153. löggjafarþing — 95. fundur
 18. apríl 2023.
veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða, 1. umræða.
stjfrv., 976. mál (veiðistjórn grásleppu). — Þskj. 1524.

[22:22]
Sigurjón Þórðarson (Flf) (um fundarstjórn):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka það sem ég kom fram með hér fyrr í umræðunni, þ.e. að stjórnarfrumvarp sem hefur verið sett á dagskrá samræmist ekki þeim kröfum sem ríkisstjórnin hefur sett til að það sé tækt hér á dagskrá. Það er alveg augljóst að í greinargerð með frumvarpinu er ekkert fjallað um almannahagsmuni. Það er einfaldlega gerð sú krafa að almannahagsmunir séu skýrðir hvað það varðar þegar þeir eru undir. Það stendur til að ræða hér frumvarp sem skerðir almannahagsmuni og atvinnufrelsi og án þess að það sé skýrt og það sé tekið á því. Vissulega þá kemur fram í greinargerðinni að það standist eitthvert jafnræði, sem ég tel reyndar ekki vera, en það er ekkert fjallað um almannahagsmuni. Þess vegna tel ég, frú forseti, alvarlegt að halda þessu máli áfram og færi betur á því, betri bragur fyrir þingið, að fresta þessu máli þangað til búið er að gera grein fyrir almannahagsmunum í því þingskjali sem hér á að fara að ræða.



[22:24]
matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 1524, sem er mál 976. Um er að ræða frumvarp til laga um breytingar á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997, og lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006. Frumvarp þetta er samið í matvælaráðuneytinu. Með frumvarpinu er mælt fyrir um hlutdeildarsetningu grásleppu en fram til þessa hefur veiðum verið stjórnað með sóknarstýringu, þ.e. takmörkuðum fjölda leyfa og takmörkuðum fjölda veiðidaga. Á undanförnum árum hefur veiðistjórn grásleppu sætt gagnrýni fyrir að vera ómarkviss og ófyrirsjáanleg. Þannig beindi meiri hluti atvinnuveganefndar því til mín síðasta vor að kanna leiðir til þess að gera þessa veiðistjórn markvissari. Þá var í nefndarálitinu áréttað að horfa þyrfti til svæða og leiða til þess að draga jafnframt úr hættunni á samþjöppun. Megintilgangur frumvarpsins sem hér er til umfjöllunar er því að tryggja enn frekar sjálfbæra nýtingu grásleppu og auka fyrirsjáanleika fyrir þá aðila sem stunda grásleppuveiðar, m.a. með tilliti til veðurs og starfsaðstæðna grásleppusjómanna.

Markmið frumvarpsins er einnig að tryggja betri stýringu veiðanna til að koma í veg fyrir óæskilegan meðafla þar sem hægt sé að bregðast við meðafla án þess að takmarkaður fjöldi daga skapi hvata gegn því. Nú er það svo að þegar leyfi er virkjað á skip hefst talning daga óháð veðri, sem getur ýtt undir að dagar nýtist ekki vegna slæmra veðra eða að dagar séu nýttir þrátt fyrir að óæskilegur meðafli sé mikill. Annað dæmi sem má nefna einnig er að ef aðili lendir í bilun á búnaði daginn eftir að hann leggur net, sem veldur því að viðkomandi getur ekki veitt, getur hann ekki nýtt sér alla þá daga sem hann hefur til veiða. Slík staða kæmi aftur á móti ekki upp ef frumvarp þetta yrði að lögum því að veiðarnar væru þá ekki háðar takmörkuðum fjölda daga.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæði 7. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands þar sem lagt er til að lögfesta staðbundin veiðisvæði grásleppu. Afmörkun veiðisvæðanna í frumvarpinu er óbreytt frá því sem verið hefur samkvæmt núgildandi reglugerð um hrognkelsaveiðar en um er að ræða sjö svæði, þ.e. Faxaflóa, Breiðafjörð, Vestfirði, Húnaflóa, Norðurland, Austurland og Suðurland. Í frumvarpinu er mælt fyrir um lögfestingu veiðisvæðanna þar sem í frumvarpinu er einnig lagt til að aflahlutdeild skips og aflamark sé bundið viðkomandi veiðisvæði.

Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á ákvæðum laga um stjórn fiskveiða. Í nýrri 7. gr. a laganna er mælt fyrir um að ráðherra verði heimilt að úthluta aflamarki til fiskiskipa til veiða á grásleppu á grundvelli aflahlutdeildar skips á hverju staðbundnu veiðisvæði. Þannig geti aðeins skip sem hafi aflahlutdeild og aflamark og skráð er innan veiðisvæðis veitt þar grásleppu en einnig skal landa grásleppu innan veiðisvæðisins. Þá er mælt fyrir um að ef skip eru flutt á milli veiðisvæða falli aflahlutdeild skipsins í grásleppu niður enda gerir frumvarpið ráð fyrir að framsal aflahlutdeilda geti aðeins verið innan viðkomandi veiðisvæðis en ekki á milli veiðisvæða.

Þá er einnig lagt til í frumvarpinu að tekið verði upp nýliðunaraflamark. Lagt er til í 4. gr. frumvarpsins að 5,3% verði dregin frá heildarafla grásleppu og ráðherra verði heimilt að úthluta gjaldfrjálst til nýliða sem eru að hefja grásleppuveiðar í fyrsta skipti aflamarki til að hefja grásleppuveiðar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að í reglugerð verði nánar kveðið á um úthlutun aflamarks til nýliða, skilyrði þess að vera nýliðar, skilyrði fyrir úthlutun hámarksafla og ráðstöfun þess aflamarks sem ekki tekst að úthluta til nýliða innan hvers fiskveiðiárs. Þá er mælt fyrir um að Fiskistofu sé heimilt að taka gjald vegna úthlutunar til nýliða en einnig munu nýliðar þurfa að greiða veiðigjald af grásleppu samkvæmt lögum um veiðigjald verði frumvarpið að lögum.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að framsal á aflahlutdeild og aflamarki verði takmarkað innan staðbundinna veiðisvæða og þannig verði tryggt að aflaheimildir hverfi ekki af einstökum svæðum. Samþjöppun veiðiheimilda getur eftir sem áður orðið innan veiðisvæðanna en þó aldrei í hærra hlutfalli en 2% af heildaraflahlutdeild í grásleppu. Það mun takmarka mjög þau áhrif. Annars tel ég að þetta sé atriði sem nefndin þurfi sannarlega að skoða sérstaklega.

Þrátt fyrir það sem hér kemur fram í framsögunni og jafnframt í greinargerð með frumvarpinu um takmarkanir á framsali og flutningi aflaheimilda er í frumvarpinu jafnframt lagt til að ráðherra verði heimilt í reglugerð að kveða á um flutning á aflamarki á milli veiðisvæða á yfirstandandi veiðitímabili ef náttúrulegar aðstæður breytast verulega innan veiðisvæðis, svo sem ef þar verður aflabrestur, en slíkt skilyrði yrði þá ítarlega skilgreint í lögum.

Í frumvarpinu er mælt fyrir um, í ákvæði til bráðabirgða við lög um stjórn fiskveiða, að fyrir 1. mars 2024 verði fiskiskipum úthlutað aflahlutdeild í grásleppu. Aflahlutdeild einstakra skipa skuli ákveðin með tilliti til veiðireynslu sem fengin hefur verið á grundvelli réttar til grásleppuveiða og leyfis Fiskistofu sem skráð er á viðkomandi skip og hefur verið nýtt innan viðmiðunartímabilsins. Lagt er til að vikið verði frá meginreglu 1. mgr. 9. gr. laga um stjórn fiskveiða og viðmiðunartímabilið verði lengra en þrjú síðustu veiðitímabil. Grásleppuveiðar standa yfir í stuttan tíma og aflabrögð geta verið misjöfn milli ára. Þá geta fráfarir vegna veðurs eða veikinda haft veruleg áhrif. Er því í frumvarpinu lagt til að miða við lengra tímabil, þ.e. þrjú bestu veiðitímabilin frá og með árinu 2014 og til og með árinu 2022.

Vertíð grásleppuveiða í ár er þegar hafin. Því er gert ráð fyrir að gildistaka frumvarpsins, verði það að lögum, verði 1. september 2023 og þannig verði nægt svigrúm til að undirbúa breytingarnar sem frumvarpið mælir fyrir um með góðum fyrirvara fyrir vertíðina vorið 2024.

Ég vil benda hv. þingmönnum á að öðru leyti ágæta greinargerð með frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar sem lýtur að bæði tilefninu og nauðsyn lagasetningar sem hér hefur þegar verið farið yfir í framsöguræðu og þá ekki síst þeim breytingum sem gerðar hafa verið frá því sem áður hefur verið fjallað um í hlutdeildarsetningu grásleppu í frumvörpum þeim sem hafa komið hér til umfjöllunar í þinginu áður, þar sem við samningu þess frumvarps sem hér er til umfjöllunar hefur verið brugðist við þeim áhyggjum, að mínu mati, sem upp hafa komið í slíkri umræðu að því er varðar hámarksaflahlutdeild, framsal og flutning aflaheimilda, nýliðun og staðbundin veiðisvæði.

Í 4. kafla greinargerðarinnar er sérstaklega fjallað um samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar. Sá kafli er óvenjuítarlegur og gerð þar góð grein fyrir þeim sjónarmiðum sem varða stjórnskipuleg álitamál en einnig er í greinargerðinni fjallað sérstaklega um athugasemdir og viðbrögð við þeim, mat á áhrifum frumvarpsins, verði það að lögum, og önnur slík sjónarmið eins og gengur og gerist um framlagningu frumvarpa hér á Alþingi.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar og treysti því að geta átt gott samstarf við hv. þingnefnd um vinnslu málsins.



[22:33]
Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Þetta er grátbroslegt frumvarp vegna þess að hér eru Vinstri grænir að leggja fram frumvarp sem þeir lögðust alfarið gegn á síðasta kjörtímabili — alfarið. Og hvað felur þetta frumvarp í sér? Það felur ekki í sér neina almannahagsmuni, enda er ekki rætt um þá í greinargerðinni með frumvarpinu. Það er talað eitthvað um jafnræði þeirra sem fá veiðiheimildir, bara það mengi, en það er ekkert talað um almannahagsmuni, enda eru engir almannahagsmunir hér undir. Hverjir eru þeir? Þeir eru bara ekki til staðar. Hér er um einkavæðingu að ræða. Ég vil bara spyrja hæstv. ráðherra: Hvað breyttist? Hvað breyttist? Hvers vegna vill hún núna einkavæða grásleppuna en á síðasta kjörtímabili þá barðist hún á hæl og hnakka gegn því? Var það eitthvað sem gerðist í ráðuneytinu? Fékk hún einhverja vitrun þar? Svo er maður hér í þingsalnum í dag og hefur fylgst með og þá rauk hv. þingmaður Vinstri grænna upp til handa og fóta vegna einkavæðingar Reykjavíkurborgar á almannaþjónustu. En svo kemur seinna um kvöldið hæstv. ráðherra Vinstri grænna og hún er algerlega búin að snúa við blaðinu, vildi alls ekki einkavæða hér grásleppuna á síðasta kjörtímabili en núna vill hún ólm einkavæða grásleppuna. Hvað er að Vinstri grænum, hæstv. ráðherra?

Forseti. Það er eitthvað mikið og skrýtið í gangi. Ég held að hæstv. ráðherra verði að gera hreint fyrir sínum dyrum vegna þess að almennir flokksmenn Vinstri grænna eru eitt spurningarmerki og eru jafnvel farnir að hafa samband við mig hér og spyrja hvað sé í gangi innan herbúða Vinstri grænna.



[22:36]
matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Frumvarp af því tagi sem hér er til umfjöllunnar hefur ekki komið fyrir þingið áður því að hér er um að ræða töluverð frávik frá því sem hv. þingmaður er að vísa til, eins og ég raunar fór yfir í minni framsögu. Í fyrsta lagi erum við hér að gera ráð fyrir því að við séum að gæta að því að veiðisvæðin séu staðbundin, að heimildir fari ekki á milli svæða. Áður við þinglega meðferð frumvarps um veiðistjórn grásleppu þá komu fram áhyggjur af því að slík ráðstöfun myndi hafa verulega neikvæð áhrif á nýliðun og fela í sér fjárhagslegar hindranir fyrir komandi kynslóðir til að hefja grásleppuveiðar og í umsögnum við það frumvarp var bent á að það hefði ekki orðið mikil nýliðun í grásleppuveiðum síðastliðin tíu ár þrátt fyrir að kostnaður við að hefja veiðar í núverandi kerfi væri ekki mikill. Þess vegna er í öðru lagi í þessu frumvarpi lagt til að ráðherra verði heimilt að draga 5,3% frá heildarafla grásleppu til að tryggja nýliðun í kerfinu. Það má nú með réttu nefna í sömu andrá nýliðun og almannahagsmuni og ekki síst í þessum kerfum sem hér eru til umræðu. Áður hafa komið fram áhyggjur af samþjöppun en til þess að tryggja að aflahlutdeildin verði dreifð innan staðbundinna veiðisvæða þá er lagt hér til að sett verði 2% hámarksaflahlutdeild og væri hægt að hugsa sér út frá þeirri töflu sem hér er lögð til grundvallar, sem er svona nokkurs konar viðmið, að það mætti skoða hvort sú tala sé of há en ég treysti hv. atvinnuveganefnd vel til að fara yfir það.



[22:38]
Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Þessi ræða og andsvör hæstv. ráðherra fá mig til að spyrja hæstv. ráðherra: Við hvern ráðfærði hún sig þegar hún lagði þetta frumvarp fram? Ráðfærði hún sig við Landssamband smábátaeigenda? Fékk hún þar þá skýringu að hún væri eitthvað að auðvelda nýliðun. Auðvitað er það ekki þannig. Það er alveg borðleggjandi að hún er að búa til, hún er að einkavæða grásleppuna og gera þetta framseljanlegt. Hingað til hafa þessi hámörk eða kvótaþröskuldar ekki haldið og ekki einu sinni, frú forseti, þegar komið er að úthlutun byggðakvótans. Það er bara úthlutað jafnvel til fyrirtækja sem eru komin upp fyrir kvótaþakið eins og ekkert sé. Þannig að það að bera það á borð og telja fólki trú um að það sé eitthvað sannleikanum samkvæmt og í raun og veru sé verið að auðvelda nýliðun, það er bara ekki þannig. Það er langt, langt frá því. Það væri áhugavert hvort hæstv. ráðherra hafi t.d. ráðfært sig við einn fremsta vísindamann landsins og hvort hann styðji þetta frumvarp á sviði grásleppurannsókna.

Þá vil ég nefna hér hv. þm. Bjarna Jónsson til sögunnar: Styður hann þetta frumvarp? Ég tel svo varla geta verið. Er það svo? Mér finnst það með ólíkindum að heill þingflokkur geti verið hér á síðasta kjörtímabili að berjast gegn máli og komið svo hér með það í einhverjum hálfgerðum felubúningi eða með einhverjum fegrunaraðgerðum sem ekki halda neinu, að leggja það á borðið og ætla að lögfesta það. Þetta er bara stórundarlegt. Þess vegna ítreka ég spurningu mína, frú forseti: Við hverja ráðfærði hæstv. ráðherra sig? Því að hefði hún ráðfært sig við Landssamband smábátaeigenda væri hún ekki að vaða þá villu sem hún er að gera hér.



[22:40]
matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég stend nú ekki hér sem ráðherra neins tiltekins hagsmunahóps þó að hv. þingmaður telji svo vera, hvorki lítilla né stórra hagsmunaaðila, heldur er hér um að ræða viðbrögð, eins og fram kemur í rökstuðningnum í greinargerðinni, við ákalli um að koma betri stýringu á veiðar á grásleppu. Þetta mál er ekki sama mál og hér hefur áður komið fram, (SigurjÞ: Er það …)það er algerlega á hreinu. Hér er allt annað mál á ferðinni og ég bið hv. þingmann, svona til tilbreytingar, að halda sig við staðreyndir máls og það gæti verið áhugavert fyrir hann að gera það. Það eru kannski atriði hér í frumvarpinu sem fara fram hjá hv. þingmanni og mér finnst það ekki ólíklegt þar sem hann hefur m.a. ekki lesið hér ágætan kafla í greinargerðinni um stjórnskipuleg álitamál sem hann hefur ekki náð að kynna sér áður en hann fór í andsvör og í sérstakar athugasemdir við annars ágæta fundarstjórn forseta.



[22:42]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Það skal engan undra að svona mál sé umdeilt. Í hugum margra er þetta það stórt mál, þegar verið er að einkavæða sameiginlegar auðlindir, að það nístir í hjarta fólks. Fyrir mér er þetta bara álíka og við værum að ræða hér inngöngu í Evrópusambandið. Og vegna hvers? Vegna þess að við erum búin að ganga í gegnum afleiðingar af kvótasetningu og ég sem Vestfirðingur hef horft upp á byggðirnar hrörna í kjölfar kvótasetningar og framsals. Þess vegna taldi ég að við værum komin á þann stað að við myndum telja að sá hluti sem er eftir ókvótasettur með framsali, að við gætum nýtt hann til að styðja við frelsi í atvinnugreininni innan ákveðinna marka.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra, sem ég veit að vill vel í málum varðandi byggðir landsins og möguleika manna á að sækja sjó: Á hvaða félagslegum og umhverfislegum rannsóknum byggir hæstv. ráðherra þessa kvótasetningu á hrognkelsum sem styður við hugtakið sjálfbærni, sem kom fram í greinargerðinni og stendur auðvitað fyrir umhverfislega þætti og efnahagslega og líka samfélagslega þætti? Hefur það eitthvað verið rannsakað hvaða hugsanlegar afleiðingar sú samþjöppun sem mun fara af stað mun hafa? Við þekkjum bara hvernig það hefur verið, bæði í krókaaflamarkskerfinu og aflamarkskerfinu, hvaða byggðaáhrif verða í kjölfarið. Þegar við gerðum þessar breytingar á strandveiðum á síðasta kjörtímabili tók það þrjú ár með alls kyns rannsóknum og tilraunum og með Byggðastofnun með í ráðum. Mig langar að vita hvaða rannsóknir hafa nú farið fram.



[22:44]
matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni athugasemdirnar og vangavelturnar hér. Ég vil nú í fyrsta lagi gera athugasemdir við það orðalag að hér sé um að ræða einkavæðingu á heimildum. Hér er verið að ræða um breytingar á stjórnun. Það er ekki þannig að ríkið hafi átt þessar heimildir og síðan séu þær núna komnar með þessum breytingum í hendur einkaaðila. (SigurjÞ: Nú?)Það eru fjölmargir grásleppusjómenn, virðulegi forseti, sem hafa lýst því í umsögnum um frumvarpið hvernig það skiptir máli að gera veiðistjórnina markvissari og ég nefndi um þetta allnokkur dæmi í framsögunni. Viðleitni til að koma til móts við áhyggjur sérstaklega af byggðaáhrifum kemur fram í þeim áherslum sem birtast í frumvarpinu sjálfu sem lúta að því að binda heimildir við staðbundin veiðisvæði. Til þess að koma í veg fyrir samþjöppun þá er rætt um tiltekin hámörk. Þannig að það er verulega ákveðið verið að stíga þau skref að bregðast við þeim áhyggjum sem áður hafa komið fram varðandi hlutdeildarsetningu á grásleppu en þó að koma til móts við þau sjónarmið sem ítrekað hafa komið fram, ekki síst frá grásleppusjómönnum sjálfum, að það þurfi að bæta verulega veiðistjórnina á þessari tegund.



[22:46]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Það hafa sem sagt engar rannsóknir farið fram og þykir mér það slæmt. Auðvitað telst þetta einkavæðing því að þetta er erfanlegt og þess vegna tel ég þetta vera einkavæðingu. Það er góður vilji í því að svæðaskipta og að innan ákveðins svæðis megi ekki vera eignarhluti nema upp á 2%. En því miður hefur það ekki haldið vatni hingað til í stóra kvótakerfinu, þetta þak, og við vitum hvernig það er og ég sé það ekki fyrir mér hvernig það heldur þarna. Þó að það væru þessi 2% færi fjöldi báta úr 400 niður í 50 og samþjöppun yrði auðvitað bara gífurleg.

Mig langar kannski aðeins að heyra frá hæstv. ráðherra hvernig hún skilgreinir nýliðun. Hver verður nýliðunin? Hver er skilgreiningin á nýliðun? Eru það þeir sem hafa keypt sér útbúnað til grásleppuveiða á síðustu þremur árum og eru að byrja og fá svo lítið úthlutað að þeir munu aldrei geta haft hag af því að veiða því að það stæði ekki undir sér? Eru það þeir eða einhverjir sem aldrei hafa farið á sjó? Þetta er auðvitað fallegt orð, nýliðun, en í þessari grein í dag hefur það akkúrat verið einn af möguleikunum til nýliðunar að menn hafa bæði getað stundað grásleppuveiðar plús strandveiðar og samlegðaráhrifin hafa verið sú nýliðun sem hefur verið í fiskveiðistjórnarkerfinu í dag. Með því að brjóta þetta svona upp þá spyr maður sig: Verða strandveiðarnar næst, með nýjum sjávarútvegsráðherra sem, þegar búið er að varða leiðina á þennan veg — að það sé þægilegra fyrir Fiskistofu að sjá þetta allt betur fyrir en verra fyrir byggðir landsins sem munu bera skarðan hlut frá borði?



[22:48]
matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég held að þau sjónarmið sem koma fram í spurningum og vangaveltum hv. þingmanns séu þess eðlis að það sé full ástæða til að fjalla um það sérstaklega í nefndinni. En ég vil fullvissa hv. þingmann um að það ákvæði hér sem fjallar sérstaklega um nýliðun byggir ekki síst á umsögnum til Alþingis við fyrra frumvarp og þeirri umfjöllun sem þar var. Það hefur komið fram að nýliðun hingað til hefur ekki verið mikil þrátt fyrir að kostnaður í núverandi kerfi sé ekki mikill ef menn hafa áhuga á því að hefja grásleppuveiðar. Með því að setja skipum aflahlutdeild í grásleppu má velta því upp að aukin hagkvæmni næðist við veiðarnar og þar með kunni að vera mikilvægt í ljósi þessa að heimilt sé að draga 5,3% frá heildarafla til nýliða sem eru að hefja grásleppuveiðar í fyrsta skipti.

Af því að hv. þingmaður veltir fyrir sér hvort þetta mál snúist um eitthvað annað eða um einhvers konar aðdraganda að breytingum á strandveiðikerfinu þá vil ég fullvissa hv. þingmann um að þetta þingmál hér fjallar bara um það sem í því stendur en ekki um önnur sjónarmið eða önnur álitamál. Raunar er sérstaklega fjallað um strandveiðar í umfjöllun um Auðlindina okkar, stóra stefnumótunarverkefnið sem er í gangi, og í skoðanakönnun sem birt var nú á dögunum kom fram að samfélagið allt, þjóðin, er sammála okkur, mér og hv. þingmanni, um það að strandveiðikerfið beri að efla.



[22:51]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Það er oft með svona stór og mikil mál að þau hafa alls kyns hliðaráhrif. Þó að það sé hægt að segja að þetta mál eitt og sér sé bara nákvæmlega eins og það lítur út þá er það oftar en ekki sem ein þúfa getur velt þungu hlassi og haft áhrif á annað. Þetta er bara púsl sem er orðið 5,3% í þessum litla hluta í félagslega kerfinu sem Vinstri græn hafa haft að stefnu sinni að auka á einhverju tímabili í 8,3%. Ég hefði gjarnan viljað sjá að því máli hefði verið fylgt eftir í raun, eða þetta mál og það mál hefðu þá bæði verið undir í þeirri skoðun sem er í gangi núna en ekki verið að plokka eitthvað eitt og eitt út, því að þetta er allt samspil þarna á milli. Þegar menn fara hugsanlega að selja frá sér kvóta í grásleppu vegna þess að magnið sem þeir fá við úthlutun er það lítið að það ber sig ekki að gera út þá mun sá hluti reyna að halda áfram með einhverjum hætti og fara inn í strandveiðikerfið sem mun þá bólgna enn frekar út og ekki geta staðið undir sér sem slíkt miðað við þær heimildir sem eru í dag.

Ég ætla að halda áfram að rökstyðja þetta mál enn frekar og hef sagt það og segi það hér að ekkert í stjórnarsáttmálanum kveður á um kvótasetningu í fiskveiðistjórnarkerfinu og þess vegna er ég ósátt við að það sé búið að kvótasetja sandkola og hryggleysingja nú þegar með framsali. En það er búið og gert. Ég hef ekki séð rökstuðning fyrir því að það þurfi. Það hefur oft verið rætt um að lagfæra þetta sóknardagakerfi og komið með góðar ábendingar í þeim efnum af ýmsum þeim sem hafa stundað hrognkelsaveiðar til fjölda ára og líka Landssambandi smábátaeigenda. Þessi kvótasetning mun að mínu mati, og þeirra sem þekkja reynsluna og vita að þetta gerist mjög hratt, breytast í mikla samþjöppun á stuttum tíma. Stærri fyrirtækin eru að kaupa upp minni útgerðir mjög hratt í dag en það getur enginn stýrt því og menn geta stofnað útgerðir á kennitölu á öllum svæðum og hafið útgerð. Ég man eftir því þegar maður var yngri og var að horfa upp á skipin fara, þá var sett inni í fermingarsáttmálann, eins og maður kallaði það, að sveitarfélögin ættu forkaupsrétt, sem auðvitað hélt ekki neinu því að sveitarfélögin höfðu ekkert efni á því að nýta sér hann og allt þjappaðist þetta saman og við vitum hvernig staðan er í dag.

Á undanförnum árum, utan eins, hafa veiðar á grásleppu ekki náð ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um heildarafla og úr þessu má einmitt lesa að ekki er þörf á að kvótasetja grásleppu þar sem ekki er um ofveiði að ræða og engin fiskifræðileg rök fyrir því, heldur þarf að hafa vakandi auga yfir núverandi kerfi og hlusta á þá sem eru í greininni sem eru bara ekki að bíða eftir að fá fjármuni og fénýtingu út úr þessu og eru komnir á þennan stað að ætla að hætta hvort sem er. Auðvitað þiggja þeir að fá fjármuni sem annars hefðu ekki orðið, að geta selt næsta manni kvóta í grásleppu. Sumir hafa haldið að sér höndum að selja og þess vegna kannski hefur ekki verið nýliðun vegna þess að menn hafa verið með þetta hangandi yfir sér að kannski yrði grásleppan kvótasett. En veruleikinn er sá að ef kvótasetning verður að lögum þá mun þessi kvóti ganga í erfðir og verður auðvitað góð söluvara fyrir útvalda og valdasamþjöppun. Og það er fjöldi aðila sem eru búnir að fjárfesta á undanförnum fáum árum í búnaði til hrognkelsaveiða og myndu fá lítinn kvóta núna ef þetta yrði kvótasett og þeir myndu bara fara mjög illa út úr þessu og þeir eru nýliðar og það er bara á mörgum stöðum sem sú staða er uppi og hefur maður heyrt frá mörgum aðilum sem eru í þeirri stöðu.

Það er auðvitað bara góður vilji að segja að 2% kvótaþak og svæðaskipting muni verða til þess að þetta muni allt vera innan ákveðinna marka og ekki fara út af svæðinu og komandi kynslóðir geti nýtt sér að stunda grásleppuveiðar eins og forfeður þeirra. En útgerðir hingað til hafa ekki verið nein börn að leika sér við varðandi það að finna ótal leiðir til að fara fram hjá alls konar girðingum og þökum, og kennitöluflakk á raunverulega eigendur og allt þetta og krosseignatengsl, við þekkjum þetta allt sem erum ekki alveg fædd í gær. Þetta er bara víti til að varast. Þar sem ég kem úr því þorpi þar sem Verbúðin var tekin og meira að segja að hluta til í mínu húsi og annað, þá vil ég bara minna á það flotta verk sem var spegilmynd af þeim tíma. Það væri ekki gaman að lenda í þriðju útgáfunni af Verbúðinni með þetta. Þó að þetta sé í smærri stíl skiptir þetta vissulega máli.

Við munum að núverandi strandveiðikerfi var sett á fót af Vinstri grænum í kjölfar álits mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um atvinnufrelsi og þá var talað um að það atvinnufrelsi næði líka til þess að stunda hrognkelsaveiðar. Menn hafa talið sér trú um það og ég hef skilið marga eldri grásleppukarla þannig að þingmenn hér áður fyrr hafi riðið um héruð og fullyrt það. Hrognkelsaveiðar eru því vissulega hluti af félagslega kerfinu svokallaða í fiskveiðistjórnarkerfinu sem við Vinstri græn viljum efla og stækka. Ég heyri að hæstv. ráðherra er á þeirri línu en ég held að hún þurfi að breyta um kúrs til að komast á þann stað að við getum nýtt það sem er fyrir og er til staðar en ekki að þjappa því áfram á sama stað og stóra kerfið er, með tilheyrandi kvótabraski sem myndi byrja á fullu. Ég er vissulega hrædd við það þó að þetta sé ekki frumvarp um strandveiðar eða svæðaskiptingu eða annað sem er núna til umfjöllunar á Alþingi, það er bara verið að gefa samt ákveðið fordæmi sem er hættulegt. Við vitum aldrei hvaða ríkisstjórn kemst til valda við næstu kosningar. Við höfum ekki hugmynd um það. Þess vegna megum við ekki spila boltann þannig að hann verði til þess að auðvelda hugsanlega kvótasinnuðum nýjum sjávarútvegsráðherra eða matvælaráðherra leikinn að halda áfram að kvótasetja af því að það er auðvitað svo miklu þægilegra fyrir alla strandveiðisjómenn að vita nákvæmlega hvað þeir mættu veiða og þægindi fyrir Fiskistofu og alla að allir vissu nákvæmlega hvað þeir ættu og líka hvað þeir ættu ef þeir seldu sig út úr greininni og gætu lagt þetta á bók hjá sér. En það væru kannski fáir sem hefðu efni á að kaupa af þeim nema þeir efnameiri.

Ég vona bara að menn endurskoði þetta nú í fullri alvöru. Ég las allar umsagnir í samráðsgáttinni um þessi mál og þar eru margir sem bara hrópa húrra yfir því, loksins, loksins, en það eru líka margar mjög vel rökstuddar umsagnir þarna um þveröfugt. Þá eru menn ekki að hugsa um sjálfa sig og að fá einhvern aur í kassann þegar þeir hætta í atvinnulífinu heldur eru þeir að hugsa um afkomendur sína, komandi kynslóðir og litlu þorpin og byggðirnar, og líka sveitirnar, því það er auðvitað víða til sveita sem bændur hafa stundað hrognkelsaveiðar til að drýgja tekjur í búskapnum. Einhvern tímann var sagt úr þessum ræðustól að hvert bóndabýli sem lægi að sjó ætti að hafa eitt strandveiðileyfi, eða getað stundað hrognkelsaveiðar eins og þau hafa gert um aldir.

Það var mjög ánægjulegt að heyra þessa könnun sem Félagsvísindastofnun gerði fyrir Auðlindina, bara hve gífurlegur stuðningur er við þann hluta félagslega kerfisins sem er þó til staðar í dag og að það séu yfir 72% sem vilja hækka hlutfall til strandveiða. En það skiptir líka máli að þetta samspil veiða á grásleppu og strandveiða og þá að byggðakvótinn nýtist í raun á þessum svæðum sem hann var ætlaður en renni ekki af fullum krafti til þessara stóru sem eiga nóga fjármuni, aðgengi að lánastofnunum og er ekkert mál fyrir að fjármagna, að kaupa af næsta manni og gera út á fleiri kennitölur og fara alls konar krókaleiðir til að fóðra það með öllum hætti. Og þó að maður vilji alltaf trúa því besta upp á manneskjuna þá vitum við að það eru auðvitað bara sérfræðingar á hverju strái sem hafa farið fram hjá eða fundið leiðir til þess að gera eitthvað löglegt sem er kannski siðlaust.

Ég vil bara brýna hæstv. ráðherra, sem ég veit að vill vel í þessum málum, til að skoða þetta því að það er engin skömm að því að endurskoða hlutina og það þarf oft að gera það í stórum og miklum málum því að þetta er stórt og mikið mál. Þó að stór hluti þjóðarinnar sé kannski ekki algerlega með það á hreinu hvað þarna er undir og hvað er verið að gera þá er þetta prinsippmál sem við Vinstri græn höfum vonandi áfram og viljum að sé sameiginleg auðlind þjóðarinnar en gangi ekki í erfðir með þeim hætti sem væri ef þetta yrði samþykkt óbreytt.



[23:03]
Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Fyrst vil ég byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Það er auðvitað ekki létt, gæti ég trúað, fyrir hv. þingmann að koma hingað upp og vera svo berorð og gagnrýnin á hæstv. matvælaráðherra en það er sannarlega tilefni til þess. Hún kom hérna fram af hugrekki og hreinskilni og þetta hefur örugglega ekki verið létt verk en nauðsyn krafðist þess því að með þessu frumvarpi er þingflokkur Vinstri grænna að stuðla að einkavæðingu atvinnuréttarins vítt og breitt um landið og það er auðvitað grafalvarlegt og það er rétt að spyrja hvers vegna svo sé. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvað telur hún að hafi gerst? Telur hún að þessi samvera með Sjálfstæðisflokknum hafi orðið til þess að flokkurinn sé farinn að færast svona örugglega og hratt í það að einkavæða allt hvað eina eða hvað hefur gerst hjá Vinstri grænum? Svo er annað sem ég sé hér, þegar maður horfir yfir hóp hv. þingmanna Vinstri grænna, að það virðist vera eins og það sé einhver meðvirkni í gangi, að menn séu bara komnir í það að verja hvað sem er ef ráðherrann leggur það á borð og jafnvel einkavæðingu á auðlindum þjóðarinnar. Þess vegna væri áhugavert að fá örfá orð um það hvað gæti mögulega verið hér á ferðinni. En það er mjög undarlegt að fylgjast með þessu sem er í gangi.



[23:05]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég get auðvitað ekki greint það. Þó að ég sé orðin 65 ára þá hef ég ekki spákonuna alveg fullkomna í mér eða get lesið í kúlu hvað hefur nákvæmlega gerst. En ég held að kannski sé þetta þannig að menn eru svolítið að taka við ákveðnu búi og eitthvað liggur líka stundum fyrir í ráðuneytum eins og við þekkjum, hvort sem er í þessu ráðuneyti eða öðrum, og menn vilja lagfæra það eitthvað og telja að það sé búið að gera bragarbót á því. En ég tel að um svona mál eigi, hjá flokki eins og okkar, Vinstri grænum, að taka góða almenna umræðu. Það var góð loftslagsráðstefna sem hafði gott orð á sér hérna um daginn og mér hefði fundist að það hefði þurft að hafa bara ráðstefnu og panel og ræða þessi mál, hvað væri best, og fá að borðinu sérfræðinga og lærða sem leikna í þeim málum, sjómenn og aðra, og rökræða þetta. Hvað stendur upp úr, hver er þörfin? Getum við lagfært núverandi kerfi og gert það betra án þess að það gangi bara út á fénýtingu? Ég hefði gjarnan viljað sjá slíkar rökræður og meiri rannsóknir á umhverfismálum og því hvernig hrognkelsin haga sér, við eigum sérfræðinga í því eins og hjá Biopol á Skagaströnd og fleiri innan Hafró, og fara dýpra í þetta áður en við stökkvum á eitthvað svona sem getur valdið skaða til framtíðar. Það er svo erfitt að snúa aftur. Við vitum að það er ekki fræðilegur möguleiki, liggur við, að snúa ofan af kvótakerfinu í dag með framsali þó að það hafi verið reynt hérna 2009–2013.



[23:07]
Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég get alveg fallist á að það hefði þurft dýpra samtal um það sem er í gangi. Það sem ég tel að geti verið orsökin fyrir þessu er að hæstv. ráðherra sé of einangraður með sínu liði í ráðuneytinu í stað þess að taka umræðuna víðar. Þegar maður fær það framan í sig hvað eftir annað í andsvörum að hún sé ekki í neinu samtali við Landssamband smábátaeigenda þá tel ég að þetta vandræðamál sem er komið hér, og þingflokkur Vinstri grænna situr uppi með að styðja, hefði ekki komið til ef menn hefðu farið í dýpri umræðu og fengið víðari sjónarmið. Nema þá hitt, ég er stundum farinn að efast um það, sem hv. þingmaður trúir, að hæstv. ráðherra vilji eitthvað auka þennan félagslega þátt. Vissulega flutti þingflokkurinn hér þingsályktunartillögu á haustdögum, allur sem einn að undanskildum ráðherrum, um að þau vildu auka félagslega pottinn í 8,3%. En sú tillaga virðist hafa dagað uppi og hefur ekkert verið hér til umræðu meira. Nú erum við stödd í seinni hluta apríl og það er ekki kominn neinn botn í strandveiðarnar enn þá. Svo horfa menn líka upp á það að sveigjanleiki er varla til staðar þegar komið er að strandveiðunum og smáseiðunum í útgerð. En það er uppi allt annað sjónarmið þegar komið er að þeim stóru sem eru jafnvel komnir upp fyrir kvótaþakið. Þá er eins og að það sé ekki verið að herða það neitt. Þannig að ég er farinn að efast um það að hæstv. ráðherra vilji eitthvað auka þennan félagslega þátt í raun og sann (Forseti hringir.) af því að hún hefur notað sín tækifæri og sín frumvörp miklu frekar til að herða kvótahnútinn í stað þess að losa um hann.



[23:10]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þekki nú hæstv. ráðherra, Svandísi Svavarsdóttir, bara að góðu og ég veit að hún vill vel þó að alla geti greint á um leiðir. Ég veit að hún er skynsöm og vill skoða hlutina frá öllum hliðum. Ég efast ekkert um að hún sé ekki búin að loka öllum dyrum, ég trúi ekki öðru, og hún sé tilbúin að skoða þessi mál áfram. Á síðasta kjörtímabili kippti síðasti ráðherra í þessum ráðherrastól til sín málinu sem var eiginlega hálfklárað í atvinnuveganefnd og breytti því og bætti og lagði það svo aftur fram og það var afgreitt, svo að það er allt til í þessum málum og enginn þarf að ganga með veggjum þó að menn endurskoði ýmis mál. Til þess er nú Alþingi, að velta vöngum yfir hlutum og fá umsagnir og hlusta á það sem þar er og vega það og meta. En það eru ýmsar leiðir til. Mér skilst að t.d. í Grænlandi sé stýring veiða eitthvað á þann veg að hvert svæði hefur X fjölda báta á hrognkelsaveiðum og þar er mismunandi veiði eftir svæðum. Í Noregi er mikill nýliðastuðningur og hvati. Ég er hrædd um að nýliðastuðningurinn sé of lítill sem hérna er lagður til miðað við það að síðan þurfa menn að kaupa af öðrum til þess að útgerðin beri sig sem þeir þurftu ekki áður og vera kannski á einhverjum nýliðastuðningi í mörg ár og það bara stendur ekki undir sér í veruleikanum og þess vegna gefast þeir upp. En við skulum vona það besta í þessum málum og ég trúi ekki öðru en að þetta verði skoðað jafnt í atvinnuveganefnd sem og hjá hæstv. ráðherra.



[23:12]
Gísli Rafn Ólafsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Við allar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða er mikilvægt að hafa það grundvallarstef í huga að líta ber á sjávarauðlindina sem sameiginlega og ævarandi eign íslensku þjóðarinnar. Í íslenska aflamarkskerfinu, eins og það er skilgreint í lögum um stjórn fiskveiða, felst takmörkun á þessum rétti þjóðarinnar þar sem aflaheimildum er úthlutað með hætti sem færir fáum aðilum langvarandi eignarráð yfir sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar og heimild til ráðstöfunar á þeim. Engu að síður er núverandi kerfi það sem íslenska þjóðin býr við og mikilvægt að gæta þess að öll lagasetning byggist á þeim raunveruleika sem núverandi lagaumhverfi býður upp á.

Í frumvarpinu er lagt til að aflahlutdeild í grásleppu verði afmörkuð nánar. Mál þetta hefur áður verið til meðferðar og var m.a. á 151. löggjafarþingi en varð ekki útrætt þar. Á 152. löggjafarþingi voru felld út ákvæði er varða hlutdeildarsetningu grásleppu þegar flutt var frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða sem sneri að veiðistjórn sandkola og hryggleysingja. Þegar væntingar eru til þess að slík kvótasetning kunni að fara fram skapar það hvata til kappveiða þar sem veiðimenn keppast við að ná veiðireynslu sem verði grundvöllur til kvótaúthlutunar. Slíkt er afar óheppilegt, bæði fyrir sjómenn sem leggja á sig aukna vinnu og aukna slysahættu og einnig fyrir nytjastofninn sjálfan. Mikilvægt er að hugað verði að því hvernig megi draga úr kappveiðum meðan ráðherra hefur aflahlutdeildarsetningu í undirbúningi.

Grundvallaratriði við fiskveiðistjórn er að viðhöfð sé vísindaleg stjórn á því hvaða veiði er heimiluð og hvernig aflahlutdeild er úthlutað. Það er nauðsynlegt að vernda nytjastofna við Íslandsstrendur, stuðla að sjálfbærum veiðum og standa vörð um atvinnu þeirra sem stunda veiðar. Við útvíkkun kvótakerfisins vakna þó spurningar um grundvöll kerfisins sem byggt er á. Það er óumdeilt að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi, þar sem aflahlutdeild er úthlutað á grundvelli veiðireynslu og þar sem framsal aflahlutdeildar er heimilað, hefur leitt til þess að yfirráð yfir sjávarauðlindum landsins hafa safnast á fáar hendur. Fáir aðilar hafa nú mikil yfirráð í íslenskum sjávarútvegi og njóta þeirra takmörkuðu eignarréttinda sem aflahlutdeild fylgir, sem er þó ekki takmarkaðri en svo að þeir geta nokkurn veginn gengið að nýtingu hennar vissri um ókomna tíð. Hagnýting auðlindanna er þar með orðin nokkurs konar einkamál þessarar konungsfjölskyldu íslenska fiskveiðistjórnarkerfisins. Það að færa fleiri nytjastofna undir þetta sama kerfi mun að lokum leiða til sömu samþjöppunar og sést hefur í öðrum nytjastofnum.

Um þá aðferð að úthluta aflahlutdeild á grundvelli veiðireynslu má segja að hún verðlauni frumkvöðla innan greinarinnar og þá sem hafa lagt á sig vinnu við að útfæra nýjar aðferðir til að veiða og til nýtingar á nytjastofnum. Það er jákvæður hvati sem er mikilvægur í hvers konar nýsköpunarumhverfi. Á hinn bóginn verður að líta til þess að slíkt kann að torvelda nýliðun í greininni seinna, jafnframt því sem það býr til mjög óæskilega hvata við veiðar á tegundum sem ekki hafa enn verið kvótasettar.

Það sem er þó alvarlegast við núverandi kerfi um úthlutun aflahlutdeildar er eflaust að í því felst gjöf á því sem er í raun varanleg nýtingarheimild á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, sem hefur mjög mikið fjárhagslegt verðmæti, án nokkurs endurgjalds. Útgerðir greiða árlega veiðigjöld fyrir nýtingu hvers árs í sumum nytjastofnum en ekkert gjald er innheimt fyrir upprunalegu kvótaúthlutunina sem stríðir gegn þeirri grundvallarhugmynd að auðlindir lands og sjávar séu sameign þjóðarinnar.

Markmið laga um stjórn fiskveiða er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu fiskstofna og að tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Frumvarpið gengur þvert á markmið laganna um vernd fiskstofna, almannahag og byggðasjónarmið og snýr frekar að því að útvíkka núverandi fiskveiðistjórnarkerfi sem hefur sætt vaxandi gagnrýni almennings um árabil og í nýlegri könnun kom í ljós að 80% telja það ekki sanngjarnt kerfi.

Kvótakerfið er mannanna verk og ekki meitlað í stein. Við alla endurskoðun, breytingu eða útvíkkun á því verða hlutaðeigandi að þora að spyrja sig hvort kerfið þjóni heildarhagsmunum þjóðarinnar. Ef svo er ekki verða stjórnmálamenn að hafa til þess þor og hugrekki að gera þær breytingar á kerfinu sem þörf er á. Það er því mjög mikilvægt að við áttum okkur á því að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi þjónar ekki heildarhagsmunum þjóðarinnar og að breytingar í þessa átt munu einungis auka misskiptingu í íslensku samfélagi.



[23:20]
Sigurjón Þórðarson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Þetta er sorglegur dagur að mörgu leyti fyrir atvinnufrelsi í landinu og það er líka sorgardagur í rauninni fyrir Vinstri græn í þessu máli og hvað varðar stjórn fiskveiða. Við erum nýbúin að fá könnun í andlitið sem segir okkur að 70% þjóðarinnar telji að kvótakerfið sé spillt. Í stað þess að taka þá umræðu hreinskilnislega og vinda ofan af þessu þá er miklu frekar farin sú leið að herða á spillingunni, vil ég telja það, herða á kerfinu. Það finnst mér vera stórundarlegt val en látum það vera.

Það sem ég sakna hér í dag er að litlu frelsisálfarnir í Sjálfstæðisflokknum taki til máls og standi með okkur í Flokki fólksins og Pírötum gegn þessu frumvarpi vegna þess að það er verið að leggja hér á óþarfa atvinnuhöft, algerlega óþörf. Mér finnst að þeir ættu að láta sjá sig og taka til máls í umræðu sem snýr að atvinnufrelsinu en ekki einskorða sitt frelsi við brennivín í búðir eða að lækka áfengiskaupaaldurinn og allt það. Þetta tel ég vera miklu veglegra málefni að berjast fyrir en það.

Síðan sakna ég þess að okkar ágætu vinir í Framsóknarflokknum láti sjá sig því það er alveg óumdeilt að þetta mál snertir hinar dreifðu byggðir. Einhvern veginn hafa þeir komið því inn í kollinn á mörgum að þeir séu talsmenn hinna dreifðu byggða þó svo að þar sem þeir ráða og hafa ráðið hafi frekar hallað á ógæfuhliðina en hitt. Þetta er einmitt mál sem snýr atvinnufrelsi og með því að samþykkja þetta frumvarp er verið að takmarka möguleika þessara byggða, unga fólksins í byggðunum, á að hefja vinnu og taka til hendinni, þannig að ég sakna þeirra.

En furðulegast af öllu er að horfa upp á Vinstri græn, vini mína í Vinstri grænum. Mér finnst leiðinlegt að sjá á hvaða vegferð sá ágæti flokkur er, að hann sé kominn hér í að einkavæða og herða á kvótakerfinu í stað þess að fara þá leið að losa um þá hnúta sem er búið að binda. Nei, nei, það er miklu frekar farin sú leið að herða og ég vil spyrja: Er eitthvað í stefnu flokksins sem varð þess valdandi? Nú hef ég lesið bæði samþykktir nýs flokksþings sem fór fram í síðasta mánuði og þess sem var tveimur árum þar á undan. Þar er ekkert sem bendir til þess að það sé vilji flokksmanna að fara þessa leið og einkavæða grásleppuna. Það er ekki heldur að sjá að það hafi verið stefna þingflokksins á síðasta kjörtímabili en nú erum við allt í einu komin þá leið og auðvitað eru þá þingmenn sem voru hér á síðasta kjörtímabili alveg undrandi.

Hvað gerðist? Hvers vegna er flokkurinn kominn í þessa stöðu? Er það samveran með Sjálfstæðisflokknum sem hefur orðið til þess? Eða hvað er það? Það er ekkert sem kom fram hér í ræðu hæstv. ráðherra sem benti til þess að það væru einhverjir almannahagsmunir í veði og einhver þörf á þessu. Það var eitthvað talað um að það myndi minnka meðafla. Það er alveg fráleitt, frú forseti. Það er fráleitt að einhver hnísa flækist síður í net ef það er komið með nýtt kerfi, framseljanlegt einkavætt kerfi. Getur einhver í þingflokki Vinstri grænna komið með einhverja skýringu á því hvers vegna þetta ætti að leiða til minni meðafla? Það eru leiðir til þess að minnka meðafla og gera þessa atvinnugrein arðvænlegri. Auðvitað hefði verið skynsamlegast að opna þá viðræður við Landssamband smábátaeigenda en það er eins og ráðherra vilji bara ekkert við þá fulltrúa greinarinnar ræða. Þá hefði verið hægt að komast hjá þessari vitleysu sem er í gangi og einnig þá að koma óorði á flokkinn.

Frú forseti. Það sem kom fram í ræðu hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur varðandi Verbúðina fékk mig til að hugsa hvort við værum að skrifa hér enn einn kafla í kvöld í Verbúðinni, að nú væri róttæki vinstri flokkurinn, umhverfisflokkurinn, kominn í þá vegferð að einkavæða enn eina fisktegund, og það bara á einhverjum furðulegum forsendum, einhverjum misskilningi, tel ég vera. Misskilningurinn er m.a. að það virðist ekki vera rætt við nokkurn mann og ég fékk ekki heldur á hreint frá hæstv. ráðherra hvort hún hefði rætt við helsta sérfræðing þjóðarinnar í grásleppu sem er að finna í þingflokknum sjálfum. Var rætt við hann og er hann samþykkur þessu frumvarpi? Ég leyfi ég mér að efast um að svo sé vegna þess að það er það götótt og hvílir á svo veikum grunni að það heldur varla vatni. Það er í rauninni alveg furðulegt að bera það á borð.

Auðvitað eru einhverjir í samfélaginu sem hafa yfir einhverri aflareynslu að ráða sem vilja fá gefins hjá ráðherranum og hún virðist hafa bara hlustað á þá en út frá almannahagsmunum og líffræðilega er hér verið að nota mjög hæpnar forsendur. Jú, hæstv. ráðherra, ef marka má orð hans, sem ég hef hlýtt á, virðist trúa og játast undir allt sem kemur frá Hafró. Ég ítreka það hér úr þessum ræðustóli að það er margt gott sem kemur frá Hafró, en það er ekki einhver sannleikur heldur eru vísindi þannig að það á að efast og togast á um hlutina. Það er mjög hættuleg þróun sem hefur orðið á síðustu árum, það hefur orðið ákveðin einangrun á þeim sjónarmiðum og ráðgjöf og þau sem hafa verið svona andstæð — í staðinn fyrir að láta þau takast á þá hafa þau miklu frekar verið blásin út af borðinu.

Ég vil nú gera eitt hér, og ég vil að það sé tekið eftir því, ég ætla að hrósa hæstv. ráðherra fyrir eitt. Það má hún eiga að hún tók á fundinum í Auðlindinni okkar í vikunni inn gagnrýni á Hafró. Vissulega hefði mátt takast betur á þar um þau sjónarmið sem þar voru uppi og gefa því lengri tíma en það er þá leið fram á veginn. En þessi ráðgjöf sem hún ætlar að úthluta veiðiheimildum út á er mjög vafasöm, bæði aðferðafræðilega þar sem mælingar við botn eru notaðar til að meta stofnstærð fisks sem heldur sig að mestu í yfirborðinu. Það er beinlínis súrrealískt að ætla að gera það. Ráðgjöfin styðst við togararall, sem er þá stofnmæling botnfiska, til að mæla uppsjávarfiskinn grásleppu. Það er rétt að taka það fram að vegna þess að Hafró segir að mælingin sé ónákvæm þá taka þeir mælingu frá árinu áður til að leiðrétta mælingu ársins og búa til eitthvert meðaltal, 70%/30%. Það er alveg ljóst að þetta er ónákvæmt og þarf miklu frekar að skoða. Að ætla að úthluta framseljanlegum verðmætum á þessum forsendum er í rauninni óborganleg vitleysa líffræðilega. Líffræðilegar forsendur ráðgjafarinnar eru bara ekki til staðar. Ég hef lagt fram fyrirspurn í þinginu einmitt sem snýr bæði að líffræðinni og því sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir kom inn á, það eru þessi byggðasjónarmið. Ég tel mjög mikilvægt að þeim sé svarað og að Byggðastofnun fái þetta mál til umsagnar. Ég sé að hæstv. ráðherra er skemmt yfir því. Þetta er alvörumál, frú forseti. Það er alvörumál að fara að skerða enn möguleika dreifðra byggða að óþörfu og gera það hér á þessum forsendum. Líffræðilegu forsendurnar eru mjög takmarkaðar og það hefur ekkert komið fram hvort stór hrygningarstofn skili mikilli nýliðun seinna. Ég hef ekki séð það og ég hef spurst fyrir hjá Biopol og víðar og meira að segja hjá einum helsta sérfræðingi í grásleppurannsóknum, vísindamanninum Bjarna Jónssyni. Það hefur ekki komið neitt þar fram.

Ég tel að menn verði að staldra hérna við. Áhrifamenn í flokknum, og þá á ég ekki bara við hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur heldur líka leiðtoga Vinstri grænna í Skagafirði, hafa ritað greinar þar sem þeir hafa varað við og bent á að þetta geti einfaldlega raskað tilveru smábátaútgerðar. Ég held að menn verði að hugsa þetta betur og einfaldlega skoða þetta upp á nýtt, þingflokkur Vinstri grænna. Það fer auðvitað ekkert saman að vera að flytja frumvarp um að auka félagslega þáttinn í fiskveiðistjórnarkerfinu úr 5,3% í 8,3% og vera síðan hér að þvinga fram grásleppufrumvarp og einkavæðingu og koma í veg fyrir jafnræði um að nýta auðlindir landsins hér á vordögum. Það er eitthvað sem ég tel að Vinstri græn þurfi að skýra nánar.

Svo er rétt að huga að því að þetta er algjör óþarfi. Ef hæstv. ráðherra telur að það verði að fylgja ráðgjöfinni upp á punkt og prik þá er mjög auðvelt að fækka eða fjölga dögunum í byrjun vertíðar þegar menn sjá hvert stefnir. Ef það stefnir í að ráðgjöfin náist á örfáum vikum og þannig að það gangi ekki á að allir geti reynt sig og hafi einhvern sveigjanleika, eins ef bátar bila, þá er kannski allt í lagi að vera þar með sveigjanleika gagnvart þeim smáu í greininni og að Fiskistofa taki þau sjónarmið gild og leyfi mönnum þá að draga upp netin og halda þá áfram og nýta sína daga seinna. Það er hægt, hæstv. ráðherra, að vera með sveigjanleika, einnig gagnvart þeim smáa eins og þeim stóra. Það er eitthvað sem mætti komast framar í forgangsröðina. Eins og ég segi, þetta er mjög auðvelt.

Ég ætla að nota þessar fáu mínútur sem eftir eru til að gera þá tillögu að þetta mál verði skoðað upp á nýtt og skoðuð þá líka sú leið, í stað þess að fara þessa leið, að einkavæða og gera það framseljanlegt, með þeim miklu hörmungum sem það mun að öllum líkindum leiða af sér fyrir fámennar byggðir — þá er auðvelt að fara aðra leið, að feta þá leið að gera grásleppuveiðar arðvænlegri þannig að menn fái að fénýta meðafla og að menn séu ekki settir í þá stöðu vegna þröngs VS-afla sem má landa utan kvóta, að menn neyðist þá til að velja á milli þess að borga með sér í veiðiferðinni eða þá að henda. Ég held að það sé mjög auðvelt með sveigjanleika gagnvart þeim smáa að gera þetta að arðvænlegri veiðum með því að menn leyfi einfaldlega grásleppusjómönnum að fénýta meðafla. Þá væru menn ekki að standa í því að vera hér í einhverjum kostnaðarsömum njósnaaðgerðum gagnvart vinnandi fólki, vera hér með dróna á lofti og virkt veiðieftirlit með kíkjum og ég veit ekki hvað. Um leið og menn hafa ávinning af því að koma með fiskinn í landið þá mun sá afli skila sér. Þessi njósnastarfsemi, sem maður sér jafnvel að eigi að auka í fjármálaáætlun, er óþarfi. Það á miklu frekar að búa til sveigjanleika og ég skora á Vinstri græn að skoða þetta mál upp á nýtt með það fyrir augum að gera þessar veiðar arðvænlegri og sveigjanlegri þannig að menn komist hjá þessum óþarfa höftum og að draga flokkinn algerlega niður í svaðið.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til atvinnuvn.