153. löggjafarþing — 100. fundur
 27. apríl 2023.
hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl. , 2. umræða.
stjfrv., 390. mál (heimildir til bráðabirgðaráðstafana o.fl.). — Þskj. 419, nál. m. brtt. 1512 og 1591.

[11:16]
Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um fiskeldi og lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á áðurnefndum lögum til að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem fram komu í bráðabirgðaniðurstöðu stofnunarinnar í máli vegna kvörtunar sem beint hafði verið til ESA vegna veitingar rekstrarleyfa til bráðabirgða og veitingar tímabundinna undanþága frá starfsleyfi til reksturs fiskeldisstöðva og ítrekaðar voru í formlegu áminningarbréfi ESA, dags. 15. desember 2021.

Nefndin fjallaði um málið, fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir. Greint er frá því í nefndaráliti sem liggur frammi.

Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar árétta sérstaklega:

Nefndin fjallaði um athugasemdir ESA og óskaði eftir upplýsingum frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu um samskipti þess við stofnunina í tengslum við frumvarpið, með hvaða hætti ráðuneytið teldi sig vera að mæta athugasemdum ESA með frumvarpinu og hvort ESA hefði tjáð sig með einhverjum hætti við ráðuneytið um frumvarpið og þá sérstaklega varðandi það hvort stofnunin teldi það koma til móts við athugasemdir sínar. Nefndinni barst minnisblað frá ráðuneytinu þar sem m.a. kemur fram að ráðuneytið hafi haldið ESA upplýstri um stöðu og framgang frumvarpsins. Ráðuneytið hafi svarað formlegu áminningarbréf ESA með bréfi þann 24. janúar 2022 þar sem vísað var til frumvarpsins og helstu efnisatriði þess reifuð. Á árlegum pakkafundi ESA með íslenskum stjórnvöldum í júní 2022 hafi orðið nokkur efnisleg umræða um frumvarpið og yrði að mati ráðuneytisins ekki annað ráðið en að ESA hafi fallist á sjónarmið ráðuneytisins. Aðaláherslan hafi verið á að frumvarpið næði fram að ganga. Telur meiri hlutinn því ekki ástæðu til að ætla annað en að frumvarpið komi til móts við athugasemdir stofnunarinnar.

Fram komu athugasemdir um að hætta væri á því framkvæmdaaðilar skiluðu inn ófullnægjandi umhverfismati í trausti þess að fá leyfi til bráðabirgða án umhverfismats á grundvelli þessara ákvæða frumvarpsins og væri með frumvarpinu verið að útbúa leið fram hjá lögbundnu umhverfismati. Meiri hlutinn bendir á og gerir að sínum þau sjónarmið hvað þetta varðar sem fram koma í minnisblaði ráðuneytisins dags. 8. mars 2023 þar sem segir:

„Hvað matsskyldar framkvæmdir varðar tekur frumvarpið aðeins til tilvika þar sem leyfi hefur verið fellt brott vegna annmarka á umhverfismati. Það þýðir að viðkomandi starfsemi hefur hlotið leyfi á grundvelli umhverfismats að undangenginni lögbundinni málsmeðferð, að uppfylltum skilyrðum, þ.m.t. að umhverfismatið hafi farið í opið samráð og að fyrir liggi álit Skipulagsstofnunar á umhverfismati viðkomandi framkvæmdar, en það leyfi síðan verið fellt úr gildi vegna tiltekinna annmarka. Verður því ekki fallist á að í því felist hvati til framkvæmdaraðila að skila inn ófullnægjandi umhverfismati í trausti þess að hljóta heimild til bráðabirgða.“

Meiri hlutinn áréttar að bráðabirgðaheimild 3. og 9. gr. frumvarpsins nær eingöngu til rekstraraðila sem farið hafa í gegnum lögbundið ferli og á einungis við í undantekningartilvikum þegar ríkar ástæður mæla með því, líkt og fram kemur í orðalagi framangreindra ákvæða frumvarpsins. Þannig er um að ræða undanþáguákvæði sem samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum ber að túlka þröngt. Þá er skilyrði fyrir veitingu bráðabirgðaheimildar að bætt verði úr annmörkum umhverfismats á gildistíma leyfis til bráðabirgða samkvæmt a-lið 16. gr. frumvarpsins. Að auki er bent á að bráðabirgðaheimild 3. gr. frumvarpsins á ekki einungis við um tilvik á sviði fiskeldis heldur felur það í sér heimild sem tekur til allrar starfsemi sem heyrir undir lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, m.a. starfsemi sem er ekki matsskyld.

Nefndin fjallaði að auki um aðkomu almennings að ferlinu en samkvæmt frumvarpinu er vikufrestur til að gera skriflegar athugasemdir. Fyrir nefndinni kom fram sú gagnrýni að fresturinn væri of stuttur. Að mati meiri hlutans er eðlilegt að tímafrestur til skila athugasemda sé styttri en hinn almenni athugasemdafrestur þegar um er að ræða bráðabirgðaleyfi enda á heimildin við um tilvik þar sem brýn þörf er á skjótri afgreiðslu. Þá leggur meiri hlutinn áherslu á að endanleg leyfisveiting vegna starfsemi sem hlotið hefur bráðabirgðaheimild verður afgreidd að undangengnu samráðsferli við almenning og verður hún kæranleg eins og verið hefur. Meiri hlutinn bendir jafnframt á að með frumvarpinu er heimild til að veita bráðabirgðaheimild færð úr höndum ráðherra til Umhverfisstofnunar hvað varðar lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og til Matvælastofnunar varðandi lög um fiskeldi og verður ákvörðun um veitingu undanþágu eða bráðabirgðaheimildar kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála ólíkt því sem nú er. Að mati meiri hlutans er afar mikilvægt að ákvörðun um veitingu bráðabirgðaheimildar sæti endurskoðun en með þessari breytingu er aðkoma almennings aukin frá því sem áður var.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að gildistöku laganna verði frestað til 1. júlí 2023 en á fundum nefndarinnar kom fram að nauðsynlegt væri að gefa leyfisveitendum svigrúm til undirbúnings fyrir gildistöku laganna, m.a. til að yfirfara gjaldskrár og verkferla.

Þá eru lagðar til tvær lagatæknilegar breytingar sem þarfnast ekki sérstakrar umfjöllunar. Vísast að öðru leyti til ítarlegri umfjöllunar í áliti meiri hlutans.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir.

Undir álit meiri hlutans rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Vilhjálmur Árnason, Ingibjörg Isaksen, Orri Páll Jóhannsson og Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir. Bjarni Jónsson og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. — Ég hef lokið máli mínu.



[11:22]
Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég verð að játa að það var ekki mjög auðvelt að kynna sér efni frumvarpsins. Þetta var svolítið mikið út um allt og vísað á alþingisvefinn, vísað í skjöl sem bendir til þess að ekki sé að finna tæmandi efni um lögin eins og þau liggja fyrir. En það hjálpaði heilmikið að geta kíkt á umsagnirnar um frumvarpið sem eru nokkuð skýrar og afdráttarlausar. Mig langaði að inna hv. þingmann eftir því hvort það sé raunverulega talið fullnægjandi að almenningur hafi viku til stefnu til að bregðast við og kæra. Það tekur bara heilmikinn tíma fyrir hinn almenna borgara að setja sig inn í þau efni sem gætu varðað slíka kæru. Það er ekkert hlaupið að því fyrir fólk sem almennt er ekki vant að lesa flókinn og tyrfinn lagatexta að kynna sér hvernig ætti að orða slíka kæru, hvernig ætti að leggja þetta fram þannig að almenningur geti haft einhver raunveruleg áhrif á slíka leyfisveitingu og hafi tækifæri til þess að vernda þarna réttindi sín vegna þess að hér er undir alveg gríðarlega mikilvægur mikilvægur hlutur, náttúra fjarðanna þar sem er verið að stunda sjókvíaeldi. Það eru mýmörg dæmi um að slíkt eldi hafi farið mjög illa með lífríki fjarðanna og þess vegna ætti að telja hagsmuni almennings býsna mikla og brýnt að tryggja að almenningur hafi tækifæri til þess að bregðast við.



[11:25]
Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Það er ekki verið að draga að neinu leyti úr þátttöku almennings í þessu og ég held að það sé mjög nauðsynlegt, svo ég taki undir það. En yfirleitt er það nú þannig að þau sem fylgjast með þessum málum gera það frá því að málið hefst og geta þá brugðist við innan ákveðins tíma og eru tilbúin að komast yfir þetta. Hvort lagatextinn sé ákveðið torf — ég held að það sé nú alltaf þannig þegar maður kemur að þessu í fyrsta skipti, hann getur verið það, og ef maður þekkir ekki til laganna þá þarf bara að bera saman og annað. Ég held að það sé í öllum málum. En ég tek undir að það er mikilvægt að almenningur komi að þessu en ég held að vika ætti alveg að duga vegna þess að yfirleitt er verið að fylgjast með þessu frá upphafi málsins.



[11:26]
Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held að hún hafi komið raunverulega inn á kjarnann; við getum gefið okkur að nánast hver einasti almenni borgari sem kemur að þessum texta sé að koma honum í fyrsta skipti og muni þess vegna þurfa talsverðan tíma til að setja sig inn í það hvernig beri að túlka ýmis atriði, hvernig eigi að lesa úr þeim og hvaða úrræði séu í boði, hvaða rökstuðningur þurfi að fylgja og hvernig eigi að leggja slíka kæru fram svo hún geti haft einhver áhrif. Ef við viljum raunverulega að það sé haft eitthvert samráð við almenning þá þurfum við sem stjórnvald að horfa til þess hvort almenningur hafi einhverja raunverulega möguleika á að hafa áhrif á það sem fram fer, hvort sem það er lagasetning eða veiting leyfa. Ef slík aðkoma er í raun eingöngu í því formi að það sé tekið við erindi, það sé hlustað á það og svo ekkert gert við það, þá er það ekki samráð. Samráði þarf að fylgja einhver raunverulegur möguleiki til að hafa áhrif á það sem gerist. Það er allt of oft þannig á Íslandi að samráðið veitir almenningi engan raunverulegan möguleika til að hafa áhrif. Og eitt af lykilatriðunum í því að almenningur geti haft áhrif er að fresturinn sé fullnægjandi þannig að fólk geti kynnt sér málin og lagt fram vel rökstudda og ígrundaða kæru.



[11:28]
Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég ítreka það að ég er sammála því að aðkoma almennings er mikilvæg í þessum málum sem og öðrum. Og þetta er náttúrlega ekki það fyrsta — ef fyrirtækið fer af stað til að fá leyfi fyrir fiskeldi í sjó eða á landi eða hvar sem er, þá er þetta ekki eini úrskurðurinn, málið er lengra og það eru fleiri stig. Ágreiningurinn felst kannski í þessari viku. Ég get ekki sagt að það sé nægilegt fyrir alla eða hvort vika sé heilög tala, heilagur tími. En alla vega tek ég undir það að aðkoma almennings er mikilvæg og ég held að fyrir fólk sem virkilega hefur áhuga og aðkomu og þekkingu þá ætti þetta að duga.



[11:29]
Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Andrés Ingi Jónsson) (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég ætla að gera hér grein fyrir nefndaráliti með breytingartillögu sem ég stend að ásamt öðrum. Við erum þrír fulltrúar í umhverfis- og samgöngunefnd sem stöndum að álitinu, fulltrúar Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar í nefndinni. Ég byrja á að gera grein fyrir efni álitsins og athuga síðan hvað gefst mikill tími til frekari umræðu eftir það. Forsögu þessa máls má rekja nokkuð langt eða aftur til haustsins 2018 þegar úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komst að þeirri niðurstöðu að fella skyldi úr gildi rekstrarleyfi og starfsleyfi Fjarðarlax og Arctic Sea til laxeldis í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði. Meiri hluti Alþingis brást ansi skjótt við þeirri niðurstöðu með því að lögfesta ákvæði sem veittu ráðherra sérstaka heimild til að veita rekstrarleyfi til bráðabirgða þrátt fyrir að mat á umhverfisáhrifum hefði verið fellt úr gildi. Hópur náttúruverndarsamtaka beindi í kjölfarið kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, sem skilaði niðurstöðu í desember 2021.

Úrskurður ESA var býsna afgerandi. Úrskurðurinn var áfellisdómur yfir lögunum sem voru sett þarna í snarhasti, lögum nr. 108/2018, sem voru sett til að bregðast við vanda þessara tveggja laxeldisfyrirtækja. Samkvæmt úrskurðinum braut íslenska ríkið gegn EES-samningnum þar sem innleidd voru ákvæði um sérreglur sem veittu ákveðnar undanþágur frá umhverfismati með því að veita framkvæmdaraðilum svokallað bráðabirgðaleyfi. Með lögunum voru brotin ákvæði Evróputilskipunar um að gilt umhverfismat verði að liggja fyrir þegar veitt eru rekstrar- og starfsleyfi fyrir leyfisskyldar framkvæmdir og starfsemi. Enn fremur taldist það brot að útiloka almenning frá umfjöllun um bráðabirgðaleyfin og honum gert ógerlegt að kæra þau. Þetta brýtur gegn þeim þjóðréttarlegu skuldbindingum sem íslenska ríkið tók sér á hendur með fullgildingu Árósasamningsins ofan á allt. Það er rétt og eðlilegt að bregðast við þessum ábendingum ESA, skárra væri það nú þegar við fáum rassskellingu af þessari stærðargráðu frá ESA að við bregðumst við. Rétta leiðin væri auðvitað lagafrumvarp til að taka á þessum ákvæðum sem var bætt inn 2018 en með því frumvarpi sem við ræðum hér í dag er hins vegar farin röng leið að því að bregðast við úrskurði ESA.

Að mati minni hlutans hefði verið einboðið fyrir ráðherra að bregðast við afgerandi úrskurði ESA af auðmýkt og leggja einfaldlega til að fella brott hin brotlegu ákvæði. Þess í stað var valið að fara í miklar æfingar til að finna hinni brotlegu aðferðafræði varanlegan stað í lagasafninu. Ekki hefur komið fram við umfjöllun nefndarinnar hvaða knýjandi nauðsyn er á að lögfesta heimild til útgáfu bráðabirgðaleyfa með þessum hætti.

Það sem gerðist 2018 voru mjög óvanalegar aðstæður og maður sér ekki alveg fyrir sér af hverju það þarf að vera með varanleg verkfæri til að taka á því. Það verður að horfa til þess að frumvarpið gengur enn lengra en gildandi lög því samkvæmt því eiga reglurnar um undanþágur frá umhverfismati nú að taka til allra starfs-, framkvæmda- og rekstrarleyfa, ekki bara til að bregðast við tilteknu ástandi sem átti sér stað 2018 í Patreksfirði og Tálknafirði heldur bara á ótilgreindu ástandi sem gæti átt sér stað í hvaða leyfisskyldu starfsemi sem er, hvar sem er um landið. Það mætti kalla þetta óútfylltan tékka. Það er verið að skapa hjáleið fram hjá reglum EES um umhverfismat. Sama hversu oft ráðherra eða meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar segja að ekki sé verið að skapa hjáleið þá er þetta það. Það dugar nefnilega ekki að segja í greinargerð eða í nefndaráliti að þetta sé ekki hjáleið þegar lagatextinn er skýr. Það er hægt að víkja frá grundvallarkröfunni um umhverfismat í ákveðnum tilvikum. Það er hjáleið, við skulum ekkert vera gaslýsa fólk með annað.

Það er ekki tilgreint með fullnægjandi hætti af hálfu ráðherra í hvaða undantekningartilvikum slíkar undanþágur skuli eiga við að öðru leyti en að þær séu heimilar til að koma í veg fyrir sóun á verðmætum. Hægt er að færa rök fyrir því að allar tafir á framkvæmdum teljist vera sóun á verðmætum og því hætt við að undantekningin verði að einhvers lags meginreglu. Meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar bregst við ábendingum þess efnis í nefndaráliti á þann veg að gera ráð fyrir því að frumvarpið standist reglur ESA með vísan til minnisblaðs úr umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu og leggur því til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Slíkt kæruleysi gagnvart jafn alvarlegum athugasemdum og komu frá ESA bera ekki merki faglegrar lagasetningar, því miður.

Rifjum líka upp að í nýlegri skýrslu frá Ríkisendurskoðun er dregin upp svört mynd af sjókvíaeldi hérlendis. Samkvæmt henni er stjórnsýsla og eftirlit með atvinnugreininni, með leyfi forseta, „veikburða og brotakennd og vart í stakk búin til að takast á við aukin umsvif greinarinnar á síðustu árum. Breytingum á lögum um fiskeldi sem var ætlað að stuðla að vexti og viðgangi greinarinnar í sátt við bæði samfélag og umhverfi var ekki fylgt eftir með því að styrkja stjórnsýslu og eftirlit þeirra stofnana sem mæðir mest á“. Eða svo ég noti sama orðalag og varðandi þau boð sem bárust frá ESA: Hér eru stjórnvöld rassskellt aftur fyrir að hafa ekki búið nógu vel í haginn. Það væri þess vegna nær að ráðherra myndi bregðast við skýrslu Ríkisendurskoðunar, samanlagt við úrskurð ESA, með því að efla eftirlit og girða fyrir mögulega misnotkun á þeim hjáleiðum sem löggjöfin býður upp á, frekar en að útvíkka möguleikana. Án viðeigandi eftirlits skapast auk þess freistnivandi til að sneiða hjá reglum á kostnað umhverfisins, á kostnað nærsamfélags þeirra framkvæmda sem um ræðir, á kostnað almennings og með óafturkræfum afleiðingum oft.

Í ljósi þess skamma málsmeðferðartíma sem bráðabirgðaleyfum er markaður með frumvarpinu hefur almenningur aðeins eina viku til að senda inn athugasemd um veitingu slíks leyfis. Hér langar mig aðeins að staldra við aftur orðalag frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar sem tönnlast á því að það sé mikilvægt að standa vörð um aðkomu almennings. Það er ekki gert með því að hafa frestinn svona stuttan. Það er ekki hægt að segja í greinargerð með frumvarpinu eða í nefndaráliti: Við viljum endilega standa vörð um aðkomu almennings að ákvörðunum sem varða umhverfismál, en þrengja að þeim rétti í lagatextanum sjálfum. Það er ekki hægt að tala sig fram hjá því sem er verið að leggja til í frumvarpinu sjálfu. Með því að gefa almenningi aðeins eina viku til að senda inn athugasemd þá er verulega þrengt að möguleikum almennings til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Sá varnagli sem til staðar er í núgildandi lögum er sleginn út af borðinu því með breytingunum er hægt að hefja framkvæmdir sem gætu haft óafturkræfan skaða í för með sér án þess að nokkur fengi rönd við reist. Þrátt fyrir ábendingar þess efnis þráast meiri hluti nefndarinnar við að rýmka athugasemdafrestinn með sömu rökum og birtast í greinargerð frumvarpsins um að mikil verðmæti séu í húfi og mikilvægt að bráðabirgðaleyfi fáist sem fyrst. 2018 var það í þágu fiskeldisiðnaðarins. Nú er óljóst í hvers þágu það er en það getur nýst hverjum sem er. Ljóst er að hér eru það ekki hagsmunir almennings, umhverfis eða náttúru sem ráða för.

Þá vil ég aftur nefna það að þrátt fyrir staðhæfingar ráðherrans um að þetta sé ekki hjáleið frá reglum EES um umhverfismat sem íslenskar reglur um umhverfismat byggjast á þá er engin leið til að líta á þetta mál öðruvísi en að þetta sé einmitt það. Með frumvarpinu stendur einfaldlega til að lögfesta leið fram hjá reglum EES um umhverfismat og aðkomu almennings að ákvörðunum í umhverfismálum.

Í umhverfis- og samgöngunefnd við umfjöllun um þetta mál var leitað eftir upplýsingum um það hvort ESA hefði tjáð sig með einhverjum hætti við ráðuneytið um frumvarpið og þá sérstaklega varðandi það hvort stofnunin teldi að þessi nálgun kæmi til móts við athugasemdir sínar. Þetta fannst okkur sem kölluðum eftir þessum upplýsingum í minni hluta nefndarinnar skipta höfuðmáli til þess að íslenska ríkið fái ekki bara á baukinn hjá ESA eftir önnur þrjú ár þegar kemur í ljós að þetta frumvarp sé kannski engu skárra en það sem samþykkt var í flýti 2018. Fyrst var ráðuneytið til svars 17. janúar 2023 og í svari þess kemur fram að það hafi haldið ESA upplýstri um stöðu og framgang frumvarpsins, m.a. hafi frumvarpið verið til efnislegrar umræðu á árlegum pakkafundi ESA með íslenskum stjórnvöldum í júní 2022. Í minnisblaðinu er sagt að, með leyfi forseta, „að mati ráðuneytisins verður ekki annað ráðið en að ESA hafi fallist á sjónarmið ráðuneytisins“. Þetta er áhugavert orðalag. Það vekur nefnilega athygli hversu óljóst þetta orðalag er; að mati ráðuneytisins verður ekki annað ráðið en að ESA hafi fallist á sjónarmið ráðuneytisins. Þetta var já/nei spurning og henni er ekki svarað með já eða nei heldur bara með: Jú, ja, kannski, við höldum það. Ef ráðuneytið væri þess fullvisst að þetta frumvarp væri ekki hjáleið fram hjá meginreglum umhverfisréttar EES, ef ráðuneytið væri þess fullvisst að hér væri ekki unnið gegn þátttökurétti almennings, ef ráðuneytið væri þess fullvisst að ESA myndi ekki koma og rassskella okkur aftur í sama máli eftir einhver ár, þá ætti ráðuneytið að geta staðið undir mun meira afgerandi fullyrðingum. Ef það væri raunverulegur samhljómur á milli íslenskra stjórnvalda og ESA á þessum sameiginlegu fundum um þetta frumvarp ætti ráðuneytið að geta svarað já eða nei frekar en að fela það í orðskrúði að það sé ekki alveg með það á hreinu hvort þetta frumvarp standist kröfur ESA. Við eigum dæmi um það. Við erum ekki alltaf hérna eins og frúin í Hamborg. Ráðuneytin geta sagt já eða nei, þau geta talað skýrt. Við eigum meira að segja dæmi í öðru máli sem er hjá umhverfis- og samgöngunefnd akkúrat núna, 889. mál, sem við settum ekki inn í nefndarálitið hvað væri, en er það ekki varðandi niðurdælingu koldíoxíðs? Jú. Það er mál sem hefur komið til kasta þingsins þrisvar eða fjórum sinnum vegna þess að það gengur dálítið treglega að innleiða Evrópureglur um niðurdælingu koldíoxíðs þannig að það sé í fullu samræmi við tilskipun Evrópusambandsins þar sem við höfum fengið enn eitt frumvarpið í fangið sem ráðuneytið vonar að nái loksins að innleiða reglugerðina þannig að allir aðilar séu sáttir. Í greinargerð þess máls er að finna ítarlega umfjöllun um samtal milli stjórnvalda og ESA sem og afstöðu ESA til málsins þannig að ekki þarf að velkjast í vafa um það hvort aðilar hafi fallist á sjónarmið hvors annars. Það stendur einfaldlega í greinargerð frumvarps um niðurdælingu koldíoxíðs að aðilar séu sammála, í staðinn fyrir að skrifa það út, svo ég rifji það upp, forseti, að það verði ekki annað ráðið en að ESA hafi fallist á sjónarmið ráðuneytisins. Á lögfræðiíslensku er himinn og haf á milli þessara staðhæfinga og engin tilviljun að ráðuneytið svari með þessum hætti í þessu máli vegna þess að eins og er rakið í áliti minni hluta nefndarinnar er þetta mál ekkert á þurru.

Í ljósi þess að frumvarpið snýr að gríðarlegum hagsmunum náttúrunnar og almennings lýsir minni hlutinn furðu á því að ekki sé litið til víðtækari endurskoðunar á regluverki utan um mengandi iðnað á borð við sjókvíaeldi, sé á annað borð talin ástæða til að breyta þeim lagaramma. Nærtækast er að vísa til þess að í kjölfar þess að Ríkisendurskoðun kvað upp áfellisdóm yfir allri umgjörð sjókvíaeldis lýsti matvælaráðherra því yfir að hún myndi laga lagaumhverfið og tryggja að það yrði ekki gert með plástraviðbragði heldur með því að skoða stöðuna alveg í kjölinn. Tekur minni hlutinn undir mikilvægi slíkrar nálgunar, en það frumvarp sem hér er til umfjöllunar gengur þvert gegn slíkum metnaðarfullu markmiðum — með því er lagt til að lögfesta varanlega plástur sem var settur á vegna þrýstings frá hagsmunaöflum í sjókvíaeldi og hefur aðra hagsmuni að engu.

Þá bendir minni hlutinn á að nú á vorþingi hefur ríkisstjórnin boðað til leiðtogafundar Evrópuráðsins hér í Hörpu. Þar er eitt af stóru verkefnunum að ná saman ályktun um rétt fólks til heilnæms umhverfis sem hluta af þeim mannréttindum sem Evrópuráðið stendur vörð um. Á sama tíma og ríkisstjórnin stendur fyrir því að efla umhverfisrétt með þeim hætti á alþjóðavísu skýtur verulega skökku við að fjalla hér um frumvarp sem grefur undan umhverfisrétti og sér í lagi þátttökurétti almennings í umhverfismálum. Ef ríkisstjórninni er alvara með því átaki sem fram fer á vettvangi Evrópuráðsins getur hún ekki staðið fyrir því að gera þetta frumvarp að lögum.

Í ljósi framangreinds telur minni hlutinn einföldustu og eðlilegustu viðbrögðin við áliti ESA vera að fella einfaldlega úr gildi þau ólög sem lögfest voru árið 2018, frekar en að festa þau enn frekar í sessi líkt og lagt er til með frumvarpi þessu. Umhverfið og almenningur eiga skilið að staðið sé faglega að ákvörðunum og að umhverfismat sé skilyrðislaus krafa fyrir framkvæmda-, rekstrar- eða starfsleyfi. Minni hlutinn leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem felur í sér að í stað 1.–19. gr. komi ein ný grein, sem snýst einfaldlega um að fella brott það sem sett var í lagasafnið í bríaríi árið 2018. Þar með væri búið að bregðast við ábendingum ESA með nokkuð skýrum hætti, með því einfaldlega að segja: Já, þetta hefðum við ekki átt að gera 2018. Tökum þetta út úr lögunum.

Ég hef hér lokið yfirferð um nefndarálitið sjálft. Mig langar að víkja að nokkrum punktum í viðbót vegna þess að mér finnst umfjöllun þessa máls sýna fram á ákveðna klemmu sem umhverfis- og samgöngunefnd er stundum í. Við í minni hlutanum höfum hér lagt til að samþykkja ekki það sem ráðherra leggur til af tveimur ansi veigamiklum ástæðum. Þátttökuréttur almennings skiptir öllu í umhverfismálum. Það er bara ein mikilvægasta stoð umhverfisréttar að almenningur geti haft aðkomu að ákvörðunum sem varða umhverfið. Hins vegar er grundvallaratriði að umhverfismat sé alltaf grunnurinn sem umhverfismatsskyld starfsemi byggir á. Með því að víkja frá þessum tveimur meginstoðum þá er grafið undan ákveðnum kjarna í því regluverki sem er til staðar til þess að verja náttúruna, til að verja almenning, til að standa vörð um hagsmuni þeirra sem koma á eftir okkur. Málin standa þannig að í áliti meiri hluta nefndarinnar segir: Já, já, við erum ekkert að búa til hjáleið fram hjá umhverfismati, blessaður vertu, við erum alveg að passa upp á aðkomu almennings. Hvað gerum við þegar við erum ósammála um þetta? Nefndin gerði tilraun til að fá að eiga samtal við ESA, eiga milliliðalaust samtal við ESA um það hvort þetta frumvarp kæmi til móts við þeirra áhyggjur en ESA baðst undan því að tjá sig enda væru þau með einhver mál til umfjöllunar sem tengdust þeim ákvæðum sem eru hluti af þessum lagabálki. Hvað þá? Hvar fáum við hlutlaust mat ef við í minni hlutanum tökum mark á Landvernd og öðrum náttúruverndarsamtökum sem sendu upphaflega kvörtun til ESA en meiri hluti samgöngunefndar gerir það ekki? Þetta er umhugsunarefni fyrir okkur inn í starfið fram undan.

Svo langar mig að nefna rétt í lokin tvö almenn álitaefni sem þetta mál snertir á, sem er kannski ekki ástæða fyrir okkur að hafa rætt í tengslum við þetta frumvarp í sjálfu sér en sem sjókvíaeldi almennt ætti að vekja okkur til umhugsunar um. Það er annars vegar vatnatilskipun Evrópusambandsins sem hefur ekki verið litið nógu mikið til hér á landi varðandi ótal ákvarðanir þar sem hún skiptir máli, t.d. varðandi virkjunarmál þar sem umfjöllun um virkjunarmál út frá vatnatilskipuninni hefur verið nánast ósýnileg. Svo tengist náttúrlega burðarþolsmat Hafrannsóknastofnunar vatnatilskipuninni beint, hvar vatnshlot ber að fiskeldi, þar kemur sú tilskipun inn. En ég held að lagaramminn endurspegli það ekki nægilega. Svo er einn lagatæknilegur núans sem ég held við þurfum að fara að skoða, þ.e. skipulagslögsaga sveitarfélaga í kringum firði þannig að sveitarfélög sem eiga landið umhverfis fjörð eru með skipulagslögsögu út að netlögum, 115 metra frá stórstraumsfjöru. Þetta kann maður. Það þýðir að á miðjum fjörðum er oft svæði sem heyrir ekki til skipulagsvalds þeirra sveitarfélaga sem næst eru. Ég held að þetta sé glufa sem þyrfti að stoppa í og útfæra skipulagslögsögu sveitarfélaga þannig að hún dekki firði alveg. Það myndi einfalda alla stjórnsýslu varðandi þetta. Það myndi auðvelda líka almenningi að hafa eitthvað um það að segja hvað gerist á fjörðunum sem fólk býr við.

Svo er eitt sem má nefna í þessu samhengi, bara eins og rispuð plata, að alltaf þegar við fjöllum um umhverfismat þá megum við ekki gleyma því að það er enn þá sá annmarki á lögum um umhverfismat sem hefur verið þar frá því að þáverandi ríkisstjórn skemmdi lögin til að réttlæta Kárahnjúkavirkjun, að álit Skipulagsstofnunar eru enn í dag bara ráðgefandi þegar kemur að umhverfismati. Sama hversu vel við búum um regluverkið annars staðar þá er alltaf þessi annmarki, þessi grundvallarannmarki á umhverfismatslögum, að þó að matið komi hræðilega út, þó að það sé sýnt fram á við faglega úttekt á öllum forsendum að þetta sé nánast óforsvaranleg framkvæmd, þá getur leyfisveitandi litið fram hjá því og veitt leyfi engu að síður. Það að sérfræðiálit Skipulagsstofnunar hafi ekki það vægi að geta virkað sem raunverulegt rautt ljós á framkvæmdir sem eiga ekki að fara áfram er eitthvað sem klagar mjög upp á þingið að laga.

En ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Ég hef hér gert grein fyrir minnihlutaáliti sem ég stend að ásamt hv. þingmönnum Viðari Eggertssyni og Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, úr Samfylkingu og Viðreisn, þar sem við leggjum til að þingið viðurkenni að hér hafi verið gengið of langt árið 2018 og leiðin til að takast á við þann áfellisdóm sem ESA kvað upp sé ekki að reyna að fegra stöðuna með því að smyrja mistökin yfir á fleiri svið heldur bara með því að taka skref aftur á bak, fjarlægja mistökin úr lagasafninu, henda þeim aftur fyrir okkur og reyna að gera lögin betri í framtíðinni.



[11:58]
Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir framsögu fyrir hönd minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.

Ég vil byrja á því að segja að við getum verið sammála um margt. Ég tek undir þessar áhyggjur varðandi svarleysi, viðbragðsleysi eða getu nefndarinnar til að raunverulega átta sig á því hver afstaða ESA er til málanna. Þetta er verkefni sem ég held að við ættum endilega að reyna að ávarpa með einhverjum ákveðnum hætti — þó að við komumst ekki mikið lengra með það í nefndinni — þegar við fáum skýr svör um það að ESA vilji ekki segja af eða á með það sem við erum að vinna með.

En bara til að hnykkja á því, þá er markmið þessa frumvarps, eins og fram kemur í greinargerð, fyrst og fremst að bregðast við athugasemdum ESA sem komu fram í þessari bráðabirgðaniðurstöðu sem kom þar á undan. Allt er þetta í ferli hjá þeim. En það er líka ríflega tveggja ára gamalt, þetta áminningarbréf sem kemur frá ESA og frumvarpið varð til sem viðbragð við.

Ég vil hnykkja á einu. Hv. þingmanni verður tíðrætt um að hér sé verið að búa til krók fram hjá umhverfismatinu. Það er mín afstaða, enda stend ég að áliti meiri hlutans, að hvað varðar matsskyldar framkvæmdir taki frumvarpið aðeins til tilvika þar sem leyfi hefur verið fellt brott vegna annmarka á umhverfismati, eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu. Það þýðir að viðkomandi starfsemi hafi hlotið leyfi á grundvelli umhverfismats að undangenginni lögbundinni málsmeðferð að uppfylltum skilyrðum Umhverfisstofnunar um umhverfismat viðkomandi framkvæmdar. Svo er það fellt úr gildi vegna annmarka. Ég get því ekki fallist á það að í þessu felist hvati til framkvæmdaraðila að skila inn ófullnægjandi umhverfismati í trausti þess að hljóta heimild til bráðabirgða.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Erum við ekki örugglega sammála um að forsenda ákvörðunar hjá opinberum aðilum hlýtur alltaf að vera fullnægjandi umhverfismat áður en ráðist er í framkvæmd?



[12:00]
Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Andrés Ingi Jónsson) (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Það er náttúrlega alltaf spurning hvernig er brugðist við. Ég er nefnilega sammála því markmiði frumvarpsins að bregðast við áliti ESA. Ég er ósammála því að þetta sé rétta leiðin. Á maður að nota myndlíkingu? Ég veit það ekki. Ef einhver segir: Heyrðu, félagi, þú ert að ganga upp á rangan tind, hvort eru rétt viðbrögð við þeirri ábendingu að halda áfram að vaða í villunni eða bara bakka, fara aftur á bílastæðið og keyra heim? Svo var hitt, hvati fyrir framkvæmdaraðila. Mér sýnist nú á orðalagi í nefndarálitinu að við séum ekki að tala um neitt slíkt. En ef fram koma annmarkar á umhverfismati, hvað er það? Það er forsendubrestur. Það er forsendubrestur umhverfismatsins. Mér finnst eðlilegt að fella leyfi úr gildi á grundvelli þess vegna þess að leyfið var veitt á röngum forsendum. Við þurfum ekkert að búa til einhverja ímyndaða stöðu þar sem framkvæmdaraðili hefur fundið hjá sér einhvern hvata — segjum bara að náttúran hafi verið vanmetin í umhverfismatinu á því svæði sem um er að ræða. Segjum að í ljós komi villur, að matsaðili hafi reiknað vitlaust upp úr hlutum og það hafi ekki uppgötvast fyrr en tveimur, þremur árum eftir að starfsemi fór í gang. Að horfa fram hjá þessum annmarka, (Forseti hringir.) að horfa fram hjá forsendubresti framkvæmdarinnar, er ekki fær leið.



[12:02]
Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Við erum alveg sammála um það, ég og hv. þingmaður, að það er ekki fær leið að horfa fram hjá því. En til þess er nú þetta viðbragð með þessu frumvarpi sem við ræðum hér. Ég heyri að við erum sammála um það, og ég átti ekki von á öðru, að fullburða umhverfismat á auðvitað alltaf að vera grundvöllur ákvarðana. En ef hins vegar kemur í ljós að það er einhver annmarki þá þarf að bregðast við því. Annað sem mig langaði að koma inn á er aðkoma almennings vegna þess að ég og hv. þingmaður höfum þá sýn, og ég veit að við erum fleiri sem deilum henni, að aðkoma almennings sé ein mikilvægasta stoð umhverfisréttarins eins og ég held að hv. þingmaður hafi orðað það. Við erum algjörlega sammála um það. Það hefur réttilega verið bent á og rætt hér fyrr í umræðum að vika til þess að koma með athugasemdir við útgáfu á bráðabirgðaleyfi eins og þetta frumvarp fjallar um sé hugsanlega of skammur tími. En mig langar að spyrja hv. þingmann þessu tengt. Nú er líka lagt til með frumvarpinu að heimildin til að veita bráðabirgðaleyfi eða bráðabirgðaheimild verði með þessu færð úr höndum ráðherrans og til hlutaðeigandi stofnana, Matvælastofnunar í grundvelli fiskeldislaganna og hins vegar Umhverfisstofnunar á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þessi tilfærsla þýðir að ákvörðun um veitingu undanþágu eða bráðabirgðaheimildar verður kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem er mjög mikilvægur vinkill til að styðja við þessa brýnu og nauðsynlegu aðkomu almennings í umhverfisrétti. Telur hv. þingmaður að þessi breyting sem er lögð fram í frumvarpinu, sem ég vil meina og við í meiri hlutanum að sé til þess að auka aðkomu almennings — þá er ég ekki að deila um vikufrestinn — sé til þess að auka aðkomu almennings að því að gera athugasemdir og þá í tilfelli veitingar bráðabirgðaleyfa?



[12:05]
Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Andrés Ingi Jónsson) (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Hv. þingmaður vill ekki meina að hér sé verið að leggja til að það megi horfa fram hjá umhverfismati. Hér stendur dálítið hnífurinn í kúnni. Ég myndi segja: Jú víst. Við erum kannski bara ósammála um það. Ef það finnst annmarki í umhverfismatinu þá má bara ýta því til hliðar og segja: Við ætlum samt að gefa leyfi til bráðabirgða í eitt ár og svo má framlengja það um annað ár. (OPJ: Laga annmarka …) Þannig að í tvö ár má starfsemi vera í gangi án umhverfismats, það má horfa fram hjá því.

Varðandi það að heimildin sé færð frá ráðherra og verði þar með kæranleg þá er alveg hægt að taka undir þá röksemdafærslu meiri hlutans að þar með sé verið að auka aðkomu almennings frá því sem er í ákvæðinu sem var bætt inn 2018. Þetta er samt skref aftur á bak frá almennri kröfu um aðkomu almennings að ákvörðunum í umhverfismálum. Það að heimild sem er óæskilegt að hafa í lögum sé kæranleg til kærunefndar breytir því ekki að við ættum ekki að hafa þessa heimild í lögum. Það gerir heimildina ekkert skárri þó að það sé hægt að fara einhverja kærukróka í framhaldinu. Hún á einfaldlega ekki að vera til staðar. Það er náttúrlega markmiðið sem vantar að útlista í texta greinargerðar frumvarpsins, fyrir utan það að bregðast við áfellisdómi ESA: Til hvers þarf þessa heimild í lögin? Það er eitthvað sem við höfum ekki fengið skýrt fram.



[12:07]
Indriði Ingi Stefánsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Eins og ég vék að í andsvari hérna áðan þá var töluverð áskorun að reyna að setja sig inn í efni frumvarpsins þar sem það fer svolítið mikið út um allt, virðist vera hálfgerður bandormur sem þvælist í alls konar lagabálka og ef maður flettir þeim upp á vef Alþingis er ekkert endilega víst að þar sé um endanlega útgáfu skjals að ræða. Þetta er því pínulítið flókið. Eins og ég vék líka að í andsvari þá er hægt að fá lánaða dómgreind í umsögnum og þær gefa nokkuð skýrt til kynna hvað er á ferðinni. Hér erum við einfaldlega ekki að bregðast við með fullnægjandi hætti. Það er eiginlega varla annað hægt en að taka undir það að hér hefði hreinlega þurft að staldra við og endurskoða löggjöfina, taka þetta fyrirkomulag til gagngerrar endurskoðunar, enda eru mýmörg dæmi þess hverjar afleiðingar sjókvíaeldis eru. Þær eru alls ekkert alltaf afturkræfar. Það hefur víða orðið stórskaði á lífríki fjarða þar sem sjókvíaeldi hefur verið stundað. Ekki virðist vera gætt að hagsmunum almennings og náttúrunnar í frumvarpinu heldur fyrst og fremst hagsmunum þeirra sem vilja stunda þetta sjókvíaeldi.

Það blasir líka eiginlega við að frumvarpið tekur ekki á þeim kvörtunum og ágreiningi sem er um þetta við Eftirlitsstofnun EFTA, eftirlitsstofnun EES-samningsins, og mun því kalla á frekari deilur. Ég er eiginlega alveg handviss um að ekki sé algengt að almenningur geti brugðist við á viku, sem er sá frestur sem þetta frumvarp veitir almenningi til að koma að athugasemdum og kærum.

Svo velti ég fyrir mér, þótt þarna sé heimild til að framlengja um eitt ár, hvað ef þá er komin önnur umsögn sem er líka gölluð? Þá verður kannski orðið til einhvers konar keðjuverkandi bráðabirgðaleyfi þar sem ófullnægjandi umhverfismat og ófullnægjandi umsagnir verða þess valdandi að þetta getur staðið árum saman. Þá erum við komin með ástand sem er ekkert endilega afturkræft.

Hér er bara hagsmunum almennings og náttúrunnar ekki nægilega vel fyrir komið. En það er kannski mjög viðeigandi að þetta fjalli um bráðabirgðaráðstafanir því að miðað við þann ásetning sem sjá má í þessu frumvarpi virðist vera álitið sem svo að náttúra fjarðanna sé einfaldlega til bráðabirgða, vegna þess að þetta eru ekki afturkræfar framkvæmdir. Þegar búið er að hækka sýrustig fjarðanna þannig að skeldýr og þörungar þrífast ekki lengur þar þá mun það ekki gerast á okkar ævi að lífríkið nái sér. Þess vegna finnst mér algjörlega óskiljanlegt að við ætlum að stíga svona skref sem veita framkvæmdum sem eru stórskaðlegar einhverja sérstaka undanþágu frá því að fara í lögformlegt ferli. Það er eiginlega alveg óskiljanlegt.



[12:12]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég kem hér upp til að ræða nefndarálit minni hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar um það mál sem hér er til umfjöllunar, frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um fiskeldi og lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana (heimildir til bráðabirgðaráðstafana o.fl.). Undir þetta álit rita hv. þingmenn Andrés Ingi Jónsson framsögumaður, Viðar Eggertsson og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.

Það er kannski ekki miklu við efni álitsins að bæta en ég get ekki á mér setið að koma hér upp og ræða þessi mál í samhengi skýrslu Ríkisendurskoðunar sem er til umfjöllunar í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og varðar lagaframkvæmd og eftirlit með stjórnsýslu sjókvíaeldis á Íslandi. Eins og hv. þingmenn vita þá hefur sú skýrsla vakið umtalsverða athygli, hefur fengið vandaða umfjöllun í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og þeirri umfjöllun mun væntanlega ljúka í næstu viku. Hví er ég að minnast á það? Það er vegna þess að í skýrslu Ríkisendurskoðunar er rakið hvernig við höfum byggt upp þessa atvinnugrein með ekki nógu vönduðum hætti, ekki með nógu góðu eftirliti og með lagaframkvæmd og stjórnsýslu sem er, svo vitnað sé í skýrslu Ríkisendurskoðunar, í molum og brotakennd.

Eitt af því sem hefur verið gert, þó að það sé ekki aðalumfjöllunarefni skýrslunnar nema síður sé, er einmitt að fara í svona lagareddingar eins og gert var árið 2018. Nú sat ég ekki á þingi þegar það var samþykkt en hef aðeins kynnt mér tilurð þess að það var gert og hef aldrei getað sannfærst um nauðsyn þeirrar lagasetningar. Ég hef ekki séð rökin fyrir því og þau rök sem helst hafa verið nefnd, að koma í veg fyrir sóun á verðmætum, er auðvitað mjög auðvelt að nota með mjög breiðri skírskotun þegar um þessi mál er rætt. Þess vegna verð ég að segja eins og er að eftir að úrskurður ESA féll yfir þessari lagasetningu þar sem fram kom með skýrum hætti að íslenska ríkið hefði brotið gegn EES-samningnum, þar sem innleiddar höfðu verið sérreglur sem veittu ákveðnar undanþágur frá umhverfismati, þá hefur mér þótt það einkennileg vegferð að framkvæmdarvaldið leggi svona mikla áherslu á að lögfesta gjörninginn eins og hann var 2018 eftir að hafa fengið þennan úrskurð frá Eftirlitsstofnun EFTA.

Ég viðurkenni að ég skil alveg hinn pólitíska tilgang með málinu, en ef við tökum okkur alvarlega sem fylgjendur umhverfisréttar og meginreglna hans og fylgjendur þess að mat á umhverfisáhrifum framkvæmda verði að gilda og halda gildi sínu og eftir því skuli farið við veitingu framkvæmdaleyfa og rekstrarleyfa þá er ekki í lagi að hanna þessar hjáleiðir. Í umræðunni um þetta frumvarp og þau nefndarálit sem fyrir liggja hefur verið farið yfir að þarna sé ein vika þar sem almenningur getur skilað inn umsögnum. Vissulega er hægt að kæra til úrskurðarnefndar bráðabirgðaleyfi sem veitt yrði þá. En er það nógu gott? Ég held að það sé spurningin sem þingmenn þurfa að svara. Er það nógu góð framkvæmd þegar við erum að leggja til grundvallar mat á umhverfisáhrifum framkvæmda sem þessara sem verða að standast þær gæðakröfur sem við viljum gera? Þá er ég að vísa í sjókvíaeldi í fjörðum í kringum landið.

Ég er þeirrar skoðunar að þó svo það geti mögulega verið að meiri hluti þingmanna í þessum sal nái með þessari lagasetningu að koma sér svo nálægt úrskurði ESA að það sé með einhverjum hætti hægt að segja að þetta sleppi, þá er það bara ekki nógu gott. Þá vil ég vísa aftur í skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi af því að hún er einn samfelldur áfellisdómur yfir stjórnsýslunni, lagaframkvæmdinni og eftirlitinu. Ég held og hygg, a.m.k. ef marka má umræðuna um þau mál hér í þingsalnum, að það sé fullur vilji til þess í öllum þingflokkum að bæta úr og bæta lagaframkvæmdina. Hæstv. matvælaráðherra hefur rætt það með mjög afgerandi hætti að hún vilji bæta þessa umgjörð. Bæta þarf lagaframkvæmdina og veita fé til eftirlits, það má ekki beina lögbundnu eftirliti í samkeppnissjóði o.s.frv. Skýrslan segir okkur að það sé vond hugmynd að slá af kröfum; faglegum kröfum, kröfum til vísindalegra rannsókna, kröfum sem við gerum vegna umhverfismatsins, reglna umhverfisréttarins o.s.frv. Það kemur einfaldlega alltaf í bakið á okkur ef við vöndum ekki vinnubrögðin.

Því kem ég hér upp fyrst og fremst til að árétta stuðning þingflokks Samfylkingarinnar við þá breytingartillögu sem flutt er af minni hlutanum í þessu nefndaráliti. Til ítrekunar þá er það að mínu viti ekki nógu góð lagasetning að fara þessa leið. Hér hefur verið farið ítarlega yfir umfjöllunina í nefndinni og þau álitamál sem komið hafa til skoðunar og ég ætla að endurtaka það sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson hafði orð á hér þegar hann vísaði í umfjöllun hv. umhverfis- og samgöngunefndar um 889. mál, frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, þegar kemur að geymslu koldíoxíðs. Þar hefur framkvæmdarvaldið, ráðuneytið, greinilega vandað sig — það er niðurskrifað í greinargerðinni — í samskiptum við ESA til að sjá til þess að þetta sé allt í lagi. Ég er ekki sannfærð um að það hafi verið gert í þessu máli. Það kann að vera að það hafi verið gert en ég er ekki sannfærð um að svo hafi verið. Það finnst mér bagalegt af því að ég hefði haldið, þótt ekki væri nema vegna skýrslunnar frá Ríkisendurskoðun sem kom til okkar hér á hinu háa Alþingi fyrir nokkrum vikum, að það væri fullt tilefni til að vanda hér til verka með hætti sem okkur öllum þætti sómi að.



[12:21]
Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir sitt innlegg inn í þessa umræðu og tek heils hugar undir með því sem hún segir, að það er vond hugmynd að slá af faglegum kröfum og fullt tilefni til að vanda til verka. Þar erum við alveg sammála.

Hv. þingmaður lýsir yfir stuðningi þingflokks Samfylkingarinnar við þetta nefndarálit. Þegar við horfum á tímaásinn þá eru ríflega tvö ár liðin frá þessari athugasemd — ESA stígur mjög fast niður vegna lagasetningarinnar frá 2018, eins og hefur verið rakið — og hér stöndum við og erum að ræða þetta nú. Í millitíðinni kemur þessi úttekt sem ég held að við séum öll sammála um að verði að bregðast við hvað varðar úttekt á lagaumgjörðinni í fiskeldi. Í því samhengi endurtek ég það sem hv. þingmaður sagði, að það er vond hugmynd að slá af faglegum kröfum. Ég veit það og tel mig skilja að við ætlum öll að vanda okkur við þá málsmeðferð í framhaldinu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvað varðar tillögu minni hlutans í þessu áliti, telur hún að einfaldasta og eðlilegasta viðbragðið við þessu ríflega tveggja ára gamla áliti ESA sé að fella úr gildi þessi ólög frá 2018? Telur hv. þingmaður að við séum með því að mæta athugasemdum ESA, vitandi það að í millitíðinni öðluðumst við frekari upplýsingar um að við þurfum að vinna betur í þessum málum og erum hvergi nærri hætt, eins og komið hefur fram í máli hæstv. matvælaráðherra?



[12:23]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Já, ég tel réttu viðbrögðin við athugasemdum ESA vera að bregðast við með þeim hætti sem minni hlutinn leggur til og hreinsa málið í raun upp á þann veg. En auðvitað er það alveg rétt sem hv. þm. Orri Páll Jóhannsson bendir á, að við erum með skýrslu Ríkisendurskoðunar til umfjöllunar og þar höfum við tækifæri til þess að laga til, betrumbæta og auka fjárveitingar til eftirlits og rannsókna í þessari atvinnugrein. Ég hygg eða vona alla vega að þegar á reynir verði nokkuð breið samstaða í þinginu um það, en samkvæmt öllum þeim upplýsingum sem ég hef undir höndum, ekki síst úr umhverfisráðuneytinu, um það hvernig farið hefur verið með þetta mál þá styð ég að sjálfsögðu þessa niðurstöðu.



[12:24]
Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég tel mig og hv. þingmann vera sammála um mikilvægi aðkomu almennings, rétt eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kom inn á, og að þetta sé ein mikilvægasta stoð umhverfisréttarins. Eðlilega erum við að ræða þetta út frá forsendum fiskeldis og eigum ekkert að hætta að gera það, enda forsaga málsins. En horfum eitt augnablik til þess að fyrir er í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir heimild til að veita bráðabirgðaleyfi. Svo reyndist ekki vera í lögum um fiskeldi frá árinu 2018 og því kom til þessa viðbragðs, sem þetta er svo enn annað viðbragð við. Í ljósi þess að löggjöfin leggur upp með að heimild sé til þess að gefa út bráðabirgðaleyfi, telur hv. þingmaður vera til bóta að með þessu frumvarpi sem um er rætt sé verið að tryggja eða auka aðkomu almennings að ákvörðuninni? Umsagnarfresturinn er hugsanlega stuttur en ákvörðunin er með þessu færð til hlutaðeigandi stofnana eins og ég fór yfir hér áðan, Matvælastofnunar í tilfelli fiskeldis og Umhverfisstofnunar í tilfelli hollustuhátta og mengunarvarna, og er hún þá kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem er mjög mikilvægur hlekkur í aðkomu almennings þegar kemur að ákvarðanatöku í umhverfismálum.



[12:26]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Það má alveg orða það þannig að vikan sé til bóta. En er það rétta leiðin þegar við viljum vanda til verka og sjá til þess að við getum t.d. farið að ákvæðum Árósasamningsins og gefið almenningi það rými sem hann þarf til að kynna sér málin? Athugum það líka að þótt niðurstaðan sé kæranleg þá vitum við öll að það er umhendis að kæra. Í raun og veru er það þrautavarinn. Þó svo að náttúruverndarsamtök á Íslandi séu tiltölulega öflug þá finnst mér við ekki eiga að gera ráð fyrir því að kæruleiðin sé einhvern veginn sú leið sem verði farin hvort eð er, ég get orðað það þannig. Það er betra að gefa ríflegri umsagnarfrest og gefa almenningi fyrr færi á þátttöku í ferlinu svo að það fari ekkert á milli mála hverjar athugasemdirnar eru og að hægt sé að taka tillit til þeirra þannig að þetta endi ekki með úrskurði, yfirleitt löngu seinna, frá úrskurðarnefndinni. Auðvitað er vika til bóta en vika er afskaplega stuttur tími þegar kemur að umhverfismálum þó að hún kunni að vera langur tími í pólitík.



[12:28]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég kem hingað upp rétt til að gera grein fyrir minni afstöðu. Ég er ein þeirra þriggja þingmanna sem eru á nefndaráliti minni hlutans með breytingartillögu. Afstaða mín til málsins er einfaldlega sú að það sé ekki hægt að líta fram hjá forsögu málsins og hvernig þetta mál er hingað komið. Búið er að fara rækilega yfir það hér áður. Mér finnst þeir hagsmunir sem liggja undir vera annars vegar hagsmunir umhverfis og hins vegar réttur almennings til þess að staðið sé faglega að ákvörðunum og það sjónarmið að umhverfismat eigi að vera krafan fyrir þeim leyfum sem hér er fjallað um.

Hér er verið að ræða málsmeðferðartímann og ég held að það megi nú segja, án þess að farið sé með ýkjur, að þessi vikulangi frestur sé einfaldlega mjög á skjön við það sem tíðkast í stjórnsýslunni allri þegar reynt er að koma því til leiðar með virkum og raunverulegum hætti að almenningur fái að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Í því samhengi er ein vika eitthvað sem ég held að megi kalla málamyndagjörning. Þarna er í reynd ekki verið að færa almenningi neinn raunverulegan kost á að koma sjónarmiðum á framfæri og allt í þeim breytingum finnst mér bera með sér og lykta af því að hér eigi að skerða en ekki auka. Af þeirri ástæðu er ég á þessu áliti minni hlutans. Hagsmunirnir hér undir eru einfaldlega svo veigamiklir, hagsmunir umhverfisins sjálfs og hagsmunir almennings. Ég set svo spurningarmerki við þau vinnubrögð að fara með þessum hætti að lagasetningu þegar fyrir liggur skýr úrskurður ESA, að þá sé farin sú leið að ætla að föndra sig einhvern veginn út úr vandanum.