153. löggjafarþing — 111. fundur
 24. maí 2023.
handiðnaður, 2. umræða.
stjfrv., 948. mál (útgáfa sveinsbréfa). — Þskj. 1481, nál. m. brtt. 1831.

[17:28]
Frsm. atvinnuvn. (Berglind Ósk Guðmundsdóttir) (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég mæli fyrir hönd atvinnuveganefndar fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingar á lögum um handiðnað, nr. 42/1978 (útgáfa sveinsbréfa).

Frumvarpið felur í sér að útgáfa sveinsbréfa verður færð frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti til sýslumanns. Ekki er um að ræða breytingu á efnislegu inntaki sveinsbréfa eða þeim réttindum sem veitt eru handhöfum heldur snúa breytingarnar eingöngu að því að nýr ríkisaðili standi að útgáfu sveinsbréfa.

Nefndin fjallaði um málið, fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir. Greint er frá því í nefndaráliti sem liggur frammi.

Atvinnuveganefnd leggur til eina tæknilega breytingu á frumvarpinu sem snýr að gildistökuákvæði þess og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif á frumvarpið.

Að framansögðu virtu leggur atvinnuveganefnd til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir.

Undir álit atvinnuveganefndar rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Stefán Vagn Stefánsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Gísli Rafn Ólafsson, Hanna Katrín Friðriksson, Sigurjón Þórðarson, Teitur Björn Einarsson og Þórarinn Ingi Pétursson.