153. löggjafarþing — 99. fundur
 26. apríl 2023.
aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023-2026, fyrri umræða.
stjtill., 978. mál. — Þskj. 1526.

[18:46]
menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023–2026. Um er að ræða fyrri aðgerðaáætlun stefnumótunar í málefnum hönnunar og arkitektúrs sem kynnt var í febrúar síðastliðnum. Framtíðarsýn þeirrar stefnu er að aðferðafræði hönnunar og arkitektúrs sé nýtt markvisst til að auka lífsgæði á Íslandi með áherslu á verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið í heild. Með því að hagnýta aðferðir hönnunar á sem flestum sviðum munu stjórnvöld og atvinnulíf auka gæði, bæta heilsu og mannlíf, skapa áhugaverð störf og hraða verðmætasköpun.

Virðulegur forseti. Stefnumótun í málefnum hönnunar og arkitektúrs heyrir undir menningarstefnu menningar- og viðskiptaráðuneytis og tekur mið af innleiðingu og áherslum Íslands í samhengi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Unnið var að stefnunni og aðgerðum hennar með hliðsjón af ýmsum öðrum stefnuskjölum og áætlunum stjórnvalda, þ.m.t. Menningarsókn – aðgerðaáætlun um listir og menningu, Nýsköpunarlandinu – stefnu stjórnvalda í nýsköpun, Vísinda- og tæknistefnu 2020–2023 og menntastefnu fyrir árin 2021–2030. Drög nýrrar stefnu voru kynnt í samráðsgátt sumarið 2022 og bárust margar gagnlegar umsagnir og sjónarmið sem horft var til. Þá var boðað til vinnufundar um stefnuna síðasta vor þar sem fjölbreyttur hópur hagsmuna- og fagaðila úr hönnunargreinum, menntakerfi, félagasamtökum og stjórnkerfi kom saman til þess að rýna áherslusvið, móta tillögur að aðgerðum og forgangsraða þeim, og skilgreina hindranir. Ég vil kærlega þakka þeim fjölmörgu sem lögðu hönd á plóg við undirbúning og mótun þessa verkefnis.

Það er rík áhersla þessarar ríkisstjórnar að skjóta fjölbreyttari stoðum undir íslenskt atvinnulíf með því að horfa til uppbyggingar innan greina sem byggjast á hugviti, hátækni, sköpun og sjálfbærum lausnum. Hönnun sem aðferðafræði er ákveðinn lykill að því að fullnýta slík tækifæri, ekki síst þau sem felast í örum tæknibreytingum, og stuðla að aukinni sjálfbærni. Aðferðafræði hönnunar er eitt besta verkfærið sem við höfum til að tengja sköpunarkraft, tækni og vísindi í þágu fólks og umhverfis. Hún nýtist með bæði beinum og óbeinum hætti við framfylgd velsældaráherslna stjórnvalda og hefur einnig sterk tengsl við mörg af undirmarkmiðum heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Umhverfi hönnunar og arkitektúrs hefur tekið örum breytingum síðustu ár. Skilningur almennings og atvinnulífs hefur breyst og dýpkað, aðferðafræði hönnunar hefur þróast, sérhæfing aukist og tækifærum til menntunar fjölgað.

Það er kraftur og sóknarhugur í íslensku hönnunarsamfélagi. Það sést allt í kringum okkur og það eru sannarlega tækifæri til aukinnar verðmæta- og atvinnusköpunar í hönnunargeiranum. Þar er mannauður og hugvit sem við getum virkjað til hagsbóta fyrir samfélagið allt, ekki síst með aukinni hönnunardrifinni nýsköpun og þverfaglegu samstarfi eins og greina má í áherslum þingsályktunartillögunnar. Með því að virkja fagþekkingu hönnuða og aðferðafræði hönnunar enn frekar má hafa víðtæk jákvæð áhrif á þróun samfélagsins og framtíðarlífsgæði. Við höfum allt að vinna með því að efla íslenska hönnun og arkitektúr sem fag- og atvinnugreinar, útflutningsgreinar og mikilvæga aðferðafræði. Allt eru þetta leiðir að bættum lífsgæðum fyrir samfélagið í heild.

Hæstv. forseti. Nú hef ég gert grein fyrir megináherslum þessarar þingsályktunartillögu og legg til að henni verði vísað til hæstv. atvinnuveganefndar.



[18:51]
Logi Einarsson (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Í sjálfu sér er full ástæða til að fagna þessari þingsályktunartillögu og öllum aðgerðum sem vekja athygli á gildi góðrar hönnunar og arkitektúrs og stuðla auðvitað ekki síður að því. Ég tek það fram í upphafi að ég mun styðja þessa aðgerðaáætlun og vona að hún batni enn í meðförum þingsins. Ég verð þó að koma inn á nokkra hluti sem mér finnst skipta máli. Þegar við ákveðum að gefa einhverju gaum, samþykkjum jafnvel stefnur og þingsályktunartillögur, þá er það til bóta að við framfylgjum því. Það var nefnilega samþykkt ágætisstefna fyrir arkitektúr og hönnun árið 2007 í tíð þáverandi menntamálaráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, og síðan voru gerðar endurbætur á þeirri stefnu árið 2014 í tíð Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra. Að mínu mati er hún í fullu gildi og það er ýmislegt sem hefði þróast á miklu betri veg og við værum á betri stað ef henni hefði verið fylgt í meira mæli en gert hefur verið. Það hefur ekki verið. Það þýðir þó ekki að þessi þingsályktunartillaga geti ekki gert heilmikið gagn. Nú er ég ekki að gagnrýna ráðherra fyrir að leggja hana fram en ég bendi á að stundum fylgja orðum ekki athafnir. Í þessari stefnu segir, með leyfi forseta:

„Byggingarlist er fjárfesting til langs tíma. Mannvirki, sem vandað er til, ávaxtar þá fjármuni sem í það er lagt, hvort heldur litið er til lægri viðhalds- og rekstrarkostnaðar eða sveigjanlegra fyrirkomulags og notagildis á líftíma þess. Þá hefur vönduð byggingarlist og góð borgarrými aðdráttarafl á einstaklinga jafnt sem fyrirtæki.“

Síðan eru talin upp fjölmörg tölusett atriði sem ber að hafa í huga og ég ætla bara að nefna tvö af því að ég ætla ekki að tala lengi. Það er talað um líftímakostnað, að við hönnun og byggingu mannvirkja verði tekið tillit til líftímakostnaðar en ekki einungis stofnkostnaðar. En það er akkúrat það sem við gerum alltaf á Íslandi, við horfum bara á stofnkostnað. Þetta er ekki aukaatriði, þetta er grundvallarmál. Ef við tökum nú bara stærstu framkvæmd Íslandssögunnar, Landspítalann, þá hefði reynt fólk á sviði hönnunar getað, með mikilli nálgun áður en kostnaðarútreikningar voru gerðir, sagt hvað sú bygging myndi kosta. Af hverju? Vegna þess að reynslutölur marga áratugi aftur í tímann segja okkur það að rekstrarkostnaður svo flókins mannvirkis sem sjúkrahús er, er eftir tvö ár hinn sami og byggingarkostnaður. Hlutfallið í skólum er fimm ár og svona er hægt að halda áfram.

Hvað segir þetta okkur? Þetta segir nákvæmlega það sem ég var að lesa upp áðan, að það getur falist gríðarlegt hagræði og sparnaður í því að horfa ekki bara á stofnkostnaðinn vegna þess að hann á eftir að spara rekstrarkostnað næstu 50 ár á eftir, fyrir utan það að þá gæfist hönnuðum tækifæri til þess að nýta vandaðra og betra efni, gæða byggingarnar lífi og gera þær meira fyrir augað án þess að vera sífellt sakaðir um að bruðla eða reisa sér minnismerki. Þetta er bara lykilatriði og í sumum löndum reikna menn byggingar svona. Hér á landi reiknum við kaup á lóð, hönnun og byggingu og svo höldum við að við séum laus allra mála, erum kannski búin að spara í útveggjaklæðningum, spara í gólfefni, spara í gluggum og fáum þetta svo nokkrum sinnum í hausinn á næstu árum og áratugum. Önnur lönd reikna inn í byggingarkostnað lóðakaup, hönnun, rekstur í 40–50 ár og niðurrif á byggingunni. Þetta er því eitthvað sem mætti alveg hafa í huga og hefði betur verið fylgt eftir.

Fjórði liður fjallar um rannsóknir. Þar stendur að það skuli styðja skipulagðar rannsóknir til þróunar í mannvirkjagerð og þar er bæði átt við fræðilegar, listrænar og tæknilegar rannsóknir. Þessar rannsóknir geta bæði farið fram í mennta- og rannsóknastofnunum sem og við hönnun og byggingu mannvirkja. En hver er svo staðan á Íslandi, herra forseti? Hún er sú að fyrir nokkrum árum, í tíð síðustu ríkisstjórnar, rann Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins inn í Nýsköpunarmiðstöð, sem var afar mikilvægt fyrir greinina, og skömmu síðar var Nýsköpunarmiðstöð lögð niður. Vissulega settu menn pening í mannvirkjasjóð Asks, sem er einhvers konar samkeppnissjóður sem í sækja stór og stöndug fyrirtæki, gjarnan verkfræðifyrirtæki, en við höfum enga tryggingu fyrir því að sú þekking sem þar verður til staðar skili sér almennt inn í geirann. Við höfum því beinlínis stigið skref aftur á bak þegar við höfum fellt niður og veikt rannsóknir á byggingum á Íslandi. Þetta gerist á sama tíma og hér er á hverjum einasta degi talað um að það skorti húsnæði og það sé of dýrt. Margar ástæður eru fyrir því að það er dýrt að byggja á Íslandi. Veðurlag er flókið og sviptingasamt og getur verið frost og þíða nokkrum sinnum í sama mánuðinum. Við notum gamaldags byggingaraðferðir, miklu meira gamaldags að flestu leyti heldur en margar nágrannaþjóðir okkar. Það má alveg örugglega rekja það til skorts á nýsköpun og rannsóknum. Vegna þess höfum við líka minni framleiðni, eins og hefur verið sýnt fram á, heldur en þekkist í nágrannalöndum okkar. Sumir segja 75% eða 80% framleiðni miðað við það sem þekkist í Danmörku og Noregi. Það er bara býsna dýrt, herra forseti, þegar við lifum líka í landi þar sem fjármagnskostnaður er mjög mikill, að tefja byggingu óhóflega mikið. Við höfum því í rauninni allt að vinna þegar kemur að þessu og ég hefði talið að þegar að því kom að lyfta upp hönnun og arkitektúr þá hefðu menn átt að einblína á þetta og byggja grunninn fyrst undir það. Það skiptir verulega miklu máli.

Þá er rétt að benda á að arkitektar og hönnuðir yfirleitt eru ekki eyland og bak við hvert hús er auðvitað fjöldi aðila sem þarf að koma að framkvæmd; verkfræðingar, iðnaðarmenn og góður verkkaupi og það verður einhvern veginn að flétta það inn í þessa vinnu ef haldið verður áfram með þessa framkvæmdaáætlun. Þó að það sé góðra gjalda vert að ríkið komi og byggi nokkrar praktbyggingar á sérhverjum áratug þá þarf líka almennt að horfa meira á metnað opinberra bygginga. Það er ekki nóg að byggja utan um íslenskt mál og fyrrum forseta og byggja falleg menningarhús. Flestir Íslendingar eru notendur að skólabyggingum og slíku og þær eiga auðvitað líka að vera vandaðar og góðar. Ef horft væri til líftímakostnaðar þá yrðu okkar byggingar vandaðri og síðast en ekki síst þá á það að vera hlutur íslenskra stjórnvalda, eins og ég held að tilgangur hæstv. ráðherra með þessari þingsályktunartillögu sé, að bæta og efla bæði húsakost og skipulag hér á landi. Mig langar aðeins að koma inn á það vegna þess að þar finnst mér kannski vanta aðeins inn í, þótt aðeins sé minnst á það. Ég er eiginlega búinn með tímann en ég hefði gjarnan viljað ræða aðeins um skipulagsmál hér vegna þess að við höfum aðeins verið að horfa á skynsamlegri leiðir með blandaðri evrópskri byggð og höfuðborgarsáttmálinn er auðvitað mjög góður vitnisburður um það, en við erum enn of föst í þessu ameríska líkani bílsins sem getur í rauninni varla skapað gleði fyrir nokkurn mann.



[19:02]
menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir hans innlegg. Ég skal viðurkenna að ég er dálítið skotin í honum sem arkitekt, kannski ekki pólitískum en svo sannarlega fagarkitekt og beið í raun og veru full eftirvæntingar eftir því að heyra viðbrögð hans við hönnunarstefnu. Ég held að það sé rétt hjá mér að við séum núna með fyrstu þingsályktunartillöguna sem fjallar um hönnun og arkitektúr á Íslandi.

Ég vil líka upplýsa hv. þingmann um að það sem við höfum verið að gera, bæði í gamla mennta- og menningarmálaráðuneytinu og svo í nýja menningar- og viðskiptaráðuneytinu, er að innleiða ný vinnubrögð sem ganga út á það að móta markvissa stefnu í hverri einustu atvinnugrein sem við berum ábyrgð á. Það er stefna, aðgerðaáætlun og eftirfylgni. Nú þegar er farið að reyna á fyrstu stefnuna sem við mótuðum, kvikmyndastefnu, og það er skemmst frá því að segja að það gengur feikilega vel.

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því þegar ég hóf störf í Stjórnarráði Íslands að mér fannst oft skorta á — það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að oft eru gerðar stefnur en eftirfylgni og framkvæmdin hefur kannski oft ekki verið nógu markviss. En ég tel að með þessu vinnulagi, þar sem við erum bæði með stefnur, aðgerðaáætlun, þingsályktun og eftirfylgni, munum við tryggja að þessi stefna verði til vegsauka fyrir málaflokkinn.



[19:04]
Logi Einarsson (Sf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Nú biðst ég afsökunar á því ef ég hef virkað of neikvæður vegna þess að það er alveg ástæða til að hrósa hæstv. ráðherra fyrir þetta framtak, jafnt á öðrum fagsviðum sem þessu, og það er heilmargt gott í þessu. Ég vildi bara draga það upp að ég tel að við séum með í gildi Menningarstefnu í mannvirkjagerð – stefnu íslenskra stjórnvalda í byggingarlist sem fjölmargt mjög flinkt fólk kemur að, m.a. annar höfundur að nýbyggingunni þarna hinum megin. Ég hefði gjarnan viljað sjá að mjög mikilvægir hlutir úr þeirri stefnu hefðu verið dregnir inn í þessa þingsályktunartillögu með beinni hætti og auðvitað er alveg hægt að bæta úr því. Tilgangur minn hingað upp var alls ekki, ef það hefur virkað þannig, að rífa niður þessa vinnu. Þvert á móti var ég mjög glaður þegar ég sá þetta og er það, en við getum þó bætt töluverðu við. Mér gafst ekki tími til þess áðan en það væri líka alveg þess virði að skrifa inn kafla um byggðarannsóknir og skipulag vegna þess að ekki eingöngu þróuðust hlutir frekar illa megnið af 20. öldinni, af því að okkar borgir byrja að byggjast upp seint í módernismanum, heldur eigum við á tímum þar sem við þurfum að hugsa um loftslagsvernd alveg ótrúleg sóknarfæri hjá þjóð þar sem 75% hennar búa nánast í einni borg.



[19:06]
menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég vildi upplýsa hv. þm. Loga Einarsson um að við höfum auðvitað verið að fylgja eftir áhersluatriðum sem hafa verið mótuð í fyrri stefnu. Ég nefni til að mynda stefnuna frá 2014–2018. Þar var lögð áhersla á að það ætti að styðja betur við Hönnunarmiðstöð og Hönnunarsjóð. Við höfum tekið það markvisst til greina og stóraukið alla samvinnu við Hönnunarmiðstöð. Við höfum verið að styrkja og auka fjármuni í Hönnunarsjóð og ég hef lagt mikla áherslu á að nýta það sem hefur áður verið gert, jafnvel þótt maður hafi ekki sjálfur leitt viðkomandi ráðuneyti á sama tíma. Ég get upplýst hv. þingmann um það að sú myndlistarstefna sem ég vonast líka til að við getum klárað á þessu þingi er algerlega unnin þannig að við erum að nýta þá vinnu sem fyrir var. Ég tel að það sé alger sóun á hugviti að byrja með autt blað þegar önnur vinna er til staðar og hef lagt ákveðinn metnað í að endurnýta það sem við teljum að sé gott og til farsældar fremur en að nýta það ekki. Því er ýmislegt sem við höfum verið að gera. Hins vegar höfum við verið að kynna með markvissari hætti nýja aðferðafræði í tengslum við þessar greinar þannig að við séum að sinna þeim öllum jafn vel. Það er alveg langt í land í ýmsum þeirra, til að mynda varðandi fjárveitingar, en þetta er alla vega vísir að markvissari og skilvirkari vinnu.



[19:08]
Logi Einarsson (Sf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Það er sannarlega gott að heyra og ég kann alveg að meta að það sé verið að hlúa að Hönnunarmiðstöð og slíkum hlutum. Það er líka ánægjulegt að það sé fyrirhugað að við tökum þátt í Feneyjatvíæringnum í arkitektúr því að í þau skipti sem við höfum sýnt þar og verið með skála þegar hann hefur verið gerður, sérstakan skála fyrir Ísland, þá hafa arkitektar yfirleitt ekki komið að því heldur sviðsmyndahönnuðir eða eitthvað því um líkt, án þess að ég geri lítið úr því. Feneyjatvíæringurinn hefur reynst ofboðslega farsæll stökkpallur fyrir margar þjóðir þegar kemur að kynningu á arkitektúr. Ég ráðlegg líka hæstv. ráðherra að kynna sér það átak sem Norðmenn fóru í fyrir 10–15 árum þar sem utanríkisráðherra þjóðarinnar beinlínis kynnti norskan arkitektúr víða um heim. Norðurlöndin, hvort sem er í kvikmyndagerð, leiklist, skáldsögum eða arkitektúr, hafa vakið athygli. Fólk hefur lagt sig eftir því að skoða þessa litlu skrýtnu hluti sem við gerum. Við mælum okkur kannski ekki alltaf við milljónaþjóðirnar en við eigum algjörlega frábæra arkitekta hér innan um og það verður gaman fyrir okkur, mig og hæstv. ráðherra, að spranga um í nýja húsinu okkar.



[19:10]
menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að leggja það til að við horfum til Noregs. Ég vil upplýsa hann um það að þegar við vorum að leggja grunninn að þessari stefnu áttum við í sérstöku samstarfi við norsk stjórnvöld á þessu sviði og líka dönsk vegna þess að Danir standa mjög framarlega. Norðmenn eru á öðrum stað en Danir en það er alveg heilmikið sem þeir hafa verið að gera og við erum að auka enn frekar samstarfið á sviði hönnunar og arkitektúrs.

Í öðru lagi vil ég upplýsa um það að Feneyjatvíæringurinn er haldinn annað hvert ár í tengslum við myndlist en hitt árið í tengslum við hönnun og arkitektúr og við höfum ekki verið þátttakendur, við höfum ekki verið eins skipulegir þátttakendur í Feneyjatvíæringnum að því er ég best veit. En ég verð nú að viðurkenna að ég sé að hv. þingmaður telur að þetta sé aðeins öðruvísi. Eins og ég hef skilið það þá höfum við verið formlegir þátttakendur í myndlistartvíæringnum en ekki í hönnun og arkitektúr. Nú viljum við breyta því þannig að við séum þátttakendur í bæði hönnun og arkitektúr og svo myndlist, af því að það sem við höfum séð er að það er alveg gríðarlegur kraftur sem fylgir þessari þátttöku og mikill áhugi og margföldunaráhrifin geysileg. Við finnum líka að það er svo margt sem við getum gert betur á sviði hönnunar.

Ég vil líka nefna það hér að eitt af því sem er gott við breytt fyrirkomulag í Stjórnarráði Íslands er að hönnuninni var iðulega tvískipt. Hluti af henni var í mennta- og menningarmálaráðuneytinu; menntun, hluti af Hönnunarsjóði, og svo það sem tengdist meira atvinnuvegum var í atvinnuvegaráðuneytinu. Þetta taldi ég að væri alltaf löstur á þessari stefnumótun fyrir hönnun og arkitektúr. Það sem við höfum verið að gera er að taka hverja grein fyrir sig og að öll stefnumótun sé í einu ráðuneyti og svo eigum við í mjög þverfaglegu samstarfi við fagaðila.

Að lokum vil ég nefna að sú vinna sem ég er að kynna hér er vinna sem er unnin í mjög nánu samstarfi við grasrót hönnunar og arkitektúrs. Við höfum tekið mið af öllum þeim stefnuskjölum sem hafa áður verið unnin og ég í raun og veru kem hér og er að kynna þessa vinnu og við höfum lagt áherslu á að þetta sé aðferðafræði þar sem er sterk fagnálgun sem endar svo í þessari opinberu stefnumótun og það er styrkurinn við þessa stefnumótun sem við höfum verið að leiða.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til atvinnuvn.