153. löggjafarþing — 94. fundur
 17. apríl 2023.
verkefnastyrkir til umhverfismála.

[15:56]
Orri Páll Jóhannsson (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hafa frjáls félagasamtök á sviði útivistar, náttúru og umhverfisverndar getað sótt styrki til ráðuneytis umhverfismála, annars vegar rekstrarstyrki og hins vegar verkefnastyrki. Hægt hefur verið að sækja um styrki til rekstrar frjálsra félagasamtaka á málefnasviði ráðuneytisins undanfarin rúm 20 ár, en sérstökum verkefnastyrkjapotti var komið á fyrir ríflega tíu árum. Framan af voru upphæðirnar sem til var að dreifa lágar, hlupu á hundruðum þúsunda eða örfáum milljónum í tilfelli einstakra félaga eða verkefna.

Frjáls félagasamtök á sviði útivistar, náttúru og umhverfisverndar eru mikilvæg í lýðræðislegri umræðu. Mikilvægi þessara styrkjapotta má e.t.v. draga fram með tvennum hætti, annars vegar styður þetta við ákvæði Árósasáttmálans, sem kveður á um þátttöku almennings og annarra hagsmunaaðila í ákvörðunum og undirbúningi stefnumiða er snúa að umhverfismálum, og hins vegar er þessi stuðningur hins opinbera mikilvægur til að jafna aðstöðumun þeirra sem eru málsvarar útivistar, náttúru og umhverfisverndar og þeirra sem hafa sértæka hagsmuni að leiðarljósi við margháttaða nýtingu náttúrunnar. Það hefur verið á það bent að hver opinber króna sem lögð er til frjálsra félagasamtaka margfaldist. Þarna er því fjármagninu vel varið.

Í stjórnarsáttmála síðustu ríkisstjórnar frá árinu 2017 sagði, með leyfi forseta:

„Frjáls félagasamtök gegna lykilhlutverki á fjölbreyttum málasviðum sem mikilvægt er að styðja við. Þar má meðal annars nefna jafnréttismál, íþrótta- og æskulýðsmál, umhverfis- og náttúruvernd, geðheilbrigði og málefni hinsegin fólks.“

Á grundvelli þessarar klausu voru rekstrar- og verkefnastyrkjapottarnir í þáverandi umhverfis- og auðlindaráðuneyti auknir verulega eða í ríflega 100 millj. kr. árlega.

Mig langar því að spyrja hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hvort úthlutað hafi verið úr þessum pottum á yfirstandandi almanaksári og hvort hæstv. ráðherra áformi að auka enn við þá potta sem umrædd frjáls félagasamtök geti sótt um styrki í.



[15:58]
umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Varðandi spurninguna um hvort það hefði verið útdeilt þá hefur verið útdeilt þegar kemur að rekstrarstyrkjunum. Hins vegar held ég að það sé mjög mikilvægt að við ræðum þessi mál og gætum þess að það sé gagnsæi og samræmi milli ráðuneyta og sömuleiðis að frjálsu félagasamtökin hafi einhvern fyrirsjáanleika þegar kemur að þessu. Það skiptir held ég mjög miklu máli að reglurnar séu þannig að þær séu skiljanlegar og eins hlutlægar og hægt er og þess vegna auglýstum við það síðast að við vildum skoða breytingar á þessu. Það er hins vegar auðveldara um að tala en í að komast. Þeir hafa náttúrlega hækkað mjög mikið. Við munum eftir því þegar þetta var mest á hendi fjárlaganefndar, þá voru styrkveitingar þar gagnrýndar mjög og m.a. var talað um að mikill tími hefði farið í þetta hjá nefndinni og mörgum fannst þetta ekki vera nógu fyrirsjáanlegt. Við lögðum því upp með markmiðið að einfalda styrkjaumhverfi og draga úr umsýslu og vinnu hjá starfsfólki ráðuneytisins og stofnana vegna þess að það er gríðarlega mikil vinna þar, sérstaklega þegar kemur að verkefnastyrkjunum. Einnig að jafna vægi milli áherslumála og auka fagmennsku og ávinning af ráðstöfun fjármuna, auka fagmennsku við mat á umsóknum og eftirfylgni með verkefnum og sömuleiðis að styðja betur við markmið stjórnvalda og bæta árangur í ráðstöfun fjármuna. Ég held að fyrirsjáanleiki, sem við tilgreindum, sé líka mikilvægur.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta upp hér því að ég held að það sé líka mjög mikilvægt að hv. fjárlaganefnd og hv. umhverfis- og samgöngunefnd skoði þetta og sjái hvernig þetta hefur þróast á undanförnum árum. Þetta eru auðvitað miklir fjármunir og mikilvægt að styrkja frjáls félagasamtök eins og hv. þingmaður vísaði til og færði góð rök fyrir. (Forseti hringir.) En það skiptir líka máli að þetta sé þannig að það sé bæði gagnsæi í þessu (Forseti hringir.) og að reglurnar séu eins hlutlægar og hægt er.



[16:00]
Orri Páll Jóhannsson (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég fagna því að heyra að búið sé að útdeila úr rekstrarstyrkjahlutanum en þá skil ég það líka með sama hætti að það sé ófrágengið með verkefnastyrkina. Ég tek undir það sem hæstv. ráðherra segir, að það er mjög mikilvægt að þetta sé gagnsætt, og ég held að það hafi verið mikið heillaspor að flytja þetta úr því formi sem það var í hjá fjárlaganefnd af því að þetta, að ég held, ætti að tryggja meiri samlegð og samræmingu. En þá langar mig kannski í seinna andsvari að spyrja ráðherrann þegar hann talar um aukinn fyrirsjáanleika og að stilla þessa hluti betur saman á milli ráðuneyta Stjórnarráðsins hvort hann geti í örstuttu máli útskýrt fyrir mér eða greint frá því hvernig hann sjái það fyrir sér.



[16:01]
umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Ég þakka aftur hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Í mínum draumaheimi þá myndi ég vilja að frjálsu félagasamtökin gætu gengið að, að því gefnu að þau uppfylli ákveðin hlutlæg skilyrði, ákveðinni styrkveitingu. Auðvitað væri það misjafnt eftir því hver potturinn væri, alla vega hlutfallslega, og í það minnsta helst að það væri einhver grunnur þannig að það væri langtímasamningur svo að félagasamtökin hefðu einhvern fyrirsjáanleika í sínum rekstri og gætu sinnt því sem þau vilja sinna. Það er hins vegar auðveldara um að tala en í að komast að tala um hlutlæga mælikvarða. Síðan er það líka þannig, og það er ekkert leyndarmál, að það tekur alveg gríðarlega mikinn tíma og mannafla hjá ráðuneytunum að sinna verkefnastyrkjum og ég er bara með mjög fámennt ráðuneyti sem er með næg verkefni og það er mikilvægt að svona fyrirkomulag sé skilvirkt. En ég tel líka mikilvægt að hv. þingmenn í viðkomandi þingnefndum kalli eftir þessum upplýsingum og fái kynningu á þessu (Forseti hringir.) og ég tel mikilvægt að það sé samræmi á milli ráðuneyta. Og þarna held ég að gagnsæið sé lykilorð.