153. löggjafarþing — 100. fundur
 27. apríl 2023.
stjórn fiskveiða, 2. umræða.
stjfrv., 537. mál (orkuskipti). — Þskj. 679, nál. m. brtt. 1479, nál. 1597.

[13:30]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti, eins og hæstv. forseti kom inn á, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, sem fjallar um orkuskipti. Ég vil bara byrja á að segja að nefndin fékk til sín talsvert af gestum og bárust sjö umsagnir sem við fórum vel yfir.

Í þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar á þessum lögum sem eru í þá veru að innleiða hvata til orkuskipta hjá bátum með krókaveiðileyfi, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Frumvarpið kemur heim og saman við áform stjórnvalda og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sem hafa stefnt í sameiningu að a.m.k. 50% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda vegna olíunotkunar íslenska flotans frá árinu 2005 til ársins 2030. Sú losun er í dag um 18% af þeirri heildarlosun sem er á beinni ábyrgð Íslands samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum.

Í frumvarpinu er lagt til að veita bátum sem eru styttri en 15 metrar og ná allt að 45 brúttótonnum veiðileyfi með krókaaflamarki noti þeir vistvæna orkugjafa til helminga við hefðbundið jarðefnaeldsneyti. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að bátar sem nota vistvæna orkugjafa séu stærri en sem nemur stærðartakmörkunum gildandi laga, m.a. vegna þess að notkun vistvænna orkugjafa kallar á aukið rými vegna þyngdar, stærðar og lögunar orkugeyma, auk þess sem aukið rými þarf til að vera með fleiri en einn orkugjafa þar sem það á við. Þetta hefur líka m.a. áhrif á öryggi sjómanna og annað slíkt. Það komu fram sjónarmið í nefndinni um hönnun og annað slíkt sem bátar þyrftu og við fengum til okkar aðila sem eru að smíða slíka báta.

Meiri hluti nefndarinnar áréttar að ekki er miðað við brúttótonnahámark í öðrum útgerðarflokkum. Þyngdartakmarkanirnar hefta hönnun skipa og geta dregið úr hvatanum til að ráðast í breytingarnar. Þess vegna fellst meiri hlutinn á þau sjónarmið og leggur til breytingar á frumvarpinu þess efnis að þær falli brott., þ.e. þyngdartakmarkanir.

Í áliti meiri hlutans er lögð áhersla á að horft sé til upprunavottunar þegar kemur að því að skilgreina vistvæna orkugjafa, þ.e. að við framleiðslu slíkra orkugjafa sé ekki notast við óvistvæna grunnorku. Það er mikilvægt að árétta að þetta frumvarp tekur ekki sem slíkt á því heldur er það í höndum umhverfis- og loftslagsráðuneytisins að taka utan um slíkt, þ.e. að finna farveg fyrir upprunavottun orkunnar.

Við erum líka sammála því að það sé skýrt hvaða orkugjafar teljist vera vistvænir. Það kom fram í samráðsgátt og í umsögnum var talað um að kannski þyrfti að geta þess betur hvaða orkugjafa væri átt við þannig að það var sett inn. En það er mikilvægt að halda því til haga að verði kleift að nota aðra orkugjafa en hér eru upp taldir í þessum tilgangi getur ráðherra heimilað það.

Þetta er auðvitað bara eitt af mörgum grænum skrefum sem við þurfum að stíga til að ná markmiðum um orkuskipti í sjávarútvegi, eins og þessi frumvörp sem hér eru undir bera merki. Ég vil bara til að árétta, af því að það er drepið á þessu í nefndaráliti hv. minni hluta, þ.e. það sem ég var að fara hér yfir varðandi orkugjafana sem eru taldir upp og hvort fleiri geti orðið undir, þetta með heimildina þannig að það liggi alveg fyrir. Það er líka ástæða til að taka utan um það að það eru nefndir hér aðrir hlutir, svo sem línuívilnun og dagafjöldi og annað slíkt sem kannski á ekki heima akkúrat í þessu frumvarpi en við höfum átt samtöl um í tengslum við önnur mál og komum til með að eiga það inni í nefndinni í þeim málum sem fyrir henni liggja.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekkert að hafa þetta lengra. Ég legg til að málið verði samþykkt.



[13:35]
Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég tók eftir því í nefndaráliti meiri hlutans að lagt er til að fella burt viðmiðið um brúttótonn. Ég er að velta því fyrir mér hvort það sé hugsanlega svolítið bratt farið vegna þess að það skiptir máli hvernig bátarnir eru útbúnir. Ef þessi takmörkun er alveg horfin, hvað stoppar þá framleiðendur í að gera bátana breiðari, dýpri? Þeir væru þá ekkert endilega góð sjóskip en myndu mögulega geta afkastað meiru við ákveðnar aðstæður. Það eru til söguleg dæmi um akkúrat takmarkanir á lengd skipa en þá urðu til skip sem voru einfaldlega mjög óhagstæð. Þau voru bara hækkuð og ristu mun dýpra og urðu þess vegna mjög slæm sjóskip en hagkvæm út frá rekstrarfræðilegu sjónarmiði. Ég er að velta því fyrir mér hvort þetta hafi verið hugsað alveg til enda, hvort þetta gæti ekki verið fullbratt.



[13:37]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Eitt af því sem var talsvert mikið rætt innan nefndarinnar var einmitt hvaða áhrif þetta hefði á sjóhæfni. Lög um báta og öryggi sjómanna og ýmislegt fleira var þar undir. Þess vegna fengum við til okkar aðila sem höfðu ekki sent inn umsagnir en eru að smíða báta og eru að hugsa um þessa hluti, nákvæmlega hvað þarf að gera til að útbúa skipin með skynsamlegum hætti en þó innan stærðarmarkanna, þ.e. að lengdin ráði för en ekki endilega tonnin. Það komu tveir aðilar til okkar sem fóru mjög vel yfir þetta. Við teljum, í meiri hlutanum a.m.k., eftir að hafa rætt við þá aðila, að það að taka tonnin út en láta lengdina ráða för sé til þess fallið að gera sjóhæfari skip. Það komu fram ýmsar hugmyndir um það hvar hlutirnir gætu verið staðsettir og með hvaða hætti ef þú værir með vetni, ef þú værir með rafhlöðu o.s.frv. Það voru ólík sjónarmið. En allar hugmyndirnar voru í sjálfu sér eitthvað sem þessir sérfræðingar sem við erum að tala við töldu vera þess eðlis að það væri of hamlandi að vera bæði með lengd og tonn undir.



[13:39]
Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það þarf kannski líka að hafa í huga að mögulega myndu ekki eingöngu innlendir aðilar byggja báta sem eru nýttir hérna heldur gætu það verið aðilar út um víðan heim og við náttúrlega vitum ekkert um viðmið þeirra aðila, hvort þau skip sem eru framleidd í Suður-Evrópu eða við Miðjarðarhaf séu útbúin við annan raunveruleika en er að finna hér. Þannig að ég velti því fyrir mér hvort það hefði ekki mögulega þurft að setja í það minnsta reglugerðarheimild til að geta þá brugðist við ef við fáum einhver slík skip sem yrðu mjög óheppileg til sjóreksturs á Íslandi, nú eða þá að setja einhverjar aðrar hvaðir sem væri hægt að grípa til ef þetta fer á þann veg að það verði óheppilegt, þó að ég skilji alveg um hvað málið snýst. Það er ljóst að skip útbúið rafhlöðum verður mun þyngra en skip sem eru drifin áfram af hefðbundnum dísil- og steinolíuvélum. Það er enginn vafi á því að það þarf að bregðast við þeim veruleika en við þurfum líka að vera til búin að bregðast við öðrum veruleika ef hann kemur upp. Það þarf að vera hægt að tryggja að þau skip sem hér sigla tryggi öryggi og sjóhæfni og standist þær kröfur sem við viljum gera hér.



[13:40]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég vil bara ítreka það hér að það er ekki miðað við brúttótonn að hámarki í öðrum útgerðarflokkum, þannig að því sé bara haldið til haga. Við fengum einmitt aðila fyrir nefndina sem eru m.a. að smíða skip erlendis, ekki bara hér á Íslandi, svo að það sé sagt. Það er jú talsvert fyrirtæki að ætla sér að fara í þessi orkuskipti og ekki endilega eitthvað sem menn hlaupa í á morgun eða hinn, jafnvel þótt það yrði að lögum, þetta er eitthvað sem tekur tíma. Ég ætla því að leyfa mér að halda því fram að íslenskir útgerðarmenn sem út í þetta leggja og eru í þessum krókaaflamarksveiðum séu nú skynsamari en svo að þeir fari að láta smíða fyrir sig báta sem eru óheppilegir til reksturs hér á Íslandi. Ef það myndi koma upp held ég að það yrði bara að taka á því. Ég hef bara afskaplega takmarkaða trú á að það geti gerst. Við höfum auðvitað alltaf tækifæri til breytinga ef við myndum standa frammi fyrir slíku. Þannig að ég hef ekki áhyggjur af því að bátar sem verða smíðaðir undir þessari löggjöf verði þess eðlis að þeir verði ekki góð sjóskip. Þetta er mikil fjárfesting og menn hljóta að leggja sig fram um að fá báta sem eru öruggir og eru góðir á sjónum.



[13:42]
Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Gísli Rafn Ólafsson) (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Já, hér erum við komin til að ræða hið fyrsta af þremur orkuskiptafrumvörpum sem koma í tengslum við sjávarútveginn. Því miður er það þannig að þó svo að það sé nú hægt að fagna því að ríkisstjórnin og hæstv. ráðherra séu að reyna að hefja skrefin í átt að orkuskiptum þá fara þessi frumvörp sem hér eru komin til 2. umr. frá því að vera hreinlega nýju fötin keisarans yfir í að vera frumvörp sem eru mjög hættuleg umhverfinu. Það er því miður þannig að það er verið að reyna að gera einhverjar breytingar sem hafa ekki verið hugsaðar alveg til enda.

Við horfum t.d. á þetta ákveðna frumvarp sem við erum að ræða um hér, sem fjallar um krókaaflamarksbáta og það að leyfa bátum sem eru styttri en 15 m, sem falla undir krókaaflamarksveiðar, að því skilyrði að þeir noti að lágmarki helming vistvæna orkugjafa. Þá er einmitt ágætt að byrja á því að skoða hvað það raunverulega þýðir. Jú, fyrst þurfum við kannski að skoða það hvað sé vistvænn orkugjafi. Eitt af því sem kom fram í umsögnum, umsögn Ungra umhverfissinna, ef ég man rétt, var að það var í rauninni ekki gerð krafa í frumvarpinu um að orkugjafarnir sjálfir væru vistvænir. Þegar þetta var rætt við ráðuneytið og innan nefndarinnar þá virtist gæta þess misskilnings að það einhvern veginn ætti að þurfa að vera í þessu frumvarpi, eða ráðuneytið eða eitthvert annað ráðuneyti að skilgreina hvað eru vistvænir orkugjafar og upprunavottorð og ég veit ekki hvað og hvað. En sannleikurinn er sá að það er löngu búið að skilgreina hvað er t.d. grænt vetni og hvað er grátt vetni. Munurinn á þessum tveimur hlutum er að annars vegar er vetni búið til með því að nýta endurnýjanlega orku, eins og t.d. íslenska rafmagnið, en grátt vetni er t.d. búið til með því að nota jarðefnaeldsneyti til þess að framkvæma þau efnaskipti að búa til vetnið. Það sama gildir fyrir aðra orkugjafa. Við getum líka ímyndað okkur að það væru rafhlöður í bátunum og við settum dísilrafstöð til að hlaða þær. Það væri ekki mjög umhverfis- eða vistvæn framkvæmd að gera slíkt. Ég held að allir sjái það. Það sama gildir ef þetta er vetni sem er framleitt með því að brenna dísil eða einhverri annarri olíu.

Það sem við erum að segja hér er að þeir sem eiga svona báta megi fá ákveðin leyfi til að vera í krókaveiðinni ef þeir nota vistvæna orkugjafa. Þá þurfum við að hugsa hvernig við ætlum að sjá til þess að einhver setji ekki bara t.d. eina litla rafmagnsvél og einhver batterí um borð í bátinn, en hlaði þau svo aldrei og noti þau aldrei, heldur sigli bara áfram á dísilolíu og sé þar með búinn að fá leyfið, fá hlutina, en sé í rauninni ekki að gera neitt til að bæta umhverfið. Þetta ræddum við hvernig væri hægt að framkvæma en því miður urðu ekki breytingar á frumvarpinu þess efnis að reyna að laga þetta.

Það var líka þannig að ég óskaði innan nefndarinnar eftir minnisblöðum frá ráðuneytinu varðandi ýmsa hluti tengda þessum reglum og þessu frumvarpi. En því miður voru svörin frá ráðuneytinu mjög rýr. Ég spurði t.d. um hvort það hafi verið gerð lífsferilsgreining á kolefnislosun í samanburði við önnur skip. Þetta er nýtt orð sem við þurfum að læra en það er þá að horfa á ferlið alveg frá a til ö og átta sig á því að við séum ekki bara að flytja til hvar kolefnislosunin á sér stað. Það eru mýmörg dæmi um það nefnilega að fólk eða fyrirtæki séu að reyna að gera eitthvað sem kemur síðan í ljós að orsakar í rauninni meiri kolefnisútblástur en gamla aðferðin. Frægt dæmi um þetta seint á tíunda áratug síðustu aldar var veitingakeðjan McDonald's í Svíþjóð sem fór í að sortera allt, allan mat, alla afganga, alla kassa, allt þetta, en svo, vegna þess að endurvinnsla á mismunandi hlutum var þvers og kruss yfir landið þá var verið að keyra með hlutina Svíþjóð þvera og endilanga á dísilbílum sem blésu út meiri koltvísýringi heldur en ef olíu hefði verið hellt yfir pappann og annað fyrir utan McDonald's og kveikt í. Þetta er lífsferilsgreiningin: Þú losar minna ef þú kveikir bara í þessu fyrir utan McDonald's frekar en að keyra þetta um hálft landið.

Það sem við þurfum nefnilega líka að hugsa út í er, og við vorum nú einmitt að ræða hér áðan fyrir hlé hafnalög, að við erum ekki komin með innviðina til að sinna þessu. Ef við ætlum að vera með báta sem eru knúnir rafmagni þá er eins gott að rafmagnið sé til í höfnunum. Það dugir ekki að það sé einhver svona heimahleðsla, þ.e. örfá kílóvött, vegna þess að ég tel að sjómennirnir vilji ekki þurfa að bíða í 10–12 tíma eftir því að báturinn hlaðist áður en hann fer í það að geta farið út aftur. Margir þeirra sofa ansi lítið þessa örfáu daga sem þeir mega veiða.

Þannig að við erum ekki búin að hugsa út í innviðina, flutningana, geymsluna á græna vetninu, geymsluna á græna metaninu og allt þetta. Hvernig ætlum við að flytja það á milli landshluta? Við hefðum þurft að fara í miklu meiri vinnu við að skoða alla þessa hluti og samræma þá, tryggja að í innviðaráðuneytinu sé verið að vinna með höfnunum, með sveitarfélögunum, með þeim sem ætla að framleiða þetta. Þó að það sé rosa fínt og rosa gott að geta sagt að við séum farin af stað með orkuskipti í sjávarútvegi þá verður að vera eitthvað raunverulegt þar á bak við.

Hér var rætt áðan um stærðir af bátum og ég held að við í atvinnuveganefnd höfum lært meira um bátahönnun en við höfum nokkurn tímann gert um mörg önnur atriði í þeirri vinnu. Það sem kom mér eiginlega mest á óvart var að ég hélt að það væri verið að tala um þyngd og slíkt þegar var verið að tala um brúttótonn. Nei, þetta eru ekki hin evrópsku brúttótonn. Þetta eru ekki hinar alþjóðlegu skilgreiningar á brúttótonnum heldur er þetta séríslenskur útreikningur á því hvað brúttótonn er. Það er ekki eini séríslenski hluturinn sem við eigum eftir að rekast á í dag. Ég held að við þurfum að reyna að passa okkur í framtíðinni á að vera ekki að búa til hluti sem eru algerlega séruppfundin fyrirbæri sem flækja síðan að fólk geti skilið um hvað er verið að tala.

Það er mjög erfitt að segja til um það hvort þetta frumvarp muni yfir höfuð hafa nokkur jákvæð áhrif á orkulosun í sjávarútvegi. Það fer allt eftir því hvaða tegundir af eldsneyti eru valdar, hvort þær eru búnar til með grænum leiðum, eftir því hvort við byggjum upp innviðina sem þarf til að hafa þær. Allt eru þetta hlutir sem hefði þurft að taka á og vinna betur í ráðuneytinu áður en þeir komu hingað inn. Ég hefði helst viljað að við hefðum þann valkost að vísa ekki til ríkisstjórnar heldur bara vísa aftur í ráðuneytið og segja: Vinnið betur, vegna þess að þetta er alls, alls ekki nógu vel hugsað. Við þurfum að gera betur vegna þess að það sem skiptir máli er ekki það að geta tékkað í eitthvert box og sagt að hér séum við byrjuð, eða hér séum við í orkuskiptum, heldur skiptir máli fyrir börn okkar og barnabörn að við séum að gera raunverulega hluti sem draga úr kolefnislosun en eru ekki bara falleg prik á blaði fyrir einhverja ráðherra til að segja: Ég er búinn.



[13:55]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þingmaðurinn talaði um innviðauppbyggingu til að mæta þessum breytingum. Ég er svo innilega sammála því að við þurfum að byggja upp innviði, sérstaklega við hafnir, af því að nú erum við að fara af stað í þessa byltingu og breytingu; orkuskipti í sjávarútvegi. En er hv. þingmaður þá ekki sammála mér um að það þurfi meiri raforkuframleiðslu hér á landi til að mæta þessu vítt og breitt um landið? Við erum með sjávarútveg allt í kringum landið og það er mikið af skipum á þeim stöðum þar sem raforkuöryggi er mjög slæmt og vantar virkilega framleiðslu. Er þingmaðurinn sammála því að við þurfum að fara í meiri orkuframleiðslu til að mæta þessum breytingum sem við þurfum sannarlega að fara í?



[13:56]
Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Gísli Rafn Ólafsson) (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég held að fyrsta skrefið sé að horfa á hvað við getum gert við dreifikerfið okkar og byggðalínuna sem er orðin allt of úrelt. Ef við horfum t.d. á að það er búist við, ef ég man rétt, tæplega 100 skemmtiferðaskipum og ferjum, Norrænu, til Seyðisfjarðar í ár. Ekkert þessara skipa getur tengt sig við rafmagn þegar þau liggja í höfninni í Seyðisfirði sem þýðir að það er verið að dæla út dísilútblæstri þarna allan tímann. Samt erum við með virkjun rétt hjá. Við erum meira að segja með virkjanir, það er önnur smærri virkjun inni í Seyðisfirði, en engar þeirra eru tengdar niður í Seyðisfjörð þó svo að það sé nú ekkert það langt. Ég held að við þurfum að hugsa kerfið okkar og fjárfestinguna okkar í því dálítið betur áður en við byrjum á því að virkja meira vegna þess að það að hafa fullt af orku en nýta hana ekki nógu vel vegna þess að dreifikerfið okkar er 50 ára gamalt og eldra á mörgum stöðum, það held ég að hafi miklu meiri áhrif. En já, við þurfum að tryggja rafmagn, hvort sem það er með betra dreifikerfi eða kannski þarf að virkja eitthvað, við vitum það ekki. Þegar búið er að skoða dreifikerfið þá þurfum við að hafa nægt rafmagn í öllum þessum höfnum.



[13:58]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held að við getum verið sammála um að raforkuöryggi byggir á nokkrum atriðum, það eru flutningsleiðir, vissulega, það er raforkuframleiðsla, framboð og eftirspurn. Við vitum að það eru svæði sem hafa ekkert af þessu, ekki nægilega mikið, og þótt við byggjum upp línur sem eru ekki í hringtengingu, t.d. eins og á Vestfjörðum, á Norðausturlandi, þá eigum við ekki nóg rafmagn til að sinna þessum orkuskiptum. Þetta er mjög stórt verkefni og ég er alveg sammála því að við þurfum að hraða þessum innviðum en getum við verið sammála um að við þurfum þá að fara í meiri framleiðslu á þeim stöðum þar sem vantar virkilega upp á?

Önnur spurning: Ef við ætlum að fara í að rafvæða skipin er þá ekki líka hvati í því að þeir sem komast í rafmagn, eins og t.d. Herjólfur, þó að hann sé ekki fiskiskip, sem siglir á rafmagni frá Landeyjahöfn eða Vestmannaeyjum — er þá ekki hvati vegna þess að rafmagnið er orðið miklu ódýrara en olían, alla vega um þessar mundir og ég held að það eigi ekki eftir að breytast í náinni framtíð?



[14:00]
Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Gísli Rafn Ólafsson) (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Ég held að það sé mikilvægast að skoða heildarkerfið áður en við förum að segja að við þurfum meira af þessu eða meira af þessu. Og já, ég er hjartanlega sammála því að Vestfirðir og Norðausturland og fleiri staðir — ég meira að segja sendi í gær fyrirspurn um raforkuöryggi í mínu kjördæmi, uppi í Kjósarhreppi. Við þurfum að sjálfsögðu að horfa á raforkuöryggi um allt land og við þurfum að hugsa út fyrir boxið þar, ekki horfa og segja bara virkjanir eða bara þetta. Við þurfum að skoða hlutina betur en við erum að gera í dag. Við erum held ég öll, sérstaklega við stjórnmálamenn, of föst í því hvernig hlutirnir hafa verið gerðir í stað þess að hugsa: Hvernig gætum við gert þá ef við hugsuðum upp á nýtt?

Varðandi raforkunotkunina í skipum er það að sjálfsögðu mikill kostur ef bátar losna við að þurfa að nýta dísil og það er ódýrara í flestum tilfellum. Við sem keyrum um á rafmagnsbílum sjáum það bara. Stóra vandamálið við að keyra um á rafmagnsbílum í dag er það að ef ég ætla að keyra t.d. til Húsavíkur á eftir eða í sumar mun ég lendi í því að þurfa að bíða klukkutímum saman, ekki eftir að hlaða bílinn heldur að bíða eftir því að komast í hleðslu af því að það eru raðir alls staðar. Sama mun eiga við í höfnunum ef allir ætla að hlaða smábátana sína að nóttu til. Þetta þurfum við að hugsa um.