153. löggjafarþing — 108. fundur
 15. maí 2023.
sameining framhaldsskóla.

[15:35]
Björn Leví Gunnarsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Í síðustu viku kom fram á fundi fjárlaganefndar að það ætti að loka Menntaskólanum við Sund í um þrjú ár eftir næsta skólaár til að gera upp og laga vegna myglumála. Ansi mikill kostnaður þar á bak við líka. Maður veltir fyrir sér í rauninni hvað á að gera fyrir nemendurna á meðan. Á sama tíma er í gangi fýsileikakönnun á sameiningu skóla, m.a. Menntaskólans við Sund og Kvennó og nokkurra annarra para af skólum. Ég spyr eins og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir sagði hérna: Af hverju er t.d. ekki verið að skoða Kvennó og MR sem eru nálægt hvor öðrum? Það er verið að skoða sameiningu framhaldsskóla sem eru mun fjær hvor öðrum og ætti að flytja í húsnæði saman, það er mjög merkilegt. En sú tilfinning sem maður fær dálítið fyrir þessum málum er að það er gerjun í gangi.

Mig langaði að leita til ráðherra í smá einlægni þar sem við erum að sjá fram á dálítið miklar grundvallarbreytingar á skólastarfi, t.d. með tilkomu gervigreindar. Skólar og framhaldsskólar líka eru ákveðin nærþjónusta, eru í rauninni ákveðin félagsheimili, stundum næstum því félagsþjónusta. Fólk finnur fyrir ákveðnum skólaanda sem finnst í einum skóla en ekki öðrum, samsamar sig betur á einum stað en öðrum. Sameiningar skóla á þennan hátt geta valdið miklum usla í þeirri menningu. Því langar mig til að pæla aðeins í því með ráðherra hvort það sé ekki viturlegra að fara í aðeins heildstæðari skoðun á því hvernig við högum þessum málum með tilkomu nýrrar tækni, með þá staðreynd fyrir augum að skólarnir eru, eins og ég segi, dálítið eins og félagsheimili, þetta eru staðir fyrir fólk, (Forseti hringir.) nærþjónusta, sem krakkar þurfa að stunda í rauninni til að hittast. Covid var erfitt hvað þetta varðar (Forseti hringir.) og nú þurfum við að hugsa til framtíðar, ekki með einhverjum einstökum sameiningarpörunum.



[15:38]
mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Það er rétt að í síðustu viku ræddum við það á fundi fjárlaganefndar, sem reyndar hefur komið fram, að það væri mikill mygluvandi kominn upp í Menntaskólanum við Sund. Samkvæmt Framkvæmdasýslunni þarf að ráðast í mun meiri framkvæmdir þar en gert var ráð fyrir í upphafi. Við höfum verið að vinna með þessa stöðu og það er algerlega skýrt að þetta á ekki að hafa áhrif á skólahald næsta vetur, en þegar kemur til framkvæmda þá munum við þurfa að loka húsnæðinu í alllangan tíma og erum að vinna með þá stöðu.

Á sama tíma erum við, líkt og ég rakti í fjárlaganefnd og er allt í lagi að fara yfir hér — það höfum við líka gert í sérstakri umræðu sem var í síðustu viku — með gríðarlega margar mikilvægar áskoranir sem við þurfum að takast á við sem samfélag þegar kemur að framhaldsskólakerfinu. Við þurfum að bregðast við þessu mikla ákalli sem er í starfsnám, þar sem mörg hundruð manns hafa verið á biðlistum eftir að komast í starfsnámsgreinar. Það er alveg ljóst að hver nemandi þar kostar alla jafna hærri fjárhæðir en nemandi í bóknámi. Við erum síðan með verkefni sem ég tel gríðarlega brýnt að við ráðumst í, eins og til að mynda að taka betur utan um NEET-hópinn, þ.e. þá sem hvorki eru í framhaldsskóla né á vinnumarkaði og eru á aldursbilinu rétt eftir grunnskóla. Við þurfum að efla það sem lýtur að nemendum af erlendum uppruna. Þegar kemur að námsgagnaútgáfu á framhaldsskólastiginu þá þurfum við að stórefla hana. Allt kostar þetta fjármuni, þannig að það sem við erum að reyna að leitast við að gera í þessum fyrsta fasa í fýsileikakönnunum er að skoða leiðir til að skapa fjárhagslegt svigrúm fyrir slíkt. Við erum opin fyrir hugmyndum inn í þá vinnu. Það er ekki búið að njörva neitt niður, þannig að ef hv. þingmaður er með hugmyndir inn í það þá er sá sem hér stendur tilbúinn. Ég ætla að koma aðeins betur inn á tæknina og gervigreindina í seinna svari.



[15:40]
Björn Leví Gunnarsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Já, það er ekki skortur á hugmyndum hérna þó að ein mínúta sé allt of lítill tími til að reifa þær allar. En velflestir framhaldsskólar hérna eru bara reknir af íslenska ríkinu. Þetta er í rauninni bara framhaldsskóli Íslands með starfsstöðvar hingað og þangað sem eru með mismunandi nöfn, mismunandi skólaanda líka og skólabrag. Við þurfum, held ég, að þora dálítið að skoða hlutina af ákveðinni dýpt, af þeirri dýpt að einhverjir merkimiðar eins og Menntaskólinn í Reykjavík standi ekki í vegi fyrir því að hægt sé að gera þær aðlaganir sem jafnvel þarf til að ná þeim árangri sem hæstv. ráðherra benti á að þyrfti að skoða hérna. Þannig að ég hvet ráðherra einfaldlega til dáða í þessum málaflokki og betur má ef duga skal af því að það vantar allt þetta sem ráðherra talaði um í fjármálaáætlun. Ef við þurfum að vera að leita núna í eitt ár að einhverju fjárhagslegu svigrúmi (Forseti hringir.) þá erum við í einu ári of sein (Forseti hringir.) þegar svo á að ganga til verka.



[15:41]
mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefndi hér áðan líka: Tæknin er að breytast og hún kallar á breytingar. Það er líka þannig, af því að hv. þingmaður fór yfir það, að við hefðum ekki verið að — þ.e. framhaldsskólakerfið er alla vega samsett. Þegar maður skoðar aðeins sögu þess: Hvar eru skólar, með hvaða hætti eru skólar? þá liggur ekki nein heildstæð stefnumótun að baki því. Þetta hefur meira gerst m.a. vega kraftmikilla einstaklinga, kraftmikilla samfélaga sem vilja drífa málin áfram á sínum svæðum eða sínum hverfum o.s.frv. Það er ekki nein heildstæð lína í því hvaða nám er boðið upp á hvar, hvar skólar eru o.s.frv. Það eru hins vegar tækifæri til þess að nýta fjármagnið betur sem við fáum til þessa málaflokks. Og af því að við höfum rætt að það þurfi að byggja við starfsnám skóla þá teljum við að það sé líka svigrúm til þess að ná niður húsnæðiskostnaði annars staðar og nýta hann þá til nemendanna, til námsins og til skólanna. (Forseti hringir.) Það er það sem við erum að vinna að og við viljum gera það í góðu samstarfi við sem flesta aðila.