153. löggjafarþing — 104. fundur
 9. maí 2023.
breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld, 2. umræða.
stjfrv., 432. mál (kaupréttur, mútubrot o.fl.). — Þskj. 502, nál. m. brtt. 1697.

[20:51]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Bjarni Garðarsson) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skatta og gjöld (kaupréttir, mútubrot o.fl.).

Ég ætla að reifa hér helstu atriði frumvarpsins. Með frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum, m.a. á sviði skatta og gjalda, sem eiga sér ólíkan bakgrunn.

Með lögum um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (nýsköpun, fjöldatakmörk vistvænna ökutækja o.fl.), nr. 128/2022, voru nokkur efnisákvæði frumvarpsins gerð að lögum. Um er að ræða ákvæði sem eru samhljóða ákvæðum 16., 17., 18., 21., 22., 23. og 24. gr. frumvarpsins. Nauðsynlegt þótti að ákvæðin tækju gildi 1. janúar 2023 og lagði því meiri hluti nefndarinnar fram sérstakt frumvarp þar sem kveðið var á um þau efnisatriði. Í ljósi þess að efnislega samhljóða breytingar hafa þegar orðið að lögum leggur meiri hlutinn til að framangreind ákvæði falli brott.

Þau atriði sem eftir standa eru m.a. ákvæði er varða breytingar á lögum um tekjuskatt, fyrst og fremst ákvæði sem varða skattalega meðferð tekna sem verða til vegna nýtingar kauprétta í sprotafyrirtækjum, frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri og lengingu á heimild til endurákvörðunar skatts úr sex árum í tíu ár vegna mútubrota.

Nefndin fjallaði um málið, fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir. Greint er frá því í nefndaráliti sem liggur frammi.

Í viðbótarumsögn Samtaka iðnaðarins kemur fram að óvissa ríki um hvort sambærileg heimild til frestunar á skattlagningu og gildir samkvæmt 9. gr. laga um tekjuskatt gildi þegar hlutabréf eru afhent starfsmanni með öðrum hætti en veitingu kaupréttar. Leggja samtökin til að tekinn verði af vafi um það og reglan látin gilda þegar fyrirtæki afhenda starfsmönnum sínum hlutabréf án endurgjalds að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Með vísan til þess sem fram kemur í nefndaráliti telur meiri hlutinn ekki forsendur til þess að leggja til slíka breytingu. Hins vegar kunni að vera tilefni til þess að skoða hana nánar með tilliti til þess að hvort sem um er að ræða kauprétt samkvæmt 9. gr. eða afhendingu hlutabréfa til starfsmanna með öðrum hætti, er um að ræða þóknun sem er í beinum tengslum við vinnuframlag viðkomandi og starfsmaður tekur þátt í þeirri áhættu sem fyrirtæki hefur af rekstrinum.

Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að við lög um tekjuskatt, nr. 90/2003, bætist ákvæði sem kveði á um að tekjur starfsmanna, stjórnarmanna eða sérhæfðra ráðgjafa samkvæmt 9. gr. vegna nýtingar kaupréttar í sprotafyrirtækjum, sbr. 9. málslið 2. mgr. 18. gr., skuli skattlagðar sem fjármagnstekjur samkvæmt C-lið 7. gr. að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Markmið ákvæðisins er að styðja við samkeppnishæfi nýsköpunarfyrirtækja um starfsfólk og ráðgjafa með því að bjóða hlutdeild í framtíðarávinningi á grundvelli skattalegra ívilnana.

Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að tímabært væri að lögfesta skattalega ívilnun vegna nýtingar kauprétta í sprotafyrirtækjum, m.a. þar sem þeim gæfist aukið svigrúm til þess að bæta kjör starfsfólks án aukins rekstrarkostnaðar. Þó komu fram athugasemdir um að þau skilyrði sem sett væru fyrir hinni skattalegu ívilnun væru of þröng. Um athugasemdir við einstök skilyrði vísast til umsagna og minnisblaðs ráðuneytisins þar sem fram kemur afstaða til þeirra. Meiri hlutinn áréttar þó að full ástæða er til þess að skilyrði fyrir beitingu reglna sem hafa það að markmiði að stuðla að auknu samkeppnishæfi sprotafyrirtækja hér á landi sæti reglulegri endurskoðun með tilliti til þróunar og þess sem er að gerast í nágrannalöndum og í þeim löndum sem innlend nýsköpunarfyrirtæki eru í samkeppni við um starfsfólk.

Um aðrar athugasemdir sem fram komu í umsögnum vísar meiri hlutinn til minnisblaðs ráðuneytisins þar sem fram kemur afstaða þess til umsagna.

Nefndin leggur til breytingar. Í minnisblaði ráðuneytisins er lagt til að 2. gr. frumvarpsins verði felld brott til einföldunar á skattlagningu og að samsvarandi breyting verði lögð til á 4. mgr. 10. gr. a (sbr. 3. gr. frumvarpsins). 2. gr. snýr að því að miða skattlagningu samkvæmt 10. gr. laga um tekjuskatt við eigendaskipti á bréfunum, í stað þess að miða við sölu. Sambærileg breyting var gerð á 9. gr. laga um tekjuskatt með lögum nr. 69/2021. Rétt þótti að miða tímamark innheimtu tekna samkvæmt 9. gr. við eigendaskipti, í stað sölu, svo það taki til þeirra tilfella þegar bréf erfast á milli manna. Í ljósi þess að í 10. gr. og 10. gr. a er kveðið á um fjármagnstekjur og tímamarkið snýr að því hvenær þær skuli innheimta þykir eðlilegra að miða við sölu. Að höfðu samráði við ráðuneytið leggur meiri hlutinn því til að 2. gr. frumvarpsins falli brott. Hið sama gildir um 5. gr. og er því lagt til að hún falli einnig brott.

Að höfðu samráði við ráðuneytið leggur meiri hlutinn til breytingu á 3. gr. frumvarpsins sem, eins og að framan greinir, hefur að geyma sérreglu sem varðar skattlagningu tekna starfsmanna, stjórnarmanna eða sérhæfðra ráðgjafa vegna nýtingar kaupréttar í sprotafyrirtækjum. Í fyrsta lagi er lagt til að vísun til sérhæfðra ráðgjafa verði felld brott úr 1. málslið 1. mgr. ákvæðisins. Þess í stað bætist við ný málsgrein þar sem kveðið verði á um að ákvæðið taki til tekna af kaupréttum sem einstaklingum eru veittir fyrir þjónustu þeirra við sprotafyrirtæki. Skilyrði fyrir slíkri skattalegri meðferð er að heildarvirði veittrar þjónustu sé ekki umfram 2 millj. kr. á 12 mánaða tímabili og forsendur verðs komi skýrt fram í samningi. Í minnisblaði ráðuneytisins kemur fram að óskýrleika hafi gætt um inntak almennrar tilvísunar til „sérhæfðra ráðgjafa“ enda séu þeir ekki í sömu stöðu og starfsmenn. Til einföldunar á framkvæmd væri því lagt til að vísað verði til „þjónustuveitanda“. Framangreind orðalagsbreyting hefur í för með sér að ákvæðið taki til fleiri en þeirra sem teljast veita sérhæfða ráðgjöf. Eðli málsins samkvæmt er þó skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins að viðkomandi veiti sannanlega þjónustu sem greitt hefur verið fyrir með öðrum hætti en eingöngu veitingu kaupréttar. Meiri hlutinn gerir fyrrgreinda breytingu að sinni og áréttar að ákvæðið tekur eingöngu til sprotafyrirtækja sem eru innan þeirra stærðarmarka sem skilgreind eru í 9. málslið 2. mgr. 18. gr. Þá er einnig tilgreint að hin nýja málsgrein eigi aðeins við ef heildarvirði veittrar þjónustu er undir tilteknum mörkum. Er þar átt við heildarþjónustu viðkomandi einstaklings, hvort sem það er þjónusta við sprotafyrirtæki eða aðra. Bendir ráðuneytið á að hafa þurfi í huga að hvers konar þjónusta sem veitt er í skiptum fyrir önnur verðmæti er almennt skattskyld og getur regluleg þjónusta í töluverðu umfangi enn fremur leitt til þess að einstaklingurinn teljist stunda atvinnurekstur. Sé farið umfram þau fjárhæðarmörk gildi almennar reglur.

Í öðru lagi er lögð til breyting á 4. mgr., til samræmis við tillögu meiri hlutans um brottfall 2. gr. frumvarpsins. Nánar tiltekið er lagt til að tekjur samkvæmt ákvæðinu komi til skattlagningar samkvæmt 18. gr. laga um tekjuskatt við sölu á mótteknum hlutum, í stað þess að kveðið verði á um skattlagningu við eigendaskipti almennt. Með vísun til 18. gr. er tekinn af allur vafi um að fara skuli með hagnaðinn sem söluhagnað hlutabréfa með sama hætti og gert hefur verið við túlkun 10. gr. laganna í framkvæmd.

Í þriðja lagi er lagt til að ný málsgrein bætist við þar sem komi fram að ákvæðið taki ekki til samninga þar sem sprotafyrirtækið, eða tengdur aðili, er skuldbundið að gera upp samning með útborgun eða kaupa innleyst bréf, nema ljóst sé að um eðlilega og venjubundna aðgerð sé að ræða við þær aðstæður. Breytingunni er ætlað að tryggja að ekki sé vikið frá markmiði ákvæðisins þannig að laun, eða gjald fyrir veitta þjónustu, séu sett í búning kaupréttar en á sama tíma sé launþeginn, eða þjónustuveitandinn, öruggur, eða allt að því, um að fá greitt fyrir framlag sitt innan ákveðins tíma. Við þær aðstæður gæti jafnframt hin almenna skattsniðgönguregla 57. gr. tekjuskattslaga átt við.

Í 4. tölulið 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins kemur fram það skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins að kaupréttarsamningur sé ekki framseljanlegur og nái ekki til lengri tíma en sex ára. Í umsögnum sem bárust nefndinni komu fram athugasemdir þess efnis að líftími kaupréttarsamnings þurfi að vera langur til þess að hann nái því markmiði sínu að stilla saman hagsmuni starfsmanna og vinnuveitenda þeirra, enda tæki það nýsköpunarfyrirtæki tíma að ná fram raunverulegum vexti. Í einhverjum tilvikum töldu umsagnaraðilar óþarfa að kveða sérstaklega á um tímalengd samnings í lögunum, m.a. með hliðsjón af ólíku eðli nýsköpunarfyrirtækja og samningsfrelsi. Í ljósi þeirra ábendinga sem fram koma í umsögnum leggur meiri hlutinn til að hámarkslíftími samninganna verði lengdur úr sex árum í átta ár.

Aðeins um aukatekjur ríkissjóðs, sem er nýr kafli. Með lögum um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2023, nr. 129/2022, var m.a. gerð breyting á 5. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, sbr. 43. gr. laganna, sem fjallar um gjaldtöku fyrir beiðnir um nauðungarsölu. Með breytingunni féll brott ákvæði 4. málsliðar 1. mgr. 5. gr. sem kvað á um að ákvæði 4. og 5. mgr. 4. gr. laganna giltu um skyldu til greiðslu gjalds samkvæmt málsgreininni. Líkt og rakið er í minnisblaði ráðuneytisins stóð ekki til að fella niður tilvísanir til 4. og 5. mgr. 4. gr. í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 88/1991. Brottfall tilvísananna hafi þau áhrif að vafi sé uppi um hvort endurgreiða eigi gjaldið við afturköllun eða þegar gerð er ekki framkvæmd og um það hvort innheimta eigi sérstakt gjald fyrir endurupptöku. Þá megi jafnframt túlka ákvæðið þannig að gerðarbeiðendur sem innheimta gjöld vegna mála sem áður hafa komið til kasta dómstóla eða sýslumanna, sbr. 6. mgr. 1. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, þurfi nú að greiða gjald samkvæmt 1. mgr. 5. gr. við framlagningu beiðna hjá sýslumanni. Þar sem ekki stóð til að fella brott tilvísanir til 4. og 5. mgr. 4. gr. í 1. mgr. 5. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs er lagt til að nýjum málslið verði bætt við 1. mgr. 5. gr., sem er samhljóða 4. málslið 1. mgr. 5. gr. eins og hann var fyrir breytingu. Breytingin er lögð til í samráði við ráðuneytið og vísast til nánari umfjöllunar í minnisblaði þess.

Lögð er til breyting á gildistökuákvæði frumvarpsins og miðað við að lögin öðlist þegar gildi. Þá er lagt til að sá fyrirvari verði gerður við 3. gr. að ákvæðið komi til framkvæmda að fenginni niðurstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um að ákvæðið samræmist reglum EES-samningsins um ríkisaðstoð. Breytingin er til komin vegna þess að komið hefur í ljós að ákvæði 3. gr. geti falið í sér tilkynningarskylda ríkisaðstoð. Tilkynningarferli til ESA er í undirbúningi en vegna þessa þykir rétt að fresta framkvæmd ákvæðisins þar til endanleg afstaða ESA liggur fyrir.

Vísast að öðru leyti til ítarlegri umfjöllunar um breytingartillögur í áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir.

Undir nefndarálitið rita, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður, Diljá, Mist Einarsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Logi Einarsson og Steinunn Þóra Árnadóttir.



[21:06]
Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ágústi Bjarna Garðarssyni fyrir hans framsögu. Það er ánægjulegt þegar við styrkjum nýsköpun í ljósi þess hversu mikilvæg nýsköpunin er fyrir atvinnulífið í landinu og bæði til framtíðar og í sögulegu tilliti þá höfum við séð nýsköpunarfyrirtæki gera stórkostlega hluti. En eitt stærsta vandamál nýsköpunarfyrirtækja er að tryggja sér fjármagn og ég myndi telja það afar brýnt að tryggja að löggjöf um nýsköpunarfyrirtæki, um hluti eins og kauprétti, sé aðgengileg og skiljanleg og það séu settir sambærilegir skilmálar og eru settir í nágrannalöndunum þannig að erlendir fjárfestar sem hafa hug á að fjárfesta í íslenskri nýsköpun sjái það ekki sem hindrun að hér sé búið að setja einhverjar séríslenskar reglur. Nægar eru hindranirnar þegar. Við erum býsna langt frá mörgum löndum; til að koma hingað þarf alltaf fara í flugvél, til þess að fjárfesta hér þarftu að nota örmyntina krónu og þegar við bætum við síðan einhverri lagaóvissu þá gæti það verið hreinlega meira en erlendir fjárfestar treysta sér til að fara í. Ég vil því spyrja hv. þingmann: Kannaði nefndin hvernig almennt er staðið svona löggjöf og kom til greina að samræma þessi atriði löggjöf nágrannaríkjanna, þannig að við myndum geta rutt úr vegi slíkum hindrunum í það minnsta, lagaóvissu í kringum nýsköpun?



[21:08]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Bjarni Garðarsson) (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið og ég tek undir margt af því sem fram kom hjá honum. Ég tel hins vegar að þetta frumvarp sé til bóta. Markmið þessa ákvæðis sem þingmaðurinn nefnir hér varðandi kauprétti í sprotafyrirtækjum er einmitt að styðja við þessi fyrirtæki þegar þau eru að koma undir sig fótunum, ef svo má segja, styðja við samkeppnishæfni nýsköpunarfyrirtækja hvað starfsfólk varðar, sérstaklega á þessu, hvað á maður að segja, frumstigi þegar fyrirtækin eru einmitt með lítið fjármagn, og auka svigrúm fyrir þessi fyrirtæki til að bæta kjör starfsfólks án þess að, eins og fram kom í máli mínu, auka rekstrarkostnað fyrirtækisins í þessum fyrstu skrefum. Jafnframt er verið að tryggja að til framtíðar verði þetta sameiginlegt verkefni, að báðir aðilar hafa þarna hag af að vel gangi. Um þetta er auðvitað gerður samningur og allt uppi á borðum. En varðandi þennan samanburð sem þingmaðurinn nefnir og hvað er að gerast í nágrannalöndunum í kringum okkur þá er það sérstaklega tekið fyrir í nefndarálitinu og ég fæ að vitna orðrétt í meirihlutaálitið:

„Meiri hlutinn vill þó árétta að full ástæða er til þess að skilyrði fyrir beitingu reglna sem hafa það að markmiði að stuðla að auknu samkeppnishæfi sprotafyrirtækja hér á landi sæti reglulegri endurskoðun með tilliti til þróunar í nágrannalöndum og í þeim löndum sem innlend nýsköpunarfyrirtæki eru í samkeppni við um starfsfólk.“

Þannig að ég held (Forseti hringir.) að þetta sé eitthvað sem við höfum tekið til skoðunar og verði áfram til skoðunar til framtíðar.



[21:11]
Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Já, það er jákvætt og ég held að það sé einmitt mjög brýnt að við séum svolítið á tánum með þetta. Það þarf að vera okkar hlutverk hér á Alþingi að tryggja hagsmuni og tryggja nýsköpun, að við sjáum til þess að íslensk nýsköpunarfyrirtæki búi ekki við verri tækifæri en önnur og það er jákvætt að þarna sé gert grein fyrir því að þetta eigi að skoða. En ég heyrði ekki að það hefði verið skoðað, eða var ég að misskilja? Var skoðað hvernig staðið er að þessari löggjöf annars staðar, t.d. í nágrannaríkjum, í Skandinavíu og í Bretlandi, sem eru lönd sem við förum gjarnan til? Kæmi þá til greina að kanna það og athuga hvort það væri tækifæri til þess að bregðast við núna ef það eru einhver atriði þarna sem gætu staðið í mögulegum fjárfestum eða mögulegum starfsmönnum þessara fyrirtækja? Það getur alveg verið að starfsfólk sem kynnir sér þessa samninga geti líka sett það fyrir sig ef ákvæðin eru ekki eitthvað sem þekkist annars staðar. Fólk gerir ákveðnar væntingar til svona hluta. Það að vera með eitthvað sem ekki þekkist annars staðar getur verið svolítið áhættusamt og gæti orðið til þess að við verðum af góðri fjárfestingu eða góðu starfsfólki.



[21:13]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Bjarni Garðarsson) (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að það sem hv. þingmaður nefnir sé eitthvað sem við þurfum almennt að gera í öllum okkar málum, að rýna það sem gengur og gerist í löndunum í kringum okkur og taka það upp sem vel er gert og bæta eftir því sem við á. En þetta er svo sannarlega gert og þetta fyrirkomulag sem hér um ræðir þekkist vel erlendis og það er sérstaklega tekið á því. Ég held að við séum að móta mjög skýra umgjörð í kringum þessa kaupréttarsamninga til handa sprotafyrirtækjum. Það er sérstaklega tekið fram, eins og ég kom inn á í fyrra svari mínu, að þetta mun sæta reglulegri endurskoðun og við erum stöðugt að rýna það hvað er að gerast á Norðurlöndunum og í öðrum löndum hér í kringum okkur, eins og hv. þingmaður nefndi reyndar. En ég held að það sem fram kom í hans máli hér áðan tengist líka öðrum þáttum, t.d. stuðningi til erlendra sérfræðinga sem við erum að fá hingað og hvernig við stöndum að þeim málum í samanburði við löndin í kringum okkur. Ég held að þessi heildarumgjörð sem hér um ræðir og þetta ákvæði sem hér er til umræðu og önnur atriði sem tengjast stuðningi við nýsköpunarfyrirtæki þurfi að vera í reglulegri endurskoðun.