153. löggjafarþing — 108. fundur
 15. maí 2023.
frístundastyrkur.

[15:50]
Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Fjórðungur einstæðra foreldra býr við efnislegan skort, samkvæmt úttekt Vörðu, rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins, og allt að þriðjungur þeirra getur ekki greitt kostnað vegna tómstundastarfs barnanna sinna. Þegar ég las þetta þá rifjaðist upp fyrir mér kosningaloforð sem Framsóknarflokkurinn gaf í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Ég ætla að fá að lesa hérna upp auglýsingu sem flokkurinn birti, með leyfi forseta:

„Tómstundastyrkur fyrir öll börn. Framsókn vill að ríkið styðji við frístundir barna með 60.000 kr. greiðslu til allra barna á ári óháð efnahag.“

Og þessu fylgdu núverandi þingmenn flokksins margir hverjir eftir með greinum hingað og þangað þar sem fjölskyldum var lofað — ja, einhvers staðar kom fram að fjölskylda með þrjú börn fengi jú 180.000 kr. í styrk. Er ekki bara best að kjósa vaxtarstyrk? skrifaði einn af núverandi þingmönnum flokksins. En nú eru að verða liðin tvö ár. Það er ekkert að frétta af þessum blessaða vaxtarstyrk. Fjármálaáætlun til næstu fimm ára gerir ekki ráð fyrir þessum vaxtarstyrk, styrk sem myndi svo sannarlega muna um fyrir þessar fjölskyldur sem líða efnislegan skort, svo ég held ég verði bara að spyrja hæstv. barnamálaráðherra, hæstv. ráðherra Framsóknarflokksins og helsta málsvara flokksins í barnamálum: Samdi Framsóknarflokkurinn bara frá sér þetta kosningaloforð, þetta mál, um leið og talið var upp úr kjörkössunum og flokkurinn settist niður með Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokknum og fór að leggja á ráðin um það hvernig hlutirnir yrðu gerðir á þessu kjörtímabili? Og ef svo er, hvað fékk flokkurinn eiginlega í staðinn?



[15:52]
mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og deili þeim áhyggjum sem sannarlega eru uppi þegar kemur að stöðu barna sem búa við bág kjör. Hins vegar vil ég segja, áður en ég fer í að svara fyrirspurninni, að sem betur fer er staða barna á Íslandi almennt betri en í öllum nágrannalöndum sem við berum okkur saman við. En það er engu að síður svo að þegar eitt barn býr við skort þá er það einu barni of mikið.

Þegar kemur að umræðu um þennan sérstaka frístundastyrk þá var hann sannarlega ræddur í aðdraganda síðustu kosninga og rataði með þeim hætti inn í stjórnarsáttmála, að skoðaður yrði eða að ráðist yrði í sérstakan stuðning til handa — ég man nú ekki orðalagið nákvæmlega en hv. þingmaður er glöggur og getur flett því upp, en þar var sérstaklega kveðið á um stuðning til frístundaiðkunar barna. Við höfum verið að skoða með hvaða hætti það gæti komið til og það er alveg ljóst að við munum ekki geta tekið það í einu stóru skrefi. Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á, að þetta er ekki fjármálaáætlun sem nú er til umræðu í þinginu, en engu að síður erum við að vinna að þessu, höfum ákveðið fjármagn til þessa málaflokks og erum að skoða með hvaða hætti við getum sérstaklega gripið inn gagnvart tekjulægstu fjölskyldunum og gagnvart börnum af erlendum uppruna. Það er nefnilega svo að þegar við réðumst í sérstakan tómstundastyrk í Covid-faraldrinum þá kom í ljós að tölfræðin sýndi okkur að jafnvel þótt við ykjum fjármagnið til tekjulægstu heimilanna þá hafði það ekki þau áhrif að við værum að ná þeim frekar inn í tómstundir og frístundir. Þess vegna erum við líka í samtali núna við íþróttahreyfinguna, til að skoða tvíþætta leið í þessu. Það er þá annars vegar fjárhagslegur stuðningur en líka að vinna í félagslega bakgrunninum og félagslegu tengingunni til að ná börnum inn í íþróttir og tómstundir. Við reiknum með því að geta kynnt einhvers konar útfærslur á fyrstu skrefum á þessu og höfum ákveðið fjármagn til þess að stíga fyrstu skref í því efni á næstunni.



[15:54]
Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Það hefur komið mjög skýrt fram á vettvangi fjárlaganefndar að það er ekki gert ráð fyrir þessum vaxtarstyrk, þessum frístundastyrk, í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Það var heldur ekki gert ráð fyrir honum í fjárlögum þessa árs eða þess síðasta. Það ástand sem við stöndum frammi fyrir núna, þetta mikla verðbólguástand og vaxtahækkanir, er ekki einhver rök gegn vaxtarstyrk af þessu tagi heldur sýnir einmitt þörfina á honum. 60.000 kr. styrkur til tekjulægri hópa sérstaklega er ekki eitthvað sem setur þjóðarbúskapinn á hliðina. Við höfum allt önnur meðul til að sporna gegn þenslu. Því vil ég hvetja ráðherra til dáða, einmitt vegna þess hvernig ástandið er hjá tekjulægri heimilum landsins, að hafa hraðar hendur. X-B fyrir börn, þetta var slagorðið fyrir síðustu kosningar. Framsóknarflokkurinn tók upp þennan málstað barna, „brandaði“ sig, með leyfi forseta, mjög vel með barnamálunum og ljáði (Forseti hringir.) þessum málstað inntak með því loforði. Ég held að fólkið í landinu geri þá kröfu til Framsóknarflokksins og hæstv. ráðherra að efna þetta loforð og ekki útvatna það.



[15:56]
mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa brýningu og fyrir þessa hvatningu. Framsóknarflokkurinn vinnur fyrir börn og barnafjölskyldur í landinu. Við leggjum áherslu á það. Það var ekki bara fyrir síðustu kosningar. Við erum að gera það með mjög margþættum aðgerðum, stórum breytingum sem verið er að vinna að í málefnum barna og við leggjum okkur fram við að vinna með öllum þeim aðilum sem eru tilbúnir að vinna að slíku. Það er þannig, eins og ég sagði, og það er hárrétt sem hv. þingmaður sagði hér, að ekki er gert ráð fyrir vaxtarstyrknum í þeirri mynd sem lagt var upp með í fyrstu atrennu í fjármálaáætlun. Við erum með fjármagn til að vinna að þessum málum. Við erum að útfæra leiðir til að nýta það en við höfum samt áhyggjur af því að þegar við réðumst í slíkar aðgerðir í Covid-faraldrinum og fengum niðurstöðu úr þeim þá vorum við ekki að ná að grípa einmitt þessar fjölskyldur sem hv. þingmaður nefnir, sem ég tek sannarlega undir að við þurfum að ná að grípa. (Forseti hringir.) Þá þurfum við kannski að hugsa: Af hverju er það? Hvað er það annað félagslegt sem gerir það að verkum að við erum ekki að ná að grípa þessar fjölskyldur? Við þurfum að stíga inn í það. Ég sagði það líka á fundi fjárlaganefndar, svo ég komi því til skila, (Forseti hringir.) að peningurinn einn og sér dugir ekki nema við náum félagslega netinu, félagslega stuðningnum og öllu því sem þarf einnig.