153. löggjafarþing — 95. fundur
 18. apríl 2023.
störf þingsins.

[13:34]
Ágúst Bjarni Garðarsson (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég ætla enn og aftur að koma hingað upp og ræða ástandið á húsnæðismarkaði. Aðgerðir Seðlabankans varðandi lánþegaskilyrði hafa orðið til þess að algjört frost er á markaðnum um þessar mundir. Ungt fólk og aðrir fyrstu kaupendur sjá sér ekki fært að kaupa fasteign á algerlega frosnum markaði. Þessi þróun hefur verið að raungerast síðustu 12 mánuði og mun að óbreyttu halda áfram.

Við sjáum þá keðjuverkun sem frostið veldur. Nú berast okkur fréttir af því að keðjan sé rofin og fáum takist að kaupa eða selja eignir í núverandi ástandi. Almennt gerir fólk tilboð í fasteign með fyrirvara um sölu en það sem hefur færst í aukana er að veita þurfi lengri frest, með fyrirvara, eða hætta þurfi við viðskipti sökum þess að í núverandi ástandi er eftirspurnin lítil sem engin.

Við sjáum það að einstaklingum sem eru að stækka við sig og ætla að selja sína fyrstu eign reynist það oft ómögulegt þar sem kaupendahópur fyrstu eigna er horfinn af markaðnum. Það skiptir engu máli hversu vel eignir eru auglýstar og hversu oft er opið hús, eignin hreinlega selst ekki. Eins og ég segi getur þetta t.d. verið fjölskylda sem þarf að stækka við sig í samræmi við fjölgun.

Virðulegi forseti. Enn og aftur sjáum við að bregðast þarf við ástandinu á fasteignamarkaði. Það eru ekki einungis fyrstu kaupendur sem bíta í það súra, heldur á það við um alla sem vilja kaupa eða selja í núverandi árferði. Nauðsynlegt er að nýta þau verkfæri sem við hér á Alþingi höfum og ég hef oft nefnt, t.d. að rýmka reglur og kröfur um veitingu hlutdeildarlána, breyta reglum um veðsetningu lána til fyrstu kaupenda og ráðast í framkvæmdir til að auka framboð á hagkvæmu húsnæði sem hentar fyrstu kaupendum, í góðu samstarfi við verkalýðshreyfinguna og lífeyrissjóði. Við getum stuðlað að því, með hækkandi sól, að frostið sem einkennir fasteignamarkaðinn um þessar mundir fari að þiðna.



[13:37]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Það var árið 2019 sem þáverandi seðlabankastjóri, Már Guðmundsson, skrifaði þjóðaröryggisráði bréf um að fyrirkomulag greiðslumiðlunar hér á landi gæti ógnað þjóðaröryggi. Hæstv. forsætisráðherra upplýsti í nóvember í fyrra í umræðum um skýrslu þjóðaröryggisráðs að ráðið hefði fengið Seðlabankann þrisvar sinnum á fund sinn til að ræða stöðu innlendrar greiðslumiðlunar. Hæstv. ráðherra sagði þá að það væri mat þjóðaröryggisráðs að lykilatriði til að tryggja fjármálaöryggi væri að til staðar væru innviðir til að tryggja innlenda greiðslumiðlun. Þann 28. september í fyrra áréttaði fjármálastöðugleikanefnd í yfirlýsingu sinni mikilvægi þess að auka öryggi í innlendri greiðslumiðlun til að tryggja rekstrarsamfellu, m.a. með vísan til vaxandi netógnar. Á kynningarfundi fjármálastöðugleikanefndar 15. mars sl. sagði Gunnar Jakobsson, staðgengill formanns nefndarinnar, að niðurstaða yrði að fást í málinu á næstu vikum eða óska ella eftir lagasetningu um málið.

Herra forseti. Íslenskir neytendur eru ekki bara að greiða til íslenskra banka heldur borga þeir einnig til Visa og Mastercard í útlöndum. Hagnaður bankanna af þessu fyrirkomulagi hleypur á milljörðum og við borgum og getum ekki annað. En eftir hverju höfum við verið að bíða allan þennan tíma? Höfum við verið að bíða eftir bönkunum, að þeir geri eitthvað í málunum? Er það ekki stjórnvalda og Seðlabankans að bregðast við? Við þurfum sjálfstæðar og óháðar greiðslulausnir sem eru bæði ódýrar og öruggar. Í fyrrasumar skrifaði ég grein um þessa alvarlegu stöðu og lauk henni á þessum orðum:

„Stjórnvöld og Seðlabanki Íslands þurfa að gyrða sig í brók strax og þótt fyrr hefði verið og tryggja óháða, sjálfstæða fjármálainnviði, óháðar og ódýrar innlendar greiðslulausnir.“

Forseti. Núna, um ári seinna, eru þau enn með allt niður um sig.



[13:39]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Á liðnum árum og áratugum hafa fyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar verið í fremstu röð í að byggja upp fjarskiptainnviði og þá sérstaklega ljósleiðarakerfi til hagsbóta fyrir íbúa Reykjavíkur og nágrannasveitarfélaga sem og fyrirtækja á svæðinu. Þetta hefur skilað sér í háu tæknistigi og hagstæðu verði á fjarskiptaþjónustu. Hægri öflin á Íslandi hafa lengi verið á móti þessum samfélagslega rekstri og margoft flutt tillögur um að koma honum í hendur einkaaðila en félagshyggjuflokkarnir í borginni hafa til þessa staðið á móti öllum slíkum hugmyndum.

Mig langar því að eiga orðastað við hv. þm. Jóhann Pál Jóhannsson, þingmann Reykjavíkur, um það hvernig hann sem jafnaðarmaður metur þann umsnúning flokksfélaga hans í Samfylkingunni og annarra meirihlutaflokka í borginni þess efnis að þynna út eignarhluta opinberra aðila með því að fara í hlutafjárútboð þar sem um þriðjungur fyrirtækisins Ljósleiðarans verður seldur einkaaðilum. Er þingmaðurinn sammála fulltrúum Vinstri grænna og Sósíalistaflokksins í meiri hlutanum í borginni sem benda á að rétt sé að líta á rekstur ljósleiðarakerfisins sem mikilvægt samfélagslegt innviðaverkefni á pari við rekstur hitaveitu?

Nú varð ýmsum samflokksmönnum hv. þingmanns tíðrætt um það í tengslum við sölu Símans á Mílu til erlendra fjárfesta hvort ríkisvaldið ætlaði ekki að grípa inn í með einhverjum hætti og stöðva söluna. Þar var þó um að ræða viðskipti milli tveggja einkaaðila á innviðum sem þegar var illu heilli búið að einkavæða. Vekur það þingmanninum ekki áhyggjur þegar borgarstjórn Reykjavíkur hyggst með þessum hætti taka risaskref í þá átt að færa mikilvæga samfélagslega innviði úr félagslegri eigu og til einkaaðila? Hefur þingmaðurinn hugsað sér að reyna að koma vitinu fyrir sitt fólk í borginni?



[13:41]
Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hér um hlutafjáraukningu Ljósleiðarans ehf. Það er auðvitað málefni sem ég á enga aðkomu að sem alþingismaður, en mér er samt ljúft að svara hv. þingmanni og upplýsa að ég tel almennt eftirsóknarvert að grunninnviðir séu í opinberri eigu og get þar af leiðandi aldrei stutt það að Ljósleiðarinn verði seldur úr höndum Orkuveitunnar eða að Orkuveitan missi meirihlutavald yfir fyrirtækinu, enda stendur það ekki til. Ekki hefur orðið neinn umsnúningur þar og ég þarf ekkert að koma vitinu fyrir einn né neinn. Það sem hefur hins vegar gerst er að aðstæður á fjarskiptamarkaði hafa gjörbreyst á mjög skömmum tíma og ljóst að Ljósleiðarinn þarf á auknu fjármagni að halda vegna harðrar samkeppni við Mílu, sem hefur einmitt stóraukið umsvif sín eftir söluna til fransks fyrirtækis sem fór auðvitað fram með blessun ríkisstjórnarinnar eins og hér var vikið að. Þá er farin sú leið að leita til langtímafjárfesta með hlutafjárútboði og þannig er verið að leiða fram markaðsvirði hluta í Ljósleiðaranum. Það þýðir þá að í framhaldinu geta opinberir aðilar, hvort sem það er Orkuveitan eða ríkið, ef t.d. þingmenn Vinstri grænna telja þetta þjóðhagslega mikilvæga starfsemi, stigið inn og komið með meira hlutafé án þess að farið sé á svig við ríkisstyrkjareglur EES-samkomulagsins.

Forseti. Ef þingmenn Vinstri grænna telja svona agalegt að einkafjármagn komi nálægt þessari starfsemi þá velti ég fyrir mér hvers vegna það sama gildi ekki um aðra grunninnviði, t.d. samgönguinnviði þar sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur einmitt beitt sér mjög fyrir því að einkaaðilar komi inn, annist fjármögnun og taki áhættu af gerð og rekstri samgöngumannvirkja.

Ég minni líka á að það eru ekki nema örfáir mánuðir síðan Alþingi setti hér, að frumkvæði ríkisstjórnarinnar, ný heildarlög um fjarskipti og fjarskiptainnviði þar sem virk samkeppni á markaði er rauði þráðurinn. (Forseti hringir.) Þar var einmitt tekið fyrir niðurgreiðslu samkeppnisrekstrar og þá heyrðist ekki múkk frá Vinstri grænum hér um opinbert eignarhald eða samfélagslegan rekstur. (Forseti hringir.) En ef þau eru á móti þessum EES-reglum um fjarskiptamál og með einhverja bakþanka yfir t.d. þessu frumvarpi sem hér var samþykkt þá ættu þau bara að segja það hreint út eins og sósíalistar gera t.d. í borginni. (Forseti hringir.)

Annars þakka ég hv. þingmanni fyrir að eiga orðastað við mig um þessi mál og óska borgarstjórnarflokki Vinstri grænna velfarnaðar í sínum störfum.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að ræðutími í störfum þingsins er takmarkaður en hv. þingmaður fór allverulega yfir þau mörk sem þingsköp kveða á um í því sambandi.)



[13:44]
Andrés Ingi Jónsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Það er stefna íslenskra stjórnvalda að halda norðurslóðum sem lágspennusvæði og vinna gegn hernaðaruppbyggingu á því svæði. Það er eitthvað sem ég held við getum öll verið sammála um að sé gott markmið. En hvað sýna verkin? Það hefur aldrei verið meiri fjárfesting í innviðum fyrir hernað hér á landi en á undanförnum árum. Það hefur aldrei verið meiri viðvera herliðs en akkúrat síðustu árin í háa herrans tíð. Síðustu þrjú ár hefur viðveran nærri tvöfaldast, farið úr 150 hermönnum að meðaltali á hverjum degi árið 2020 upp í 270 á dag á síðasta ári. Í svari utanríkisráðherra kemur fram að íslensk stjórnvöld hafi fullt forræði á því hvaða liðsafli er á Keflavíkurvelli. Þetta er ákvörðun stjórnvalda. Hér er kafbátaeftirlit árið um kring. Eðli vallarins er að breytast með því að í ágúst 2019 og í september 2021 voru B-2 sprengjuflugvélar sendar í æfingaleiðangur til Keflavíkur. Svar utanríkisráðherra við því hverju það sætti var að vera vélanna gerði flugher Bandaríkjanna kleift að sýna fram á getu sína til að gera sprengjuflugvélar út frá ólíkum tímabundnum staðsetningum í Evrópu. Það er verið að sýna máttinn. Það er verið að færa hann út og inn á norðurslóðir. Í mars á þessu ári bættist síðan í hópinn svokölluð dómsdagsvél, flugvélin sem er stjórnstöð fyrir kjarnavopnabúr Bandaríkjanna ef allar landstöðvar brenna í stríðseldi. Og nú er svo komið að það er búið að gera samkomulag á milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda um að kafbátar Bandaríkjahers geti lagt hér rétt fyrir utan landsteinana og Landhelgisgæslan færi þeim síðan vistir og hjálpi þeim að skipta um áhafnarmeðlimi. (Forseti hringir.) Þetta snýst ekki bara um þægindi. Þetta snýst ekki bara um að einfalda kafbátum störf sín. Nei, þetta snýst, eins og hinar aðgerðirnar, (Forseti hringir.) um að senda skýr merki, um að hnykla vöðvana, auka hervæðingu á norðurslóðum. (Forseti hringir.) Ég velti því fyrir mér, forseti, hvort ekki sé kominn tími til að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur gangist við því að hún er ekki að vinna gegn hervæðingu heldur beinlínis með henni á norðurslóðum.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á áður fram komna athugasemd um ræðutíma í störfum þingsins.)



[13:47]
Jóhann Friðrik Friðriksson (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða hérna undir störfum þingsins neytendavernd. Bandaríska neytendastofnunin hefur nú lagt fram svokallað „smelltu til að segja upp“-ákvæði sem krefst þess að seljendum sé gert það jafn auðvelt að koma upplýsingum til leiðar til neytenda og neytendum að neyta þjónustu eða skrá sig úr henni. Hver hefur ekki lent í vandræðum við að segja upp þjónustu eða jafnvel skráð sig í þjónustu fyrir mistök sem erfitt er að segja upp? Ýmis dæmi eru til þar sem seljendur þjónustu hanna og markaðssetja oft ókeypis prufuáskriftir og endurteknar áskriftir en þær reynast svo stundum erfiðar þegar kemur að upplýsingagjöf til þeirra sem lenda í því að skrá sig óviljandi. Í einhverjum tilvikum gefa seljendur takmarkaðar upplýsingar um aukagjöld og því miður fær fólk stundum reikninga eða rukkanir á greiðslukort sín sem neytendur hafa ekki samþykkt eða kannast illa við. Seljendur gera það oft verulega torvelt eða jafnvel ómögulegt að hætta við kaup á þjónustu, sér í lagi á internetinu.

Rannsóknir vestan hafs hafa leitt í ljós að vinnubrögð sem þessi hafa skaðað neytendur í áratugi. Þar í landi hefur fólk verið fast í endurteknum greiðslum fyrir hluti sem það vildi aldrei eða vildi ekki halda áfram að fá og lög og reglur hafa náð illa utan um. Ég hef sent Neytendastofu fyrirspurn um það hvernig núverandi lög og reglur hér á landi ná utan um vandamálið en mig grunar að okkur skorti úrræði. Það þarf ekkert að velkjast í vafa um mikilvægi þess að banna rangfærslur, að gefa fólki mikilvægar upplýsingar á skýran hátt, ganga úr skugga um að fólk viti hvað það er að samþykkja og leyfa fólki að hætta við á einfaldan og auðveldan hátt. Tökum dæmi: Ef aðili er með hnapp á sinni sölusíðu sem skráður er „skráðu þig í þjónustu“ (Forseti hringir.) á að vera hnappur á sömu síðu sem merktur er til að skrá sig úr þeirri sömu þjónustu.



[13:49]
Bryndís Haraldsdóttir (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Við áttum hér gott samtal í gær við hæstv. viðskipta- og menningarmálaráðherra og margir af þeim þingmönnum sem upp komu ræddu um stöðu fjölmiðla. Mig langar að halda örlítið áfram með þá umræðu. Í fjármálaáætlun og í kaflanum um fjölmiðla er ljóst að við ætlum að auka töluvert útgjöld til málefnasviðsins fjölmiðla, fara úr rúmum 6 milljörðum upp í rúma 8 milljarða. Það er auðvitað þannig að langstærsti hluturinn af þessum milljörðum rennur til RÚV, risastóra ríkisfyrirtækisins á þessum markaði. Ég ætla ekki að segja að við eigum að leggja niður RÚV en það hlýtur að vera umhugsunarvert þegar við horfum á stöðu fjölmiðla á Íslandi að það sé einn miðill sem taki allt þetta fjármagn til sín frá ríkinu auk þess að vera á auglýsingamarkaði og taka þar um 2,5 milljarða á ári. Við höfum heyrt lýsingar frá þeim sem reka einkarekna fjölmiðla á því hversu agressífir sölumenn RÚV eru og hversu ágjarnir þeir eru í að ná í þær takmörkuðu auglýsingatekjur sem undir eru. Þess fyrir utan þá sjáum við líka fréttir af annars konar ríkisstuðningi, eins og við veitum í gegnum Kvikmyndasjóð, þar eru verkefni sem RÚV stýrir eða er í samstarfi um búin að taka til sín alla úthlutunina, 200 milljónir núna síðast. Þetta hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir okkur sem hér stöndum og ekki síst ef við horfum svo á umsagnir sem hafa verið að berast okkur í allsherjar- og menntamálanefnd frá þeim sem eru þó að skapa og eiga þetta efni, þ.e. leikarana og listamennina, þegar þau segja að hér sé ekki verið að greiða eftir kjarasamningum, (Forseti hringir.) engar úthlutanir frá Kvikmyndasjóði taki mið af kjarasamningum eða tryggi réttindi þessa fólks. Þetta, virðulegur forseti, (Forseti hringir.) hlýtur að vera eitthvað sem við þurfum að taka upp hér á þessum vettvangi.



[13:52]
Viðar Eggertsson (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Samtök leigjenda birtu á dögunum kolsvarta skýrslu um stöðuna á leigumarkaði og er vægast sagt dregin þar upp allnöturlegri mynd en við fáum yfirleitt að heyra. Þar kemur skýrt fram að það er alvarleg húsnæðiskreppa á Íslandi og kjör leigjenda eru hrikaleg, sem bitnar skelfilega á veikum hópum, þeim sem eru á lægstu laununum; fjölskyldufólki, örorkulífeyristökum og ellilífeyristökum. Ástandið fer hríðversnandi því þessir hópar eru í raun fastir í óðaverðbólgu sem hækkar leigu á íbúðarhúsnæði í hverjum einasta mánuði. Fimmta hvert barn í leiguhúsnæði býr við sárafátækt. Það er nánast ómögulegt að fólk komist af leigumarkaði eftir því sem það verður eldra. Því fer þeim sífjölgandi sem eru í þeirri stöðu en einungis innan við einn af hverjum tíu leigjendum vill vera á leigumarkaði, skiljanlega. Æ meiri skortur á leiguhúsnæði neyðir fólk til að taka sér bólfestu í óleyfilegu húsnæði og skorturinn skrúfar upp leiguverðið í hverjum einasta mánuði því leigjendum gefst ekki annað en að beygja sig undir óásættanlega samninga sem eru í raun einhliða ákvörðun leigusalans, því lög um vísitölutengingu á húsaleigu voru afnumin árið 1999, því það eru fyrirtæki sem gera út á húsnæðismarkaðinn og hafa bara rakað að sér æ stærri hluta hans og bjóða leigjendum afarkosti á að eiga sér heimili; grunnþörf hvers manns. Tveir þriðju allra íbúða frá árinu 2005 hafa verið keyptir af fjárfestum í þeim eina tilgangi að hagnast á þeim. Það er full ástæða til að Alþingi taki fyrir mál leigjenda á Íslandi af fullri alvöru og þunga.



[13:54]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Undanfarið hefur borið á gagnrýni á stöðu húsnæðismála hér á landi. Ég ætla mér ekki hér í dag að gera lítið úr þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir í húsnæðismálum en það er langt því frá að ekkert hafi verið gert í tíð núverandi ríkisstjórnar. Við Íslendingar berum okkur jafnan saman við Evrópu en íbúaþróun á Íslandi er í engu samhengi við Evrópu og því er erfitt að gera raunhæfan samanburð. Íbúum í Evrópu hefur fjölgað um 2,8% frá aldamótum en íbúum á Íslandi hefur fjölgað um nær 40%. Auknum vinsældum og vexti íbúafjölda fylgja vissulega áskoranir og eitt af því er að tryggja nægilegan fjölda íbúða á hverjum tíma. Síðustu ár hefur verið gerð stórsókn í uppbyggingu íbúða en betur má ef duga skal.

Aðgerðir síðustu ára hafa fyrst og fremst miðað að því að mæta uppsafnaðri þörf fyrri ára en það er afleiðing af aðgerðaleysi þeirra sem sátu við stjórnvölinn frá 2007–2012 sem segja má að hafi sett met í skorti á íbúðum. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa miðað að því að fjölga íbúðum, hjálpa fólki að komast í eigið húsnæði og byggja fleiri leiguíbúðir í óhagnaðardrifnu eða samvinnuformi. Í kjölfarið hefur verið ánægjulegt að sjá þá þróun að einkaaðilum á leigumarkaði hefur fækkað mikið og varanlegt húsnæði í eigu hins opinbera og félaga hefur aukist. Það segir okkur að markaðurinn hafi hægt og rólega verið að lagast. En við þurfum að halda áfram því við glímum enn við afleiðingar stöðnunar fyrri ára og í ofanálag erum við að glíma við alþjóðlega verðbólgu sem klárlega mun hafa áhrif á markaðinn. Okkar markmið ætti núna að vera fyrst og fremst að tryggja að við séum ekki að safna í aðra snjóhengju og halda áfram að byggja nægilega mikið af húsnæði og fjölga íbúðum í óhagnaðardrifnu leigukerfi á sem flestum stöðum hringinn í kringum landið.



[13:56]
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Með leyfi forseta:

„Það kom mér á óvart í desember þegar Icelandair tilkynnti að flugfélagið ætli að hefja beint áætlunarflug frá Keflavík til Tel Aviv. Það hentar eflaust vel fyrir þá fáu Íslendinga sem búsettir eru í Ísrael og einnig þá sem vilja heimsækja landið. Einnig hentar það ágætlega Íslendingum sem vilja heimsækja Palestínu. En þessu fylgja djúp og alvarleg vandamál sem Icelandair vill ekki ræða.“

Þannig skrifar Yousef Ingi Tamimi á fréttavefnum Heimildinni þann 12. apríl sl. En í frétt á Vísi rétt fyrir jól var vitnað í framkvæmdastjóra leiðakerfis Icelandair, Tómas Ingason, sem virtist spenntur fyrir Tel Aviv sem nýjum áfangastað og taldi þar upp hluti sem áfangastaðurinn hefur upp á að bjóða; strendur og annað næs. Með leyfi forseta:

„Tómas minnist á að stutt sé til Jórdaníu en passar sig sérstaklega að minnast hvergi á Palestínu — en eins og flestum er kunnugt þá er stór hluti Dauðahafsins (ólöglega hernumið) í Palestínu, Betlehem er palestínsk borg og svo er Austur-Jerúsalem, sem hefur verið ólöglega innlimuð inn í Ísrael, palestínsk.“ — Allt eru þetta staðir sem nefndir eru sem frábærir áfangastaðir í Tel Aviv. — „Icelandair auglýsti svo á heimasíðu sinni Jaffa sem elsta hluta Tel Aviv, en þar kemur hvorki fram að borgin sé palestínsk né er minnst á þær hörmungar sem áttu þar stað árið 1948 þegar Palestínufólkið var annaðhvort myrt eða hrakið á flótta í þjóðernishreinsunum sem enn eiga sér stað í dag.

Tómas Ingason, Bogi Nils Bogason og fleiri stjórnendur Icelandair eru fullkomlega meðvituð um þau mannréttindabrot, hernám og þjóðernishreinsanir sem stundaðar eru í Ísrael en kjósa viljandi að hunsa þau. Þau kjósa að taka ekki afstöðu gegn ólöglegu hernámi Ísraels í Jerúsalem og Palestínu og með því samþykkja þau að aðgerðir Ísraela séu réttlætanlegar.“

Eða eins og Desmond Tutu sagði: Ef þú ert hlutlaus gagnvart óréttlæti hefurðu kosið að standa með kúgaranum.

Forseti. Ég hvet öll til að lesa tilvitnaða grein í Heimildinni frá 12. apríl sl. og taka afstöðu í þessu máli.



[13:58]
Björn Leví Gunnarsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Í morgun var fundur Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála um stjórnsýsluúttektir Ríkisendurskoðunar, mjög áhugaverður fundur þar sem sviðsstjóri stjórnsýslu- og lögfræðisviðs Ríkisendurskoðunar kynnti hvernig þær stjórnsýsluendurskoðanir færu fram. Þar komu Sigríður Kristinsdóttir, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu, og Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, sem nýlegir aðilar sem hafa verið teknir til skoðunar í stjórnsýsluúttekt. Það var dálítið áhugavert sem þar kom fram, sérstaklega með tilliti til þess að ég sit í fjárlaganefnd, en ábendingar sem fram komu í stjórnsýsluúttektum Ríkisendurskoðunar voru þær að verkefni þessara aðila væru vanfjármögnuð. Þrátt fyrir önnur verkefni þessara aðila þá væru, samkvæmt niðurstöðum Ríkisendurskoðunar, Samkeppniseftirlitið og sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu vanfjármögnuð til að sinna lögbundnum verkefnum. Þau ítrekuðu bæði hvað þeim fyndist halla á sig í rauninni, að ráðuneytin væru ekki að bregðast við þessum ábendingum á neinn hátt. Páll Gunnar Pálsson bætti um betur og sagði að núverandi fyrirkomulag opinberra fjármála, með lögum um opinber fjármál, væri í rauninni verra heldur en gamla fyrirkomulagið þar sem hann hefði hvergi stað til að leita til varðandi einmitt svona ábendingar — engan til að leita til.

Mig langar hins vegar til að benda á að það er dálítið ónákvæmt. Það er hægt að leita til þingsins. Það er hægt að senda inn umsögn til fjárlaganefndar um fjármálaáætlanirnar sem eru í gangi núna. Þetta er það sem hefur vantað upp á að undanförnu, að við í fjárlaganefnd fáum ekki að vita hverjar eru forsendur þess að ein eða önnur upphæð er lögð til (Forseti hringir.) hinna og þessara málefnasviða en ekki hærri eða lægri upphæð. Við getum ekki skoðað: Mun þetta duga til að verkefni sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu (Forseti hringir.) og Samkeppnisstofnunar verði fjármögnuð eða ekki? Við höfum ekki þær upplýsingar af því að það virðist vera að ráðuneytin banni þeim einfaldlega að senda þær upplýsingar til okkar.



[14:01]
Diljá Mist Einarsdóttir (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Þessa vikuna ræðum við þingmenn fjármálaáætlun hér á þinginu. Ég átti í orðaskiptum við hæstv. innviðaráðherra í gær um þá alvarlegu fjárhagsstöðu sem enn er komin upp hjá Reykjavíkurborg, langstærsta sveitarfélagi landsins. Ég hef skiljanlega áhyggjur af því að staðan þar og slæmar horfur hafi neikvæð áhrif á ríkisfjármálin. Glöggir hafa tekið eftir því að þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég tek upp málefni Reykjavíkurborgar hér á þinginu. Ég er auðvitað íbúi í Reykjavík og þingmaður Reykvíkinga, en ég er líka fyrrum varaborgarfulltrúi.

Mér hefur þótt full ástæða til þess að stíga inn í þau mál sem okkur varða, þar sem borgaryfirvöld virðast ekki sinna hlutverki sínu. Ég hef m.a. rætt hér ábyrgð Reykjavíkurborgar þegar kemur að húsnæðismálum og menntun barna á fyrsta skólastiginu, en rótin að þessu öllu er auðvitað viðhorf meiri hlutans í Reykjavík; forgangsröðunin hinum megin við Vonarstrætið. Það ætti að vera mikið áhyggjumál fyrir stjórnvöld og okkur hér sem sinnum eftirliti, hvernig fjármálum er stýrt í Reykjavík. Það er risamál hvernig hallarekstur fer hratt vaxandi og að hallinn sé margfaldur á við það sem hefur verið áætlað. Skuldasöfnun borgaryfirvalda er ógnvænleg og vítahringur hallareksturs og skuldasöfnunar virðist ekki verða rofinn í bráð. Meiri hlutinn í Reykjavík heldur nefnilega áfram að eyða umfram efni og það þrátt fyrir stórauknar tekjur. Hæstv. innviðaráðherra hefur e.t.v. eitthvað til síns máls þegar hann nefnir hvort tilefni sé fyrir okkur hér til að endurskoða regluverkið þegar kemur að eftirliti með sveitarfélögunum. En fyrst og fremst verður Reykjavíkurborg auðvitað að stöðva þessa óráðsíu og fara að bera meiri virðingu fyrir fjármunum íbúa sinna og verkefnunum sem borgin á að sinna.



[14:03]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Það er fullt tilefni til að byrja á því að taka undir með hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur varðandi ófremdarástandið í Reykjavík. En ég vil þá minna hv. þingmann á það, sem fulltrúa meiri hlutans hér, að fyrsta skrefið fyrir ríkisstjórnina til að taka á þessu er að hætta að ýta undir þetta ófremdarástand með því að taka við vandamálum frá borginni, skjalasöfnum eða öðru, eða að ýta undir útgjöldin eins og með fráleitu borgarlínuverkefni.

En ég ætla ekki að tala um borgarstjórn Reykjavíkur í þessu tilviki heldur annað á vissan hátt sambærilegt fyrirbæri sem er Evrópusambandið. [Hlátur í þingsal.] Nú er Evrópuþingið nýbúið að ræða, bara í gær, og greiðir atkvæði um í dag, áform um að reyna að draga úr flugi eins og nokkur kostur er og troða fólki upp í járnbrautarlestar. Þar var nú ekki að heyra margar raddir vara við þessum áformum á svipaðan hátt og íslensk stjórnvöld hafa þó reynt að gera. Nú heyrði ég í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins viðtal við hæstv. utanríkisráðherra sem sagði að vinnan væri enn í fullum gangi í sérstakri nefnd sem hefur það hlutverk að leysa úr þessu og hún gengi bara ljómandi vel. En hver er afraksturinn? Það hefur ekkert breyst. Þetta fer að minna á söguna um aðgerðina sem gekk ljómandi vel þó að sjúklingurinn hafi reyndar dáið. Það er það sem ég óttast að gerist með þetta mál, ef við hér á þinginu pössum ekki upp á að þetta komist ekki í gegn, þá verði það kynnt með einhverjum málamyndabreytingum, einhverjum smá tímafresti hugsanlega eða einhverju slíku, en muni engu að síður hafa þær afleiðingar sem við óttumst og ríkisstjórnin óttast. Hefur hún dug í sér til að segja bara nei? Ég held það sé tími til kominn að íslensk stjórnvöld segi bara: Nei, við ætlum ekki að innleiða þetta, frekar en að tala stöðugt um að við viljum ekki vera stikkfrí og eitthvað slíkt. Það fæst engin niðurstaða um aðlögun sem hentar Íslandi. (Forseti hringir.) Það er tímabært að segja nei. Ef við gerum það þá verður Evrópusambandið kannski til í að ræða hlutina eitthvað.



[14:05]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Er það ekki fjárhagslegt ofbeldi af verstu gerð að leigusali segi leigjendum sínum að ef þeir borga ekki tugþúsundahækkun á leigunni verði þeim sagt upp, að viðkomandi verði að borga í leigu meira en útborguð lífeyrislaun hans eru, sem allir heilvita menn vita að gengur ekki upp? Hvaða snillingur fann upp það væri lausn á húsnæðisvanda þeirra verst settu í kerfinu að hækka leigu það mikið að viðkomandi leigjandi eigi ekki möguleika á að borga hana og því verði hann að segja viðkomandi upp leigunni og leigja ríkinu íbúðina? Á uppseldu Íslandi er það orðið lausn að henda einni fjölskyldu á götuna til að bjarga annarri fjölskyldu um húsnæði og það er ríkið sem er sökudólgurinn. Hvað eru margir í okkar ríka samfélagi sem standa frammi fyrir þessu ofbeldi? Hvað hafa margir gripið til þess ráðs að sleppa úr máltíðum vegna sífellt hækkandi húsnæðis- og framfærslukostnaðar og eiga enga möguleika á að innbyrða holla fæðu?

Ríkisstjórnin er ekki með nokkra áætlun til stuðnings þeim sem glíma við að reyna að ná endum saman og að tryggja að börn þeirra verði ekki skilin eftir í svelti og sárafátækt. Verðbólgan er í 10% og þeir verst settu í okkar ríka samfélagi ná engan veginn endum saman og verða að leita til hjálparsamtaka til að sjá sér og sínum börnum fyrir matargjöfum til að svelta ekki. Ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur vísvitandi brotið lög um almannatryggingar er þær spá fyrir um meðaltal launahækkana fram í tímann samkvæmt 69. gr., spá alltaf viljandi mun lægri hækkun en raunveruleg hækkun verður. Þó að það komi fram í lok ársins að það sé röng spá þá er hún aldrei leiðrétt. Þetta er ólögleg kjaragliðnun og ekkert annað en brot á stjórnarskrá og lögum um almannatryggingar. Hér er ein furðuleg mýta sem ekki er sagt frá, ríkisstjórnin eða TR, að þeir verst settu, öryrkjar sem hafa örorkumat frá 18 ára aldri, hafa engin frítekjumörk af fyrstu 100.000 kr. í laun því sérstaka uppbótin skerðir þannig að það skilar 20.000 kr., 80.000 kr. fara í skatt og skerðingar sem eru ekkert annað en gróft fjárhagslegt ofbeldi.

Og að gefnu tilefni, virðulegur forseti, hvenær ætlar ríkisstjórnin að hætta að skatta fátækt?



[14:08]
Ástrós Rut Sigurðardóttir (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Það er heiður að fá að standa hér og flytja mína fyrstu ræðu í einu glæsilegasta og virðulegasta húsið landsins. Að fá tækifæri til að breyta til hins betra og vera partur af jákvæðri þróun samfélagsins hefur verið ástríða mín lengi. Aðeins 24 ára gömul stóð ég við hlið mannsins míns þar sem við fengum þær skelfilegu fréttir að krabbamein væri ástæðan fyrir verkjum hans og veikindum. Við fengum einnig að heyra að þetta yrði mjög langt og erfitt ferli. Í dag eru tíu ár liðin og ég tíu árum eldri og vitrari en maðurinn minn er ekki lengur með okkur. Hann lést árið 2019 frá kornungri dóttur sinni og stóðu mæðgur eftir í sárum. Á þessum sjö árum sem maðurinn minn, Bjarki, glímdi við þann skæða sjúkdóms sem krabbamein er lærði ég margt. Ég lærði að það er flókið að vita um réttindi sín. Ég lærði að vegurinn í gegnum kerfið er þungbær og ég lærði að það þarf sterkan einstakling á bak við veikan einstakling til að komast í gegnum frumskóg kerfisins og það er ekki sjálfgefið.

Ég varð fyrir löngu sannfærð um mikilvægi þess að koma á fót embætti umboðsmanns sjúklinga sem yrði nauðsynlegt afl fyrir sjúklinga til að fá á einum stað upplýsingar um réttindi sín, fræðslu og leiðsögn um kerfið. Umboðsmaður sjúklinga myndi einnig sinna því hlutverki að standa vörð um hagsmuni þessa viðkvæma hóps og gæta að því að sjúklingar fái sem besta heilbrigðisþjónustu hverju sinni. Þetta er ekki bara fallegt fyrirkomulag, þetta er faglegt.

Ég fagna því að þingsályktunartillaga hv. þm. Halldóru Mogensen um þetta mál sé komið til umfjöllunar í velferðarnefnd og hvet hv. þingmenn nefndarinnar til að láta það ekki stoppa þetta góða mál þó að það komi frá stjórnarandstöðuþingmanni. Gott er gott, sama hvaðan það kemur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Kerfið var nefnilega flókið og erfitt yfirferðar þegar ég þurfti að eiga við það sjálf og hefur því miður allt of lítið breyst síðan. Þess vegna vil ég eindregið vekja athygli á þessu mikilvæga máli. Ég er sannfærð um að umboðsmaður sjúklinga hefði hjálpað okkur Bjarka heil ósköp. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)