153. löggjafarþing — 94. fundur
 17. apríl 2023.
um fundarstjórn.

staða fjölmiðla á Íslandi.

[22:58]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég skal ekki vera langorður. Ég vildi bara vekja athygli hæstv. forseta á því sem birtist hér og er áminning um augljóst mikilvægi þess að Alþingi ræði sérstaklega stöðu fjölmiðla á Íslandi. Ég hvet hæstv. forseta til að liðka fyrir því. Spurningarnar eru margar, miklu fleiri en ég hafði tök á að koma að hér áðan. Nú er meira að segja hæstv. ráðherra málaflokksins að saka einn tiltekinn fjölmiðil um falsfréttir, fjölmiðil sem þiggur styrki frá hæstv. ráðherra. Það er bara nýjasta dæmið um það sem við er að eiga á þessu erfiða sviði og hversu erfitt það getur verið þegar pólitíkin fer að skipta sér af fréttaflutningi fjölmiðla.



[22:59]
menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að greina frá því en mér virðist að hv. þingmaður sé ekki að hlusta eða lesa rétt í það sem ráðherrann sagði. Ráðherrann var að nefna það að hv. þingmaður væri með ákveðnar falsfréttir. (Gripið fram í.) Og það er ekki bara varðandi Kvikmyndasjóð heldur líka varðandi stuðning hv. þm. Óla Björns Kárasonar við fjölmiðlafrumvarpið á sínum tíma. (Gripið fram í.) Þannig að hér er bæði — ja, ég veit ekki hvað skal segja, hvort þetta sé upplýsingaóreiða eða falsfréttir eða hvað þetta er. En ég beini því til hv. þingmanns að skoða kannski aðeins betur það sem hann er að greina frá hér.