153. löggjafarþing — 96. fundur
 19. apríl 2023.
misnotkun á lyfjagátt.

[15:25]
Bergþór Ólason (M):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Það bárust fréttir af því síðastliðna helgi og síðan fleiri í kjölfarið, fyrst í Morgunblaðinu og síðan m.a. í viðtali við forstjóra Persónuverndar í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær, að verið væri að skoða misnotkun á lyfjagátt með uppflettingum sem virðast vera gerðar í öðrum tilgangi en að höndla með lyf. Ef einhverjar upplýsingar eru taldar þeirrar gerðar að þær ættu að vera í sem mestu vari þá hljóta það að vera heilbrigðisupplýsingar og upplýsingar um lyfjaávísanir til fólks. Þarna virðist vera einhver misbrestur á.

Mig langar í þessu samhengi til að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort ráðherra þyki eðlilegt að Persónuvernd, þótt sú stofnun heyri ekki beint undir ráðherra, landlæknisembættið og Lyfjastofnun hafi vitað jafn lengi og raunin virðist vera af gallanum án þess að aðhafast. Ef viðlíka galli kæmi upp í kerfum sem einkaaðilar héldu utan um er hætt við að eftirlitskerfið hefði hrokkið af hjörunum.

Sömuleiðis langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort heilbrigðisráðuneytinu hafi verið kunnugt um vitneskju landlæknisembættisins, Lyfjastofnunar og Persónuverndar um þetta mál allar götur frá því að það kom upp um mitt síðasta ár, að því er virðist, og hefur ráðuneytið haft af því einhver afskipti hingað til?



[15:26]
heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir að taka þetta mál upp. Þetta er sérstakt mál. Ég get alveg sagt það hér strax að mér var ekki kunnugt um að þessi glufa væri til staðar, ekki fyrr en ég sá þetta í fréttum eins og hv. þingmaður. Mér finnst full ástæða fyrir Persónuvernd að gera athugasemdir við það, en það var reyndar ekki hluti af spurningunni. Mér finnst full ástæða til að kanna þetta mál og hvað það er sem þarf að gera til þess hreinlega að koma í veg fyrir þetta. Mér finnst þetta sérstakt og þetta er auðvitað á borði þeirra stofnana sem hv. þingmaður nefndi og embættis landlæknis. Ég get ekki ímyndað mér annað en að hægt sé að loka á þessa glufu. Ég lagði það strax til í ráðuneytinu að senda þá fyrirspurn á landlækni og hvað þurfi þá til. Mér finnst þetta mjög sérstakt, svo að ég orði það nú bara mjög pent, og óraði ekki fyrir þessu. Það hefur svo sem ekki komið fram að það sé einhver sérstök misnotkun í gangi með viðkvæmar upplýsingar en það er ekki eðlilegt að þetta sé með þessum hætti.



[15:28]
Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ef það hefur farið fram hjá hæstv. ráðherra þá er það nú hluti fréttanna í Morgunblaðinu að þessum upplýsingum hafi einmitt verið dreift til þriðja aðila sem getur varla talist annað en misnotkun á þeirri stöðu sem viðkomandi starfsmaður hefur verið í. En mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra opinnar spurningar: Hvað sér hæstv. ráðherra fyrir sér að gera annað en að senda fyrirspurn til undirstofnunar sinnar og hvert verður framhald málsins? Hefur ráðherra t.d. upplýsingar um það hvort kennitölum ráðherra í ríkisstjórn hafi verið flett upp eða annarra aðila sem stjórnvöld telja ástæðu til að haft sé sérstakt eftirlit með í tengslum við fjárhagslega hagsmuni? Er búið að gera einhverja úttekt á því hvort þeir hópar, nú nefni ég sérstaklega ráðherra ríkisstjórnarinnar, hafi verið undirorpnir skoðun sem þessari án þess að nein viðskipti með lyf væru því tengd?



[15:29]
heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál hér upp, það er full ástæða til þess. Já, það er auðvitað mjög alvarlegt ef það er staðan að þessum upplýsingum hafi verið dreift til þriðja aðila. Það er þá rétt að Persónuvernd rannsaki það mál til hlítar, í hvaða tilgangi, og beiti þeim úrræðum sem stofnunin hefur til að bregðast við því. Það er full ástæða fyrir heilbrigðisráðuneytið til að fylgja þessu máli eftir, bæði með embætti landlæknis og Persónuvernd, og koma í veg fyrir að hlutirnir séu með þessum hætti. Ég tek undir með hv. þingmanni hvað það varðar.

Ég ítreka að ég sá þetta bara í fréttum. Þetta mál hafði ekki komið inn á mitt borð þegar um það var fjallað í fréttum, eins og hv. þingmaður kom inn á. Ég get tekið undir hvert orð hv. þingmanns og það sem hann vekur hér athygli á.