153. löggjafarþing — 100. fundur
 27. apríl 2023.
aðgerðir vegna ópíóíðafaraldurs.

[10:33]
Inga Sæland (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á því að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir hans góða vilja og hans góða hug gagnvart því neyðarástandi sem hér ríkir vegna ópíóíðafaraldurs sem hefur herjað á okkur sem aldrei fyrr. Ég heyri að hæstv. ráðherra er með góðan hug til þess að gera það sem í hans valdi stendur til að sporna við, ef nokkur er kostur, þeim ótímabæru dauðsföllum sem við erum að horfast í augu við. Framkvæmdastjóri SÁÁ segir yfir 35 einstaklinga hafa dáið það sem af er árinu, þ.e. þeir sem hafa verið á skrá hjá SÁÁ. Það er ekki allur sá fjöldi sem þegar hefur látið lífið og aldrei eins mikill fjöldi og síðustu tvær vikur eða svo.

Ég ætla fyrst og síðast að koma hingað til að hvetja hæstv. heilbrigðisráðherra til dáða, til að hvetja hann áfram til góðra verka og til að segja honum að það muni hvorki standa á mér né okkur í Flokki fólksins og ég býst við að allur þingheimur standi að baki ráðherra. Ég heyri að hæstv. ráðherra er farinn að gera sér grein fyrir því að það er þarna lyf sem er ekki ávanabindandi, sem veldur engum skaða en getur í raun og veru bjargað mannslífum. Það heitir Naloxone og við þurfum að fá það í lausasölu. Það er það sem liggur mér sérstaklega á hjarta núna, hvort hæstv. heilbrigðisráðherra sé að koma með reglugerð, það er í hans valdi akkúrat núna, til þess að setja lyfið í lausasölu og það strax.



[10:35]
heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir hvatninguna og vil nota tækifærið og segja: Já, ef við bara horfum á tölur síðastliðinn áratug og fjölgun þeirra sem koma í viðhaldsmeðferð og fá ópíóíðagreiningu, sem við höfum verið með samning um milli Sjúkratrygginga og Vogs í áratug, þá er stöðug fjölgun. Svo finnum við kirfilega fyrir því að eitthvað er að brotna upp og gerast. Við verðum bara að horfa á þessar óyggjandi tölur og þurfum að gera fjölmargt, betur og meir. Af því að hv. þingmaður kemur inn á mjög mikilvæg skaðaminnkandi úrræði við bráðaaðstæður þar sem líf eða dauði er undir, notkun á Naloxone, þá erum við auðvitað búin að greiða fyrir því á alla þá staði þar sem við þjónustum sjúklinga sem eru að kljást við þessa erfiðu fíkn og þurfum að auka aðgengið að þessum Naloxone-úða sem hv. þingmaður nefndi hér. Við þurfum að gera fjölmargt annað en fyrst og fremst, þegar kemur að ótímabærum dauðsföllum og þeirri umræðu, þá fagna ég því að við séum að taka þetta upp og ræða á vettvangi þingsins, fjölmiðla og þeirra sem vinna við það að þjónusta sjúklinga. Það þarf sveitarfélögin og sameiginlegt átak þings og ríkisstjórnar, þvert á ráðuneyti og með sveitarfélögum, og skoða þarf skaðaminnkandi úrræði. Hvað er verið að gera vel, hvað þarf að gera meira af, hvað þarf að gera umfram og betur og hverju þarf að bæta við? Ég skal halda áfram að koma inn á þetta brýna málefni hér í seinna svari.



[10:37]
Inga Sæland (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Við vitum að 1. júlí 2022 var aðgengi að Naloxone, bæði hjá Rauða krossinum, Frú Ragnheiði og heilbrigðisstofnunum og öðru slíku. Það hefur ekki breytt þeirri skelfingu sem er að ganga yfir núna, engan veginn. Við erum alltaf eitthvað á eftir því sem gerist í löndunum í kringum okkur. Hér ríkir hreinlega neyðarástand og það liggur alveg á ljósu að enginn sem er að djamma er í raun í stakk búinn til þess að fara á heilbrigðisstofnun eða í Frú Ragnheiði eða eitthvað til að ná í þessa skaðaminnkun og koma í veg fyrir að hann deyi af þeim eituráhrifum sem hann verður fyrir með neyslu þessara ópíóíða. Við vitum líka að það eru eitruð lyf á markaðnum núna, búið að setja Fentanyl og eitthvað enn þá hættulegra í efnin sem gerir það að verkum að viðkomandi neytandi hefur nánast ekki hugmynd um hvers hann er að neyta og er í allt annarri trú um það (Forseti hringir.) sem hann er að innbyrða. Mig langar að bæta þessu við, hvort hæstv. ráðherra sé meðvitaður um það og hvað sé þá verið að gera í stöðunni.



[10:39]
heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka þakkir til hv. þingmanns fyrir að taka þetta mál hér upp. Við erum að skoða m.a. núna að setja Naloxone í lausasölu þó að það hafi ekki verið samþykkt af Lyfjastofnun Evrópu. Við erum að skoða með sjúkrahúsinu Vogi að bæta við þjónustu, svokallaðri viðbragðsþjónustu, og auka samvinnu við Landspítalann um þá lífsbjargandi viðhaldsmeðferð sem er veitt. Við erum að skoða þetta aukna aðgengi. Það er rétt sem hv. þingmaður kemur inn á hér, hún nefnir þetta tiltekna lyf, Fentanyl. Ég er aðeins búinn að skoða dánarmeinaskrá og þessi ótímabæru dauðsföll og hvaða lyf það eru og já, það virðist vera í gangi og þetta eru gífurlega sterk og hættuleg lyf. Það er, eins og ég nefndi hér áðan, fjölmargt sem þarf að gera. Við þurfum líka að auka forvarnir og fræðslu og ná til þeirra félagasamtaka sem eru að vinna með fjölskyldum, veita aukinn stuðning við fjölskyldur. Við þurfum að koma á þessari viðbragðsþjónustu og auka aðgengi og svo þurfum við að horfa til þessara skaðaminnkandi úrræða, frekari klíník, neyslurými. Það er verið að vinna í fjölmörgum hlutum og ég mun bara á morgun koma með minnisblað inn í ríkisstjórn sem nær utan um alla þessa þætti og við getum farið hér sameiginlega í þetta verkefni.