153. löggjafarþing — 94. fundur
 17. apríl 2023.
ríkisfjármálaáætlun.

[15:48]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Mig langaði til að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra út í fjármálaáætlun. Það er ekki bara Viðreisn sem hefur lýst yfir áhyggjum af henni og afleiðingum hennar fyrir heimilin í landinu. Við höfum saknað þess að þar séu kynnt raunveruleg áform um að taka til í ríkisrekstrinum og draga þannig úr útgjöldum til að vinna á verðbólgu og við höfum lýst eftir aðgerðum sem munu hjálpa til við að ná niður verðbólgu og vöxtum á húsnæðislánum fólksins í landinu.

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hefur talað um að fjármálaráðherra vilji hreinlega ekki taka raunverulegar ákvarðanir um aðhald sem er nauðsynlegt til að ná niður verðbólgu og talar líka um að ríkisfjármálin verði ekki löguð með því að einblína bara á tekjuhliðina. Félag atvinnurekenda hefur sagt að það hefði mátt ganga mun lengra í hagræðingarskyni. Fjármálaráðið hefur talað um að þörf sé á meiri festu í ríkisfjármálunum og að nýta hefði átt ófyrirséðan tekjuauka ríkisins núna til að bæta afkomu ríkissjóðs í stað þess að auka útgjöld. ASÍ bendir á að það sé of lítið gert til að verja heimilin og það finnst mér vera kjarni málsins. Þetta snýst um heimilin í landinu.

Það er verið að lýsa eftir aðhaldi og aðgerðum vegna þess að það eru mikilvæg verkfæri til að ná niður verðbólgu og vöxtum af húsnæðislánum. Fjármálaáætlunin sjálf talar mikið um að minni halli dragi úr þörf Seðlabankans til að hækka stýrivexti, en samt stígur fjármálaráðherra ekki þau skref sem þarf. Því vildi ég spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvaða augum hún lítur þessa gagnrýni á fjármálaráðherra, sem kemur núna nánast úr öllum áttum. Hefur hún skýringar á því hvers vegna fjármálaráðherra ætlar á tímum verðbólgu og svimandi hárra vaxta að halda áfram að auka ríkisútgjöld og skuldir ríkissjóðs? Hvaða augum lítur hún þessa þungu gagnrýni?



[15:50]
menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur fyrir góða fyrirspurn um ríkisfjármálaáætlun. Ég vil fyrst nefna að það var mjög ánægjulegt þegar við sáum að ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa lækkaði mjög hratt nokkrum dögum eftir að ríkisfjármálaáætlun fjármála- og efnahagsráðherra var kynnt, sem gefur auðvitað til kynna að markaðsaðilar hafi trú á því að innlegg hennar sé til þess fallið að aðstoða Seðlabanka Íslands við að ná tökum á verðbólgunni. Þar sáum við því strax jákvæð teikn á lofti.

Í annan stað vil ég nefna að það er auðvitað aðhaldskrafa, þessi klassísku 2%, á öll ráðuneyti. Ég get t.d. sagt það fyrir þá málaflokka sem ég ber ábyrgð á að umfang þeirra er að lækka allt þetta kjörtímabil miðað við ríkisfjármálaáætlun þannig að við þurfum að ráðast í aðgerðir til að koma til móts við það.

Í þriðja lagi er það hárrétt hjá hv. þingmanni að það er auðvitað gríðarlega mikilvægt að samspil peningastefnu og ríkisfjármálastefnu sé mjög þétt og trúverðugt til að ná niður verðbólgunni. Við munum alla vega gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að stuðla að því að svo sé. Ég skil vel þá gagnrýni sem er uppi vegna þess að við höfum ekki séð svona háar verðbólgutölur í langan tíma. En þess ber þó að geta að ávöxtunarkrafan lækkaði strax sem var mjög jákvætt og kemur þá einnig inn í verðbólguvæntingar.



[15:52]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið. Mér fannst nú upptakturinn vera eitthvað á þá leið að þetta væri misskilningur hjá öllum þessum aðilum sem ég taldi upp; fjármálaráði, Samtökum atvinnulífsins, Viðskiptaráði, Félagi atvinnurekenda og ASÍ. En svo heyri ég að hæstv. ráðherra segist skilja þessa gagnrýni og ég verð að fagna því, því að það er mikið áhyggjuefni hversu þung aldan er, hversu þung gagnrýnin er og að hún komi úr öllum áttum. Ef allir þessir aðilar eru ekki að misskilja þá er í reynd verið segja að ekki verði tekið á verðbólgu. Það þýðir að heimilin munu áfram finna fyrir háu verðlagi á matarkörfu, áfram finna fyrir afleiðingum verðbólgunnar á húsnæðislán o.s.frv.

Mig langaði líka til að spyrja hæstv. ráðherra út í vaxtakjörin hjá ríkissjóði. Heimilin þekkja það að þau hafa mikið um afkomuna að segja. Við erum allt að því Evrópumeistarar í þeim efnum. Telur hún að vaxtahlutfall Íslands og vaxtakjörin séu ásættanleg? (Forseti hringir.) Hverjar eru skýringar hæstv. ráðherra á því að vaxtakjör íslenska ríkisins séu ekki betri en raun ber vitni? (Forseti hringir.) Er þetta afleiðing hrunsins? Snýst þetta um orðspor? Hefur gjaldmiðillinn eitthvað að segja?



[15:54]
menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Það myndi ekki hvarfla að mér að segja að þeir umsagnaraðilar eða að öll þessi gagnrýni væri byggð á einhverjum misskilningi. Hins vegar er það svo að ef við lítum á kenningar um ríkisfjármál og verðlag þá ganga þær hreinlega út á það að ef væntingar markaðsaðila eru til þess að viðkomandi ríkissjóður sé í þeirri stöðu að geta tekið með markvissum hætti á ríkisfjármálunum þá lækkar ávöxtunarkrafan. Við sáum að það gerðist á markaði og ég vil halda því til haga. Varðandi vaxtakjör ríkissjóðs Íslands þá tel ég að þau ættu að vera lægri. Það eru nokkrar ástæður fyrir því. Skuldir ríkissjóðs Íslands eru ekki miklar í alþjóðlegum samanburði. Atvinnustig á Íslandi er mjög hátt. Við erum mjög sjálfbært hagkerfi. Við verðum með afgang, tel ég, á viðskiptajöfnuðinum og allir þessir þættir (Forseti hringir.) ættu að leiða til þess að vaxtakjörin ættu að lækka og ég vonast til þess að við sjáum það núna á næstu mánuðum.