153. löggjafarþing — 94. fundur
 17. apríl 2023.
niðurskurður fjár vegna riðu.

[15:26]
Bergþór Ólason (M):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Eins og komið hefur fram í fréttum þá hefur komið upp riða á tveimur sauðfjárbúum í Miðfirði nú á síðustu vikum. Þetta er auðvitað gríðarlegt áfall fyrir þá bændur sem fyrir verða og í sjálfu sér fyrir svæðið allt, sem þetta hefur áhrif á til töluverðs langs tíma. Viðbrögð við því þegar riða kemur upp eru, eins og við þekkjum, að fé er skorið niður, ákveðið hreinsunarstarf unnið, biðtími og þar fram eftir götunum. Síðan eru íþyngjandi hömlur sem munu eiga við um allt sauðfé í Miðfjarðarsveit næstu tvo áratugina. Frá aldamótum hafa að jafnaði komið upp tvö riðutilfelli á ári en á sama tíma hefur reglulega verið uppi umræða um það hversu illa gangi á köflum að viðhalda girðingum og sauðfjárveikivarnarlínum og að þeim verkefnum sé ekki sinnt með forsvaranlegum hætti.

Nú hafa bændur í Húnaþingi vestra sent matvælaráðherra ályktun þar sem óskað er eftir öðrum lausnum en þeim sem viðhafðar hafa verið. Bændur þar vilja m.a. sjá sambærilega viðauka við reglugerð hérlendis og er í Evrópusambandsreglugerð sem veitir undanþágur gegn niðurskurði alls fjár, skoða tækifærin sem gætu falist í því að einangra hólf þar sem smit hefur greinst og fleira slíkt.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvernig þessi mál horfi við henni núna, hver fyrstu viðbrögð séu við þessari málaleitan bænda í Miðfirði og í Húnaþingi vestra og hvort einhverra sérstakra ákvarðana sé að vænta hvað riðu almennt varðar frá hæstv. ráðherra eða ríkisstjórninni í fyrirsjáanlegri framtíð. Þetta er auðvitað saga sem kemur upp reglulega og alltaf er staðan jafn ömurleg og við verðum vitni að nú.



[15:28]
matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Svo að ég víki í fyrsta lagi að kröfu sauðfjárbænda sem mér barst í dag, um að innleiða þennan hluta reglugerðar ESB og falla frá niðurskurði í hólfinu, þá er þetta í raun og veru vísindaleg spurning. Ég fylgi ráðleggingum sérfræðinga í þessum efnum og samkvæmt lögum þá ber yfirdýralæknir faglega ábyrgð á sjúkdómavörnum í búfé og gerir svo tillögu til mín, til að mynda um að fyrirskipa niðurskurð þegar riða greinist í síðustu viku. Það er unnið að endurskoðun riðureglugerðar í ráðuneytinu þar sem er horft til þess hvernig hægt væri að hagnýta ræktun til að draga úr líkum á að riðusmit komi upp í ljósi þess að núna vitum við að ARR-arfgerðin fannst í íslensku sauðfé. Þarna er ýmsum vísindalegum spurningum ósvarað og ég veit til þess að yfirdýralæknir hefur nú um helgina leitað til Landbúnaðarháskólans til að fara yfir álitaefni sem varða það hvernig hægt væri að beita ræktun til að vinna gegn þessum sjúkdómi. Þá eru auðvitað ýmis praktísk úrlausnarefni, en í reglum ESB er kveðið mjög skýrt á um aðskilnað hjarða sem greinst hefur riða í á tímabili þar sem byggð er upp hjörð með mótstöðu gegn riðu o.s.frv. Þetta þarf að skoðast í því samhengi sem sauðfjárrækt er stunduð á Íslandi.

Þetta eru allt saman spurningar sem verðugt er að skoða, en núna stendur það yfir að Umhverfisstofnun er að funda með sveitarfélaginu varðandi lausnir á förgun til að unnt sé að fullnusta þann niðurskurð sem fyrirskipaður hefur verið. En mikilvægast af öllu er að þetta er hryllilegt áfall fyrir bændur í Miðfirði og hugur minn er hjá þeim á þessum þungbæru tímum.



[15:30]
Bergþór Ólason (M):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Hæstv. ráðherra fór yfir það að verið væri að skoða eitt og annað á vegum stjórnvalda og m.a. hina verndandi arfgerð sem hefur sem betur fer fundist og tekst vonandi að styðja við að hún breiðist út eins hratt og mögulegt er. En mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sé tilbúin til að hafa frumkvæði að því að vísindin, þær stofnanir sem til þess eru bærar, taki afstöðu núna — ég ímynda mér að það hafi verið gert á einhverjum tímapunkti í fortíðinni — og endurskoði það hvort til greina komi að nálgast mál með þeim hætti að heildarniðurskurður verði ekki eina lausnin sem bændur standa frammi fyrir. Eins og við þekkjum þá hefur þeim samningum sem gerðir hafa verið við bændur sem hafa orðið fyrir því að þurfa að skera niður vegna riðu verið líkt við starfslokasamninga.



[15:32]
matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Eins og kom fram í mínu fyrra svari þá hefur yfirdýralækni farið þess á leit við Landbúnaðarháskólann að taka saman greinargerð, og gera það hratt, um þessi helstu faglegu álitaefni sem snúa að nýtingu verndandi arfgerða sem verkfæri í baráttunni gegn riðuveiki. Það erindi fór frá yfirdýralækni núna um helgina, og þar með talið með hvaða hætti sé hægt að skipuleggja ræktunarstarf með markvissum hætti til þess að fjölga tíðni verndandi arfgerða og til hvaða þátta þurfi að horfa í þeim efnum. Ég vil undirstrika það að líkt og fyrr þegar við höfum þurft að glíma við stórar vísindalegar spurningar hér á vettvangi stjórnmálanna og stjórnvalda þá skiptir mjög miklu máli að byggja ákvarðanir á bestu mögulegu þekkingu á hverjum tíma. Við eigum frábært fólk sem er að leiða þá vinnu, hvort sem er á Matvælastofnun eða í Landbúnaðarháskólanum, og ég get fullvissað hv. þingmann um að þetta fólk er núna að snúa bökum saman í því skyni að þetta megi fara sem allra best.