153. löggjafarþing — 109. fundur
 16. maí 2023.
virðisaukaskattur, 1. umræða.
frv. IngS o.fl., 114. mál (hjálpartæki). — Þskj. 114.

[14:39]
Flm. (Inga Sæland) (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Enn heldur Flokkur fólksins heldur áfram að berjast fyrir réttlætinu, berjast fyrir þá sem eru minni máttar í samfélaginu. Hér legg ég fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum, hjálpartæki. Með mér frumvarpinu er gjörvallur þingflokkur Flokks fólksins: Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

Frumvarpið hljóðar svo:

„1. gr. Á eftir 6. mgr. 2. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

Hjálpartæki skv. 2. mgr. 26. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, eru undanþegin skattskyldu.

2. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Í greinargerð með frumvarpinu er tekið fram að þetta er í fjórða sinn sem þetta frumvarp er lagt fyrir Alþingi. Mér hefur ekki auðnast sú gifta að ná því alltaf að mæla fyrir málinu. Það hefur oftar en ekki verið fryst í hinni víðþekktu frystikistu fastanefnda þingsins, eitt af þessum málum sem hefur sennilega ekki þótt við hæfi að greiða atkvæði gegn ef það hefði fengið að njóta lýðræðislegrar meðferðar hins háa Alþingis. Löggjafinn hefur sem sagt aldrei, enn sem komið er, fengið að greiða um það atkvæði.

Með frumvarpinu er lagt til að hjálpartæki skv. 2. mgr. 26. gr. laga um sjúkratryggingar verði undanþegin virðisaukaskatti. Hugtakið hjálpartæki er samkvæmt ákvæðinu skilgreint sem hjálpartæki sem ætluð eru — og hlustið nú vel, herra forseti, takið eftir þessu: Þessum hjálpartækjum er ætlað draga úr fötlun, aðstoða fatlað fólk við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun.

Hvað þýðir þetta? Hvað er ég að reyna að segja? Ég er að segja að viðkvæmasti þjóðfélagshópurinn, hópur fatlaðs fólks, er leynt og ljóst jaðarsettur hér í samfélaginu. Þetta er fátækasta fólkið í flestum tilvikum, þau sem hafa ekki ráð á því að fjárfesta í hjálpartækjum og fylgja eftir þróun á þeim markaði sem hefur verið mjög svo hröð á mörgum sviðum og hefði í mörgum tilvikum getað auðveldað fötluðu fólki svo sannarlega lífið. Jafnframt verður hjálpartæki sem við erum að tala um að teljast nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs. Sjúkratryggingar Íslands greiða eða taka þátt í kaupum á hjálpartækjum eftir ákveðnum reglum, sbr. reglugerð nr. 1155/2013 um styrki vegna hjálpartækja, með síðari breytingum, en notendur þurfa gjarnan að greiða sjálfir fyrir hluta kostnaðarins og því miður í mörgum tilvikum svo miklu stærri hluta.

Markmiðið með þessu frumvarpi er að jafna aðstöðumun notenda sem þurfa á slíkum hjálpartækjum að halda og létta efnahagslega byrði þeirra. Ég ítreka: Við erum hér að stærstu leyti að tala um langfátækustu einstaklingana í samfélaginu í dag, jaðarsetta viðkvæma einstaklinga sem við hér, löggjafinn, eigum alveg skilyrðislaust að taka utan um. Fjárveitingavaldið á alveg skilyrðislaust að sjá sóma sinn í því að reyna að gera allt sem í okkar valdi stendur til að auðvelda þeim lífið eins og kostur er. Við, stórasta og besta landi í heimi, við sem tölum um jafnrétti, jafnræði og hvaðeina, það er enginn eins frábær og við en samt sem áður þá er það augljóslega mannanna verk, í boði ríkisstjórnar hverju sinni, að halda áfram, ekki bara að múra þessa einstaklinga inn í rammgerða fátækt heldur líka að múra þá inn í ákveðna einangrun og útiloka þá frá því að geta tekið raunverulega þátt í samfélaginu. Þannig að markmið frumvarpsins er að jafna aðstöðumun notenda sem þurfa á slíkum hjálpartækjum að halda og að létta efnahagslega byrði þeirra. Áhrif frumvarpsins á tekjur ríkissjóðs yrðu ekki veruleg en ríkissjóður greiðir nú þegar hluta þess virðisaukaskatts sem innheimtur er af þessum vörum.

Mig langar til að koma hér með litla sögu, sanna sögu. Við erum oft að hittast í kaffinu okkar. Við erum mjög félagslynd í Flokki fólksins, við tökum á móti öllum, það eru allir velkomnir til okkar og við höfum venjulega gaman saman. En það koma líka þær stundir að til okkar leitar fólk sem á alveg ofboðslega mikið bágt. Það er það erfiðasta við þetta starf að geta hreinlega ekki tekið utan um þetta fólk sem er í góðri trú um að það sé nóg að kjósa fulltrúa á hið háa Alþingi, að þá séum við búin að geta hrint í framkvæmd öllu því sem við boðuðum fyrir kosningar. En staðreyndin er jú sú að í lýðræðislegu þjóðfélagi er það í höndum kjósenda hvort þeir gefa nákvæmlega þessum áherslumálum þessa einstaka þingflokks eða stjórnmálaflokks umboð til að komast í þær álnir að geta hrint hlutunum í framkvæmd.

Í þetta skiptið kemur til mín fullorðin kona. Hún kom með reikning, kvittun fyrir heyrnartækjum sem hún hafði fengið, og var að sýna mér fram á að hún væri að reyna að fá að greiða þetta í mörgum bitum og mörgum áföngum vegna þess að hún hafði ekki efni á því að kaupa sér heyrnartæki. Hún hafði einfaldlega ekki ráð á því. Sjúkratryggingar Íslands niðurgreiða settið. Ef viðkomandi þarf að nýta sér þessi hjálpartæki í bæði eyru, sem er að stærstum hluta en þó ekki alltaf, þá greiða Sjúkratryggingar 60.000 kr. á hvort eyra, sem sagt 120.000 kr. fyrir parið. Ódýrustu heyrnartækin, sem eru líka um margt ekki hentug fyrir alla, kosta hátt í 300.000 kr. Þannig að viðkomandi þyrfti þá að snara fram 150.000–180.000 kr. úr eigin vasa. Af hátt í 60.000 eldri borgurum eru um 7.000 þeirra í sárri fátækt.

Við skulum átta okkur á því að það að glíma við það að missa heyrnina þegar aldurinn færist yfir þýðir aðeins eitt: Smám saman, hægt og bítandi, einangrast viðkomandi, þá einangrar hann sig frá samfélaginu. Það er orðið erfitt að tala í síma, það er orðið erfitt að vera innan um fólk. Fólk hættir í rauninni og lokar sig af. Það er ekki hægt að fara í leikhús, þú heyrir ekki hvað sagt er, eða að vera innan um fólk yfir höfuð. Þú ert að einangrast.

Þetta á líka við einstakling sem segir: Ég er búin að berjast fyrir því að fá nýtt sjúkrarúm í 20 ár. Ég er fötluð og ég þarf á mikilli aðstoð að halda, ég þarf hjálpartæki og sérútbúið rúm og ég þarf sérútbúinn hjólastól. Ég er búin að bíða eftir þessu rúmi í tæp 20 ár.

Ég vil ekki heyra svona sögur. Fyrir mér eru þetta sorgarsögur og lýsa vanhæfum stjórnvöldum sem ítrekað og ævinlega snúa blinda auganu að þeim sem bágast eiga í samfélaginu. Þau munar ekkert um að setja milljarða hér og milljarða þar og milljarða alls staðar. Og hver er það sem borgar alla þessa milljarða? Skattgreiðandinn, íslenskur almenningur. Meira að segja fátækasta fólkið hér er skattlagt í sinni sárafátækt. Um leið og þú ert kominn yfir 156.000 kr. þá ertu skattlagður fullum fetum. Það sem er verið að grobbast með þetta þriðja skattþrep sem á að nýtast aðallega þeim tekjulægstu, það nýtist mér líka. Við skulum ekki gleyma því. Við skulum hætta að hlusta á þennan tvískinnung þegar sagt er: Sjáið þið bara hvað við vorum góð, við bjuggum til þriðja skattþrepið sem nýtist þeim tekjulægstu best. Það er rangt. Þeir fá ekki meira notið af því heldur en ég og aðrir sem flokkast sem sérhagsmunahópur á hálaunum. Þannig að ég segi: Ég veit ekki hversu oft maður þarf að koma hér upp til að berjast fyrir einhverju sem á í rauninni að vera sýnilega sjálfsagt öllum sem vilja heyra og sjá.

Nú erum við að tala um að það sé gott að eldast t.d. á Íslandi. Við eigum að tryggja og byggja öldruðum áhyggjulaust ævikvöld. Er þetta liður í því t.d.; að einangra fullorðna fólkið okkar, sem er jafnvel farið að búa eitt heima, sem er jafnvel búið að missa maka eða er bara alveg félagslega einangrað, að það heyri ekki heldur og geti ekki tekið þátt í samfélaginu þó að við gætum auðveldlega hjálpað þeim til þess í takt við allar alþjóðaskuldbindingar sem við höfum undirgengist? Og nú er verið að tala um að fara að löggilda sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks — loksins, loksins, loksins. Ég hef aldrei skilið eftir hverju hefur verið beðið með það. Flokkur fólksins hefur mælt fyrir þessari löggildingu sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þegar við urðum til árið 2016 var þetta efst á blaði í okkar stefnumálum, það var löggilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. En ég veit af hverju það er ekki búið að löggilda hann enn þá og ríkisstjórnin er núna með stefnuna að við skulum löggilda hann áður en kjörtímabilinu lýkur. Þau ætla sem sagt að teygja lopann í þessi átta ár sem þau ætla að hanga saman og sennilega löggilda hann daginn fyrir næsta kjördag.

Þessir sáttmálar eru allir að tryggja það að stjórnvöldum, þeim sem eiga að bera hag þjóðarinnar fyrir brjósti og eiga að vinna fyrir alla jafnt, þeim beri skylda til þess að tryggja að þessu fólki verði í rauninni úthlutað því sem kostur er og mögulegt er til þess að þeirra líf geti færst eins nálægt því að vera eðlilegt og kostur er miðað við fötlun og miðað við aðstæður hjá einstaklingi hverju sinni. Gerum við það? Nei, herra forseti, við gerum það ekki.

Við höfum verið að berjast hér fyrir NPA-þjónustu, notendastýrðri persónulegri aðstoð fyrir mjög svo fatlað fólk sem er algerlega upp á náð og miskunn og aðstoð annarra komið. Við kvótasetjum það, svona barasta eins og þorskinn í sjónum. Það fá ekki allir notendastýrða persónulega aðstoð sem þurfa. Nei, það er kvóti. Við höfum nefnilega ekki efni á því að hjálpa þeim öllum. Einhverjir þurfa að sitja eftir og fá ekki þessa hjálp. En getum við keypt 6 milljarða hæð niðri í Snobbhill á Austurbakka, nýja Landsbankahúsinu? Já, við getum það. Getum við lækkað bankaskattinn niður fyrir 0,2% og ríkissjóður tapaði bara á því 9 milljörðum með einu pennastriki hæstv. fjármálaráðherra? Já, við getum það. Eru bankarnir á flæðiskeri staddir? Nei, þeir eru það ekki. Hefði það komið sér vel fyrir okkur og samfélagið í heild sinni að halda þessum bankaskatti undir þessu hálfa prósent sem hann var í? Já, það hefði komið sér verulega vel fyrir samfélagið.

Og alltaf heyrast harmakvein hjá stórútgerðinni sem fórnar höndum skelfingu lostin yfir því ef við hér ætluðum nú að hækka veiðigjöldin á stórútgerðina. Nei, það má ekki gera það. Það er alveg bara hræðilegt. Það eru ekki nógu margir tugir milljarða sem þeir græða á hverju einasta ári á sameiginlegri auðlind okkar allra. Ég segi frábært. Ég vil bara absalút skipta því 50/50 — fyrirgefðu, forseti, ég ætla ekki að vera í einhverjum enskuslettum en helmingaskipti á ebítunni, takk fyrir. Samfélagið ætti að fá helminginn af ebítunni til þess í rauninni að þessir aðilar, sem oftar en ekki eru með tekjur upp á einhverja 100.000 kalla á mánuði og komast meira að segja hjá því að taka þátt í því á margan hátt að greiða til samfélagsins sem er það er þó að nýta — það myndi a.m.k. tryggja að við fengjum að njóta til helminga á við stórútgerðina arðseminnar af auðlindinni okkar. Við skulum taka það fram, þetta er auðlindin okkar og ekkert annað.

Þegar ég tala hér fyrir því að niðurgreiða eða afnema virðisaukaskatt á hjálpartæki fyrir fatlað fólk, fullorðið fólk, þá er okkur í lófa lagið að gera það. Í rauninni fær þetta mig til að líta til þess að það er í rauninni sama hvert er litið, það er alltaf verið að spara aurinn og fleygja krónunni. Það er alltaf verið að draga fólkið til baka inn í skelina. Öryrkjum er ekki leyft að vinna án skerðinga þó svo að það væri stór liður í því að hjálpa þeim til sjálfsbjargar og í rauninni að hjálpa þeim til að komast úr rammgerðri fátæktargildru almannatrygginga. Við meira að segja hömlum því að gamalt fólk, fullorðið fólk, ráði því sjálft hvort það heldur áfram að vinna vegna þess að við skerðum það svo mikið að eftir 200.000 kr. er það skert um 86% sem er nú eiginlega hæsti skattur sem ég veit til að sé sjálfsagður á byggðu bóli. Ég veit það ekki. En múrum fólkið inni, gerum allt til að koma í veg fyrir að það geti hjálpað sér sjálft. Við skulum reyna að hafa hjálpartæki fyrir fatlað fólk svo dýr að þeir sem eru fátækastir og þurfa mest á hjálpinni að halda geti ekki keypt þau. Þeir þurfi að sitja hjá og fylgjast með og horfa á.

Mamma mín er 85 ára gömul. Hún var búin að missa heyrnina allnokkuð mikið. Stór hluti af símtalinu okkar þegar við vorum að tala saman fór í „Ha?“ vegna þess að hún heyrði ekki í mér. Ég var oft hrædd vegna þess að það síminn hringdi út hjá mömmu minni, bæði heimasíminn og GSM-síminn, af því að hún heyrði ekki í honum. Ef hún var ekki á akkúrat á réttum stað í íbúðinni sinni, þessari pínulitlu íbúð, þá heyrði hún ekkert í símanum. Ég var stundum hrædd þegar það hringdi út ítrekað og hélt að eitthvað hefði komið fyrir mömmu mína. Núna er mamma mín búin að fá hjálpartækið, heyrnartækin, pínulítil og nett, sem eru algerlega búin að breyta hennar lífi. Fyrst þegar við vorum að tala saman — og þetta er kannski meira í gamni sagt en er samt sem áður satt — eftir að mamma mín fékk heyrnartækin sín, og hún sagði „Ha?“, þá sagði ég: Mamma, eru þau ekki að virka þessi tæki? Heyrirðu ekkert með þessu? Jú, elskan mín, þau eru að virka, ég er bara svo vön að segja „Ha?“ að það tekur mig ábyggilega einhvern tíma að hætta því.

Hennar líf hefur gjörbreyst, algjörlega gjörbreyst eins og líf hundraða annarra myndi gjörbreytast ef við sæjum sóma okkar í því að gefa fólkinu okkar, a.m.k. standa við það sem ríkisstjórnin þykist vera að boða um betra líf og að það eigi í rauninni að vera uppskeruhátíð að eldast á Íslandi, frábæra Íslandi. Hér drýpur smjör af hverju strái, maður sér það núna bara út í Hörpu. Hér drýpur smjör af hverju strái og við höfum efni á að gera allt fyrir alla. Hvers vegna tökum við þá ekki utan um þá sem hrópa hæst á hjálp okkar og þurfa mest á okkur að halda? Af hverju sækjum við ekki fjármuni þangað sem er nóg af þeim fyrir og miðlum þeim þangað sem er mest þörf á þeim? Af hverju gerum við það ekki?

Eitt er alveg víst, að Flokkur fólksins hefur alla tíð sett fólkið í fyrsta sæti. Flokkur fólksins er hreinn og sannur í því sem hann er að gera. Við höfum enn ekki fengið tækifæri til að haldi um stýrið og sýna okkar djörfung og dug og hvernig við myndum gjörbreyta því landslagi sem þúsundir, tugþúsundir fátækra barna og fátækra fjölskyldna þurfa að búa við í dag í boði þessarar ríkisstjórnar og margra á undan, vegna þess að þessi fátækt sem hér er við lýði er viðvarandi, hún er ekki ný af nálinni. Hún er algerlega viðvarandi, virðulegi forseti. Það er í rauninni hjákátlegt að horfa upp á það hvernig jafnvel stjórnarandstæðingar eða pólitískir andstæðingar eru að reyna að troða sér í skó Flokks fólksins, reyna að gera okkar mál að sínum og skammast sín ekki fyrir það. En ég efast ekkert um að kjósendur varast lélegar eftirlíkingar.

Nú er þetta orðið að einhverri framboðsræðu, herra forseti, sem það átti ekki að verða. Ég fattaði ekki fyrr en ég sagði þetta að ég væri bara hreinlega komin þangað. Það er samt sem áður þannig að það er mannanna verk að viðhalda þessari fátækt. Það er mannanna verk að á síðustu sex árum hefur fátækt íslenskra barna vaxið um 44% og það hjá hæstv. ráðherra sem gefur sig út fyrir að vera besti vinur barnanna.

Virðulegi forseti. Þetta mál kostar ekki mikla peninga. Í stóra samhenginu getur þetta mál um að afnema virðisaukaskatt á hjálpartæki fyrir fatlað fólk skipt sköpum fyrir hundruð einstaklinga, hvernig lífið þeirra yrði sælla og ánægjulegra heldur en það er í dag. Þess vegna segi ég: Ef við erum ekki hér til þess að taka utan um samfélagið í heild sinni, til hvers erum við þá hérna? Til hvers erum við þá hérna? Erum við bara stimpilpúði á einhverja löggjöf sem í raun og veru skiptir bara hluta samfélagsins máli? Erum við ekki hér til að taka utan um alla? Erum við hér til að mismuna fólki eftir stétt og stöðu? Ég skil ekki hvernig nokkur getur vogað sér að koma hér upp og segja að hér drjúpi smjör af hverju strái, að hér sé ekki gríðarlega kaupmáttarrýrnun hjá fátækasta fólkinu í landinu og þau hafi ekki verið skilin eftir, hvernig óprúttnir aðilar græðgisvæddra leigufélaga segja að það sé aldrei nóg, það þurfi að hækka leiguna meira. Það er fátækasta fólkið sem lendir í því, það er fólkið, líka fjölskyldurnar og foreldrarnir sem eru með fötluðu börnin sín, þar sem annað foreldrið er iðulega skuldbundið nánast til að vera heima og sinna barninu sínu. Við elskum ekkert meira en börnin okkar og það er ekki hægt að skilja þau eftir ein heima — er það? Þá er ein fyrirvinna eða jafnvel engin ef þetta er einstætt foreldri.

Virðulegi forseti. Afnemum virðisaukaskatt af hjálpartækjum. Sýnum það í verki að við erum með hjarta úr gulli en ekki steini. Og að gefnu tilefni þá vil ég bara segja þetta við hæstv. ríkisstjórn: Það er löngu, löngu tímabært að þið hættið að skattleggja fátækt.



[15:02]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að fjalla um frumvarp til laga Flokks fólksins um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum, um hjálpartæki. Það er eiginlega stórfurðulegt að við skulum þurfa yfir höfuð að vera að ræða það að afnema virðisaukaskatt af hjálpartækjum til að gera hjálpartæki ódýrari og gefa þeim meiri möguleika sem virkilega þurfa á þeim að halda. En ef við horfum á þetta frá öðru sjónarhorni þá er ríkisstjórnin því miður búin að koma því þannig fyrir, og ríkisstjórnir undanfarinna áratuga, að þeir sem þurfa mest á þessu að halda eru einmitt þeir sem eru verst settir í okkar samfélagi, fátækasta fólkið. Við erum að tala um þá hópa eldra fólks og öryrkja sem lifa við verstu kjörin. En því miður, ríkisstjórnin sér ekki, heyrir ekki og talar ekki um þennan hóp nema á tyllidögum og fyrir kosningar. Ríkisstjórninni veitti ekki af að fá hjálpartæki til að sjá ástandið þarna úti eða heyrnartæki til að heyra í því fólki sem þarf virkilega á hjálp að halda. En þó að það myndi ske, um leið og þau færu að tala um þessi mál þá tæki gervigreindin yfir og talaði fyrir þau og þá myndi heyrast sama hljóðið úr sama horninu, sama endurtekningin: Það hefur aldrei í manna minnum verið gert annað eins til að hækka framfærslu þeirra verst settu í okkar þjóðfélagi, það hefur aldrei verið sett annað eins í þetta fólk og það er eiginlega hálfvanþakklátt að átta sig ekki á því hversu rosalega gott það hefur.

En það er ofboðslega auðvelt að sjá stöðuna á sama tíma og ég fæ upplýsingar um það hvernig skerðingunum er háttað, þegar maður fær upplýsingar og svar, sem þarf að toga út með töngum á sex, sjö mánuðum, um að af hverjum 10 kr. sem þeir setja inn í þetta kerfi renni að meðaltali 8 kr. í gegnum vasa þeirra sem mest þurfa á þessu að halda og beint í útsvar eða keðjuverkandi skerðingar hjá sveitarfélögum eða ríkissjóði. Það er auðvitað alveg með ólíkindum. Á sama tíma er þetta verst setta fólk að borga skatta af launum, langt undir fátæktarmörkum. Það er líka fáránlegt í þessu samhengi að það væri svo auðvelt að koma í veg fyrir þetta með því einfaldlega að breyta persónuafslættinum þannig að þeir sem eru á hæstu laununum fengju bara engan persónuafslátt. Þeir þurfa ekkert á persónuafslætti að halda. Og eins og Flokkur fólksins hefur lagt fram er það mjög einfalt mál að breyta þessu kerfi og sjá til þess þá um leið að það fólk sem er núna í þeirri aðstöðu að þurfa að borga 50.000–60.000 kr. í skatta af framfærslu, fólk í fátækt, jafnvel sárafátækt, myndi sleppa við það. Svo gætu þeir líka tekið á allri kjaragliðnun undanfarinna áratuga sem hefur verið í boði fjórflokksins og séð til þess að staðan væri eins og hún var 1988 þegar þeir verst settu í ellilífeyriskerfinu og almannatryggingakerfinu voru að fá lægsta ellilífeyrinn skattlausan og áttu jafnvel 20–30% upp í lífeyrissjóðsgreiðslur eða annað. Uppreiknað í dag værum við að tala um 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust, nákvæmlega eins og í frumvarpi Flokks fólksins sem við höfum lagt fram margoft, eins og í þessu samhengi með hjálpartækin.

En um hvað erum við að tala þegar við erum að tala um hjálpartæki? Ég náði mér í upplýsingar á netinu og þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Greiðsluþátttaka vegna heyrnartækjakaupa. Sjúkratryggingar veita styrk til heyrnartækjakaupa hjá öðrum en Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Styrkupphæð er 60.000 krónur eða 120.000 krónur eftir því hvort keypt eru tæki fyrir annað eða bæði eyru.“

Það þarf að taka það fram hvort það á að vera fyrir annað eða bæði eyru. Ég held að það sé bara fáránlegt. Ef þú heyrir illa á báðum eyrum þá færðu bara tæki.

„Hægt er að sækja um styrk á 4ra ára fresti. Styrkir eru ekki skattskyldir. Seljendur verða að hafa rekstrarleyfi frá heilbrigðisráðuneyti en það eru eftirtaldir: Heyrðu, Heyrn, Heyrnartækni, Heyrnarstöðin og Lyfja Heyrn.

Rétt á styrk eiga: Sjúkratryggðir eldri en 18 ára og þar með taldir einstaklingar á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Þeir sem hafa tónmeðalgildi á betra eyra að lágmarki 30 dB.

Umsóknarferli: Seljendur senda rafræna umsókn ásamt reikningi og heyrnarmælingu. Styrkur er greiddur inn á reikning einstaklings. Þegar styrkur hefur verið greiddur fer greiðsluskjal í Réttindagátt einstaklings.

Heyrnartæki keypt hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands: Sjúkratryggingar greiða ekki styrki vegna kaupa á heyrnartækjum hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Þegar heyrnartæki eru keypt þar er styrkur dreginn frá kostnaðarverði og einstaklingur greiðir mismun.“

Síðan geta menn sótt um hjálpartæki í sambandi við næringu:

„Umsóknir um hjálpartæki eru afgreiddar samkvæmt reglugerð um styrki vegna hjálpartækja og tilheyrandi fylgiskjali. Hjálpartæki er ætlað að: auðvelda notendum að takast á við athafnir daglegs lífs, auka sjálfsbjargargetu og öryggi, vera til lengri notkunar en þriggja mánaða, í skilgreindum tilvikum vera til þjálfunar og meðferðar.“

Meira um hjálpartæki, stoð- og meðferðarhjálpartæki:

„Sjúkratryggingar veita styrk til kaupa á eftirfarandi stoð- og meðferðarhjálpartækjum: Bæklunarskóm og innleggjum. Gervilimum og öðrum gervihlutum. Spelkum. Þrýstisokkum og þrýstibúnaði. Öndunarhjálpartækjum og súrefni.“

Greiðsluþátttaka vegna tæknilegra hjálpartækja og greiðsluþátttaka vegna einnota hjálpartækja:

„Innkaupaheimild/ir eru gefnar út vegna einnota hjálpartækja þar sem fram kemur hver greiðsluþátttakan er í tilteknum búnaði. Einstaklingar sjá samþykktar heimildir, stöðuna á þeim, gildistíma og fleira í Réttindagátt. Innkaupaheimildir eru samþykktar eftir tilvikum í eitt, fimm eða tíu ár. Þegar um ævilangt sjúkdómsástand er að ræða er heimilt að samþykkja innkaupaheimildir sem gilda lengur. Leyfilegt er að taka út tveggja mánaða birgðir í senn.

Viðgerðarþjónusta fyrir hjálpartæki á vegum Sjúkratrygginga: Viðgerðir á hjálpartækjum í ábyrgð eru á ábyrgð seljanda (að jafnaði 2 ár). Ef ábyrgð seljanda er útrunnin er viðgerðarþjónustan í höndum fyrirtækja með samning við Sjúkratryggingar um viðgerðarþjónustu.

Viðgerðarþjónusta hjálpartækja á höfuðborgarsvæðinu og viðgerðarþjónusta hjálpartækja á landsbyggðinni: Skilyrði viðgerðarþjónustu eru eftirfarandi: Hjálpartækið er í eigu Sjúkratrygginga Íslands og er skráð á notenda tækis Ekki er greitt fyrir viðgerðir ef hjálpartæki er í ábyrgð, sbr. að ofan. Viðgerð skal framkvæmd á verkstæði sem er með samning við Sjúkratryggingar Íslands og/eða af viðurkenndum aðilum. Hjálpartæki skal sent til viðkomandi þjónustuaðila sem sinnir viðgerðarþjónustu (á tækinu er að finna auðkenningu um söluaðila á límmiða). Fylgja skal með blað sem inniheldur upplýsingar um nafn notanda, kennitölu og lýsingu á vandamálinu sem þarf að gera við.

Bæklunarskór: Viðgerðir eru greiddar ef slit á skóm er ótvírætt afleiðing sjúkdómsástands, t.d. hjá einstaklingum með spastískt göngulag vegna heilalægrar lömunar (CP) Að hámarki er greitt fyrir fjórar viðgerðir á ári á skóm.“ — Og nú kemur það besta: — „Gervilimir: Fyrsta og önnur viðgerð á hverjum gervilim eru greiddar að fullu en síðari viðgerðir eru greiddar 70%.“

Eins gott að vera ekki að nota gerviliminn of mikið. Því meiri notkun, því minni endurgreiðsla.

„Spelkur: Fyrsta og önnur viðgerð á hverri spelku eru greiddar að fullu en síðari viðgerðir eru greiddar 70%.“ — Nákvæmlega það sama. Hver í ósköpunum hefur fundið upp á þessari aðferð?

„Afgreiðslutími: Boðið er upp á smærri viðgerðir, eins og sprungið dekk á hjólastól, á meðan beðið er. Almennar viðgerðir skulu unnar innan tveggja vinnudaga að því gefnu að varahlutir séu til á landinu. Bjóða skal að sækja og senda tæki í/úr viðgerð sem notandi getur ekki komið sjálfur með í hefðbundnum fólksbíl. Að sama skapi skal bjóða viðgerð í heimahúsi vegna veggfastra hjálpartækja eða hjálpartækja sem ekki er hentugt að flytja af heimili notenda, s.s. sjúkrarúm. Sjúkratryggingar annast í ákveðnum tilfellum uppsetningu á hjálpartækjum, breytingar, sérsmíði og aðstoð við aðlögun hjálpartækja fyrir notendur eða sjá um að aðrir annist það.

Neyðarþjónusta vegna rafknúinna hjálpartækja: Neyðarþjónusta nær til bilunar í rafknúnum hjálpartækjum, s.s. sjúkrarúmum, lyfturum, rafmagnshjólastólum, rafskutlum, hjálpartækjum, sérbúnaði bifreiða. Neyðarþjónusta er veitt við ákveðnar alvarlegar aðstæður þegar notandi er ósjálfbjarga í hjálpartæki sínu,“ — Þó það nú væri. — „tækið hefur bilað og notandi getur ekki leitað aðstoðar hjá aðstoðarfólki sínu eða sínum nánustu. Dæmi gæti verið: sjúkrarúm sem er fast í efstu stöðu, veggföst lyfta sem bilar eða t.d. notandi er fastur í segli lyftara.“

Þá er upptalningu hætt. Af þessu má sjá að það getur verið mjög flókið fyrir þá sem þurfa á hjálpartækjum að fá þau og nota þau og fá viðgerð á þeim og, eins og hefur komið hérna fram, að hafa efni á að borga fyrir þau. Það er aftur á móti eitthvað sem við eigum að tryggja, að þeir sem þurfa á þessu að halda þurfi engar áhyggjur að hafa. Það virðast vera til, þegar þarf, ótakmarkaðir peningar til að hjálpa. Við höfum séð það undanfarið að það er samstaða um að hjálpa þegar neyð er, en einhverra hluta vegna, sama í hvaða árferði og sama á hvaða tímabili, er alltaf ákveðinn hópur látinn sitja eftir. Það er aldrað fólk og öryrkjar. Einhverra hluta vegna, þegar það á að hjálpa þeim, þá kemur ríkisstjórnin og segir: Þetta kostar of mikið. Eða kemur með blekkingar eins og þeir hafa margoft gert og segja: Við erum búin að gera svo rosalega mikið fyrir þetta fólk. Við erum búin að hækka alveg þvílíkt.

En við vitum að staðreyndirnar tala allt öðru máli og við vitum af því að það er fólk þarna úti sem á ekki til hnífs og skeiðar. Það er fólk þarna úti sem er ekki bara í fátækt heldur sárafátækt. Það er fólk þarna úti sem er núna verið að henda á götuna, einni fjölskyldu, til að koma að annarri fjölskyldu að. Því miður hafa þær ljótu sögur heyrst að þar gangi jafnvel Vinnumálastofnun og sveitarfélögin fremst og borgi þær hækkanir sem þeir sem voru í íbúðinni, fátækt fólk, hafði ekki efni á. Ég sá reikning hjá einstaklingi sem fékk hækkun úr nær 300.000 kr. yfir í vel yfir 300.000 kr., þarna var um að ræða 50.000–60.000 þús. kr. hækkun bara á einum mánuði. Við þessa hækkun fór húsaleigan 15.000 kr. yfir þá framfærslu sem viðkomandi hafði. Ég spyr, og við ættum öll að spyrja okkur: Hvernig í ósköpunum getum við leyft svona hlutum að ske? Hvernig í ósköpunum getum við stillt fólki þannig upp að það hafi ekki einu sinni framfærslu til að standa undir leigunni, hvað þá fyrir mat, húsnæði og öðrum nauðsynjum? Hvert á þetta fólk að fara? Eins og var sagt við gamla manninn og fatlaða soninn: Hótel eða farið í gistiskýli.

Það er staðreynd að þetta er okkur til háborinnar skammar, að við skulum þurfa að standa hér aftur og aftur í þessum stól til þess að reyna að fá þann sjálfsagða hlut og þau sjálfsögðu réttindi sem þetta fólk á rétt á. Fólk á rétt á að fá heyrnartæki, það á rétt á að þurfa ekki að greiða fyrir það. Það á rétt á að fá hjálpartæki án þess að þurfa að greiða fyrir það. Og að þessu öllu saman sögðu og að gefnu tilefni þá segi ég: Ríkisstjórn, hættið að skatta fátækt.



[15:17]
Ásmundur Friðriksson (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil nú bara koma hérna fram og fagna framlagningu þessa frumvarps sem hefur oft verið flutt áður. Það hlýtur að vera keppikefli okkar allra að lækka þann kostnað sem fatlaðir einstaklingar verða fyrir vegna fötlunar sinnar og til þess að geta tekið þátt í mannlífinu og því sem okkur hinum finnst eðlilegt að geta gert á hverjum degi án þess að kostnaðurinn af því rjúki upp úr öllu valdi. Það er auðvitað löngu vitað og við höfum barist fyrir því öll þessi ár sem ég hef verið hérna inni að ýmiss konar afslættir eða framlög til tækjakaupa haldi verðgildi sínu, standi í þeirri krónutölu sem upphaflega var gert ráð fyrir og greiði þá ákveðna prósentu af kostnaði við tækin. Það gerist nú yfirleitt þannig að mjög fljótlega fer að halla á þann fatlaða, verðgildi þeirra framlaga sem ríkið er að leggja fram minnkar stöðugt. Það er ekki aðeins í þessum málaflokki, það er nú bara sérstakt vandamál hjá okkur að slík framlög haldast yfirleitt ekki í hendur við þróunina. Ég held að það sé bara mjög mikilvægt að þau viðmið sem hér hafa verið höfð uppi taki mið af einhverju föstu í fjárlögum þannig að þau haldi ár frá ári og við séum ekki alltaf að tala hér um sömu hlutina og benda á sömu aðstæðurnar og benda á sama fólkið, við hvaða aðstæður það býr. Við viljum öll laga það en það gerist ekki nógu hratt.

Hér hafa verið fluttar tvær mjög góðar ræður um stöðuna í þessum málaflokki, um kostnað fólks við að reyna að taka þátt í almennu lífi, og ég þarf ekki að endurtaka það. Það þarf ekki að taka það fram að fyrir okkur venjulega Íslendinga tekur í að kaupa 600.000 kr. heyrnartæki og bara hjá öllum, ekki bara fötluðu fólki, en það tekur sérstaklega í hjá þeim sem lægst hafa launin. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að það fólk hafi aðgang að slíkum tækjum sem er auðvitað bara gjörbylting og breytir lífi margra og þeirra sem á því þurfa að halda. Það er betri færni og betra líf sem við viljum fyrir alla. Þetta frumvarp boðar það og þess vegna mun ég styðja það. (IngS: Heyr, heyr.)



[15:19]
Sigurjón Þórðarson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Hér erum við að ræða mál sem snýr að því að samfélagið sé ekki að skattleggja hjálpartæki sem eru grunnþarfir fatlaðs fólks þannig að þau geti lifað sambærilegu lífi og þeir sem búa ekki við fötlun. Í sjálfu sér er hér um stórt mál að ræða fyrir þá sem þurfa að fá umrædd hjálpartæki en í stóra samhenginu, eins og flutningsmenn frumvarpsins hafa sagt frá skilmerkilega, þá er þetta ekki stórt mál í ríkisfjármálunum. Þetta er enn fremur örlítið mál ef maður ber saman allar aðrar undanþágur sem er að finna í virðisaukaskattskerfinu. Því sætir ákveðinni furðu að það sé verið að leggja þetta frumvarp fram í fjórða skipti og að það sé ekki búið að ná fram að ganga í þinginu og sé bara orðið að lögum, enda tel ég að ef menn horfa á málið þá sé alveg ljóst að mikill meiri hluti landsmanna myndi vilja haga skattlagningu með öðrum hætti. Það er af nógu að taka.

Hér hefur verið fjallað um bankaskattinn, að það hafi verið felldir 9 milljarðar niður. Ég held að það verði að skoða þetta mál í því samhengi. Einnig þarf auðvitað að horfa til annarra liða sem eru undanþegnir virðisaukaskatti og þá falla þessir þættir algerlega þar undir, þ.e. að vera þá ekki að innheimta virðisaukaskatt af hjálpartækjum.

Það sætir ákveðinni furðu að þingmenn Vinstri grænna skuli ekki taka þátt í þessari umræðu vegna þess að þeir hafa haft það á stefnuskrá sinni að sjá til þess að þeir sem þurfa á hjálpartækjum að halda eigi greiðan aðgang að þeim. Alla vega hafa þeir skreytt sig hvað stefnumálin varðar en þegar komið er að því að hleypa svona litlu máli í stóra samhenginu, en stóru máli engu að síður fyrir þá sem það greiðir götu þess að geta verið fullir þátttakendur í íslensku samfélagi, er þá bara hvergi að finna í þingsalnum. Eða setja fyrirmenn flokksins, þessir fínu fyrirmenn í flokknum, þetta á oddinn? Nei, það eru önnur mál á oddinum. Það eru auðvitað mál sem snúa að NATO og vopnakaupum og því öllu, fínum veislum þannig að forystumennirnir eða fyrirmennirnir í Vinstri grænum geti baðað sig í alþjóðlegu sviðsljósi. Þar eru þeirra áherslur og það er bara gott og vonandi átta fleiri og fleiri kjósendur Vinstri grænna sig á því að flokkurinn snýst ekki um þessi stefnumál, sem eru falleg og ágæt, heldur um allt aðra hluti.

Það hefur verið talað hér um bankaskattinn og hann er 9 milljarðar þannig að þetta eru bara smáaurar í því samhengi. Þetta eru líka smáaurar í samhengi við það sem bankarnir skiluðu í hagnað bara á fyrsta ársfjórðungi. Hvað voru það? 20 milljarðar. Í fyrra voru það, ef ég man rétt, í kringum 70 milljarðar sem var hreinn hagnaður bankanna. Ekki er þetta heldur há upphæð sem stendur hér í ráðamönnum þjóðarinnar, fyrirmönnum þjóðarinnar er réttara að kalla þá, sem eru að byggja hér mammonshöll. Þá á ég við höfuðstöðvar hins nýja Landsbanka. Þar eru hátt í 17.000 m² sem eru ofan jarðar og síðan er eitthvað sem er neðan jarðar. Ekki veit ég nákvæmlega töluna á þeim fermetrum en ekki er ólíklegt að þeir telji jafnvel þúsundir fermetra.

Síðan er það Seðlabanki Íslands. Ekki er hann að herða sultarólina þó að hann þrengi hér að heimilunum mjög illilega. Það er verið að spandera nokkur þúsund milljónum þessa dagana í breytingar um leið og bankinn boðar það að skuldsett heimili eigi að hafa það enn þá þrengra og beinir því jafnvel síðan til bankakerfisins að það sýni þessu fólki miskunn sem bankinn sjálfur er að herða að um leið og hann er að spandera í breytingar upp á mörg þúsund milljónir.

Við verðum að skoða þessa hluti í samhengi, í samhengi við það að virðisaukaskattskerfið er einmitt sniðið að því að hafa undanþágur fyrir þessa þætti, heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu, skólaþjónustu. Og hvers vegna þá ekki hjálpartæki fyrir fatlaða? Ég held að það sé réttmæt krafa hjá Öryrkjabandalaginu að þessu frumvarpi verði bara fleytt hér í gegn eins og ýmsum öðrum sem ég tel vera breiða samstöðu um meðal þjóðarinnar.

Það er einnig að finna ýmsa þætti í þessu, svo sem að það er ekki virðisaukaskattur á útleigu íbúða, það er ekki virðisaukaskattur, ef ég man rétt, á laxveiði. Ef einhverjum dettur í hug að kaupa laxveiðileyfi er það ekki virðisaukaskattsskylt, alla vega var það ekki til skamms tíma, íþróttastarf og fleiri þættir sem eru alveg réttmætir og ég ætla ekkert að draga úr mikilvægi þess að séu undanþegnir. En þetta mál, hvers vegna stendur það svona í hv. þingmönnum Vinstri grænna og Framsóknarflokksins að fleyta þessu máli áfram? Hér kom þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem lýsti yfir stuðningi. Það er greinilegt hvar fyrirstaðan er. Hún er greinilega hjá hinum stjórnarflokkunum. Ég tel að það þurfi að fá nánari umræðu, bara einfaldlega innan þessara flokka. Fyrir hvað standa þessir flokkar ef þessi mál fá ekki framgang, að fella niður virðisaukaskatt og hætta að skattleggja fatlað fólk sérstaklega þegar önnur sambærileg þjónusta í heilbrigðiskerfinu og félagsþjónustunni er undanþegin skattlagningu?

Þetta mál ætti að vera borðleggjandi og ég er í rauninni viss um það að Ísland verði miklu betra land ef þetta mál nær fram að ganga.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.