153. löggjafarþing — 105. fundur
 10. maí 2023.
veiting ríkisborgararéttar, 1. umræða.
frv. allsh.- og menntmn., 1063. mál. — Þskj. 1740.

[17:25]
Frsm. allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um veitingu ríkisborgararéttar frá hv. allsherjar- og menntamálanefnd.

Nefndinni bárust 94 umsóknir um ríkisborgararétt sem tekið var á móti til og með 1. apríl. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt getur Alþingi veitt ríkisborgararétt með lögum.

Verklagið er með þeim hætti að undirnefnd hv. allsherjar- og menntamálanefndar fer yfir þessar umsóknir, fær þau gögn sem hún telur sig þurfa og leggur mat á þær.

Mig langar að nota tækifærið og þakka kærlega hv. þingmönnum Birgi Þórarinssyni, Jódísi Skúladóttur og Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur. Þau hafa lagt á sig mikla vinnu við að fara yfir þessar umsóknir. Þau voru einhuga um að leggja það fyrir hv. allsherjar- og menntamálanefnd að 18 einstaklingar myndu nú öðlast íslenskan ríkisborgararétt.

Hv. allsherjar- og menntamálanefnd var einhuga um að gera þær tillögur að sínum. Þess vegna leggjum við fram tillögu um að þeir 18 einstaklingar sem tilgreindir eru í frumvarpinu fái ríkisborgararétt.

Ég vona að þingheimur geti sammælst um þetta, eins og hefð hefur verið, og að við getum boðið þessa 18 einstaklinga velkomna í hóp okkar hinna.



Frumvarpið gengur til 2. umr.