153. löggjafarþing — 89. fundur
 28. mars 2023.
dómstólar, 1. umræða.
stjfrv., 893. mál (sameining héraðsdómstólanna). — Þskj. 1395.

[15:01]
dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um dómstóla. Einnig eru lagðar til breytingar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem leiða af breytingum á fyrrnefndum lögum.

Á vormánuðum 2022 var skipaður starfshópur um sameiningu héraðsdómstóla og honum falið að taka saman upplýsingar um þau atriði sem huga þyrfti að við sameiningu átta héraðsdómstóla landsins í einn. Einnig að koma með tillögur að útfærslu að slíkum breytingum, meta hagkvæmni af sameiningunni og þörf á lagabreytingum. Frumvarp þetta byggist einkum á skýrslu starfshópsins og þeim tillögum að breytingum á lögum um dómstóla sem henni fylgdu. Með frumvarpinu er lagt til að hinir átta héraðsdómstólar landsins verði sameinaðir í einn dómstól undir nafninu Héraðsdómur. Lögð er áhersla á að styrkja héraðsdómstigið, skapa forsendur fyrir því að auka gæði við vinnslu dómsmála og gera stjórnsýslu dómstigsins skilvirkari, gegnsærri og markvissari. Forsenda sameiningarinnar er sú að Héraðsdómur hafi starfsstöðvar á landsbyggðinni þar sem héraðsdómstólar eru nú staðsettir og horft er til þess að efla og styrkja starfsstöðvarnar. Ætla má að ná megi fram einfaldari og skilvirkari stjórnsýslu fyrir dómstólana og auknu eftirliti með henni. Þá er jafnframt gert ráð fyrir að fjárframlög og mannauður dómstólanna nýtist betur og aukið hagræði náist við meðferð dómsmála, borgurunum til hagsbóta. Þá býr frumvarpið einnig í haginn fyrir frekari þróun stafrænnar meðferðar dómsmála. Auk þess verði rýmri heimildir um hvar megi taka dómsmál fyrir, eftir atvikum með fjarfundabúnaði, til þess að draga úr óþarfa ferðalögum og tímasóun aðila dómsmála, málflytjenda og starfsmanna dómstólanna og í því tilliti auka lífsgæði, styrkja búsetu um allt land og styðja við baráttuna í loftslagsmálum.

Lagt er til að starfsstöðvar Héraðsdóms á landsbyggðinni verði lögbundnar sem og lágmarksfjöldi starfsmanna á hverri starfsstöð þannig að þrír starfsmenn verði að lágmarki starfandi á hverri starfsstöð, þar af a.m.k. tveir héraðsdómarar eða einn héraðsdómari og einn dómarafulltrúi. Sú tilhögun þykir til þess fallin að styrkja faglegt starf héraðsdómstigsins á landsbyggðinni og efla starfsemi þess þar. Lagt er til að yfirstjórn dómstólsins hafi aðsetur í Reykjavík og er þá fyrst og fremst horft til dómstjóra og skrifstofustjóra, en sjá má fyrir sér að varadómstjóri sem og starfsfólk sem vinnur náið með dóm- og skrifstofustjóra vegna daglegrar stjórnunar geti starfað á hvaða starfsstöð Héraðsdóms sem er samkvæmt ákvörðun dómstjóra, eftir því sem þarfir dómstólsins krefjast.

Lagt er til að dómstjóri og varadómstjóri Héraðsdóms verði skipaðir af stjórn dómstólasýslunnar til 5 ára, að undangenginni auglýsingu meðal héraðsdómara um embættið. Þá er lagt til að dómstjóri skipi Héraðsdómi skrifstofustjóra og starfsheiti löglærðra aðstoðarmanna dómara verði breytt í dómarafulltrúa, án þess þó að breytingar verði gerðar á inntaki starfsins eða réttarstöðu þeirra. Af framangreindu leiðir að allir héraðsdómarar myndu framvegis starfa við einn dómstól og að úthlutun allra mála í héraði yrði á hendi eins dómstjóra. Dómstjóri gæti úthlutað málum til héraðsdómara og dómarafulltrúa og falið héraðsdómurum meðdómendastörf án tillits til þess hvar þeir hefðu fasta starfsstöð og án tillits til þess á hvaða starfsstöð málin væru rekin. Þannig yrði m.a. betur unnt að jafna álag. Því tengt er lagt til að rýmkað verði hvar taka megi dómsmál fyrir en tillaga þess efnis í frumvarpinu lýtur að því að heimild héraðsdómara til að taka mál fyrir utan umdæmis síns verði ekki lengur takmörkuð við þinghöld eftir þingfestingu máls, þó þannig að mál skuli að jafnaði taka fyrir þar sem til hagræðis þykir fyrir rekstur þess.

Þá eru lagðar til nokkrar breytingar á hlutverki og verkefnum dómstólasýslunnar. Þær lúta í stórum dráttum að því að staða stofnunarinnar gagnvart Héraðsdómi verði að mestu leyti sú sama og verið hefur gagnvart Landsrétti og Hæstarétti frá 1. janúar 2018. Auk þess er lagt til að dómstólasýslunni verði fengnar auknar heimildir til að setja reglur, þar á meðal um úthlutun dómsmála og um undirbúning að skipun dómstjóra og varadómstjóra Héraðsdóms. Við vinnslu frumvarpsins var horft til sérstöðu dómvaldsins skv. 2. gr. og V. kafla stjórnarskrárinnar og sérstaklega til þess að ekki yrði vegið að sjálfstæði þess. Staða héraðsdómara mun ekki raskast verði frumvarpið að lögum heldur munu þeir áfram gegna embætti með sömu staðsetningu og sömu lögkveðnu kjörunum. Dómstjórar núverandi héraðsdómstóla munu halda launum sínum sem dómstjórar út skipunartíma sinn sem dómstjórar og áfram jafnframt gegna embættum sem héraðsdómarar. Starfsfólk héraðsdómstóla, sem verður í starfi þegar héraðsdómur tekur til starfa, mun verða starfsfólk Héraðsdóms.

Sameining héraðsdómstóla landsins í einn þykir sem slík ekki vera til þess fallin að hafa áhrif á jafnrétti eða stöðu kynjanna, hvorki að því er varðar aðila sem leita til héraðsdómstigsins né héraðsdómara og starfsfólk héraðsdómstólanna. Gert er ráð fyrir að kostnaður sem leiðir af frumvarpinu rúmist innan ramma gildandi fjárlaga. Þegar ráðist er í jafnmiklar breytingar á uppbyggingu stofnana réttarkerfisins og hér er lagt til er mikilvægt að gefinn verði rúmur aðlögunartími frá lögfestingu til gildistöku laganna. Er því lagt til að sameining héraðsdómstólanna taki gildi 1. ágúst 2024 en dómstjóri verði skipaður frá 1. mars 2024 til þess m.a. að undirbúa sameiningu og stofnun dómstólsins. Gangi sameiningaráformin eftir kallar það á ýmsar lagabreytingar í framhaldinu og því er gert ráð fyrir að á komandi vetri verði lagt fram annað frumvarp um nauðsynlegar breytingar á réttarfarslöggjöf.

Hæstv. forseti. Ég hef farið yfir helstu atriði frumvarpsins en að öðru leyti vísast til greinargerðar þess og skýringar við einstök ákvæði. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.



[15:08]
Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég tel að hér sé mjög sérstakt frumvarp á ferðinni hvað það varðar að auka hagkvæmni og stuðla að meiri samvinnu og samlegð en er í dag, eins og vitnað er í skýrslu Ríkisendurskoðunar um stjórnsýslu dómstólanna. Ég tel að það sé miklu einfaldara að auka samvinnu milli núverandi dómstóla þannig að hægt sé að flytja mál á milli þeirra embætta sem nú eru á landsbyggðinni. Þessi litlu embætti eins og á Ísafirði, Sauðárkróki, Borgarnesi og víðar eru mjög mikilvægar stofnanir úti á landi. Að þær verði ekki sjálfstæðar stofnanir er bara upphafið að endi þeirra, svo einfalt er það. Ég held að mjög mikilvægt sé að fara að þessu með mun vægari hætti, þ.e. að auka samvinnu milli allra dómstólanna í dag, frekar en að steypa öllu í eitt mót, einn dómstól og eina stofnun sem mun gera það að verkum að við næstu hagræðingarkröfu í fjárlögum verður farið að skera niður úti á landi.

Mig langar að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra: Var ekkert skoðað að hafa lagaheimildir þar sem hægt væri að flytja mál á milli dómstóla og dómarar við önnur embætti tækju við málum, eins og frá höfuðborgarsvæðinu, sem er miklu vægara úrræði og myndi ekki kalla á þessar veigamiklu breytingar sem hér er verið að gera? Ég vil minna á að núverandi héraðsdómstólakerfi er gríðarlega mikilvægt. Það var sett með löngum aðdraganda, m.a. vegna álits frá mannréttindanefnd Evrópu og frægs hæstaréttardóms frá 9. janúar 1990 sem olli mikilli umræðu meðal lögfræðinga og miklum fræðiskrifum. Ég minnist sérstaklega einnar greinar eftir þekktan lögmann hér í bæ og fyrrum hæstaréttardómara sem hét „Gott er að eiga góðan að“. Ég tel að þetta frumvarp sé ekki til hagsbóta fyrir landsbyggðina og þau opinberu störf sem þar eru og eru innan dómsýslunnar.



[15:10]
dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Hér er hv. þingmaður að viðra áhyggjur af því að afleiðingar þessara breytinga kunni að vera þær að starfsstöðvum á landsbyggðinni verði lokað komi til að mynda til þess að fjárframlög til dómstólanna verði skorin niður, að þá verði hægastur vandinn að skera niður starfsemi á landsbyggðinni. Í fyrsta lagi er fjöldi dómara lögfestur. Því verður auðvitað ekki breytt. Í öðru lagi, með skilningi á og tilliti til þeirra sjónarmiða sem hv. þingmaður viðrar hér og eru alveg fullgild til þess að hafa áhyggjur af, þá búum við þannig um málin í þessu frumvarpi að við lögfestum þessar starfsstöðvar. Og við gerum betur: Við lögfestum það að í minnstu stofnununum sem eru úti á landi verði starfsmönnum fjölgað, þar á meðal þeim sem geta fellt dóma, og við gefum heimildir til að nota nútímatækni til að greiða fyrir málum inn í dómskerfið. Því væri það alltaf meiri hluta Alþingis að ákveða það á hverjum tíma ef loka ætti einhverjum starfsstöðvum úti á landi. Þar sem við þekkjum vel til hér á þingi, bæði ég og hv. þingmaður sem viðraði þessar áhyggjur, þá vitum við að það myndi ekki ganga þrautalaust fyrir sig. Þetta er því staðan. Við teljum okkur vera að styrkja starfsemi úti á landi, tryggja hana og efla dómstigið á þessum stöðum þannig að það geti betur sinnt hlutverki sínu, veitt betri þjónustu til að mynda gagnvart lögmönnum sem þar búa á þeim svæðum, og dómstólarnir eru oft grundvöllur að þeirri starfsemi.

Hitt ber svo á að líta, að komið hefur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar og í gögnum frá fjármálaráðuneytinu að hvatt sé mjög til þess að fækka stofnunum ríkisins til að hagræða í rekstri. Það erum við að gera með þessu og þar á meðal er mjög mikil áhersla lögð á svokallaðar örstofnanir, sem eru yfir 40 talsins. Þær eru einar sex í dómskerfinu eins og staðan er í dag.



[15:13]
Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svar sitt. Ég er þingmaður Norðvesturkjördæmis, eins dreifbýlasta kjördæmis landsins, og það er mjög mikilvægt fyrir Vestfirðinga að það sé Héraðsdómur Vestfjarða, mikilvægt fyrir Vestlendinga að það sé Héraðsdómur Vesturlands. Það er mikilvægt fyrir sjálfsmynd þessa héraðs. Eins og góður maður sagði, hvert sveitarfélag í landinu vildi hafa sinn sýslumann, sinn bæjarstjóra, sinn kaupfélagsstjóra og sinn prest. Það er verið að grafa undan þessu öllu saman með því að setja allt í eina stofnun. Eins og Halldór Laxness sagði: Það er dýrt að vera Íslendingur. Vissulega er minni framleiðni úti á landi og óhagkvæmari í þessum dreifðu byggðum. Lífskjör þar eru verri og störf eru að sogast hingað á höfuðborgarsvæðið og hafa gert áratugum saman. Það er verið að setja þetta í eina stofnun þegar það hefði verið hægt að gera þetta allt saman miklu einfaldara með því að Héraðsdómur Vestfjarða, Héraðsdómur Vesturlands og Héraðsdómur Norðurlands vestra væru enn þá sjálfstæðar stofnanir en það yrði bara aukin samvinna. Þær yrðu efldar með þeim hætti að mál af höfuðborgarsvæðinu væru tekin til afgreiðslu þar, þau mál sem væri hægt að vinna með rafrænum hætti. Það tel ég að hefði verið miklu vægara úrræði, miklu vægari leið en hér er verið að fara. Og varðandi það sem Ríkisendurskoðun er að segja þá búum við í fámennu landi, mjög stóru og fámennu landi, og það er endalaust hægt að segja að það sé hægt að auka samlegðaráhrif og spara pening og annað slíkt með því að sameina allt í eitt embætti. Ég vil benda á að núverandi ríkisstjórn hefur ekki gengið á undan með góðu fordæmi þegar hún var að fjölga ráðuneytunum, fjölga ráðherrum. Það kostaði nú sitt. Og varðandi fækkun stofnana ríkisins og örstofnana þá vil ég benda á að það eru ekki bara dómstólar sem eru að úrskurða í deilumálum. Það eru líka úrskurðarnefndir á vegum ríkisins, framkvæmdarvaldsins. Hvað líður sameiningu þeirra? Þar er mörg matarholan fyrir ýmsa sem eiga sæti í þessum úrskurðarnefndum og ekki er neitt að frétta af sameiningu úrskurðarnefnda. (Forseti hringir.) Ég tel að hér sé verið að beina máli gegn stofnunum sem eru raunverulegar ríkisstofnanir sem eru mjög mikilvægar í héraði (Forseti hringir.) á meðan það er ekki verið að taka á sparnaði eins og t.d. í úrskurðarnefndum ríkisins.



[15:15]
dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Fyrst af öllu vil ég segja að ég skil áhyggjur hv. þingmanns og margir hafa nefnt í þeim efnum að sporin hræða. Það er einmitt á grundvelli þess sem ég nálgast þessi mál, bæði sameiningu héraðsdómstólanna og sameiningu sýslumannsembættanna, með þeim hætti sem raun ber vitni í frumvörpunum sem liggja hér fyrir. Það eru þrír dómstólar í kjördæmi hv. þingmanns, í Borgarnesi, á Sauðárkróki og á Vestfjörðum. Það eru liðin mörg ár síðan Halldór Laxness lét þessi orð falla og landið var svolítið öðruvísi þá og íbúasamsetning þess. (Gripið fram í.) Ég held einmitt að þetta sé mjög mikilvægur þáttur í því að auka fjölbreytni í störfum úti á landi. Þetta sé lykillinn að því, eins og við búum um það í þessu frumvarpi, að fjölga störfum úti á landi, opinberum störfum. Það hefur reyndar verið ein af forsendum allra þeirra breytinga sem ég legg til, hvort sem er í löggæslunni, dómstólunum eða hjá sýslumönnunum, að fjölga störfum úti á landi og standa við fyrirheit sem gefin hafa verið af stjórnvöldum um að fjölga störfum úti á landi. Við búum nefnilega í stóru og fámennu landi og þetta er gríðarlega mikilvægt, það er hárrétt hjá hv. þingmanni. Hann nefnir hér úrskurðarnefndirnar. Svo vill til að þetta hef ég skoðað alveg sérstaklega og þær eru 61 talsins. Af þeim eru sumar stærri og meiri um sig en aðrar eins og úrskurðarnefnd auðlinda- og umhverfismála og kærunefnd útlendingamála, svo eitthvað sé talið. Hinar, margar hverjar, eru matarholur sem eru í skúffum lögmanna eða jafnvel háskólafólks hér í bænum. Við höfum verið að rýna þetta og það er sérstök rýni reyndar í gangi gagnvart þessu líka hjá fjármálaráðuneytinu, einmitt með tilliti til þess að við teljum að þessum nefndum eða starfsemi þeirra verði betur komið fyrir úti um land hjá sýslumönnum. Þetta er eitt af þeim stóru atriðum sem við erum að skoða með tilliti til þess að geta fært starfsemi á sýslumannsskrifstofurnar, þegar (Forseti hringir.) það verður orðið að einu embætti, dreift því um landið á hverjum tíma, einmitt til þess að styrkja þá stöðu að þjónustan verði til staðar úti á landi í breyttu umhverfi í stjórnsýslu opinberra stofnana.



[15:18]
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Þingflokkur Framsóknar setti fyrirvara við þetta mál og leggur mikla áherslu á mikilvægi þess að frumvarpið verði raunverulega til þess fallið að styrkja héraðsdómstólana í hverju héraði fyrir sig. Efla þarf starfsemi þeirra og tryggja að störf við hvern dómstól haldist svo að sérþekking á svæðinu haldist óröskuð. Starfsstöðvar á landsbyggðinni eru mikilvægar fyrir réttindi almennings um greiðan aðgang að dómstólum, sbr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Einnig þarf að líta til þess að án starfsstöðva héraðsdóms á landsbyggðinni er hætta á að lögmenntaðir einstaklingar hafi ekki kost á starfi við hæfi í tengslum við dómstólakerfið utan höfuðborgarsvæðisins. Það á sérstaklega við um þá sem hafa aflað sér málflutningsréttinda og eru með lögverndað starfsheiti sem lögmenn.

Settur er mikill fyrirvari við b-lið 11. gr. frumvarpsins sem breytir 33. gr. laganna, en þar er dómstjóra fengið ótakmarkað vald til að úthluta málum til dómara óháð starfsstöð og aðsetri dómara. Þetta er sett fram undir því flaggi að jafna vinnuálag dómaranna en úthlutun málanna til dómara varðar ekki einungis þá sjálfa eða dómstólinn. Þetta getur haft talsvert neikvæð áhrif á aðila máls, t.d. málflytjendur og saksækjendur. Hagur aðila máls þarf alltaf að vera hafður að leiðarljósi, enda snýst dómskerfið um rétt aðila til að fá úrlausn mála sinna. Einstaklingurinn er ávallt í fyrirrúmi þó svo að þessi breyting kunni að vera til hægðarauka fyrir dómstólinn og reka megi mál á starfsstöð héraðsdóms utan þeirrar varnarþings sem málið skal rekið samkvæmt V. kafla laga um einkamál og VI. kafla laga um sakamál.

Hættan er á að ofangreind heimild verði ekki til hægðarauka fyrir þann lögmann sem hefur starfsstöð í viðkomandi varnarþingi. Kostnaður við ferðalög vegna málflutnings við héraðsdóm er líklegur til að falla á skjólstæðinginn. Því er lögð áhersla á að lögmenn fái útlagðan ferðakostnað greiddan úr ríkissjóði en ekki úr vasa skjólstæðingsins þar sem þessi ákvörðun er tekin, virðist vera, einhliða af hálfu dómstjóra héraðsdóms. Einnig er lögð áhersla á það að málsgrein verði bætt við b-lið 11. gr. þar sem komi fram að meginreglur réttarfars gildi í hvívetna við úthlutun mála og að dómstólasýslunni verði falið að setja skýrar reglur um úthlutunina og til hvaða sjónarmiða skuli horft til.

Þá gerum við í Framsókn athugasemdir við ákvæði 13. gr. frumvarpsins, sem breytir 36. gr. dómstólalaga. Í 2. mgr. 13. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir nýju ákvæði þar sem dómara eru gefnar nokkuð frjálsar hendur með á hvaða þingstað mál er tekið fyrir. Einu skorðurnar sem settar eru við þá ákvörðun er mat dómarans á því hvar þyki heppilegt að taka málið fyrir. Þó það geti vissulega horft til hægðarauka og tímasparnaðar að hafa sveigjanleika með staðsetningu á fyrirtöku mála fyrir dómstólinn sjálfan þá verður að reisa ákveðnar skorður við ákvarðanatöku af þessu tagi af hálfu dómara. Þau sjónarmið sem ráða för við slíkt mat dómara á því hvað teljist heppilegur þingstaður þurfa að vera skýr og túlkuð með þröngum hætti. Má þar nefna að taka verði tillit til búsetu og/eða staðsetningar bæði aðila máls og lögmanna og hvort um sé að ræða umfangsmikið mál eða einfalt, hvort mál verði tekið fyrir rafrænt og þess háttar.

Þá teljum við að skýra þurfi ákvæði 13. gr. betur en gert er í núverandi frumvarpi og greinargerð þess. Þar er nauðsynlegt að tekið verði fram að heimild dómara sé takmörkuð af varnarþingsreglum laga um einkamál og laga um sakamál. Þá er gerð athugasemd við að greinin sjálf veitir töluvert rýmri heimild en markmið hennar er samkvæmt greinargerðinni. Mikilvægt er að skýrt sé í ákvæði frumvarpsins að hver og einn á rétt á því að fá úrlausn sinna mála frá sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli. Hlutverk dómstóla er að taka fyrir úrlausnarefni og kveða upp dóma um réttindi og skyldur hins almenna borgara. Málarekstur fyrir dómstólum á ekki að stjórnast af hagræðissjónarmiðum viðkomandi héraðsdómara heldur að leiðarljósið sé hagur hins almenna borgara hvar á landinu sem hann býr.

Virðulegi forseti. Við viljum ítreka mikilvægi þess að sérþekking og störf héraðsdómstólanna haldist í hverju héraði og að ekki komi til uppsagna, fækkunar á störfum og að byggðasjónarmið verði virt við þessa breytingu. Með frumvarpi þessu eru blikur á lofti hvað varðar brottfall sérþekkingar og starfa utan höfuðborgarsvæðisins. Einnig er það talið ómakleg staða til framtíðar ef umræddar breytingar á lögum um dómstóla verði til þess fallnar að aðili máls eða lögmaður hans neyðist til að ferðast langt frá sínu nærsamfélagi til þess að fá úrlausn mála sinna. Um er að ræða stjórnarskrárvarinn rétt sem Ísland hefur einnig staðfest með lögfestingu mannréttindasáttmála Evrópu. Þar bendi ég aftur á 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, en þar kemur fram að hver og einn eigi rétt á að „halda uppi vörnum sjálfur eða með aðstoð verjanda að eigin vali“. Þar þarf að hafa í huga að ákvörðun um hvar skuli halda þinghald á ekki að vera til óhagræðis fyrir málsaðila.

Virðulegi forseti. Framsókn og ríkisstjórnin í heild hefur ítrekað fjallað um jafnan rétt til búsetu og í því felst m.a. að einstaklingar þurfi ekki að ferðast langar leiðir til að sækja nauðsynlega þjónustu, en málarekstur fyrir dómstólum fellur undir þá skilgreiningu. Við viljum að það sé haft í huga við meðferð þessa máls og ef það verður að lögum.



[15:24]
Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur fyrir góða ræðu. Ég er algerlega sammála nálgun hv. þingmanns, sem er að þetta eigi að sjálfsögðu að miðast út frá þjónustu við íbúa landsins, eins og hún sagði. Hagur hins almenna borgara, hvar á landinu sem hann býr, er það sem skiptir máli.

Ég tel umfjöllun hennar um 11. og 13. gr. vera mjög áhugaverða og á rökum reista. Málið er, að í þessu frumvarpi er verið að líta á þetta út frá hagræðingu dómstólsins, ekki út frá hag borgaranna. Ég hef t.d. flutt mál við Héraðsdóm Norðurlands eystra á Akureyri. Þar var fjölskipaður dómstóll, þrír dómarar. Einn af meðdómendum var héraðsdómarinn á Norðurlandi vestra og var hann kominn á Norðurland eystra til að taka þátt í dómstörfum þar. Að sjálfsögðu á að flytja til dómarana sjálfa, þar er hagræðið; með flutningi dómara og að þeir geti farið á milli héraða og embætta og tekið þátt í dómstörfum þar, en ekki að borgararnir séu í óvissu um hvar mál séu rekin. Eins og kemur fram í 11. og 13. gr., þá ert þú kannski íbúi í Reykjavík og málið er flutt á Ísafirði og sent þangað til afgreiðslu. Ég tek undir það að ríkið þurfi að sjálfsögðu að greiða flutningskostnað og annað slíkt, þá ertu hreinlega kominn út í tóma vitleysu. Þetta á að vera þjónusta við borgarana og ekkert annað.

Ég treysti því að Framsóknarflokkurinn muni gæta hagsmuna landsbyggðarinnar í þessu máli. Ég tel að þetta sé dæmigert mál þar sem hugsunarháttur vestan Ártúnsbrekku gildir, hérna í 101. Það verður að hafa hagsmuni hinna dreifðu byggða að leiðarljósi hér og þjónustu við hinar dreifðu byggðir úti á landsbyggðinni, ekki síst í Norðvestur- og Suðurkjördæmi.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Má ekki treysta því að Framsóknarflokkurinn muni gæta að þeim atriðum sem hv. þingmaður taldi upp í ræðu sinni, að þetta mál verði skoðað miklu betur og þá lagt upp með að auka hagkvæmni og samstarf milli þeirra dómstóla sem nú eru í gildi, þeirra embætta sem nú eru til staðar (Forseti hringir.) og eru mjög mikilvæg fyrir þessi héruð?



[15:27]
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni fyrir andsvarið. Ég heyri að við erum á sömu skoðun hvað þetta varðar. Reynslan er bitur af því þegar verið er að færa yfirstjórn slíkra stofnana á höfuðborgarsvæðið líkt og er verið að gera í þessu máli. Reynslan sýnir okkur að þjónustan hefur verið að færast í auknum mæli á höfuðborgarsvæðið, sem er þróun sem við í Framsókn erum ekki hlynnt. Við viljum tryggja að það séu störf og byggð úti um allt land og það erum við að gera með þessum ítarlega fyrirvara við málið. Við erum að tryggja að slíkt verði haft að leiðarljósi við vinnuna á þessu frumvarpi og að við séum algjörlega með það á hreinu að hagsmunir íbúanna skuli ráða för í þessu máli, ekki hagsmunir einstakra dómara, dómstóla eða yfirstjórnar héraðsdómstóla. Að mínu og okkar mati þá þurfum við að gæta að byggðasjónarmiðum á öllu landinu. Við eigum frekar að efla starfsstöðvarnar eins og þetta frumvarp gerir ráð fyrir. Ég vona innilega að það verði raunin en ekki að allt mokist á höfuðborgarsvæðið, sem er þróun sem við aðhyllumst ekki í Framsókn.



[15:28]
Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svar sitt. Mér finnst gott að heyra það sem hún var að segja, þetta hljómar eins og músík í mín eyru. Ég tel að það séu hagsmunir íbúa á landsbyggðinni að fá að hafa þær stofnanir og þá dómstóla sem þegar er búið að skipa í lög og hafa verið frá upphafi héraðsdómstólakerfis landsins frá því það var sett á laggirnar upp úr 1990. Þetta kerfi hefur reynst alveg gríðarlega vel. Þessar stofnanir eru sýnilegar á landsbyggðinni og þarna eru mikilvægir embættismenn sem hafa sinnt ýmsum öðrum þjóðþrifaverkum á sínu svæði. En ég tel líka að þetta séu hagsmunir íbúa á höfuðborgarsvæðinu — að mál þeirra verði send út um allar koppagrundir á landsbyggðina til afgreiðslu á starfsstöðvum þar finnst mér bara vera röng nálgun. Miklu frekar ættu dómararnir að fara á milli héraða og dæma þar sem mál eru til meðferðar.

Ég tel að þetta frumvarp sé það gallað að ekki sé hægt að gera nægilegar breytingar á því þannig að það geti orðið að lögum. Ég tel að það þurfi allt aðra nálgun og þá með hagsmuni landsbyggðarinnar og landsbyggðarkjördæmanna að leiðarljósi. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Sér hún möguleika á því að hægt sé að gera breytingar á þessu frumvarpi með þeim hætti — grundvallarbreytingar sem ég tel mikilvægar — að hægt verði að gæta hagsmuna hinna dreifðu byggða, íbúa á landsbyggðinni, og að þessi embætti fái enn þá að lifa og dafna með auknu samstarfi sín á milli til að auka hagræðingu við rekstur þannig dómarar geti farið á milli héraða? Er þetta ekki bara of stórt mál til breytingar? Ég sé ekki að hægt sé að koma með litla breytingartillögu og breyta þessari nálgun. Það getur vel verið að menn með reiknistokk hjá Ríkisendurskoðun hafi fundið það út að óhagkvæmt sé að búa úti á landi. Það má vel vera, en allar sjávarbyggðirnar eru þar og þar verður stór hluti verðmætasköpunar íslensks samfélags. Það er kannski spurning um að flytja Ríkisendurskoðun út á land svo þau geti séð hvaða verðmæti verða til í frumatvinnugreinunum þjóðarinnar.



[15:31]
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Sem íbúi á landsbyggðinni og þingmaður kjördæmis sem tilheyrir landsbyggðinni, Suðurkjördæmi, þá er ég náttúrlega hlynnt því að við færum stofnanir út á landsbyggðina í auknum mæli. Ég vil sjá þá þróun. Ég vil ekki að við höldum því áfram að landsbyggðin þurfi endalaust að sækja sér nauðsynlega þjónustu til höfuðborgarsvæðisins. Að því sögðu þá veit ég líka að það er ekki sanngirnissjónarmið í því að höfuðborgarbúar eða lögmenn á höfuðborgarsvæðinu þurfi jafnvel að sækja þinghöld á Vestfjörðum eða fyrir austan. En ég vil að það sé staðinn vörður um það hvernig við gætum að byggðasjónarmiðum með þessari breytingu sem dómsmálaráðherra boðar. Við höfum gert viðamiklar breytingar í nefndum á ýmsum málum sem hafa komið hingað inn og ég treysti á það að sérstaklega mínir fulltrúar í allsherjar- og menntamálanefnd taki þetta mál föstum tökum og standi vörð um byggðasjónarmiðin, því það er það sem skiptir máli. Við eigum að efla störf og starfsemi ríkisstofnana á landsbyggðinni en ekki draga úr vægi þeirra. Svo sannarlega held ég að það sé hægt að gera breytingar á þessu frumvarpi til þess að gera það skýrara og gæta að þessum sjónarmiðum. Standa þarf vörð um það inni í nefnd og koma þessu vel frá sér.



[15:33]
Eyjólfur Ármannsson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Hér er um mjög sérstakt mál að ræða, sameiningu héraðsdómstóla, og ég tel að við ættum ekki að samþykkja þetta mál á þessu vori. Ég tel að breytingarnar séu ekki þess eðlis að þær komi til móts við hagsmuni landsbyggðarinnar og mikilvægi þess að stofnanir séu úti á landi. Hér er raunverulega verið að leggja til að lagður verði niður dómstóllinn á Ísafirði, Héraðsdómur Vestfjarða, lagður niður Héraðsdómur Vesturlands og lagður niður Héraðsdómur Norðurlands vestra — þetta eru allt dómstólar í mínu kjördæmi — svo ekki sé minnst á dómstólinn á Egilsstöðum, á Selfossi og á Akureyri. Hér er verið að steypa öllu í einn dómstól, einn héraðsdómstól, eitt embætti með aðsetur í Reykjavík, starfsstöð í Reykjavík sem stjórnað er í Reykjavík og frá Reykjavíkurvaldinu. Ég tel að andsvör mín og svör hæstv. dómsmálaráðherra og svör hv. þm. Hafdísar Hrannar Hafsteinsdóttur hafi varpað ágætisljósi á þau sjónarmið sem ég vildi koma á framfæri í þingsal og þau eru að þetta frumvarp gangi gegn hagsmunum hins almenna borgara í landinu og þá þjónustu sem hann á rétt á frá dómskerfinu í heimabyggð. Þá er ég ekki bara að tala um úti á landi heldur líka á höfuðborgarsvæðinu þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir eftirfarandi í b-lið 11. gr., með leyfi forseta:

„Dómstjóri getur úthlutað málum til dómara óháð því á hvaða starfsstöð Héraðsdóms dómari á fast sæti eða hefur aðsetur og óháð því á hvaða starfsstöð mál eru rekin.“

Þetta þýðir að aðilar að máli, aðilar sem búsettir eru á höfuðborgarsvæðinu, eru kannski sendir út á land, háð því á hvaða starfsstöð málið er rekið. Mál getur verið rekið úti á landi sem átti raunverulega heima hér á höfuðborgarsvæðinu, er þjónusta við borgarana þar. Þetta gengur gegn hagsmunum íbúa á höfuðborgarsvæðinu.

Ég tel líka að með því að leggja niður embætti — við þekkjum sögurnar af því þegar sameinuð eru embætti. Við erum það fámennt samfélag að raunverulega væri hægt að sameina nánast allt eða miklu meira, en það er almennt dýrt að reka lítið samfélag með svona stórri yfirbyggingu eins og við erum með. Þessi ríkisstjórn hefur ekki gengið á undan með góðu fordæmi með því að fjölga ráðuneytum sem er gríðarlega kostnaðarsamt en síðan vill hún ráðast á landsbyggðina með því að sameina stofnanir þar. Jú, þau segja að þetta eigi að efla landsbyggðina. Af hverju? Til að slá á þessi rök landsbyggðarþingmanna og landsbyggðarinnar gagnvart því að það sé verið að sameina. Hæstv. dómsmálaráðherra sagði í ræðu sinni þegar ég spurði hann um úrskurðarnefndirnar að það ætti jafnvel að flytja verkefni úrskurðarnefndanna til sýslumannsembættanna. Ég veit ekki betur en að hæstv. dómsmálaráðherra sé með frumvarp fyrir þinginu eða ætli að leggja það fram, um að sameina öll sýslumannsembættin í eitt embætti. Þá er Ísland orðið ein sýsla. Það er mjög sérstakt því að sýsla þýðir hluti eða landshluti. Ef Ísland er ein sýsla þá er það væntanlega hluti af einhverju öðru.

Ég held að þetta sé ekki frumvarp sem eigi að ná fram að ganga og ég vonast til þess að landsbyggðin og sveitarstjórnarmenn úti á landi, sem er umhugað um störf úti á landi og embætti úti á landi, skili umsögnum sem varpi ljósi á það. Ég treysti á það að Framsóknarflokkurinn, sem er öflugur í Norðvesturkjördæmi, á 1. þingmann þar, og líka í Norðausturkjördæmi og hefur mikil ítök í sveitum landsins og í hinum dreifðu byggðum, komi í veg fyrir það sem hér er að eiga sér stað innan dómskerfisins, að skella öllu í sama mót, vegna þess að þróunin mun bara verða á einn veg. Það verður aðhaldskrafa í fjárlaganefnd og þá verður farið að skera niður í hinum dreifðu byggðum. Það byrjar smátt og smátt og mun gerast yfir nokkurra ára tímabil og enda með því að þessar starfsstöðvar, eins og talað er um í 1. gr. frumvarpsins, verða lagðar niður. Þá er hægt að gera það með einföldum hætti. Þær enda með því að verða bara skel og svo kemur beiðni um lagabreytingu þar sem Alþingi þarf að staðfesta orðinn hlut.

Ég tel ekki ástæðu til að fjalla ítarlegar um þetta frumvarp en ég tel að það sé merki um ákveðna hættu sem landsbyggðin þarf að bregðast við og af fullum þunga. Ég treysti því að þingmenn landsbyggðarinnar muni gæta hagsmuna landsbyggðar í þessu máli eins og þeim ber skylda til.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.