153. löggjafarþing — 103. fundur
 8. maí 2023.
hvalveiðar.

[15:36]
Andrés Ingi Jónsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Það er merkilegt að þrátt fyrir þessa eðlislægu forvitni mannskepnunnar, þrátt fyrir alla þá þekkingarleit sem við höfum staðið fyrir, skuli enn margt vera á huldu, og eiginlega flest á huldu, varðandi þau 70% jarðarinnar sem hafið þekur. Oft er það þannig að við vitum minna um lífríki eða vistfræði hafsins en við vitum um yfirborð tunglsins. Staðan er því miður ekkert mikið skárri hér á Íslandi. Þrátt fyrir að við höfum lengst af stólað á sjósókn til viðurværis eru grunnrannsóknir á lífríki hafsins allt of litlar, og hafa alltaf verið. Þekkingargrunnurinn sem ákvarðanir eru teknar út frá er ófullnægjandi í ýmsa staði. Þetta hefur t.d. birst í því að hvalir hafa verið hafðir fyrir rangri sök þegar réttlæta átti veiðar á þeim. Þeir voru sakaðir um afrán, að þeir væru að éta þorskinn sem mannfólkið ætti. En raunin er sú, og vísindin hafa leitt það í ljós, að hvalir stunda einhverja mestu garðyrkju jarðarkúlunnar með því að færa næringarefni á milli laga í sjónum og viðhalda þannig ótal vistkerfum. Það hefur meira að segja verið reiknað út að þá þjónustu sem hvert stórhveli veitir við kolefnisföngun mætti meta upp á 3 milljónir bandaríkjadala. Nú er fólk farið að tala um að það stappi jafnvel nærri vistmorði að halda hvalveiðum áfram

Í kjölfar uppljóstrana náttúruverndarsamtaka um ólíðandi veiðiaðferðir íslenskra hvalveiðimanna uppfærði ráðherra reglugerð og herti eftirlit stjórnvalda með veiðunum og niðurstaðan er orðin skýr: Af þeim 148 hvölum sem drepnir voru síðasta sumar var fjórðungur drepinn með fleiri en einum skutli. (Forseti hringir.) Fjórðungur hvalanna þurfti að þola pyndingar í dauðastríðinu. Með hliðsjón af varúðarreglunni er bara hægt að draga einn lærdóm (Forseti hringir.) af þessari niðurstöðu. Þess vegna vil ég spyrja ráðherra: Ætlar ráðherra nokkuð að leyfa hvalveiðar í sumar?



[15:38]
matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og fyrir að nálgast hana með þessum hætti, þ.e. þá staðreynd sem fyrir liggur, sem er að þekking okkar er engan veginn fullnægjandi er varðar lífríki og vistkerfi hafsins. Við höfum lagt áherslu á, þessi ríkisstjórn og ég í embætti matvælaráðherra, að auka fjármuni til hafrannsókna, ekki bara til að kanna betur vistkerfisgrunninn heldur líka til að vera betur á vaktinni varðandi loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á lífríki sjávar, sem væri mjög mikilvægt fyrir okkur að hafa í huga.

Hv. þingmaður nefnir hér reglugerð sem ég setti í fyrra til að MAST gæti stundað reglubundið eftirlit með velferð dýra við veiðar á hvölum og það var gríðarlega mikilvægt skref sem var stigið með því, enda lít ég svo á að það sé eitt af mínum mikilvægustu hlutverkum í embætti að undirbyggja allar ákvarðanir með bestu mögulegu vísindalegri þekkingu. Þar með talið er það að ég hef óskað eftir skýrslu Eddu Elísabetar Magnúsdóttur um áhrif hvalveiða á vistkerfi og sú vinna er í gangi, þannig að ég vil fá sem breiðastar upplýsingar um hvað liggur þarna til grundvallar og hvernig staðan er.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um niðurstöður skýrslunnar og það er þannig að niðurstaða Matvælastofnunar er sláandi, þ.e. að veiðarnar séu ekki í samræmi við markmið laga um velferð dýra. Framkvæmd laganna er í höndum Matvælastofnunar og stofnunin hefur í samræmi við lög um velferð dýra leitað álits fagráðs um velferð dýra; hvort veiðarnar geti yfir höfuð uppfyllt markmið laganna um velferð dýra. Leyfið sem þessi framkvæmdaraðilar hafa gildir til ársins 2023, þ.e. til næstu áramóta. Það er vandkvæðum háð að afturkalla leyfið sem nú er í gildi, (Forseti hringir.) en það vakna sannarlega ýmsar spurningar um það hvort þær aðferðir, sem beitt er við þessar veiðar og samræmast tæpast lögum um dýravelferð, (Forseti hringir.) geri það ekki að verkum að við stöndum frammi fyrir því að endurskoða það hvort þessi atvinnugrein tilheyri ekki fortíð frekar en framtíð.



[15:41]
Andrés Ingi Jónsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég túlka það að ráðherrann vilji safna sem breiðustum upplýsingum og að það eigi að leita til fagráðs varðandi framhaldið sem svo að allar hugmyndir um endurnýjun, um framlengingu til annarra fimm ára, séu algerlega upp í loft þannig að Hvalur hf. geti reiknað með að ekki verði gefin út leyfi fimm árin eftir næstu áramót. Hæstv. ráðherra sagði það vandkvæðum háð að afturkalla leyfi yfirstandandi árs. En vegna þess að við sjáum hvalveiðibátana nú bara í slipp þessa dagana, hér rétt handan við holtið, þá verð ég að endurtaka spurninguna. Hún er skýr. Hún snýst ekkert um vandkvæði í framtíðinni. Hún snýst ekkert um breiðan grunn. Hún snýst um það að fjórðungur hvala sem voru veiddir á síðasta ári voru pyntaðir. Varúðarreglan segir okkur að hér þurfi að taka í handbremsuna. (Forseti hringir.) Mun ráðherra sjá til þess að hvalveiðar fari ekki fram á þessu ári?



[15:42]
matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Eins og kom fram í fyrra svari mínu þá er það svo að ákvarðanir mínar þurfa auðvitað að byggja á lagagrunni og sá grundvöllur er ekki fyrir hendi að því er þekkingin í ráðuneytinu leggur til grundvallar og upplýsir mig um. Hins vegar vil ég segja það að þessar veiðar hafa verið stundaðar um langan tíma en samfélagið okkar hefur breyst. Gildin um það hvað okkur finnst í lagi og hvað okkur finnst ekki í lagi hafa sem betur fer líka breyst og það er svo sannarlega kominn tími til þess að við ræðum það á grundvelli staðreynda hvort okkur finnist ásættanlegt að stunda atvinnugrein af þessu tagi miðað við þau gildi sem við viljum vera þekkt fyrir á alþjóðavettvangi. Þau gögn sem við höfum nú undir höndum eiga að hjálpa okkur við það og við þurfum að hafa þrek til að ræða það — við getum gert það núna vegna þeirrar reglugerðar sem ég setti í fyrrasumar, en hafði ekki verið sett áður, (Forseti hringir.) — til þess að tryggja að almenningur, hagsmunaaðilar og samfélagið sjái hvað hér er á ferðinni.