153. löggjafarþing — 102. fundur
 3. maí 2023.
húsaleigulög, 1. umræða.
frv. IngS o.fl., 898. mál (réttarstaða leigjanda íbúðarhúsnæðis og leigubremsa). — Þskj. 1409.

[16:51]
Flm. (Inga Sæland) (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994 (réttarstaða leigjenda íbúðarhúsnæðis og leigubremsa). Með mér á frumvarpinu er gjörvallur þingflokkur Flokks fólksins, þau Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

1. gr. frumvarpsins er sem hér segir:

„1. gr. Eftirfarandi breytingar verða á 37. gr. laganna: a. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi íbúðarhúsnæði verið áður til leigu teljast þá líkur á því að sú leigufjárhæð sem áður gilti sé sanngjörn og verður sá sem vefengir það að sýna fram á annað. b. Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Óheimilt er að hækka fjárhæð leigu íbúðarhúsnæðis oftar en á 12 mánaða fresti og er þá að hámarki heimilt að hækka hana í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs á tímabilinu.

2. gr. Við 1. mgr. 52. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi leigusali vanrækt þá skyldu sína skv. 11. tölul. 6. gr. að upplýsa í leigusamningi um forgangsrétt leigjanda, framlengist tilkynningarfrestur samkvæmt ákvæði þessu fram að lokum uppsagnarfrests eða umsamins leigutíma.

3. gr. Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi: Fjárhæð leigu á íbúðarhúsnæði skal ekki taka breytingum til hækkunar til ársloka 2024, þrátt fyrir samningsskilmála um verðtryggingu eða aðrar verðbreytingar. Við framlengingu, endurnýjun og gerð nýrra leigusamninga um íbúðarhúsnæði sem taka gildi fyrir árslok 2024 er óheimilt að hækka fjárhæð húsaleigu sama íbúðarhúsnæðis frá því sem fyrir var umfram 2,5%.

4. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Í greinargerð með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Það er algjört grundvallaratriði í öllum siðmenntuðum samfélögum að fólk hafi þak yfir höfuðið. Réttur til viðunandi lífskjara, þar á meðal húsnæðis og batnandi lífsskilyrða, eru grundvallarmannréttindi sem njóta verndar félagsmálasáttmála Evrópu, alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Á Íslandi hefur svokölluð séreignarstefna lengst af verið ríkjandi þar sem flestir gera sitt besta til að reyna að eignast húsnæði til eigin búsetu, en leigumarkaðurinn hefur fyrir vikið verið lítill og vanþróaður. Árin 2005–2007 voru leigjendur innan við 18% íbúa landsins en þeim fjölgaði talsvert í kjölfar bankahrunsins árið 2008 enda urðu margir þá fyrir því að missa eigið húsnæði í hendur kröfuhafa. Sú þróun hefur að einhverju leyti gengið til baka en á síðustu árum hefur hlutfall leigjenda verið allt að 18%. Á húsnæðisþingi í október 2018 voru kynntar niðurstöður viðhorfskönnunar meðal leigjenda sem leiddu í ljós að einungis 8% þeirra vildu í raun vera á leigumarkaði og 86% þeirra vildu frekar búa í eigin húsnæði en fæstir sæju fram á að það gæti gerst á næstunni. Niðurstöður viðhorfskönnunar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar meðal leigjenda 2021 voru á svipaða leið, en þá sögðust 88% svarenda frekar vilja búa í eigin húsnæði og 12% frekar vilja búa í leiguhúsnæði. Jafnframt sögðu 80,1% svarenda að hátt leiguverð væri einn helsti ókosturinn við að leigja íbúðarhúsnæði.

Húsnæðiskostnaður telst íþyngjandi þegar heildarkostnaður húsnæðis nemur meira en 40% af ráðstöfunartekjum heimilis. Samkvæmt niðurstöðum lífskjararannsóknar Hagstofu Íslands búa 27% heimila í leiguhúsnæði við íþyngjandi húsnæðiskostnað eða þrefalt fleiri en heimili í eigin húsnæði og hefur það hlutfall nær tvöfaldast frá árinu 2005. Samkvæmt niðurstöðum könnunar sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir ÖBÍ réttindasamtök sem voru birtar í nóvember 2022 sögðust 12% öryrkja á leigumarkaði greiða meira en 75% útborgaðra ráðstöfunartekna sinna en 25% greiða á milli 51% og 75% í húsnæðiskostnað. Þá er fatlað fólk á leigumarkaði tvöfalt líklegra en fólk almennt til að hafa mjög eða frekar miklar áhyggjur af kostnaðinum við rekstur húsnæðis, eða 38% samanborið við 19%.“

Mig langar í rauninni í stað þess að fara víðar yfir þetta — ég get nú svo sem nefnt þróunina núna sem við höfum verið að fylgjast með. Bara frá því að þessar tölulegu upplýsingar, þessi gögn, eru lagðar fyrir hefur markaðurinn í rauninni gjörbreyst til hins verra. Það eru hundruð einstaklinga sem eru að lenda á götunni, við erum að fá mýmargar sögur af því. Sérstaklega þegar maður les bæði greinaskrif í blöðum og inni á leigjendasíðum og annað slíkt er maður að fá upplýsingar um hvers lags gífurlegur vandi það er sem þessir einstaklingar eru að horfast í augu við, einstaklingar og fjölskyldur með börn og allt niður í kornabörn, við erum að fá fregnir af því að einstaklingar með kornabörn hafi þurft að gera sér það að góðu að flytja út í bíl með börnin sín.

Við munum að í desember sl. greindu fjölmiðlar frá því að við endurnýjun leigusamnings öryrkja hafi leigufélag, við skulum bara segja Alma leigufélag, farið fram á 30% hækkun á fjárhæð leigu eða sem nemur 75.000 kr. ofan á 250.000 kr. leigufjárhæð. Hinn nýi leigusamningur sem þessi fullorðna kona, öryrki, átti að fá í andlitið, hljóðaði því upp á 325.000 kr. á mánuði. Við erum ekki að tala um í þessu tilviki að öryrki sé að greiða 40% af ráðstöfunartekjum eða 50%, 60%, 70%, það er verið að tala um að þessir einstaklingar þurfa að greiða yfir 100% af ráðstöfunartekjum sínum. Og hvernig er það hægt? Jú, frú forseti, 40% öryrkja reiða sig á nánustu aðstandendur, ættingja og vini. Það er það sjálfstæði og sú reisn sem þessi stjórnvöld eru að bjóða þessum þjóðfélagshópi. Fjármála- og efnahagsráðherra lýsti því yfir í óundirbúnum fyrirspurnatíma 8. desember 2022 að hann teldi óforsvaranlegt að ganga jafn langt gagnvart fólki og gert hefur verið í þessu tiltekna dæmi. Forsætisráðherra tók í sama streng í viðtali í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins 9. desember 2022 og sagði þetta vera óboðlegt og að taka þyrfti til skoðunar að setja takmörk á hækkanir húsaleigu.

Forseti. Ég er einmitt að mæla fyrir frumvarpi sem mun setja bremsu á það brjálæði sem ríkir á leigumarkaðnum á Íslandi í dag. Ég hlýt því að hafa væntingar um það að hæstv. ráðherrar, sem hafa í rauninni bæði sýnt það og sagt frá því að þeim finnist komið nóg, hljóti að taka utan um málið af mikilli gleði og háttprýði og samþykki það og keyri það helst í gegn þannig að það verði orðið að lögum áður en þessum þingvetri lýkur.

Ástandið á húsnæðismarkaði er þungt og það er til ævarandi skammar. Ég nefndi í störfum þingsins fyrr í dag að fullorðinn maður á níræðisaldri hefði verið borinn út úr húsnæðinu sínu í gær ásamt syni sínum sem býr hjá honum og er í hjólastól. Af hverju? Af hverju var hann borinn út af sýslumanni og í lögreglufylgd? Það var vegna þess að hann skuldaði einhverja gamla skuld — hann skuldaði reyndar ekki leigu núna og hafði ekki gert í langan tíma en hann var jú með aðstoð hjá Umboðsmanni skuldara sem tekur þá skuldirnar og semur um þær og gerir eitthvað við þær — einhverjar krónur sem ekki voru margar ef ég skil það rétt en nógu margar til þess að það þótti eðlilegt og sanngjarnt að ganga fram hjá Umboðsmanni skuldara í þessu tilviki og fleygja þessum mönnum út á götuna. Þegar þessi gamli maður spurði: Og hvert eigum við að fara? Hvað á ég að gera? Hvert eigum við að fara? Nú, fariði bara á hótel. Þið verðið að fara á hótel. Þá segi ég, innan gæsalappa: Fyrirgefið, frú forseti, hvaða hótel? Eru ekki öll herbergi hér uppseld? Ég vissi ekki betur. Og meira að segja það uppseld að núna er fram undan samkoma af stærstu gerð og búið að leigja nánast öll hótel í Reykjavík meðan á þessari ráðstefnu Evrópuráðsins stendur hér í Hörpu. Burt séð frá því gátu þeir farið á hótel og ef það virkaði ekki, sem það mun náttúrulega og er ekki að gera, fyrir utan að þeir myndu aldrei hafa efni á því, þá áttu þeir að fara bara og athuga með svona gistiskýli sem fela það í sér að venjulega er það ólánsfólk, útigangsmenn, fíklar og alkóhólistar sem koma þangað á kvöldin og eru reknir út á morgnana, alveg nema þegar það var hörkugaddur, þá var litið til með þeim í smátíma í kringum jólin, svona aðeins til þess að sýna gæsku til hátíðabrigða og fyllast allt í einu heilögum anda. En það dugði í rauninni skammt vegna þess að þetta voru einhverjir dagar og síðan var þeim náttúrlega fleygt út aftur yfir daginn þrátt fyrir að aftur hefði skollið á hörkugaddur og hörkufrost.

Það er í rauninni sárara en tárum taki að horfa upp á hvað neyðin er ofboðslega mikil. Eins og ég hef líka nefnt hér áður var maður sem auglýsti litla íbúð til leigu og gaf upp símanúmerið sitt og var búinn að fá 200 beiðnir um húsnæðið á innan við tveimur klukkutímum. Hann sagði bara í rauninni eftir allt þetta að honum liði svo illa að hann væri bara í algjöru áfalli, andlegu áfalli. Hann hefði jú vitað að það væri skortur, húsnæðisskortur á leigumarkaðnum, en aldrei óraði hann fyrir því að neyðin væri eins mikil og raun ber vitni þar sem fólk grét, þar sem fólk hótaði og þar sem fólk sagðist ekki lengur vilja vera til, það gæti ekki lifað við þetta lengur. Það er í rauninni alveg með ólíkindum að við skulum standa í þessum sporum.

Með frumvarpi þessu eru því lagðar til nokkrar breytingar á húsaleigulögum í því skyni að koma böndum á hækkanir á húsaleigu og styrkja réttarstöðu leigjenda, sem er nánar gerð grein fyrir í skýringum við einstakar greinar frumvarpsins. Þar sem húsnæðiskostnaður er stór þáttur í vísitölu neysluverðs má jafnframt búast við því að þær breytingar geti leitt til lægri verðbólgu en ella.

Ég veit ekki hvort ég ætti að fara í einstakar greinar frumvarpsins, það skýrir sig í rauninni nokkuð sjálft, en jú, um 1. gr., þar sem ég er að tala um a-lið, þar er t.d. lagt til að við 1. mgr. 37. gr. húsaleigulaga bætist nýr málsliður þess efnis að hafi íbúðarhúsnæði verið áður til leigu séu líkur fyrir því að sú leigufjárhæð sem áður gilti sé sanngjörn í skilningi meginreglu laganna og að sá sem vefengi það verði að sýna fram á annað. Ákvæðið sækir sér fyrirmynd í 1. mgr. 53. gr. laganna sem á við um endurnýjun leigusamnings við sama leigjanda og áður, en hér er lagt til að það sama gildi alltaf um íbúðarhúsnæði jafnvel þó að nýr leigjandi sé ekki sá sami og hinn fyrri. Með því er ætlað að stemma stigu við því að leigusali geti sætt færis að hækka fjárhæð leigu úr hófi fram þegar leigutíma lýkur og nýr leigjandi tekur við. Vegna skráningarskyldu leigusamninga sem var komið á með breytingalögum nr. 121/2022 má ætla að auðvelt verði að sannreyna fyrri leigufjárhæð, a.m.k. í þeim tilvikum sem sú skráningarskylda á við.

Með b-lið greinarinnar er lagt til að við 3. mgr. 37. gr. laganna bætist nýr málsliður þess efnis að óheimilt sé að hækka fjárhæð samfelldrar leigu íbúðarhúsnæðis oftar en á 12 mánaða fresti og þá að hámarki í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs á tímabilinu. Núna er það svona hipsum happs. Meginvenjan var að á þriggja mánaða fresti var verið að þeyta þessu upp með tilliti til vísitölu. Sumir leigusamningar hafa jafnvel verið með þetta á mánaðarfresti en þessi breytingartillaga við b-lið, 37. gr., er einmitt hugsuð til þess að stemma stigu við óeðlilegum hækkunum og stíga ákveðið skref í þá átt að koma böndum á leiguverð íbúðarhúsnæðis. Ákvæðið sækir sér fyrirmyndir til annarra Norðurlanda en sambærilegar reglur gilda í Danmörku og Noregi. Ákvæðum greinarinnar í heild er ætlað að koma nokkrum böndum á hækkanir leiguverðs íbúðarhúsnæðis. Þar sem húsnæðiskostnaður vegur þungt í vísitölu neysluverðs má ætla að umræddar breytingar geti leitt til þess að verðbólga verði framvegis lægri en ella.

Ég ætla að tala aðeins um 2. gr. líka. Leigjendur virðast almennt vera lítið upplýstir um forgangsrétt leigjanda til áframhaldandi leigu að umsömdum leigutíma loknum skv. 51. gr. húsaleigulaga og að skv. 53. gr. laganna skuli við endurnýjun samnings leggja til grundvallar að fyrri leigufjárhæð sé sanngjörn, sbr. meginreglu 37. gr. laganna, og verði sá sem vefengir það að sýna fram á annað. Þar sem sá réttur er háður því skilyrði skv. 52. gr. laganna að leigjandi tilkynni leigusala a.m.k. þremur mánuðum áður en leigusamningur rennur út ef hann vill nýta sér hann er hætt við að leigjendur geti farið á mis við það tækifæri. Er því lagt til að hafi leigusali vanrækt þá skyldu sína skv. 11. tölul. 6. gr. laganna að upplýsa í leigusamningi um forgangsrétt leigjanda þá framlengist tilkynningarfrestur leigjanda allt fram til loka leigutímans.

Verðbólgan hefur verið óvenjumikil eins og við þekkjum. Hún er nú að slefa í tveggja stafa tölu. Við erum að horfast í augu við um 10% verðbólgu þrátt fyrir að stýrivextir hafa verið hækkaðir hér 12 sinnum. Þá er náttúrlega algerlega morgunljóst að þetta tæki, þessi vaxtasveðja Seðlabankans sem er að höggva hér ítrekað í opin svöðusár samfélagsins, er ekki að virka. Alveg sama hversu mikið blóðmagn kemur úr þessum sárum er þessi sveðja ekki að virka en samt sem áður skilst manni að fyrir augum sé þrettánda hækkunin.

Um 3. gr. laganna segir svo: Verðbólga hefur verið þessi og verið þrálát með tilheyrandi áhrifum á fjárhæð leigu samkvæmt verðtryggðum húsaleigusamningum. Jafnframt hefur borið á hækkunum talsvert umfram verðlagsbreytingar við framlengingu eða endurnýjun samninga um leigu íbúðarhúsnæðis. Er því lagt til að við húsaleigulög bætist ákvæði til bráðabirgða þess efnis að fjárhæð leigu á íbúðarhúsnæði verði fryst til ársloka 2024 og enn fremur að á því tímabili verði óheimilt að hækka fjárhæð leigu við framlengingu, endurnýjun eða gerð nýrra leigusamninga um íbúðarhúsnæði umfram 2,5% á sama húsnæði. Það er í samræmi við opinbert verðbólgumarkmið en þar sem húsnæðiskostnaður er einn stærsti undirliðurinn í vísitölu neysluverðs er það til þess fallið að draga strax úr verðbólgu. Slíkt þak á hækkanir leiguverðs, sem kalla mætti „leigubremsu“, á sér hliðstæður í mörgum öðrum löndum, til að mynda Spáni, Bretlandi og Bandaríkjunum.

Þetta frumvarp hefur fengið jákvæðar viðtökur hjá t.d. formanni Leigjendasamtakanna og í umsögn Alþýðusambandsins við fjármálaáætlun kom fram ákall um nánast samhljóða aðgerðir og lagðar eru til í 1. og 2. gr. frumvarpsins. Ég segi bara ekkert annað en það að ef það sem við erum að heyra núna reynist satt, að það sé í rauninni ríkisvaldið, það sé í rauninni Vinnumálastofnun og sveitarfélögin sem eru að verða til þess að fólki er unnvörpum sagt upp húsnæði sínu, leiguhúsnæði sínu, til að framlengja það á mun hærra verði, þá er eitt alveg víst: Þetta frumvarp mun stöðva allt slíkt. Græðgin sem við erum að horfa upp á hér er orðin með slíkum ólíkindum að það er í rauninni algerlega óskiljanlegt að hver einasti alþingismaður, hver einasti ráðherra, hver einasti aðili sem hefur verið kjörinn fulltrúi hér á Alþingi Íslendinga skuli ekki taka saman höndum til að berjast gegn þessu óeðli sem ríkir hér á húsnæðismarkaði og í þessu tilviki á leigumarkaði. Ég get ekki skilið það vegna þess að þetta er augljóst. Þetta vita allir, líka hæstv. ríkisstjórn, sama ríkisstjórn og heldur áfram að skattleggja fátækt, heldur áfram að skattleggja einstaklingana, öryrkjana sem eru að greiða húsaleigu langt umfram getu. Þessari ríkisstjórn finnst bara algjörlega sjálfsagt og eðlilegt að nánustu aðstandendur, ættingjar og vinir hlaupi undir bagga og sjái um að greiða það sem upp á vantar. Það er skömm að svona stjórnvöldum.

Þetta frumvarp ætti að gefa smá byr í seglin. Það eru a.m.k. aðgerðir sem liggja að baki þessu frumvarpi, það er ákall um aðgerðir. Flokkur fólksins hefur aldrei nokkurn tímann efast um hvernig ætti að ráðast í aðgerðir til að keyra niður þessa verðbólgu, aldrei nokkurn tímann, en það hefur a.m.k. ekki verið í formi þess að níðast á öllu samfélaginu, hvort sem það eru fyrirtæki eða fjölskyldurnar í landinu, með eilífum stýrivaxtahækkunum. Ég hef að gefnu tilefni verið að skora á hæstv. ríkisstjórn að byrja t.d. á því að hætta að skattleggja fátækt. Einstaklingur með 306.000 kr. framfærslu frá almannatryggingum er með 306.000 kr. áður en hann er skattlagður og svo er bara komið og hann er skattlagður. Hugsið ykkur, fólk með 300.000 kr. er skattlagt. Það er í fátækt við 300.000 kr. Það getur illa borgað húsaleiguna og sumir alls ekki en samt er það skattlagt. Það er skattlagt úr fátækt í sárafátækt. Svo eru þessir einstaklingar sem stýra þessu landi hissa á því hvers lags gríðarlegur vöxtur er í sjálfsvígum, þunglyndi, vanlíðan og flótta undan eigin tilveru. Þessir einstaklingar hafa verið hnepptir í fjötra. Fátækt barna hefur vaxið um 44% á síðustu sex árum. Þetta er óafsakanlegt.

Þetta er vanhæf ríkisstjórn. Ég er búin að segja það lengi og ég segi það nú. Og ef einhvern tíma hefði átt að lýsa vantrausti á eitthvað þá er það á ríkisstjórnina í heild sinni. Þessari ríkisstjórn treysti ég ekki fyrir horn. Hún hefur skilað auðu í allri baráttu gegn verðbólgunni, algjörlega auðu. Það er sama hversu hátt er hrópað um hjálp úr Svörtuloftum til þess að reyna að glíma við þennan verðbólgudraug, þau hafa pakkað saman og eru ekki að gera neitt, ekki neitt, akkúrat ekki neitt. Þau koma með fjármálaáætlun sem eitthvað á að gera einhvern tímann á næsta ári, hækka skatta á fyrirtæki um 1%, sem gefur mun færri krónur í kassann heldur en að hækka bankaskattinn í það sem hann var þegar hann var ekki einu sinni hálft prósentustig. Það myndi gefa okkur 9 milljarða í kassann að hækka hann úr þessu eitthvað 0,167% í þetta 0,456%. 9 milljarða, takk. En fjárhirslurnar sem eru algerlega útbólgnar af peningum, milljarðamæringarnir sem haldið er áfram að moka undir, það skal ekki snert á þeim. En við skulum níðast á fólki á húsaleigumarkaðnum, við skulum níðast á fátæku fólki sem hefur ekki efni á því að halda heimili og greiða þak yfir höfuðið. Ég og Flokkur fólksins erum alla vega ekki í þessu liði enda vorum við einfaldlega fædd og urðum til til að berjast gegn óréttlæti og berjast gegn fátækt.

Ég vona bara að þetta frumvarp fái flýtimeðferð vegna þess að þetta frumvarp er raunverulega að gera gagn. Það er raunverulega að gera gagn inn í það efnahagsástand, það ófremdarástand sem ríkir í landinu í dag, bæði hvað lýtur að húsnæðismarkaði og í baráttunni gegn verðbólgu.



[17:15]
Forseti (Líneik Anna Sævarsdóttir):

[17:16]
Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Það er neyðarástand á leigumarkaði. Ríkisstjórnin hefur gert sitt besta til að loka augunum fyrir því auk þess að beita hreinum og klárum blekkingum til að fela ástandið en inn á samfélagsmiðla flæða frásagnir. Þar er hægt að sjá sannleikann, þann harða raunveruleika sem blasir við gríðarlega mörgum. Bara í dag kom eftirfarandi neyðarkall inn á umræðuhóp leigjenda:

Ég veit að það eru fleiri svona statusar búnir að koma og ég er í sömu stöðu og svo margir. Ég lendi á götunni 1. júlí með tvö börn. Ég er að leigja hjá Ölmu leigufélagi sem er að hækka hjá mér leiguna sem verður eftir hækkun alveg vitavonlaust að ég standi undir ein með tvö börn.

Fyrir nokkrum dögum birtist á sama vettvangi eftir eftirfarandi frásögn sem ég hef leyft mér að umorða:

Hvaða sturlun er eiginlega í gangi á leigumarkaðnum? Er að auglýsa stúdíóíbúð og þótt ég sé ekkert smábarn er ég grenjandi hérna. Ég fékk yfir 200 skilaboð fyrstu tvær klukkustundirnar og neyðin sem hefur komið fram hjá svo mörgum er að brjóta mig. Af hverju er ekkert verið að gera til að minnka neyðina? Þetta er sjúklegasta ástand sem ég hef upplifað. Fólk hefur reynt að hóta mér, það hefur grátið, reynt að vekja athygli mína á sér á öllum hugsanlegum vígstöðvum, auk þess sem margir eru búnir að yfirbjóða verulega til að freista þess að negla húsnæðið. Fólk er að reyna að fá stúdíóíbúð, sem er fyrir einn aðila, fyrir heilu fjölskyldurnar með lítil börn og fullt af fólki sem býr í bíl með smábörn hefur haft samband. Ég er bara bugaður eftir þetta.

Í gærmorgun, daginn eftir baráttudag verkalýðsins, lét Alma leigufélag sýslumanninn í Reykjavík ásamt lögreglu bera út áttræðan mann og son hans sem er bundinn við hjólastól. Alma er leigufélag sem hagnaðist um 12 milljarða á síðasta ári en tveggja mánaða skuld, sem Umboðsmaður skuldara hafði samt samið um, var þessu hrægammafélagi greinilega ofviða og það fann sig knúið til þessara aðgerða. Mikil er skömm þess. Alma, með nafn sem þýðir víst mild og nærandi, svo kaldhæðnislegt sem það er, er sjálfsagt orðin ónæm fyrir skömminni og ekkert fer fyrir mildinni sem felst í nafninu. Þegar sýslumaður var spurður að því hvert þeir feðgar, annar áttræður og hinn bundinn við hjólastól, ættu að fara benti sýslumaðurinn á gistiskýli Reykjavíkurborgar.

Ofangreindar frásagnir eru allar frá því í dag og í gær. Þær eru enn fleiri ef lengra aftur væri leitað.

Hér er líka full ástæða til að nefna stórgóða skýrslu sem Samtök leigjenda létu gera og birtu fyrir nokkrum dögum. Í henni kemur t.d. fram — og nú kemur nokkur upptalning — að frá 2011 hefur verðlag hækkað um 60% en húsaleiga um 134%. Húsaleigan hækkaði þannig 127% meira en verðlagið. Húsaleiga hefur hækkað um 61% meira en byggingarvísitalan frá 2011. Það er 36% raunhækkun á húsaleigu umfram byggingarvísitölu. Meðalhækkun í Evrópu frá 2011–2022 er 17%. 134% hækkun húsaleigu, látum það síast aðeins inn.

Samfylgni húsnæðisverðverðs og húsaleigu á Íslandi 2011–2022 var 61% en á meginlandinu var hún rúm 35%. Samfylgnin á Íslandi var 74% meiri. En það versnar samt enn: Samfylgni húsnæðisverðs og húsaleigu á Íslandi 2018–2020 var 193% en á meginlandinu var hún 25%. Samfylgnin á Íslandi var 650% meiri. Hlutfall húsaleigu af lágmarkslaunum er 69% sé miðað við 80–100 m² íbúð á höfuðborgarsvæðinu. Þetta hlutfall er 19% hærra en það var árið 2011. Ef húsaleiga hefði fylgt verðlagsþróun frá 2011 var hún 30% lægri en hún er. Húsaleiga á 80–100 m² íbúð á höfuðborgarsvæðinu væri þá 176.000 í stað þess að vera 250.000. Það munar um minna. Fátækt vegna húsnæðiskostnaðar er sex sinnum meiri hjá leigjendum en eigendum. 26% leigjenda söfnuðu skuldum árið 2022.

Já, land tækifæranna er byggt á fátæktarstefnu gagnvart leigjendum. Það er byggt á frelsi til að knýja fjölskyldur á leigumarkaði í fátækt og varna þeim undankomu af honum. Viðmiðunarverð fyrir húsaleigu er það eina sem rétt getur af ranglætið á leigumarkaði því að frelsi einstaklinga hlýtur að takmarkast við athafnir sem skaða aðra. Leigumarkaðurinn er eins og villta vestrið, ekki þannig að leigjendur og leigufélög séu kúrekar sem berjast hverjir við aðra. Nei, leigufélögin eru kúrekarnir, fullvopnaðir, leigjendur eru eins og varnarlausir nautgripirnir sem þeir reka á undan sér og slátra að vild. Þetta getur ekki gengið svona lengur.

Hér hef ég farið yfir nokkrar sláandi staðreyndir um leigumarkaðinn og þær einar og sér ættu að vera nóg til þess að gripið sé til aðgerða og þetta frumvarp um leigubremsu samþykkt. En neyð fólks hefur hingað til ekki dugað til þess að þessi ríkisstjórn grípi til aðgerða þannig að næst ætla ég að ræða áhrif leigumarkaðarins á verðbólguna sem ríkisstjórnin segist vilja berjast við. Hátt leiguverð fer beint inn í vísitöluna og viðheldur þannig verðbólgunni. Ekki er nóg með það heldur viðheldur það einnig háu húsnæðisverði þar sem fjárfestar sjá margir leigutekjur í hillingum. Þeir hafa efni á að kaupa íbúðir án þess að þurfa endilega að treysta á fjármögnun banka eða 35% þjóðhagsvarúðartakmarkanir Seðlabankans. Það er ekkert að stöðva þá. Auk þess, eins furðulegt og það er, getur fólk sótt um lán fyrir íbúð sem það ætlar að leigja út og fengið lán samþykkt í banka út frá áætluðum leigutekjum. Það er eitthvað sem aldrei ætti að líðast enda geta leigjendur ekki bent á að þeir ráði við greiðslu lána með því að vísa í skilvísar leigugreiðslur til margra ára. Þetta misræmi er svo sem ekki það sem er til umræðu hér þó að ég leyfi mér að vekja athygli á því. Punkturinn er sá að hátt leiguverð viðheldur hárri verðbólgu og það er hagur okkar allra að koma böndum á það.

Samkvæmt þeim tölum sem ég las upp áðan eru leigufélögin ekki á flæðiskeri stödd. Það er líka hreint ekkert sjálfsagt að leigjendur greiði fyrir hækkun á húsnæðisverði með hækkaðri húsaleigu því að leigusalarnir njóta góðs af hækkuninni en leigjendurnir ekki. Á undanförnum mánuðum hefur bæði fjármálaráðherra og seðlabankastjóra verið tíðrætt um hversu góð eiginfjárstaða heimilanna sé vegna hækkaðs fasteignamats. Þetta hafa þeir félagar ítrekað notað sem rök fyrir því að heimili með lán geti alveg staðið undir gríðarlegri hækkun húsnæðiskostnaðar því að þau séu hvort eð er að hagnast svo mikið. Samkvæmt sömu rökum ætti leiguverð að lækka með hækkandi fasteignamati því að það eru jú leigusalar sem munu stinga hagnaðinum í sinn vasa þegar þeim þóknast að selja.

Burt séð frá þessu hefur Flokkur fólksins margoft reynt að stemma stigu við því skelfilega ástandi sem blasir við á húsnæðismarkaði, ekki hvað síst á leigumarkaði. Þannig hef ég sjálf í þrígang lagt fram frumvarp um að verðtrygging á leigu og á lánum verði fryst í eitt ár. Ef það hefði gengið í gegn í fyrsta skipti hefði sú frysting átti að gilda allt síðastliðið ár sem hefði breytt gríðarlega miklu fyrir fjölmarga. Þegar ég lagði það fram í annað skipti hefði það átt að gilda frá miðju síðasta ári og fram á mitt þetta ár sem einnig hefði breytt ótrúlega miklu. Í síðasta skiptið var það til að freista þess að ná því í gegn fyrir árið í ár. Að mínu mati var það frumvarp ekki lausn heldur neyðarráðstöfun og það minnsta sem ríkisstjórnin gat gert. En hún var ekki til í það. Síðastliðið haust fór ég svo fram á að neyðarlög væru sett á húsnæðismarkað en ég held að ríkisstjórnin hafi talið þá tillögu jaðra við einhvers konar móðursýki því að ástandið væri hreint ekki svo slæmt. Staðreyndin er hins vegar sú að við erum núna farin að horfa upp á fólk á götunni. Þar eru leigjendur að lenda núna. Um það vitna dæmin sem ég las hér í upphafi sem og fleiri neyðarköll hundraða sem eru að missa leigusamninga sína, oft vegna þess að þau standa ekki undir hækkunum. Áður en of langt um líður kemur að þeim sem ekki ráða við að greiða af lánunum sínum og innan fárra ára þeim sem nú er verið að festa í gildru verðtryggðra lána. Staðan á bara eftir að versna.

Leigubremsan sem hér er mælt fyrir er það minnsta sem hægt er að gera. Ég vona innilega að hún fái góða meðferð í nefnd og verði samþykkt hér á Alþingi, einfaldlega af því að það er rétt. Það er ekki hægt að leyfa leigufélögum að ganga lengra gagnvart fólki. Nú þurfum við, fólkið í landinu, að rísa upp og segja: Hingað og ekki lengra.



[17:26]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Við erum hér að fjalla um húsaleigufrumvarp Flokks fólksins, alveg nauðsynlegt frumvarp inn í þá óráðsíu sem er í þjóðfélaginu, sérstaklega þá óráðsíu sem ríkisstjórnin hefur skapað. Aðalatriðið í húsaleigufrumvarpi Flokks fólksins er að leigufjárhæð megi ekki hækka oftar en á 12 mánaða fresti og þá að hámarki miðað við breytingu á vísitölu neysluverðs. Einnig að til ársloka 2024 hækki leigufjárhæð leigusamninga að hámarki 2,5% við endurnýjun eða framlengingu. Forgangsréttur leigjenda við leigusamning verði styrktur svo að þeir geti haldið sama húsnæði ef það verður áfram í leigu. Alveg eins verður óheimilt að hækka leigu þegar leigusamningur rennur út ef sama húsnæðið verður áfram í leigu.

Hvers vegna skyldi þetta vera nauðsynlegt? Jú, við erum í skelfilegri stöðu í dag. Svo fáránlega sem það hljómar þá er verið að henda fólki út úr leiguhúsnæði, heilu fjölskyldunum, til að leigja annarri fjölskyldu. Hugsum þetta aðeins: Fjölskylda er með húsaleigu og það er sett hækkun á húsaleiguna, jafnvel það mikil hækkun að það er vitað mál að viðkomandi ræður ekki við þá hækkun vegna þess að hækkunin er komin yfir útborguð laun viðkomandi eða tekjur. Hvað getur þá viðkomandi gert? Jú, hann stendur ekki undir leigunni og verður þar af leiðandi að fara úr húsnæðinu og inn á frumskógarmarkaðinn þar sem er barist eiginlega dauðabaráttu um hverja einustu íbúð sem er til leigu.

Þeir sem standa á bak við þetta líka eru sveitarfélög og Vinnumálastofnun. Þörfin er orðin svo gífurleg að það virðist ekki skipta neinu máli hvaða meðulum er beitt. Ef við höldum að þetta eigi eftir að skána þá getum við gleymt því. Það er verið að þjarma að húsnæðismarkaðnum í heild sinni. Það er verið að reyna með öllum ráðum að frysta húsnæðismarkaðinn en ætti einmitt að vera alveg þveröfugt. Það ætti að stórauka byggingar. Ríkisstjórnin ætti að vera löngu búin að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni og setja hann alveg á sérstað. Það ætti að vera líka búið að tryggja það að það sé þak á vöxtum. Við gætum haft þakið einfaldlega, og það myndu sennilega flestir sætta sig við það, 3–3,5%. Þá gætum við einbeitt okkur að því að uppfylla þörf á húsnæðismarkaði fyrir íbúðir.

Það eru gífurlegir biðlistar eftir félagslegu húsnæði og við vorum að heyra hér að það var leitað aðstoðar sýslumanns og lögreglu til að bera út hreyfihamlaðan mann í hjólastól. Hvert erum við komin? Ég spyr bara: Hvert erum við að fara? Það er skelfilegt að við skulum leyfa okkur að vera á þessum stað. Ekki getur þetta fólk leitað til félagsþjónustunnar og óskað eftir neyðaraðstoð því að þar er langur biðlisti. Hvert á þetta fólk að fara ef það á í engin hús að venda? Á götuna? Í tjald? Í hjólhýsi í Laugardalnum? Nei, heyrðu, hjólhýsi Laugardalnum, það er verið að henda fólki þar út vegna þess að sennilega þarf að rýma fyrir útlendingum, ferðamönnum. Ég verð bara að segja alveg eins og er að það er okkur til háborinnar skammar að við skulum vera komin á þann stað að fólk þurfi að gista í bifreiðum eða í tjaldi eða bara hreinlega á götunni og að fólki sé bent á að fara í gistiskýli. Við erum rík þjóð og við eigum alls ekki að geta verið á þessum stað.

Þess ber að geta, eins og kom fram hjá hv. þm. Ásthildi Lóu Þórsdóttur, að Alma leigufélag skilaði 12 milljarða kr. hagnaði, ef við tökum bara það dæmi — 12 milljarða kr. hagnaði. Hvað greiðir þetta leigufélag í skatt af þessu? 22% skatt. Á sama tíma myndi fólkið sem er verst statt í þessu kerfi, fólk sem er í almannatryggingakerfinu, á hinum endanum, svo sannarlega sætta sig við að borga 22% í skatt og skerðingar en það er að borga 80% í skatt og skerðingar. Skyldi þessu leigufélagi sem fékk 12 milljarða í hagnað hugnast að borga 80% af hagnaðinum í skatt og skerðingar? Við getum búið til einhverjar skerðingar fyrir þetta félag. Myndi það sætta sig við að fá að halda eftir einhverjum 2,5 milljörðum og það rynnu til ríkissjóðs 9,5 milljarðar? Myndi það ekki fagna því? Þá væri nú hægt að byggja eitthvað fyrir fátækasta fólkið fyrir mismuninn. Myndi ríkisstjórnin bjóða það? Nei, þau myndu segja að ég væri galinn. Það er auðvitað ekki hægt að koma svona fram við forríkt lið sem græðir á tá og fingri. Það má bara koma svona fram við þá sem eru að hokra og reyna að lifa af í almannatryggingakerfinu. Þar eru breiðu bökin, það er fólkið sem á að borga og það er fólkið sem er fyrst og fremst verið að henda á götuna. En þetta er fólkið sem getur ekki staðið undir þessu, einstæðar mæður, einstæðir feður, það má örugglega þakka fyrir að finna á leigumarkaði einhverja íbúð fyrir 300.000 kr. á mánuði. Ef sæmileg svoleiðis íbúð er leigð út eru 200–300 manns að rífast um hana eins og hefur komið fram. Ísland í dag er uppselt. Það eru ekki til fleiri íbúðir og við erum ekki búin að sjá toppinn á ísjakanum vegna þess að nú er líka að koma ferðamannasumar og fullt af ferðamönnum að koma þannig að það á eftir að hrúgast inn. Því miður er möguleiki á að fólk fari að missa íbúðirnar sínar.

En hvað er ríkisstjórnin gera? Ekkert. Þau sjá ekki, heyra ekki, skilja ekki og tala ekki. Á sama tíma höfum við líka séð hvernig leigumarkaðurinn er og hvað er verið að leigja. Það er verið er að leigja kolageymslur, iðnaðarhúsnæði, algerlega óíbúðarhæfar íbúðir. Það myndi verða rekið upp ramakvein ef okkur dytti í hug að hafa húsdýr í því húsnæði, það væri talið dýraníð, en það er allt í lagi að leigja fólki þetta. Og fólki með börn? Ekki vandamál hjá þessari ríkisstjórn eða þeim eftirlitsaðilum sem þar eru.

Við verðum og eigum að sjá til þess að þeir verst settu hafi húsnæði. Númer eitt, tvö og þrjú á Íslandi, við þurfum húsnæði. Það gengur ekki upp á sama tíma og við erum endalaust að hækka leigu hjá fólki. Fólk sem fær útborgað 300.000 kr., svo heppið fólk að fá 300.000 kr. útborgað í almannatryggingakerfinu, það getur ekki leigt íbúð á 305.000 kr. Jú, það gæti fengið leigubætur en eins og kom fram þá skerðir kerfið það allt. Það eru 80% skerðingar í almannatryggingakerfinu og þá erum við ekki einu sinni komin inn í félagslega leigukerfið. Sérstaka leiguuppbótin, hún skerðist grimmilega. Það er búið að búa til gildrur út um allt til þess eins að láta þá sem verst hafa það og geta ekki einu sinni varið sig og vita ekki einu sinni af því lenda í þessum gildrum.

Ríkisstjórnin kemur aftur og aftur, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, og segir: Aldrei verið sett meira inn í þetta kerfi, þau hafa aldrei haft það betra. Ég held að þau ættu að horfa í spegil og horfa á sjálf sig. Þau eru ekki að tala við fólkið þarna úti vegna þess að fólkið þarna úti veit hvað það hefur og veit að það þarf breytinga við. En því miður, meðan þessi ríkisstjórn er við völd sjáum við ekki fram á þessar breytingar. Við verðum að sjá til þess að fólk þurfi ekki að fara á götuna með börn, að fólk með börn þurfi ekki að vera í bifreiðum á tjaldsvæði. Fólk er í örvæntingu nú þegar og lausnin liggur í því að samþykkja þetta frumvarp og drífa sig í því og sjá til þess að í eitt skipti fyrir öll hysji ríkisstjórnin upp um sig buxurnar, taki hendurnar frá augunum og sjái ástandið, sjái það eins og er. Að því gefna tilefni er kominn tími til þess að ríkisstjórnin hætti að skatta fátækt.



[17:38]
Sigurjón Þórðarson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða um efni frumvarpsins, það hefur hv. þm. Inga Sæland gert rækilega. En ég mun fjalla um aðra þætti sem snerta kannski þennan pólitíska vinkil á þessu máli og það er hvers vegna í ósköpunum enginn nema Flokkur fólksins bregst við neyðarkalli leigjenda. Það hefur bara verið æpandi neyðarkall á stjórnvöld að koma til móts við leigjendur í þessu máli og koma með einhverjar aðgerðir í þá veru sem við erum að kynna hér.

Þetta er bara dæmi um algera firringu. Það er firring að málið skuli ekki vera á dagskrá ríkisstjórnar Íslands. Hvers vegna er það ekki? Ég held að það sé rétt að þjóðin spyrji þeirrar spurningar hvers vegna í ósköpunum þetta mál sé ekki ofarlega á dagskrá ríkisstjórnar Íslands. Staðreyndin er sú að 90% þeirra sem eru á þessum markaði — við tölum um þetta eins og einhverja markaðsvöru en það má ekki gleyma því að við erum að tala um heimili og athvarf fólks, fjölskyldna, barnafjölskyldna, og að tala um þetta eins og hvern annan markað með olíu eða stál eða eitthvað svoleiðis, þetta eru bara aðrir hlutir. Þess vegna þarf að horfa á þessa hluti með öðrum hætti og taka utan um þá í því augnamiði að við séum ekki hér í maí árið 2023 að bera út gamalt og fatlað fólk vegna þess að leigufélag sem hefur 12 milljarða kr. í gróða vill fá enn meira. Það þarf að setja einhverjar skorður við þessari gróðafíkn.

Ég sakna þess að sjá ekki þingmenn frá stjórnarflokkunum hérna að ræða þessa hluti, hvort sem það er í þessari umræðu eða 2. umr. Nei, þessi mál fást ekki rædd. Það er eins og það sé eitthvert tabú á því hjá þingmönnum stjórnarmeirihlutans að ræða hér um leigjendur. Er þetta eitthvert óhreint fólk? Er þetta óhreina fólkið, hæstv. forsætisráðherra, sem má ekki tala um? Eiga þessi svokölluðu leigufélög að hafa bara veiðileyfi á þetta fólk? Við í Flokki fólksins segjum bara nei við því. Þess vegna setjum við þetta frumvarp fram og það er mjög málefnalegt. Ég vil bara ítreka það sem kom fram hér í umræðunni, að ASÍ hefur tekið efnislega undir þau sjónarmið sem hafa komið fram og Samtök leigjenda á Íslandi hafa kallað eftir þessum aðgerðum.

Ég spurði hér um forystumenn ríkisstjórnarinnar og það er rétt að minna á það hér að flokkurinn á miðjunni, hann er með þennan málaflokk. Hann vildi fá bæði skipulagsmálin og húsnæðismálin til að gera einhverjar samtvinnaðar áætlanir. Og hverju hafa þær skilað? Þær hafa skilað þessu vandræðaástandi og bara nánast neyðarástandi sem við erum stödd í hér í dag á húsnæðismarkaðnum. Óhreinu börnin sem fást ekki rædd í ríkisstjórninni, það þarf að einbeita sér að því að leysa úr málum þeirra. En hæstv. innviðaráðherra, formaður Framsóknarflokksins, hann virðist ekki hafa neinar áhyggjur af þessu. Einu tillögurnar sem hafa komið fram í þinginu um húsnæðismál snúa að því að afnema eða gera undanþáguheimildir fyrir húsnæði fyrir hælisleitendur, að búa þannig um hnúta að það sé hægt að líta fram hjá reglum um brunavarnir og hollustuhætti sem er í sjálfu sér með ólíkindum. Ef heldur svo fram sem horfir er alveg ljóst að þessi leigufélög muni færa sig enn frekar upp á skaftið og staða leigjenda mun enn versna og það endar bara á einn veg; að fólk mun fara og mótmæla þessu. Þetta er ekki líðandi. Þó að það sé ágætt að þessir myndugu ráðherrar séu uppteknir virðist vera megnið af sínum vinnutíma við að leysa heimsmálin í Úkraínu og jafnvel í Kína, eða hvar þeir eru að leysa úr málum, þá held ég að það sé kominn tími á að skoða málefni þessa hóps leigjenda sem mætti ætla að væri þetta óhreina fólk ríkisstjórnarinnar.

En það er rétt skoða: Er þetta ástand eitthvað sem Framsóknarflokkurinn lofaði þegar hann var að boða það að allir ættu að vera á miðjunni? Var hann ekki að boða eitthvað allt annað? Lausnir? Nei, þetta er alla vega ekki eitthvert ástand sem hann kynnti en þetta eru afleiðingarnar af stjórnarathöfnum og stjórnarathafnaleysi flokksins. Hann boðaði í rauninni að samtvinna húsnæðismálin og skipulagsmálin og koma með lausnir. Það er bara allt annað. Hann er ekkert í einhverri miðju í íslenskri pólitík, Framsóknarflokkurinn er kannski miklu frekar, eins og hann horfir alla vega við okkur í Flokki fólksins, bara í miðju gróðapunganna. Hann virðist bara vera þar og hugsa fyrst og fremst um þeirra hag en skeytir ekkert um hag almennings. Það er sorglegt að horfa upp á það að flokkur, ég vil segja vinnandi fólks til sjávar og sveita skuli ganga svona fram. Manni dettur bara í hug hvað Jónas frá Hriflu hefði sagt um stjórnarathafnir núverandi formanns Framsóknarflokksins. Það væri ekki fallegt. Ég bara hvet ágæta þingmenn Framsóknarflokksins að skoða þessa stefnu sem er rekin hér af formanni flokksins og hvort hún samræmist því sem kjósendum var lofað og er að finna í stefnumálum flokksins. Fyrir mér er það augljóst: Svo er bara alls ekki.

Svo er nú ágætt líka að líta yfir stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins. Þeir boða hér séreignastefnu og gott ef það kemur ekki fram í stefnuskrá flokksins að þeir ætli að stuðla að hagkvæmum úrræðum á leigumarkaði. Ég get ekki séð að það sé nokkuð sem bendir til þess að það muni bóla á því hjá núverandi formanni. Ég held að séreignarstefnan hafi nú eitthvað snúist þar í höndunum á honum og snúist kannski fyrst og fremst um séreignarstefnu flokkseiganda. Ég held líka að þessi séreignarstefna flokkseigendaflokksins, þar sem er í rauninni verið að koma íbúðum meira og minna inn í einhvern gróðabaksfélög, geti bara verið hættuleg fyrir flokkinn þótt ég ætli ekkert að vera að gefa honum góð ráð í tíma og ótíma. Það er augljóst að með því að skapa hér þannig ástand að ungt fólk geti ekki eignast húsnæði eða eigi vart fyrir leigunni eða sé í höndunum á einhverjum grimmum leigufélögum þá er það ekki einhver segull fyrir ungt fólk að ganga til liðs við þennan flokk.

Auðvitað vonar maður að þetta breytist og það verði einhver umræða þannig að þessari firringu innan stjórnarflokkanna linni. Þetta er stór hópur sem þetta mál snertir. Það kom fram hjá hv. þm. Ingu Sæland að nú væri fólkið sem væri inni á þessum leigumarkaði að einhverju leyti að hrekjast af honum og inn á ættingja og vini. Og ég bara spyr: Hvers konar vini eiga þá þingmenn í stjórnarflokkunum ef enginn þeirra er í þessum hópi? Ég á bágt með að trúa öðru en þetta ástand sem er núna að skapast á leigumarkaði snerti bara með beinum hætti almenna þingmenn í stjórnarflokkunum. Það hlýtur að gera það.

Ég tel að ríkisstjórnin verði að snúa við blaðinu í þessu máli og líta ekki á þennan hóp eins og eitthvert óhreint fólk og skoða líka aðra þætti sem eru þessum húsnæðismarkaði óhagfelldir, svo sem hækkanir á vöxtum sem eru ekki beint til þess að hvetja til framkvæmda, heldur miklu frekar hitt að letja framkvæmdir. Það verður til þess að það verður þá miklu frekar minna framboð á húsnæði heldur en ef vextirnir væru með einhverjum siðlegri hætti í landinu.

Svona í lokin þá tel ég rétt að minna ríkisstjórnina á að líta einnig til þeirra sem minna mega sín í þessu samfélagi og hætta að skattleggja fátækt.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til velfn.