153. löggjafarþing — 108. fundur
 15. maí 2023.
bætt kjör kvennastétta og vinnudeilur.

[15:27]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Sendinefnd á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kom hingað til landsins fyrir skemmstu og hún hvatti ríkisstjórnina til aðhaldssamari efnahagsstefnu. Hún gagnrýndi ríkisstjórnina m.a. fyrir það að hún væri ekki að stemma stigu við verðbólgunni og gera lítið varðandi stjórn ríkisfjármálanna, hún stökk nokkurn veginn á Viðreisnarvagninn varðandi gagnrýni á ríkisstjórnina. En nefndin ræddi líka, sem var áhugavert, vinnumarkaðinn og tók undir það sjónarmið okkar í Viðreisn að það er mikilvægt að efla embætti ríkissáttasemjara í því skyni að hann geti raunverulega leitt deiluaðila saman og lagt fram sáttatillögu þegar vinnudeilur lenda í algjörum hnút. Við sáum slíkar harðvítugar og langvarandi deilur bara fyrir nokkrum mánuðum. Í morgun lögðu um 1.000 manns niður vinnu hér á höfuðborgarsvæðinu. Við vitum það að í haust losnar fjöldinn allur af samningum en ríkisstjórnin valdi það beinlínis að láta vinnumarkaðinn bíða og hafa ríkissáttasemjara áfram án nokkurra almennilegra verkfæra. 1.600 félagsmenn BSRB og fleiri eru að fara í verkfall í næstu viku. Þetta eru aðgerðir sem ná til starfsfólks — kvennastétta — í leikskólum, grunnskólum, á frístundaheimilum hér á þessu svæði.

Mig langar að beina tveimur spurningum til hæstv. ráðherra. Þær snerta annars vegar bætt kjör kvennastétta. Á síðastliðnu kjörtímabili fengum við í Viðreisn í gegn tillögu samþykkta hér á þingi um að bæta kjör kvennastétta. Hvað hefur ríkisstjórnin gert í því? Af hverju erum við að upplifa aftur og aftur verkföll hjá einmitt kvennastéttunum í landinu? Það er ekki búið að koma til móts við þær og vinna markvisst að því. Hvað hefur ríkisstjórnin gert hvað það varðar? Síðan er hitt sem er risamál. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig er verið að vinna að málinu sem snertir að bæta verkfærakistu ríkissáttasemjara, að skýra og skerpa hans heimildir til þess að stíga inn í vinnudeilur með raunhæfar tillögur að vopni? (Forseti hringir.) Er hugmyndin að styrkja embætti ríkissáttasemjara eftir næstu kjaralotu? Eða er planið núna að koma með þessi tæki núna fyrir sáttasemjara? (Forseti hringir.) Það liggur á, við erum að sjá vinnudeilur harðna og þá þurfum við líka að hafa embætti ríkissáttasemjara þannig að hann geti stigið inn og miðlað málum okkur öllum til heilla.



[15:30]
mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég segi um leið að eitthvað af þessum vangaveltum heyrir undir annan ráðherra formlega en ég get tekið hluta af þessu. Ég vil segja það í upphafi, og kannski vegna þess að ég var með þennan málaflokk á síðasta kjörtímabili: Varðandi bætt kjör kvennastétta má kannski segja að það er haldið á því með beinni hætti í öðru ráðuneyti en því sem ég stýri nú. En engu að síður er það svo að margar þær stéttir sem sjá einmitt um umönnun barna og viðkvæmra hópa, stór hluti kennara m.a. og þeirra einstaklinga sem eru á leiðinni í verkföll, eru einmitt kvennastéttir. Ég hef átt talsvert af samtölum við forystufólk þessara stétta um mikilvægi þess að við förum að nálgast það þannig að þeir sem vinna með börn í íslensku samfélagi — af hverju við erum ekki að „ranka“ það hærra í launakjörum en við erum að gera. Það er gríðarleg áskorun að manna stöður bæði í félagslega geiranum en líka í kennarastéttum, þannig að allt það sem leggst á sveif með því hvað það snertir er sá fylgjandi sem hér stendur.

Síðan varðandi það að bæta verkfærakistu ríkissáttasemjara þá verð ég bara að viðurkenna það hér að ég held ekki það djúpt á þeim málum eins og ég gerði á síðasta kjörtímabili að ég geti formlega svarað því til hér hvað félagsmálaráðherra er að vinna í því efni, vegna þess að vinnumarkaðurinn heyrir formlega undir hann.



[15:31]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Það er eitt sem hæstv. ráðherra gæti gert og einbeitt sér almennilega að og það er einfaldlega að fara í það verkefni að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. En seinna svarið veldur mér miklum áhyggjum. Er verið að segja mér það hér að félagsmálaráðherra sé bara búinn að fresta þessu grundvallarmáli, um að liðka fyrir á vinnumarkaði, fram á haustið, að það sé bara búið að fresta því án þess að það hafi verið rætt í ríkisstjórn? Mér finnst þetta enn og aftur bera keim af ákvarðanafælni og sinnuleysi ríkisstjórnarinnar í þessum stóru málum, vinnumarkaðsmálunum eins og þetta er. Við í Viðreisn erum líka búin að gera víðreist og það er sama hvort við komum í búð eða förum niður á bryggju, það er alltaf verið að biðja um ákvarðanir hjá ríkisstjórninni, hvort sem það snertir orkuskiptin eða einfaldlega að taka almennilega á ríkisfjármálunum þannig að það sé ekki verið að skuldsetja almenning fram í framtíðina. Þetta segir mér að það er eitthvað fálm og óðagot hjá ríkisstjórninni eða hún treystir sér einfaldlega ekki til þess að leggja fram frumvarp hér í þingsal (Forseti hringir.) sem hún var búin að boða og svo koma ráðherrar sem hafa m.a. verið yfir málaflokknum og segjast ekki vita neitt. (Forseti hringir.) Það eru ekki góð skilaboð ef það er þannig að ráðherrar í ríkisstjórn eru einir og sér að fresta málum, grundvallarmálum, án þess að það sé rætt í ríkisstjórn, hvað þá hér á þingi.



[15:33]
mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því sem hv. þingmaður nefndi með að brúa bilið, þ.e. samtalið. Sú aðgerð ein og sér mun ekki leiða til bættra kjara kvennastétta. Hins vegar þurfum við að taka bæði fæðingarorlofið, sem heyrir undir hæstv. félagsmálaráðherra, og leikskólann og samþætta þar á milli. Sú vinna er komin í gang og þar þurfum við að kalla alla aðila að borðinu, ekki eingöngu tengda fæðingarorlofi og vinnumarkaði heldur líka leikskóla, sveitarfélög og fleiri aðila. Þegar hv. þingmaður talar um að sá sem hér standi hafi gefið það í skyn að ríkisstjórnin vissi ekkert hvað hún væri að gera vegna þess að ég væri ekki nákvæmlega með yfirlit yfir hver staðan væri á frumvarpi sem hæstv. félagsmálaráðherra hefði boðað, þá vil ég bara vísa því til föðurhúsanna. Félagsmálaráðherra heldur á þessu máli. Það eru ýmis samtöl í gangi þegar verið er að koma með frumvörp, sá sem hér stendur er ekki beint inni í þeim málum. (Forseti hringir.) En ég þykist vita að félagsmálaráðherra sé að vinna að því af miklum krafti og muni koma með það mál hingað inn í þingið þegar þar að kemur. (Forseti hringir.) Að þetta sé annaðhvort einhvers konar flumbrugangur eða að það sé einfaldlega ekki verið að vinna hlutina; ég vísa því algerlega til föðurhúsanna.

(Forseti (BÁ): Forseti vill minna bæði hv. fyrirspyrjendur og hæstv. ráðherra á það að tíminn er takmarkaður í óundirbúnum fyrirspurnum. Ræðumenn hafa tvær mínútur þegar þeir taka til máls í fyrra sinnið og eina mínútu í síðara skiptið.)