð á þeim réttindum sem viðkomandi nyti samkvæmt lögum og þeim sem hann nýtur samkvæmt viðkomandi milliríkjasamningi með hliðsjón af réttindum hans í viðkomandi ríki. Leiddi samanburðurinn í ljós að viðkomandi nyti lakari réttar en hann nyti annars samkvæmt lögunum, skyldi ekki beita ákvæðum samningsins með slíkum íþyngjandi hætti.

Herra forseti. Við í minni hlutanum leggjum mjög mikla áherslu á þessa breytingartillögu og satt að segja bjuggust við við að þetta yrði kannski tillaga sem meiri hlutinn hefði getað hugsað sér að fallast á, vegna þess að hún er aðeins um að það sé skýrt í lögunum að verði milliríkjasamningum beitt þá verði það ekki til þess að viðkomandi fái lakari niðurstöðu en hann hefði fengið samkvæmt lögunum hefði milliríkjasamningum ekki verið beitt. Milliríkjasamningar eiga að vera ívilnandi. Þeir eiga að verða til þess að bæta stöðu fólks en ekki til þess að setja það í fjárhagsleg vandræði.

Eins og ég sagði í upphafi þá viljum við í minni hlutanum að lög séu skýr og að það séu ekki skildar eftir stórar gloppur fyrir framkvæmdarvaldið til túlkunar eins og verið er að gera í frumvarpinu sem hér um ræðir, sem á samt að vera til að gera betur. Þá væri svo einfalt mál að segja bara: Þetta er svona. Þessir samningar eru hér. Það er heimilt að víkja frá lögunum ef milliríkjasamningar leiða ekki til þess að staða viðkomandi verður verri. Þetta er lítil breyting en hún skiptir miklu máli og skilur þá ekki eftir stórt gap til túlkunar fyrir framkvæmdarvaldið og fyrir Tryggingastofnun. Þessi litla breyting, ef ég skil málflutning meiri hlutans rétt, er bara lýsing á þeirra vilja og lýsing á anda laganna og þá er mikilvægt að orðin standi í lagaákvæðinu svo að ekki verði um það villst. Ef þessi breytingartillaga minni hlutans myndi fram ganga myndi það líka auka traust viðkomandi sem þurfa að treysta á lög um almannatryggingar, lög um félagsþjónustu og á túlkun Tryggingastofnunar. Þetta myndi verða til þess að fólk væri ekki í neinum vafa og öll tortryggni hvað þetta varðar væri þá úr sögunni. Það er mikilvægt að það verði svo.

Þá, forseti, er komið að ákvæðinu um árlega breytingu fjárhæða. Í h-lið 12. gr. frumvarpsins er kveðið á um að greiðslur almannatrygginga, svo og greiðslur samkvæmt 42. gr. og fjárhæð samkvæmt 28. gr., skuli breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skuli m.a. taka mið af launaþróun. Í framkvæmd hefur verið breytilegt hvaða mælikvarðar eru lagðir til grundvallar. Þessi óskýrleiki hefur átt þátt í því að greiðslur samkvæmt lögunum hafa dregist verulega aftur úr launaþróun. Nú er það svo, forseti, að munurinn á grunngreiðslunum og lægstu launum í landinu er meira en 100.000 kr. á mánuði. Bilið þarna á milli hefur vaxið ár frá ári vegna þessara viðmiða sem miðað hefur verið við. Þar hefur t.d. aldrei verið tekið tillit til launaskriðs.

Þegar lögum um kjararáð var breytt árið 2019 var tekið upp nýtt fyrirkomulag við útreikning launa þingmanna og annarra ráðamanna sem eru ekki með verkfallsrétt. Þar var Hagstofu Íslands falið að reikna út hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár. Hér er lagt til að ákvæði h-liðar 12. gr. frumvarpsins verði breytt með sama hætti. Með þessu er lagt upp með að tryggja að þau viðmið sem lögð séu til grundvallar séu nægilega skýr til þess að tryggt sé að lífeyrir haldi í raun í við verðlag og launaþróun.

Öryrkjar og þeir sem eldri eru, sem þurfa að treysta á greiðslur Tryggingastofnunar, geta ekki farið í verkfall frekar við hér, alþingismenn. Það er skrýtið að vera með einhver önnur viðmið fyrir alþingismenn en fyrir öryrkja og þá sem eldri eru í þessu tilliti. Það er betra að hafa bara sömu viðmið. Það myndi líka, forseti, verða til þess að draga úr tortryggni og auka traust og skýrleika hvað þetta varðar.

Að lokum eru það mæðra- og feðralaunin sem hv. þm. Jódís Skúladóttir, sem er framsögumaður fyrir nefndarálits meiri hlutans, sagði að meiri hlutinn væri ánægður með og myndi samþykkja, sem gleður mig og okkur öll í minni hlutanum afskaplega mikið. Þetta gengur út á það að í 18. gr. frumvarpsins verði m.a. lagðar til breytingar á 4. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007. Breytingarnar fjalla um útreikning sérstakrar uppbótar á lífeyri og skerðingu hennar vegna annarra tekna lífeyrisþega. Samkvæmt gildandi lögum skerða allar bætur uppbót á lífeyri. Bent hefur verið á að rökrétt sé að undanþiggja mæðra- og feðralaun samkvæmt 2. gr. laganna, enda um að ræða greiðslur sem ætlaður eru til að mæta viðbótarkostnaði einstæðra foreldra vegna framfærslu barna. Þarna er réttlætismál sem, sem betur fer, virðist ætla að fara hér í gegn við atkvæðagreiðslu.

Að teknu tilliti til þess sem að framan greinir leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef nú farið yfir og eru tilteknar í nefndaráliti minni hlutans.

Guðbrandur Einarsson, sem er áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur þessu áliti en annars skrifa undir álitið sú sem hér stendur ásamt hv. þingmönnum Halldóru Mogensen og Guðmundi Inga Kristinssyni.

Herra forseti. Það er von mín að vinnan við almannatryggingar og endurskoðun á þeim sem núna stendur yfir skili árangri. Við sem höfum verið lengur en aðrir þingmenn á þingi höfum náttúrlega horft á þetta gerast ár eftir ár. Það eru settar saman nefndir sem eiga að sjá til þess að einfalda almannatryggingakerfið og gera það betra og gagnsærra og réttlátara og það hefur ekki gengið eftir. Ég vona að nú sé komið að því að niðurstaða fáist og að samstaða náist um að gerðar verði jákvæðar og góðar breytingar á kerfinu. Það er afar slæmt að þeir sem þurfa að reiða sig á kerfið geti ekki með nokkru móti skilið út á hvað það gengur og geti þá ekki gætt að réttindum sínum. Það er líka mjög slæmt að alþingismenn skilji hvorki upp né niður í kerfinu og viti oft ekki hvaða áhrif tillögur þeirra sem þeir leggja fram í góðri trú hafa. Ég hef nokkrum sinnum lagt fram tillögur eða verið með tillögur í smíðum og leitað til Öryrkjabandalagsins og þau segja: Ekki leggja þetta fram. Þetta verður bara til þess að ef greiðslurnar hækka hér þá lækkar á öðrum stað kannski enn meira og staðan verður verri.

Það er augljóst mál að við verðum að sameinast um að laga þetta kerfi og við verðum að sjá til þess að þeir sem þurfa að treysta á greiðslur almannatrygginga fái í það minnsta við sömu kjör og búi við sömu kjör og launamenn á lægstu launum. Það er þjóðarskömm, leyfi ég mér að segja, að gapið skuli stækka ár frá ári á milli lægstu launa og bóta. Það er okkur til skammar. Við þurfum að taka á því máli. Það er búið að reikna út hvað það kostar. Við erum rík þjóð. Mig minnir að við séum í 11. sæti yfir ríkustu ríki heims og við hljótum að geta séð til þess að þeir sem þurfa á þessum stuðningi að halda, að þeim sé ekki haldið í fátækragildrum. Ég hef lokið máli mínu.



[17:09]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Við erum hér að fjalla um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð, réttindavinnslu og breytta framsetningu. Ég vil byrja á að segja að það er frábært að það skuli vera byrjað á að vinna þessa vinnu og svo enginn misskilningur sé uppi þá styð ég það heils hugar. En því miður, miðað við þann langa tíma sem það hefur tekið að fá breytingar á kerfinu í gegn og allar þær nefndir sem hafa unnið að þeim breytingum, þá er reynslan sú að það virðist vera virkilega erfitt að koma einhverju skikki á lög um almannatryggingar. Ég styð af heilum hug breytingartillögu minni hlutans sem hv. þm. Oddný Harðardóttir var að flytja hérna áðan. Þar sem það var búið að opna á þessar breytingar í almannatryggingalögunum þá taldi ég og vonaði heitt og innilega að það yrðu gerðar fleiri breytingar núna, að ríkisstjórnin sæi til þess a.m.k. að koma í gegn þessum einföldu breytingum í sjálfu sér sem kosta ekki neitt en eru hreinlega spurning um mannréttindi og jafnvel spurning um hvort sum ákvæði í þessum lögum brjóti ekki hreinlega stjórnarskrá og þau eru alveg pottþétt mörg þarna inni sem stæðust það aldrei að vera þarna inni ef við værum búin að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks. Það er alveg á hreinu.

Við erum að tala um einföldun á þessum bútasaumaða óskapnaði sem almannatryggingalögin eru og mér sýnist að það verði þrautin þyngri að gera þetta einfalt og koma þessu á mannamál. Bara til að sýna ykkur og skýra út þær aukabreytingar sem ég vil gera á lögunum þá ætla ég bara að lesa hér upp úr breytingartillögu minni. Ef ég les þetta upp svona í röð þá er þetta eiginlega illskiljanlegt:

„1. Við 7. gr. a. Í stað fjárhæðarinnar „300.000 kr.“ í 1. málsl. 3. mgr. g-liðar komi: 720.000 kr.

b. 2. málsl. 3. mgr. g-liðar orðist svo: Atvinnutekjur teljast ekki til tekna við útreikning ellilífeyris.

c. 2. málsl. 4. mgr. g-liðar orðist svo: Atvinnutekjur teljast ekki til tekna við útreikning hálfs ellilífeyris.

d. 3. mgr. o-liðar orðist svo: Fjármagnstekjur, sbr. 11. tölul. 2. gr., skulu ekki teljast til tekna við útreikning á greiðslum samkvæmt þessum kafla.

e. Í stað fjárhæðarinnar „2.575.220 kr.“ í 4. mgr. o-liðar komi: 5.030.000 kr.

f. Í stað fjárhæðarinnar „300.000 kr.“ í 1. málsl. 5. mgr. o-liðar komi: 3.155.000 kr.

g. Í stað fjárhæðarinnar „328.800 kr.“ í 2. málsl. 5. mgr. o-liðar komi: 720.000 kr.

h. X-liður falli brott.

2. Á undan a-lið 2. tölul. 22. gr. komi nýr stafliður, sem orðist svo: Orðin „90% af“ í 2. mgr. 3. gr. laganna falla brott.“

Hversu margir hérna inni skildu þetta? Fyrst þegar ég las þetta upp þá hugsaði ég: Bíddu, eru þetta einhver ný lög? Hvað er verið að tala um? Og ég var að gera þetta sjálfur. Þetta sýnir fáránleikann í þessum lögum. Það vantar, því miður, einfaldleika og að þetta sé sett þannig upp og með þannig málfari að þeir sem eiga að lifa í þessu kerfi geti skilið þetta ósköp auðveldlega.

Í greinargerð með breytingartillögu minni segir:

„Lagt er til að hækka frítekjumörk laga um almannatryggingar til samræmis við þróun vísitölu heildarlauna opinberra starfsmanna frá 3. ársfjórðungi 2008. Þá stóð vísitalan í 59,1 stigi en samkvæmt nýjustu tölum er hún 141,8 stig og hefur því hækkað um 140%. Lagt er til að kveðið verði á um að ellilífeyrir skerðist ekki vegna atvinnutekna og jafnframt að örorkulífeyrir og tekjutrygging skerðist ekki vegna fjármagnstekna. Einnig er lagt til að fella brott x-lið 7. gr. frumvarpsins sem kveður á um hið svokallaða vasapeningafyrirkomulag. Þá er lagt til að fella brott þá sérreglu sem kveður á um að félagslegur viðbótarstuðningur við aldraða skuli aðeins nema 90% af fjárhæð fulls ellilífeyris.“

Ekki skýrði þetta nú hlutina auðveldlega. En nú ætla ég að reyna að koma með skýringu á mannamáli um hvað er verið að fjalla hér.

Tökum fyrst a-lið: „Í stað fjárhæðarinnar „300.000 kr.“ í 1. málsl. 3. mgr. g-liðar komi: 720.000 kr.“ Hvað er ég að tala um þarna? Þarna er lagt til að almennt frítekjumark ellilífeyris hækki um 140% til samræmis við breytingu á vísitölu heildarlauna opinberra starfsmanna frá 2008 og verði 720.000 kr. á ári. Þetta er bara uppfært samkvæmt vísitölu heildarlauna opinberra starfsmanna. Það þarf að hækka þetta um 140%. Þetta er ekki mjög flókið þegar maður áttar sig á því um hvað er verið að tala.

Tökum b-liðinn: „2. málsl. 3. mgr. g-liðar orðist svo: Atvinnutekjur teljast ekki til tekna við útreikning ellilífeyris.“ Í c-lið er einnig lagt til að atvinnutekjur teljist ekki til tekna við útreikning hálfs ellilífeyris. Þessar breytingar fela í sér að það verði hætt að skerða ellilífeyri vegna atvinnutekna. Þetta er ekki flókið. Það á ekki að skerða ellilífeyri vegna atvinnutekna. Ég segi bara: Ríkið á bara að þakka fyrir þá ellilífeyrisþega sem vilja vinna. Þegar þeir vinna þá borga þeir sína skatta, einfalt mál. Hættum að refsa þeim fyrir að vinna. Hvetjum þá til þess og ríkið ætti að þakka þeim fyrir að fá skatttekjur þeirra en ekki að letja fólk til þess. Sérstaklega er það furðulegt þegar það vantar fólk í vinnu.

Þá förum við í d-lið: „3. mgr. o-liðar orðist svo: Fjármagnstekjur, sbr. 11. tölul. 2. gr., skulu ekki teljast til tekna við útreikning á greiðslum samkvæmt þessum kafla.“ Þarna er lagt til að kveðið verði á um að fjármagnstekjur leiði ekki til skerðingar á örorkulífeyri og tengdum greiðslum, tekjutryggingu og fleiru. Þarna er alveg stórfurðulegt fyrirbrigði í gangi vegna þess að öryrkjar og ellilífeyrisþegar eru nú sennilega ekki með gífurlega fjármuni í söfnun. Einhverjir þeirra, sem betur fer, en ekki margir. Þeir sem eru að reyna að safna einhverju eru með neikvæða vexti í dag. En það dugir ekki ríkinu að taka 22% fjármagnstekjuskatt af því, það er ekki nóg fyrir það, því ef þeir fara yfir ákveðna upphæð er sett full skerðing á móti. Þetta þýðir eiginlega á mannamáli að það er 65–70% skerðing hjá þeim sem eru að reyna að safna. Þetta kallast á mannamáli að skatta og skerða tap. Hverjir gera það? Jú, ríkisstjórnin. Ég veit ekki hvort hún er stolt af því en það hefði verið mjög einfalt að taka þetta út núna og hefði ekki kostað ríkissjóð mikið en skiptir þá sem þetta varðar miklu máli. Þetta gerir það líka að verkum að það er alveg útilokað fyrir öryrkja að ætla að reyna að fara að safna peningum til að kaupa sér kannski íbúð. Það er gjörsamlega útilokað.

Tökum e-lið: „ Í stað fjárhæðarinnar „2.575.220 kr.“ í 4. mgr. o-liðar komi: 5.030.000 kr.“ Þarna er lagt til að frítekjumark örorkulífeyris hækki um 140% til samræmis við breytingar á vísitölu heildarlauna opinberra starfsmanna frá árinu 2008 og verði 5.030.000 kr. á ári. Þarna erum við að taka á því að núna er ríkisstjórnin stolt búin að setja það fram að frítekjumark öryrkja sé 200.000 kr. en samkvæmt þessu ætti það að vera helmingi hærra ef það hefði verið uppreiknað samkvæmt vísitölu heildarlauna opinberra starfsmanna. Það segir okkur að það yrði líka miklu nær því ef öryrki er að vinna á einhverjum stað, segjum í verslun eða einhvers staðar, og meðallaunin í versluninni eru, segjum bara 500.000 kr., þá er auðvitað alveg fáránlegt að byrja að skerða viðkomandi fyrr en kannski er komið yfir þá upphæð sem þarna er um að ræða, 500.000 kr. vegna þess að um leið og hann er kominn yfir er hann kannski kominn með betri kjör en starfsmaðurinn við hliðina á honum. En við megum aldrei gleyma því að öryrkjar bera ýmsan aukakostnað sem íþyngir þeirra tekjum og veldur því að þeir þurfa að borga oft meira í ýmislegt, bæði lyf og læknisþjónustu og fleira.

Þá erum við komin að f-lið: „Í stað fjárhæðarinnar „300.000 kr.“ í 1. málsl. 5. mgr. o-liðar komi: 3.155.000 kr.“ Þarna er lagt til að frítekjumark öryrkja vegna atvinnutekna hækki um 140% samkvæmt breytingu á vísitölu heildarlauna opinberra starfsmanna frá 2008 og verði 3.155.000 kr. Hér er miðað við hækkun frá þeirri fjárhæð sem frítekjumarkið stóð í árin 2008–2022 og til stendur að viðhalda núgildandi frítekjumarki í ákvæði til bráðabirgða, en betur færi á að kveða á um það í lagagreininni sjálfri enda er frumvarpið ætlað til einföldunar lagatextans. Sú grein sem hér um ræðir hefur enn að geyma hið löngu úrelta gamla frítekjumark, 300.000 kr. á ári, og lagt er til að það verði 3.155.000 kr.. á ári eða 263.000 kr. á mánuði. Þetta er bara til þess að einfalda kerfið vegna þess að þetta hefur alltaf verið plástrað, þarna hefur alltaf verið plástrað ofan á aftur og aftur. Það er einmitt það sem hefur verið gegnumgangandi með þetta kerfi, þetta bútasaumaða kerfi. Það er alltaf verið að búa til einhverja búta hér og þar og það endar alltaf með þeim ósköpum að kerfið verður flóknara og flóknara. Við höfum orðið vitni að því hvernig svona lagasetning hefur farið fram, þegar það gleymdist að setja inn skerðingar lífeyrissjóðstekna á sínum tíma. Málið vannst í héraðsdómi og ríkið varð að gera svo vel og borga ellilífeyrisþegum. Þá komust ellilífeyrisþegar að því svart á hvítu þegar þeir fengu endurgreitt hversu mikið var tekið af þeim vegna ellilífeyris.

Í g-lið segir: „Í stað fjárhæðarinnar „328.800 kr.“ í 2. málsl. 5. mgr. o-liðar komi: 720.000 kr.“ Hér er lagt til að sérstakt frítekjumark öryrkja vegna lífeyristekna hækki um 140% frá því sem það er nú til samræmis við breytingar á vísitölu heildarlauna opinberra stofnana frá 2008 og verði 720.000 kr. á ári. Frítekjumark lífeyristekna er 25.000 kr. og það hefur ekkert hækkað. Mottóið sem hefur verið gegnumgangandi er að búa til einhverja ákveðna tölu fyrir frítekjumark eða eitthvað annað sem á að vera öryrkjum og ellilífeyrisþegum til góða, en síðan er það látið dankast árum saman og jafnvel áratugum saman og þar af leiðandi verður ekkert úr þessu. Auðvitað á að tengja þetta við t.d. vísitölu heildarlauna opinberra starfsmanna og hækka þetta bara samkvæmt því vegna þess að 25.000 kr. í dag eru ekki þær sömu eftir fjögur, fimm ár, þá er orðið lítið eftir af þeim. Þess vegna er það alveg óskiljanlegt að þetta sé gert svona. Ég hélt að þetta væru mistök en ég er búinn að uppgötva að þetta voru ekki mistök, þetta er viljandi gert. Svo koma þeir upp hvað eftir annað, stjórnarliðar, og segjast ekki hafa hækkað skatta og ekki aukið skerðingar. Það fer ekki á milli mála að þeir hafa gert hvort tveggja.

Í h-lið segir: „X-liður falli brott.“ Lagt er til að fella brott x-lið 7. gr. sem kveður á um svokallað vasapeningafyrirkomulag, þ.e. að lífeyrir almannatrygginga skuli falla niður þegar einstaklingar dvelja á stofnun. Þetta eru alveg fáránleg lög og okkur til háborinnar skammar að þegar feður okkar, mæður okkar, afar og ömmur fara inn á stofnanir þá bara sviptum við þau fjárhagslegu öryggi. tökum af þeim fjárráðin — og gerum þau að hverju, unglingum og hendum í þau vasapeningum? Hverjum datt þetta í hug? Hvernig í ósköpunum getum við látið þetta viðgangast? Þetta er gjörsamlega óskiljanlegt og við eigum að taka þetta út.

Að síðustu er lagt til að fella úr lögum um viðbótarstuðning við aldraða þá reglu að greiðslur samkvæmt lögum megi að hámarki nema 90% af fjárhæð fulls ellilífeyris. Þarna er ég að tala um búsetuskerðingarnar á ellilífeyri. Það er þyngra en tárum taki að það skuli vera svo örstutt síðan að við samþykktum þetta hér á þingi. Ég var kominn á þing þegar það var samþykkt að finna út hóp einstaklinga sem átti að fá lágmarksellilífeyri en ríkisstjórnin ákvað allt í einu að segja: Nei. Lágmarksellilífeyrir er allt of mikill fyrir þennan hóp. Gefum honum bara 90% af honum, tökum 10% af ellilífeyrinum. Og það sem var mesta afrekið þeirra fyrr og síðar í því máli var að það var aftur sett á krónu á móti krónu skerðing, skerðing sem allir flokkar og meira að segja ríkisstjórnarflokkarnir hafa sagst vera á móti. Þeir settu krónu á móti krónu skerðingu á þennan hóp og ég skil ekki að við skulum ekki nota tækifærið núna, nota tækifærið og taka þennan ósóma út því það kostar eiginlega ekki neitt. Það eru örfáir einstaklingar þarna undir. Hvers vegna í ósköpunum teljum við að það sé sjálfsagt að níðast á þessum örfáum einstaklingum, þessum ellilífeyrisþegum?

Ég sé að tíminn er að renna út en að síðustu vil ég hvetja ríkisstjórnina til að taka tillit til allra þessara breytingartillagna sem hafa komið við frumvarpið og reyna, þegar þau fara virkilega í endurskoðun almannatryggingalaga sem á að stefna að í vor, ég reikna fljótlega með frumvarpi, eða ég skil það þannig að það ætti að koma inn í byrjun maí, að taka almennilega til í þessu kerfi. Það er lágmarkskrafa að þeir taki út allar þessar ótrúlega gildrur sem eru einhvern veginn gerðar til þess, ég veit eiginlega ekki til hvers, vegna þess að kostnaðurinn er, held ég, í sennilega mörgum tilfellum meiri við að reyna að reikna þetta út og fylgjast með því að skerða þetta fólk heldur en að sleppa því. Það er það sem við eigum að gera.

Síðan ætla ég að vona að það verði hlustað á öryrkja. Ég var að koma af málþingi hjá Öryrkjabandalaginu sem hét Satt og logið um öryrkja, þar sem komu fram þau gleðitíðindi, samkvæmt könnun Gallups, að almenningur í landinu er 100% sammála Flokki fólksins og telur að öryrkjar eigi að hafa að lágmarki 389.000 kr. á mánuði. Við lögðum fram frumvarp um 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust þannig að það er nákvæmlega í þeim anda sem almenningur í landinu telur að eigi að vera lágmark fyrir öryrkja til að lifa á í dag. En svo var ákveðinn hópur sem er vinnandi í dag sem telur að ef hann lenti í örorku í dag þá þyrfti hann 466.000 kr. skatta- og skerðingarlaust til að lifa af, sem er næsta breyta þar fyrir ofan og verður vonandi einhvern tímann. Það væri alla vega óskandi að ríkisstjórnin hlustaði nú á Öryrkjabandalagið og þessa könnun frá Gallup og tækju sig til og færu að hækka hjá öryrkjum. Síðan var sú mýta að öryrkjum sé að fjölga svo rosalega alveg slegin út af borðinu, þeim fækkar miðað við fjölda þjóðarinnar. Öryrkjar í dag eru rétt um 5% af þjóðinni og eru um 19.000 og stór hópur þeirra er að reyna að vinna þó að allt sé gert til þess að koma í veg fyrir að þeir hafi einhvern hagnað af því. En vonandi fáum við að sjá góðar breytingar, maður hefur oft óskað þess en orðið fyrir vonbrigðum.



[17:29]
Halldóra Mogensen (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Ég er á minnihlutaáliti með hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur og Guðmundi Inga Kristinssyni. Þar sem Oddný fór mjög vel yfir það nefndarálit ætla ég kannski ekki að endurtaka það sem þar kom fram en mér finnst mikilvægt að ítreka að við erum að fjalla um milliríkjasamninga og hversu mikilvægt það er að það sé skýrt að ekki megi beita milliríkjasamningum um almannatryggingar með íþyngjandi hætti þannig að það leiði til lakari réttar en rétthöfum er tryggður samkvæmt lögum.

Eins og kemur fram í áliti minni hlutans er mikilvægt að framkvæmdarvaldinu sé ekki falið óheft ákvörðunarvald um að víkja frá lögunum. Það er ekki að ástæðulausu að við leggjum áherslu á þennan skýrleika. Mér þykir vont að skilja atriði eftir í lögum til túlkunar hjá Tryggingastofnun ríkisins og það er ástæða fyrir því. Sporin hræða. Það eru bara mjög nýleg dæmi um að Tryggingastofnun hafi reiknað bætur fólks á skjön við lög. Það eru bara örfá ár síðan umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að túlkun Tryggingastofnunar á íslenskum lögum um almannatryggingar og EES-reglugerð hafi verið röng. Afleiðingarnar af þessu voru gríðarlega miklar. Mikill fjöldi örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega hefur þurft að búa við ólögmætar skerðingar af hálfu ríkisins. Íslenska ríkið hefur ólöglega skert tekjulægsta hópinn á Íslandi um marga milljarða yfir rúmlega tíu ára tímabil. Þarna eru dæmi um einstaklinga sem þurftu að lifa á 100.000 kr. og stundum minna á mánuði og áttu að fá að lifa á þessum launum út ævina. Það segir sig sjálft að það getur enginn lifað á 100.000 kr. Það tók svo mörg ár að leiðrétta kjör þessa hóps. Á meðan hélt ólöglega skerðingin áfram og í ofanálag ákvað ráðherra á þessum tíma að greiða einungis bætur fjögur ár aftur í tímann í staðinn fyrir að sjá sóma sinn í því að bæta öllum þann skaða sem þetta lögbrot að hafði valdið fólki í þau rúmlega tíu ár sem það fékk að viðgangast. Margir fengu aldrei réttlæti, hreinlega vegna þess að þeir lifðu biðina ekki af. Þetta er til skammar. Þetta er smánarblettur á okkur öllum — eða ég ætla ekki að taka þetta á mig reyndar, bara á þinginu, ekki á þinginu einu sinni, bara framkvæmdarvaldinu.

Það er ekkert mál að skýra þetta lagaákvæði, forseti, og koma þannig í veg fyrir svona hentisemislagatúlkun. Það ætti í raun að vera algjört lágmark miðað við þau svik, þann trúnaðarbrest sem hefur átt sér stað í fortíðinni. Ég hreinlega skil ekki hvers vegna við getum ekki farið þá leið að bara tryggja það að lagaramminn sé skýr þegar kemur að þessu.

Markmið frumvarpsins er að gera lífeyriskerfi eldri borgara og örorkulífeyriskerfið gagnsærra, einfaldara og skilvirkara. Einnig kemur fram að það sé undanfari frekari breytinga á kerfunum sem gert er ráð fyrir að verði innleiddar í áföngum á næstu misserum. En vandinn er að þetta frumvarp er ekkert skýrt, það er ekkert mjög gagnsætt og það er bara alls ekki einfalt. En það er kannski ekki skrýtið, almannatryggingalögin eru bara mjög óskýr og mér finnst það vera efni í eiginlega heila aðra ræðu og mögulega marga fyrirlestra að tala um það hversu ólýðræðislegt það er að við búum við svona óskýr og óaðgengileg lög. Þetta eru lög sem fólk í raun og veru stólar á bara til að geta lifað í samfélaginu. Þetta snýr að lífsviðurværi þess. Mig grunar að margir hverjir, ef ekki flestir eigi mjög erfitt með að skilja hver réttur þeirra er í þessu kerfi og það er ótrúlega vont.

Ég efast ekki um að núverandi félagsmálaráðherra vilji láta gott af sér leiða þegar kemur að því að betrumbæta þetta kerfi en ég hef áhyggjur af því, alla vega sem þingmaður, að þegar við erum að fá breytingar til okkar, lögin hingað til okkar í þingið sem löggjafi, að þá sé erfitt að átta sig á heildarsýninni þegar er verið að innleiða þetta í áföngum á þennan hátt. Það er erfitt fyrir okkur að sjá nákvæmlega hvaða vegferð ráðherra er á og þar af leiðandi erfiðara fyrir okkur að fjalla um þetta á einhvern heildstæðan hátt.

Mér finnst staðan í velferðarmálum í dag vera ótrúlega skýrt dæmi um skort á framsýni og heildstæðri stefnumótun um hvernig samfélag við viljum byggja. Það vantar aðeins að súmma út, afsakaðu slettuna, forseti, og skoða heildarmyndina. Hver er okkar framtíðarsýn í velferðarmálum? Hver er hún? Ég ætla að leyfa mér að vera alveg ofurbjartsýn og gefa mér að við sem samfélag sjáum ávinninginn af því að leysa úr læðingi þann gífurlega mannauð sem við búum yfir og skapa jöfn tækifæri og aukið frelsi einstaklinga til að blómstra innan samfélagsins. Ég alla vega held að margir í samfélaginu séu þar, séu að hugsa eftir þessum línum. Vandinn er að ég get ekki séð að ríkisstjórnin sé með sömu sýn, bara alls ekki. Viðunandi framfærsla á ekki að vera ölmusa heldur sjálfsagður réttur allra í samfélaginu, réttur sem gerir þeim sem ekki geta unnið kleift að lifa þrátt fyrir atvinnuleysið og veitir þeim sem geta unnið eða vilja reyna að vinna nauðsynlegt öryggi ef heilsa þeirra bregst eða versnar. Samt búum við við ölmusukerfi þar sem er lág framfærsla, hár þröskuldur, mikið af flóknum skilyrðum og skerðingum. Þetta kerfi ýtir undir fordóma og þessa hugmynd um ölmusu frekar en réttindi.

Þetta er líka svo öfugsnúið af því að viðunandi framfærsla léttir á því yfirþyrmandi álagi sem fylgir því að vera veikur, að þurfa að gefa upp starfsframann sinn og því tabúi sem fylgir því að vera öryrki í íslensku samfélagi, álag sem er að sliga íslenska öryrkja og íþyngja þeim í veikindum þeirra. Við vitum öll hvaða áhrif óöryggi og streita hefur á heilsu okkar. Við vitum það. Samt einhvern veginn höldum við áfram þessu kerfi þar sem stór hópur fólks er fastur í viðvarandi streitu- og óöryggisástandi og þetta er veika fólkið sem við eigum að vera að hjálpa að ná bata.

Ég vona innilega að tiltölulega nýr félagsmálaráðherra hafi einhverja heildarsýn yfir málaflokkinn. En eins og ég sagði áðan þá er erfitt að meta það vegna þess að við erum að fá þetta í þessum bútum. Ég satt að segja skil ekki hvernig við náum einhverjum árangri í þessum málaflokki nema að við endurhugsum almannatryggingakerfið alveg frá grunni með það að markmiði að tryggja öllum skilyrðislaust gólf til að standa á. Það er rökrétt leið til að lýsa þessu. Þá meina ég að tryggja þau sjálfsögðu réttindi að allir nái endum saman. Fæði, klæði, húsnæði, segja félagar mínir í Flokki fólksins og ég tek undir það. Við þurfum að dekka nauðsynjar svo að allir hafi tækifæri til að setja orku í að finna sinn vettvang og blómstra í samfélaginu. Við erum því miður ekki þar. Ég er ekki sannfærð um að við séum að fara þangað í bráð og það þykir mér mjög sorglegt.