153. löggjafarþing — 100. fundur
 27. apríl 2023.
Áætlun um uppbyggingu innviða heilbrigðiskerfisins.

[11:02]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Líkt og aðrir hér í dag beini ég fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra. Ríkisstjórnin kynnti nýlega það sem hún kallar heildstæða áætlun um uppbyggingu innviða í heilbrigðiskerfinu til 2030. Ofboðslega stórt nafn sem fjallar um að það á að byggja nýtt hús. Það er mikilvægt að byggja nýtt hús því spítalinn er jú löngu kominn á tíma. Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélagsins, segir þó um þessa áætlun ríkisstjórnarinnar með langa nafnið, með leyfi forseta: „Þarna er ekki talað um neina aðra þætti en steinsteypuna við Hringbraut, að það eigi að klára þetta hús.“ Hér birtist aftur óþægilega skýrt að eftir sex ára setu er stefnan engin og staðan í dag er sirka þessi: Fólk sem þarf á þjónustu heimilislæknis að halda hér á höfuðborgarsvæðinu fær að heyra að næsti lausi tími sé í september. Fólk er spurt hvort það sé nokkuð í brýnni neyð. Heilsugæslan er orðin bráðaþjónusta. Hundrað prósent viðsnúningur frá orðum ríkisstjórnarinnar um að heilsugæslan eigi að vera fyrsti viðkomustaður. Á landsbyggðinni eru svæði sem er útlit fyrir að verði heimilislæknislaus. Amma og afi liggja inni á Landspítala því hjúkrunarrými eru ekki til. Börn eru á biðlistum í mörg ár. Spítalinn þarf að taka við öllum vegna þess að aðrir angar kerfisins geta ekki tekið við fólki. Fólk sem ekki kemst til heimilislæknis eða á hjúkrunarheimili fer á bráðamóttökuna þar sem það situr og bíður.

Formaður Læknafélagsins talar svo um starfsfólkið, hjartað í heilbrigðiskerfinu. Hvort sem við lítum á sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga eða lækna er engin stefna um það hvernig eigi að tryggja að nýja húsið verði mannað. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að hjúkrunarfræðingar hætti störfum vegna álags eða hvetur til þess að sérfræðilæknar velji að koma heim úr námi. Biðlistar eru í dag helsta einkenni heilbrigðiskerfisins, biðlistar eftir heilbrigðisþjónustu og biðlistar lækna eftir því að fá samning við ríkið. Hvað segir hæstv. heilbrigðisráðherra um þessi orð formanns Læknafélagsins? Hefur hún á réttu að standa?



[11:04]
heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur fyrir þessa fyrirspurn, sem er umfangsmikil. Hv. þingmaður fór ágætlega yfir allar þær áskoranir sem blasa við okkur í heilbrigðiskerfinu þegar kemur að mönnun og fólkinu sem er á bak við það að veita þjónustuna. Það verður áskorun inn í framtíðina. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður dregur hér fram, að við erum að kljást við biðlista víða. Við erum líka að horfa á fjárfestinguna utan um fólkið okkar og kynningin á þessum fyrsta áfanga í uppbyggingunni fól það í sér. Uppbygging heilbrigðiskerfisins, eins og ég hef margoft sagt í þessum ræðustól, má ekki vera háð efnahagssveiflum. Velferðarkerfið okkar á ekki að vera háð efnahagssveiflunni. Hins vegar eru í félagsmálahlutanum, eðli máls samkvæmt, svokallaðir sjálfvirkir sveiflujafnarar þegar kemur að bótakerfum og slíku. Uppbyggingin þarf að byggja á langtímahugsun og þessi kynning sneri að því sem tekur mið af breytileika í þjónustuþörfum samfélagsins og nauðsyn þess að nýta okkur tækni, nýsköpun og vísindi til framþróunar og umbóta. Við þurfum einnig að tryggja heilbrigðisstarfsfólki, þeim sem á þjónustunni þurfa að halda og aðstandendum þeirra fyrsta flokks aðstæður. Um það snýst þessi kynning og fyrsti áfanginn. Það er mjög ánægjulegt að við, hæstv. ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, séum að forgangsraða í þágu uppbyggingar heilbrigðisþjónustu þrátt fyrir aðhald gegn verðbólgu. Það styrkir innviði heilbrigðiskerfisins og verður dýrmætt til framtíðar í öllu því samhengi sem hv. þingmaður dró ágætlega fram, (Forseti hringir.) í þeim áskorunum sem eru ekki að fara frá okkur.



[11:06]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Eftir sex ára valdatíð þessarar ríkisstjórnar þá verðum við að gera aðrar og meiri kröfur til hæstv. heilbrigðisráðherra en að hann komi hér upp trekk í trekk til að lýsa stöðu, til að lýsa vanda, til að tala um brekkur, til að tala um áskoranir. Við erum að lýsa eftir svörum og stefnu. Það virðist ekki skipta máli hver málaflokkurinn er; vímuefnavandi, öldrunarþjónusta, heimilislæknar, samningar við sérfræðilækna, sálfræðiþjónusta, geðheilbrigðismál, það er bið, bið, bið, vegna þess að það er bið á svörum, bið eftir stefnu.

Hæstv. ráðherra talar hér um að það þurfi langtímahugsun. Það er alveg rétt, hún er bara ekki til staðar. Það þarf líka einhver svör um það hver svörin eiga að vera til skemmri tíma, hver svörin eru gagnvart því fólki sem kemst til heimilislæknis í september. Hvar eru svörin?



[11:08]
heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Ég ítreka þakkir til hv. þingmanns. Við skulum bara taka eitt dæmi. Hér liggur fyrir þinginu aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum og það eru aðgerðir sem hvíla á stefnu sem þingið samþykkt fyrir ári síðan. (Gripið fram í.)Þar liggja fullt af svörum, ég get auðvitað farið yfir það. Þar eru fjölmargar aðgerðir sem við erum að fara í. (ÞorbG: Ófjármagnaðar.) Þær eru fjármagnaðar á þessu ári og mestmegnis inn á næsta ár. (Gripið fram í.) Það er verið að vinna í því að tímasetja þá fjármögnun og þá væntanlega inn í næstu fjármálaáætlun. Ég tek bara eitt dæmi. Ég var að svara fjölmörgum hv. þingmönnum í mjög góðri umræðu um það verkefni sem blasir við okkur í þessum ópíóíðafaraldri og þar var ég að draga fram öll þau verkefni sem við erum að vinna í, fjölmargt vel gert en það þarf að bæta í og það þarf að gera margt betur. Ég fór mjög vel yfir það áðan. (Forseti hringir.) — Kannski hæstv. forseti gæti gefið mér örlítið meiri tíma til að gefa meiri svör en ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa umræðu.