153. löggjafarþing — 109. fundur
 16. maí 2023.
heilbrigðisstarfsmenn, 2. umræða.
stjfrv., 856. mál (tilkynningar um heimilisofbeldi). — Þskj. 1328, nál. 1807.

[14:11]
Frsm. velfn. (Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd velferðarnefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, er varðar tilkynningar um heimilisofbeldi. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 17. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, sem fjallar um trúnað og þagnarskyldu, og lagt til að skýrt verði kveðið á um í lögum um heilbrigðisstarfsmenn að þeir hafi heimild til að tilkynna lögreglu um heimilisofbeldi að beiðni sjúklings.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir. Greint er frá því í nefndaráliti sem liggur frammi. Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill nefndin árétta sérstaklega að nefndin fjallaði um að markmið frumvarpsins væri mikilvægt, þ.e. að uppræta heimilisofbeldi og styðja við þolendur slíks ofbeldis. Mikilvægt sé að auka upplýsingaflæði frá heilbrigðiskerfinu til lögreglu í þessum málum til að vernda og styðja þolendur og draga úr líkum á ítrekuðu ofbeldi. Því þarf að skýra betur þagnarskyldu heilbrigðisstarfsfólks og heimildir þess til miðlunar upplýsinga. Nefndin leggur áherslu á að auka þurfi samvinnu milli heilbrigðisstofnana og lögreglu í vinnu gegn heimilisofbeldi og telur frumvarpið mikilvægan lið í vinnu gegn heimilisofbeldi.

Þá fjallaði nefndin um þagnarskyldu heilbrigðisstarfsmanna og hvort heilbrigðisstarfsmanni er heimilt eða skylt að verða við beiðni sjúklings um að tilkynna heimilisofbeldi til lögreglu samkvæmt ákvæði 1. gr. frumvarpsins.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 17. gr. laganna. Skv. 1. mgr. 17. gr. skulu heilbrigðisstarfsmenn gæta fyllstu þagmælsku um allt það sem þeir komast að í starfi sínu um heilsufar sjúklings, ástand, sjúkdómsgreiningu, horfur og meðferð ásamt öðrum persónulegum upplýsingum. Þetta gildir ekki bjóði lög annað eða rökstudd ástæða er til þess að rjúfa þagnarskyldu vegna brýnnar nauðsynjar.

Fyrir nefndinni var rætt um að ákvæði 1. mgr. 17. gr. verði að túlka með tilliti til 2. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, en þar segir að réttur hvers manns til lífs skuli verndaður með lögum. Í þessu ákvæði felst jákvæð skylda íslenska ríkisins til að vernda líf einstaklinga. Þá mælir Istanbúl-samningurinn fyrir um að mikilvægt sé að gera nauðsynlegar ráðstafanir með lagasetningu eða öðrum hætti til að tryggja að viðeigandi stjórnvöld meti hættu á dauðsfalli, alvarleika ástands og hættu á endurteknu ofbeldi svo hafa megi stjórn á áhættunni og veita samhliða vernd og öryggi ef þörf krefur, sbr. 51. gr. samningsins. Af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu má ráða að dómstóllinn leggur ríka áherslu á að stjórnvöld bregðist strax við ásökunum um heimilisofbeldi með því að meta áhættu. Ef niðurstaða áhættumats er sú að um raunverulega og bráða lífshættu sé að ræða ber stjórnvöldum að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða. Ef um er að ræða staðfesta áhættu er m.a. litið til upplýsingamiðlunar og samvinnu viðeigandi stjórnvalda þegar lagt er mat á viðbrögð aðildarríkis við heimilisofbeldi.

Með hliðsjón af framangreindu telur nefndin rétt að undirstrika að það kann að vera að í tilvikum þegar ljóst er að lífi sjúklings er ógnað vegna heimilisofbeldis sé brýn nauðsyn fyrir heilbrigðisstarfsmann að tilkynna slíkt til lögreglu samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn. Ákvörðun um hvort brýn nauðsyn sé fyrir hendi er hins vegar matskennd. Frumvarpinu er því ætlað að leggja til skýrari lagastoð fyrir miðlun upplýsinga til lögreglu vegna heimilisofbeldis. Þannig eru auknar líkur á að lögregla fái nauðsynlega vitneskju um heimilisofbeldi og geti veitt viðeigandi þjónustu og vernd.

Með 1. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 3. mgr. 17. gr. um að heilbrigðisstarfsmanni sé heimilt, að beiðni sjúklings, að tilkynna til lögreglu heimilisofbeldi eða ofbeldi í nánu sambandi sem ógnað getur lífi eða heilsu sjúklings. Við meðferð málsins í nefndinni var því álitaefni velt upp hvort æskilegra væri að kveða á um skyldu heilbrigðisstarfsmanna til að tilkynna til lögreglu heimilisofbeldi eða ofbeldi í nánu sambandi að beiðni sjúklings svo það þyrfti ekki að vera mat heilbrigðisstarfsmanns hverju sinni. Í greinargerð frumvarpsins og í minnisblaði heilbrigðisráðuneytis til nefndarinnar er bent á að slík skylda geti verið vandkvæðum bundin og að það hafi ekki gefið góða raun í öðrum ríkjum. Það sé frekar í samræmi við hagsmuni þolenda að leggja til skýra heimild heilbrigðisstarfsmanna að beiðni þolenda í staðinn fyrir skyldu án samþykkis þolenda. Þannig sé hægt að koma í veg fyrir að þolandi veigri sér við að sækja sér heilbrigðisþjónustu. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið.

Fyrir nefndinni var rætt um hvaða úrræði væru til staðar ef heilbrigðisstarfsmaður neitar t.d. að hafa samband við lögreglu þrátt fyrir skýra beiðni sjúklings eða gerir það ekki fyrir mistök. Bent var á að tilteknar skyldur hvíla á heilbrigðisstarfsmönnum í samskiptum þeirra við sjúklinga samkvæmt lögum og að starfsmannaréttarleg viðurlög geta legið við brotum gegn starfsskyldum. Með hliðsjón af framangreindu leggur nefndin áherslu á að um er að ræða heimildarákvæði sem er ætlað að heimila undanþágu frá þagnarskyldu heilbrigðisstarfsmanna. Mikilvægt er að það sé skýrt gagnvart heilbrigðisstarfsmönnum hverjar afleiðingar kunna að vera ef ekki er brugðist við beiðni sjúklings af ásetningi eða vegna mistaka. Nefndin telur þörf á að um þetta verði fjallað við þróun verklags heilbrigðisþjónustu við móttöku þolenda heimilisofbeldis sem gerð er grein fyrir í greinargerð frumvarpsins og verður innleitt á öllum heilbrigðisstofnunum landsins.

Nefndin fjallaði að auki um persónuvernd. Í greinargerð frumvarpsins segir að talið sé að frumvarpið sé í samræmi við 71. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar m.a. um rétt til friðhelgi einkalífs, sbr. einnig 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, og að ákvæðið uppfylli skilyrði laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Þá var fjallað um mat á áhrifum frumvarpsins á persónuvernd, en í greinargerð kemur fram að samkvæmt slíku mati er ekki talið að frumvarpið feli í sér aukna áhættu fyrir persónuvernd skráðra einstaklinga, vinnsla persónuupplýsinga muni fara fram hjá veitendum heilbrigðisþjónustu og lögreglu og um er að ræða stofnanir sem gera ýmsar öryggisráðstafanir vegna vinnslu persónuupplýsinga í sinni starfsemi. Nefndin leggur þó áherslu á að hugað verði að fræðslu til hins skráða, þ.e. þolanda heimilisofbeldis, sbr. 17. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og telur nauðsynlegt að litið verði til þessa við mótun verklags um móttöku þolenda heimilisofbeldis á heilbrigðisstofnunum.

Nefndin fjallaði jafnframt um hvað felst í hugtakinu beiðni samkvæmt 1. gr. frumvarpsins. Í umsögn Persónuverndar er bent á að vegna orðalags ákvæðisins verði að telja ólíklegt að unnt sé að byggja á samþykki hinna skráðu sem vinnsluheimild samkvæmt lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Þegar vinnsla byggist á annars konar heimild en samþykki verður almennt ekki litið svo á að yfirlýsing hins skráða um að hann fallist á vinnsluna þurfi að liggja fyrir. Engu að síður getur verið ástæða til þess að fyrir liggi umboð eða beiðni frá hinum skráða, einkum ef vinnslan getur haft íþyngjandi réttaráhrif eða tekur til viðkvæmra einkalífshagsmuna. Nefndin tekur undir sjónarmið Persónuverndar og beinir því til ráðuneytisins að huga að formkröfum sem gera þarf til skráningar beiðni sjúklings svo og að hún sé skýr og afdráttarlaus. Nefndin tekur jafnframt undir sjónarmið Persónuverndar þess efnis að vinnuveitandi, þ.e. hver heilbrigðisstofnun, teljist ábyrgðaraðili vinnslu persónuupplýsinga sem fer fram á grundvelli frumvarpsins.

Virðulegi forseti. Nefndin fjallaði einnig um hvort æskilegt væri að skilgreina heimilisofbeldi eða ofbeldi í nánu sambandi frekar í frumvarpinu. Í skýringum við 1. gr. frumvarpsins í greinargerð þess er að finna umfjöllun um hvað átt er við með þessum hugtökum. M.a. kemur fram að þolandi og gerandi þurfa ekki að vera skráðir saman í sambúð til að um heimilisofbeldi sé að ræða og þarf ofbeldið sjálft ekki að eiga sér stað á heimili. Fyrir nefndinni var bent á að birtingarmyndir heimilisofbeldis og ofbeldis í nánu sambandi geta verið mjög fjölbreyttar og það getur verið erfitt að setja fram tæmandi skilgreiningu á heimilisofbeldi eða ofbeldi í nánu sambandi í lagatexta. Nefndin bendir á að æskilegt er að fjallað sé ítarlega um birtingarmyndir heimilisofbeldis í fræðslu eða leiðbeiningum til heilbrigðisstarfsfólks.

Loks ræddi nefndin um hvaða ferli tekur við þegar heilbrigðisstarfsmanni er heimilt að beiðni sjúklings að tilkynna lögreglu um heimilisofbeldi. Rætt var um hvernig lögregla getur haft aðkomu að máli sjúklings, svo sem með samtali við þolanda heimilisofbeldis, sé hún kölluð til á heilbrigðisstofnun, og upplýsingagjöf. Ákvörðun um kæru af hálfu brotaþola og rannsókn lögreglu kemur til skoðunar í framhaldinu. Nefndin telur mikilvægt að verklag og verkferlar tryggi leiðsögn til heilbrigðisstarfsfólks varðandi mögulega beiðni sjúklings og að verkferlar taki tillit til aðstæðna og þarfa ólíkra hópa samfélagsins þegar beiðni er skráð, svo sem fatlaðs fólk og innflytjenda.

Nefndin leggur áherslu á að frumvarpinu er ætlað að taka af vafa um það að heilbrigðisstarfsmanni sé heimilt, að beiðni sjúklings, að tilkynna til lögreglu heimilisofbeldi eða ofbeldi í nánu sambandi. Tilkynningin virkjar þannig mögulegar heimildir lögreglu til athafna og þá sérstaklega að veita þolanda heimilisofbeldis nauðsynlega vernd og stuðning.

Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Líneik Anna Sævarsdóttir, Jódís Skúladóttir, Óli Björn Kárason, Halldóra Mogensen, Vilborg Kristín Oddsdóttir, Guðrún Hafsteinsdóttir, Ásmundur Friðriksson og Guðmundur Ingi Kristinsson.

Virðulegi forseti. Með þessu máli er stigið mikilvægt skref í þá átt að tryggja enn frekari aðstoð og stuðning við þá sem hafa orðið fyrir heimilisofbeldi. Við þurfum að stíga frekari skref og taka niður þau síló sem eru í kerfinu og vona ég að frekari breytinga sé að vænta til að samþætta upplýsingagjöf og öryggi þeirra sem verða fyrir heimilisofbeldi og þeirra barna sem búa við slíkar aðstæður, að heilbrigðisstofnanir, félagsmálayfirvöld, menntastofnanir og lögregla geti átt enn frekara samstarf þegar kemur að þessum málum í framtíðinni, því að stuðningur við þá sem verða fyrir þessum brotum skiptir öllu máli, og að þeir upplifi sig örugga þegar þeir leita aðstoðar í kerfinu okkar, að það séu engin flækjustig og enn fremur að björgunarnetið sé styrkt og traust, því að það er okkur öllum til hagsbóta.