153. löggjafarþing — 100. fundur
 27. apríl 2023.
stjórn fiskveiða, 2. umræða.
stjfrv., 539. mál (rafvæðing smábáta). — Þskj. 681, nál. 1482 og 1598.

[16:09]
Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Nú tökum við fyrir þriðja málið í þessari röð í dag sem er breyting á lögum nr. 116/2006 og fjallar um rafvæðingu smábáta.

Með þessu frumvarpi erum við að breyta lögum um stjórn fiskveiða sem skapar skilyrði fyrir auknum árangri í orkuskiptum í sjávarútvegi. Þessar breytingar gera eigendum smábáta og minni fiskiskipa á strandveiðum heimilt að draga allt að 750 kg í stað 650 kg, í þorskígildum talið, af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð, ef skipið er skráð sem rafknúið skip á skipaskrá.

Í nefndaráliti okkar í meiri hlutanum segir m.a. að sjónarmið um að 100 kg aukning á hámarksheimild landaðs afla væri ekki nægjanleg og hvatinn til að skipta yfir í rafknúna báta þar með ekki mikill. Við tökum að vissu leyti undir þessar áhyggjur en bendum á að frumvarpið er ekki eini þátturinn sem leggur lóð á vogarskálarnar í orkuskiptum á hafi. Hvatar til grænna fjárfestinga og orkuskipta á hafi eru fjölþættir og er það skilningur meiri hlutans að áætlanir stjórnvalda gangi fremur út á að bæta í en hitt. Um fjölþættar aðgerðir er að ræða sem allar hafa það að marki að hvetja til orkuskipta á arðbæran hátt fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Hvatinn er því fjölþættur og frumvarpi því sem nefndin hefur til umfjöllunar er ætlað að bæta enn frekar úr og skapa frekari hvata. Auk þeirrar 100 kg aukningar sem um ræðir í þessu frumvarpi má nefna að sparnaður við orkukaup mun að sjálfsögðu verða allnokkur enda verðmunur mikill á olíu og raforku. Þá hafa styrkir til orkuskipta verið í boði vegna tækjabúnaðar sem nýtir endurnýjanlega orku, svo sem rafmagn, í stað olíu. Einnig eru í boði svokölluð græn lán sem almennt bera lægri vexti en önnur og eru ætluð einstaklingum og fyrirtækjum sem fjárfesta í umhverfisvænum búnaði. Ekki er allt upp talið hér, en ljóst að samlegðaráhrif þessara smærri þátta eru þó nokkur og má ætla að einstaklingar og fyrirtæki sjái hag sinn í því að ryðja brautina þegar kemur að rafvæðingu smábáta. Við höfum rætt þetta og fengið til okkar gesti sem hafa hafist handa. Við vitum að dropinn holar steininn í þessu, ekki síst í ljósi þess að breytingar gerast mjög ört og hratt í þessum orkuskiptamálum. Auðvitað ríður alltaf einhver á vaðið með þetta og kostnaður þeirra sem á eftir koma verður eðli máls samkvæmt væntanlega minni heldur en þeirra sem leggja af stað fyrstir. Þetta er ekki eitthvað sem gerist yfir nótt, en mikilvægt er að hafa lögin til staðar.

Nefndin fjallaði um rafvæðingu hafna umhverfis landið, enda ljóst að orkuskipti á hafi munu ekki eiga sér stað án rafvæðingar þeirra hafna sem skip og bátar landa við. Þá fjallaði nefndin um þá staðreynd að ekki verður unnt að rafvæða allar hafnir landsins á sama tíma og þar með mun samkeppnishæfni hafna hvað varðar þjónustu við rafknúna báta og skip skekkjast. Það er óhjákvæmilegt, alveg eins og var gagnvart rafmagnsbílum. Við vitum hvernig það hófst allt saman en þjónustan hefur svo smám saman verið að aukast um land allt og það sama verður væntanlega þarna, stærri hafnirnar eru þær sem fara líklega fyrstar í þetta og vonandi munu þær minni gera það líka, ekki síst þar sem skemmtiferðaskip koma.

Rekstur og þar með rafvæðing hafna er verkefni sem heyrir undir hafnir og hafnasamlög sem rekin eru af sveitarfélögum. Meiri hlutinn telur ljóst að ef vel á að takast til við uppbyggingu innviða sem tengjast orkuskiptum á sjó verði að koma til styrkir úr opinberum sjóðum. Við beinum því til ráðherra að huga vel að þessum þáttum sem ég hef farið yfir í okkar nefndaráliti. Það er auðvitað mikilvægt, eins og við þekkjum í allri orkuumræðunni, bæði um flutning og dreifingu, að til staðar séu undirstöður sem geta tekið á móti þessu. Eins og ég sagði áðan þá vitum við alveg að þetta gerist í rólegheitum og það verða ekki allir smábátar rafvæddir um leið og lögin verða samþykkt. Það er alveg ljóst að þetta er mjög kostnaðarsamt en eins og ég fór hér yfir þá myndi þetta gerast víða og væru það ekki bara þessi 100 tonn sem hér eru undir sem skipta þar máli. Það er auðvitað líka alveg ljóst að ekki allir voru sammála þeirri tölu um kostnað sem Landssamband smábátaeigenda setti fram. Það kom fram í umræðu í nefndinni við aðila að eðli máls samkvæmt, eins og ég sagði, verður þetta mjög dýrt í upphafi en þróunin er að eiga sér stað — Noregur er kominn talsvert framarlega — sem við fylgjumst væntanlega með. Við vitum auðvitað að hafist hefur verið handa við þetta nú þegar á Íslandi í samstarfi við erlenda aðila og það verður gaman að fylgjast með því.

Eitt af því sem er undir í því sem þarf að skoða hvað varðar styrki úr opinberum sjóðum og annað slíkt eru t.d. tollamálin. Ábending kom um það frá þeim sem hafa verið að skoða þessi mál og ég held að það geti allt eins átt við hérna eins og í þeim ívilnunum sem voru gagnvart bílakaupum. Einhverjir töluðu um að þetta væri sýndarmennska og því er ég ósammála. Þetta er ekki sýndarmennska. Það er gott að hafa lagabókstafinn undir, hafa einhverja ívilnun og síðan auðvitað eitthvað annað sem gæti hjálpað til við að ýta þessu úr vör. Hvar værum við ef við hefðum ekki hafist handa við að rafvæða bílaflotann? Einhvers staðar þarf að byrja og þetta er skrefið í þá átt.



[16:16]
Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Gísli Rafn Ólafsson) (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Hér komum við að máli sem ég hef valið að kalla nýju fötin keisarans. Ástæðan er sú að við getum hreinlega búist við því — þetta eru bara tölurnar sem við fengum frá ráðuneytinu — að einn, kannski tveir bátar á næstu fimm árum fari eftir þessu og það er kannski einungis vegna þess að þessi eini bátur eða tveir vilja geta fengið titillinn: Fyrsti strandveiðibáturinn sem knúinn er rafmagni. Það eru ekki nægir hvatar sem fylgja þessu frumvarpi og meiri hlutanum var bent á að það þyrfti að gera meira.

Mig langaði að nefna eitt dæmi: Verið er að veita 100 kg aukaafla sem gulrót í þessu frumvarpi fyrir eigendur til að skipta yfir í rafvæddan smábát. Ef viðkomandi strandveiðimaður gæti nýtt sér þessi 100 kg á hverjum degi í þá 48 daga sem lögin leyfa — það vita flestir að dagarnir fara ekki mikið upp fyrir 30 á flestum vertíðum, en ef farið væri upp í 48 daga og ef það næðist að veiða þessi 100 kg aukalega á hverjum degi þá væru þetta kannski 1,5 til 2 milljónir í aukatekjur. Á sama tíma kom fram að það að fara í annaðhvort nýsmíði eða breytingar á bát væru alla vega 30–40 milljónir. Ef það tekur 20 ár að ná þessu til baka, einungis á þessum 100 kg, þá er það bara ekki nógu stór gulrót. Það er mikilvægt að við horfum á þetta eins og t.d. frændur okkar Norðmenn eru að gera, eins og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir benti á, en þeir hafa nefnilega líka sett neikvæða hvata, þ.e. hvata til að draga úr því að menn noti óvistvæna orkugjafa. Þetta er oft kallað mengunarbótaregla og þannig væri kannski hægt að fá fjármagnið frá þeim sem menga til þess að gera þessa breytingu. Það er ekkert verið að horfa til þessa í frumvarpinu.

Á sama tíma erum við heldur ekki með innviðina. Ég benti á það fyrr í dag og geri það aftur, að án þess að hægt sé að hraðhlaða þessa báta í höfnunum — nú veit ég ekki hversu margir bátar eru að meðaltali í hverri höfn en ef allir bátarnir ætla að reyna að hraðhlaða á sama tíma þessa nokkra klukkutíma á næturnar sem strandveiðisjómennirnir sofa þá þurfum við ansi mikið rafmagn niður í hafnirnar. Við verðum þá að byrja að skipuleggja það. Ég er ekki endilega sammála því að þar sé best að byrja stærstu höfnunum heldur eigum við að byrja á þeim höfnum þar sem byggðarlögin eru kannski minni og brothættari og lifa á strandveiðunum.

Að lokum þá bendum við líka á í nefndarálitinu að við þurfum alltaf að hugsa hlutina til enda. Við bendum t.d. á að ef við ætlum að búa til nýja tegund af skipum, rafbáta, þá þýðir það að Samgöngustofa þarf að búa til alveg nýtt úttektarform og eftirlitsreglur til að fylgjast með og taka út þessa báta. En, eins og því miður gerist allt of oft hérna hjá okkur, við gleymum eftirlitshlutanum og setjum ekkert fjármagn í hann. Þetta hristir Samgöngustofa ekki bara fram úr erminni á meðan hún er líka að fylgjast með öllum hinum hlutunum sem hún þarf að fylgjast með. Hér hefðum við viljað sjá mun betri vinnubrögð og að ekki sé bara settur lítill kross á markmiðalistann og hakað þar við, heldur sé raunverulega verið að búa til raunhæfar aðgerðir sem hægt er að framkvæma, samfélaginu og loftslaginu til góðs.



[16:23]
Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir sína ágætu ræðu. Það kom fram í máli hv. þingmanns að við værum að taka of lítil skref og sömuleiðis kom þingmaðurinn inn á að það yrði kannski bara einn bátur sem færi af stað eða tveir. Ég held nefnilega að það sé ágætt. Einhvers staðar þarf að byrja og ég held að þetta sé ágætt fyrsta skref í því. Hv. þingmaður kom réttilega inn á það í sinni ræðu að innviðir væru ekki klárir, við vitum það og það vita allir. Ég beini því bara til þingmannsins hvort við getum ekki verið sammála um að það skref sem verið er að taka núna sé ágætt fyrsta skref. Við vitum líka að þróunin hefur verið gríðarhröð þegar kemur að mótorum sem ganga fyrir rafmagni. Við sáum það ekki fyrir fyrir tveimur árum síðan að við myndum fá hér vörubíla sem keyra á milli Reykjavíkur og Akureyrar knúnir rafmagni. Ég minnist þess ekki að menn hafi horft svo langt fram. Ég spái því að sú þróun sem kemur til með að verða í þessu verði hröð. Ég hef ekki svo stórkostlegar áhyggjur af því að hvatarnir sem við erum með séu of litlir, væntanlega kemur inn í þetta verð á mótorum og þeir eiga eftir að verða ódýrari. Fyrsta skrefið er alltaf dýrast þegar það er tekið, en eins og áður sagði spái ég því að þróunin eigi eftir að verða hröð. Ég hef mestar áhyggjur af því að við verðum ekki klár með alla þá innviði sem þarf þegar við þurfum að setja trilluflota landsmanna í samband.



[16:25]
Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Gísli Rafn Ólafsson) (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þórarni Inga Péturssyni fyrir gott andsvar. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég sá alveg fyrir að flutningabifreiðar yrðu komnar en það er kannski af því að ég hef fylgst ansi náið með þessum geira. Ég held að þessi eini bátur sem mun kannski koma núna á næsta ári sé svipaður og flugvélin sem hæstv. forsætisráðherra fékk að fljúga með í nokkrar mínútur og lýsti því að hafa verið mjög hrædd. Við erum ekki komin í eða byrjuð á orkuskiptum í sjávarútvegi eða flugi bara af því að þau hafa átt sér stað í einum báti. Kannski væri ágætt að ríkið smíðaði einn bát og gerði þetta til að prófa, kannski er betra að vera með sýnishorn og dæmi.

Við erum aðallega að benda á það í þessu nefndaráliti að við þurfum að passa að þetta verði ekki til þess að við séum að haka í boxin um að við séum byrjuð á einhverju og komin í gang með það. Nei, einn bátur af öllum þeim bátum sem fara hér út, öllum togurunum — þetta er eins og við segðum að þegar fyrsti rafbíllinn kæmi værum við komin með orkuskipti í einstaklingssamgöngum. Þróunin í tækninni mun verða hröð og er nú hraðari, það er alveg satt, en við þurfum að passa að byrja á réttum enda, sérstaklega þegar kemur að innviðunum, vegna þess að án innviðanna mun enginn gera svona báta. Annars ertu bara með snúru heiman frá þér og niður að höfn. Það er ekki að fara að ganga.



[16:27]
Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Förum aðeins út í hvatana sem eru í þessu frumvarpi, en hv. þingmaður kom inn á að þeir væru hugsanlega ekki nægir. Það má draga það fram í umræðunni að það er viss hvati að geta farið — ég veit að hv. þingmaður þekkir það mun betur en eiginlega allir aðrir þingmenn hvernig þetta snýr að sprotafyrirtækjum — og sótt um styrki, græna styrki o.s.frv. þegar menn eru í þessu þróunarferli sínu. Ég hef grun um að þegar búið verður að taka skrefið og einn smábátur verður kominn á flot sem gengur fyrir rafmagni þá verði ansi margir fljótir að koma til. Það er vissulega verulegur sparnaður af því að leggja af notkun jarðefnaeldsneytis. Eyðslutölur eru töluverðar og við höfum svo sem fengið það inn í atvinnuveganefnd í tengslum við önnur mál þar sem menn hafa verið að ræða um eldsneytismagn per kíló á strandveiðum, sem er þó töluvert. Ég hallast nú að því að við getum séð þetta fyrir okkur en tek heils hugar undir með hv. þingmanni að við þurfum að taka okkur verulega á þegar kemur að innviðunum. Í sumum höfnum eru þetta margir tugir báta sem koma inn á kvöldin og þarf að setja þá alla í samband. Það verður mikið verkefni (Forseti hringir.) en það er verið að horfa til rafvæðingar hafna o.s.frv. Því verðum við að taka skrefið og ég tel þetta skref sem hæstv. matvælaráðherra tekur vera gott fyrsta skref.



[16:30]
Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Gísli Rafn Ólafsson) (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Það er oft þannig með nýsköpunarstyrki og annað að þeir eru ágætir til þess að búa til fyrsta sýnishornið um að eitthvað sé hægt, en eitt stærsta vandamálið í nýsköpun og ástæðan fyrir því að flest nýsköpunarfyrirtæki deyja er að þau kunna ekki að skalast upp frá því að geta leyst eitthvert lítið mál á Íslandi yfir í að geta leyst það út um allan heim, frá því að geta leyst það fyrir einn eða geta leyst það fyrir alla. Þar held ég að við þurfum að passa okkur. Við tökum skrefin en eigum ekki að láta þar við sitja heldur vera mjög öflug í því að fara af stað í þessa vegferð. Þegar kemur að því að sannfæra fólk þá verður að blanda saman jákvæðum og neikvæðum hvötum. Neikvæðir hvatar verða að vera þeir sem ýta mönnum í áttina að því að fara yfir í hreyfinguna og breytingarnar. Það hefur sýnt sig að mjög fáir taka skrefið ef einungis eru jákvæðir hvatar af því að það er svo erfitt að fara úr núinu og því hvernig þú ert, jafnvel þótt þú vitir að þetta sé betra fyrir loftslagið, sé ódýrara og að þú fáir meiri afla. Það er nú bara þægilegt að sigla á bátnum sem þú þekkir og hefur siglt á. Við sjáum að fólk er að keyra rafmagnsbíla og margir eru jafnvel að spá í að skipta aftur yfir í eitthvað annað af því að þeir hafa lent í alls konar vandræðum, verða rafmagnslausir á Reykjanesbrautinni og það er ekkert hægt að draga bílinn heldur þarf að fá bíl sem lyftir honum upp og fer með hann. (Forseti hringir.) Þetta snýst um hvernig við förum frá alls konar svona hlutum og þar þurfum við neikvæðu hvatana. Þeir eru miklu öflugri í að ýta okkur í rétta átt.



[16:32]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Nú ræðum við þriðja málið sem tengist fiskveiðistjórnarkerfinu, 539. mál, rafvæðing smábáta. Það kom fram áðan í ræðu framsögumanns, hv. þingmanns, að við gætum horft til rafvæðingar einkabílsins í þessu samhengi. Ég bendi honum á að munurinn er sá að þar voru það ekki einstaklingarnir sem byrjuðu að rafvæða sína dísil- eða bensínbíla heldur voru það vélaframleiðendur sem þróuðu þetta og ég held að þannig muni það verða með smábátana, að þar verði það vélaframleiðendur sem byrja en ekki einhverjir einstaklingar heima í bílskúr eða á vélaverkstæðinu hjá sér. Þess vegna er þetta auðvitað þróun sem er í gangi á fullu, en það er ekki raunhæft að ætla einstaklingum sem slíkum að gera þetta hverjir í sínu horni.

Í þessu frumvarpi er nefndur sá möguleiki að fá 100 kg meiri afla á hverjum degi og hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson kom ágætlega inn á að hvatinn er nú kannski ekki mjög mikill ef það borgar sig upp á 20 árum að fara út í þann mikla kostnað sem einstaklingur að breyta sínum báti í rafbát. Hann gæti verið á bilinu 40–50 milljónir, enginn veit það nákvæmlega. Þess vegna tel ég, eins og ég nefndi áðan, að þetta verði vélaframleiðendur og auðvitað er allur heimurinn undir í þessum efnum. Verið er að skoða og vinna að því á þar til bærum stöðum að þróa nothæfan búnað sem má treysta á varðandi rafvæðingu skipaflotans, hvort sem það er stórskipaflotinn eða smábátaflotinn, og ég nefndi í fyrri ræðu að menn telja að jafnvel innlent ammoníak gæti komið til með að vera nýtt á stórskipaflotann í framtíðinni og væri jafnvel hentugra þar en á smærri skip. Þetta er auðvitað allt á fullri ferð en undirliggjandi í þessu frumvarpi er að reyna að skapa jákvæða hvata. Það er jákvætt en ég sé það ekki gerast í raunheimum að einstaklingar fari út í þetta sjálfir og hef ekki heyrt þá umræðu í þessum geira að menn telji það vera raunhæft, heldur frekar að það sé í höndum tilheyrandi sérfræðinga í skipasmíðum, vélbúnaðarþróun og skipatækni almennt að sinna þeim málum.

Varðandi það sem kom fram áðan um orkunotkun smábáta, þessara báta sem eru til umræðu, þá er skýrsla Matís frá 2014 enn góð og gild en þar stendur að sótspor við veiðar á 1 kg af þorski á smábátum sé að meðaltali þriðjungur þess sem mælist við togveiðar. Það leikur enginn vafi á því að stjórnvöld hafa þarna möguleika á að draga úr brennslu jarðefnaeldsneytis við veiðar með því að auka hlut smábáta í kerfinu, sem ég hef talað stíft fyrir, og tryggja auðvitað strandveiðar í sumar í 48 daga, því að þetta eru umhverfisvænustu veiðarnar og með minnsta sótsporið; litlu jarðefnaeldsneyti er brennt á leiðinni á miðin, stutt er á miðin og á veiðum eru bátarnir rafvæddir. Þeir nota rafmagnsrúllur og brenna ekki neinu jarðefnaeldsneyti meðan á veiði stendur heldur má kannski segja að þeir séu „hybrid“. Þannig er það í dag og mér finnst þá þess vegna mega verðlauna þessa aðila sem stunda umhverfisvænar veiðar og nota raforku að hluta við veiðarnar.

Það sem ég vildi gjarnan að yrði skoðað betur í þessu máli er að fá álit hjá Samgöngustofu og skoðunaraðilum sem taka út þessa báta varðandi haffærisskírteini. Frumherji hefur verið með þetta, ég held að það hafi eitthvað breyst en það hlýtur að vera hægt að finna út úr því hvaða aðilar þetta eru, eflaust er fleiri en einn skoðunaraðilar fyrir útgáfu haffærisskírteinis sem síðan kemur frá Samgöngustofu í framhaldinu ef allt er uppfyllt sem til fellur.

Að lokum vil ég þakka fyrir þessa umræðu. Mér finnst hún hafa verið góð og auðvitað er eðlilegt að skiptar skoðanir séu í svona málum sem eru ekki einföld heldur flókin, af því að þar spila saman umhverfisleg sjónarmið og önnur sem eru neikvæð fyrir umhverfið. Góður vilji liggur á bak við öll þau þrjú mál sem hér hafa verið undir varðandi orkuskiptin, aflvísana og rafvæðingu smábátanna. Ég vil óska eftir því við forseta að hann vísi þessu máli aftur inn milli 2. og 3. umr. og fái þessa aðila sem ég nefndi, skoðunaraðila vegna haffærisskírteinis og Samgöngustofu, og einnig óska ég eftir því að fá Samgöngustofu vegna hinna tveggja málanna: 538. mál, aflvísir, og 537. mál, orkuskipti og stækkun krókaaflamarksbáta.