153. löggjafarþing — 92. fundur
 30. mars 2023.
matvælastefna til ársins 2040, fyrri umræða.
stjtill., 915. mál. — Þskj. 1431.

[15:40]
matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Í beinu framhaldi af umræðu hér um landbúnaðarstefnu mæli ég hér fyrir þingsályktunartillögu á þskj. 1431, mál nr. 915, um matvælastefnu fyrir Ísland. Þessari stefnu er ætlað að gilda til ársins 2040 og byggir að nokkru leyti á eldri stefnumótun, svo sem matvælastefnunni Matarauðlindin Ísland og aðgerðaáætlun sem henni var tengd. Ég tel að um langtímastefnumótun í eins mikilvægum málaflokki og matvælum sé nauðsynlegt að fjalla hér á vettvangi Alþingis. Stefnunni er í raun og veru ætlað að vera svokölluð regnhlífarstefna, þ.e. stefna sem nær yfir alla stefnumótun á sviði matvælaráðuneytisins. Slík stefna stuðlar að því að öll áætlanagerð og stefnumótun á þessu sviði verði samhæfð og tillagan sem hér liggur fyrir er samin í matvælaráðuneytinu.

Fyrir þjóð sem reiðir sig á útflutning matvæla í jafn ríkum mæli og Ísland er mjög mikilvægt að þessi markmið séu rétt stillt. Framleiðsla matvæla varðar samfélagið allt og stefnunni er ætlað að skapa sterkar stoðir fyrir innlenda matvælaframleiðslu til framtíðar til hagsbóta fyrir samfélagið í heild. Öll stefnumótun miðar að því að styrkja stoðir fæðukerfis íslensks samfélags með fjölþættum hætti. Hér er sannarlega gott aðgengi að hreinu vatni og endurnýjanlegri orku og hreinleiki afurða í sérflokki. Þá eru hér við land auðug fiskimið, gnótt af ræktarlandi ásamt því að íslenskir firðir hafa reynst ágætlega til fiskeldis. Ísland er sjálfu sér nægt um nærri 100% af framboði sjávarfangs innan lands af þeim tegundum sem veiddar eru á Íslandsmiðum. Í heildina eru þó 98% af sjávarfangi sem hér fellur til flutt á erlenda markaði og því má sannarlega segja að landið sé mjög stór nettóútflytjandi á matvælum í heild og fiskútflutningur stendur undir fjórðungi okkar útflutningstekna í heild af vörum og þjónustu.

Hér innan lands stendur búfjárrækt fyrir um 90% af framboði kjöts, 99% af framboði mjólkurvara og 96% af framboði eggja. Hins vegar sér garðyrkja þjóðinni aðeins fyrir um 43% af framboði grænmetis og kornrækt, sem hér var nefnd undir fyrri dagskrárlið, stendur aðeins undir 1% af framboði korns til manneldis. Þetta þarf að skoða sérstaklega með það í huga að efla grænmetis- og kornrækt í landinu og ég hef getið þess áður en vil gera það líka hér undir þessum dagskrárlið að í nýútkominni fjármálaáætlun er fjallað um þau markvissu skref sem við hyggjumst stíga á næstu árum til að efla kornrækt.

Það er mikilvægt að hafa í huga að auka fæðuöryggi með sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, aðferðum hringrásarkerfisins, enda viðhöldum við þannig sterkum samfélögum um land allt og framþróun í takt við þarfir neytenda. Mótun matvælastefnunnar sem þessi tillaga byggir á er partur af heildarstefnumótun innan matvælaráðuneytisins. Lögð er áhersla á sjálfbærni matvælaframleiðslu, þar sem horft er til umhverfisáhrifa og hringrásarhagkerfisins; samfélag þar sem horft er til byggðamála og jafnréttis, þar sem fæðuöryggi í víðum skilningi sé tryggt og að öruggt framboð sé af fæðu í landinu; matvælaöryggi, þar sem horft er til þess að þau matvæli sem í boði eru séu örugg til neyslu og heilnæm; þarfir neytenda, þar sem horft er til ímyndar og orðspors Íslands og neytendavitundar og neytendahegðunar; og síðast en ekki síst er horft til framtíðar þar sem horft er til þess sérstaklega hvaða rannsóknir og nýsköpun þurfa að eiga sér stað til að takast á við áskoranir framtíðarinnar og þar með hvaða menntun matvælaframleiðendur framtíðar þurfa að hafa og hafa aðgang að.

Þessi þingsályktunartillaga hér byggir á fyrrnefndu skjali en þó hefur verið tekið mið af allri annarri stefnumótun á málefnasviðinu, m.a. þeirri sem hér var rædd fyrr á dagskránni um landbúnað. Ég vil fyrst nefna stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þá vil ég nefna að í febrúar 2022, þegar matvælaráðuneytið var í raun sett á laggirnar, kynnti ég áherslur og verklag við stefnumótun á sviði matvæla og þá var tillögum og greinargerð Landbúnaðarháskóla Íslands um aðgerðir til að bæta fæðuöryggi skilað til ráðuneytisins í apríl sama ár. Land og líf, landgræðsluáætlun og landsáætlun í skógrækt til ársins 2031 var birt í ágúst 2022. Þingsályktunartillagan var líka unnin með hliðsjón af mínum áherslum sem og nýs ráðuneytis eftir að það tók til starfa 1. febrúar 2022.

Heimsfaraldur kórónuveiru og innrás Rússlands í Úkraínu hafa líka breytt ýmsum forsendum sem áður voru taldar sjálfgefnar. Í þingsályktunartillögunni er því m.a. aukin áhersla lögð á fæðuöryggi, loftslagsmál og hringrásarhagkerfið. Jafnframt mun þessi stefna vera leiðarstef fyrir komandi stefnumótun á sviði fiskeldis og sjávarútvegs en sú vinna er nú þegar hafin.

Drögin að þingsályktunartillögunni voru kynnt í þessu skjali hér á matvælaþingi í nóvember 2022 þar sem meginkaflarnir voru til umræðu í pallborðum og drögin voru rýnd með gagnrýnum augum. Í febrúar síðastliðnum var stefnan birt í opnu samráði í samráðsgátt stjórnvalda og bárust 25 umsagnir frá ýmsum stofnunum, hagsmunasamtökum, sveitarfélögum og einstaklingum. Margir umsagnaraðilar fögnuðu fram kominni tillögu að matvælastefnu og það voru gerðar ýmsar breytingartillögur að stefnunni sem tekið var tillit til eins og hægt var. Fjöldi athugasemda sneri að því hvernig best sé að ná markmiðum stefnunnar en slíkt bíður þeirrar aðgerðaáætlunar sem kveðið er á um í stefnunni. Um þá áætlun verður haft sérstakt samráð þegar þar að kemur. Enn fremur var brugðist við ýmsum athugasemdum með breytingunum.

Ég vil árétta að þessari stefnu er í raun og veru ætlað það meginhlutverk að ná utan um stefnumótun í landbúnaði, sjávarútvegi og fiskeldi, eða lagareldi í víðum skilningi. Í fyrsta lagi erum við þar með komin með stefnu um sjálfbærni matvælaframleiðslu þar sem við orðum það með skýrum hætti hvað við eigum við, óháð því hver framleiðslan er.

Í öðru lagi ræðum við hér sérstaklega samfélagslegu þættina sem lúta að uppbyggingu innviða um allt land, um skilvirka stjórnsýslu, um endurnýjanlega orku sem er nauðsynleg, um skýran lagaramma, eftirlit, starfsumhverfi o.s.frv.

Í þriðja lagi ræðum við fæðuöryggið þannig að við séum að horfa á fæðuöryggi í víðari skilningi en við erum kannski vön þar sem við erum að hugsa um öll fæðukerfin, þ.e. alveg frá upphafi til enda, og séum að horfa á þessa lífrænu ferla og hvernig þeir taka af stað inni í matvælaframleiðslunni og hvernig við getum komið þeim inn í ferilinn aftur, hvernig við getum stutt við nýsköpun í matvælaframleiðslu, aukið sjálfbærni hér innan lands, dregið úr losun framleiðslunnar o.s.frv. og mögulega geta þessar greinar matvælaframleiðslunnar líka spilað saman í ríkari mæli en þær gera nú.

Í fjórða lagi ræðum við sérstaklega matvælaöryggið sem er sérstaklega mikilvægt fyrir orðspor, fyrir markaðssetningu og einfaldlega fyrir heilsu og líf íbúanna, að þau matvæli sem eru framleidd hér á landi og þau sem eru aðflutt séu örugg, séu heilnæm, og jafnframt að hugmyndafræði einnar heilsu verði höfð að leiðarljósi þar sem vísað er til dýraheilbrigðis í einu og öllu.

Neytendur eru hér nefndir, að þeir séu vel upplýstir o.s.frv., að það sé lögð áhersla á sem jafnast aðgengi að matvælum. Og loks sá kafli sem er ekki síst mikilvægur sem er um rannsóknir, nýsköpun og menntun því að við höfum orðið þess áskynja og vitum að við þurfum miklu heildstæðari sýn á menntun varðandi matvælaframleiðslu, hvort sem það er á framhaldsskólastigi, háskólastigi eða í rannsóknum og vísindum þar sem við getum skipað okkur meðal fremstu þjóða. Við þurfum auðvitað að hlúa að grunnrannsóknum og vöktun. Við þurfum að þekkja vel til lifandi auðlinda og matvæla. Við þurfum að vita hvernig mannauður framtíðarinnar þarf að vera, eins vel og við getum, og styðja við uppbyggingu þess mannauðs eins og nokkur kostur er. Þetta er líka hluti af því að ýta undir nýliðun og það að greinarnar séu spennandi fyrir ungt fólk, að þetta haldist allt saman í hendur.

Ég nefndi áðan að drögin voru kynnt á matvælaþingi í nóvember þar sem stefnan var rædd og þar er loks í þingsályktunartillögunni kveðið á um að það verði gerðar aðgerðaáætlanir til fimm ára í senn til að hrinda þessari stefnu í framkvæmd og þetta er auðvitað hluti af því að skapa það orðspor sem við eigum sannarlega inni sem matvælaframleiðsluland í fremstu röð.

Virðulegi forseti. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðarinnar sem fylgir tillögunni þar sem ítarlega er fjallað um og gerð grein fyrir hennar efni og að lokinni þessari umræðu vil ég leggja til að tillögunni verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.



[15:52]
Þórarinn Ingi Pétursson (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. matvælaráðherra fyrir að koma fram með þingsályktunartillögu um matvælastefnu og ég fagna henni mjög. Ég ætla aðeins að bakka aftur í tímann. Á 149. löggjafarþingi samþykktum við þingsályktun um aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna. Þar er í 12. lið tekið fram að hluti af þessari aðgerðaáætlun sé að koma fram með matvælastefnu sem tengir þetta aðeins saman.

Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, að bakka aðeins aftur í landbúnaðarstefnuna af því að ég komst ekki í það að fagna þeirri stöðu sem núna blasir við okkur sem snýr að kornræktinni. Hún er virkilega ánægjuleg og eru mikil sóknartækifæri þar. Vissulega er það nú þannig að þegar við erum að tala um matvælastefnu og landbúnaðarstefnu þá blandast þetta aðeins saman hjá okkur.

Ég ætla að koma hér inn á hluti sem snúa að upprunamerkingum eða -vottun. Þeim ber að fagna sérstaklega, t.d. fréttunum sem við fengum nú í vikunni sem snúa að íslenska lambinu og sá sem hér stendur þekkir nú svo sem þann aðdraganda nokkuð vel. Það er svona eitt skref í því að koma réttum og góðum upplýsingum til neytenda. Það er líka mjög mikilvægt að vernda afurðaheiti. Við erum með ákveðið regluverk í kringum merkingar á matvælum en því miður er því einhvern veginn ekki framfylgt af fullum þunga og því miður á sér stað ákveðinn blekkingarleikur, leyfi ég mér að segja, þegar kemur að merkingu matvæla. Við sjáum það mjög vel ef við förum í búðir, sérstaklega þegar kemur að nautakjötinu, að það hefur kannski verið þannig í einhver misseri að eingöngu íslenskt nautakjöt hafi t.d. verið í hamborgurum — við þurfum ekki að nefna einhver vörumerki — en síðan kemur að því að það er kannski ekki fáanlegt lengur á innlendum markaði og er þá flutt inn, jafnvel er sett í þetta þýskt nautakjöt, og neytandinn er ekki upplýstur um breytinguna. Kannski eru einhverjir litlir stafir aftan á pakkningunni sem segja til um upprunalandið, en því miður er verið að blekkja neytandann varðandi upprunann. Það er þannig og hefur verið reynt, að þegar menn merkja vöru t.d. með erlendum þjóðfána þá minnkar salan, versus það þegar sama vörumerki var undir íslenskum fána. Því er þetta gríðarlega mikilvægt verkefni og komið er inn á þennan þátt í matvælastefnunni.

Eitt atriði sem ég ætlaði líka að koma inn á snýr að fæðuöryggi þjóðarinnar og hef ég haft mikinn áhuga á að fjalla um það undanfarin ár. Komið er vel inn á það í þessari stefnu og stefnan sjálf finnst mér fara mjög vel yfir allt sem snýr að því og snertir mjög marga fleti. Það verður vissulega krefjandi fyrir atvinnuveganefnd að fara inn á þessa braut, því ég myndi telja að snertiflöturinn væri einfaldari varðandi landbúnaðarstefnuna, en þegar kemur að matvælastefnu þá erum við að tala um allt aðra hluti sem við höfum ekkert mikið verið að velta fyrir okkur undanfarið eða yfir höfuð.

Við tókum þessa umræðu nokkuð þétt á sínum tíma, á 149. löggjafarþingi, varðandi þá aðgerðaáætlun sem var samþykkt þá. En í þessari stefnu hér er farið enn víðar yfir þetta, rannsóknir eru sömuleiðis teknar með, sem er mjög gott, og horft er til sjálfbærni í matvælaframleiðslu og ekki síst þarfa neytenda og hvernig við uppfyllum þær. Við þurfum alltaf að horfa til þess að neytandinn sé upplýstur. Vissulega eru einhverjar frumþarfir sem þarf að uppfylla, en upplýsingagjöf og upplýstur neytandi er öllum fyrir bestu þegar verið er að fjalla um matvælaframleiðsluna í heild sinni, sérstaklega í ljósi þess, svo að við tengjum þessa umræðu við umræðuna um landbúnaðarstefnuna, að þegar við horfum til framtíðar hvað varðar innlenda matvælaframleiðslu þá kemur matvælaöryggi svo gríðarlega sterkt inn. Þetta er það sem íslenskir neytendur þekkja og hið sama á við um fjölmarga neytendur erlendis frá. Við þekkjum öll verkefni sem snýr að markaðssetningu á lambakjöti gagnvart erlendum ferðamönnum. Ég sé alveg fyrir mér hvað gerist þegar við fylgjum þessari upprunavottun frekar úr hlaði og þeirri verndun á afurðaheitum sem núna er komin, því að þarna liggja upplýsingarnar fyrir. Neytandi getur farið inn á einhverja heimasíðu, flett upp upplýsingum um vöruna og þannig eigum við að hafa þetta. Neytandinn á alltaf að vera upplýstur um það sem hann er að kaupa, því að heilt yfir velur neytandinn vöru úr sínu nærumhverfi ef hún er til staðar, þótt hún sé aðeins dýrari.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra og vil þakka hæstv. matvælaráðherra fyrir að koma fram með þessar tvær stefnur, landbúnaðarstefnu og matvælastefnu, og verður það krefjandi og gefandi verkefni fyrir okkur í atvinnuveganefnd að takast á við þær og fylgja þeim eftir.



[16:00]
Haraldur Benediktsson (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég vil sömuleiðis þakka hæstv. matvælaráðherra fyrir framlagningu þingsályktunartillögu um matvælastefnu hér á Íslandi og að sama skapi, rétt eins og með þann dagskrárlið sem var hér á undan, vil ég fagna sérstaklega framlagningu hennar.

Ég vil reyndar nálgast mitt innlegg í þessa umræðu út frá því sem ég myndi hvetja nefndina til að láta sig varða. Það eru kannski ekkert mjög flóknir eða margir þættir. Fyrst vil ég bara segja um matvælastefnuna að við þurfum ekki síst að ræða matvælastefnu út frá því að hún er bara risastórt lýðheilsumál, nálgast hana hreinlega nánast sem heilbrigðismál, liggur mér við að segja. Það er ekkert óskaplega langt síðan við sem töluðum fyrir fæðuöryggi og matvælaöryggi vorum pínulítið sproksett. Það var ekki fyrr en Karl G. Kristinsson prófessor bætist í hóp þeirra sem láta sig þessi mál varða — t.d. varðandi sýklalyfjaónæmi, ónæmar bakteríur, sem hv. þingmaður nefndi í sinni ræðu hér á undan — þegar við fjölluðum sérstaklega um það í þinginu að augu fólks opnast fyrir því að það skiptir ofboðslega miklu máli í hvaða umhverfi við erum að framleiða matinn og hvaða aðferðum við beitum til þess. Alveg frá þeim tíma að við þurfum að gefa því gaum hvað t.d. sýklalyfjanotkun í matvælaframleiðslu eða landbúnaði getur haft mikil áhrif á kostnað í heilbrigðiskerfinu hefur sá snjóbolti umræðunnar raunverulega bara stækkað. Og nú eru fleiri þættir að koma inn með vaxandi þunga. Þess vegna myndi ég segja: Matvælastefna á ekki síst, af því að við nefndum það áðan í umræðu um landbúnaðarstefnu, að tala við aðrar stefnur og í þessu tilfelli lýðheilsumál og heilbrigðisstefnu. Mig myndi langa til að hv. atvinnuveganefnd spreytti sig á að setja þá umræðu svolítið í samhengi.

Síðan aðeins um matvælaiðnaðinn. Ein stærsta iðngrein á Íslandi er matvælaiðnaður og hún er af alls konar gerðum eða hefur alls konar birtingarmyndir þar sem verið er að vinna úr matvælum. Hvort sem við flytjum hráefnin inn — þau eru nú aðallega framleidd hér á landi — þá vil ég horfa á stöðu íslensks matvælaiðnaðar og þá þekkingu sem hann þarf að byggja á; menntun starfsfólksins sem hann þarf að treysta á, sem er ágætlega tíundað í þessari þingsályktunartillögu, t.d. bara framboð af fagmenntuðu fólki í fisk og kjöti og öðrum framleiðslugreinum, ekki síður en bara bakarar og aðrir sem matvælaiðnaður þarf á að halda. Ég held að það sé vel gert, eins og tæpt er á í framlögðu skjali, að ræða svolítið um menntun á þessu stigi.

Ég vil síðan einfalda myndina með því að segja: Við eigum hérna, og ég held að við deilum ekki um það, framúrskarandi iðnað í fiski, sem sagt fiskvinnsluiðnað. Hann hefur verið öðrum atvinnugreinum á Íslandi fremri í því að leiða nýsköpunarstarf í landinu. Það er ofboðsleg nýsköpun og gróska í úrvinnslu fisksins. En síðan horfum við til landbúnaðarins í þeim efnum og þá erum við bara allt í einu dottin aftur fyrir 1980 vil ég segja. Ég ætla þó að gera þá undantekningu að þar hefur mjólkuriðnaðurinn verið á betri stað heldur en ég vil svona almennt dæma kjötiðnaðinn. En auðvitað er óeðlilegt að alhæfa með þessum hætti því að margar kjötvinnslur eru faglega sterkar. Frábær vara, ég ætla ekki að gera lítið úr því. Meginmálið er þetta: Mjólkuriðnaðurinn hefur haft ákveðið umhverfi til að þróast og þess vegna verið gefið súrefni til að takast á við að innleiða tækninýjungar og jafnvel sinna nýsköpun. En horfandi utan frá á mjólkuriðnaðinn vil ég segja að ég held að hann sé pínu að dragast aftur úr sambærilegum iðnaði í öðrum löndum. Varðandi kjötiðnaðinn sem slíkan verð ég bara að segja að ef við ætlum að láta markmiðin okkar framkallast í þessari matvælastefnu þá verðum við að taka mjög alvarlega umræðu um það í atvinnuveganefndinni í það minnsta eða láta endurspeglast í aðgerðum okkar, sem við byggjum síðan á í matvælastefnu og landbúnaðarstefnunni, hvernig við ætlum að koma fótunum undir sömu sóknarfæri í kjötgreinunum eins og fiskurinn býr við. Það verður verðugt verkefni.

Í þriðja lagi vil ég nefna rannsóknir. Af því að tæpt er á því í tillögunni, aðeins fjallað um rannsóknir, þá ætla ég að nefna mikilvægi t.d. hafrannsókna. Kannski er ég farinn að hljóma eins og biluð plata, ég held að ég haldi nánast ekki ræðu án þess að tala um mikilvægi hafrannsókna. Ég vil nálgast þetta ekki síst út frá íslenskum fiskiskipum — og þetta kom vel fram í samantekt Auðlindarinnar okkar. Ég vil þakka sérstaklega fyrir þann punkt sem þar er dreginn fram, hvernig við getum virkjað betur saman þessar hefðbundnu hafrannsóknir okkar, Hafrannsóknastofnun og síðan öll þau gögn og gagnagrunna sem okkar fiskiskip búa yfir. Þegar við tölum um rannsóknir í tengslum við matvælastefnu þá sé ég óskapleg sóknarfæri í því að við finnum okkur leið til að þræða þessa þætti betur saman, þ.e. þá sem eru úti á hafinu, þekkja hafið, leita að fiski, og þá sem eru síðan að mæla nytjastofna okkar og reyna að búa til okkar ráðgjöf. Og þá til viðbótar, hvort sem það er á hafi eða landi eða lofti, þurfum við að endurskoða og rýna betur stefnu okkar, hvernig við erum að mæla og meta ýmsa umhverfisþætti. Það getur skipt gríðarlegu máli ef við viljum ræða um framtíð matvæla og matvælastefnu og síðan heilnæmi matvæla til lengri tíma.

Bara að lokum um kornræktina þá vil ég, eins og ræðumaður hér á undan, hv. þm. Þórarinn Ingi Pétursson, segja að hún standi á ákveðnum tímamótum með tillögum hæstv. matvælaráðherra sem eru nú m.a. birtar í fjármálaáætlun og taka kannski undir það með þeim hætti að segja að við værum ekki að ræða um að efla kornrækt á Íslandi í dag ef við hefðum ekki haft öflugar rannsóknir og kynbætur í kornrækt. Ef ég á að finna eitthvað að ágætri skýrslu um kornrækt sem kom út — maður getur náttúrlega alltaf verið í einhverjum aðfinnslum út og suður — þá skulum við ekki gleyma þeim þætti að í gegnum árin og á árunum 1990–2010 var gríðarlega öflugt kynbótastarf og rannsóknarstarf í jarðrækt og tilraunir í kornrækt sem grundvallar að það sé orðið raunhæft að efla kornrækt sem búgrein á Íslandi sem hefur ekki verið í mjög langan tíma. Áður var kornrækt allnokkur á Íslandi og vísa ég nú til nafns á ákveðnu sveitarfélagi í þeim efnum, Akranesi, sem endurspeglar í raun og veru það að hér voru áður akrar og kornrækt allumsvifamikil. Þá bjuggum við reyndar við annað veðurfar og annað loftslag sem síðan er að koma og er aftur að færa okkur þessi tækifæri.

Ég er bara að reyna að ná utan um það að við þurfum í umræðu um matvælastefnu að huga sérstaklega að rannsóknum á öllum sviðum og eflingu rannsókna. Ég fagna sérstaklega áherslu á kynbótaverkefni í jarðræktinni því að þau eru í raun og veru lykillinn að því að við komumst áfram. Við höfum verið að efla samkeppnissjóði og ég hef gagnrýnt það áður í ræðum hér á Alþingi að vöktun umhverfisþátta og síðan rannsóknir sem eru kannski forsenda nýsköpunar og sóknar eru svolítið sitthvor hluturinn. Það þarf þolinmótt langtímafjármagn til að stunda langtímagrunnrannsóknir. Við höfum lagt áherslu á að setja fjármagn í samkeppnissjóði sem eru einhvers konar sprettátaksverkefni. Ég held að farsæld okkar í að framkalla þessa matvælastefnu byggi ekki síst á því að við finnum eitthvert jafnvægi í því að fjármagna rannsóknir á milli þess að horfa til langs tíma og skemmri tíma. Auðvitað eru átakspeningarnir, eða peningarnir sem hugsaðir eru til samkeppninnar, að gera óskaplega stóra hluti en þá megum við aldrei gleyma grunninum sem við byggjum á.

En í öllum aðalatriðum held ég að það sé alveg tímabært að við ræðum matvælastefnu og samþykkjum hana og gerum hana þannig úr garði héðan frá Alþingi en við verðum líka að muna hvað stendur á bak við slíka matvælastefnu. Það eru fyrst og fremst rannsóknir, þekking, menntun og slíkir þættir.

Að svo komnu máli þá ætla ég bara að leggja áherslu á það meðan ég sit í hv. atvinnuveganefnd að við látum umfjöllun um þessar tvær stefnur nokkurn veginn fylgjast að. Þær eru í eðli sínu aðskildar en eru mjög háðar hvor annarri í allri umræðu og framkvæmd.



[16:09]
matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég ætla að þakka hv. þingmönnum fyrir góða umræðu. Mig langar kannski bara að bregðast við nokkrum atriðum sem komu fram í máli þeirra sem tóku þátt í umræðunni. Í fyrsta lagi þetta með að tengja saman stefnur. Hv. þm. Haraldur Benediktsson talaði hér sérstaklega um samþættingu matvælastefnu og lýðheilsu. Í greinargerðinni með tillögunni segir sérstaklega, með leyfi forseta:

„Góðir framleiðsluhættir eru lykilatriði í að tryggja matvælaöryggi og heilnæma matvælaframleiðslu. Matvælaöryggi er sannreynt með öflugu eftirliti og vöktun. Einnig þarf að tryggja að framleiðsluhættir séu samkvæmt hugmyndafræði „einnar heilsu“, þar sem horft er til þess að heilbrigði og velferð manna og dýra sé samtengt. Þetta helst í hendur við það mikilvæga verkefni að lágmarka sýklalyfjaónæmi baktería í umhverfi og matvælum hérlendis.“

Þetta er mjög mikilvægur punktur og verður alls ekki rofið í sundur eða aðskilið.

Í öðru lagi varðandi ábendingar hv. þingmanns um sögu kynbótajarðræktar og þekkingaröflun og rannsóknir á sviði kornræktar og þau sjónarmið sem koma fram í skýrslunni um bleika akra, þar er sannarlega mikilvægt að halda sögunni til haga og það gleður mig mjög að hv. þingmaður hefur greinilega skýrsluna á náttborðinu þannig að honum er skýrslan mjög hugleikin. Hún er mjög góð vegna þess að hún fjallar bæði um sóknarfærin í þessu en fer líka á dýptina, í hagræn áhrif og í raun og veru möguleika Íslands á því að, eins og hv. þingmaður orðar það, hefja bara dálítið nýjan kafla í því hvernig við sjáum íslenskan landbúnað vera part af þessu fæðuöryggi og hringrásarhagkerfi hér með því að draga þar með úr kolefnisspori og auka möguleika á nýliðun og öflugri framtíðarsýn í landbúnaði almennt. Og mikið á ég eftir að sakna hv. þingmanns héðan úr þingsal vegna þess að við erum svo sammála og höfum svo iðulega rætt um mikilvægi grunnrannsókna og vöktunar og auðvitað líka háskólanna í því að vera alltaf á vaktinni og undirbyggja og, ef við getum sagt það því að það hentar umræðuefninu, virðulegur forseti, plægja þann jarðveg sem síðan nærir sprotana sem síðan sækja um í samkeppnissjóði. Ef jarðvegurinn er ekki fyrir hendi, ef vöktunin, grunnrannsóknirnar o.s.frv. eru ekki fyrir hendi og þennan grunn skortir þá er náttúrlega ekki til mikils að fá nýjar hugmyndir. Þarna erum við auðvitað með grunnstofnanir okkar og ég vil þá kannski sérstaklega nefna annars vegar Hafrannsóknastofnun, sem við hv. þingmaður höfum rætt nokkrum sinnum, bæði hér og í nefndum þingsins, en ég vil líka nefna Veðurstofu Íslands og Náttúrufræðistofnun því að þetta eru stofnanir sem eru að vakta hlutina frá einum degi til annars, frá einum mánuði til annars o.s.frv. og eru við skjáinn þegar síðan eitthvað gerist. Mögulega snýst þetta um náttúruvá, mögulega snýst þetta um að safna grunngögnum til að hafa grunnlínu til að bera saman við vegna breytinga á loftslagi, breytinga á veðurfari o.s.frv. milli eins tímabils og annars. Þannig að ég tek undir það hversu mikilvægt það er og ég er sérstaklega ánægð með að það hefur verið vaxandi skilningur á þessu þvert á pólitískar línur hér og þess sést stað líka í fjármálaáætlun að þarna þurfum við að leggja meiri áherslu á sérstaklega hafrannsóknir.

Ég vil að lokum í þessari umræðu, líkt og ég gerði í umræðunni um landbúnaðarstefnuna, undirstrika mikilvægi þess að matvælastefna fái þinglega meðferð. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir samfélag sem vill vera í fremstu röð í matvælaframleiðslu og hefur ótrúlega sterka stöðu í því að sækja fram í samfélagi þjóðanna. Hvort sem það er vegna þess að við höfum einstakt aðgengi að hreinu og góðu vatni, umhverfisvænum orkukostum, miklum landgæðum, þá höfum við tækifæri til að vera í fremstu röð ef við stillum kompásinn eða fókusinn eftir atvikum nægilega vel varðandi mannauðinn, menntunina, rannsóknirnar o.s.frv. og stillum þessa strengi alla saman vegna þess að fámennt samfélag þarf að nýta mannauðinn vel. Við eigum að gera sem minnst af því að gera sömu hlutina oft. Með því að búa til matvælastefnu erum við að búa til sameiginlegan kompás fyrir þessar frumframleiðslugreinar okkar og sýnina sem við viljum leggja til grundvallar, að geta þar með verið í fremstu röð og þar sem íslensk matvælaframleiðsla á að vera.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til atvinnuvn.