153. löggjafarþing — 101. fundur
 2. maí 2023.
skýrsla Ríkisendurskoðunar um Landeyjahöfn.
álit stjórnsk.- og eftirln., 398. mál. — Þskj. 437.

[17:28]
Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég mæli fyrir áliti hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrslu Ríkisendurskoðunar um Landeyjahöfn. Nokkuð er um liðið frá því að nefndin lauk umfjöllun sínum um þessa skýrslu og náði saman um þetta álit sem hér má finna á þskj. 437, það var 10. október 2022. En málið er komið á dagskrá þingfundar og því ástæða til að rekja í stuttu máli umfjöllun nefndarinnar um þessa skýrslu.

Eins og fólk almennt veit var Landeyjahöfn opnuð formlega í júlí 2010 og strax eftir fyrsta rekstrarár hafnarinnar kom í ljós að það þurfti að ráðast í miklar dýpkunarframkvæmdir vegna sandburðar inn í höfnina. Var það heldur bagalegt þar sem um nýja höfn var að ræða en einnig lá fyrir að Herjólfur, sá þriðji, held ég, var í raun of stór fyrir hafnargerðina. Úr varð að ráðist var í dýpkunarframkvæmdir, svokallaða viðhaldsdýpkun, en allar áætlanir um þær framkvæmdir og um rekstur Landeyjahafnar reyndust mjög vanáætlaðar og þar munar að sjálfsögðu mest um þessar dýpkunarframkvæmdir, eins og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd var fjallað um málið og fengnir gestir fyrir nefndina, auðvitað frá Ríkisendurskoðun en einnig frá innviðaráðuneyti, auk forstjóra Vegagerðarinnar og bæjarstjórans í Vestmannaeyjabæ sem lýstu málið upp frá sínum sjónarhóli öll saman. Eins og áður sagði er það mat Ríkisendurskoðunar að áætlanir um rekstur Landeyjahafnar hafi reynst vanáætlaðar og munar þar mestu um stóraukinn kostnað vegna þessarar viðhaldsdýpkunar. Fyrir nefndinni kom fram að forsendur hafi að einhverju leyti breyst með gosi í Eyjafjallajökli og hærri ölduhæð en áður hafi þekkst. Í skýrslunni kemur einnig fram að aurburður hafi minnkað mjög frá því að höfnin var opnuð. Í skýrslunni kemur fram að kostnaður vegna viðhaldsdýpkunar Landeyjahafnar hafi ekki verið færður sem rekstrarkostnaður heldur sem fjárfestingarkostnaðar hafnarinnar þar sem fjárveitingar til dýpkunarinnar koma undir fjárfestingarlið í fjárlögum. Þetta gagnrýndi Ríkisendurskoðun og benti á að þann kostnað, þ.e. viðhaldsdýpkunarkostnaðinn, þyrfti að færa sem rekstrarkostnað. Fyrir nefndinni kom fram að dýpkun hafna sé almennt bókfærð sem fjárfestingarkostnaður þar sem dýpkunarframkvæmdir hafi fremur einkenni verklegra framkvæmda en þær sem fela í sér ákveðnar endurbætur á höfn. En innviðaráðuneytið og Vegagerðin tóku undir ábendingar Ríkisendurskoðunar hvað þetta varðar og nefndin telur rétt að kostnaður við dýpkunarframkvæmdir verði framvegis færður sem rekstrarkostnaður í bókhaldi Vegagerðarinnar.

Að mati Ríkisendurskoðunar er nauðsynlegt að ráðist sé í heildstæða úttekt á Landeyjahöfn svo fá megi úr því skorið hvað raunverulegar endurbætur kosta og hvort fýsilegt sé að ráðast í umfangsmiklar aðgerðir til að bæta nýtingu hafnarinnar í stað þess að kosta miklu til viðhaldsdýpkunar á hverju ári. Árið 2020 var framkvæmd óháð úttekt á Landeyjahöfn í samræmi við þingsályktun nr. 12/150. Á grundvelli þeirrar úttektar fól innviðaráðuneyti Vegagerðinni að vinna sérstaka rannsókn á áætluninni vegna verkefnisins. Fyrir nefndinni kom fram að stefnt sé að því að ljúka gerð rannsóknaráætlunarinnar fyrir lok ársins 2022. Og það minnir mig á það, og ég bið hv. þingmenn að muna það með mér, að við þurfum að ganga eftir því í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Nefndin tekur undir sjónarmið Vegagerðarinnar um að vinnan þurfi að vera hnitmiðuð og beinir því til innviðaráðuneytis og Vegagerðar að vandað verði vel til verka, enda ljóst að margar áætlanagerðir í tengslum við Landeyjahöfn hafa ekki reynst nægilega ígrundaðar.

Ríkisendurskoðun gerir athugasemd við undirbúning Vegagerðarinnar á kaupum og fyrirhugaðri uppsetningu á botndælubúnaði. Í skýrslunni kemur fram að Vegagerðin hefði þurft að ígrunda betur kaup á botndælubúnaðinum. Fljótlega eftir komu búnaðarins til landsins hafi komið í ljós að afköst hans hefðu verið ofmetin. Þá var ekki tekið tillit til tímans sem færi í að koma búnaðinum fyrir við hverja dælingu en ekki væri hægt að geyma búnaðinn ásamt krana út á garðsendum vegna veðurálags og ágangs sjávar í Landeyjahöfn.

Í skýrslunni og fyrir nefndinni benti Vegagerðin á að kaupin á botndælubúnaði hefðu verið hluti af stærra verkefni sem miðaði að nauðsynlegum endurbótum á Landeyjahöfn. Markmiðið með endurbótunum var að auka öryggi í höfninni og gera nýjum Herjólfi kleift að sigla oftar til Landeyjahafnar en gamli Herjólfur hafði gert.

Ljóst er að kaup og uppsetning á botndælubúnaði var hluti af stærra verkefni sem miðaði að því að auka öryggi Landeyjahafnar og að greiða fyrir siglingum Herjólfs. Þó að botndælubúnaðurinn hafi ekki reynst sem skyldi hafi margt annað komið að gagni og ýmsar framkvæmdir verkefnisins muni nýtast til frambúðar. Að mati nefndarinnar verður þó ekki litið fram hjá því að um umtalsverða fjárfestingu var að ræða en búnaðurinn ásamt fylgihlutum var keyptur fyrir tæpar 100 millj. kr. Nefndin tekur því undir þá ábendingu Ríkisendurskoðunar að vanda verði betur til undirbúnings slíkra verka.

Að öðru leyti tekur hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd undir þær ábendingar sem fram komu í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Þetta álit var undirritað 10. október 2022 og undir það rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Sigmar Guðmundsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Hildur Sverrisdóttir og Iða Marsibil Jónsdóttir.



[17:35]
Guðbrandur Einarsson (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Allt frá því að Landeyjahöfn var opnuð með formlegum hætti árið 2010 hefur rekstur hennar gengið brösuglega. Þessi skýrsla sem við ræðum hér í dag staðfestir það sem allir hafa vitað um árabil, þetta hefur verið ferð án fyrirheits til mikils skaða fyrir þá sem þurfa á öflugum og öruggum samgöngum að halda milli lands og Eyja. Það virðist sem allar áætlanir um rekstur Landeyjahafnar hafi brugðist. Þar hafa í engu verið náð utan um þá viðhaldsdýpkunarþörf sem síðar kom í ljós. Einhverra hluta vegna hefði maður talið að færustu sérfræðingar næðu að gera sér grein fyrir þeim mikla aur og sandburði sem bærist inn í höfnina. Ríkisendurskoðandi hefur í þessari skýrslu staðfest að svo var ekki og setur fram þrjár tillögur á grundvelli úttektarinnar til úrbóta. Fjalla þær um að færa beri kostnað við viðhaldsdýpkun sem rekstrarkostnað Landeyjahafnar, að ráðast þurfi í heildstæða úttekt á nauðsynlegum úrbótum og að vanda þurfi undirbúning kostnaðarsamra fjárfestinga.

Ég verð, virðulegur forseti, að segja að mér finnst það kúnstugt að dýpkunarframkvæmdir sem gera í raun ekkert annað en að halda í horfinu skuli hafa verið færðar sem fjárfesting en ekki sem rekstur. Þarna er verið að færa til eignar eitthvað sem í raun er ekki eign og hefur aldrei verið eign og því hlýtur þessi ábending ríkisendurskoðanda að vera löngu tímabær og hlýtur því að verða að veruleika. Annað væri í raun fásinna.

Tillaga tvö fjallar um að ráðast þurfi í heildstæða úttekt á nauðsynlegum úrbótum og hún er einnig löngu tímabær. Það er ekki hægt að bjóða Eyjamönnum upp á þessa stöðu sem er að höfnin er oft ónothæf um lengri tíma og þess vegna þurfi ítrekað að sigla margra tíma siglingu til Þorlákshafnar en sú siglingaleið átti í raun að leggjast af þegar Landeyjahöfn var opnuð og nýr Herjólfur var keyptur. Þarna eru m.a. gerðar athugasemdir við kaup Vegagerðarinnar á svokölluðum botndælubúnaði sem kostaði tæpar 100 milljónir og átti að leysa vandamál hafnarinnar. Það er greinilegt samkvæmt áliti Ríkisendurskoðunar að um verulega ofáætlun var að ræða þegar lagt var mat á afkastagetu þessa botndælubúnaðar. Vegagerðin vísaði til þess að um hefði verið að ræða hluta af stærra verkefni sem átti að bæta Landeyjahöfn en það fæst ekki séð að slíkt verkefni hafi í raun litið dagsins ljós. Þess vegna sitjum við nú uppi með höfn sem getur eingöngu þjónað Vestmannaeyjum hluta úr ári. Það kallar einnig á annars konar umræðu um öryggi þeirra sem þar búa. Íbúar Vestmannaeyja þurfa að geta gengið að því vísu, rétt eins og flestir íbúar þessa lands, að samgönguleiðir séu opnar og nothæfar þegar fólk þarf á þeim að halda, sérstaklega þegar um er að ræða neyðartilvik þegar tíminn getur ráðið því hvort fólk fái lífsnauðsynlega þjónustu.

Fyrir utan vonda stöðu Herjólfs eru samgöngur til Eyja ótryggar að öðru leyti. Það er einungis flogið tvisvar í viku til Eyja, sem er auðvitað óboðlegt. Það er heldur engin trygging fyrir því að þessum samgöngum verði haldið áfram. Við hljótum að gera þá kröfu fyrir hönd þeirra sem búa í Eyjum að öryggi þeirra sé tryggt. Um það hefur t.d. verið rætt að staðsetja sjúkraþyrlu í Vestmannaeyjum til að hægt væri að flytja sjúklinga á Landspítalann með stuttum fyrirvara. Þá hugmynd ætti að skoða mjög alvarlega.

En því miður er það ekki bara starfsemi Landeyjahafnar eða flugið sem eru í ólestri, allir innviðir sem samfélagið treystir á, eins og rafmagn og vatn, eru ótryggir. Það getur ekki talið talist ásættanlegt fyrir 4.500 manna byggð að þannig sé í pottinn búið.

Virðulegur forseti. Þriðja tillaga Ríkisendurskoðunar fjallar um að vanda þurfi undirbúning kostnaðarsamra fjárfestinga. Maður hefði nú haldið að þannig væri það í ríkisrekstri. Það liggur hins vegar fyrir að oft hefur verið farið af stað án þess að undirbúningur hafi verið nægur og fyrirliggjandi fjárhagsáætlanir því fokið út í buskann. Það ætti því að vera keppikefli ríkisins og einnig sveitarfélaganna að leggja fram vandaðar og nákvæmar áætlanir. Það er hins vegar greinilegt að ríkisendurskoðandi metur það svo að oft geti verið misbrestur á því og þess vegna setji hann fram þessa ábendingu.

Í sambandi við þessa þriðju tillögu er rétt að minna á það að árið 2018 var samþykkt hér þingsályktun frá þáverandi þingmanni Viðreisnar, Jóni Steindóri Valdimarssyni, um tryggingu gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga. Þar var fjármála- og efnahagsráðherra falið að útfæra stefnumörkun með það að markmiði að draga úr sóun í opinberum fjárfestingum og stuðla að því að framkvæmdir standist áætlanir allt frá hugmyndastigi og út ætlaðan líftíma þeirra. Í henni var ráðherra líka falið að koma á formlegum samstarfsvettvangi stjórnvalda, atvinnulífs og fræðasamfélags til að byggja upp þekkingu og færni og efla rannsóknir á sviði opinberra fjárfestinga. Lítið virðist hins vegar hafa gerst. Af hverju nefni ég þetta hér? Jú, því samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar var áætlað að kostnaður við dýpkun Landeyjahafnar yrði um 60 millj. kr. á ári á verðlagi ársins 2008, en reyndin síðastliðin ár hefur verið frá 227 millj. kr. upp í 625 millj. kr. á ári frá 2011–2020. Samanlagður kostnaður við viðhaldsdýpkun á tímabilinu 2011–2020 er um 3,7 milljarðar kr.

Virðulegi forseti. Það er vissulega auðvelt að vera vitur eftir á en með betra utanumhaldi um opinberar fjárfestingar, eins og við í Viðreisn höfum barist fyrir, og með lærdómnum úr þessari skýrslu þá gætum við kannski einn daginn verið vitur fyrir fram. Það er stóra markmiðið, ekki bara að greina mistökin heldur að læra af þeim, læra að gera áætlanir til langs tíma sem eru raunhæfar og hægt að fylgja eftir, velja þá kosti sem skilar samfélaginu mestum ábata en ekki kostina sem eru ódýrastir á fyrsta degi en dýrastir yfir líftíma þeirra. Inn í það mat verðum við að taka þjónustuna við íbúana. Hvað borga Eyjamenn t.d. fyrir óhagræðið fyrir mislangar ferðir til lands eða ferðir sem falla niður með engum fyrirvara eða fyrir áhrifin af samgöngubresti á öryggi þeirra og heilsu? Á þessum samfélagslega kostnaði er ekki snert í skýrslu Ríkisendurskoðunar enda snýr hún aðeins að framkvæmda- og rekstrarkostnaði.

Ég vil því hvetja hæstv. innviðaráðherra, sem ber ábyrgð á rekstri hafnarinnar, til að nýta þetta tækifæri og láta framkvæma heildstæða kostnaðar- og ábatagreiningu á samgöngumálum til og frá Vestmannaeyjum með framtíðarlausn í huga.



[17:46]
Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu í þessu máli og ég get tekið undir hana að mörgu leyti. En það er rétt að nefna það í þessari umræðu um Landeyjahöfn að það voru aðilar, reyndir sjómenn, sem vöruðu við þessum framkvæmdum, höfðu verið þarna á veiðum og vöruðu við þessu og sögðu að þetta myndi ekki ganga. En einhverra hluta vegna var hlaupið í þessa framkvæmd og hún er núna að skila þjóðinni miklum kostnaði. Ég tek undir að það þurfi að staldra við í þessari umræðu en fyrst og fremst þarf að horfa svolítið fram á veginn. Hvaða leiðir sjáum við? Það verður að líta til þess að að það þarf að efla samgöngur til Vestmannaeyja. Við getum ekki horft á það þannig að samgöngur til Vestmannaeyja sé einangraðar við Vestmannaeyinga, þetta er þjóðhagslega hagkvæmt og þetta er mikil ferðamannaparadís. Við getum ekki, tel ég, látið þessa hluti afskiptalausa heldur er alveg nauðsynlegt að fara þá leið að sýna ákveðni í málinu, taka þetta föstum tökum og að skilaboðin komi beint og hreint héðan og með ákveðinni festu um að það verði bætt úr þessu og það verði gert með traustum hætti. Þó svo að þessi framkvæmd hafi að einhverju leyti farið í sandinn þá þarf annaðhvort að skoða nýjar leiðir eða að breyta þessu mannvirki. Í allri þessari umræðu um Landeyjahöfn þá tel ég að við þurfum að senda skýr og jákvæð skilaboð um að menn muni einhenda sér í að tryggja samgöngur með betri hætti til Eyja.



[17:48]
Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni fyrir andsvarið. Ég er bara sammála honum og ég er minnugur þess, eins og hann nefndi hér, að þessi framkvæmd var umdeild á sínum tíma og ýmsir aðilar vöruðu við henni. En það er ekki hægt að ganga fram hjá því að þessi höfn er til mikilla hagsbóta þegar hún er í lagi. Það skiptir máli að geta farið þarna yfir, stutt að fara, í staðinn fyrir að kúldrast í bátnum í þrjá tíma eða lengur á milli Eyja og Þorlákshafnar. Þegar höfnin er í lagi er hún mikil búbót og skiptir máli. Úr því sem komið er held ég að það þurfi að leita einhverra leiða og einhverrar tækni sem gæti dugað til að halda höfninni þannig að hún safni ekki svona miklum sandi í sig og það er örugglega til fólk sem er hæft til að finna út úr því, kannski með byggingu varnargarða eða einhverju slíku. Það er vissulega rétt að það eru ekki bara Eyjamenn sem eru að fara til lands. Við erum líka að fara til Eyja, enda er mikil náttúrufegurð í Vestmannaeyjum og þetta er ferðamannaparadís sem flestir ættu að heimsækja. Vonandi getum við dregið af þessu lærdóm. Skýrsla Ríkisendurskoðunar bendir ekkert á einhverjar leiðir til að laga höfnina en hún gerir okkur vissulega grein fyrir þeim mistökum sem áttu sér stað í áætlanagerð, kannski vegna þess að þarna voru ófyrirséðir hlutir, hlutir sem við sáum ekki fyrir en einhverjir höfðu samt varað við.



[17:50]
Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég tel afar mikilvægt í ljósi umræðu um þessa skýrslu að það komi, og ég vil undirstrika það enn og aftur, þau skýru skilaboð héðan að það verði gert betur, að úr þessu verði bætt. En svo er það hins vegar þannig þessu máli tengt að við eigum því miður allt of mörg svona dæmi í samgöngumálum þar sem menn hlaupa í einhver verk og setja þau fram fyrir og allt það og kostnaðurinn fer talsvert úr böndunum. Ég held að það verði að ræða framhald málsins á þeim nótum, þ.e. það borgar sig stundum að flýta sér hægt. Menn ætla að kippa einhverju fram fyrir, við getum nefnt fleiri dæmi, kannski Vaðlaheiðargöng, þeim var kippt fram fyrir og fóru verulega úr böndum. Þetta er óábyrgt. Við sem erum hér, fulltrúar fólksins í landinu, ættum að gera betur í þessum efnum, fara betur með fjármuni og læra virkilega af þessu máli.



[17:52]
Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Þessi skýrsla er í raun og veru ekki bara um Landeyjahöfn sem slíka. Hún er að brýna okkur til þess hvað varðar áætlanagerð almennt að taka til gagngerrar skoðunar og/eða endurskoðunar með hvaða hætti áætlanir eru búnar til og lagðar fram. Oft og einatt erum við á öllum sviðum að fara fram úr þeim áætlunum sem búið er að gera. Hv. þingmaður nefnir hér sérstaklega svið samgöngumála þar sem ekki eru fullreiknaðir allir þeir þættir sem snúa að vegagerð eða brúarsmíði eða hvað eina sem snýr að samgöngumálum. En svo má líka nefna að við búum í samfélagi og óstöðugu efnahagsumhverfi, við lifum í þannig umhverfi að við vitum ekki þegar við förum að sofa um kvöldið hvað við eigum að borga í afborgun á morgun. Þannig hefur þetta verið endalaust. Við erum alltaf að glíma við þennan óstöðugleika og það á alveg eins við um ríkið eins og bara okkur sjálf sem erum kannski að fjárfesta eða gera áætlanir um hvernig við ætlum að reka heimili okkar næsta árið. Það er kannski búið að kippa undan okkur fótfestunni áður en varir og við ráðum ekki neitt við neitt. Það er kannski stórt og mikið mál sem við þurfum að huga að, hvernig við getum undirbyggt einhvern þann stöðugleika í efnahagsumhverfinu okkar sem gerir það að verkum að hægt er að gera áætlanir sem við getum staðið við, ekki bara ríkið heldur sveitarfélög og almenningur í landinu.