153. löggjafarþing — 100. fundur
 27. apríl 2023.
veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, 2. umræða.
stjfrv., 538. mál (aflvísir). — Þskj. 680, nál. 1585 og 1607.

[15:20]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997, aflvísir. Með þessu frumvarpi er lagt til að viðmið núgildandi laga um aflvísa verði fellt brott úr 5. og 6. gr. laganna. Markmiðið með því er að skapa hvata fyrir útgerðir til að endurnýja eða endurbæta skipakost sinn með umhverfisvænni skipum sem hafa stærri og hæggengari skrúfur. Samkvæmt frumvarpshöfundum kann samdrátturinn í olíunotkun að verða allt að 50%. Það komu fram fyrir nefndinni sjónarmið um að með því að fjarlægja aflvísisviðmið úr lögum yrði stærri bátum og skipum heimiluð veiði innan 12 mílna. Þá komu einnig fram sjónarmið um að stærri skrúfa gæti haft áhrif á losun kolefnis úr sjávarbotni. Vegna þessa er áréttað í áliti meiri hlutans að með frumvarpinu sé ekki stefnt að því að breyta þeim veiðarfærum sem heimilt er að nota innan 12 mílna. Þá kemur fram í ítarlegu minnisblaði matvælaráðuneytisins að stærð skrúfu hafi ekki áhrif á losun kolefnis frá hafsbotni.

Hvað þessi sjónarmið varðar vil ég segja að hér á landi hafa ríflega 1.350 skip veiðileyfi, 1.100 þeirra lönduðu afla á síðasta ári, og það er því til mikils að vinna með frekari orkusparnaði sem við teljum að hægt sé að ná fram með þessum breytingum. Í þessu sama minnisblaði matvælaráðuneytisins til nefndarinnar kemur fram að meginþorri þessara skipa getur núna stundað veiðar fyrir innan og utan viðmiðunarlínu með mismunandi takmörkunum. Ég vil í þessu samhengi benda á 5. gr. laga um fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands þar sem settar eru takmarkanir á veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í landhelginni, takmarkanir sem lúta að veiðisvæðum og þeim tíma sem veiðar mega fara fram. Sömuleiðis eru ýmsar takmarkanir settar um stærð og gerð veiðarfæra sem dregin eru eftir hafsbotni í tilhlýðandi reglugerðum um hverjar veiðar fyrir sig. Við getum til að mynda nefnt viðurlög við plógum sem eru umfram stærðarviðmið í reglugerð um veiðar á ígulkerjum.

Virðulegi forseti. Hvað togskip varðar þá held ég að mikilvægt sé að taka það fram hér að það eru örfáar undantekningar. Almennt mega togskip ekki veiða innan viðmiðunarlínu. Þær undantekningar sem hér eru undir útfærast þá miðað við stærð skipanna. Mér finnst mikilvægt að árétta að engin skip fá með þessum breytingum aðgang að veiðum innan viðmiðunarlínu. Vísað er til þess í nefndaráliti meiri hlutans að samkvæmt greinargerð frumvarpsins fer nú fram yfirgripsmikil vinna við að skilgreina viðkvæm hafsvæði og botnvistkerfi sem njóta eiga verndar gagnvart veiðarfærum sem snerta botninn. Ég vil þó koma því á framfæri að í tillögu átta í Auðlindinni okkar er lagt til að miða veiðar á ákveðnum tegundum á tilteknum svæðum frekar við stærð veiðarfæra en stærð skipa. Ég tek undir þessi sjónarmið. Við ræddum talsvert í nefndinni að það ætti ekki að vera stærð skipa í sjálfu sér sem réði því hvar og hvernig væri veitt heldur einmitt veiðarfærin sjálf.

Af því að hér er verið að vitna til þess að það eru rannsóknir á áhrifum á hafsvæði utan 12 mílnanna þá hef ég trú á því og það hefur komið fram, ráðherra hefur rætt um það, að það verði einnig gert innan þeirra sem er mjög mikilvægt. Ég held að það geti orðið bara samhliða þessu og þurfi ekkert sérstaklega að bíða eftir því. Við veitum talsvert miklum fjármunum til hafrannsókna og Hafrannsóknastofnunar sem einmitt eiga að fara í að rannsaka lífríkið og vistkerfi hafsins og ég sé ekkert því til fyrirstöðu að það verði gert. Þetta er, eins og við höfum verið að ræða hér, eitt af þessum málum sem nefndin fjallar um á þessu þingi sem varðar orkuskiptin í sjávarútvegi og grænu skrefin sem við höfum ákveðið að stíga til að ná fram þeim markmiðum sem stjórnvöld hafa sett sér og sem ég tel mikilvæg.

Ég geri sannarlega ekki lítið úr áhyggjum af áhrifum veiðarfæra á vistkerfi, hvorki áður né nú, en allt sem kom fram meira og minna og rökstuðningur sem við fengum var að þrátt fyrir að skrúfan væri aflmeiri þá þýddi það ekki endilega neikvæð áhrif og eiginlega síst á lífríkið, vegna þess að það væri minni hætta á því að það væri mar á fiskinum, það færi betur um hann ef það væru tvö troll frekar en eitt. Ég held að við þurfum að taka mark á þeim stofnunum sem við treystum til þess að fara með þessi mál. Við fengum svör og við getum ekki haft mjög valkvætt, finnst mér, hvenær við tökum mark á því sem sérfræðingarnir segja okkur og hvenær ekki. En sannarlega skortir okkur gríðarlega mikið rannsóknir bara almennt í hafinu og ég held að við séum öll sammála um að það sé eitthvað sem við þurfum að auka. Það kom fram við þessa umræðu að þegar verið væri að tvöfalda afköstin í færri veiðiferðum gæti það sparað allt að 30% af olíunotkun. Það var talað um það líka að þegar troll eru dregin styttra eftir hafsbotninum þá hafi þau minni áhrif og svo, eins og ég sagði áðan, að það eru aukin gæði fisksins sem talað er um þegar notuð eru fleiri en eitt troll.

Virðulegi forseti. Ég ætla að láta þetta duga og geri ráð fyrir umræðu um þetta mál af hálfu þingmanna, bæði í minni hluta og í meiri hluta.



[15:27]
Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Gísli Rafn Ólafsson) (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Nú erum við komin í annað frumvarpið sem tengist orkuskiptum sem hæstv. matvælaráðherra hefur lagt fram. Þetta er kannski eitt það hættulegasta af frumvörpunum því að hér er verið að fórna líffræðilegum fjölbreytileika og umhverfinu á kostnað loftslags. Af hverju segi ég þetta? Jú, það er að sjálfsögðu gott að stærri skrúfur dragi úr orkunotkun skipanna en það þarf að passa að það sem fengið er út úr því að draga það saman komi ekki í bakið á okkur á annan máta. Það sem ég á einna helst við þar eru tveir hlutir, annar sem við fjöllum um í nefndarálitinu en hitt sem við gátum ekki fengið viðhlítandi svör við frá ráðuneytinu og Hafrannsóknastofnun. Það er nefnilega þannig að koltvísýringur er bundinn í hafinu að miklu leyti. Við óskuðum eftir upplýsingum um hvaða áhrif það hefði að vera með stærri skrúfu hvað varðar þá hreyfingu sem þá kemst á hafið og mögulega losun við það en engin gögn fengust um það. Það sem hins vegar er mikilvægt og kom fram í umræðu okkar við ráðuneytið og aðra er að með því að stækka skrúfurnar — það er í rauninni það sem þetta gengur allt út á, aflvísirinn er enn eitt íslenska fyrirbærið sem einhver fann upp, að margfalda einhverja hluti með stærð skrúfunnar, en hér er hreinlega verið að tala um að stækka skrúfur — færðu meiri toggetu og þar af leiðandi geturðu t.d. dregið tvö troll í stað eins. Þetta staðfesti ráðuneytisfólk við okkur. Það að geta dregið tvö troll en ekki eitt gerir það að verkum að meira kolefni losnar úr sjónum og áhrifin á hafsbotninn aukast, til að mynda á þau setlög sem þar eru.

Það er þessi aukna losun á kolefni í sjónum og þessi áhrif á hafsbotninn sem við teljum að hafi mögulega alvarleg áhrif á lífríkið og þann fjölbreytileika sem þar er, lífríki sem þegar er viðkvæmt fyrir öllu raski. Það er því mjög ófyrirséð hvaða áhrif þetta mun hafa. Vitað er að notkun trolls og dragnótar getur valdið auðn á miðum nærri landi, t.d. virðast hrygningarstofnar þorsks ekki hafa borið þess bætur síðastliðin 40 ár. Eins og kom fram hjá framsögumanni meiri hluta þá erum við að horfa til þess að vernda fleiri hafsvæði. Við verðum að passa að vernda ekki eitt hafsvæði en algjörlega eyðileggja önnur. Það er mikilvægt að í aðgerðum fyrir loftslagið séum við að passa að þær séu ekki á kostnað þess líffræðilega fjölbreytileika og lífríkis hafsins sem er á þessum stöðum. Ég tala nú ekki um ef — hvað kallaði ég það áðan? — lífsferilskostnaðargreining, þ.e. kolefnisgreiningin öll, sýnir okkur að það sem við erum að spara í að brenna dísil í skipinu ofan á hafinu er að losa meiri koltvísýring úr hafsbotninum og hafinu sjálfu. Þetta erum við ekki búin að rannsaka, þetta erum við ekki búin að gera. Samt ætlum við að leyfa þessar breytingar.



[15:33]
Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég ætla að þakka hv. þingmanni fyrir þessa ágætu ræðu. Við deilum ekki sömu sýn og ekki alveg sömu skoðun á þessu máli. Við vissum það svo sem fyrir þennan þingfund þannig að það kom ekki á óvart.

Mig langar aðeins að forvitnast og spyrja þingmanninn. Við í atvinnuveganefnd fengum 15. febrúar, frá skrifstofu sjávarútvegs í matvælaráðuneyti, minnisblað sem er í gögnum málsins. Þar er svarað fyrirspurn um minnisblað frá Hafrannsóknastofnun um áhrif stærri skrúfu og meira afls á CO2-losun frá botnvörpu og samanburð á þeirri losun við þann sparnað í CO2-útblæstri sem fæst við stærri skrúfu.

Þar er svarað: „Stærð skrúfu hefur engin áhrif á hafsbotninn og losun CO2. En stærri skrúfa getur dregið verulega úr orkunotkun eða allt að helmingi.“ Síðan er því svarað að þetta fjalli ekki um breytingar á veiðarfærum.

Um áhrif stærri skrúfu á lífríkið innan viðmiðunarlínu er svarið: „Stærri skrúfa skipa hefur engin áhrif á lífríki, hvorki utan eða innan viðmiðunarlínu.“

Þetta eru þær upplýsingar sem nefndin hefur frá fagráðuneytinu sem væntanlega hefur leitað til sinna undirstofnana varðandi þetta svar. Ég spyr hv. þingmann hvort hann hafi önnur gögn sem staðhæfi eitthvað annað og hvar þau séu því að þetta eru svörin sem við höfum fengið frá okkar færustu vísindamönnum í þessum málum.



[15:35]
Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Gísli Rafn Ólafsson) (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta stangast á við önnur gögn sem komu fram, m.a. í umsögnum sem við fengum, ef ég man rétt, frá Ungum umhverfissinnum og Landvernd.

Svarið frá ráðuneytinu var ekki fullnægjandi vegna þess að það tók ekki tillit til þessarar auknu toggetu sem síðar kom fram eftir að þetta minnisblað kom, sem að sjálfsögðu hefur meiri áhrif á hafsbotninn og umhverfið og losun úr setlögum.

Það sem ég kvartaði yfir á fundum nefndarinnar og við ráðuneytið var að við fengum ekki fullnægjandi gögn til að sýna fram á að þetta hefði ekki þessi áhrif. Á meðan við fáum ekki fullnægjandi gögn hvað þetta varðar getum við ekki tekið ákvarðanir sem skapa hættu á því að hafa slæm og óafturkræf áhrif á lífríkið og valda jafnvel meiri losun.

Ég vænti þess þegar ég spurði ráðuneytið þessarar spurningar að við fengjum einhver gögn um það, ekki tveggja lína svar sem ekki bendir á nein gögn.



[15:37]
Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að eyða öllum mínum tíma í þetta. Mig langar samt að segja um þessi svör sem bárust að þótt þau séu tvær línur treysti ég okkar vísindafólki til þess að á bak við þær séu upplýsingar og rannsóknir sem styðja svar stofnunarinnar.

Ég treysti þessu fólki fullvel til að geta svarað þessum spurningum. Ég tel svörin vera fullnægjandi varðandi að fá hráu gögnin sem þarna liggja á bak við. Ég er viss um að það er örugglega hægt fyrir hv. þingmann og atvinnuveganefnd að fá þau gögn en þau breyta væntanlega ekki þeirri niðurstöðu sem kemur fram og stendur í þessu ágæta minnisblaði.

Það er ágætt að nefna það að á sama tíma og menn kalla eftir því að það vanti frekari gögn, rannsóknir og upplýsingar, þá finnst mér svolítið hæpið að menn geti staðið í pontu á Alþingi og sagt að menn séu að losa mun meira.

Ég skil ekki alveg hvernig hv. þingmaður getur staðið á þeirri fullyrðingu sinni að menn séu að losa meira ef sami þingmaður stendur hér og segir að það vanti gögn til að styðja hvort skipin losi meira eða ekki. Ég ætla bara að benda mönnum á að þeir þurfa að gæta samræmis þegar þeir koma í pontu á Alþingi.



[15:39]
Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Gísli Rafn Ólafsson) (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Við erum sammála um að vera ósammála, held ég, í þessu máli.

Ég sagði reyndar að við værum mögulega að losa meira. Það voru gögn í umsögnum sem við fengum sem bentu til þess að rannsóknir sýndu fram á slíkt. Svörin sem við fengum í minnisblöðum frá ráðuneytinu voru því miður allt of rýr. Margt var ekki vitað og ekki skoðað.

Við verðum að taka ákvarðanir út frá góðum upplýsingum. Við megum ekki fara í aðgerðir og hluti sem síðan koma í ljós að séu verri fyrir lífríkið og jörðina en ef við hefðum ekki gert neitt.

Við þurfum að passa okkur á þessu þegar við tökum jafn alvarlegar ákvarðanir eins og um þetta.



[15:40]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Mig langar að ræða þetta mál sem nú er undir, sem tengist auðvitað máli sem var fyrr á dagskrá varðandi orkuskiptin. Hér í máli 538 er ræddur aflvísir og þessi mælieining vísar til þess að það er verið að mæla togkraft vélar og í þessu tilfelli er verið að taka út aflvísi, fjarlægja úr lögunum, það sé sem sagt ekki horft til hans hjá þeim bátum sem eru að veiðum innan við 12 mílur. Þá er það ekki mælieiningin sem heftir veiðar, að menn séu með þennan aflvísi sem vísar til hversu togkraftur er mikill heldur er miðað við annað, lengd báta svo sem.

Ég hef og fleiri lýst yfir miklum áhyggjum af þessari þróun, að í ljósi fagurra fyrirheita um orkuskipti sé verið að leiða fram sparnað í notkun jarðefnaeldsneytis á kostnað lífríkisins, sem má auðvitað aldrei vera. Það má aldrei vera til þess að á móti séum við að gera hluti sem skaða lífríkið. Í þessu tilfelli er verið að skaða lífríkið með auknum þunga á botnveiðarfærum. Það er ekki spurning að þessi skip sem nú þurfa ekki að gangast undir það að vera með ákveðið vélarafl hafa núna möguleika, þegar vélaraflið er orðið meira, á að nota miklu öflugri botnveiðarfæri á við þessa stóru togara sem eru úti á ballarhafi. Það veldur auðvitað miklu raski á lífríkinu í sjónum. Hér var nefnt áðan af framsögumanni nefndarinnar að það ættu að fara fram rannsóknir á lífríki hafsbotnsins og í vetur var í samráðsgáttinni reglugerð frá matvælaráðuneytinu eða matvælaráðherra varðandi þá hluti að rannsaka áhrif veiðarfæra, botndreginna veiðarfæra, á lífríki sjávar utan 12 mílna. Út af hverju í ósköpunum má ekki gera þær rannsóknir fyrst á hafinu innan 12 mílna áður en það er farið að leyfa möguleika á enn öflugri botndrægum veiðarfærum á þeim slóðum? Mér vitanlega, og leiðrétti mig þá enginn, hafa ekki farið fram rannsóknir að neinu gagni á lífríki sjávar og á sjávarbotninum innan 12 mílna eða áhrifum ólíkra veiðarfæra á grunnslóð innan 12 mílna. Er ekki rétt að byrja á réttum enda hjá þeim og okkur öllum sem viljum umhverfinu vel, hvort sem það er til sjós eða lands, og hefja þessar rannsóknir og treysta vísindamönnum varðandi hvað kemur út úr því? Hvaða svæði eiga að vera friðuð og lokuð fyrir ákveðnum tegundum veiðarfæra og á hvaða svæðum er óhætt að nota mismunandi veiðarfæri? Á alþjóðavísu hefur auðvitað verið mjög gagnrýnt að veitt sé með þungum og öflugum veiðarfærum eins og botndregnum veiðarfærum.

Mig langar að vísa til greinar sem Magnús Jónsson, fyrrverandi veðurfræðingur, skrifaði og lokaorðin þar eru, með leyfi forseta:

„Ljóst er að veiðar með botndregnum veiðarfærum eiga í vaxandi mæli undir högg að sækja víða í heiminum. Það er því umhugsunarefni fyrir okkur á Íslandi að þáttur togveiða hér við land hefur farið sívaxandi á síðustu áratugum. Ljóst er að hvorki fræðasamfélagið, umhverfissamtök né íslensk stjórnvöld hafa gefið þessu þann gaum sem vert væri. Og enn merkilegra er að stöðugt er verið að heimila auknar veiðar með stórvirkri dragnót í landhelgi Íslands og það upp í fjörur og inn í fjarðarbotna …“

Þetta eru varnaðarorð sem koma frá vísindamanni og sami vísindamaður skrifar hér umsögn um málið í samráðsgátt fyrir hönd Drangeyjar, smábátafélags Skagafjarðar, og hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Undirritaður telur þessa tillögugerð fráleita og í engu samræmi þá almennu stefnu á heimsvísu að draga úr togveiðum á fiski. Veiðar með botndregnum veiðarfærum valda stórfelldri losun á koltvísýringi umfram það sem losnar við brennslu á eldsneyti á aflvélar skips …“ — og bætir við að þetta komi fram í grein sem hann skrifaði í Morgunblaðinu og ég vitnaði til.

Þetta er mikið áhyggjuefni og maður á erfitt með að skilja það að flokkur eins og Vinstri græn fari svona öfugt að, vilja með annarri hendinni auka orkuskipti en að með hinni hendinni, með afleiðingum af því, sé verið að kalla á enn þyngri og öflugri veiðarfæri innan 12 mílna á órannsökuðum svæðum sem veldur mikilli kolefnislosun. Það sé verið að skarka á öflugum togskipum langt innan við 12 mílur með öflugri veiðarfærum en leyft er í dag. Hér hefur verið talað úr ræðustól um að það sé ekki verið að breyta neinu varðandi veiðarfæri. Það eru togveiðar innan 12 mílna í dag, ákveðnar veiðar ákveðinna skipa sem hafa verið eyrnamerkt ákveðnu vélarafli, þessum aflvísi, en nú er verið að breyta því og það bannar ekkert sömu aðilum að nýta sér það afl til enn öflugri botnvörpuveiða og nýta þar veiðarfæri, hvort sem það eru botnvörpur eða hvaða þungu veiðarfæri sem ættu í hlut, sem eru sambærileg og á stórum togurum á ballarmiðum eins og ég hef nefnt hér áður.

Aðeins um nefndarálitið sem fylgir þessu máli. Þar er sagt m.a.:

„Eftir sem áður þurfa togskip yfir 42 metra, sem stunda togveiðar, að veiða fyrir utan 12 sjómílur frá viðmiðunarlínu, þá mega togskip undir 42 metrum en lengri en 29 metrar stunda veiðar á vissum svæðum …“

Þetta vekur athygli, að þessi skip, togskip með öflugum botnvörpum sem eru á bilinu 29–42 metrar að lengd, megi stunda veiðar á vissum svæðum upp að 4 sjómílum frá viðmiðunarlínu. Það er ekki verið að breyta því. Þá spyr maður sig: Skip sem eru styttri en 29 metrar, verður þeim heimilt að skarka með troll og stórar skrúfur bara upp við grunnslóð, sem stundum er kölluð matjurtagarður landsmanna? Það eru ýmsar spurningar sem vakna og það þarf að spyrja nánar Hafrannsóknastofnun og vísindamenn hvað er í raun undirliggjandi í þessu frumvarpi sem er svolítið falið eins og þetta, gefið í skyn en kannski ekki svarað. Eins og hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson kom inn á áðan þá var ekki hægt að veita svör við öllum spurningum minni hlutans eða hans, hv. þingmanns, í umfjöllun nefndarinnar. Ég las þessar umsagnir og svör og þar kemur: Getum ekki svarað, höfum ekki svör. Það er auðvitað grafalvarlegt í svona stóru máli þegar ekki liggja fyrir neinar rannsóknir til að byggja það á hvar má veiða og hvort það eigi að loka bara algjörlega svæðum innan 12 mílna fyrir þungum botnvörpuveiðum og þeim veiðarfærum sem eru að skarka á hafsbotninum og eyðileggja hann.

Ég vitna núna í umsögn frá Landssambandi smábátaeigenda, með leyfi forseta:

„Landssamband smábátaeigenda (LS) mótmælir harðlega öllum hugmyndum um aukna sókn togskipa innan 12 sjómílna fiskveiðilandhelginnar. […]

Telji Hafrannsóknastofnun að auka þurfi veiðar á grunnslóð er það tillaga LS að það verði gert með veiðum dagróðrabáta sem nota umhverfisvæn veiðarfæri. LS bendir á að næg sóknargeta er fyrir hendi hjá bátum sem nota kyrrstæð veiðarfæri. Notkun trolls og dragnótar við veiðar nálægt landi skilur eftir sig eyðimörk og fiskleysi á miðum smábáta sem ekki hafa stærðar sinnar vegna möguleika á að sækja á aðrar veiðislóðir.“

Þetta þekkja smábátasjómenn og hafa sagt við mig og auðvitað fjölda annarra í ræðu og riti að þegar þessi öflugu togskip, sem eru núna til staðar og hafa möguleika til að verða enn öflugri, hafa skarkað á einhverjum hefðbundnum miðum þar sem eru krókaveiðar þá sést bara ekki fiskur þar í langan tíma. Þetta eru uppeldisstöðvar fisks og mjög mikilvægar og dýrmætar fiskslóðir. Það þyrftu auðvitað að liggja fyrir ítarlegar rannsóknir hjá Hafrannsóknastofnun áður en farið er í þessa vegferð sem er mjög gagnrýniverð, en öll gerð í nafni umhverfisverndar og orkuskipta, sem eru öfugmæli að mínu mati, því miður.

Ég vil benda á rannsóknir sem hafa verið gerðar á kalkþörungabreiðum í Ísafjarðardjúpi sem virðast vera iðandi af lífi. Það kom fram í fréttum mjög nýlega að undanfarin ár hefur Michelle Lorraine Valliant stundað rannsóknir á lífríki sjávar á Vestfjörðum og sýnir ný rannsókn hennar að ungviði þorsktegunda leitar í kalkþörungabreiður í íslenskum fjörðum. Hún bendir einnig á að fiskveiðar með ákveðnum tegundum veiðarfæra, svo sem notkun dráttarnótar, geta skaðað kalkþörunga auk þess sem úrgangur frá eldiskvíum getur safnað upp lagi ofan á kalkþörungabreiðuna. Mér fyndist mjög áhugavert ef atvinnuveganefnd myndi kalla til þennan líffræðing sem þarna er nefnd til þess að fá hjá henni viðbrögð við þessu frumvarpi og umsögn og hvaða möguleikar eru á að vera með enn þá öflugri botnveiðarfæri þegar vélarkrafturinn eykst, skrúfan stækkar og vélaraflið má aukast.

Ég legg því til að þessu máli verði vísað aftur inn í atvinnuveganefnd. Þetta þarf miklu betri umræðu og rýni. Það liggur ekkert á þessu. Byrjum ekki á öfugum enda. Rannsökum fyrst lífríkið á hafsbotninum og áhrif ólíkra veiðarfæra á hafsbotninn, ekki bara fyrir utan 12 mílur eins og ráðuneytið er með í skoðun núna varðandi reglugerð í samráðsgátt, varðandi þau mál. Byrjum líka hérna næst landi þar sem umhverfisvænstu veiðarnar hafa verið stundaðar, bæði línu- og handfæraveiðar. Byrjum þar, hleypum ekki þessum öflugu togurum hingað upp að matjurtagarði landsmanna í hafi til þess að eyðileggja áður en rannsóknir fara fram. Það er bara öfugsnúið. Ég vona að skynsemin ráði ferðinni en sú hugsun sé ekki bara ráðandi að drífa þetta af og sjá svo til hvað verður. Stundum þurfa menn að taka U-beygju og það getur líka skilað jákvæðum árangri að hafa skynsemina að leiðarljósi. En ég myndi líka gjarnan vilja að fleiri aðilar kæmu að þessu til að skoða þetta og nefndin kallaði til sín fleiri. Ég nefndi Hafrannsóknastofnun, líffræðinginn sem ég nefndi líka og Byggðastofnun. Þetta hefur allt samlegðaráhrif, þetta mál og fyrra frumvarpið um stækkun krókaaflamarksbátana og samþjöppun sem fylgir því í krókaaflamarkskerfinu. Ætlum við Íslendingar ekki virkilega að reyna að standa vörð um þann litla hluta sem eftir er af einyrkjum í landinu sem hafa möguleika á að vera með minni útgerð, umhverfisvæna útgerð? En í ljósi orkuskipta verða hliðaráhrifin svo neikvæð gagnvart þessu útgerðarmynstri að það væri alltaf slag niður á við til þess að þjappa saman og framtíðarmúsíkin verður að íslenskir sjómenn verði bara leiguliðar hjá stórútgerðinni sem verður komin með þetta allt undir sig. Það á ekki að blanda þessu tvennu saman, að setja svona mál upp í nafni orkuskipta sem hefur svona neikvæð áhrif, bæði umhverfisleg og samfélagsleg og byggðarleg á okkar ágæta samfélag, ef við viljum standa vörð um það.



[15:57]
Inga Sæland (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir sína ötulu baráttu og þá einbeittu hugsjón að vernda hér eftir sem hingað til litlu sjávarplássin okkar og þær veiðar sem aldrei munu eyða lífríkinu í kringum landið, alveg sama þó að við myndum leyfa þeim að veiða aðeins meira á krókana en raun ber vitni. Þetta er nefnilega athyglisvert og svolítið mikið öfugsnúið, og öfugmæli og öfugsnúningur í öllu þessu. Verið er að tala um mengunina, loftslagsvána og allt þetta. Þess vegna eigi að gefa einhverjum risajálkum tækifæri til að draga sig inn í kálgarðinn, hreinlega upp í hjónarúm liggur við, eins og ég sagði einhvern tíma. Í fyrsta lagi tek ég 100% undir með hv. þingmanni að auðvitað þurfa að liggja mun öflugri rannsóknir að baki. Það sem gerist er að kóralar og annað slíkt, ef það er enn á lífi eftir snurvoðarbátana sem er búið að hleypa upp í fjöru, lífríkið í kringum landið þar sem þessir trukkar fá að draga uppi í fjöru — þeir munu gjörsamlega rústa botninum.

Þannig að ég segi: Áfram veginn. Við gefumst ekki upp þótt á móti blási. Við sem stöndum vörð um brothættar byggðir, þessa litlu einyrkja og strandveiðisjómennina okkar látum ekki deigan síga. Í þessu tilviki er þetta eyðilegging. Í mínum huga er það algerlega svo. Það er öfugsnúningur að reyna að réttlæta þetta út á loftslagsvá á sama tíma og botninn er eyðilagður alveg upp á strönd.



[15:59]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég er auðvitað algerlega á sömu veiðislóðum og hv. þingmaður. Við höfum oft róið á sömu mið í þessum efnum.

Mér finnst miður að það sé ekki vilji innan þingsins til að skoða þetta til hlítar. Orkuskiptin flæða yfir allt, bara að tikka í boxið, það sé frábært. Það er eitthvað þarna undirliggjandi sem er ekki eins gott og það á ekki að fara undir radarinn. Þess vegna er ég að reyna að höfða til umhverfissinna, ekki bara í mínum flokki heldur í öllum flokkum, um það að þarna er neikvætt mál sem snýr að umhverfi hafsbotnsins og losun gróðurhúsaefna. Þarna er möguleiki á að vera með svo öflug veiðarfæri umfram það sem þó er í dag.

Mér finnst að þetta hafi verið barátta. Ég ólst upp í sjávarplássi. Barátta og orðræða sjómanna var allt í kringum mig. Ég hef verið formaður verkalýðs- og sjómannafélags og heyrt þá orðræðu í fjölda ára að færa þessi öflugu togskip enn lengra út fyrir 12 mílur, talað hefur verið um 20 mílur. Svo allt í einu er þetta bara komið alveg upp í kálgarðinn. Þótt þetta séu minni togarar hafa þeir sama afl og stórir togarar og hafa þar af leiðandi öflug veiðarfæri.

Þess vegna bið ég um að þetta verði skoðað og ekki rasað um ráð fram því að lífríkið er viðkvæmt. Það er ekki endilega afturkræft nema á löngum tíma. Hafrannsóknastofnun hefur staðið ráðþrota gagnvart því hvers vegna hrygningarstofn þorsks hafi ekki skilað meiri nýliðun. Við þurfum að rannsaka lífríkið til að sjá hvaða áhrif veiðarfæri hafa til röskunar.



[16:01]
Inga Sæland (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Já, ég er virkilega sátt með að við skulum róa á sömu mið. Það er bara þannig. Ég skil af öllu hjarta hvað hv. þingmaður sagði í ræðunni.

Við horfum upp á þessa samþjöppun í greininni. Við höfum upplifað hér í gegnum starfið, ég í fimm ár á þingi, hversu einbeittur vilji stórútgerðarinnar er að sölsa undir sig alla smábátaútgerðina. Þeir vilja losna við þessi litlu 5,3% af heildarpottinum sem er verið að veita til smábátaútgerðarinnar og hirða þau sjálfir. Þetta er í rauninni þyngra en tárum taki. Núna, eins og hv. þingmaður veit, erum við að slá hér í nýja Verbúð. Yfir 70% þjóðarinnar tala um spillingu í þessu kerfi, spillingu í sjávarútvegi. En nú á að fara að kvótasetja grásleppu. Það er vitað að stærri hluti strandveiðisjómanna nýtir sér þá búbót þann stutta tíma sem gefur á grásleppuna. Að koma með togskip í þessu tilviki, hreinlega upp í kálgarð, það er með hreinum ólíkindum.

Ég veit ekki hvort ég sé svona ofboðslega fyndin að hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir fer að skellihlæja að mér. Ég vona að það sé það.



[16:03]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Þetta er grafalvarlegt mál. Ég held að komandi kynslóðir muni þakka þeim þingmönnum sem standa vörð um lífríki sjávar og smábátaútgerð og horfa til þess að við höfum fjölbreytni í útgerðarmynstri á Íslandi sem styrkir litlu sjávarbyggðirnar um land allt. (IngS: Raunverulegir náttúruverndarsinnar.) Þá má ekki kalla hlutina öðrum nöfnum en raunveruleikinn er.

Orkuskipti eru frábær, allir eru að vinna í þá átt. En eyðileggjum ekki eitthvað samfara sem er ekki umhverfisvænt að gera. Það er það sem mér finnst vera í þessu máli. Ég held að allir verði að sýna því þá virðingu sem því ber að taka mark á því sem kemur í gagnrýni á þetta mál.

Auðvitað má spyrja sig út af hverju SFS eru ánægð með þetta og þessi stærri. Hvers vegna eru Landssamband smábátaeigenda og litlir einyrkjar sem sendu umsagnir óttaslegnir um afleiðingarnar? Það hefur verið barátta um þetta krókaaflamarkskerfi í fjölda ára. Það var ákveðin sáttamiðlun við kvótasetningu og framsal að til hliðar væri hluti af úthlutuðum aflaheimildum á Íslandsmiðum til smærri báta sem gerðu út á umhverfisvænar veiðar og væru fyrst og fremst að stunda veiðar nærri landi og hefðu ekki möguleika til að fara út á haf.

Núna er verið, hvort sem menn vilja viðurkenna það eða ekki, að ýta undir enn frekari samþjöppun og enn frekari öflugar togveiðar innan 12 mílna án þess að það sé búið að rannsaka lífríkið, áhrif á botninn, botn sjávar, uppvöxt seiða eða neitt. Hver er skaðinn? Komum í veg fyrir skaðann með því að láta rannsaka þetta áður en við tökum ákvarðanir í þessum málum.



[16:05]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég vil fá að þakka fyrir umræðuna í dag í þessu máli. Ég vil árétta það, af því að hér voru Ungir umhverfissinnar nefndir, að þeir skiluðu ekki umsögn í þessu máli. En þeir gerðu það sannarlega í málinu sem við vorum að fjalla um hér á undan og voru almennt ánægðir með það mál.

Síðan vil ég líka segja að í umsögn Landverndar um þetta mál hvetja þeir nefndina til að fara vel yfir þann þátt málsins sem hér hefur verið til umræðu. Ég tel að við höfum gert það.

Ég vil líka árétta það að svörin sem bárust frá Hafrannsóknastofnun og matvælaráðuneyti varðandi þetta mál, þar var svarað þeim spurningum sem sneru að þessu máli. Sannarlega má segja um málið sem við komum að næst að þar hafi skort upp á svör um eitt og annað. En í þessu máli var það svo að þeim spurningum sem bornar voru fram skriflega eftir fund nefndarinnar með þeim umsagnaraðilum og öðrum sem komu á fundinn, þeim var svarað. Ég vildi árétta þetta. Við fjöllum áfram um þetta í nefndinni í framhaldinu.

Svo verð ég að gera það sem ég gerði áðan, af því að ég gleymdi að segja hverjir stæðu að þessu nefndaráliti. Það er sú sem hér stendur og hv. þingmenn Stefán Vagn Stefánsson, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Hanna Katrín Friðriksson, Haraldur Benediktsson, Tómas A. Tómasson og Þórarinn Ingi Pétursson.