153. löggjafarþing — 98. fundur
 25. apríl 2023.
vopnalög, frh. 1. umræðu.
stjfrv., 946. mál (skotvopn, skráning, varsla, eftirlit o.fl.). — Þskj. 1478.

[20:46]
dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Hæstv. Forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingu á vopnalögum, nr. 16/1998, með síðari breytingum. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um skotvopn. Breytingarnar varða einkum skráningu, vörslur og eftirlit með skotvopnum en með frumvarpinu er jafnframt lagt til að innleidd verði ákvæði úr tilskipun Evrópuráðsins og þingsins nr. 2021/555 um eftirlit með öflun og eign skotvopna. Þá er með frumvarpinu einnig lagt til að ákveðnar takmarkanir verði gerðar á innflutningi á hálfsjálfvirkum og sjálfvirkum skotvopnum, með því að fella á brott úr lögunum undanþáguákvæði sem heimilað hefur innflutning á slíkum vopnum á grundvelli þess að um safnvopn sé að ræða.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra voru 46 hálfsjálfvirk og sjálfvirk vopn sem teljast til safnvopna flutt til landsins árið 2018 á grundvelli framangreinds undanþáguákvæðis. Til samanburðar má benda á að engin slík vopn voru flutt inn hingað til lands á árunum 2012 til 2017. Frá ársbyrjun 2019 hefur slíkum vopnum fjölgað enn frekar og frá þeim tíma og til loka árs 2021 voru alls 1.358 vopn af þessu tagi flutt til landsins. Það er ljóst að við þessu þarf að bregðast. Nokkrar leiðir voru skoðaðar í því samhengi, en ákveðið var í ljósi þessarar stöðu að taka fyrir frekari innflutning þessara vopna. Með frumvarpi þessu er einnig lagt til að skerpt verði á skilyrðum til þess að eiga slík skotvopn sem og lögð áhersla á að tryggja vörslur þessara vopna með enn ríkari hætti en hingað til hefur verið krafa um. Þess má einnig geta að í skýrslu þjóðaröryggisráðs frá árinu 2021 um mat á ástandi og horfum í þjóðaröryggismálum er bent á að hálfsjálfvirkum og sjálfvirkum skotvopnum hafi fjölgað á Íslandi undanfarin ár og var því beint til dómsmálaráðherra að taka regluverk á þessu sviði til skoðunar.

Í samræmi við fyrrnefnda tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins er lagt til að ákveðnar skilgreiningar verði lögfestar en í ljós kom við skoðun á tilskipuninni, sem kveður m.a. á um bættar merkingar og skráningu skotvopna og fylgihluta þeirra, að ákveðnar skilgreiningar vantaði í löggjöfina og er því lagt til með frumvarpinu að úr því verði bætt.

Þá er með frumvarpinu lagt til að öll skotvopn skuli geymd í sérútbúnum vopnaskáp og að allir sem eigi skotvopn skuli hafa yfir slíkum skáp að ráða. Er með þessu brugðist við aðgerðaáætlun um fækkun sjálfsvíga á Íslandi frá árinu 2018, en það er jafnframt mat þeirra sem starfa við þennan málaflokk að algengast sé að skotvopnum sé stolið eða þau komist í rangar hendur þegar þau eru ekki geymd í vopnaskáp.

Nánari yfirferð yfir lögin leiddi svo af sér fleiri breytingar. Þannig er lagt til að umbætur verði gerðar hvað varðar ákvæði laganna um skráningar skotvopna og fylgihluta þeirra. Með frumvarpinu er lagt til að öll skráning skotvopna verði á þann veg að alltaf sé ljóst hvaða einstaklingur sé skráður eigandi eða ábyrgðaraðili hvers skotvopns og að enginn geti haft yfir að ráða skotvopnum nema að hafa skotvopnaleyfi. Það gerir eftirlit með skotvopnum auðveldara og skýrari ákvæði um skráningar og krafan um að allir skuli hafa yfir vopnaskáp að ráða dregur úr líkum á því að skotvopn séu í geymslu hjá einstaklingi sem ekki hefur skotvopnaleyfi, t.d. vegna þess að leyfi hans hefur verið afturkallað.

Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að styrkja stoðir reglugerðarinnar um skotvopn, skotfæri, o.fl. en einnig er lagt til að sumt sem áður hefur verið í reglugerð verði nú kveðið á um í lögum. Sem dæmi um það er lagt til að ákvæði um flokka skotvopna og nánari skilyrði fyrir hvaða skilyrði einstaklingur þarf að uppfylla til að fá skotvopnaleyfi eða eignast ákveðnar gerðir skotvopna verði færðar í lögin. Þá er lagt til að heimildir lögreglu til þess að hafa eftirlit með skotvopnum og fylgihlutum þeirra verði styrktar með því að færa ákvæði um slíkt eftirlit úr reglugerð yfir í lögin.

Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að færa útflutningseftirlit með hergögnum í vopnalög í stað laga um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu. Þá eru með frumvarpinu gerðar nauðsynlegar breytingar á erfðalögum og lögum um skipti á dánarbúum vegna breytinga um að skotvopn í eigu dánarbúa skuli án tafar færð í vörslur einstaklinga sem hafa leyfi til að eiga slík vopn.

Frumvarp þetta var unnið í dómsmálaráðuneytinu í nánu samstarfi við embætti ríkislögreglustjóra, embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og fleiri embætti lögreglustjóra á landinu. Þá var frumvarpið jafnframt birt í samráðsgátt stjórnvalda 28. febrúar 2023 og almenningi gefinn kostur á að koma með athugasemdir og ábendingar og auk þess var sérstakt samráð haft við tiltekna haghafa, einkum Skotíþróttasambandið og Skotveiðifélagið.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efnisatriðum frumvarpsins. Ég legg til að því verði að lokinni þessarar umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.



[20:52]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég er sérstakur áhugamaður um bogfimi og var með frumvarp sem þingmenn allra þingflokka voru flutningsmenn með mér á. Vandinn er sá að eins og er, samkvæmt núgildandi 31. gr. laganna, þá má barn yngra en 16 ára ekki selja eða afhenda örvaboga með meiri togkrafti en 7 kg eða oddhvassar örvar. Breytingin sem ég legg til er að bæta við: „nema til æfinga og keppni undir eftirliti lögráða einstaklinga“. Það að núna má barn yngra en 16 ára ekki vera með boga sem er þyngri en 7 kg gerir að verkum að börn sem eru að æfa t.d. fyrir keppni á Norðurlandamótum eða eitthvað því um líkt geta ekki æft með keppnisboga. Sama og kannski meira vandamál er að ef Ísland ætlar t.d. að halda bogfimikeppni þá mega erlendir aðilar sem koma hingað, og mega nota boga sem er 7 kg eða þyngri, ekki nota slíka boga og geta þar af leiðandi ekki keppt með boganum sem þeir eru búnir að æfa með. Ég var að velta því fyrir mér, svona fyrst að þetta frumvarp mitt var með meðflutningi allra flokka á þingi á síðasta kjörtímabili, ég hef ekki lagt það fram aftur á þessu kjörtímabili, hvort kannski væri séns að læða þessari breytingu inn í þetta frumvarp til breytinga á vopnalögum, til þess að ná ákveðnu samræmi í framhaldinu.



[20:54]
dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef vissulega heyrt þessum sjónarmiðum hreyft en í þessu frumvarpi er eingöngu tekið til skotvopna og breytinga á þeim lögum en við erum meðvituð um það í ráðuneytinu að það er nauðsynlegt að fara í nánari heildarúttekt og endurnýjun á vopnalögum. En það þótti mikilvægt að bregðast við þessum þáttum sem hér er verið að bregðast við sérstaklega.



[20:54]
Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég er á ekkert ólíkum slóðum og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson. Í því bæjarfélagi sem ég bý í, Kópavogi, er rekið afar metnaðarfullt starf hjá Skotíþróttafélagi Kópavogs og þar hefur verið ákveðið vandamál sem felst í því að þau börn sem þar æfa skotfimi geta ekki keppt á jafnréttisgrundvelli við þau börn sem æfa skotfimi t.d. á Norðurlöndunum eða annars staðar í Evrópu. Aðgengi þeirra sem hér búa að t.d. loftskammbyssum til að keppa með er engan veginn sambærilegt við það sem gerist annars staðar af því að flokkunin á vopnunum sem um ræðir, sem eru raunverulega ekki notuð sem vopn heldur bara til að keppa, gerir þeim það einfaldlega óheimilt. Ég sé að þarna er að vissu leyti slakað á þessum takmörkunum, upp að 7,5 J, sýnist mér. En ég get ekki betur séð en að það þurfi áfram að hafa skotvopnaleyfi. Ég velti því fyrir mér hvort ráðherra telji nóg að gert og hvort það sé ekki hægt að liðka fyrir þessu þannig að þau börn sem vilja stunda þessa íþrótt geti raunverulega gert það á jafningjagrundvelli við önnur börn. Svo er ég að velta fyrir mér öðru, nýrri 6. gr. a, þar sem er fjallað um takmarkanir á útflutningi á ýmsum hugbúnaði. Ég velti fyrir mér hvernig ráðherra sjái fyrir sér (Forseti hringir.) að hægt sé að ná þeim markmiðum sem um ræðir við að flytja út slíkan hugbúnað.



[20:57]
dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er í 15. gr. frumvarpsins, eftir því sem ég best veit, opnað á reglugerðarheimild varðandi það sem hv. þingmaður er hér að spyrja um og sjónarmið komu fram væntanlega eftir samtal eða samráð við Skotíþróttafélagið, þannig að ég geri ráð fyrir því að við munum mæta þessum sjónarmiðum við gerð þessarar reglugerðar.



[20:57]
Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er gott að heyra að það sé verið að leysa úr því. En ég vil þá ítreka seinni spurninguna, hvernig hæstv. ráðherra sjái fyrir sér að hægt sé að takmarka þennan útflutning á hugbúnaði og hvernig eftirliti með því verði háttað.



[20:58]
dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi þetta atriði þá var það eftir samráð við utanríkisráðuneytið þar sem horft var til innleiðingar í dönsku vopnalögunum á þessu og framkvæmd þeirra og því geri ég ráð fyrir að þetta sé búið að útfæra með þeim hætti að áhrifaríkt verði.



[20:59]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta frumvarp og þessa ræðu. Ég verð að viðurkenna að manni er mjög brugðið þegar maður les þessa tölu yfir öll þau vopn sem hér eru í landinu og þá miklu aukningu sem orðið hefur á innflutningi þannig að ég tel þetta mál mjög brýnt. Mig langar líka að þakka hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom hér áðan inn á frumvarp sem hann lagði fram og ég var reyndar meðflutningsmaður á er varðar boganotkun ungmenna. Mér finnst alveg einsýnt að ef við erum að fara í þessar breytingar þá tryggjum við alla vega að íslensk ungmenni búi við sama umhverfi og ungmenni á Norðurlöndum þegar kemur að keppni í þeirri íþróttagrein. Ég hyggst skoða það í vinnslu þessa máls og mun örugglega beina spurningum til ráðherra og ráðuneytisins um að veita okkur aðstoð við slíkar breytingar.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.