153. löggjafarþing — 88. fundur
 27. mars 2023.
forseti COP28.
fsp. AIJ, 698. mál. — Þskj. 1070.

[17:52]
Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Einmitt þegar ríki heims eru farin að ná saman um metnaðarfullar aðgerðir í loftslagsmálum þá koma hagsmunaöflin úr hinni áttinni og sýna hvers þau eru megnug. Þau hafa kannski fengið að fara leynt fram að þessu og staðið í vegi fyrir framförum árum saman, en við höfum t.d. séð það á hverri loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á fætur annarri, að fjöldi einstaklinga sem er skráður á ráðstefnuna sem er með bein tengsl við olíu- eða gasiðnað, hefur bara vaxið í veldisvexti. Þannig var fundið út að 636 einstaklingar hefðu mætt á síðustu ráðstefnu COP27, sem haldin var í Egyptalandi, til þess að tala máli olíu og gass á ráðstefnu sem í grunninn ætti að snúast um að koma í veg fyrir notkun þeirra mengandi orkugjafa.

Sama sjáum við síðan varðandi vinnu við alla grunntexta samningsins. Við vorum t.d. í síðustu viku að fá nýja skýrslu frá vísindanefnd IPCC, þar sem aðildarríki fengu samt að gera athugasemdir við textann. Þar sjáum við t.d. að Sádi-Arabía, stærsta olíuframleiðsluríki í heimi, vann að því að orðalagið „rót vandans er jarðefnaeldsneyti“ yrði tekið úr textanum af því að það stuðaði olíuríkið. Noregur, stærsta olíuframleiðsluríki Evrópu, vann í því að ná niður orðalagi varðandi samdrátt í losun og svo má áfram telja. Kína var þarna að gera sig gildandi og fleiri.

Mig langar að spyrja ráðherra í dag hver afstaða hans sé til þess að næsta ráðstefna verði ekki bara plöguð af því að einstaklingar mæti þangað með skírteini til að hafa áhrif á viðræður, heldur verði viðræðunum beinlínis stýrt af forstjóra eins stærsta olíufyrirtækisins í heimi. Sameinuðu arabísku furstadæmin tilnefndu sum sé Sultan Al Jaber sem forseta COP28, en hann stýrir og hefur um nokkurt skeið stýrt ríkisolíufyrirtæki Abú Dabí. Munu íslensk stjórnvöld hvetja ríkisstjórn Sameinuðu arabísku furstadæmanna til að draga tilnefninguna til baka eða grípa til einhverra aðgerða til að byggja undir trúverðugleika samtalsins? Það getur ekki verið að refur eigi að stýra samningaviðræðum inni í hænsnakofa.



[17:55]
umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar og þakka hv. þingmanni fyrir að draga athygli að þessu máli á þessum vettvangi og hvet hann og aðra þingmenn til að gera meira af því. Ég skil hvaðan hv. þingmaður er að koma, en spurt er hvort Ísland hyggist beita sér gegn því að Sultan Al Jaber, ráðherra í ríkisstjórn Sameinuðu arabísku furstadæmanna. verði forseti 28. aðildarríkjaþings loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, eða COP28 eins og það er gjarnan kallað. Stutta svarið er nei. Meginástæðan fyrir því er einföld. Þetta er virðingarstaða til eins árs í senn þar sem fylgt er ákveðnum reglum Sameinuðu þjóðanna og loftslagssamningsins. Formennska á COP-fundum er ákveðin hverju sinni af einum af fimm ríkjahópum Sameinuðu þjóðanna. Ríkjahópar skiptast á formennsku sem fer yfirleitt saman við gestgjafahlutverk. Á þessu ári er það á könnu hóps ríkja í Asíu og Kyrrahafi að bjóða fram fundarstað og formennsku. Þarna hafa 50 ríki komið sér saman um að fundurinn verði að þessu sinni haldinn í Sameinuðu arabísku furstadæmunum sem bjóða þá um leið fram formann hans. Það lá fyrir með niðurstöðu ríkjahópsins að viðkomandi ráðherra yrði forseti COP28. Það er ekki beinlínis kosið um þetta embætti og Ísland eða önnur ríki geta ekki fengið annan til. Það er auðvitað hlutverk formanns COP og metnaðarmál fyrir gestgjafa hverju sinni að tryggja gott þing með góðri niðurstöðu og ég efast ekki um að komandi formaður reyni þar sitt besta. Þar hafa þó úrslitaáhrif ríkin sjálf en ekki formaðurinn því að niðurstaða þarf að nást með samhljómi aðildarríkja.

Það mætti auðvitað hugsa sér að Ísland bæði gestgjafaríkið að draga þennan ráðherra til baka í formannsstól og óska eftir öðrum ráðherra. Það væri líklega einsdæmi og myndi fyrst og fremst vekja spurn og furðu. Sameinuðu arabísku furstadæmin eru olíuframleiðsluríki eins og fjölmörg önnur á þessum slóðum og á heimsvísu. Þau hafa þó gert meira en mörg önnur ríki til að undirbúa hrein orkuskipti og framtíð sem byggir á öðru en jarðefnaeldsneyti og þau hýsa m.a. skrifstofur alþjóðasamtaka um endurnýjanlega orku, IRENA, sem Ísland og flest ríki eru aðilar að.

Það er þó alveg skýrt tekið fram, virðulegi forseti, að ég er ekkert að verja ástandið í þessum ríkjum frekar en öðrum. Ég hef svo sem beitt mér í mínum fyrri störfum fyrir ýmsu sem tengist þeim ríkjum sem hv. þingmaður vísaði til. En það er hins vegar mikilvægt að fá olíuframleiðsluríki að borðinu í loftslagsmálum eins og önnur. Það er vissulega auðvelt fyrir okkur Íslendinga að setja okkur á háan hest þegar kemur að hreinum orkuskiptum þar sem við erum með einna hæst hlutfall endurnýjanlegrar orku í okkar orkubúskap og nær eina ríkið sem notar eingöngu endurnýjanlegar orkulindir til rafmagnsframleiðslu og húshitunar. En við getum þó gert enn betur, bæði í því að draga úr okkar losun og við að aðstoða aðra í loftslagsverkefnum og hreinum orkuskiptum. Efnahagskerfi heimsins er enn að langmestu leyti knúið af jarðefnaeldsneyti og við þurfum að eiga hreinskilið samtal um hvernig við getum breytt því. Það er vissulega misjafn sauður í mörgu fé á COP-þingum loftslagssamningsins en við náum skammt ef þau eiga bara að vera keppni í dyggðaskreytingu þar sem rík lönd á borð við Ísland sem nota mikla orku setja ofan í við önnur lönd sem okkur finnst standa lakar. Það, virðulegi forseti, er kjarni máls, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það verkefni sem hv. þingmaður hefur dregið athyglina að, loftslagsverkefnið, og ég þakka hv. þingmanni fyrir að gera það, er þess eðlis að við þurfum að fá alla að borðinu. Það er auðvitað mikil þraut. Það að eiga samtal við ríki þýðir ekki að íslensk ríkisstjórn eða íslensk stjórnvöld séu með neinum hætti að skrifa undir allt það sem þau ríki gera, hvort sem það er á vettvangi loftslagsmála eða annarra mála, ég tala nú ekki um mannréttindamála, það kemur svona upp í hugann, virðulegi forseti, þegar við ræðum um ýmis þessi lönd. Þannig að, virðulegi forseti, ég skil spurningar hv. þingmanns og þau sjónarmið sem þar liggja að baki. Ég vona að mér hafi tekist að svara þeim svo gagn sé að.



[18:00]
Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég þakka svörin. Það er kannski rétt að byrja á því að taka undir með hæstv. ráðherra að Sameinuðu arabísku furstadæmin eru með þeim metnaðarfyllri í hópi olíuframleiðsluríkja þegar kemur að því að styðja við uppbyggingu endurnýjanlegra orkugjafa. Vandinn er að samhliða því eru þau ekki að setja sér markmið um að draga saman framleiðslu olíu og gass. Þannig er t.d. á teikniborðinu næstu þrjú árin að auka framleiðslu, þá væntanlega fyrirtækisins sem Sultan Al Jaber stýrir, svo mikið að það myndi valda losun upp á 2,7 gígatonn af koltvísýringi.

Auðvitað þurfum við að tala við öll ríki, auðvitað þurfum við að draga öll ríki að borðinu, en sú hætta sem myndast á þessum fundi næsta haust er að þar muni olíuframleiðsluríki, sem hefur verið duglegt í að mála sig grænt, fá tækifæri til að grænþvo sig alveg í botn. Þó að það þurfi auðvitað að taka þátt í samtalinu þá er ekki þar með sagt að það sé eðlilegt að það stýri samtalinu. Þó svo að þetta sé samtal á milli nærri 200 ríkja þar sem komist verður að sameiginlegri niðurstöðu hefur formaðurinn mikið um þá niðurstöðu að segja.

Hæstv. ráðherra segir að það væri einsdæmi ef Ísland myndi gera athugasemd við formennsku ráðstefnunnar. En það er líka einsdæmi að forstjóri olíufyrirtækis stýri svona ráðstefnu. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Hann er starfandi forstjóri þessa fyrirtækis. Hagsmunaárekstrarnir verða ekki skýrari. Það eru ekki einu sinni uppi áform um að hann víki stöðu sem forstjóri (Forseti hringir.) þetta ár sem hann gegnir forsæti í loftslagssamningum. Það hlýtur að vera einhver flötur fyrir Ísland að (Forseti hringir.) gera athugasemd við þessa stöðu sem er einsdæmi og er ólíðandi.



[18:03]
umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi dregið þetta ágætlega saman, þ.e. að við verðum að draga ríki að borðinu. Það er harla ólíklegt, að því gefnu að gestgjafaríkið sé með formann, að það sé ekki einhver aðili sem sé tengdur þessari framleiðslu sem hefur náttúrlega einkennt þetta ríki. En hv. þingmaður bendir líka réttilega á að þeir hafi gengið lengra en flestir á þessu svæði þegar kemur að því að nýta endurnýjanlega orkugjafa.

Hv. þingmaður er að vísa hér til þess, og ég geri engar athugasemdir við það, hvað tekist er á um. Hv. þingmaður vísaði líka í fyrri ræðu sinni til hluta sem eru nær okkur en þessi ríki. En við erum bara í þessari stöðu og þetta er ekki einfalt verk. Það er enginn að segja að þetta verði auðvelt eða sé auðvelt. En ég held að það sé mjög erfitt ef ekki útilokað, þar sem allir þurfa að taka þátt til að árangur náist, að taka ekki samtalið. Það er alveg ljóst að bestu niðurstöður væru að þessi ríki, sem eru svona öflug og stór þegar kemur að framleiðslu á olíu og gasi, væru fremst meðal jafningja og væru með metnaðarfull markmið.

Ég ætla ekkert að spá neinu fyrir en hv. þingmaður er að draga hér athygli að einum vandanum í þessu samstarfi og samtali. Ég veit að hv. þingmaður og margir fleiri, ef ekki allir, gætu tilgreint mjög margt annað sem er áskorun þegar kemur að þessu stóra verkefni okkar.