153. löggjafarþing — 114. fundur
 31. maí 2023.
matvælastefna til ársins 2040, síðari umræða.
stjtill., 915. mál. — Þskj. 1431, nál. m. brtt. 1870.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[16:11]

[15:58]
Bergþór Ólason (M) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Um leið og þingflokkur Miðflokksins fagnar því að hér séu gerð drög að því að samþykkja fyrstu matvælastefnu sem samþykkt hefur verið þá þykir okkur matvælastefnan eins og hún liggur hér fyrir heldur mikið orðagjálfur miðað við það sem æskilegt væri. Í ljósi þess að hér segir, með leyfi forseta, í greinargerð að stefnan verði „höfð til hliðsjónar við stefnumótun í landbúnaði, sjávarútvegi og fiskeldi …“ þá höfum við áhyggjur af þremur greinum af þessum a–j-greinum þar sem m.a., með leyfi forseta, er talað um að „framleiðsla sem byggist á nýtingu lifandi auðlinda standist öll viðmið um sjálfbærni nýtingar og hafi vísindi vistkerfisnálgunar og varúðar að leiðarljósi“.

Ég vildi gjarnan vita hvað felst í þessari varúð í ljósi orða hæstv. matvælaráðherra, til að mynda gagnvart hvalveiðum og ýmissi annarri auðlindanýtingu. Í ljósi þessa mun þingflokkur Miðflokksins sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu og fylgjast með með hvaða hætti þessari væntanlega fljótlega nýsamþykktu matvælastefnu verður beitt.



[15:59]
matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég vil við þetta tilefni þakka hv. atvinnuveganefnd fyrir vinnuna og fyrir að leggja mikla alúð við þetta mikilvæga verkefni. Hér erum við að tala um stefnu sem getur verið góður grunnur og leiðandi í ákvarðanatöku fyrir landbúnað, sjávarútveg, fiskeldi og aðra þætti matvælaframleiðslunnar. Hér er undirstrikað mikilvægi umhverfissjónarmiða og sjálfbærni matvælaframleiðslu til lengri framtíðar. Fæðukerfi heimsins losa gríðarlegt magn gróðurhúsalofttegunda og það er mikilvægt að skoða okkar hlut í því samhengi. Þess vegna er kolefnishlutleysi, sem er sérstakt markmið í matvælaframleiðslu, afar mikilvægt. Hér er jafnframt lögð áhersla á heilnæmi, gæði, fæðuöryggi en ekki síst vistkerfisnálgun, og vegna þess að um það var sérstaklega spurt er hér líka lögð áhersla á varúðarreglu umhverfisréttarins.



[16:01]
Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég ætla leyfa mér að vitna í greinargerð með þessari stefnu:

„Matvælastefnu er ætlað að vera leiðandi í ákvarðanatöku til að stuðla að aukinni verðmætasköpun í matvælaframleiðslu hér á landi, tryggja fæðu- og matvælaöryggi og auka velferð fólks í sátt við umhverfi og náttúru.“

Þetta er nokkuð sem ég hygg að við getum öll verið sammála um. Ég lýsi því alla vega yfir að þingflokkur Viðreisnar er það en þessi stefna, sem lýsir sameiginlegri sýn stjórnvalda, sameiginlegri sýn ríkisstjórnarflokkanna þriggja, er þeirra stefna. Viðreisn hefur einfaldlega töluvert aðra sýn á það að mörgu leyti hvernig við náum þessum markmiðum og í ljósi þess munum við sitja hjá við afgreiðslu þessa máls.



[16:02]
Sigurjón Þórðarson (Flf) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Hér greiðum við atkvæði um matvælastefnu til ársins 2040. Sá galli er á þessari fallegu stefnu að það fylgja henni engar aðgerðir, engin aðgerðaáætlun. Það er svolítið sérstakt. En engu að síður, vegna þess að þetta er fallega orðað plagg og allt gott um það að segja, ætlum við í Flokki fólksins að greiða atkvæði með því. En því miður eru aðgerðir stjórnarflokkanna, og þá sérstaklega Vinstri grænna, ekki í samræmi við þessa aðgerðaáætlun því aðhöfuðstefið í aðgerðaáætluninni á að vera sjálfbærni. Hér í gær var samþykkt að hleypa togskipum á óheftu afli inn á grunnslóðina, sem er auðvitað algjörlega í andstöðu við matvælastefnuna sem við erum að ræða hér. Það fór auðvitað svo að það treystu ekki allir þingmenn Vinstri grænna sér til að styðja þá stefnu, enda er hún í algerri andstöðu við það sem flokkurinn hefur boðað. (Gripið fram í.)



[16:03]
Guðrún Hafsteinsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hér eru greidd atkvæði um matvælastefnu til ársins 2040. Við Íslendingar erum fyrst og fremst matvælaframleiðsluþjóð og höfum verið það frá örófi alda. Það er hluti af sjálfstæði okkar sem þjóðar sem og þjóðaröryggi að hér sé öflug matvælaframleiðsla þar sem unnið er að matvælaöryggi, sjálfbærni og að tryggja framleiðslu sem og búsetu um land allt. Þessi stefna er liður í því að sjá til þess að við verðum áfram öflugir matvælaframleiðendur og ég lýsi stuðningi við þessa stefnu.



[16:04]
Gísli Rafn Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Við fögnum því að verið sé að setja stefnu til ársins 2040, reyndar dálítið langt fram í framtíðina. Margt á eftir að breytast á þessum tíma og við söknum þess einmitt úr þessari stefnu að hún sé mun markvissari, mun framsýnni varðandi t.d. loftslagsbreytingar og annað. Það vantar í hana alls konar mikilvæga hluti eins og t.d. umfjöllun um lífræna ræktun. Það sem er hins vegar verst er að í breytingartillögu meiri hlutans, 5. lið, er það fellt brott að setja upplýsingar um kolefnisspor á matvæli, sem við teljum mjög mikla afturför frá því sem lagt var til upphaflega með þingsályktuninni þar sem þetta mun gera neytendum erfiðara fyrir að átta sig á því hvenær þeir eru að kaupa vöru sem hefur slæm áhrif á loftslagið og hvenær varan hefur góð áhrif á loftslagið.



[16:05]
Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Ágætisorð hér og þar í þessari stefnu og svoleiðis en vantar upp á ýmislegt. Það er eitt sem er í þessari stefnu sem ég myndi vilja að fólk kannski áttaði sig aðeins á. Ef það á að framfylgja stefnunni eins og textinn er núna þá mun það óhjákvæmilega þýða að það verði að gera breytingar á lausagöngu búfjár. Það er ekkert … (Gripið fram í.) — Lausagöngu sauðfjár, búfjár. Það verður að gerast því að þegar það er ekki eftirlit með því hvar sauðfé er þá er ekki hægt að stimpla það sem ákveðna gæðavöru, sem gæðamatvæli. Það er svona ákveðið fyrirkomulag, drasl inn, drasl út, dálítið þannig. Þannig að ef það á að ná markmiðum þessarar matvælastefnu þá þarf að gera breytingar þar á. Ég vildi bara vekja athygli þingfólks á því að þetta eru óhjákvæmilegar afleiðingar þess. Ég styð þær breytingar hins vegar heils hugar.



[16:07]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil bara byrja á því að þakka samstarfsfólki mínu í atvinnuveganefnd fyrir vinnslu þessa máls og við höfum náð hér saman um bara ljómandi góðar breytingartillögur að mínu mati. Ég vil í ljósi umræðunnar nefna að aðgerðaáætlun kemur jú gjarnan í kjölfar þess að stefnan er sett, það er hefðbundið ferli. Ég vil líka nefna það hér að breytingar gerast hratt, ekki síst þegar kemur að lausnum er varða mælingar á ýmsum þáttum, af því að hér var m.a. nefnt að við ættum að fá upplýsingar um innihald matvæla. Ég styð eindregið að við eigum að leggja fjármuni í að það verði enn þá auðveldara fyrir fólk að lesa, ekki síst að geta helst skannað með símanum allt innihaldsefni. Þegar kemur að því að við höfum kolefnisspor sem styður við innlenda matvælaframleiðslu, því að það er ekki þannig núna að innlendir matvælaframleiðendur sitji við sama borð og þau erlendu matvæli sem hér eru flutt inn, eins og í kjöti, þá getum við eiginlega ekki sagt það með sanngjörnum hætti að við getum mælt það eins og staðan er. En það er sannarlega það sem koma skal.



[16:08]
Jakob Frímann Magnússon (Flf) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég held að við gerum okkur flest grein fyrir mikilvægi stefnu sem þessarar og mikilvægi þessarar greinar og sérstaklega á róstusömum tímum hinum síðari áttum við okkur betur og betur á hugtakinu matvælaöryggi. Það hefur ekki verið sérstaklega mikið í umræðunni þangað til bara á síðustu misserum. Það gladdi mig í nýlegri heimsókn til útlanda að sjá á ný „Icelandic fish“ á auglýsingaspjöldum. Við búum að hreinum höfum, hreinu lofti, hreinu vatni og hreinum matvælum almennt en það sem vantar aðeins upp á er kannski að við búum að sátt um matvælaframleiðslu. Mér finnst það afleitt og ég þekki marga góða sjómenn, útgerðarmenn og bændur sem liggja undir stöðugri gagnrýni varðandi fyrirkomulagið í þessari matvælaframleiðslu. (Forseti hringir.) Það er kvótakerfi, búfjárstyrkir og hvað það nú er. (Forseti hringir.) Einbeitum okkur að því að ná sátt um matvælaframleiðsluna okkar góðu og þá mun okkur vel farnast. — Jakob segir já í þessu máli.



[16:09]
Gísli Rafn Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Bara örstutt því að klukknahljómurinn á bak við mig fékk mig til að gleyma lokaorðunum hér áðan: Sökum þeirra vankanta sem við bentum á í þessari stefnu þá höfum við, þingflokkur Pírata, ákveðið að sitja hjá í þessu máli.



Brtt. í nál. 1870,1–4 samþ. með 31 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁBG,  BGuðm,  BjG,  BjarnJ,  BHar,  DME,  FRF,  GIK,  GHaf,  HHH,  HSK,  IÓI,  JFM,  JSkúl,  JFF,  JónG,  LA,  LRS,  LínS,  NTF,  OPJ,  ÓBK,  SigurjÞ,  SVS,  SÞÁ,  SSv,  TBE,  TAT,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórP.
15 þm. (AIJ,  ArnG,  BergÓ,  BLG,  GRÓ,  GE,  HallM,  HKF,  JPJ,  LE,  SGuðm,  SDG,  ÞorbG,  ÞKG,  ÞSv) greiddu ekki atkv.
17 þm. (ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  ÁLÞ,  BÁ,  BirgÞ,  BjarnB,  GÞÞ,  GuðmG,  HVH,  IngS,  KJak,  KFrost,  OH,  SIJ,  ÞórdG,  ÞSÆ) fjarstaddir.

Brtt. í nál. 1870,5 samþ. með 31:5 atkv. og sögðu

  já:  ÁBG,  BGuðm,  BjG,  BjarnJ,  BHar,  DME,  FRF,  GIK,  GHaf,  HHH,  HSK,  IÓI,  JFM,  JSkúl,  JFF,  JónG,  LA,  LRS,  LínS,  NTF,  OPJ,  ÓBK,  SigurjÞ,  SVS,  SÞÁ,  SSv,  TBE,  TAT,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórP.
nei:  AIJ,  ArnG,  BLG,  GRÓ,  HallM.
10 þm. (BergÓ,  GE,  HKF,  JPJ,  LE,  SGuðm,  SDG,  ÞorbG,  ÞKG,  ÞSv) greiddu ekki atkv.
17 þm. (ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  ÁLÞ,  BÁ,  BirgÞ,  BjarnB,  GÞÞ,  GuðmG,  HVH,  IngS,  KJak,  KFrost,  OH,  SIJ,  ÞórdG,  ÞSÆ) fjarstaddir.

Tillgr., svo breytt, samþ. með 31 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁBG,  BGuðm,  BjG,  BjarnJ,  BHar,  DME,  FRF,  GIK,  GHaf,  HHH,  HSK,  IÓI,  JFM,  JSkúl,  JFF,  JónG,  LA,  LRS,  LínS,  NTF,  OPJ,  ÓBK,  SigurjÞ,  SVS,  SÞÁ,  SSv,  TBE,  TAT,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórP.
15 þm. (AIJ,  ArnG,  BergÓ,  BLG,  GRÓ,  GE,  HallM,  HKF,  JPJ,  LE,  SGuðm,  SDG,  ÞorbG,  ÞKG,  ÞSv) greiddu ekki atkv.
17 þm. (ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  ÁLÞ,  BÁ,  BirgÞ,  BjarnB,  GÞÞ,  GuðmG,  HVH,  IngS,  KJak,  KFrost,  OH,  SIJ,  ÞórdG,  ÞSÆ) fjarstaddir.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Till., svo breytt, samþ. með 31 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁBG,  BGuðm,  BjG,  BjarnJ,  BHar,  DME,  FRF,  GIK,  GHaf,  HHH,  HSK,  IÓI,  JFM,  JSkúl,  JFF,  JónG,  LA,  LRS,  LínS,  NTF,  OPJ,  ÓBK,  SigurjÞ,  SVS,  SÞÁ,  SSv,  TBE,  TAT,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórP.
15 þm. (AIJ,  ArnG,  BergÓ,  BLG,  GRÓ,  GE,  HallM,  HKF,  JPJ,  LE,  SGuðm,  SDG,  ÞorbG,  ÞKG,  ÞSv) greiddu ekki atkv.
17 þm. (ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  ÁLÞ,  BÁ,  BirgÞ,  BjarnB,  GÞÞ,  GuðmG,  HVH,  IngS,  KJak,  KFrost,  OH,  SIJ,  ÞórdG,  ÞSÆ) fjarstaddir.