153. löggjafarþing — 102. fundur
 3. maí 2023.
sérstök umræða.

Kjaragliðnun.

[15:53]
Viðar Eggertsson (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Kjaragliðnun er pólitísk ákvörðun. Lög um almannatryggingar tryggja lífeyristaka gegn kjaragliðnun, en þrátt fyrir það er kjaragliðnun staðreynd á Íslandi. Á hverju ári leggur hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fram fjárlagafrumvarp. Árlega kemur þar fram hvað ráðherrann og ráðuneyti hans ætla eldra fólki til að lifa af, hversu hár ellilífeyrir eigi að vera. Þar er ár eftir ár beitt ótrúlegustu reiknikúnstum til að komast hjá því að framfylgja 69. gr. laga um almannatryggingar þar sem skýrt er kveðið á um að ellilífeyrir eigi aldrei að hækka minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Reiknikúnstir ráðuneytis hæstv. ráðherra hafa sífellt vanmetið verðlagsþróun, almenna launaþróun og vísitölu neysluverðs og þá hefur alltaf hallað á lífeyristakann.

Samkvæmt útreikningum Landssambands eldri borgara hefur kaupmáttur ellilífeyris ekki haldið í við almenna launaþróun á síðustu árum, frá árinu 2018, hvort sem horft er til lágmarkslauna eða launavísitölu, en til að svo megi vera ætti hann að vera 20.000–40.000 kr. hærri en hann er í dag. Þetta er vel tíundað í umsögn landssambandsins um síðustu fjárlög og rökstutt skýrt og afar skilmerkilega. Telur ráðherra þetta ásættanlegt?

Nú lifum við á verðbólgutímum. Verðbólgan sleikir tveggja stafa tölu í dag. Í ár er gert ráð fyrir að verðbólga verði 8,2% en ekki 5,6%, eins og gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Hvernig hyggst ráðherra bregðast við og jafna mismunun á gildandi fjárlögum og rauntölum verðlagsbreytinga varðandi lífeyri þeirra sem eiga lífsafkomu sína undir þessu? Hvers vegna hefur ráðherra ekki beitt sér fyrir hækkun almannatrygginga í samræmi við verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs?

Ranglega hefur hæstv. ráðherra haldið því fram í mörg liðin ár að ellilífeyrir væri 300.000 kr. Ráðherra veit fullvel að ellilífeyrir náði ekki þessari tölu fyrr en í ár, loksins á þessu ári. Í dag er ellilífeyrir 307.829 kr. fyrir skatta og skerðingar. Það er nú öll rausnin. Lífeyristakar hafa árum saman kallað eftir því að óskertur ellilífeyrir nái sömu upphæð og lágmarkstaxtalaun á vinnumarkaði. Lágmarkstaxti Eflingar er í dag 402.235 kr. Þarna munar um 95.000 kr. ellilífeyristakanum í óhag. Láglaunafólk getur vart lifað af 402.000 kr., hvað þá að fátækt eldra fólk geti lifað af 307.000. Síðan á eftir að greiða tekjuskatt af þessum upphæðum svo rauntekjurnar eru lægri.

Hverjar eru ástæður kjaragliðnun ellilífeyris- og lágmarkslauna að mati ráðherra?

Svo koma skerðingarnar. Við skulum tala um þær því að þær eru óhjákvæmilegar samkvæmt lögum, enda er það svo að það eru sárafáir sem fá ellilífeyri óskertan vegna þess hve almenna frítekjumarkið er lágt. 1. janúar 2017 var sett frítekjumark á allar tekjur sem nú gilda fyrir lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur. Frítekjumarkið var þá 25.000 kr. Það er enn, rúmum sex árum síðar, 25.000 kr. Lágt frítekjumark kemur harðast niður á því fólki sem hefur lægstu tekjurnar, einkum og sér í lagi konum sem unnið hafa láglaunastörf, einhleypu fólki, að ógleymdum þeim sem eru á hinum alræmda íslenska leigumarkaði þar sem leiguverð er í hæstu hæðum og húsnæðisöryggið lítið.

Fjármagnstekjur eru að fullu reiknaðar til skerðinga á ellilífeyri jafnvel þótt yfirleitt sé um að ræða neikvæða vexti af sparireikningum. Skattalöggjöfin gefur frítekjumark upp á 300.000 kr. á ári en það gefur skerðingum á ellilífeyri þá enga miskunn. (Forseti hringir.)

Kjaragliðnun verður að uppræta strax. Það er lágmarkskrafa að ráðherra og ráðuneyti hans fari eftir 69. gr. laga um almannatryggingar og reikni rétt. Eldra fólk hefur ekki tíma til að bíða eftir réttlæti.



[15:58]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir tækifærið til að ræða þessi mál. Það er rétt að taka fram í upphafi að þótt málaflokkurinn heyri efnislega undir annan ráðherra þá mun ég bregðast við eftir bestu getu en tek þó fram að hér er komið svo víða við að það er ómögulegt að svara öllum athugasemdum í stuttri framsögu. Fyrst og fremst vil ég þó halda því hér til haga hversu mjög kjör eldri borgara hafa batnað á síðustu árum. Það er alveg sama hvort litið er til tekna, kaupmáttar, eigna, skuldastöðu, allt er þetta að þróast í rétta átt undanfarin ár. Heildartekjur lífeyrisþega sem fá greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins hafa hækkað um helming frá árinu 2015 og kaupmáttur hefur aukist mjög og hlutfallslega mest hjá tekjulágum, enda hafa útgjöld ríkissjóðs vaxið gríðarlega, hér um bil rétt tvöfaldast, úr 56 milljörðum í þennan málaflokk á árinu 2015 í 115 milljarða á yfirstandandi ári. Þetta er að raunvirði um 87% aukning í málaflokkinn. Ef við skoðum þetta í hlutfalli við heildarskatttekjur ríkissjóðs þá ráðstöfum við 11% af heildarskatttekjum ríkissjóðs í þennan málaflokk og enginn annar málaflokkur fær hærra hlutfall heildarskatttekna, að sjúkrahúsþjónustu undanskilinni. Árið 2016 voru gerðar hér sögulegar breytingar á almannatryggingakerfinu með það að markmiði að stórbæta kjör aldraðra. Við þetta jukust útgjöldin um 17 milljarða milli ára og er engum blöðum um það að fletta að þetta var gríðarlega mikið framfaraskref. Þegar rætt er um frítekjumörk og aðra slíka hluti verður að taka hina miklu kerfisbreytingu frá 2016 með í reikninginn.

Hér er það fullyrt að ákvæði 69. gr. laga um almannatryggingar hafi ekki verið virt við fjárlagagerð síðustu ára. Þetta er alrangt. Ákvörðun um fjárhæð bóta er í fjárlögum ár hvert og hefur lagaákvæðinu verið fylgt í hvívetna. Bætur almannatrygginga hækka almennt einu sinni á ári. Venjan hefur verið að þær hækki frá 1. janúar ár hvert en ekki frá miðju ári. Það er sem sagt engin lagaskylda til að bregðast sérstaklega við þótt verðlagsþróun í landinu verði önnur en verðbólguspá gildandi fjárlaga gerir ráð fyrir. Þetta á við hvort sem verðbólgan er hærri eða lægri en gert var ráð fyrir.

Í þessu samhengi má þó benda á að hækkun bóta í fjárlögum 2018 og 2019 var í báðum tilvikum umfram hækkun vísitölu neysluverðs. Við hækkuðum bæturnar 2018 og 2019 meira en reyndist vera raunverðbólga þeirra ára. Að þessu sögðu þá var við ákvörðun um hækkanir bótafjárhæða á árinu 2022 og 2023, sem sagt fyrir gildandi ár, tekið mið af verðlagsþróun fyrra árs þrátt fyrir að fyrir því væri engin skýr lagaskylda. Þannig að það er ekki nóg með að það sé rangt að við höfum ekki fylgt 69. gr., við höfum fylgt henni og við höfum gert meira en lögin kveða á um að við þurfum að gera. Það hefur verið sú pólitíska stefna sem við höfum keyrt undanfarin ár vegna verðbólgunnar.

Lífeyrisgreiðslur voru hækkaðar sérstaklega um 3% í júní í fyrra í mótvægisaðgerðum og það er skýrlega ákvörðun sem er umfram ákvæði 69. gr. Það er sömu sögu að segja um hækkanir greiðslna almannatrygginga á árinu 2023 en bætur almannatrygginga hækkuðu alls um 7,4% 1. janúar sl. og var miðað við verðbólguspá Hagstofunnar, en auk þess ákvað ríkisstjórnin að hækka bætur almannatrygginga um 1,1% til viðbótar til að hækkun ársins yrði ekki minni en hækkun verðlags samkvæmt vísitölu neysluverðs.

Varðandi það sem hv. þingmaður kallar kjaragliðnun og samanburð við launaþróun er vert að nefna nokkur atriði. Við útreikning launabóta fjárlaga hefur ekki tíðkast að taka mið af vísitölu launa, m.a. vegna þess að sú vísitala inniheldur launaskrið, heldur er horft til þess sem samið hefur verið um á markaði. Þetta hefur kannski skýrt meginhluta þess ágreinings sem hefur verið um túlkun greinarinnar undanfarin ár en af hálfu ráðuneytisins hefur margítrekað verið gerð grein fyrir því hvaða forsendur liggja hér að baki.

Það er margt annað órætt sem ég kannski hef tíma til að koma inn á í seinni ræðu.



[16:04]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Viðari Eggertssyni fyrir þessa umræðu og ég spyr mig að því hvort fjármálaráðherra sé svona rosalega sáttur við þessar gífurlegu hækkanir sem hann segir að þeir hafi sett inn í kerfið. En í svörum frá félags- og vinnumarkaðsráðherra kemur skýrt fram hverjar skerðingarnar eru og hvað skerðingarnar hafa hækkað mikið á þessu tímabili. Hann talar um að setja heila 17 milljarða inn í kerfið. Veit hann hversu mikið skilar sér í vasa þeirra sem eiga að fá þetta? 3 milljarðar, nærri 14 milljarðar renna aftur í ríkissjóð í formi skatta og skerðinga. Árið 1988 voru lægstu ellilífeyrislaun skattlaus og fólk átti afgang upp í lífeyrissjóð. Síðan hafa hlutirnir breyst. Kjaragliðnunin er gífurleg. Skattar hafa hækkað vegna þess að persónuafsláttur hefur ekki fylgt launaþróun. 69. gr. almannatryggingalaga margbrotin. Tekin upp sérstök framfærsluuppbót og krónu fyrir krónu skerðing, sem nú er 65 aurar á móti krónu. Ef rétt væri gefið og uppreiknað frá 1988 til dagsins í dag og við værum með nákvæmlega sama kerfi þá væri þetta 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust í dag. Spáið í það. Þetta segir okkur hversu gífurleg þessi kjaragliðnun hefur verið undanfarinn áratug. Þessar skerðingar sem við vorum að tala um — inn í þær vantar meira að segja keðjuverkandi skerðingar yfir í félagsbótakerfið þar sem barnabætur, sérstakar húsaleigubætur og fleira skerðast. Ríkisstjórnin veit alltaf að þó að þeir stórhækki framlög inn í þessa hít þá fá þeir af hverjum 10 kr. sem þeir setja inn í það 8 kr. í vasann til baka.



[16:06]
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Stjórnvöld standa frammi fyrir stórum verkefnum. Við þurfum í sameiningu að koma böndum á verðbólguna með fjölþættum aðgerðum og stuðla að frekari kaupmáttaraukningu. Þrátt fyrir að alltaf sé hægt að bæta kjör eldri borgara þá getum við ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að kjör eldri borgara hafa samt sem áður einnig batnað verulega á síðustu árum, hvernig sem á það er litið. Á undanförnum árum hafa útgjöld ríkissjóðs til þess málaflokks aukist um sirka 87% að raunvirði, sé tekið mið af vísitölu neysluverðs. Sú aukning kemur í kjölfar fjölgunar á þeim sem þiggja ellilífeyri og hækkun greiðslna frá Tryggingastofnun. Um 11% af heildartekjum og tryggingagjöldum ríkissjóðs fyrir árið 2023 er kostnaður vegna ellilífeyrisgreiðslna, en það er þrisvar sinnum meira en ríkissjóður greiðir til háskólastigs samfélagsins.

Fyrir utan heilbrigðismál er enginn málaflokkur sem fær meira fjármagn úr ríkissjóði en málaflokkur aldraðra. Við þurfum líka að horfast í augu við það að sú kjaragliðnun sem hefur átt sér stað á undanförnum árum er einnig til komin í kjölfar menntunarstigs samfélagsins. Við viljum að menntun sé metin til launa, líkt og gert hefur verið undanfarna áratugi. Það á að vera hvati að afla sér frekari þekkingar fyrir starf sitt og fyrir aukna þekkingu er sanngjarnt að fá sanngjarnt endurgjald.



[16:08]
Halldóra Mogensen (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég skil ekki alveg þessar þráhyggju hæstv. fjármálaráðherra að alltaf þegar á að ræða erfiða fjárhagsstöðu fólks í samfélaginu þá fer ráðherra bara að gaslýsa þjóðina, hvað allir hafi það bara ofboðslega gott: Erum við ekki að sjá partíið hérna? Sjáið þið ekki hvað þið hafið það gott? Það er búið að gera svo rosalega mikið fyrir fólkið.

Þetta er bara ömurleg orðræða, forseti. Hér er verið að ræða augljósa og gríðarlega ósanngjarna kjaragliðnun eldra fólks og stöðuna sem þessi ósanngirni hefur skapað fyrir mjög margt fólk, ekki bara eldra fólk heldur líka fyrir öryrkja, fólk sem hefur verið skilið eftir í öllu þessu blessaða góðæri sem við höfum verið að byggja hér upp, vegna lágra bóta, vegna ömurlegra skerðinga. Kjör þessa fólks hafa bara ekkert batnað í samræmi við kjör annarra á vinnumarkaðinum. Það er ekki góð staða.

Ég skil ekki af hverju stjórnvöld eru staðráðin í því að skilja viðkvæma hópa eins og öryrkja og eldra fólk eftir í góðærinu. Það er kostnaður við að viðhalda fátækt fólks, því að mikið af þessu fólki lifir í fátækt. Það á bara ótrúlega erfitt, og sérstaklega núna í þeim fjárhagsaðstæðum sem við lifum nú, í verðbólgunni sem étur í burtu allar þessar betrumbætur sem verið er að gefa þessu fólki að sögn fjármálaráðherra. Það er gríðarlega dýrt að viðhalda þessari fátækt. Við eigum að vera að lyfta þessu fólki upp, við eigum að lyfta öllum upp til að tryggja að allir njóti sameiginlegra gæða samfélagsins. En í staðinn erum við að viðhalda fátækt. En kannski er svarið við þessari spurningu minni um af hverju stjórnvöld eru staðráðin í því að skilja þetta fólk eftir bara komið núna með ræðu fjármálaráðherra rétt áðan, að ráðherra finnst allir hafa það rosalega gott. Ef það er staðan þá þarf bara ekkert að hlusta. Það þarf ekkert að bæta stöðuna. Nei, bara halda áfram að benda á það hvað allir hérna hafi það rosalega gott og hvað við erum stjarnfræðilega vitlaus að vera að ræða þessa hluti hérna.



[16:10]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Viðari Eggertssyni, fyrir þessa mikilvægu umræðu hér í dag og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir svörin. Það er mikilvægt að hlusta á kröfur allra hópa samfélagsins þegar rætt er um bætta afkomu. Málshefjandi vekur athygli á útreikningum Landssambands eldri borgara sem sýni að kaupmáttur ellilífeyris hafi ekki haldið í við almenna launaþróun út frá lágmarkslaunum eða launavísitölu. Eins og við höfum heyrt hér sýnist sitt hverjum um þá framsetningu. Sem betur fer er það svo að meginþorri ellilífeyrisþega hefur það þokkalegt. Margir hafa aðrar tekjur en ellilífeyri en það er þó þannig að það er mikilvægt að horfa á heildartekjur ellilífeyrisþega, enda nema þær tekjur og greiðslur frá Tryggingastofnun u.þ.b. 122% af lágmarkslaunum að meðaltali. En þrátt fyrir þetta eru í kringum þúsund manns sem ekki njóta annarra tekna og utan um þennan hóp þurfum við sérstaklega að taka. Á tíma ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur hefur hlutfall fólks sem býr við efnislegan skort minnkað ár frá ári, sem betur fer, en það er þó um 1,1% fólks yfir 65 ára aldri sem býr við skort samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar fyrir árið 2021, samanborið við 3,1% árið 2017. Sambærileg gögn frá OECD sýna að fátækt meðal eldri borgara er einna minnst hér á landi samanborið við önnur ríki en fátækt, hvaða hópur sem við hana býr, er óásættanleg í ríku velferðarsamfélagi eins og okkar. Það er mjög mikilvægt að við tökum utan um þetta fólk sem hvað verst stendur, enda byggjum við okkar kerfi upp þannig að það eigi að grípa þau sem höllustum fæti standa. Um þetta kerfi þurfum við að standa vörð því að ríflega prósent er prósenti of mikið.



[16:12]
Guðbrandur Einarsson (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Stéttarfélögin hafa haft þann háttinn á um árabil að lögð hefur verið sérstök áhersla á að hækka lægstu laun hlutfallslega meira en önnur laun, sem er vel, en hefur það eitthvað hjálpað því fólki sem treystir á almannatryggingakerfið? Þegar um krónutöluhækkun er að ræða á alla þá sem starfa eftir ákveðnum kjarasamningi leiðir það af sér að lægstu laun hækka meira hlutfallslega en önnur laun. Þá hefur það einnig viðgengist að samið hefur verið um hækkun grunntaxta með krónutöluhækkun en síðan um almenna hækkun fyrir aðra þá sem fá greidd laun sem eru hærri en grunntaxtar. Með þessu vinnulagi er verið að gera tilraun til að hækka þá meira sem lægstu launin hafa en því miður hefur það oft haft í för með sér svokallað höfrungahlaup. Þessi aðferð hefur þó skilað þeim árangri að lægstu laun hafa hækkað umfram launavísitölu. Þegar ríkisstjórnin ákveður síðan hækkun á bótum almannatrygginga í fjárlögum er verið að miða við einhverja áætlaða hækkun vísitölu. Svo þegar vísitalan verði meiri en ætluð vísitala er stundum brugðist við með aukahækkun, en það er þó ekki alltaf þannig. Kjaragliðnun felur það í sér að bætur almannatrygginga fylgja ekki hækkun lægstu launa heldur meðaltalshækkun launavísitölu og það gefur augaleið að þegar ekki er verið að hækka bætur hlutfallslega jafn mikið og lægstu laun þá myndast þessi kjaragliðnun. Launavísitala er einungis meðaltalshækkun allra launa í landinu og með þessu er verið að breikka bilið milli þeirra sem eru á bótum almannatrygginga og þeirra sem eru á kjarasamningsbundnum launatöxtum.

Virðulegi forseti. Þetta fyrirkomulag þarf að laga. Við getum ekki látið um okkur spyrjast að við skiljum hópinn sem lakast stendur alltaf eftir.



[16:15]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Á Íslandi ætti að vera gott að lifa, eldast og eiga ánægjulegt ævikvöld. En þannig er ekki staða allra hér á landi. Fátækt spyr ekki um kyn en samt sem áður er erfitt að horfa fram hjá því að kynbundinn launamunur hefur ekki aðeins áhrif á laun kvenna þegar þær eru ungar. Launamunurinn hefur áhrif á öll réttindi sem þær ávinna sér á vinnumarkaði. Konur fá lægri orlofsgreiðslur en karlar og lægri eftirlaun. Þannig eru konur líklegri til að búa við fátækt á efri árum. Margar konur vinna í láglaunastörfum og aðrar hafa unnið hlutastörf vegna þess að þær eru að sinna börnum og heimili, öldruðum, foreldrum eða öðrum ættingjum. Þar að auki reka konur höfuðið í glerþakið og fá ekki alltaf sömu tækifæri og framgang á vinnustöðum og karlmenn. Það hefur líka áhrif á launin og á eftirlaunin.

Ef skipting þjóðarkökunnar væri réttlátari gætum við auðveldlega bætt kjör eldra fólks. Við höfum efni á því. Við höfum efni á því að hækka greiðslur almannatrygginga. Það er ekki mikil reisn yfir þjóð sem tryggir ekki eldra fólki mannsæmandi kjör. Það þarf að hækka eftirlaunin, setja á sveigjanleg starfslok og gera fólki kleift að skilja og verja rétt sinn. Kjaragliðnunin á milli launamanna á lægstu launum og þeirra sem þurfa að treysta á greiðslur almannatrygginga vex ár frá ári og nemur nú rétt tæpum 100.000 kr. á mánuði. Þetta verður að leiðrétta. Og þegar búið er að því þarf að finna leiðir til að kjaragliðnunin hefjist ekki á ný. Upplögð leið til þess væri að miða við útreikning árlegrar hækkunar launa alþingismanna þegar hækkun lífeyris er ákveðin. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[16:17]
Teitur Björn Einarsson (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Fjárhæðir bóta almannatrygginga hljóta alltaf að vera til umræðu enda taka þær mið af aðstæðum hverju sinni en markmiðið er að þær séu sanngjarnar og í eðlilegu samræmi við aðrar lífskjaratengdar fjárhæðir. Staðreyndir málsins liggja alveg fyrir. Kjör eldri borgara hafa batnað mjög mikið á síðustu árum, eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur rakið hér í sinni framsögu. Þetta er góður árangur, sem er fagnaðarefni. Það er því rangt að hafa uppi stór orð um að það hafi orðið einhver gliðnun milli kjara þessa þjóðfélagshóps og annarra. Staðreyndin er sú að það hefur ekki verið klippt á sambandið milli launa og bóta. Því er þveröfugt farið. Í lögum segir að bæturnar skuli fylgja almennri launaþróun eða neysluvísitölu, hvort sem er hærra, þannig að aldraðir og öryrkjar séu tryggðir gegn kjaraskerðingu. Tryggðir gegn kjaraskerðingu — þetta er aðalatriði málsins og hefur gilt svona í 26 ár og stendur ekki til að breyta því. En auðvitað eigum við stöðugt að stefna að því að gera betur og við getum alveg gert betur. Það er hægt að taka upp kerfi sem fjárfestir í fólki og byggir bæði á jöfnun tekna vegna fortíðar og samtíðar þannig að við hverfum frá stífum tekjutengingum og litlum hvötum til að afla atvinnutekna. En meginforsenda þess að hægt sé að bæta kjörin enn meira, frú forseti, er að íslensku þjóðfélagi auðnist að skapa meiri verðmæti, að okkur takist að skapa áfram skilyrði fyrir auknum hagvexti, framleiðniaukningu, efla framleiðslu og útflutningsgreinar og nýta þann mannauð sem hér er til frekari nýsköpunar og tækniframfara. Þetta er grundvallaratriði og öll umræða um ríkisfjármál eða styrkingu velferðarkerfisins verður að taka mið af þessum augljósu sannindum.



[16:19]
Inga Sæland (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Viðari Eggertssyni fyrir þessa góðu og gegnu umræðu og einnig hæstv. ráðherra fjármála, Bjarna Benediktssyni, fyrir að vera með okkur. En það liggur við að ég fleygi bara pappírnum sem ég er með, svo mikið er mér niðri fyrir eftir að hv. þm. Teitur Björn Einarsson var hér á undan mér í ræðustólnum.

Mig langar til að vitna í umsögn Öryrkjabandalagsins um frumvarp mitt um að fjárhæðir almannatrygginga skuli fylgja launavísitölu. Í desember 2022 vantaði tæplega 71.000 kr. á mánuði upp á hámarksgreiðslur örorkulífeyris án heimilisuppbótar og tæp 68.000 kr. með henni ef miðað er við almenna launaþróun. Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 70% síðan árið 2009 en launavísitala hefur hækkað um 155%, mismunurinn heil 85%, og það þarf víst ekki skarpar sellur til að sjá þá gríðarlegu kjaragliðnun sem liggur í þessu. Hér sést hvernig launavísitalan hefur hækkað rúmlega tvöfalt meira en vísitala neysluverðs á sama tímabili.

Hæstv. fjármálaráðherra talar hér um að ríkisstjórnin hafi fylgt 69. gr. almannatryggingalaga, sem nú er náttúrlega orðin 62. gr., og hann hafi gert gott betur. Ég vísa þessum fullyrðingum hins vegar til föðurhúsanna því að í fjárlagafrumvörpum birtast spár um áætlaða verðbólgu komandi árs og svo eru fjárhæðir almannatrygginga hækkaðar til samræmis en í rauninni er aldrei neitt að marka þetta. Það kemur iðulega í ljós að verðbólgan er mun meiri en ráð var fyrir gert.

Ég vil segja það að þegar verið að tala um eldra fólk og að hér drjúpi smjör af hverju strái — ég veit ekki hver mögulega getur talað um að hér drjúpi smjör af hverju strái þegar við vitum um raunveruleg bágindi úti í samfélaginu. Við vitum um þá kjaragliðnun sem hefur átt sér stað frá því að efnahagshrunið varð 2009. Það liggur algjörlega á borðinu fyrir alla.

Ég hvet bara alla til að kynna sér málin aðeins betur og sjá (Forseti hringir.) að núgildandi 62. gr. laga um almannatryggingar hefur ekki verið fylgt heldur hafa kjarabætur (Forseti hringir.) almannatryggingaþega venjulega, nánast alltaf, miðast við neysluvísitölu (Forseti hringir.) og ekki almenna launaþróun í landinu.



[16:22]
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Við megum ekki gleyma kjaragliðnuninni sem hefur átt sér stað milli fjármagnseigenda og launafólks en á undanförnum tíu árum hafa fjármagnstekjur aukist gífurlega eða um 120% að raunvirði. Atvinnutekjur í hagkerfinu jukust um 53%. Ekki er greitt tryggingagjald af útgreiddum arði og mikill munur er á milli skatts á hagnað lögaðila og skatts á launagreiðslur. Því er spurning hvort taka þurfi þetta til gagngerrar endurskoðunar. Mögulega þarf að girða fyrir tekjutilflutning milli launa og fjármagnstekna eða leggja í þá vinnu að endurskoða það skatthlutfall sem fjármagnseigendur þurfa að greiða af útgreiddum arði. Á sama tíma þurfum við að passa að markmiðið á alltaf að vera sanngjarnt og skilvirkt skattkerfi. (Gripið fram í.) Við búum jú öll í þessu landi saman og þar af leiðandi ættum við öll að bera þá samfélagslegu ábyrgð saman að greiða í samneysluna. Það ætti að vera leiðarljós okkar áfram í þessum efnum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[16:23]
Gísli Rafn Ólafsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Mig langar að byrja á því að þakka málshefjanda fyrir þetta mikilvæga mál. Mig langar líka að þakka hv. þm. Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur fyrir að minna okkur á að það er alveg hægt að fjármagna hlutina ef við snertum aðeins á fjármagnseigendum. En mig langaði að byrja á því að horfa á þróun síðustu ára og tala um tölur. Á síðastliðnum átta árum hefur lífeyrir hækkað um 39%. Verðbólgan hefur verið 40,3%. Almenn launavísitala hefur hins vegar hækkað um 65% og laun ráðherra um rúmlega 90%. Já, hæstv. fjármálaráðherra segir dýrt að fylgja lögunum, þ.e. dýrt að reka kerfi þar sem við borgum ellilífeyri, en mig langar að minna hæstv. ráðherra á að það er enn dýrara að láta fólk lifa í fátækt. Fólk sem ekki hefur efni á lyfjum og heilbrigðisþjónustu og fólk sem ekki hefur efni á því að kaupa mat, eða a.m.k. heilnæman mat, þýðir einfaldlega aukinn kostnað annars staðar, sér í lagi í heilbrigðiskerfinu sem ég veit að hæstv. ráðherra vill helst minnka útgjöldin til líka. Fátækt er alltaf óásættanleg í ríku þjóðfélagi eins og okkar og þar skipta engu máli einhver meðaltöl OECD. Ein manneskja í fátækt er einni manneskju of mikið í ríku þjóðfélagi eins og hér. Við þurfum samstöðu fólks hér á þessu þingi til að tryggja þessum hópi sanngjarnt og öruggt ævikvöld eftir allt það sem þau hafa gefið og gert fyrir okkur.



[16:25]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég fagna því að við séum hérna að ræða um kjör þeirra sem hafa lægstu upphæðirnar sér til framfærslu. Mér finnst það vera eitthvað sem við eigum að bæta í okkar samfélagi, þ.e. bilið milli þeirra sem lægstu tekjurnar hafa og þeirra sem hæstu tekjurnar hafa, vegna þess að í mínum huga er gott samfélag samfélag þar sem jöfnuður ríkir og það er erfitt að tala um að jöfnuði hafi verið náð nema allir geti haft mannsæmandi framfærslu. Í tíð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur hafa kjör eldri borgara batnað verulega. Það voru sérstaklega stigin skref til þess að bæta kjör þeirra sem bjuggu við alverstu kjörin og það skiptir gríðarlegu máli. Ég get alveg tekið undir það að þar þurfum við að gera enn betur en sem betur fer er líka mikið af eldra fólki sem býr við góð kjör. Í júní síðastliðnum voru bætur til örorkulífeyrisþega hækkaðar um 3% vegna mótvægisaðgerða ríkisstjórnarinnar til að draga úr áhrifum verðbólgu á kjör viðkvæmra hópa og það er mikilvægt og það var rétt að gera.

Mig langar að minnast á, af því að við erum að tala um þau með lægstu kjörin, fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna. Samkvæmt heimasíðu Reykjavíkurborgar fær einstaklingur nú 217.799 kr. í fjárhagsaðstoð. Þar þarf svo sannarlega að gera mun betur og koma til móts við verðbólguna.

En það sem ég tek út úr þessari umræðu er samhljómurinn um að við þurfum að halda áfram að bæta kjör þeirra sem hafa lægstu upphæðirnar og því fögnum við Vinstri græn og göngum glöð til þeirra verka.



[16:28]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Þegar ríkisfjármálin neita að takast á við verðbólguna þýðir það að vaxtahækkanir verða þyngri. En vaxtahækkunartækið er miklu grimmara verkfæri í baráttunni við verðbólgu því að hærri vextir lenda á öllum og höggið er þyngst fyrir þá sem veikast stóðu fyrir, ekki síst fyrir það fólk sem við ræðum hér í dag. Fólk á leigumarkaði býr við ævintýralega erfiðar aðstæður og á árinu munu síðan 4.500 heimili losna undan skjóli fastra vaxta óverðtryggðra lána og þetta eru fyrstu kaupendur og þetta eru barnafjölskyldur. Það er ekki réttlætanlegt að láta tekjulágt fólk, unga fólkið og barnafjölskyldurnar bera þyngstu byrðarnar í verðbólguástandi og það er ekki hægt að ætlast til þess að almenningur axli einn þann kostnað sem hlýst af gjaldmiðlinum, en á Íslandi þarf að hækka vexti margfalt til að takast á við svipaða verðbólgu og annars staðar. Fjárlögin sem voru afgreidd fyrir síðustu áramót höfðu meiri þýðingu en oft áður. Viðreisn lagði þá fram tillögur um hækkun vaxtabóta, hækkun húsnæðisbóta, hækkun barnabóta. Allar voru þessar tillögur Viðreisnar felldar. Þetta hefðu verið réttlátar og skynsamlegar aðgerðir og viðbrögð stjórnvalda þá sögðu okkur merkilega sögu: Ríkisstjórnin lagði ekkert til í baráttunni gegn verðbólgu og skildi viðkvæmustu hópana eftir.

Forseti. Umræða dagsins í dag hlýtur að kalla á það að nefna að fjármálaráðherra boðar núna stríð gegn lífeyrisþegum og stríð gegn eignarréttinum, hefur lagt fram áform um að slíta ÍL-sjóði með lagasetningu, áform sem lífeyrissjóðirnir hafa mótmælt mjög harðlega. Það rignir yfir hann lögfræðiálitum en fjármálaráðherrann lætur sem það komi út á eitt hvort ríkið standi við skuldbindingar sínar eða ekki, talar um að lífeyrisþegarnir geti bara bætt tjónið af lagasetningunni sjálfir. Þekkist viðlíka aðför að eignarrétti í þeim ríkjum sem við viljum bera okkur saman við?



[16:30]
Viðar Eggertsson (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Já, það er mörg veislan og nú erum við að halda upp á afmæli. Fyrir rétt um tíu árum, eða 22. apríl 2013, sendi formaður Sjálfstæðisflokksins eldri borgurum bréf og hvatti þá til að kjósa sig. Eldri Sjálfstæðismenn hafa árum saman veifað þessu bréfi og gremja þeirra hefur farið stigvaxandi. Nú veifa þeir þessu bréfi framan í mig og segja bálreiðir: Segðu Bjarna að ég sé hættur að kjósa Sjálfstæðisflokkinn því að hann hefur svikið okkur. Þetta bréf var sent eldra fólki korteri áður en núverandi fjármálaráðherra tók sæti í ríkisstjórn sem hann hefur setið í samfellt í tíu ár, löngum sem fjármálaráðherra. Í þessu áratugsgamla bréfi segir m.a., með leyfi forseta:

„Stefna Sjálfstæðisflokksins er framtíðarstefna og til þeirra sem eldri eru því við hugum að lífskjörum þeirra. Eldri kynslóðir verðskulda að búa við öryggi og góð lífsgæði. Fái Sjálfstæðisflokkurinn umboð til að leiða næstu ríkisstjórn“ — sem hann nota bene fékk — „munum við setja eftirfarandi mál í öndvegi: Við viljum að þeir sem komnir eru á efri ár njóti afraksturs erfiðis síns. Stjórnvöld eiga að hlúa að öldruðum en ekki íþyngja þeim með ósanngjarnri skattlagningu.“

Svo heldur loforðalistinn áfram og þar er margt sætt og óefnt en tímans vegna nefni ég þó úr loforðalistanum: Við ætlum að afturkalla kjaraskerðingu ellilífeyrisþega. Við ætlum að afnema eignarskattinn, sá skattur er ekkert annað en árás á eldra fólk sem býr í skuldlausu eða skuldlitlu húsnæði. Við ætlum að lækka fjármagnstekjuskattinn sem kemur einna harðast niður á eldri borgurum landsins. Við ætlum að afnema tekjutengingar ellilífeyris. Þar er sannarlega um réttlætismál að ræða.

Meira að segja eldri Sjálfstæðismenn eru reiðir. Hvað varð um þessi loforð? Stóð aldrei til að efna þau?



[16:32]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Hér hefur verið farið um víðan völl og margt af því sem fullyrt hefur verið um atburðarás síðustu ára stenst ekki skoðun, því miður. Ég vil auðvitað fagna því þegar menn gefa sér tíma í að lesa upp góð bréf frá formanni Sjálfstæðisflokksins og menn mættu gera meira af því. Bara til að svara hv. þingmanni örstutt þá hófumst við handa strax árið 2013 og þetta er það sem tölurnar sýna, þetta eru forsendurnar fyrir því að við höfum séð þær kjarabætur sem hafa raungerst undanfarin ár. Auðvitað létum við gamla Samfylkingarskattinn, sem lagður var á tekjulítið eignafólk, renna sitt skeið. Við gerðum það eins og lofað hafði verið. Við fórum sömuleiðis strax árið 2013 í að afnema skerðingar Jóhönnustjórnarinnar. Það var gert í markvissum skrefum og hver skerðing Jóhönnustjórnarinnar á eftir annarri var afnumin. Það er minnst á fjármagnstekjuskattinn. Við bjuggum til frítekjumark fyrir fjármagnstekjuskatt sem einmitt gagnast eldri borgurum sem eru með lágar fjármagnstekjur og hóflegar, sem áður voru skattlagðar og Samfylkingin talar iðulega um að þurfi að hækka skattinn á, en við höfum gert það skattfrjálst núna, hóflegar fjármagnstekjur.

Þannig er hægt að tína upp hvert einasta atriði sem nefnt var í þessu bréfi en taka verður tillit til þess að við höfum gert kerfisbreytingar og þannig verða t.d. þær ósanngjörnu skerðingar á gamla grunnlífeyrinum sem við afnámum ekki bornar saman við nýja kerfið sem við erum með í dag, þ.e. kerfisbreyting hefur átt sér stað og þess vegna ekki lengur til neinn grunnlífeyrir sem ekki má skerða, hann er kominn inn í sjálft kerfið. Að öðru leyti hafa flogið hér yfir innstæðulausar fullyrðingar um að ég hafi talað um að smjör drjúpi af hverju strái og að enginn ætti bágt og allir hefðu það gott, allt saman rakalaus þvættingur í raun og veru og óravegu (Forseti hringir.) frá því sem ég sagði. Í máli mínu var ég að benda á staðreyndir — staðreyndir — sem engum hefur tekist að hrekja.