153. löggjafarþing — 89. fundur
 28. mars 2023.
almannatryggingar og félagsleg aðstoð, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 533. mál (réttindaávinnsla og breytt framsetning). — Þskj. 1380.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[15:00]

[14:57]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Hér greiðum við atkvæði um frumvarp sem felur í sér breytingu á réttindaávinnslu og breytta framsetningu laga um almannatryggingar og laga um félagslega aðstoð, mál sem ég styð og felur í sér mikilvægar umbætur og er liður í frekari endurskoðun laganna sem ríkisstjórnin leggur áherslu á. En ég kem hingað ekki síður til þess að staðfesta hér að ábendingar sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom með við atkvæðagreiðslu við 2. umr. og fór yfir hér rétt áðan við 3. umr. verða teknar til skoðunar í hv. velferðarnefnd. Ákvæðið sem um ræðir tekur ekki efnislegum breytingum með frumvarpinu sem við greiðum atkvæði um hér og nú, en eftir að hafa hlustað á hv. þingmann tel ég mikilvægt að rýna ábendinguna óháð afgreiðslu þessa frumvarps, þó að ég geti ekki sagt til um það á þessum tímapunkti hver niðurstaðan verður.



[14:58]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Maður vonaði að með þessum lagabreytingum væri að koma betri tíð og bættur hagur hjá þeim sem lifa í almannatryggingakerfinu. Því miður er tækifærið ekki nýtt til þess. Síðan sýnir það sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson var að segja áðan hversu flókið kerfi þetta er. Jú, ég styð þetta mál vegna þess að ég tel að þetta sé fyrsta skrefið í þá átt að bæta kerfið, en við hefðum átt að nýta tækifærið og bæta hag þeirra sem lifa í þessu kerfi núna vegna þess að páskarnir eru fram undan og þessi hópur hefur verið svikinn í fjölda ára. Tökum krónu á móti krónu skerðingarnar út, sem skipta orðið milljörðum eða tugum milljarða sem hafa verið teknir af þessum hópi. Það hefði verið hægt að bæta úr því núna, en því er lofað að það komi við endurskoðun almannatrygginga. Á ég að trúa því? Ég vona það en finnst það ólíklegt, því miður.



[14:59]
félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Samþykkt þessa frumvarps er mikilvæg fyrir fólkið í landinu því að með því aukum við skýrleika laga um almannatryggingar og aðgengi fólks að lögunum, sem aftur ætti að draga úr mistökum við útreikning og afgreiðslu réttinda og greiðslna almannatrygginga sem gagnast jú öllum örorku- og ellilífeyrisþegum. Samþykkt frumvarpsins er því líka mikilvægur liður í að bregðast við ábendingum frá Ríkisendurskoðun og umboðsmanni Alþingis á undanförnum árum. Þá er frumvarpið mikilvægt því að hér færum við réttindaávinnslu í örorkulífeyriskerfinu nær nútímanum með frekari ívilnunum fyrir yngra fólk og fólk sem búið hefur tímabundið erlendis.

Ég vil að lokum þakka hv. velferðarnefnd fyrir góða vinnu við vinnslu frumvarpsins og fagna því sérstaklega að við skyldum sameinast um mikilvæga tillögu minni hlutans um að fella út skerðingar framfærsluuppbótar til einhleypra örorkulífeyrisþega sem njóta mæðra- og feðralauna.



Frv.  samþ. með 43 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AIJ,  ArnG,  ÁBG,  ÁsmD,  ÁsF,  BGuðm,  BergÓ,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BLG,  BHar,  EÁ,  GE,  GuðmG,  GIK,  GHaf,  HHH,  HSK,  HarB,  HVH,  HildS,  IngS,  IÓI,  JSkúl,  JPJ,  JónG,  KJak,  LRS,  LínS,  OH,  OPJ,  ÓBK,  SGuðm,  SVS,  TAT,  VE,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórP,  ÞórdG,  ÞSÆ,  ÞSv.
20 þm. (ÁslS,  ÁLÞ,  BirgÞ,  BjarnJ,  DME,  GRÓ,  GÞÞ,  HallM,  HKF,  JFM,  JFF,  LA,  LE,  NTF,  SDG,  SIJ,  SÞÁ,  SSv,  ÞorbG,  ÞKG) fjarstaddir.